Ný lög - Ný íbúð!
Ég blogga sjaldan núorðið nema til að tilkynna ný lög, en hluti orsaka þessa er sá að ég bý í Hveragerði með Sigrúnunni minni og Mattanum okkar og þar höfum við sérstaklega lélegt internet. Það er það lélegt að ég get ekki athugað tölvupóstinn minn með tölvupóstforritinu (verð að skoða póstinn með vafranum) og ef ekki aðgang að heimasíðunni minni og get því lítið bloggað.

Í raun samanstanda "nýju" lögin af einu splunkunýju (20 mín. gamalt þegar þetta er skrifaðWinking og einu nokkura mánaða gömlu lagi sem ég hafði trassað að setja inn á tónlistarsíðuna. Eldra lagið er útfærsla mín af melódíu úr tölvuleik sem ég spilaði af mikilli ákefð þegar ég var sjö ára (og svo einstaka sinnum alla tíð síðan), en hitt lagið er fiðlulag sem ég kaus að kalla Violation eftir mikið heilabrot og er það lag afrakstur æfinga minna í hljómagerð. Það var sérstaklega erfitt að nefna þetta lag þar sem ég hafði ekki fengið innblástur frá neinu sérstöku þegar ég gerði það og gat því ekki nefnt lagið eftir því, en þetta hófst á endanum!

Annars er það að frétta af mér að ég var að fjárfesta í nýrri íbúð í Háaleitinu og fæ hana afhenta þann fyrsta næsta mánaðar. Með þessu tókst mér að stytta vegalengdina sem ég þarf að ferðast í vinnuna úr tæpum 50 km yfir gaddfreðna heiði niður í nokkurhundruð metra á jafnri gangstétt.
Íbúðin er 100 fermetrar með sérinngangi án sameignar og er fjögurra herbergja... Ekki veit ég hvernig þeir telja þessi herbergi, en innan íbúðarinnar eru þrjú svefnherbergi, stofa, eldhús, þvottahús og geymsla... allt saman (nema stofan og eldhúsiðWinking afmarkað með hurðum og veggjum og lítur alveg ofboðslega herbergjalega út að mínu mati....
-Senn get ég spilað Wii án þess að vera klesstur upp við sjónvarpsskjáinn lítandi út eins og krypplingur við það að gæta þess að sveifla fjarstýringunum ekki of nálægt sjónvarpinu! Laugh
|