TOPP 5! 43. vika: David Bowie - Oh! You pretty things / White Stripes - I'm finding it harder to be a gentleman / Sykurmolarnir - Delicious demon / The Fall - Clasp hands / Joy Division - She's lost control  Gamlir listar hér 
10.11.04
Allt var við það sama á Akureyri. Jólahúsið alveg hreint frábært, Brynjuísinn og Greifinn í toppformi. Nonnahús á sínum stað.
---
Ég og Barði létum Magna í Á móti sól og Þröst 3000 fá verðlaun á Gullkindinni fyrir versta lag ársins. Eitthvað "Sólstrandagæi" með FM allstars og Pöpum. Hef nú bara aldrei heyrt þetta blessaða lag. En þeir voru voða kátir að fá verðlaun. Sumir mættu, aðrir ekki. Hálfdán landsins snjallasti og Kalli Bjarni hvergi sjáanlegir. Simmi og Jói mættu ægilega hressir.
---
Finnst þessi nýi borgarstjóri óspennandi. Mjög óspennandi. Einhver dugleg varaskífa sem verður slátrað fyrir næstu kosningar. Útilokað að R-listinn hafi hana í framlínunni 2006. Sjálfsstæðisflokkurinn myndi valta yfir þetta í næstu kosningum. Jafnvel ég myndi kjósa Sjallana með Gísla Marteinn eða einhvern í framsætinu frekar en þetta glataða R-lista lið. Maður er búinn að fá leið á þessu liði. Alfreð Þorsteinsson! Gimmí a fukking breik. Það er ekki spurning um innihald heldur umbúðir. Enginn munur á þessu drasli hvort eð er. Jú kannski. En allavega, gott að skipta þessu bara upp næst. Leyfa Sjöllum að fá borg, láta Samfylkingu og VG taka landið. Setja Framsókn á ís. Helst að leggja flokkinn niður með lögum. En hver nennir annars að spá í þessu? Ekki ég. Nema annað slagið í fruntalegum athugasemdastíl. Og varla það.
---
Sá mynd með sæta ógeðinu þarna, Aston Kusher eða hvað hann heitir. Ágæt mynd meira að segja. Og át á Perlunni. Nóg að gera. Er í smá Serge Gainsbourg fíling núna enda að lesa ævisögu um hann. Vildi ég kynni frönsku almennilega og gæti velt mér upp úr textunum. Maðurinn var algjör snillingur.

05.11.04
Þessi padda:

Fannst í kartöflupoka áðan og hefur tryllt mannskapinn í allt kvöld. Ku vera klaufhali og er helvíti ógeðslegt. Eitt af þessum sjaldgæfu skordýrum sem fyrirfinnast á Íslandi. Spurning um að fara í mál við Þykkvabæjarbændur. Heimta milljón í tilfinningauppnám.
---
Útvarpsþátturinn DRDR á morgun auðvitað, nú eyrnakonfekt úr ýmsum áttum, m.a. nokkur lög sem heita FUCK OFF, og síðan óskalagasjúklingarnir gítarparið úr hinni fínu sveit JAN MAYEN. Ætti að vera gegnumsneitt nýbylgjustuð. 
---
Nýjasti kjallarinn...
---
Heimildarmyndin PÖNKIÐ OG FRÆBBBLARNIR er alveg sérlega frábær og það er alger skyldumæting! Fjórar stjörnur! Að sýningu lokinni rabbaði ég aðeins við Jónatan Garðarson sem var nokkuð á pönktánum í denn og sagðist hafa skipt úr framúrstefnudjassi í pönk þegar sprengjan sprakk og það þótt vinir hans héldu að hann væri orðinn geðveikur. Við vorum sammála um að 1979 væri líklega það versta í íslenskri rokksögu og hann ku hafa skrifað einskonar dauðadóm yfir árið í Þjóðviljann. Við það megadiss varð ónefndur Brunaliðsmaður svo reiður að hann lamdi Jónatan. Hinn geðþekki Jónatan er því einn að örfáum íslenskum gagnrýnendum sem hafa verið lamdir fyrir skrif sín og verður það að teljast góður árangur, nokkurs konar hámarks viðurkenning fyrir vel unnin störf. 
---
Hinir mögnuðu tónleikar Heilbrigð æska í apríl í Kópavopsbíói voru eftir á að hyggja neistinn sem kveikti bálið. Ég man sáralítið eftir frammistöðu Dordingla sem voru að koma þarna fram í fyrsta skipti nema hvað ég hafði verið með sviðsskrekk og drullu allan morguninn á sándtékkinu. Ég hélt myndi líða yfir mig á sviðinu en við komumst þó í gegnum prógrammið, 3 lög, 2 instrúmental "Ferða-lag" og "Diskó-drull", og "Ég er aumingi" sem var sungið. Nokkrum dögum síðar kom gagnrýni Jónatans í Þjóðviljanum. Nú kemur úrklippubókin sér vel:

04.11.04
Svarti listinn er alveg á sínum stað þótt ég nenni hreinlega varla að standa í að uppfæra hann. Lífið er einhvern veginn of stutt til að maður nenni að fylgjast náið með því hvað þessir örvitar eru að vesenast. Svo ef einhver vill ættleiða svarta listann þá er það mér að sársaukalausu, endilega bara hreint.
---
Lífið er hugsanlega of stutt líka til maður nenni að hafa Búss eitthvað á heilanum næstu mánuðina. En hér er samt sitthvað gott varðandi það:
Zúri gæinn birtir t.d. þetta kort á síðunni sinni:

Maður hefur einmitt verið að pæla í því hvort þetta sé ekki bara málið...
---
Jósi er svo með þessi skilaboð:

Dear Majority of Americans
Fuck you too.

Sincerely, the rest of the world.
---
Bússi sjálfur er svo hér í eigin veldi. Gríðarlega traustvekjandi að hafa svona hálfvitalegan íþróttahelmút sem merkilegasta mann í heimi.

03.11.04
Þá erða bara næsta kosning og þessi er mun áhugaverðari:

---
Íslenskar plötur koma nú út í haugum. Sumar eru með sérlega illa heppnuðum umslögum:

Glaðlegur ungur drengur hann Kalli... Var ekki hægt að fresta myndatökunni þangað til hann væri búinn að jafna sig á þynnkunni? 


Jón Sig er vissulega jákvæður, en náðist virkilega engin mynd þar sem hann leit ekki út fyrir að vera vangefinn?


Jesús ert þetta þú?

En þetta er nú tvímælalaust sigurvegarinn í ár:

Já, mig grunaði alltaf að Björn Thoroddsen væri geislavirkt Zombie.
---
Nei auðvitað hafði ég ekki rétt fyrir mér (nema eitthvað kraftaverk gerist). En það er þá bláköld staðreynd sem þarf ekki að ræða frekar: Meirihluti Bandaríkjamanna eru hálfvitar. Gaman að heyra að Davíð og Halldór virtust glaðir með þessi úrslit. Gaman hvað þeir eru alltaf sammála þjóðinni. Nú verð ég vinna í að sannfæra sjálfan mig að þetta skipti ekki máli. Þetta skiptir ekki máli. Þetta skiptir ekki máli. Michael Moore verður allavega vinsæll áfram.

02.11.04
Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn. Nýr forseti Bandaríkjanna gjöriði svo vel:

Kannski ekkert svo æðislegur, en ég bara meika ekki að hafa hitt ógeðið fyrir augunum í 4 ár í viðbót.

