Topp 20 hlutir til þess að verða leiðlinlegur viðskiptavinur í húsgagnaverslun...
-20: Fáðu lánað húsgagn heim... Gerðu svo allt sem í þínu valdi stendur til þess að komast upp með að skila því aldrei aftur.


-19: Drekktu þig ofurölvi ásamt nokkrum vinum áður en þú mætir í verslunina.


-18: Búðu á efstu hæð í lyftulausri blokk og fáðu eitthvað þungt sent heim til þín. Eldaðu skötu, kæstari en jafnvel kölski sjálfur myndi kæra sig um, áður en lafmóðir starfsmennirnir koma með húsgagnið til þín.


-17: Fáðu eitthvað gríðarlega þungt sent heim til þín, en hagræddu húsgögnunum sem fyrir eru þannig að hvergi sé hægt að láta nýja stykkið niður. Ef starfsmennirnir spyrja hvert þetta eigi að fara, gerðu þér þá upp heyrnarleysi.


-16: Flyttu í hús sem hefur stofuna í kjallaranum, sem aðeins er aðgengilegur um sérlega þröngan hringstigagang... Málaðu veggina á hringstigaganginum á meðan þú býður eftir stóra, þunga sófasettinu þínu sem á að fara niður í stofu... Tímasettu þetta þannig að málningin verði enn renblaut þegar sófinn kemur.


-15: Steldu útstillingarmununum í versluninni.


-14: Taktu góðan tíma í að skoða alla verslunina og kláraðu á meðan heilan tyggjópakka, eitt stykki í einu. Klíndu því sem þú ert búinn með undir sófaborð, borðstofuborð, lista á skápum eða undir sófasett.


-13: Mættu með ofvirka krakkann þinn, vopnuðum dekkjalausum Matchbox™ bíl og láttu svo eins og ekkert sé þegar hann ekur honum eftir öllum sófaborðunum í versluninni.


-12: Keyptu þér háklassa leðursófasett... Fáðu það sent heim og þvoðu það svo hressilega upp úr Ajax gluggahreinsi eða öðru sterku þvottaefni. Mættu svo bálreiður í skapinu í verslunina og öskraðu að ef þú fáir ekki nýtt sett í staðinn fyrir þetta gallaða drasl þá munir þú kæra verslunina fyrir neytendasamtökunum.


-11: Mættu með sígeltandi púðluhundinn þinn og gríptu reglulega fram í fyrir starfsmanninum með því að tala smábarnalega við hundinn.


-10: Vertu fúll í skapi og uppstökkur.


-9: Náðu athygli starfsmanns og fáðu hann til þess að sýna þér eitthvað húsgagnið, en leyfðu honum bara rétt að byrja og farðu svo að tala í símann í a.m.k. korter áður en þú leyfir honum að halda áfram.


-8: Keyptu eitthvað sem þú getur komið fyrir í bílnum þínum, en fylltu hann af alls konar drasli áður en þú leggur af stað í húsgagnaverslunina svo starfsmaðurinn þurfi að hafa sem mest fyrir því að koma þessu inn í bílinn.


-7: Flyttu á efstu hæð í lyftulausri blokk sem ekki er hægt að keyra sendibíl upp að (eins og þessar í fellunum í breiðholtinu) og keyptu eitthvað stórt og þungt sem passar ekki inn. Kórónaðu þetta með lið nr. 6 hér fyrir neðan:


-6: Keyptu eitthvað þungt og stórt og fáðu það sent heim til þín... Skiptu svo a.m.k. þrisvar sinnum um skoðun og skiptu húsgagninu út í hvert skipti fyrir eitthvað svipað stórt og þungt.


-5: Mættu í verslunina og talaðu hátt, svo allir aðrir viðskiptavinirnir heyri, við starfsmanninn... Kynntu þig sem smið og ráfaðu um búðina og kallaðu allt illa smíðað drasl.


-4: Farðu í verslun með evrópsk húsgögn og haltu því statt og stöðugt fram að allt sem þú sérð í versluninni sé í raun framleitt af litlum börnum í Kína.


-3: Pantaðu í sérpöntun eitthvað furðulegt sem sennilega enginn annar kaupir, hættu svo við þegar þetta er komið til landsins.


-2: Berðu verðin í versluninni saman við verðin í Ikea og Rúmfatalagernum. Kallaðu starfsmennina gráðug svín fyrir þessa rosalegu álagningu... En taktu samt þinn tíma í að skoða alla verslunina.


