Óhöpp
Úff!
Ég byrjaði gærdaginn á því að vakna í Hveragerði, allt of snemma, illa sofinn og Matti lasinn. Ég var með Matta þar til ég átti panntaðan tíma hjá tannfræðingi.

Tann*fræðing/ur (-s, -ar)
Nafnorð, karlkyn
Svipað og sálfræðingur... með hníf.
Sérhæfir sig í illri meðferð tannholds.


Eftir u.þ.b. tíu - fimmtán mínútur hjá tannfræðingnum fékk ég pásu til að skola munninn. Ég byrjaði á því að hrækja rétt tæpum deselíter af blóði (fyrir utan það sem sogið var burt með því sem ég kýs að kalla "blóðsugu") og þá átti þetta stutta samtal sér stað áður en aftur var hafist handa við að tæta upp tannholdið á mér:

Tannfræðingur: Nú eru tennurnar þínar að gráta. (!)
Ég (verulega pirraður): Þú færir líka að gráta ef ég væri að gata þig með hlutfallslega jafnstóru apparati.

Meðferðin batnaði ekki eftir þetta samtal og sat ég hálf-urrandi í stólnum næsta hálftímann áður en ég hélt til vinnu.
Ekki skánaði dagurinn eftir komu mína á vinnustaðinn... Ég átti að setja saman sófasett sem saman stóð af tveimur stólum og einum sófa... Á sett þetta áttu að fara 12 stálfætur, allir vitlaust boraðir þannig að ekki var hægt að festa þá á settið... Eina ráðið var að víkka borgötin sem fyrir voru. En allir borarnir voru bitlausir og leiðinlegir. Náði ég, á þessum 5 klst. stutta vinnudegi, með mikilli hjálp, að víkka 6 göt... en það eru fjögur göt á hverri löpp. Það þýðir að í dag standa eftir 42 göt óboruð. Ekki bætir úr skák að bíllinn fer ekki í gang sökum rafmagnsleysis, en orsök þess er mér algerlega ókunn. :/
|
Smá syrpa
Jæja, þá er nýtt lag komið upp, svona í rólegri kantinum. Það má finna á Tónlistarsíðunni sem er hér með komin í gagnið.

Annars er ég búinn að vera í basli með nýju útgáfuna af blogginu í tæpa viku og með sveitta fræðimenn mér til aðstoðar allan tímann... Það var nokkurn veginn sama hvað við reyndum að gera, ég náði bara ekki að uppfæra síðuna. Það var ekki fyrr en í dag sem að ég áttaði mig á að villan fólst í því að ég hafði óvart skrifað "/webdir" í staðinn fyrir "/Webdir"... Þetta hefur komið fyrir mig áður og ég veit um fátt eins óþolandi, en ein saga, sem nýlega átti sér stað, kemur upp í hugann:

Ég var hjá Sigrúnu um daginn og þurfti að stökkva heim að ná í nýju leikjatölvuna mína, en ég var bíllaus þar sem skiptingin í bílnum mínum hafði hrunið og bráðabyrgðarbíllinn minn ákvað skyndilega að bræða úr sér. Þar sem Sigrún nennti engan vegin að skutla mér, fékk ég bílinn hennar að láni í sendiferðina. Það var samt einn smávægilegur galli við þetta plan: Ég er illa haldinn af "kanasyndromminu" svokallaða og hef ekki ekið beinskiptum bíl að neinu ráði síðan ég tók bílprófið. Sigrún sannfærði mig um að þetta væri eins og að hjóla - Maður myndi aldrei gleyma því eftir að hafa náð því einu sinni...
Bílferðin úr grafarvoginum yfir í Kópavoginn gekk svo til klakklaust þar til ég drap á bílnum á ljósunum fyrir framan Suðurver (nálægt Kringlunni). Þetta þótt mér ekki vera neitt stórmál þar sem ég hafði drepið á honum skömmu áður og allt í lagi í næstu tilraun þá... En eftir að fimmta tilraun til að taka af stað fór að færast örlítil ókyrrð yfir mig, ég ákvað að lækka á útvarpinu svo ég myndi heyra betur í vélinni hvenær hún tæki gírinn og vonandi ná þá af stað... Ég ýtti á " - " hnappinn á tækinu... Tónlistin hækkaði... Ég reyndi aftur og enn hækkaði tónlistin. Þetta þótti mér undarlegt, en ég prófaði næst " + " hnappinn... Enn hækkaði tónlistin og fljótlega voru allar mínar hugsanir yfirgnæfðar með ólátum í útvarpinu auk þess sem að hátalararnir í bílnum frussuðu í mótmælaskyni við þessari meðferð. Ég var farinn að titra úr stressi og angist og löng röð af síflautandi stálfákum hafði myndast fyrir aftan mig þrátt fyrir að ég hafði sett viðvörunarljósin á. Ég reyndi nokkrum sinnum í viðbót að koma bílnum af stað, en án árangaurs og í restina var ég farinn að gera undarlegustu villur...
Í starttilraun númer þrjátíu og átta neitaði svo bíllinn í gang... Hann var orðinn rafmagnslaus, bölvaður. Ég öskraði af bræði, stökk út úr bílnum og hoppaði nokkrum sinnum hæð mína berjandi upp í loftið gargandi áður en ég tók að ýta bílnum inn á Suðurversplanið, bölvandi öllu og öllum í sand og ösku... Hraðahindrunin fékk þar sérstaka syrpu.
Ég fékk hjálp frá vinalegum náunga á lokasprettinum og okkur tókst að koma bílnum fyrir á bílastæði. Ég þakkaði manninum, en tók eftir því að hann hafði skilið bílinn eftir beint fyrir aftan staðinn þar sem ég hafði verið strandaður svo lengi rétt áður... Það var enginn bíll flautandi fyrir aftan hann.
Þegar hér var komið við sögu hringdi ég í Þorgeir sem kom skömmu síðar með startkapla á yndislega, sjálfskipta bílnum sínum. En eftir margar tilraunir áttuðum við okkur á því að það væri svo gott sem ómögulegt að gefa straum af bílnum hans vegna klunnalegrar staðsetningar á rafgeiminum. Því hringdi ég á leigubílastöð og bað um bíl til að gefa start, því ég væri rafmagnslaus... Eftir rétt tæpar tuttugu mínútur kemur svo leigubíll og staðnæmist á miðju bílaplaninu. Upp kom vandræðalegt augnablik á meðan ég stóð við leigubílinn og beið þess að bílstjórinn stigi út, en hann hreyfði sig hvergi. Loks opna ég hurðina og spyr hann hvort hann ætli ekki að græja sig til að gefa startið og upp hófst eftirfarandi samtal:

Bílstjóri: "START!? ÉG GEF EKKERT START!!"
Ég: "Öhm... Ég hringdi og bað um bíl til að gefa start..."
Bílstjóri: "HVAÐA VITLEYSA, ÞAÐ STENDUR EKKI Á SKJÁNUM MÍNUM!" hann nánast rak gat á upplýsingaskjáinn með vísifingrinum á sér áður en hann hélt áfram, "ÞÚ VERÐUR AÐ HRINGJA Á ANNAN BÍL, LOKAÐU SVO HURÐINNI, ÉG HEF EKKI TÍMA FYRIR SVONA HELVÍTIS RUGL!"

Ég lokaði hurðinni og bíllinn nánast reykspólaði í burtu. Ég hef sjaldan verið eins hissa og áttaviltur og einmit þarna... Ég hringdi á annan bíl og sá var með allar græjur og kom bílnum í gang. Ég þverneitaði að setjast undir stýri á þessari dauðagildru aftur og skipti því um bíl við Þorgeir... Það leið ekki á löngu þar til örfáum sentímetrum mátti muna að ég hefði lent í hörðum árekstri við sjúkrabíl, en restin af kvöldinu gekk slysalaust fyrir sig... Ég hef margoft lent í lífshættu, en ég hef aldrei verið eins nálægt því að fá taugaáfall og þetta kvöldið.

-P.s: Öllum kommentum um tengsl karlmennsku og akstri beinskiptra ökutækja verður tafarlaust eytt út án spurninga.
|