01.11.04
Ljósmyndasafn Rvk er með grúví ljósmyndavef. Þar má sjá allskonar bítl og hippa og fleira flott. Hér er t.d. Gunnar Jökull með Trúbrot um Hvítasunnuna 1972 í miklu stuði:

---
Hugsa sér það. Maður var bara einu sinni með Bonnie & Clyde í líkamsrækt. Ég er að tala um Kristinn og Sólveigu. Við þrjú vorum einmitt einu sinni alltaf á sama tíma í góðærisræktinni Planet Pulse. Það var lítil hola en átti að vera hi-klass, enda nuddarar af erlendur bergi sem nudduðu mann í heitum potti eftir æfingar, og verðið himinhátt nema maður væri að vinna á Skjá einum. Þetta var pínulítið og maður alltaf utan í næsta manni, annað hvort Dorrit Mússajeff, Björk eða þeim þarna bensínglæpons. Auðvitað litu þau aldrei í áttina til manns þó pungurinn á manni sveiflaðist fyrir framan nefið á þeim, nema Sólveig heilsaði einu sinni óvart. Kristinn ægilega gullið boddí með diskólokkinn sinn og vondu samviskuna, en Sólveig í sokkabuxum, fölnað diskóblóm sem var strítt með pappalöggum og gullklósetti. Hamingjan skein nú ekkert af þeim, enda alkóhólistar að mér skilst, og a ha, einmitt, trúlegt að Sólveig hafi bara ekkert vitað um "hundsbit" karlsins. Auðvitað þarf svo engin að gjalda fyrir glæpi sína – samtrygging, Þórólfur í hinu liðinu í kafi í þessu líka og því er gerður díll: Við ráðumst ekki á Þórólf ef þið haldið kjafti um Kristinn, allir stjórnmálaflokkarnir veikir fyrir í þessari ormagryfju – og fara ekki einu sinni til helvítis, því það er ekki til. Ég held Atlantsolía ætti að setja upp nokkrar bensínstöðvar í viðbót því maður hunskast þangað þar til einhver verður lokaður inni út af þessum 40.000.000.000 sem búið er að stela af þessari 290.000 manna þjóð. Það eru víst 137.000 kall á kjaft, eða svona 34 fullir tankar á fólksbíl. Og það bara ef miðað er við að hver einasti kjaftur á landinu eigi bíl, sem er svona nokkurn vegin staðan en þó ekki alveg. Hvenær verður "Ókeypis vikan á Shell, Essó og Olís til að bæta upp fyrir glæpi okkar"?

31.10.04
Eintómar Peel-sessjónir á topp 5 þessa vikuna:
David Bowie - Oh! You pretty things
White Stripes - I'm finding it harder to be a gentleman
Sykurmolarnir - Delicious demon 
The Fall - Clasp hands
Joy Division - She's lost control
--- 
Fór að dæma hljómsveitarkeppni í FVA (Tæfurokk) á föstudaginn með miklu rokkgengi; Arnar E, Smára tarfi, Kiddu rokk, Óla Palla og Eiríki Guðmundssyni trommara Tíbrá. Kvennahljómsveitin Skaðrót bar sigur úr bítum. Bjögga-sagan var á sínum stað: Einu sinni gekk Björgvini illa að fá borgað eftir ball. Dansleikjahaldarinn spurði hvort Bjöggi ætlaðist til að fá borgað undir borðið og þá á Björgvin að hafa sagt: Undir borðið, yfir borðið, til hliðar við borðið, ég fann upp helvítis borðið. Einnig var slúðrað um hljómsveitir sem hingað eru væntanlegar á næsta ári og bera þar AC/DC, U2 og Rolling Stones hæst, en einnig ættu dauðarokkarar að gleðjast því bæði Cannibal Corpse og Obituary ku á leiðinni. Gríðarmikið rokk.
---
Þá var það fyrirsögnin sem einn var að spá í að nota á dóm um Kalla Bjarna-plötuna: "Háseta vantar pláss"...

28.10.04
Smávægilegar minningar #1: Tryggvi Þór Tryggvason, gítarleikari Fræbbblana og söngvari F/8, spurði mig einu sinni hvort það væri ekki betra að tannbursta sig upp úr heitu vatni en köldu. Fólk þvoði jú upp með heitu vatni en ekki köldu og því hlyti það sama að gilda um postulín tannanna. Mér dettur þetta alltaf í hug þegar ég læt óvart renna heitu vatni á tannburstann minn, sem gerist nú reyndar ekki oft.
---
Doktor Doktor er að vanda á dagskrá Skonrokks FM90.9 á morgun, laugardag, á milli 12 og 15. Þáttinn verður að þessu sinni tileinkaður útvarpsmanninum John Peel sem lést sl. mánudag, 65 ára gamall. Peel var
kunnur fyrir einn víðfeðmasta músiksmekk sem um getur og var ákaflega opinn fyrir nýjungum og upprennandi hljómsveitum. Margar af stórstjörnum dagsins í dag fengu sitt fyrsta breik í þáttum hans á BBC. Þeir sem hlustuðu á hann gátu ekki annað en hrifist með fjölbreytninni og því hversu gaman hann hafði af þessu öllu saman. Hann var ferskur fram á síðasta dag, spilandi brjálað spíttmetal við hliðina á gabbageðveiki, framsæknu rokki, tölvupælingsmúsik, slögurum og eldgömlu stöffi af 78 snúninga plötum. Það besta við þættina hans var að maður vissi aldrei hvað kom næst, en keypti það allt.

Sjálfur nýtti ég hvert tækifæri sem gafst til að hlusta á karlinn. Náttúrlega notaði maður tækifærið þegar maður var í Englandi og þegar BBC World service náðist hér um tíma mátti heyra samantekt úr þættinum á
sunnudögum. Með blessuðu internetinu opnuðust svo allar dyr og loksins var hægt að hlusta almennilega. Það tottar "fyrir allan peninginn" að þáttur Peel sé dottinn úr loftinu, en svona er þetta. Menn deyja. Skerí.

Peel verður minnst með því að spila eitthvað af músik sem tekin var sérstaklega upp fyrir þættina hans (hin frægu Peel sessions) og einnig með því að spila eitthvað af því efni sem hann fílaði hvað mest og birti m.a. í sérstökum Peelennium-lista um aldarmótin. Þar tók hann saman bestu lög síðustu aldar, 4-6 lög á hvert einasta ár.

Að vanda verður svo óskalagagestur í þættinum Doktor doktor, nú er röðin komin að Ómari Swarez úr Quarashi og verður gaman að heyra hvað hann dregur í hús.
---
Nýr háspekilegur kjallari birtist í DV í dag.

26.10.04
John Peel, útvarpsmaðurinn frábæri, látinn, 65 ára. Fékk hjartaslag í Perú, ömurlegt rugl. Hvað á maður þá að hlusta á? Var einn ötulasti aðdáandi The Fall og með einn glæsilegasta tónlistarsmekk sem um getur. 
---
Edduruslið ákvað að sniðganga Popppunkt í þetta skiptið og tilnefna Pop Idol frekar. Pop Idol! Síðan hvenær eru kóverplötur tilnefndar til íslensku tónlistarverðlaunanna? Æ jú, Björgvin síðast. Bót í máli að nú þarf maður ekki að mæta á þetta glataða Eddupartí. Tvíhöfði ætlar annars að efna til Gullkindarinnar og verðlauna það besta af því versta. Trúi að það verði mun meira sannfærandi keppni. 

25.10.04
Bingóið á S1 er eins og Kolaport sjónvarpsþáttana. Alþýðlegt, væt-trass og á spítti. Frekar mikið antíklæmax þó að fyrsti vinningshafinn hafi unnið málningadós. Ég hafði nú bara prentað út 3 spjöld fyrir mig en Naglbíturinn var á svo hörðum efnum að ég hafði ekki undan að merkja við. Kúl it mar. Kannski vinnur maður sér upp bingóhraða, en það er allavega næsta pottþétt að ég glápi á eitthvað á þetta rugl í framtíðinni. Fá mér kannski tattú. Mér skilst að 250.000 kall sé hámarkið sem tattúdraslið má kosta. Einn vildi fá sér tattúið "bjórflaska x100", semsé 100 bjórflöskur (verðmæti 16.000). Eru engin takmörk fyrir því hvað fólk eru miklir fávitar? En ég væri svo sem alveg til í að eiga tvöfaldan ísskáp með klakavél og myndi það ekki líta vel út á kálfanum á mér?
---
Fyrir nokkrum mánuðum fannst mér Ingvi Hrafn ömurlegur en nú finnst mér hann bara fyndinn. Líka Hannes Hólmsteinn og allt þetta lið maður. Hvað ætli maður nenni að finnast eitthvað fólk ömurlegt þó það sé það kannski. Þetta endar allt í gröfinni hvort eð er og iðrast og sér kannski sannleikann á grafarbakkanum. Þótt það sé náttúrlega engin sannleikur til. Allavega, Ingvi var með þáttinn Bingó lottó og Unun spilaði einu sinni hjá honum. Fannst það frekar lélegt að Ingvi heilsa ekki upp á okkur fyrir sjóið (hann var þarna á vappi), en í staðin sáum við framan í gaurinn sem "lék" Bingóbjössa, lukkudýrið hans. Súrt. 
---
Uppgötvaði um helgina hvað ég er orðin mikill karlfauskur. Nennti nefnilega ekki út úr húsi til að glápa á dýrðina á Iceland Airwaves en sá tvær videómyndir í staðin. Sorglegt en satt.
---
Það er orðin hefð að fara á brettið á sunnudögum og horfa á Egil stjórna liði að tuða. Finnst tuðtíminn á S1 mun meira óspennandi. Egill er framúrskarandi tuðmeistari og skemmtilegur penni eins og sjá má hér. Össur að tuða við Guðna tottaði samt, svoddan helvítis klisjur í gangi. Á leiðinni úr WC mætti ég Össuri. Hann strauk sér um magann og sagði að við myndum báðir verða æðislegir eftir allar æfingarnar í WC. Ég hrósaði honum fyrir að vera ekki jafn spikfeitur og hann var en hann sagðist ekki vera á Atkins, heldur á kommon sens kúrnum. Össur og Ingibjörg eru nú eiginlega skást af þessu liði, held ég, bara verst að þau ráða engu. Það er verið að segja að lýðræðið í USA sé skítt út af þessu þingmannaræði, eða hvað það er kallað, að þar sem 30 þingsæti eru í boði og staðan er 16/14 þá fá þessir sem eru með 16 alla 30, en þessir með 14 fá ekki neitt. En er þetta ekki nákvæmlega eins hér? Stjórnarandstaðan sem var kannski með 14 á móti 16 hinna gera lítið nema tuða og nöldra en hafa engin völd og engin áhrif. Það mætti eiginlega bara senda þetta lið heim og spara fyrir skattgreiðendur. Lýðræði er rugl. Allavega þessi tegund. Ekki það ég hafi lausn eða hafi hugsað mikið um þetta. Síðan kom Jón Baldvin í settið hjá Agli og kom fyrir eins og voðalegt séní. Bara verst að hann er alkóhólisti. Og var þar að auki hundleiðinlegur þegar hann var í stjórn, minnir mig, og því varla nein framtíðarvon. Þetta eru allt asnar. Guðjón.