-1: Prúttaðu eins og enginn væri morgundagurinn, en farðu samt fram á sérþjónustu sem annars myndi kosta aukalega (t.d. að fá ósamsetta vöru samsetta heim, fría heimsendingu út á land o.s.frv.).



-Og já, ég hef séð þetta allt... Athugið að "smiðurinn" í lið nr. 5 kallaði m.a. einn sófann í versluninni "illa smíðað drasl", sem annars er þekktur fyrir vandaða smíði og a.m.k. 15 ára endingu í daglegri notgun á stóru heimili... Ég bara næ ekki svona fólki.

P.s. Liðirnir eru ekki í neinni sérstakri röð.
|
Jæja...
Ég er búinn að vera lítið heima við undanfarið. Mestum tímanum hef ég varið í að taka bensín og hjálpa Sigrúnu að flytja til Hveragerðis. Ég er kominn með tölu á viðgerðina á bílnum: rétt tæpar tvöhundruð þúsund krónur... Og svo virðist sem eitthvað hafi farið úrskeiðis því Cruise Controlið er hætt að gera sitt gagn, að auki er ég búinn að grilla bremsudiskana sem ég keypti í sumar, líkast til eiga Kambarnir eitthvern hlut í máli... síðast kostaði það 30.000 kr... Nú gæti margur bíladellukarlinn verið að hugsa "Keyrðu bara Kambana niður í fyrsta eða öðrum gír, þá þarftu ekki að nota bremsurnar eins mikið!", en það er ekki svo einfalt. Í bílnum mínum eru bara fjórir gírar (bakk meðtaliðWinking í þeim fyrsta sniglast bíllinn niður kambana á rétt tæpum 40 km/klst og í öðrum húrrar hann þetta á 90 - 110 km/klst, ég er drullusmeykur við að gíra niður úr öðrum niður í fyrsta í stað þess að bremsa því þessar horfnu tvöhundruð þúsund krónur ásækja mig jafnt í svefni sem vöku.

Annars verðum við Sigrún í bænum þessa vikuna því hún er að vinna næturvaktir. Ég tók því Wii tölvuna mína og stærri harða diskinn sem ég hafði verið með í Hveragerði með í vinnuna í dag. Mér datt svo í hug að sýna fólkinu Wii gripinn og var hugsað til allra sjónvarpanna sem maður nokkur fékk að geyma á lagernum hjá okkur... 15 stykki sjónvörp, Wii tölva, nokkrir leikir, þrjár full hlaðnar fjarstýringar, öll tengi... En ekki hægt að spila! o_O
Öll sjónvörpin voru keypt í sölunefndinni og hafa amerískar klær! Úff, talandi um að eiga sígó en engan eld! Sad
|
Tvær góðar
Fann tvær fjandi snyðugar Nintendo myndir:

Nintendomariobed500


Nintendocommiekoopa500
|
Smá syrpa
Jæja, þá er nýtt lag komið upp, svona í rólegri kantinum. Það má finna á Tónlistarsíðunni sem er hér með komin í gagnið.

Annars er ég búinn að vera í basli með nýju útgáfuna af blogginu í tæpa viku og með sveitta fræðimenn mér til aðstoðar allan tímann... Það var nokkurn veginn sama hvað við reyndum að gera, ég náði bara ekki að uppfæra síðuna. Það var ekki fyrr en í dag sem að ég áttaði mig á að villan fólst í því að ég hafði óvart skrifað "/webdir" í staðinn fyrir "/Webdir"... Þetta hefur komið fyrir mig áður og ég veit um fátt eins óþolandi, en ein saga, sem nýlega átti sér stað, kemur upp í hugann:

Ég var hjá Sigrúnu um daginn og þurfti að stökkva heim að ná í nýju leikjatölvuna mína, en ég var bíllaus þar sem skiptingin í bílnum mínum hafði hrunið og bráðabyrgðarbíllinn minn ákvað skyndilega að bræða úr sér. Þar sem Sigrún nennti engan vegin að skutla mér, fékk ég bílinn hennar að láni í sendiferðina. Það var samt einn smávægilegur galli við þetta plan: Ég er illa haldinn af "kanasyndromminu" svokallaða og hef ekki ekið beinskiptum bíl að neinu ráði síðan ég tók bílprófið. Sigrún sannfærði mig um að þetta væri eins og að hjóla - Maður myndi aldrei gleyma því eftir að hafa náð því einu sinni...
Bílferðin úr grafarvoginum yfir í Kópavoginn gekk svo til klakklaust þar til ég drap á bílnum á ljósunum fyrir framan Suðurver (nálægt Kringlunni). Þetta þótt mér ekki vera neitt stórmál þar sem ég hafði drepið á honum skömmu áður og allt í lagi í næstu tilraun þá... En eftir að fimmta tilraun til að taka af stað fór að færast örlítil ókyrrð yfir mig, ég ákvað að lækka á útvarpinu svo ég myndi heyra betur í vélinni hvenær hún tæki gírinn og vonandi ná þá af stað... Ég ýtti á " - " hnappinn á tækinu... Tónlistin hækkaði... Ég reyndi aftur og enn hækkaði tónlistin. Þetta þótti mér undarlegt, en ég prófaði næst " + " hnappinn... Enn hækkaði tónlistin og fljótlega voru allar mínar hugsanir yfirgnæfðar með ólátum í útvarpinu auk þess sem að hátalararnir í bílnum frussuðu í mótmælaskyni við þessari meðferð. Ég var farinn að titra úr stressi og angist og löng röð af síflautandi stálfákum hafði myndast fyrir aftan mig þrátt fyrir að ég hafði sett viðvörunarljósin á. Ég reyndi nokkrum sinnum í viðbót að koma bílnum af stað, en án árangaurs og í restina var ég farinn að gera undarlegustu villur...
Í starttilraun númer þrjátíu og átta neitaði svo bíllinn í gang... Hann var orðinn rafmagnslaus, bölvaður. Ég öskraði af bræði, stökk út úr bílnum og hoppaði nokkrum sinnum hæð mína berjandi upp í loftið gargandi áður en ég tók að ýta bílnum inn á Suðurversplanið, bölvandi öllu og öllum í sand og ösku... Hraðahindrunin fékk þar sérstaka syrpu.
Ég fékk hjálp frá vinalegum náunga á lokasprettinum og okkur tókst að koma bílnum fyrir á bílastæði. Ég þakkaði manninum, en tók eftir því að hann hafði skilið bílinn eftir beint fyrir aftan staðinn þar sem ég hafði verið strandaður svo lengi rétt áður... Það var enginn bíll flautandi fyrir aftan hann.
Þegar hér var komið við sögu hringdi ég í Þorgeir sem kom skömmu síðar með startkapla á yndislega, sjálfskipta bílnum sínum. En eftir margar tilraunir áttuðum við okkur á því að það væri svo gott sem ómögulegt að gefa straum af bílnum hans vegna klunnalegrar staðsetningar á rafgeiminum. Því hringdi ég á leigubílastöð og bað um bíl til að gefa start, því ég væri rafmagnslaus... Eftir rétt tæpar tuttugu mínútur kemur svo leigubíll og staðnæmist á miðju bílaplaninu. Upp kom vandræðalegt augnablik á meðan ég stóð við leigubílinn og beið þess að bílstjórinn stigi út, en hann hreyfði sig hvergi. Loks opna ég hurðina og spyr hann hvort hann ætli ekki að græja sig til að gefa startið og upp hófst eftirfarandi samtal:

Bílstjóri: "START!? ÉG GEF EKKERT START!!"
Ég: "Öhm... Ég hringdi og bað um bíl til að gefa start..."
Bílstjóri: "HVAÐA VITLEYSA, ÞAÐ STENDUR EKKI Á SKJÁNUM MÍNUM!" hann nánast rak gat á upplýsingaskjáinn með vísifingrinum á sér áður en hann hélt áfram, "ÞÚ VERÐUR AÐ HRINGJA Á ANNAN BÍL, LOKAÐU SVO HURÐINNI, ÉG HEF EKKI TÍMA FYRIR SVONA HELVÍTIS RUGL!"

Ég lokaði hurðinni og bíllinn nánast reykspólaði í burtu. Ég hef sjaldan verið eins hissa og áttaviltur og einmit þarna... Ég hringdi á annan bíl og sá var með allar græjur og kom bílnum í gang. Ég þverneitaði að setjast undir stýri á þessari dauðagildru aftur og skipti því um bíl við Þorgeir... Það leið ekki á löngu þar til örfáum sentímetrum mátti muna að ég hefði lent í hörðum árekstri við sjúkrabíl, en restin af kvöldinu gekk slysalaust fyrir sig... Ég hef margoft lent í lífshættu, en ég hef aldrei verið eins nálægt því að fá taugaáfall og þetta kvöldið.

