Gleðilegt nýtt ár!
Jæja, hvaða áramótaheit ætli sé betra en að rjúfa bloggþögnina sem hýmt hefur yfir óhappablogginu undanfarna mánuði? -Tjah, ég get reyndar látið mér detta ýmislegt betra í hug, sérstaklega þar sem hingað til hef ég talið að öll þögn sé góð þögn á Óhappablogginu... Altént hvað mig varðar. Winking

En mín helsta afsökun fyrir þessari löngu bloggþögn er því miður ekki sú að ég er hættur að stunda óheppni af þeim mikla eldmæði sem einkennt hefur bloggið hingað til, heldur þvert á móti, hrundi bloggkerfið mitt og er planið að redda því frá og með þessari bloggfærslu. Á gamla óhappablogginu voru nær allar undirsíðurnar hluti af sömu síðu og sömu skrá sem gerði það að verkum að auðveldara var fyrir mig að uppfæra mikið í einu á síðunni, en á móti vó að ef að ein undirsíðanna hrundi, þá fylgdi allt óhappabloggið með sem skiljanlega gerði mér torfært að blogga.
Í dag er ráðin bót í máli, nú eru allar undirsíðurnar sjálfstæðar... Sem gerir bloggkerfið mitt ekki bara stöðugra, heldur get ég líka núna lagt mun meiri vinnu í undirsíðurnar en áður... T.d skippt vinamyndunum upp í blaðsíður... En Pompei var ekki endurbyggð á einum degi... hún var reyndar aldrei endurbyggð, heldur grafin upp, og ætla ég að gera slíkt hið sama hér á óhappablogginu. Eitt póstnúmer í einu.

Hér er listi yfir breytingarnar á blogginu:
-Óhappabloggið hefur verið fært þannig að þegar slegið er inn veffangið "This.is/alliat" ætti maður að lenda beint á blogginu í stað þeirrar úreldu forsíðu sem áður var.
-Vefsíðan í heild sinni mun verða í mörgum sjálfstæðum bútum sem minkar álag á vefþjóni og auðveldar lesendum að muna beina tengla á sérstakar undirsíður (t.d. ljósmyndasíðuna).
-Undirsíðan "Tónlist" hefur bæst við. Tengillinn virkar ekki sem stendur, því síðan er reyndar enn bara hugarfóstur, en ætti að skjóta upp kollinum á næstu dögum.
-Höfundur bloggsins ætlar sér að verða mun duglegri að blogga (ef hvalur myndi fæðast í hvert skipti sem þessi setning skýtur upp kollinum hér á blogginu, þá myndi rúmmál hvalastofns jarðarinnar verða til þess að yfirborð sjávar hækkaði um átta metra!).

Að lokum ber að nefna að héðan í frá munu bloggfærslur vera flokkaðar í eftirfarandi flokka:
- "Almennt blogg" - Þessi flokkur heldur um þær bloggfærslur sem, tjah, flokka mætti sem almennar bloggfærslur.
- "Nördablogg" - Hér mun ég röfla um tölvuleiki, græjur, tól, forrit og allt slíkt sem aðeins fáir útvaldir hafa áhuga á... Og enn færri eru eitthverju nær eftir lesturinn.
- "Óhöpp" - Hingað lenda óhappabloggin þau er síða þessi dregur nafn sitt af.
- "Húmor (eða tilraunir til slíks)" - Þetta segir sig sjálft, hér hafna tilraunir mínar til þess að vera fyndinn.
- "Fréttir og breytingar" - Þetta er flokkurinn þar sem ég mun hola niður tilkynningum um viðbætur og breytingar á síðunni. Í þennan flokk fara til að mynda bloggfærslur um ný lög sem ég hef gert, ljósmyndir sem ég hef tekið, myndir sem ég hef teiknað... o.fl. sem ég hef nýlega sett inn á vefsíðuna... Þessi bloggfærsla sem þú ert að lesa núna er í þessum flokki.
- "Nöldur" - Ég er landsfrægur nöldrari og hingað mun reka á land undarlegum nöldurbloggfærslum af einu eða öðru tagi.
- "None" - Þessi skemmtilega nefndi flokkur gæti skotið upp kollinum ef ég gleimi að setja bloggfærslu í flokk... Líta skal á þennan flokk sem undirflokk almenna bloggflokksins.

Með tíð og tíma gætu svo bæst við eða dottið út flokkar.
|