24.10.04
Topp5! þessa vikuna:

Fræbbblarnir - CBGB's: Af nýju fræbbbla-plötunni DÓT (3ja stúdíóplatan). Kemur út eftir helgi. 16 hressandi stuðlög - allir út í búð.

The Go! Team - Junior Kickstart: Spennandi 6tett frá Brighton. Fyrsta platan heitir Thunder, Lightning, Strike og er nýkomin.

Bow wow wow - c30, c60, c90 go!: Eðal örlíeitís og yrkisefnið tímabært þótt með öðru sniði sé í dag. Í þessu lagi var fólk hvatt til að taka upp á kasettur en nú brenna menn. Félagsskapur sem kallar sig Netfresli er kominn í málið.

Aberfeldy - A friend like you: Frá Edinborg. Poppað stuð. Af fyrstu plötunni, "Young Forever".

Deep Dish - Flash dance (Original mix): Smá hlaupabrettateknó. 

22.10.04
Í svona súperveðri eins og í gær var ekki hægt að húka inni fyrir framan tölvuna. Fór því upp á Helgafell í Hafnarfirði sem er dúndurstuð. Þarna uppi er eins og maður sé að labba á bráðnu súkkulaði. Sandsteinninn er þannig, bylgjast um brúnn og rennisléttur. 40 mín upp, 60 mín niður því ég þjáist af jafnvægisskorti á niðurleiðum. Skrifa það alfarið á ökklabrotið 95/96.
---
Hinn dýrmagnaði músikþáttur DR DR er á dagskrá Skonrokks á morgun á milli 12 og 15. Villt og galin dægurtónlist fyrir magnað stuðfólk eins og þig. Óskalagasjúklingur þáttarins verður engin annar en Valli í Fræbbblunum að gefnu tilefni: Ný Fræbbbla-plata (Dót), heimildarmynd og svo innflutingur á Stranglers í desember.

20.10.04
Hættulegustu djobb í heimi: 2. Hjálparstarfsmaður í Írak. 1. Ritstjóri DV. Ég ætla rétt að vona að Mikki sé að fá eitthvað fyrir þetta.
---
The Fall gera upp við fyrstu Íslandsheimsókn sína...
---
John Kerry var einu sinni bassaleikari í sörfbandinu The Elektras. Meira hér.

18.10.04
Fáðu útrás og buffaðu Bush (og Kerry).
---
Það er kominn vetur. Til hamingju með það.
---
Valli í Fræbbblunum að flytja inn Stranglers. Glæsilegt. 

16.10.04
Topp 5 kynnir: Iceland airwaves spezíal:
Æla - Magnarinn: Æla eru ekki með stæla heldur æla út úr sér háfræðilegu pönk eins og þessu. Einar Örn beware.
Hot Chip - Take care: Stebbi stóð á ströndu var að troða strý o.s.frv. Tjillí skakk-orama. Breskt.
Unsound - Devote your life to a lost cause: Ein birtingarmynd popppunktsfræðingsins KGB, helv gott hjá stráknum. Hvenær kemur fokking platan?!
Þórir - Canada oh Canada (version II): Þórir hinn ungi frá Húsavík. Plata á leiðinni hjá 12 tónum. Mikill meistari. 
Kid Koala - Annie's parlour: Kanadískur plötuspilari. Grænmeti oná svínahaus. 
---
Það styttist í tónlistarrisagrautinn Iceland Airwaves og því verður DRDR lagður undir herlegheitin í dag. Til að kóróna stuðið mætir svo aðaldúddi Erveis, Þorsteinn Stephensen, um 14 með óskalögin sín. Í þættinum verða einnig kynnt tvö dönsk bönd, Epo555 og Powersolo sem spila á Grand Rokki í kvöld. Þau eru gefin út af Crunchy merkinu, sem hefur gert garðinn frægan með Junior Senior og The Ravonettes. 
---
Auðnuleysingjaðist upp á Móskarðahnúka í gær (XXX) og svo í Árbæjarlaug (XXXX). Ljótan punkt setti ég síðan yfir i-ið með því að halda framhjá Krúa tæinu mínu og fara á Mekong (X) í staðinn. Það voru vond býtti. Spilaði síðan á Ísfirsku nýbylgjunni þar sem gestir höguðu sér eins freðnar ýsur.

13.10.04
Popppunktsspilinu var blastað í Fréttablaðinu í dag. Til að það sé nú alveg á hreinu þá kemur spilið ekki á almennan markað fyrr en um miðjan nóvember.
---
Það eru 621 skilaboð í gestabókinni og í því tilefni er hér lagið 6:21 með hljómsveitinni S.H.Draum. Það var tekið upp í bílskúrnum (Eðlueyra) árið 1983 á öðru starfsári sveitarinnar. Greinileg Birthday Party áhrif enda platan Prayers on Fire þá nýkomin í hús. Ég gæti ekki munað textann þó ég stæði fyrir framan aftökusveit, en þetta er örugglega einhver unglingabölsýni sem á einfaldar rætur í þá staðreynd að stelpurnar höfðu hverfandi áhuga á samræði við mig. Ég svaf með útvarpsvekjara mér við hlið og þarna um sumarið vaknaði ég ískyggilega oft upp klukkan 6:21. Það oft að ég fór að hafa áhyggjur af þessu. Enn þann dag held ég að talan 6:21 muni tengjast dauða mínum á einhvern hátt (algjör steypa auðvitað). Að ég muni t.d. deyja kl. 6:21, eða farast með flugi númer 621, eða klukkan á brettinu verði 6:21 þegar ég hníg niður af því með slag, eða teljarinn á gestabókinni verði 621 þegar ég hrekk upp af. Bið gesti því um að afstýra þessu og bjarga lífi mínu.
---
Lagið er annars þróað upp úr djammi með hljómsveitinni The Birdiemen, sem var eiginlega ekki hljómsveit heldur eitt djamm í Eðlueyra 1981. Í bandinu voru ég (bassi, á þessum tíma kunnur sem Gunnar Infra) og æskuvinur minn Halli (söngur, gítar), Palli (trommur) sem bjó við hliðina á honum á Auðbrekku og strákur sem uppnefndur var "Böddi Bína" (Af því hann líktist "Bínu", sem var lögð í einelti eins og hann – Böddi var alls óskyldur Böbba dúfu, sem var ekki lagður í einelti – Böddi gerði reyndar ekkert á einu æfingu sveitarinnar en fékk að vera með í bandinu v/ eineltis (sem hét reyndar ekki einelti á þessum tíma því félagsfræðingar höfðu ekki fundið hugtakið upp)). "Hljómsveitin" djammaði nokkur spontant "lög" inn á kasettu og hljómaði ekki ósvipað og Captain Beefheart í gaggó eða hljómsveitin Fire Engines. Hvoruga sveitina vissu meðlimir um á þessum tíma. En hér er sem sé lagið The Birdiemen - Bruninn
---
Ísfirska Nýbylgjan!Ókeypis tónleikar í Iðnó annað kvöld (föstudagskvöld):

