Fréttir og breytingar
Ný lög - Ný íbúð!
Ég blogga sjaldan núorðið nema til að tilkynna ný lög, en hluti orsaka þessa er sá að ég bý í Hveragerði með Sigrúnunni minni og Mattanum okkar og þar höfum við sérstaklega lélegt internet. Það er það lélegt að ég get ekki athugað tölvupóstinn minn með tölvupóstforritinu (verð að skoða póstinn með vafranum) og ef ekki aðgang að heimasíðunni minni og get því lítið bloggað.

Í raun samanstanda "nýju" lögin af einu splunkunýju (20 mín. gamalt þegar þetta er skrifaðWinking og einu nokkura mánaða gömlu lagi sem ég hafði trassað að setja inn á tónlistarsíðuna. Eldra lagið er útfærsla mín af melódíu úr tölvuleik sem ég spilaði af mikilli ákefð þegar ég var sjö ára (og svo einstaka sinnum alla tíð síðan), en hitt lagið er fiðlulag sem ég kaus að kalla Violation eftir mikið heilabrot og er það lag afrakstur æfinga minna í hljómagerð. Það var sérstaklega erfitt að nefna þetta lag þar sem ég hafði ekki fengið innblástur frá neinu sérstöku þegar ég gerði það og gat því ekki nefnt lagið eftir því, en þetta hófst á endanum!

Annars er það að frétta af mér að ég var að fjárfesta í nýrri íbúð í Háaleitinu og fæ hana afhenta þann fyrsta næsta mánaðar. Með þessu tókst mér að stytta vegalengdina sem ég þarf að ferðast í vinnuna úr tæpum 50 km yfir gaddfreðna heiði niður í nokkurhundruð metra á jafnri gangstétt.
Íbúðin er 100 fermetrar með sérinngangi án sameignar og er fjögurra herbergja... Ekki veit ég hvernig þeir telja þessi herbergi, en innan íbúðarinnar eru þrjú svefnherbergi, stofa, eldhús, þvottahús og geymsla... allt saman (nema stofan og eldhúsiðWinking afmarkað með hurðum og veggjum og lítur alveg ofboðslega herbergjalega út að mínu mati....
-Senn get ég spilað Wii án þess að vera klesstur upp við sjónvarpsskjáinn lítandi út eins og krypplingur við það að gæta þess að sveifla fjarstýringunum ekki of nálægt sjónvarpinu! Laugh
|
Enn og aftur nýtt lag! o_O
Jæja, það er fátt að frétta af mér annað en að ég er búinn að gera annað lag, og nokkur önnur í smíði sem stendur.

Lagið má finna hérna og það er talsvert hressara en þessi sem hafa komið frá mér það sem af er ári.

Annars komu úrslit undankeppninnar í eurovision (lítill stafur - viljaverk) mér alls ekkert á óvart og Eiríkur er að reita sig sköllóttan yfir því að bara austantjaldslönd komust áfram. Talar um að skipta keppninni í vestur og austur eurovision... Eins og sést, eins og sést eins og sést... þá vill hann vera með í Euro-West.....

-Er ekki málið að hætta bara að taka þátt og finna eitthverja aðra árlega dellu?

Svo tók ég smá bæjarrúnt í gær að taka myndir af gjörningunum sem þar eru. Ég fann bíl sem tré "óx" upp úr, niðurskorinn strætisvagn, kraminn bíl, sundursneiddan bíl, bíla sem voru ofan á hvor öðrum og höfðu verið málaðir doppóttir og svo goshverinn við Ingólfstorg... Ég tók myndir af flestu, en það var ekki þverfótað fyrir ljósmyndurum þennan daginn. Ég varð frekar vonsvikinn varðandi goshverinn samt. Við goshverinn var skúr merktur "frankur fornleyfauppgröftur" og í gluggunum voru nokkrir bólugrafnir, glottandi táningar að reykja og ýta reglulega á takka til að virkja hverinn. Sömuleiðis hafði strætisvagninn verið "skemmdur" fyrir mér, því framan á honum, þar sem hann var klofinn, var skilti sem meinaði inngöngu og rústaði myndina fyrir mér... Spurning hvort ég nái að "sjoppa" það í burtu.

Hvað risessuna varðar, þá er ég lafhræddur við þetta ferlíki! o_O
-Og ég er steinhissa á því að börnin hlaupi ekki í ofboði á undan henni út í höfnina. :S
Það er ekki bara stærðin... það er andlitið á henni, munnurinn þá helst... Eins og klippt út úr nastý hrollvekju. :/
|
Aftur nýtt lag...
Ég held að ég sé orðinn varanlega fastur í illbient tónlistarstefnunni. Nýja lagið heitir The Beached Carnie og mig dauðlangar að teikna myndband við það... eins og flest önnur lög sem ég hef gert. Myndbandið væri þá í grófum dráttum þannig að hval ræki á fallega strönd að kvöldi til og fjölskyldufólk safnaðist samstundis að með börnin sín að taka myndir af sér með hvalnum í bakgrunni og grilla og leika sér áður en strandgæslan kæmi að redda málunum.