-P.s: Öllum kommentum um tengsl karlmennsku og akstri beinskiptra ökutækja verður tafarlaust eytt út án spurninga.
|
Gleðilegt nýtt ár!
Jæja, hvaða áramótaheit ætli sé betra en að rjúfa bloggþögnina sem hýmt hefur yfir óhappablogginu undanfarna mánuði? -Tjah, ég get reyndar látið mér detta ýmislegt betra í hug, sérstaklega þar sem hingað til hef ég talið að öll þögn sé góð þögn á Óhappablogginu... Altént hvað mig varðar. Winking

En mín helsta afsökun fyrir þessari löngu bloggþögn er því miður ekki sú að ég er hættur að stunda óheppni af þeim mikla eldmæði sem einkennt hefur bloggið hingað til, heldur þvert á móti, hrundi bloggkerfið mitt og er planið að redda því frá og með þessari bloggfærslu. Á gamla óhappablogginu voru nær allar undirsíðurnar hluti af sömu síðu og sömu skrá sem gerði það að verkum að auðveldara var fyrir mig að uppfæra mikið í einu á síðunni, en á móti vó að ef að ein undirsíðanna hrundi, þá fylgdi allt óhappabloggið með sem skiljanlega gerði mér torfært að blogga.
Í dag er ráðin bót í máli, nú eru allar undirsíðurnar sjálfstæðar... Sem gerir bloggkerfið mitt ekki bara stöðugra, heldur get ég líka núna lagt mun meiri vinnu í undirsíðurnar en áður... T.d skippt vinamyndunum upp í blaðsíður... En Pompei var ekki endurbyggð á einum degi... hún var reyndar aldrei endurbyggð, heldur grafin upp, og ætla ég að gera slíkt hið sama hér á óhappablogginu. Eitt póstnúmer í einu.

Hér er listi yfir breytingarnar á blogginu:
-Óhappabloggið hefur verið fært þannig að þegar slegið er inn veffangið "This.is/alliat" ætti maður að lenda beint á blogginu í stað þeirrar úreldu forsíðu sem áður var.
-Vefsíðan í heild sinni mun verða í mörgum sjálfstæðum bútum sem minkar álag á vefþjóni og auðveldar lesendum að muna beina tengla á sérstakar undirsíður (t.d. ljósmyndasíðuna).
-Undirsíðan "Tónlist" hefur bæst við. Tengillinn virkar ekki sem stendur, því síðan er reyndar enn bara hugarfóstur, en ætti að skjóta upp kollinum á næstu dögum.
-Höfundur bloggsins ætlar sér að verða mun duglegri að blogga (ef hvalur myndi fæðast í hvert skipti sem þessi setning skýtur upp kollinum hér á blogginu, þá myndi rúmmál hvalastofns jarðarinnar verða til þess að yfirborð sjávar hækkaði um átta metra!).

Að lokum ber að nefna að héðan í frá munu bloggfærslur vera flokkaðar í eftirfarandi flokka:
- "Almennt blogg" - Þessi flokkur heldur um þær bloggfærslur sem, tjah, flokka mætti sem almennar bloggfærslur.
- "Nördablogg" - Hér mun ég röfla um tölvuleiki, græjur, tól, forrit og allt slíkt sem aðeins fáir útvaldir hafa áhuga á... Og enn færri eru eitthverju nær eftir lesturinn.
- "Óhöpp" - Hingað lenda óhappabloggin þau er síða þessi dregur nafn sitt af.
- "Húmor (eða tilraunir til slíks)" - Þetta segir sig sjálft, hér hafna tilraunir mínar til þess að vera fyndinn.
- "Fréttir og breytingar" - Þetta er flokkurinn þar sem ég mun hola niður tilkynningum um viðbætur og breytingar á síðunni. Í þennan flokk fara til að mynda bloggfærslur um ný lög sem ég hef gert, ljósmyndir sem ég hef tekið, myndir sem ég hef teiknað... o.fl. sem ég hef nýlega sett inn á vefsíðuna... Þessi bloggfærsla sem þú ert að lesa núna er í þessum flokki.
- "Nöldur" - Ég er landsfrægur nöldrari og hingað mun reka á land undarlegum nöldurbloggfærslum af einu eða öðru tagi.
- "None" - Þessi skemmtilega nefndi flokkur gæti skotið upp kollinum ef ég gleimi að setja bloggfærslu í flokk... Líta skal á þennan flokk sem undirflokk almenna bloggflokksins.

Með tíð og tíma gætu svo bæst við eða dottið út flokkar.
|