Lænöppið í heild lítur svona út (leikar standa frá um 20oo-02oo):

Spaztízkur raunveruleiki
Bmx
Eiríkur Örn Norðdahl
Skúli Þórðarson
7ói
The 9/11's
Reykjavík!
Dr. Gunni
Mugison
Sign

Fjörinu lýkur svo með balli ísfirsku kántrýsveitarinnar Unaðsdals, sem gerði garðinn frægann á "Aldrei fór ég suður" hátíð sl. vor. Þess má geta að sérstakur verndari hátíðarinnar er enginn annar en fulltrúi og framherji "gömlu" Ísfirsku Nýbylgjunnar; goðið Helgi Björnsson. Hugmyndin er tilkomin m.a. í kjölfar samræðna nokkurra vestfirskra vina og tónlistarunnenda sem þótti furðu sæta að svo margir frambærilegir
menningarpostular skuli streyma úr Skutulsfirði þessi misserin; það er í raun einstakt fyrir bæjarfélag sem telur vart 4.000 íbúa. (úr fréttatilkynningu)
---
Á morgun (kl. 10) hefst svo forsala á FALL giggið miðvikudaginn 17. nóv í Austurbæ. Vonbrigði og Dr. Gunni hita upp. Helvíti magnað helvíti! Forsalan er á Midi. Kostar 3200 kall.
---
Keypti 2 miða á Shadows fyrir tengdó í gær. Í sæti kostar miðinn 7500 kall, 6500 á palla.
---
Nú er Brian Jones dauður í Stones-bókinni sem ég er að lesa (Old gods soon dead). Hann var orðið ægilegt brak en samt lítur út fyrir að iðnaðarmaður sem var að vinna í húsinu hans hafi drekkt honum í sundlauginni. Iðnaðarmaðurinn játaði meira að segja á dánarbeði sínu ("I did Brian"). Í bókinni kemur Maríanna Feiðfúl fyrir eins og alger gála. Ríðandi öllum og út úr dópuð öllum stundum, missandi fóstur og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta með Mars-súkkulaðið í klofinu á henni í dópböstinu er hins vegar uppspuni. Reyndar eru þetta allt frekar sjeikí karekterar, nema helst Charlie Watts, sem kemur fyrir sem maður skynseminnar í ruglinu öllu. Vona að Ragnheiður Hansen láti nú drauminn rætast á næsta ári og taki bandið hingað. Myndi borga 7500 fyrir það. 12.000 jafnvel. 
---
Hér er hægt að kjósa í Bandarísku kosningunum. Eins og þetta lítur út eru þetta valkostirnir: Bush: Heimsendir / Kerry: Heimsendi frestað.

12.10.04
Ég er nú bara að horfa á fréttirnar á Stöð 2 og þar er sagt frá "landsleiknum": 0-1... 0-2... 0-3... Er nú ekki bara kominn tími til að hætta þessu og einbeyta sér að smáþjóðarleikunum?
---
Dópsalar er hinn áhugaverðasti staður. Bæti hér nokkrum sem ég kannast við við (við?):

Nonni stubbur sala/rukkari
Dóra stóra 
Jóhann Risi innfl/sala
Doddi draugur 
Simbi skítur sala (dóp/sígarettur)
Gunni rokk 
Eddi hnífur 
Kalli klessa
Tóti tuðra
Ziggi zóza
Systa sjóræningi sala/innfl/rukkari
Kiddi kindabyssa sala/innfl/rukkari
Óli hundaóli sala
---
Það er ókeypis í Þjóðminjasafnið á miðvikudögum. Þetta er hið vænsta safn og minnir á eitthvað erlendis, minjagripasala og kaffihús og allur pakkinn. Gamla safnið var nú ósköp þunglamalegt (eina þokkalega skemmtilega var beinagrindin) en þetta nýja svarar kalli tímans og poppar feitt. Gamla draslið í Þjóðó tók maður á fleygiferð (leiðinda kirkjurusl mest) en skemmtilegast var færibandið með nýjasta draslinu. Þar hópaðist líka fólk og gat bent og sagt "svona átti Dodda systir" og "manstu eftir þessu". Flestir vilja geta tengst við dótið sem þeir sjá. Kringlan og Smáralind eru auðvitað nýjustu deildir Þjóðminjasafnsins, þannig séð.

11.10.04
Í "dægurmálaþáttum" þoli ég ekki tvennt: a) Þegar fólk með hunda er dregið í stúdíó til að sýna kvikindin. Ísland í bítið er með þetta atriði að jafnaði einu sinni í viku. b) Eitthvað fólk er að elda eitthvað í stúdióinu á meðan einhver umræða fer fram og svo endar prógrammið á að fólk étur afraksturinn. Frullu dokking leiðinlegt.
---
Prótótýpan af Popppunktsspilinu er komið til landsins en upplagið sjálft leggur af stað til landsins í vikunni. Vorum að spila þetta áðan og sá ekki betur en að þetta verði geðsjúkt spil. Ógeðslega mikið af spurningum, popphjól og allur pakkinn.
---
Blessaðir mennirnir mega náttúrlega hafa þetta eins og þeir vilja, en ég er orðinn frekar leiður á þessu endalausa jesúvæli í eðal mönnum eins og Bubba Morthens, KK og Jóni Gnarr. Kannski er ég bara svona fúll af því ég hef aldrei getað aulað mér niðrá það plan að trúa á "æðri" máttarvöld (eða aldrei verið það desperat v/ óreglu?) og þar af leiðandi ekki fundið þá andlegu fullkomnun sem sagt er að trúin veiti. Að maður sé hreinlega vaðandi í villu og svima og eiginlega bara andlegt hálfmenni verandi ekki lesandi einhvern eldgamlan og hundleiðinlegan doðrant daginn út og inn og farandi eftir honum trúandi í blindni á gamalt andabull. Pirrandi tuð halelúja. Amen.

10.10.04
Topp 5 er hörku töff stöff að vanda, banana:
The Cops - Street panther: Hörku kúl stöff frá Sydney, Ástralíu. Nýtt band, þetta minnir á slagarann Hey Ya!, hitt stöffið virðist rokkaðra. Moðerfokking spennandi.
Jan Mayen - On a mission: Hörku flott lag af mjög fínni plötu þessara stráka. Platan heitir Home of the Free indeed og er til í öllum plötubúðum. Moðerfokking rokkandi.
TV on the radio - Walking the cow: Hörku svöl kóverútgáfa af þessum Daniel Johnston slagara. Af nýrri tribute plötu þar sem Beck og Flaming Lips og allskonar lið fara í geðfötluð spor meistarans. Moðerfokking strokkandi.
Brian Wilson - Roll Plymouth rock: Talandi um geðfatlaða þá er hér kominn einn á grensunni. Skemmdur er hann en með góðri hjálp er SMILE loksins komin út (sjá fjölmiðla). Hörku geðveik plata og skyldueign kröfuharðra. Moðerfokking japlandi.
Van Dyke Parks - The All golden: Hörku sýrt stöff frá textahöfundi Smile. Af plötunni Song Cycle sem var dýrasta plata í heimi þegar hún kom út 1968. (sjá nánar hér). Ef einhver getur sagt mér hverjir sömpluðu byrjunina á þessu lagi fá þeir vegleg verðlaun. Moðerfokking vætlandi.
---
Er annars að hugsa um að tileinka mér ögn flippaðri stíl í skriftum, vanilla. Með því móti, Ú É, get ég skapað mér moðerfokking sérstöðu í CRAZY heimi þar sem allir eru að doddi litli jarmandi eitthvað út um allt um fokking rassgatið á sjálfum sér. Pillaðar rækjur.

07.10.04
39. Þokkalega gamalt eitthvað. Þegar ég var tólf ára fannst mér stelpurnar í gaggó algjörar kellingar. Nú finnst mér allir fótboltamenn miklu eldri en ég. Hvað er það og hvar endar þetta eiginlega? Mun mér finnast sextugar kellingar rosa hott þegar ég verð sjötugur?
---
Fór annars á Gljúfrastein í tilefni dagsins. Gekk reyndar upp á Helgafell fyrst. Gaman að þessu Laxnesssafni. Ljóst að hann spókaði sig um eins og greifi á meðan Auður þrælaði. Ég þarf að fá Lufsuna inn á þetta sístem. Halldór var að vesenast út í móa og í matartímanum fór Auður út á tröppur með málmgjöll til að kalla karlinn inn eins og eitthvað smábarn. Voða mikið af bókum og myndum og heilögum anda. Gott útsýni. Laxi var góður. Sjálfan dreymir mig um svona púlt eins og hann var með. Gott að geta valið um að sitja á rassgatinu eða standa við púlt. Ætla líka að fara að hengja eitthvað upp af þessum myndum sem eru enn í geymslu. 
---
Svo fór fjölskyldan á Thank god it's Friday sem er nú bara besta hamborgabúllan í bænum. Punktur.
---
Hér má sjá lík rotna. Afar upplífgandi.
---
ps. Þórhallur miðill er svikahrappur. 