Lagið má alla vega finna hérna.
|
Nýtt lag!
Enn eitt rólega illbient lagið komið frá mér... Svolítið fyndið, því þegar ég byrja á þeim, þá er ég með það að markmiði að gera eitthvað rosa hart hehe, endar alltaf í svona illbient/tripp-hop tempóinu.
En alla vega, þá er lagið að finna á tónistarsíðunni hér til hægri undir lögunum sem að samin hafa verið hingað til árið 2007. -Enjoy! Happy
|
Gleðilegt nýtt ár!
Jæja, hvaða áramótaheit ætli sé betra en að rjúfa bloggþögnina sem hýmt hefur yfir óhappablogginu undanfarna mánuði? -Tjah, ég get reyndar látið mér detta ýmislegt betra í hug, sérstaklega þar sem hingað til hef ég talið að öll þögn sé góð þögn á Óhappablogginu... Altént hvað mig varðar. Winking

En mín helsta afsökun fyrir þessari löngu bloggþögn er því miður ekki sú að ég er hættur að stunda óheppni af þeim mikla eldmæði sem einkennt hefur bloggið hingað til, heldur þvert á móti, hrundi bloggkerfið mitt og er planið að redda því frá og með þessari bloggfærslu. Á gamla óhappablogginu voru nær allar undirsíðurnar hluti af sömu síðu og sömu skrá sem gerði það að verkum að auðveldara var fyrir mig að uppfæra mikið í einu á síðunni, en á móti vó að ef að ein undirsíðanna hrundi, þá fylgdi allt óhappabloggið með sem skiljanlega gerði mér torfært að blogga.
Í dag er ráðin bót í máli, nú eru allar undirsíðurnar sjálfstæðar... Sem gerir bloggkerfið mitt ekki bara stöðugra, heldur get ég líka núna lagt mun meiri vinnu í undirsíðurnar en áður... T.d skippt vinamyndunum upp í blaðsíður... En Pompei var ekki endurbyggð á einum degi... hún var reyndar aldrei endurbyggð, heldur grafin upp, og ætla ég að gera slíkt hið sama hér á óhappablogginu. Eitt póstnúmer í einu.

Hér er listi yfir breytingarnar á blogginu:
-Óhappabloggið hefur verið fært þannig að þegar slegið er inn veffangið "This.is/alliat" ætti maður að lenda beint á blogginu í stað þeirrar úreldu forsíðu sem áður var.
-Vefsíðan í heild sinni mun verða í mörgum sjálfstæðum bútum sem minkar álag á vefþjóni og auðveldar lesendum að muna beina tengla á sérstakar undirsíður (t.d. ljósmyndasíðuna).
-Undirsíðan "Tónlist" hefur bæst við. Tengillinn virkar ekki sem stendur, því síðan er reyndar enn bara hugarfóstur, en ætti að skjóta upp kollinum á næstu dögum.
-Höfundur bloggsins ætlar sér að verða mun duglegri að blogga (ef hvalur myndi fæðast í hvert skipti sem þessi setning skýtur upp kollinum hér á blogginu, þá myndi rúmmál hvalastofns jarðarinnar verða til þess að yfirborð sjávar hækkaði um átta metra!).

Að lokum ber að nefna að héðan í frá munu bloggfærslur vera flokkaðar í eftirfarandi flokka:
- "Almennt blogg" - Þessi flokkur heldur um þær bloggfærslur sem, tjah, flokka mætti sem almennar bloggfærslur.
- "Nördablogg" - Hér mun ég röfla um tölvuleiki, græjur, tól, forrit og allt slíkt sem aðeins fáir útvaldir hafa áhuga á... Og enn færri eru eitthverju nær eftir lesturinn.
- "Óhöpp" - Hingað lenda óhappabloggin þau er síða þessi dregur nafn sitt af.
- "Húmor (eða tilraunir til slíks)" - Þetta segir sig sjálft, hér hafna tilraunir mínar til þess að vera fyndinn.
- "Fréttir og breytingar" - Þetta er flokkurinn þar sem ég mun hola niður tilkynningum um viðbætur og breytingar á síðunni. Í þennan flokk fara til að mynda bloggfærslur um ný lög sem ég hef gert, ljósmyndir sem ég hef tekið, myndir sem ég hef teiknað... o.fl. sem ég hef nýlega sett inn á vefsíðuna... Þessi bloggfærsla sem þú ert að lesa núna er í þessum flokki.
- "Nöldur" - Ég er landsfrægur nöldrari og hingað mun reka á land undarlegum nöldurbloggfærslum af einu eða öðru tagi.
- "None" - Þessi skemmtilega nefndi flokkur gæti skotið upp kollinum ef ég gleimi að setja bloggfærslu í flokk... Líta skal á þennan flokk sem undirflokk almenna bloggflokksins.

Með tíð og tíma gætu svo bæst við eða dottið út flokkar.
|