06.10.04
Hljómsveitin Dr. Gunni ætlar að þykjast vera frá Ísafirði (sem hún er reyndar, Kristján og Gummi ísfirskir, Grímur á ættir að rekja til Súðavíkur og ég til Ísafjarðar, auk þess sem konan mín er ísfirsk) og röknum því lítillega úr rotinu til að spila á voðamikilli Vestfjarðarveislu í Iðnó föstudaginn 15 okt. Þarna verða m.a. Mugison og The 9/11s, líklega eitthvað úr Grafík og sjálf Birgitta Haukdal, skilst mér, en hún vann í lúgusjoppunni Krýlið á Ísafirði fyrir heimsfrægð. Hljómsveitin Dr. Gunni mun síðan lítillega rakna aftur til að spila á undan Vonbrigði og The Fall í Austurbæ 18. nóvember (minnir mig). En annars er það óstaðfest. 
---
Best að fara þá að ná í magnarann sinn í viðgerð.

03.10.04
TOPP 5 á sunnudegi:
The Concretes - You can't hurry love: Eðalfínt kúlpopp frá Svíðþjóð. Minnir á Shangri-las, St Etienne og Cardigans. Plata góð. Heimasíða.
Nouvelle Vague - Too drunk to fuck: Franskt kóverlaga próject. Gamlar nýbylgjulummur í kaffihúsastemmingu. Endingargott. Heimasíða.
Klaatu - California Jam: Kanadískt 70s rokk. Voru með lagið "Calling occupants of Interplanetary crafts", sem Carpenters tóku síðar. Þetta er af fyrstu plötunni "3:47 EST" ("Klaatu" í Ameríku) frá 1976. Verulega gott stöff. Blaðamenn fóru að halda því fram að Klaatu væru Bítlarnir endurvaktir. Skapaðist nokkur spenna um bandið af þeim sökum en spennan lognaðist út af þegar hið sanna kom í ljós. Fín plata engu að síður. Veit ekki um hinar 4 sem bandið pumpaði út þar til það hætti 1981. Eru nokkur legend á Toranto svæðinu. Heimasíða.
The Human League - Being boiled: Fyrsta síngla þessarar Sheffield syntara (1978). Funheitt og stórkostlegt. Heimasíða.
The Delgados - Everybody coming down: Dreymið Glasgowpopp. Fínt stöff í dagsins önn. Á samningi við Flugleiðir. Heimasíða.
---
Austurlensk áhrif eru alsráðandi í Kolaportinu. Öðruvísi mér áður brá. Nú hvernig brá þér þá? Svona: Búh!

02.10.04
Baggalútur er nú kominn í loftið á ný á netinu, sem er húrrandi fínt. Þótt skömm sé frá að segja er netið mun betri "vettvangur" fyrir karlana því í útvarpinu var þetta einum of he he eitthvað.
---
Það er nú alveg ótrúlegt hvað tölvan er orðin spræk eftir yfirhalningu hjá Tölvuvirkjanum í Kópavogi. Þetta er nú bara ekki sama tölvan, segi ég. Annars er hinn dúndurmagnaði DRDR í dag, en bara til tvö því þá er moðerfokking fótboltaleikur. Engin gestur í dag en þess meiri mússikk, og hvílík snilldarmússikk, segi ég. Ég mun líka heiðra lítillega afmælisbörn dagsins sem eru ekki af verri endanum: tveir bestu trommarar landsins Biggi Baldurs (41) og Sigtryggur Baldursson (42), Phil Oakey (49) (Sá Human League í höllinni, man bara eftir því þegar mynd af Ramones kom á tjald fyrir aftan bandið og man líka hvað mér fannst söngkonurnar lélegar, en annars eru fyrstu lög bandsins mikil snilld), ruslapönkarinn John Otway (52), Sting (53, var góður með Police) og Richard Hell (55, fyrsti pönkari í heimi?). Innilegar hamingjuóskir öllum til handa!!!

29.09.04
Nenni ómögulega að æsa mig yfir þessu með Jón Steinar. Svo held ég að hann sé ekkert ómenni og meira líf í honum en þessum fúnu slyttum sem voru í boði. Gamli nágranni minn Hjördís hefði svo sem alveg mátt fá þetta djobb mín vegna. 
---
Allt í steik á eyjunni Pitcairn. Mæli með þessum lestri og þessum ef menn hafa á annað borð áhuga á lífi 45 hræða á afskekktustu eyju í heimi.
---
Er loksins byrjaður að lesa sögu Rolling Stones, Old Gods Almost Dead, eftir Stephen Davis. Algjör snilld eins og saga Aerosmith sem hann ritaði einnig. Þá er bara að loka hringnum og fá sér bókina sem hann skrifaði um Led Zep.

26.09.04
TOPP 5, góðan daginn:

The Knockout Pills - Target H: Þessir rokka eins og rófulausir hundar. Eru frá Arizona og svaka töff. Heimasíða.

The Zombies - Changes: Svimaaukandi stórsnilld af meistaraverkingu Odessey and Oracles. Ein besta plata sixtísins. Heimasíða.

The Brunettes - I Miss My Coochie Coo: Dúett frá Nýja sjálandi. Hafa gefið út tvær LP (2002, 2004) og eina EP, Boyracer (2003). Þetta lag er af henni. Heimasíða.

The Birthday Party - Cry: Nick Cave er búinn að gera nýja plötu. Hlustum á þetta að því tilefni. Af Prayers on Fire, 1981. Gaman þegar æskan og heróínið leggjast á eitt.

Mousse T feat. Emma Lanford - Is it cos I'm cool? (Original Mix): Þrælgott hnakkapopp. Heyrði þetta í ræktinni á bretti og linnti ekki látum fyrr en ég vissi hvað þetta var og hafði niðurhalað. 

25.09.04
Ceres 4 verður óskalagasjúklingurinn í DRDR í dag. Meiriháttar! Brjálað veður svo það er ekkert betra að gera en að hafa stillt á Skonrokk á milli 12 og 15.
---
Skrifa kjallara í DV á föstudögum uns annað kemur í ljós. Birti þá svo hér. Á sama stað hef ég sett inn teiknimyndasögurnar sem ég gerði á árum áður og birtust í Gisp!

23.09.04
Þeir eru nú meiru paranojuvitleysingarnir þessir Kanar. Mig dauðlangar að lofa sjálfum mér að fara ekki til Ameríku fyrr en Bush er farinn frá, en er einum of sjálfselskur fyrir svoleiðis loforð. Allir hafa heyrt þetta með Cat Stevens (sá eðalmaður, hef verið að hlusta á Catch Bull at Four í morgun), en það fer minna fyrir því að progghljómsveitin Marillion var líka um borð og tjáir sig um málið hér.
---
Tilkynning til sjófarenda:

21.09.04
Fór á nasistamynd. Það var leiðinlegt.
---
Japönsk trommuheilakennsla. "This is Rock n Roll". Möst sí!

20.09.04
Taska bítlarótarans Mal Evans sem fannst á flóamarkaði í Ástralíu og komst í fréttirnar nýlega virðist bara hafa verið feik. Eða svo segir allavega hér...
---
Kvikmyndasafnið er með bíósýningar í Bæjarbíói í Hafnarfirði og ég er að spá í byrja að setja þetta inn í prógrammið. Annað kvöld er t.d. víðfræg kynningarmynd Leni Riefenstahl á starfssemi Nasistaflokksins og ég er að hugsa um að láta heilaþvo mig þannig að ég komi gæsagangandi út síg hælandi úr í eitt. Hér má lesa sér til um hið dúndurþétta prógramm.
---
Hvernig er annars hægt að gleyma strigaskónum sínum í líkamsræktinni?
---
Það var kominn tími til að Kattakonan yrði aðalmálið á forsíðu á DV. En hvar er Moli flugustrákur?
---
Er að hugsa um að byrja að kynna mér blús, þ.e. orginal gamlan blús en ekki Vini Dóra. Tók mér Robert Johnson og Elmore James á bókasafninu. Held ég sé í góðum málum.

19.09.04
Topp 5, góðan dag:

Ceres 4 - Savannah: Heilsupönkarinn Ceres 4 mættur aftur með nýja og góða plötu. Öll lög eftir Frey Eyjólfsson en Ceres gerir texta. Hér er handþvalur ástaróður til ógæfukonu.

Taugadeildin - Guðir hins nýja tíma: Stórfengleg nýbylgjuhljómsveit sem var hætt áður en Rokk í Rvk var gerð og missti því af eilífðinni. Gerði 4-laga 7" 1981 sem er mögnuð. Í draumum mínum handleik ég LP-plötu með Taugadeildinni. Þetta ætti að kenna böndum að gera albúm áður en þær hætta, hvar er t.d. platan með Náttfara?

Kas Product - Never come back: Franskur nýbylgjutölvudúett. Últra svalt og sjarmerandi. Kom út 1982 á einu plötu sveitarinnar, "Try Out".

Sons and Daughters - Johnny Cash: Skoskur kvartett í hráu deildinni. Af fyrstu plötu þeirra, "Love the Cup" (2004).

Stevie Wright - Evie: Stevie er legend í ástralíu. Söng með Easybeats (þeirra Hljómar), en meikaði það feitt 1974 með þessari stórfenglegu epík. Lag í þrem hlutum og segir allt sem segja þarf á 11 mínútum. Kaflarnir heita 1: Let Your Hair Hang Down, 2: Evie og 3: I'm Losing You. Stevie hefur verið í tómu rugli (heróín etc) en er þurr annað slagið og fer þá á tónleikatúra. Mikill sjó-maður er sagt, rokkari mikill.
Flýttu þér svo að niðurhala því þetta verður horfið eftir viku!

18.09.04
Er ekki verið að gera grín? Er Beach Boys að koma til Íslands?! Eða öllu heldur Beach Boys að nafninu til. Beach Boysið sem Mike Love starfrækir ásamt sessionliði og Bruce Johnston, en sá gaur tók við af Brian Wilson sem bassaleikari á tónleikum þegar Brian snappaði 1965? Þetta er nú álíka frábært og ef The Beatles ættu að spila í Laugardalshöll og þar væri trommarinn Pete Best á ferðinni með sessionliði. Nei í alvöru talað, afhverju ekki frekar að fá Brian Wilson með sitt geðveika sjó hingað en ekki þetta útvatnaða nostalgíurúnk Mike Love? Ég hef lesið nokkrar biografíur um Beach Boys og allstaðar kemur Mike Love fyrir eins og fyrirlitlegur skúrkur, hæfileikalaust fífl sem væri að vinna á bensínstöð í dag ef Brain Wilson, frændi hans, hefði ekki dregið hann frá dælunum og í þetta vinsæla band. Mike Love samdi einhverja texta og söng slatta af lögum, en virðist aðallega hafa haft áhuga á að græða á þessu og vildi t.d. alltaf hjakkast í gamla stuðfarinu á meðan Brian Wilson var að fara út fyrir sólkerfið í sinni sýrulegnu poppsnilld. Mike virðist þó hafa vélað út réttinn á nafninu og túrar nú um með The Beach Boys Band. Annar orginal meðlimur, Al Jardine, túrar líka um með sína útgáfu, en Brian Wilson, sem var bæði Lennon, McCartney og Harrison Beach Boys, túrar undir eigin nafni með 20 manna hljómsveit. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Auðvitað mætir maður á þetta og svona, og ég vil ekki vinna gegn hagsmunum þeirra sem standa að þessu, en vitanlega hefði verið nær lagi og tímabærara að fá Brian Wilson hingað, sérstaklega þar sem hið óútgefna meistaraverk hans Smile kemur út e. 10 daga, hafandi legið óklárað sem stærsta mistería rokksins í 37 ár.
---
Í DRDR í dag (milli 12-3 á Skonrokki) verður úrvalsstöff í boði og óskalagasjúklingarnir tveir að þessu sinni, tveir Hjálmar (raggae-hljómsveitin góðkunna). Dúndur þáttur í aðsigi.
---
Meistararnir í Hagkaup gleðja mig nú með "Amerískum dögum", flagga fána heimsveldisins í hyllunum sínum og bjóða uppá dótið sem gerir þjóðina þá feitustu í heimi. Þeir auglýsa: "Nú þarftu ekki að fara til Bandaríkjanna," sem er auðvitað rugl, en þetta er engu að síður auðvitað æðisgengið framtak. M.a. er boðið upp á nýja rótarbjórstegund, A&W, sem er enn ein lágvörutegundin, en alveg þokkaleg. Annað geðveikt er Starbucks kaffi sem svoleiðis smakkast eins og milljón bökks. Magnþrungið. Það er skemmtilegast að versla í Hagkaup.

17.09.04
Voðalegt dauðavesen er þetta á mönnum. Nú er Johnny Ramone dauður og því engin séns á kombakki. Johnny Ramone, 1948-2004, enginn stóð gleiðari.
---
Það er því stórfengleg fregn sú að útigangsmaðurinn Tryggvi "Róni" sé ekki dauður. Ég hafði ekki séð hann árum saman, en sá hann svo á strætóstoppistöð. Ég hélt það væri draug-sýn, en svo sá ég líf hans staðfest í blaði. Vinur minn hélt því fram að ógæfa Tryggvi væri tilkomin af því hann er ekki með neina höku en ég sel það ekki mjög dýrt. Ég sá fallega sýn einn morguninn er ég var að fara til vinnu á DV Fókus, eitt sumar fyrir fimm árum síðan, eða svo. Maður var alltaf mættur eldsnemma (best þótti að mæta á undan Jónasi, en hann mætti þetta kl. sex) og því var sólin nýkomin upp og varpaði sér yfir borgina. Á Rauðárstígnum sá ég aftan á Tryggva á hjólinu með gettóblaster á stýrinu sem út kom þessi rosa háværa óperutónlist. Þetta var eins og ógleymanlegt atriði í klassískri ítalskri bíómynd, nema í lit.
---
Talandi um róna, þá bjó einn alveg við hliðina á mér einu sinni, hálf áttræður maður sem hélt stanslaus amfetamínpartí. Það var ekkert sérlega mikið ónæði af honum eða hyskinu sem partíaði með honum, fyrr en hann var dauður. Þá hætti reyndar partíið en einn gamall róni mætti samt á hverjum degi og oft á dag og vildi komast í partí. Barði þá allt utan og æpti nafn dána rónans ámátlega. Svona gekk þetta í margar vikur. Einu sinni bankaði hann meira að segja upp á hjá mér og þá missti ég stjórn á mér, snaraðist út á náttsloppnum og bar karlgarminn æpandi út á götu (ég bjó í bakhúsi). Ég hringdi á lögguna í fimmtu vikunni, en það var alveg saga hvort ég eða löggan segði honum að vinur hans væri látinn, alltaf mætti hann samt og vildi komast í partí. Einhver partíþyrstasti maður sem ég hef kynnst. En svo gufaði hann bara upp, hefur líklega fundið vin sinn í amfetamínpartíi í "næstu vídd" (é ræt).
---
Í næsta húsi bjó svo enn annar róni, sem enn er að og alltaf í góðu stuði. Hann gengur undir nafninu "Óðinn" og snýkir oft af manni smáaura. Ég sá einu sinni og heyrði gullfallega rónasýn þegar krakkar í hverfinu bönkuðu hjá honum og sungu eitthvað og hann kom út og söng á móti. Eitthvað í áttina að "Hver er að banka?" - "Krakkarnir banka" og einhver steypa. Gullfalleg sýn, en ég er ekki viss hvort mig dreymdi þetta eða ekki.

16.09.04
Fékk hita og lá sveittur í heilan sólarhring. Fékk nokkrar sæmilegar sýrumartraðir á meðan eins og vill henda. Er bæklaður í vinstri hendi af sílegu. Best að drattast í WC eins og fáviti.

13.09.04
Topp 5 en nú með örlítið breyttu og bættu sniði. Í stað ram-fæls sem hafði öll lögin fimm er nú hægt að dánlóda einu og einu lagi og það í geisladiskabrennandihæfum mp3-gæðum. Lögin munu þó eingöngu liggja á netinu í viku (eða þar til næsti Topp5-listi er settur upp) svo það er um að gera að dánlóda strax.
The Fall - Contraflow: Fallarar í Austurbæ 18 nóv og því mikið kynningarátak framundan. Hljómsveitin er stórkostleg! Hér er lag af nýjustu plötunni - The Real New Fall Album (Formely Country on the Click) - sem er ein af þeirra bestu plötum. Jamm og jes!
Black Keys - 10 A.M. Automatic: 2 gaurar frá Akron, Ohio, Af glænýrri plötu, Rubber Factory. Lepur ekki dauðan úr skel rokksins, þetta sparkírass.
Daisy Hill - Crusher: Hér er lag af 12" frá 1989. Jói Daisy (Dís, Apparat) var hjá mér í síðasta Dr Dr og því finnst mér rétt að bjóða upp á gamla sjaldheyrða snilld með fyrsta bandinu hans.
Blonde Redhead - Magic Mountain: Þau verða í Austurbæ eftir viku. Það er uppselt á giggið á sunnudaginn en miðar til á mánudagsgiggið. Massaband. Lag af síðustu plötunni þeirra. 
Guðmundur Haukur - Fjallajurt: Setti þetta á stafrænt að gamni mínu og þetta var fyrsta innslagið í dagskrárliðnum Úr glatkistunni í DRDR. Platan kom út 1971-72 og er sólóplata þessa manns, sem var í hljómsveitinni Roof Tops á þessum tíma. Síðan kenndi hann mér íslensku í kringum 1980 og skipaði mér að þrífa Don Martin teikningar af skrifborði. Veit ekkert hvað hann er að gera í dag, en sólóplatan (útgefandi Scorpion Records) er ágæt. 

11.09.04
Uppfærði hlekkjasíðuna.
---
Sé í DV að Jakobi Grétari tókst að draga það út úr Grími Atlasyni að The FALL eru að koma til landsins og spila hér í nóvember. Þetta eru stórfengleg tíðindi enda heilt 21 ár síðan bandið spilaði hér síðast. Sá bandið bæði þá og 1981 og bæði giggin voru einmitt í Austurbæ og bæði algjörlega frábær. Nýjasta platan með þeim (eða honum öllu heldur, því Mark E Smith er allt í öllu og eini orginal meðlimurinn) er líka frábær svo það er engin ástæða til annars en að búast við geðveikri snilld á þessum tónleikum.

10.09.04
Ætli flestir eigi sér ekki hetjur í lífinu. Ég á nokkrar og hef á ákveðnum tímabilum í lífinu "tekið æði" í sambandi við þetta fólk. Hér koma nokkrar af mínum hetjum í tímaröð, en vissulega er fullt af öðrum hetjum...

Halldór Pétursson
Ég var sex ára þegar Fischer Spassky geðveikin reið yfir íslenskt samfélag og vitaskuld varð ég gargandi spenntur yfir þessu öllu saman eins og þjóðin öll. Mest þótti mér til teikninga Halldórs Péturssonar koma og hafði miklu meiri áhuga á þeim en sjálfu skákdrullinu. Ég fór að stæla teikningar Halldórs í skóla og gekk undir nafninu "Litli Sigmund" meðal kennara Kópavogsskóla (sýnir nú bara hvað þeir voru vel með á nótunum). Halldór er stórfenglegur snillingur og ég er ennþá að safna í mig kjarki til að hringja í ættingja hans og falast eftir orginal teikningu. 

Hergé / Tinni
Hvaða 8 ára strákur fellur ekki fyrir ungum blaðamanni sem hefur aldrei verið kenndur við kvenmann og bestu vinir hans eru drykkfelldur sjóari, þroskaheftir tvíburar og kolgeðveikur prófessor? Ég á Tinna-komplett og eitthvað af rándýru aukadrasli. Langtíma markmið er að komast á Tinnasafnið í Belgíu. Svo hef ég heyrt að Hergé hafi eitthvað fengist við abstrakt málun og væri nú aldeilis til í að sjá það stöff.

Bítlarnir
Fyrsta hljómsveitin sem ég féll gjörsamlega fyrir, líklega svona 10-11 ára. Eldri systkini mín áttu einhverjar litlar plötur sem ég hékk yfir og svo stal ég litlum bítlaplötum frá eldri systkinum vina minna. Ég hafði ekki efni á öðru en litlum plötum og man ég fór á milli plötubúða í Reykjavík og spurði hvort það væru til litlar bítlaplötur. Því var ekki að fagna á þessum tíma. Mikill fengur var í tvöföldu "rauðu og bláu" safnplötunum, sem ég eignaðist fljótlega. Síðan hef ég auðvitað komplíterað safnið og er ekkert að flækja þetta: Bítlarnir eru besta hljómsveit í heimi. Vissulega mjög ófrumleg skoðun. Stefni á að sjá Paul McCartney á sviði.

Don Martin
Tók æði fyrir Mad og teiknarinn Don Martin var í miklu uppáhaldi. Fór ekki ófáar ferðirnar í fornbókabúðir borgarinnar að kaupa bækur og blöð. Stældi Don Martin-kallana í tíma og ótíma, t.d. í skóla. Man að kennarinn Guðmundur Haukur rak mig til að þvo skólaborðið sem ég var búinn að útata í blýantsteikningum. Guðmundur Haukur var annars í poppinu (Roof Tops, Alfa Beta) og hver veit nema það heyrist í honum á morgun í þættinum Doktor Doktor. Á annars ekkert af þessu Mad dóti lengur.

Andy Partridge
Tók æði fyrir hljómsveitinni XTC en Andy þessi er aðalgaurinn í þeirri sveit. Man ég keypti fyrst litla plötu með þeim á Steinars-útsölu í Iðnaðarmannahúsinu, Hallveigarstíg, ca 1979, og þá var ekki aftur snúið. Bandið var stofnað 1977 í Swindon á Englandi og er enn að. Hafa aldrei slegið almennilega í gegn en næst komust þeir því með lögunum Senses Working Overtime og Dear God. Kannski er aðalástæðan fyrir þessu sláígegn-leysi sveitarinnar að Andy er kvíðasjúklingur og hætti snemma á ferlinum að geta komið fram. Ég á allar plöturnar, en get ómögulega sagt að ég bíði spenntur eftir næstu plötu með sveitinni, þó ég fái mér hana eflaust af gömlum vana.

Nick Cave
Tók mikið æði fyrir Birthday Party, hljómsveitinni sem Nick leiddi, eftir að ég keypti plötuna "Prayers on Fire" í Safnarabúðinni (Þökk sé Allah fyrir Safnarabúðina). Var síðan þokkalega sáttur við fyrstu sólóplötur Nicks, en svo minnkaði áhuginn og ég nennti ekki einu sinni á hann þegar hann spilaði hér nýlega. Er á því að það hafi verið mistök og myndi fara ef hann kæmi aftur. Mun eflaust athuga nýju plötuna hans.

Guðbergur Bergsson
Fékk mikið æði fyrir Gubba djöfli, eins og ég kalla hann, á fyrri hluta 9. áratugarins, ætli bókin "Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans" hafi ekki kveikt neistann. Ég met Guðberg aðallega á húmorískum forsemdum og hvað hann er alltaf fruntalegur og nákvæmlega sama um ríkjandi skoðanir. Hann er eini núlifandi snillingurinn á Íslandi, segi ég óhikað. Bíð spenntur eftir næstu bók til að lesa og setja svo upp í hyllu við hliðina á allri hinni snilldinni.

John Waters
Sökk mér í heim þessa snillings á tímabili, sá allar myndirnar og las bækur og viðtöl. Fáir eru jafn skemmtilegir í viðtölum. Reyndi meira að segja að safna eins yfirvaraskeggi en það gekk auðvitað ekki, enda með allt öðruvísi skeggrót. Sá nokkrar gamlar myndir aftur nýlega og það hefur nú ekki allt staðist tímans tönn. Bíð þó spenntur eftir næstu mynd.

Alfred Hitchcock
Tók langt æði og sá flest sem kallinn gerði. Las bækur og svona, keypti spólur í útlöndum. Er enn á því að North By Northwest sé besta mynd sem gerð hefur verið.

Steve Coogan
Nýjastur "inn á lista" er þessi breski grínari, eða öllu heldur týpan Alan Partridge, sem er hans hugarfóstur. Fyndnara stöff er vandfundið. Ég mæli með að fólk pæli sig í gegnum dvd-diskana "The Day Today", en þar sást fyrst til Alans. Kannski ekkert spes stöff samt þeir þættir. Næst erða svo gervi-sjónvarpsþættirnir Knowing Me, Knowing You, algjör snilld frá upphafi til enda, en bara 6 þættir í allt. Næst erða I'm Alan Partridge – 6 þættir. Nú er Alan búinn að missa sjónvarpsslottið á BBC og orðinn útvarpsmaður í Norwich. Geðveikislega gott stöff. I'm Alan Partridge önnur sería, 6 þættir líka, er svo enn í sama klassa, hróplega hlægilegt stöff. Vonandi kemur meiri Alan frá Steve Coogan, en hann hefur svo sem staðið sig ágætlega í 24 Hour Party People og í Coffee & Cigarette. Ég dauðöfunda þá sem eiga eftir að tékka á Alan Partridge, hvílík gleði sem þeir eiga framundan! 
---
Það er vandæðalegt að á þessum hetjulista er engin kona. Sorrí Femínistafélag Íslands, ég get bara ekkert að þessu gert.
---
Það er annars að frétta að á morgun verður útvarpsþátturinn DR DR að vanda. Gestur verður Jóhann Jóhannsson, eða Jói Daisy, sem nýlega gerði sándtrakkið í Dís. Jói mætir með skilyrtu óskalögin og svo verður bara heljarinnar stuð, m.a. tékkað á íslandsför I'm Being Good sem rokka hér úr sér lifur og lungu um helgina, t.d. í 12 tónum kl. 17 í dag.

09.09.04
Fiskar eru leiðinlegir. Allavega þessir fiskar sem svamla hér í nágrenninu. Nema djúpsjávarfiskarnir; þeir eru ljótir og kúl. Þegar koma fréttir um fisk og afla í sjónvarpinu frýs á mér heilinn og ég dett út. Mér er alveg sama hver á þennan helvítis kvóta eins lengi og það er borgaður af honum skattur.Ýsa er líklega leiðinlegasti fiskur í heimi og óétandi með öllu, bragðlaust drasl sem er eins og blautur pappír undir tönn. Það er í mesta lagi hægt að éta þetta í tómatsósubaði. Ýsan er fiskur kynslóðar foreldra minna. Mamma og pabbi elska ýsuna og mamma hefur margsinnis lýst yfir að hún væri til í að éta ýsu á hverjum degi. Sem betur fer er ýsan á útleið og allskyns nýbreytni að koma inn í fiskheima. Ýmsir snillingar hafa rutt nýbylgju fiskanna braut, Rúnar Marvinsson, Úlfar í 3 frökkum og hvað þeir heita þessir meistarar, og nú verð ég sérstaklega að minnast á búðina Fylgifiskar á Skólavörðustíg og Suðurlandsbraut. Þeir eru eins og Sigur Rós við hliðina á Steina spil annara fiskibúða. Fer stundum í hádeginu og fæ mér allskonar fiskmeti í dós og ét kalt. Frábært stöff. Réttirnir sem maður hitar eru líka góðir. Fylgifiskar, gott mál.
---
Kínverskir verkamenn hamast nú við að framleiða Popppunktsspilið, borðspilið sem slær öðrum við. Ég sé að Friends-spilið er að monta sig af 1200 spurningum: pffftttt, það verða 4500 í PPPPspilinu. Spilið kemur vonandi á markað í lok október. Í staðinn fyrir að hafa þessa týpísku lúdókarla til að spila með verður hægt að velja úr hópi íslenskra popp og rokkara til að "vera" í leiknum. Ég þurfti því að hringja á línuna og fá leyfi. Allir vildu vera með, Birgitta Haukdal og Jónsi í svörtum fötum ekkert mál, en Bubbi gerir víst ekkert nema tala við lögfræðinginn fyrst og hann náði ekki að tala við löffrann í tæka tíð til að fá lögfræðilegt álit á þessu stórmáli. Það verður því ekki hægt að vera Bubbi í spilinu, sem tottar vissulega, en svona er þetta bara.
---
Er að dusta rykið af skáldsögunni MMÚH sem ég ætlaði að klára fyrir jólin í fyrra. Í staðinn er nú stefnan sett á að gera MMÚH að metsölubók fyrir jólin 2005. Einnig þarf ég að fara að spá í barnasöngleik fyrir vorið. Líka nýja rokkplötu, hugsanlega lófæ-plötu, upptökulega séð í anda Pop Kings. Dr. Gunna bandið hefur lítið gert í allt sumar, en fer kannski aðeins á kreik í haust, sérstaklega ef hingað kemur gamalt frábært band sem gaman væri að hita upp fyrir, en það er í vinnslu. Gott að nota tímann meðan Popppunktur er ekki í loftinu. Við förum ekki aftur í gang fyrr en eftir áramót. Jáááááá, Hemmi minn, það er svo mikið svoleiðis.

07.09.04
Topp 5 í seinna lagi:

MC5 - High School: Hélt alltaf að þessir væru aðallega hippadjammsgítarsólórúnkarar en hef nú komist að því að platan Back in the USA er algjör rokkþönder og glæsilegt millibil Stooges og iðnaðarrokksins. 

Pop Levi - Rude Kinda Love: Nýbyrjuð hljómsveit frá Liverpool skipuð bassaleikara Ladytron með einn síngul undir belti. Bíð spenntur eftir heilli plötu, samt ekki eins spenntur og eftir SMILE.

Mylo - Sunworshipper: Mylo er frá Isle of Skye og ólst upp í músiklegri einangrun. Var að gefa út plötuna Destroy Rock N Roll sem er full af svona þrælfínni auglýsingastofu-elektróníku. 

Paul Revere & The Raiders - I had a Dream: Alltaf á vinsældarlistanum in ðe sixtís, en flestum gleymdir í dag. Fínt rokk/bít/popp band engu að síður. Kannski voru það búningarnir...?

Rufus Wainwright - Oh what a World: Vandræðagemsi en syngur sín ljúfsáru lög eins og engill. Þrjár plötur komnar, þetta er opnunarlagið á þeirri síðustu.

05.09.04
Á þessum síðum má finna faglega gagnrýni á sund og fjöll, menningarafurðir og veitingahús. Nú hef ég tekið upp nýtt stjörnukerfi á þetta sem er eftirfarandi:
XXXX=Snilld (t.d. Fahrenheit 9/11, Tapasbar og Hengill)
XXX=Fínt (t.d. Kerhólakambur og Hótel Holt)
XX=La la (t.d. sundlaugin á Varmalandi og Goodbye Lenin)
X=Drasl (t.d. Elephant og Grábrók)
0=Viðurstyggilegur viðbjóður (t.d. versta mynd samtímans, Joe Dirt)
Bannað er að gefa hálfar stjörnur enda eru hálfar stjörnur bara fyrir fólk sem á að glíma við víngulshátt.
---
Við konan fórum alla leið í bestu videóleigu borgarinnar, Laugarásvideó, en enn og aftur varð maður svo yfir sig á úrvalinu og við enduðum með Paycheck, sem við hefðum alveg eins getað leigt hér beint á móti. Maður á auðvitað aldrei að taka myndir með gúmmísmettinu Ben Rassfleck og gekk sú speki eftir enda vorum við bæði sofnuð hálftíma inn í myndinni. Besti 450 kall sem ég hef eytt. Björgólfur var að skila mynd á Land Rovernum sínum (hann, Jón Ásgeir og Bubbi keyra allir á eins bílum) og var Bjólfi, eins og ég kalla hann, alþýðlegur að vanda með slaufuna sína. Maður gleymdir alveg að hann á hálft Ísland og er eiginlega alveg sama. Já já, Bjólfi minn, hugsar maður, þú mátt alveg eiga þetta allt, viltu ekki bara verða forseti líka? Eins og Gubbi djöfull benti réttilega á í Fbl þá eru þessir nýju millar mun alþýðlegri en gamla hyskið, sem var nú í alla staði fyrirlitlegt, grátt og með útstæð augu eins og feitir gollumar. Nefni menn eins og Hörð í Eimskip og Þórarinn Vaff, sem maður verður eiginlega að kasta upp af vanþóknun við að nefna. Niður með gamla pakkið – Lifi nýju millarnir! 
---
Sonur minn hefur týnt úrinu mínu. Láttu mig vita ef þú veist hvar það er. Ég er alveg hættur að vita hvað klukkan er eða jafnvel hvaða dagur er. Í gær var samt sunnudagur. Stórkostlegt prógramm: Ikea/Bónus: Engin bílastæði fyrir zunnudagz-zombíum svo við fórum á Smáratorg. Allt full af zunnudagz-zombíum þar líka, eins og þetta væri sunnudagurinn sem enginn hafði neitt annað að gera nema fara í Bónus. Allir að troðast og ryðjast. Ég tók þátt og ók innkaupakerru yfir gamlingja sem skoðuðu ferðatösku í Rúmfatalagernum. Þröngir gangarnir þar maður. Í Hagkaup á Seljarnarnesi var hins vegar ró og friður. Lang besta búðin.
---
Fortíðin liggur hér: