29.08.02
Ah, utanfarardagur. Einhvernveginn sama tilfinning og á jólunum. Tilhlökkun og samskonar rútínutilfinning: gegnum tollinn, tjilla í Leifsstöð, ganga um borð, fyllast dauðahræðslu þegar þotan tekur á loft, sjá rokrassgatið hverfa, endalaus sjór en síðan fast land undir fótum og dúndrandi stuð framundan. Amerísk hálágmenning í mánuð, kem heim giftur maður og vonandi súkkulaðibrúnn.
---
Jæja þá: bless á meðan.

28.08.02
Húrra! Jan & Dean eru að spila á Silverton á laugardagskvöldið! Þeir eru svona það sama og Gerry & The Pacemakers voru við hliðina á Bítlunum við hliðin á The Beach Boys. Semsagt annars flokks bítsbojs, taka m.a.s. fullt af bíts bojs lögum – eru þekktastir fyrir Brian Wilson-slagarann Surf City. Ég mun reyna að draga Bjönku með á gamalmenna brimbrettarokkið, mér sýnist þetta allavega vera það skásta tónlistar-væs í slísborginni þessa dagana. 
---
Helvítis drasl er þetta internet. Ég þarf að nota það helling en svo er bara einhver sæstrengur bilaður og allt í fokkings volli. Ég ætla rétt að vona að síminn borgi mér tjónið.
---
En það styttist óðum í brottför og að þessi síða leggist tímabundið í eyði, verði tóftir einar í bili. Ferðin mikla hefst á morgun og þá heyrist ekki múkk í mér í mánuð að minnsta kosti. 
---
PoppPUNKtur#2 var tekinn upp í gær, Ný dönsk atti rosalega spennandi keppni við XXXR en aðeins eitt lið/band komst áfram. Niðurstöðina sérðu 21. sept. Mér tókst með heiladauða mínum að klúðra einni spurningunni og það var ekki gaman. Ég verð örugglega klúðrandi spurningum fram og til baka en vonandi mun áhorfendum finnast það "krúttlegt". Kannski verða svo einhver meganörd með endalausar aðfinnslur í blöðunum og potandi í smáatriði, en ég vona það besta og dobböltékka allt, þó heiladauðinn sé stundum of mikill (límið maður límið).
---
Nei, ég gerðist nú aldrei svo frægur að sniffa lím, enda fannst mér það aldrei spennandi tilhugsun. Kræfustu strákarnir í 11-12 ára bekk voru stundum að sniffa lím úr plastpoka fyrir framan smíðastofuna meðan þeir og hinir krakkarnir biðu eftir að rasssíður kennarinn mætti. Ef mig minnir rétt voru sniffstrákarnir sömu strákarnir og voru orðnir loðnir 10 eða 11 ára. Stóðu kokhraustir með stærðar belli og brúsk í leikfimissturtunni á meðan ég og allir hinir vorum ennþá með álappalega títuprjóna. Einn þessara bráðþroska límsniffara var Hjörtur, sem var gasalegur töffari og byrjaður að ríða innan við fermingu. Frekar tregur náungi en ágætis gaur svo sem þó hann hafi einhvern tímann gantast með það í bekkjarpartíi hvort ég vildi totta sig. Ég veit ekki hvað átti að vera svona fyndið við það, en stelpurnar sem voru skotnar í honum flissuðu óskaplega og nördið ég roðnaði út í horni. 
---
Djöfull hlakkaði svo í mér fyrir nokkrum árum þegar þessi sami Hjörtur var í sjónvarpsfréttunum. Hafði þá fullorðnast upp í það að verða gröfukarl og var í fréttum hálfgrenjandi fyrir framan gröfuna oní einhverjum skurði. Fréttin var um að Hjörtur hafi verið að djöflast í einhverri álfabyggðinni en þá tóku álfarnir til sinna ráða og gerðu gagnárás með þeim árangri að Hjörtur lagði á flótta og staðhæfði snöktandi í viðtalinu að hann myndi aldrei aftur grafa á þessu svæði. Það borgar sig ekki að fokka í álfunum. 
---
Hjörtur var nú hreinasta hátíð miðað við Gulla, sem reyndi með öllum ráðum að leggja mig í einelti. Honum tókst það ágætlega miðað við hversu aumingjalegur hann var, pínkulítill með kanínutennur. Hann reyndi að beyta sálfræðihernaði og líkamlegum skærum (snjókaffæra og svona) og reyndi ítrekað að espa aðra krakka upp í taka þátt í eineltinu, en tókst það enganveginn því þetta var allt svo andlega heilbrigt í Kópavoginum. Ég vissi aldrei hvað var að helvítis fíflinu, en öll fjölskyldan virtist taka þátt í þessu – systir hans, sem leit alveg eins út og hann bara með sítt hár – var a.m.k. alltaf með skæting og móðganir þegar ég varð á vegi hennar. Sá hana í sundi um daginn og hún glápti á mig með þessum kanínutannaaulasvip og reyndi að vera ógnandi þó hún kæmi ekki upp orði. Ég þóttist auðvitað ekki taka eftir henni. Gulla djöful hef ég hinsvegar ekkert séð nýlega, en fyrir sirka 10 árum sá ég hann jafn væskilslegan og áður með einhverju 150 kílóa skassi sem virtist vera kellingin hans og hafði hann greinilega í vasanum. Með þeim voru svo akfeit krakkafífl, greinilega hálfþroskaheft.
---
Þetta er því endir á við bestu þjóðsögu; Hjörtur bjáni fór í álfana en tröllin tóku Gulla vitleysing. 11:20

27.08.02
Það er hálf dapurt úrval af rokki í Las Vegas á meðan ég dvel þar: Foreigner, The Monkees Featuring Davy Jones & Micky Dolenz (spurning?), Ted Nugent, Lenny Kravitz, Pat Benatar, Gipsy Kings, Little Richards (spurning?) og viðbjóðsrokkbandið Live svo "hápunktarnir" séu nefndir. Þetta er næstum eins og Broadway þegar það pleis var upp á sitt "besta". En maður er náttúrlega ekki að fara þarna til að sjá rokk heldur til að veltast um í gerviheimi – Disneylandi fullorðinna, eins og pleisið er kallað. Morrissey á hins vegar að spila daginn eftir bókaða brottför og Lufsan er alveg miður sín því The Smiths eru uppáhaldið hennar. Of seint að gera nokkuð í því enda er ekkert víst að Morri spili mikið af Smits lögum. Við látum okkur örugglega nægja að sjá sjó með David Copperfield eða fríkunum Siegfried & Roy, sem eru búnir að vera þarna í 1/2 öld eða eitthvað. 15:25
---
Þú fyrirgefur bloggletina. En jæja, fyrsti Popppunkturinn var tekinn upp í gær og fór fram úr vonum í æðislegheitum. Stuðmennin Jakob, Tómas og Þórður tókust á við Jónsa, Kela og Einar úr Í svörtum fötum og var barist með kjafti og klóm. Úrslitin sérðu ekki fyrr en 14 sept kl. 21 á Skjá einum.
---
Tsjillaði bakksteids með Völu Matt og Brúðkaupsþáttargellunni en ég hef skrifað upp á samning um að ég megi ekki tjá mig um innanhúsmál. Sorrí. Það verður tekinn upp Popppunktur #2 í kvöld kl. 20. Ný dönsk á móti XXXrottvæl. Ætti að verða stuð. Þú mátt mæta upp á Skjá 1 og vera í stúkunni, þú færð bjór eða gos og kannski pítzu eða ís. Pældu í því. Mæting svona 19-19:30.
---
Ég er sökker. Nei, ég er neitandi – neitandinn. Vikum saman hafði ég staðist freistinguna að kaupa mér kókómjólk með jarðaberjabragði. Gaf þó lokkandi stæðunni auga í búðinni. Hmm... Kókómjólk með jarðaberjabragði. Fyrst útspekúleruðum mjólkurfræðingunum datt í hug að setja þetta á markaðinn, væntanlega eftir þrotlausar bragðrannsóknir og neytendakannanir, hlýtur þetta að vera æðislega gott, hugsaði ég, en var samt eðlilega tvístígandi. Keypti mér þetta loksins í gærkvöldi eftir spennufallið að loknum Popppunkti. Einn sopi – restin í tunnuna. Þar hafiði það: Kókómjólk með jarðaberjabragði 0 stjörnur.
---
Ég er búinn að heyra svo marga segja að "Maður eins og ég" sé slöpp mynd að ég er að spá í að bíða bara eftir henni á videó. Íslenskri draumurinn var svaka góð, en það skín einhvern veginn í gegn að þessi sé ekki alveg nógu heilsteypt. En fokk, kannski betra að sjá myndina áður en ég fer að röfla. Sá hinsvegar Donnie Darko á vidjó. Kúl-t.
---
Gestir í gestabók eru brattir: "Æji, aftur spurningaþáttur með fræga settinu, einsog íslendingar... vil sjá pöpulin spreyta sig," vælir einhver Hel eins og stunginn grís og hún getur þá bara horft á Viltu vinna milljón – en það er nú alger óþarfi að líkja Popppunktinum við "Íslendinga," sem er án efa einn versti sjónvarpsþáttur sögunnar. Góðkunningi síðunnar, Thors, segir mig ekki eins góðan og Kirkegaard, sem er að sjálfssögðu rétt og ég er heldur ekki eins góður og Lindgren, Tove Jansson og sá sem skrifaði "Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á sér". Stefanía úr MK er alveg út á þekju og heldur að ég hafi nú þegar gift mig í bleikum smóking í LA. Hið rétta er að ég ætla að gifta mig í Las Vegas þann 4. september næstkomandi. Ég verð í kúrekajakkafötum með 10 gallona Stetson. Flýg eftir 2 daga og er alveg að fara yfir um. En takk fyrir kveðjuna Stefanía! 08:50

25.08.02
Í dag er boðið upp á athyglisverðar upptökur af tveim gröðum mönnum að keyra niður Laugarveginn um kvöld í miðri viku. Þó hegðun samskonar þessari hafi verið stunduð áratugum saman, eða síðan bifreiðin og rúnturinn var fundin upp, er þetta í fyrsta skipti sem áþekkt samtal næst á band. Mannfræðingurinn Óliver Traustason kom upptökunni til umsjónarmanns þessarar síðu og ég hef vinsað út "bestu" bitana, en samtals var upptakan vel yfir hálftími. "Leikendur" hafa kosið nafnleyndar. Gjörðu svo vel:

Á RÚNTINUM
(Upptakan er í rm-sniði og 4.8 M) 
---
Mongólíti með Áfram Ísland pottlok sem leit út eins og hauskúpa í framan glápti á mig í strætó í gær þar sem ég sat aftast og naut ferðarinnar. Hann linnti ekki látum í glápinu fyrr en ég gaf mig á tal við hann. Frussaði hann þá eitthvað um giftingu og ég sagði þá, nei, að ég væri ekki búinn að gifta mig, en ég væri að fara að gifta mig bráðlega. Um leið hugsaði ég hvað þetta væri skarpgáfaður mongi sem lægi yfir blogginu mínu. Hann frussaði þá enn meira og enn um giftingu og skildist mér þá að hann sjálfur væri nýbúinn að gifta sig. Nú hvar er hringurinn? spurði ég og hann sýndi mér stoltur gullhringinn á puttanum. Lauk þar með samtali okkar því sexan stöðvaðist á Hlemmi og við fórum báðir út. Ég get því miður ekki tjáð mig meira um ferðalag mitt því ég var í leyniför á vegum ástarinnar að kaupa svokallaða morgungjöf og Lufsan má ekki vita hvert ég fór.
---
Fólk heldur kannski að ég sé svo "opinn" að ég muni greina jafnóðum frá úrslitum í Popppunkts-leikjunum, en þeir eru sendir út nokkrum dögum eftir að þeir eru teknir upp. Auðvitað geri ég ekkert slíkt og að sjálfssögðu ekki. 09:35

24.08.02
Blogg er rýrt þessa dagana, enda margt í gangi á öðrum vígstöðvum. Fór og röflaði við Jón Ólafsson fyrir þáttinn hans og allt var tekið upp af fjölmennu starfsliði Rúv. Það verður ný sería í haust og ég er einn af 20 poppblesum sem rövla út í eitt um sjálfa sig og finnst það síður en svo leiðinlegt. Jón kom víða við og var búinn að draga inn allskonar myndbönd sem ég hélt að væru löngu týnd og tæknimönnum gefin í katakompum Sjónvarpsins. Gaman aððí. Ekki minkaði gleðin þegar skriftan bað mig um reikningsnúmerið og sagði mér að ég fengi fullt af pening fyrir þetta. "*hóst* pop rusl sell out drasl andskoti *hóst*" indídd og með glott á vör.
---
Við Felix gerðum generalprufu á Popppunkti og fengum SSSka, Druda og Gromm til að leika Stuðmenn, en Sperti-Berti, Selvar og Tryggvi róni voru Í svörtum fötum. Þetta heppnaðist líka svona helvíti vel jafnvel þó að bjöllusístemið úr Gettu betur væri ekki komið í hús og keppendur lemdu bara með teskeið í glös. Ég var alveg að tryllast úr spenningi enda var jafnt á með liðunum framan af. Á lokasprettinum tóku "Stuðmenn" þó forystu og unnu leikinn á sjónarmun. Þetta verður alveg frábær þáttur, mar. Ég myndi allavega glápa á þetta með áfergju.
---
Og nú þarf ég eiginlega að fara að semja spurningar ofan í Ný dönsk-XXXR, sem verða í þætti#2. Þetta er náttla að skella á á mánudaginn af því það þarf að taka upp 2 þætti áður en ég fer í hina miklu ferð = fimmtud. mar. Djíses. Fyrsti Popppunkturinn fer í loftið 14. sept, en þá verð ég nú bara undir pálmatré að tálga lítinn Pálma Gunnarsson.
---
Hmm. Hvar þyrfti ég eiginlega að tálga til að fá út lítinn Hermann Gunnarsson? Oní ruslatunnu í Bankok? Nei, uss, hættu nú illmennið þitt! Fólk í kringum mig er umvörpum að lýsa yfir sorg sinni með Hemmann eftir að hafa séð hann í S&H. Ég hef ekki séð myndirnar en hann var víst sorglegur að sjá, blessaður kallinn, með bauga og grindhoraður og gasalegur eitthvað. Ég var einu sinni andstyggilegur við Hemma í sjónvarpsrýni í Eintaki, rakkaði sjóið hans niður í ömurlegu húmorsleysi seinfærs unglingahroka, en hitti svo karlinn nokkrum dögum síðar í 50tugs ammæli Rúnna Júl. (þannig gerðist nær undantekningalaust í íslenska fámenninu) Ég var vitanlega eins og aumingi, en Hemmi, það stórmenni sem hann er, heilsaði mér brosandi , þó með nokkrum fyrirvara, en síðan höfum við verið málkunnugir. Unun kom í þáttinn hans nokkrum dögum síðar (og í framhaldinu var troðfullt hjá okkur á öllum giggum) og ég fékk m.a.s. einhver lúðaverðlaun – Spænalinn – á Íslensku tónlistarverðlaununum nokkrum vikum síðar fyrir þetta ferli allt saman. Ég sá Hemma síðast í Hagkaup fyrir sirka 2 árum og hann virtist grár og gugginn og mikil sorg yfir honum. Það væri nú eitthvað annað ef þessir svikarar á Rúv myndu fá Hemma heim og setja hann á tali aftur í staðinn fyrir að vera að púkka upp á þetta löngu útbrunna Spaugstofulið. Eða kannski ekki. Kannski er óþarfi að halda svona þéttingsfast í fortíðina. Ég sendi allavega Hemma báráttukveðjur og hann má vita að ég hugsa oft til hans eins og hver einasti kjaftur á þessu rokrassgati. Gó Hemmi Gó! 08:08

22.08.02
Ég er bara alveg galtómur en Skessuhornið er með puttann á pulsunum. Ég þarf líka að fara að undirbúa 1 mánaða blogghvíld þegar hið ægifrábæra giftingaferðalag skellur á. Hér eru myndir af vistarverum oss á eyjunni Kau'ai, sem ég set inn til að hægt sé að öfunda okkur.
---
Tæplega 300 gestir hafa kveðið upp sinn dóm og vilja að ég heimti 200þúskall fyrir myndbirtingu í S&H. Heyrirðu það, Loftur? 43.5% gesta töldu að almennileg borgun væri í lagi, en eingöngu 27.5% fannst ég ætti að fallast á slappan díl S&H af því blaðið er svo frábært. 29% fannst ég aftur á móti alltof kúl til að veltast um á plebbalegum síðum plebbablaðsins. Er þá Séð og Heyrt könnuninni formlega lokið. 11:45

21.08.02
Lufsan á ammæli í dag. Hún vill koma því á framfæri að henni finnst "Lufsu" titillinn fínn og frábiður sér misskilda umhyggjusemi gestabókagesta. Húrra fyrir litlu Lufsunni!
---
Leiðinlegasti hluti þynnkunnar er þunglyndið sem leggst á á 3ja degi. Kvefið sem ég fæ á 4ða degi er strax skárra og því er ég bara kvefaður í dag en ekki þunglyndur líka. Jú, en mikið rétt, það er þá allavega búið að steggja mig.
---
Ég þarf að segja þér almennilega frá sjónvarpsþættinum. Það gengur ekki að Fókus verði fyrstur með fréttirnar á föstud. Þetta er altso Popppunktur, einskonar sambland af Gettu betur, Viltu vinna milljón og Kontrapunkti – massífur spurningaþáttur með útsláttarfyrirkomulagi. 16 hljómsveitir byrja (eða 3 meðlimir út hverri sveit), en svo týna þær tölunni eins og lið í HM og uppi stendur 1 hljómsveit sem er sú spakasta hér á landi á og fær mögnuð verðlaun. Snilldin fer í loftið um miðjan september (á laugardagskvöldum) og við þurfum að taka upp 2 þætti áður en ég fer að gifta mig. Í þeim fyrsta keppa Stuðmenn við Í svörtum fötum, en svo mætast Ný dönsk og XXXR.
---
Ég sem spurningarnar og verð háæruverðugur dómari og stigavörður en aðalkynnir er Hr. Felix Bergsson, en hann er ekki bara sætur og skemmtilegur heldur er líka talinn ná til "allrar fjölskyldunnar", sem við ætlum auðvitað að gera til að leggja samkeppnisaðila okkar í  Spaugstofunni í rúst.
---
Ég er búinn að heyra alla "Gunna og Felix" brandarana svo það er óþarfi að segja þá í gestabók.
---
Í gær vorum við að taka trailera í Ölveri. Ég og Felix að gaula My Sherona í kareókí. Svo kom ljósmyndaséníið Ari Magg og skaut okkur fyrir flettiskyltin og strætóauglýsingarnar. Við erum því að tala um magnþrúgna markaðsvæðingu mína. Nei, nú verð ég ekki lengur larfaklæddi neikvæði pönkfauskurinnar, heldur sísmælandi poppheili í havaí-skyrtu og rándýrum jakkafötum frá Herragarðinum (innifalið í díl). Það þurfti nú að leita í dýpstu kjöllurum verslunarinnar til að finna eitthvað sem hægt var að strengja utan yfir magálinn á mér og því er stefnt á einkaþjálfara og læti eftir Havaí. Fólk hlýtur að sjá að miklu fleiri taka mark á stæltum gaur í jakkafötum en bollu í bol. Svei mér þá ef maður verði ekki bara kominn í framboð á næsta ári. Nei, hættu nú. 10:30

20.08.02
Guðmundi í gestabók skal bent á að Bless-dótið kemur á disk síðar á árinu. Úti er rigning og ég latur. 13:20

19.08.02
Sit sveittur við að semja poppfræðilegar spurningar fyrir hinn hrottalega æðislega þátt – Popppunktur (ekki "is"), sem verður settur á dagskrá S1 í september. Þetta mun slá Spaugstofuna út. 
---
Mikki Tott hefur skrifað gegn fasísku ríkistjórninni í Danmörku á heimasíðu JPV. Hér er það. Mikki var einu sinni hjá Agli Helga og var að tala um dönsku fasistana, en þá var þarna kerlingarbeygla sem talaði niður til litla rithöfundarins eins og hann væri 12 ára – spurði hvort hann vissi hvað fasismi væri. Þetta er líklega samskonar úldin kerlingatýpa og var í genginu sem ákvað að veita mér ekki listamannalaun úr sjóðum Borgarinnar. Ég sótti um með voða fínni umsókn enda ætla ég að gefa út sólóplötu og skrifa skáldsögu á næsta ári. Í staðinn fyrir að veita snillingnum mér sjálfssögð réttindi úr vösum skattgreiðenda er þessu hent í gaddfreðið lið eins og Önnu Pálínu og Hlín Agnarsdóttur. Ég sem hélt ég væri búinn að sleikja R-listann nógu mikið upp en þetta er allt þakklætið! Nei, ég þarf greinilega að gera enn betur til að komast á spenann. Oh hvað mig langar til að komast á spenann. Þá er bara að bíða eftir listamannalaunum ríkisins. Ég hlýt að komast á jötuna á endanum. 16:52
---
Steggjun hófst í Lundi á laugard. Ég var drullustressaður fyrir þetta, átti von á allskyns hremmingum, en svo fórum við bara í litbolta. Eða það hélt ég. Tók stríðsleikinn mátulega alvarlega. Þá kom steggjaflippið: Var settur í kanínubúning og látinn hlaupa fram og til baka á meðan "vinirnir" drituðu á mig úr byssunum. Örugglega mjög gaman fyrir þá. Marblettirnir á rassgatinu á mér eru þó ekki alveg eins hressir. 
---
Þaðan í sund og BanThai (fékk loksins mat - 7.4 af 10) en svo upphófst eitt magnaðasta drykkjusvall síðustu 7 ára. Vinirnir týndust af mér með hraði (AA-menn eða gutlarar) en ég setti hnefann í borð vímunnar og endaði í partíi á Grettisgötu með Krumma í Mínus og öðru liði eftir að hafa hangið með ýmsu svallliði og vafrað á milli Sirkus, 22, Priksins, Kaupfélagsins og Grand rokk sí fyllri og útúrheiminum. Man að Fræbbblunum þótti svo leitt að ég hefði ekki fengið allsbera kerlingu í stegginu að bakraddatríó sveitarinnar tók sig til og hreif mig með í erótískan dans. Gaman að því. Var kominn heim til mín kl. 09:30 í gærmorgun og gekk beint í flasið á verðandi brúði minni sem var sótsvört og hreinlega brjáluð enda hafði hún ekki heyrt í mér í 24 tíma. Sagði um leið og hún strunsaði út í vinnuna að ég gæti farið til helvítis og verið þar lengi og að vonandi væru einhverjir af þessum nýju vinum mínum til í að giftast mér því ekki myndi hún gera það. 
---
Lá þá fyrir allan sunnud., lyktandi eins og kamar og reykhús og iðraðist sí meir synda minna eftir því sem lygavefur algleymisins hvarf úr heilanum. Þunnur á bömmer, meyr eins og ég veit ekki hvað. Reyndi með sms-sendingum og rósakaupum að sína iðrun mína í verki. Verðandi brúður mín jafnaði sig furðu fljótt enda besta konan sem gengur á þessari skorpnu kringlu. Nú leikur allt í lyndi og giftingin er fyrirhuguð eftir sem áður eftir 16 daga, en ferðin hefst eftir 10. Ég mun hinsvegar aldrei nokkurn tímann smakka áfengi eða reykja tóbak aftur. Alveg satt. 08:15

17.08.02
Sjónvarpsþátturinn á hug minn allan. Opna mig síðar - en hlýt að mega segja vinnuheiti þáttarins: POPP-PUNKTUR. Svo á að niðurlægja mig í dag v/fyrirhugaðrar giftingar. Ég hef komist á snoðir um áformin hjá bassaleikaranum. Verð í regngalla. Ætla ekki að sjá neitt af þessu menningardóti en mæli með öllu sem Hugleikur kemur nálægt.
---
Gestir:
Ásgeir: Jú það er víst Jón en ekki Sam sem á þetta pyntingarbíó í Smáralind.
Ferma: Private dæmi fæst fram með því að skrifa skilaboð í gestabók og haka við "Private". Þá get ég eingöngu lesið skilaboðin með þar til gerðu leyniorði. Þetta er svona einskonar prívate-dans, ellegar kjöltudans, og bara spurning hvort þetta verði bannað bráðlega. Gestir velja stundum þessa leið þegar þeir vilja koma á framfæri leyndum óskum eða þegar þeir skamma mig fyrir að vera fífl eða skíthæll.
Elvis2: Jú það er mjög greinilega öðruvísi fólk sem maður sér í Smárabíói en í 101, en ég var alinn upp í Kópavogi og þar sem þetta bíó er núna var ég einu sinni að vinna í Hellusteypu. Það var ömurlegt. Allt í lagi svo sem með púlið, en ég var að vinna með tveim leiðinlegum hálfvitum. Þetta var líka áður en ég varð töff og kúl svo maður lét hálfvitana valta dáldið yfir sig. En Kópavogur er bær dauðans. Ljótasta bæjarstæði landsins, ljótasti miðbær landsins, hálfdautt fólk í öllum húsum... Nei nú gekk ég of langt. Ágætis bær!
---
Segjum það þá. 09:30

16.08.02
Fór á sorpmyndina Minority Report í bíóhúsi djöfulsins, Sameitthvað í Smáralind. Þangað fer ég aldrei aftur því í stað venjulegra bíósæta hefur Sam og fjölskylda látið pranga inn á sig óþægilegum ruggustólum sem maður er á flegiferð í allan tímann. Maður reynir að halda jafnvægi en er allur á varðbergi og alltaf að hugsa um það. Nýtur því myndarinnar lítið enda kominn með kvíðaeinkenni og vott af þunglyndi í ruggustólnum. Skást þótti mér að spyrna mér aftur og liggja flatur í kjöltunni á manninum fyrir aftan mig, en það var þó óþægilegt til lengdar. Nú er ég með brákaðan mjóhrygg eftir ruggubíóið og segi og skrifa að ég fer aldrei aftur í þetta bíó! Verð svo að lifa í voninni um að Sam láti ekki pranga inn á sig svona pyntingarstólum í fleiri bíó.
---
Í lyftunni í Smaáralind var búið að míga þegar við fórum upp. Þegar við fórum niður eftir myndina var búið að æla í hana. Smekklegt. Var einhver að horfa á fréttir?
---
Mér var send slóðin á GRÆNA SKÍTNUM, sem virðist vera blogg-gaggnrýni Guðmundar og Ellerts. Ég mæli með þessum skít, svaka diss í allar áttir og skemmtilegheit. Vona svo að þeir skrifi meira og oftar en þetta. 06:55

15.08.02
Fær maður ekki vinnu sem sumarafleysingamaður í fréttunum á Ríkisjónvarpinu nema maður líti út eins og lúði og tali tafsandi eða skrækt? Annars hefur sveppagaurinn úr síðasta Skaupi verið að koma á óvart og Gísli þarna Einarsson er nokkuð lúnkinn á sinn skræka hátt. En maður spyr sig samt að þessu.
---
Annars er hreinasta pína að horfa á fréttir nú í gúrkunni. Ég veit ekki um þig, en ég steinsofna og missi þvag og saur í leiðinni úr eintómum leiðindum í hvert skipti sem orðin "stofnfjárfestir", "Norðlingaalda" og "árshlutauppgjör" eru sögð. Rumska svo kannski 10 mínútum síðar og þá er skrækur seiðkarl með hálftíma frétt um leitarhunda og þá dett ég aftur út, vakna í frétt um loðnutorfu, æli og dett út og vakna svo í Samúel Örn að tjúllast yfir spriklandi kerlingarflykkjum, sofna aftur, vakna í meiri Norðlingaöldur í Kastljósi og fer þá yfirleitt í sturtu enda allur útskitinn, ældur og hlandbrunninn. Er að spá í að hætta þeim vana mínum að horfa á fréttir, allavega þar til eitthvað almennilegt fer að gerast; arabadjöflar sprengja eitthvað eða Árni fer í steininn.
---
Hef hresst aðeins upp á þennan vef. Undir dagskrárliðnum Ritstörf hyggst ég hrúga dóti ef tími vinnst til og í Skemmtilegum hlekkjum verða skemmtilegir hlekkir. Ég ætlaði fyrst að línka alla bloggara sem ég fann, en ákvað svo að einskorða mig við " áhugaverða" bloggara, aðallega fólk sem ég þekki eða fólk sem hefur gert mér hátt undir höfði á sínum síðum eða skrifað í gestabókina. Þú getur sent mér línu ef þú telur þína bloggsíðu vel að hlekk komna. 
---
Ég rakst inn á eitthvað blogg um daginn sem hét "græna" eitthvað, "græna slumman" eða eitthvað slíkt, og þar voru menn með svaka meiningar, þ.á.m. var morgunþátturinn Sigurjón og kó hakkaður í spað. Ég hef ekki fundið þetta aftur þrátt fyrir nokkra leit svo ef  þú veist hvað ég er að tala um endilega sendu mér slóðina hjá þessu græna bloggi. 11:59

14.08.02
Hef legið afvelta og pípandi eftir "tilboð" Dómínos pissa. Fékk mér einhverja exótíska kjúklingapissu, stærstu gerð auðvitað til að "græða" sem mest, en svo var þetta bara viðbjóður á bragðið. Þótt ég sæi engann kjúkling í tómatsósunni át ég megnað af þessu til sparnaðar. Í næsta megatilboði Dómínós ætla ég að spara mér drulluna og fá mér eitthvað hjá Eldsmiðjunni, sem er eini staðurinn hérlendis sem á skilið nafnbótina pítsa - allt hitt er pissa og drulla.
---
Er ég einhver meistari hinna ónýtu rennilása? Íþróttataskan mín er með ónýtum rennilás og svo aumingjaðist ég til að kaupa mér rándýran Nike vindjakka í fyrra. Hann virðist nú vera tímastilltur þannig að rennilásarnir eyðileggist eftir ákveðinn tíma. Fyrst fór lás í hliðarvasa, en nú er aðalrennilásinn ónýtur líka. Ég stend uppi með fullkomlega fínan vindjakka fyrir utan ónýta rennilása og er tjáð að hjá þartilgerðum saumakonum kosti svona álíka að skipta um rennilás og að fá sér nýjan vindjakka. Samsærið mikla er að Nike planti lásum sem drepast svo gulrótarhlaupandi kaupandinn hugsi sem svo, Ja, best að kaupa sér nýjan jakka, því það er svo dýrt að gera við. Í anda nytjastefnunnar – sem hlýtur að komast í tísku von bráðar – er ég að spá í að þrjóskast við, fá mér sikkrisnælur, láta hnappa á jakkann, eða jafnvel að splæsa í viðgerð með krepptan hnefa á lofti. Kagbætt druslulúkk pönksins myndi meika sens í dag þar sem allt gengur út á að fá sér nýtt um leið og það gamla bilar.
---
Djöfull sé ég eftir því að hafa ekki látið gera við myndbandstækið okkar um daginn. Þetta var eðaltæki en bilaði og það kostaði 15.000 að gera við það. Þá var ég svo djúpt sokkinn í gulrótina að mér fannst lógískara að fá mér bara nýtt tæki. Þurfti svo að ganga í gegnum 3 tæki áður en ég varð sæmilega sáttur. Prófaði m.a. eitthvað Radionette rusl frá Noregi en endaði á "dýrri" gerð af United tæki sem er reyndar algjört drasl líka. Djöfulsins andskotans. Ég læt eflaust toga mig áfram á asnaeyrunum bráðlega og kaupi mér DVDtæki. Er a.m.k. að verða vitlaus að sjá alltaf allt í rákum og hixtandi í United ruslinu.
---
En það er flest í búðunum svoddan rusl að það gefur upp öndina innan tíðar. Þetta er meðvitandi gert. Svo ég vitni enn og aftur í Shopology þáttinn frá BBC þá væri auðvitað ekkert mál að búa til dót sem dugði mun lengur en draslið í dag. Ekkert mál að búa til bíl sem dygði í 50 ár. Hið kapítalíska hagkerfi myndi hins vegar skíta á sig og drepast á nokkrum vikum ef ALLIR hættu að kaupa annað en allra mestu nauðsynjavörur. Mat og nærbuxur. En vill maður það eitthvað sérstaklega? Er maður ekki bara svona eins og hver annar hrafn sem vill hafa glansandi drasl í kringum sig? Ég yrði ekkert hamingjusamari með aleiguna í poka á bakinu, þó ég yrði kannski "frjáls" þannig, a.m.k. sé vitnað í gamlan heimspeking. Hvað yrði maður fljótur að fá leið á þannig meinlætalifnaði og færi að sjá videókvöld með poppskál og prins póló í hyllingum?
---
Ég ætla hins vegar að venja mig á að kaupa alltaf það dýrasta af öllu. Eitthvað dót sem dugar árum og áratugum saman. Læt Lufsuna kaupa glænýjan Benz þegar Mitsúbissíinn deyr. Fæ mér Bang og Ólafsen græjur næst. Allt í þessum stíl. Geng bara í rándýrum klæðskerasaumuðum fötum. Er þetta ekki kúl? Maður tapar bara á þessu helvítis skítódýra drasli til lengri tíma litið. Og á maður ekki að líta til lengri tíma? Er þaggi?
---
Hef skrifað upp á samning um að tjá mig ekki um starfsfólk eða innviði á Skjá einum. Verð því að halda kjafti. En ég hlýt að mega segja frá því að þú ættir að glápa á Skjáinn laugardagskvöldið 14. september og þaðan á hverju laugardagskvöldi til jóla.
---
Gestum svarað:
Jón B: Jú, ég og Jello höfum skrifast á lengi. Hann bað mig um fyrstu plötu S/H Draums 1986 og síðan höfum við haldið sambandi. Hitti hann hérna í fyrra og ræddi við hann yfir heislufæði. Hinn viðkunnanlegasti maður. 
Yaf: Auðvitað sé ég ekki eftir neinu. Þetta er kannski misgott stöff (Ununar-tímabilið í einna minnstu uppáhaldi eins og er) en maður á aldrei að sjá eftir hlutunum, a.m.k. ef maður er innan lagarammans. 13:50

13.08.02
Mér finnst gaman að róta í notuðu drasli í kompusölum eða flóamörkuðum. Kolaportið er fremur slappt til þess fallið (alltaf sama ruslið) og Góði hirðinn, Hátúni, er besti kostur landsins. Fór í gær og grísaði á að það var verið að opna eftir sumarfrí. Mikið af nýju drasli var því á boðstólum og hamagangur í öskjunni. Úti var búið að koma fyrir ókeypis drasli, þar á meðal haugum af vinýl-plötum. Ég sökkti mér oní draslið og fékk samkeppni þegar horaði sláninn í Hljómalind kom og fór að gramsa við hliðina á mér. Náði samt að sölsa undir mig 19 Lps:
Knuckle Sandwich - safnplata frá 1979 með listamönnum EMI, þ.á.m. X-Ray Spex, Darts og Shadows...
Billy Joel - Glass House og 52nd Street (kommon, þetta var frítt!)
Martyn Bates - Letters to a scattered family (líklega artí)
Graham Parker & The Rumour - The Upscalator (held að hann sé ókei rokkari)
OST - Saturday Night Fever (tvöföld í góðu standi)
Hits Orchestral Sounds Orchestral (lyftu)
ELO - Discovery (ekkert að Elo!)
Bethnal - Dangerous Times (enskt verkamannapönk frá 1978)
Ultravox - Vienna (klassísk nýrómantík)
Hit-Rakete 1 (þýsk cheapo safnplata frá 1966 með gellu með gítar framan á)
Lipps Inc - Mouth to Mouth (inniheldur megamaxmix af "Funky Town")
Trio - Bye Bye (ekki með "Da da da")
Fergal Sharkey (söngvari Undertones poppar)
Haircut 100 - Pelican West (örlí 80s peysupopp)
Richard Strange - International Language 12" (nýrómantíker með fönkbassa)
The Pick-Ups - Keep on Dancing No.III (þýskt cheapo með gellu)
Greg Kihn Band - Kihntinued (einhver rokkari frá 1982, hugsanlega ok)
Jona Lewie - Heart Skips Beat (Stiff-ari. Hver man ekki eftir "Stop the Cavalry")
---
Inn í búðinni var svo búið að hressa ögn upp á LP-úrvalið og til að sýna að ég styð málstaðinn keypti ég nokkrar plötur á 150kr stk.:
Blues Magoos - Psychadelic Lollipop (original pressun, hugsanlega rándýrt safnaraeintak)
Devo - Freedom of Choice (klassísk syntapönk - innih: bæði Whip it og Girl U want)
Canned Heat - Boogie With (Smellurinn "On the Road" er hér plús annar svalur skítablús)
Einar Vilberg - Noise (Önnur sólóLP Einars frá 1981. Sú þriðja ku væntanleg)
Good Time Music (safnplata frá 1965, en innan í umslaginu var reyndar Meet The Beatles platan)
Lee Michaels - Barrel (sækadelískur fólk-rokkari)
The Band - Moondog Matinee (hundslöpp kóverplata frá þessum hippakántríkörlum)
Barrabas - Musica Caliente (spánskt hipparokk með fáránlega ljótu umslagi)
---
Hvort ég nenni svo einhvern tímann að hlusta á þetta allt er svo allt annað mál. Aftur á móti keypti ég eftirprentun og mun oft horfa á hana. Þetta er glæsileg mynd af tveim krökkum að hnoða snjókarl, að sjá frá sirka 1950. Hollenski barnabókaskreytingateiknarinn B. Midderigh-Bokhorst er höfundur þessa fallega verks. (verð 300). Ég er að hugsa um að snúa aftur í dag, til að skoða betur og jafnvel fjárfesta í tveim myndverkum sem í boði voru í gær, ferlega ljótri mynd af hestum og svo spól-naíve mynd af sveitabæ frá 1948, sem er hugsanlega rándýrt listaverk eftir óuppgötvaðann snilling.
---
Seinni partinn hjólaði ég í læknamiðstöðina Mjódd til Nef, háls og eyrnalæknis. Hann tróð myndavél inní nefið á mér og niðrí kok (ferlega vont) og fann út að ég er með alltof lítið nef. Ég var í gei-præd-bolnum og hinn upplýsti doktor spurði mig hvort ég væri "svona". Þvertók auðvitað fyrir það. Svo spurði hann afhverju ég væri kallaður Doktor Gunni og ég sagði honum enn og aftur frá þessum trommuheila (Dr. Rhythm) sem ég spilaði með 1988 en þá kom nafnið (sem nafn á hljómsveit okkar trommuheilans), og það hefur festst svona líka, og er mér svo sem alveg sama. Doktor gaf mér lyfseðil fyrir nefspreyi og nú ætti Lufsan að geta sofið á nóttunni fyrir hrotuhelvítinu mér.
---
Er ég að verða vitlaus eða eru bara þættir um feita karla sem búa með svaka gellum og gera lítið nema glápa á sjónvarpið á kvölddagskrá Skjás eins? Er ég að verða fáviti ef ég er farinn að horfa á Jay Leno og hef alveg gaman af sumu?
---
Þrátt fyrir sæg nýrra LP-platna dánlódaði ég nýjustu plötu Interpol, sem ku nýjasta vonin í dag. Þarf að brennana og rennenni í gegn en það sem ég heyrt lofar góðu. 16 dagar í utanlandsförina. úlalala. Svo á víst að "steggja" mig um helgina, en flestir vinir mínir eru þurrir alkar svo þetta verður ekkert hefðbundið fávitarugl með niðurlægingu niðrí bæ og búlgaskri gleðikonu sem skakar sér á mér (vona ég a.m.k.) 10:20

12.08.02
Dreymdi magnaðan erótískan draum í morgun. Ég upp í rúmi með einhverri stórglæsilegri blökkustúlku sem lét vel að mér og gældi við hvern fersentimetra. Var orðinn spól. En þá kom allt í einu Kristján Þór Júlíusson,

bæjarstjóri Akureyrar, og fór að hamast groddalega aftan á stelpunni. Við þetta varð mér svo mikið um að ég glaðvaknaði.
---
Annars magnað stuð á gei-præd í fyrradag. Þarna dílaði maður við hómófóbíuna í sjálfum sér, en eins og segir í kvæðinu er maður ekki með þannig fóbíu nema galvaskur hommi sé innst inni í manni – ja, og hvað? Eru ekki allir meira eða minna hommar? Ég vildi allavega frekar vera hommi heldur en margt annað og maður dauðöfundaði hommana því þeir voru svo hressir í göngunni. Ég hékk mest utan í leðurhommavagninum og var alltaf að kíkja hvort ég sæi ekki Snorra í Betel og Gunnar í Krossinum bundna ofan í strigapokum einhversstaðar á bakvið. Það hefði nú verið gaman ef MSC-samtökin hefðu rænt þeim trúarbrjálæðingum, gefið þeim sýru, klætt upp í leðurhommadress og svo hefðu þeir dillað úr sér hommafóbíunni og trúargeðveikinni upp á vörubílspallinum útúrsýrðir og gei. Svo tróðum við Lufsan okkur fremst og ætluðum að sjá Stereo Total, en nenntum ekki að bíða enda dróst þetta endalaust á langinn. Vorum því farin þegar skyggnið hrundi.
---
Áttum unaðsstund í sumarbústaði á Þingvöllum. Á leiðinni keypti ég nýjasta eintak tímaritsins "Ský" sem er nú meira helvítis viðbjóðs artí fartí ógeðið. Eitthvað svona sambland af draslinu Wallpaper og Iceland Review, blað sem Hólmgeirsdætur og Oddur Þórisson finnst örugglega æðislegt. Auðvitað ekki stafur að viti í þessu, nema kannski viðtalsbútur við Jón Gnarr, enda þyrfti blindan hund til að klikka á að gera gott viðtal við þann meistara. Þarna var hundleiðinlegt viðtal við nokkra einhleypa ræfla að reyna að telja sér og öðrum trú um að einhlaupið sé frábært (kommon, hver nennti að búa með Andrési Magnússyni og Hlín Agnarsdóttur?), jafnvel ennþá leiðinlegri grein um ungt stjórnmálafólk "framtíðarinnar" (hvílík framtíð!) og ólesandi fúlt forsíðuviðtal við hina uppþornuðu Þorgerði Katrínu, sem mér finnst nánast óhugsanlega hörmulegt frá að segja að er jafn gömul og ég (37). Vinstrigræninginn Thors óskar mér til hamingju í gestabók með að kjósa Samfó næst, en fyrr mun ég snæða eigin saur en að kjósa flokk sem inniheldur jafn fúið fyrirbæri og stjórnmálamannseftirlíkinguna Björgvin G Sigurðsson. Mér lýst annars ágætlega á smettið á þessum nýja Heimdallsmanni og aldrei að vita nema maður kjósi bara D næst. Nei, grín.
---
Svo vil ég bæta við að Ský verður frábært blað um leið og Jón Kaldal ritsjóri hringir í mig og vill fá mig á forsíðuna eða eitthvað, jafnvel bara fá mig til að skrifa eitthvað, eða þá að hann heilsar mér á götu. Ég er nú ekki með afdráttarlausari skoðanir en þetta, enda gallharður á því að fólk með sömu skoðun lífið í gegn sé staðnað og vanþroska. Þar til annað kemur í ljós, a.m.k. 09:25

10.08.02
Ocean's Eleven í gær, nýju útgáfuna. Hún endaði "vel", en sú gamla hafði endað "illa". Það enda allar myndir "vel" í helvítinu henni Hollívúdd nú til dags. Eitt besta dæmið um þetta er endurgerð á hollensku myndinni Spoorloos, en sú endaði þannig að aðalsöguhetjan var læst oní niðurgrafinni líkistu og var að drepast. Ekki beint "góður" endir. Þegar Hollívúdd tók sama handrit var endinum "lítillega" breytt þannig að Kiefer Sutherland tókst með harðræði að brjóta sér leið úr kistunni (já, einmitt), yfirbuga mannræningjann og frelsa konuna sína sem hann hafði verið að leita að alla myndina. Ekkert smá mikið hallæri ef maður var búinn að sjá frummyndina.
---
Iðnaðurinn hlýtur að álykta sem svo að mynd verði að enda "vel" því annars gætu bíógestir orðið svaka fúlir og það myndi spyrjast út og enginn myndi mæta. Þess vegna enda allar myndir á því að aðalgaurinn kyssir gelluna og gefið er í skin að þau munu fjölga sér og landið erfa. Alltaf... aftur og aftur. Enda er það svo sem eini tilgangurinn með tilvist okkar sama hvað fólk rövlar um að "finna hamingju" eða "lifa lífinu lifandi". Eini tilgangur okkar er að fjölga okkur, afrita erfðamengið, halda keðjunni gangandi. Tilgangur okkar er því jafn vitleysislegur og að fara í heimspeki eða eitthvað álíka fávitalegt fag í Háskólanum. Þar hefur námið ekki annan tilgang en að þú getir í mesta lagi orðið kennari sem kennir áfram hinar öldnu pælingar manna sem vöfruðu hér um á undan okkur.
---
"Tilgangur" er annars froðusnakk hið mesta. Engin önnur dýrategund þarf "tilgang" og sættir sig glöð við að bíta gras og skvetta úr klaufinni. Tilgangsleitin hefur hamlað alheimsfriði og gert homo sapiens ófærann um að grúva í góðu stuði á gæðum jarðar. Sjáðu bara fréttirnar í dag. Hversu margir eru dauðir í dag af því þeim greindi á um áherslur í tilgangsleitinni? Helvítis trúarbrögðin, mar. Allt meira og minni geðveiki og óskhyggja. 
---
Í lífinu sjálfu endar nú "myndin" ekki betur en svo að við steindrepumst og gleymumst fljótlega, sama hvað við hrúgum í kringum okkur drasli, eigum mörg börn, skrifum margar bækur og gerum margar plötur. Á jarðfræðilegum mælikvarða erum við ekki til. Ég sætti mig alveg við þetta: Að þegar ég dey þá sé ég ekki lengur til, ekki frekar en áður en foreldrum mínum datt í hug að tálga mig í dýrslegri girnd (ojjjj!). Það bíður "mín" altso ekki annað en að stirnaður skrokkurinn rotni í mold – eða það sem ég vil frekar; að askan af mér fjúki um í íslenskri túndru. (Það var einu sinni bannað að brenna lík og dreifa á víðavangi, en svo skrifaði ég grein, og nú skilst mér að það sé búið að breyta þessu. Takk, Sólveig. Þú ert ágæt en ættir að hætta í pillunum. Svo fór Jón Bjarnason, sem lítur út eins og úldinn lifrapylsukeppur og er álíka ferskur, eitthvað að rövla út af þessu með öskudreifinguna og það var nú síðasta vísbendingin sem ég þurfti til að álykta sem svo að Vinstri-Grænir yrðu sniðgengnir að eilífu.)
---
Æ, nú er ég búinn að missa þráðinn. Jú, ég var að rövla um helvítis trúarbrögðin, sem þessi fábjánalega mannskepna getur rifist um endalaust... Furðulegt að einhver sé nógu vitlaus til að gleypa þetta rugl hrátt og það að annar hver maður á jörðinni skuli gera það er auðvitað sönnun þess að við, dýrategundin, munum sem betur fer líða undir lok bráðlega. Ég hef sett í loftið grein um helstu trúarbrögð heimsins, en þar ber ég saman hvaða tilboð eru í gangi. Ég skrifaði þetta fyrir Fókus í miðju síðasta góðæri og þess ber merki.
---
Sumir segja að maður eigi að "bera virðingu" fyrir trúarskoðunum annars fólks og leyfa því að dúlla sér í sinni forheimsku á meðan það er ekki öðrum hættulegt. Þetta er svona álíka gáfulegt og að segja að maður eigi bara að "bera virðingu" fyrir hugarórum skitsófreníusjúklings og láta hann liggja einhvers staðar bullandi um að hafa "séð ljósið". Nei auðvitað á að setja raflost og spennitreyju á þetta lið! Biggi er annars að ræða um þetta atriði í nýjasta blogginu sínu, svo tékk it.
---
Jæja, gei-præd og allt í dag mar. Stereo Total eru víst góð svo maður þrammar og sér þau og rottvæluhundana og alla uppstrýluðu hommahöfðingjana. Það þýðir ekkert að þykjast hafa "eitthvað að gera" á þessum hátíðisdegi. Það held ég nú – áfram Gei præd!
---
Gestir eru alltaf hressir. Ferma spyr: "mig langar að vita við hvað þú vinnir. Ég meina á hverju lifir þú?" 
Ert þú frá skattrannsókn? spyr ég nú bara á móti. 
Æ ég lifi á einhverju svona sem kemur einhvern veginn. Slatti er frá póstverslun Smekkleysu, sem ég er búinn að reka árum saman, nánast eingöngu fyrir útlendinga. Það er búið að vera fínt að gera enda eigum við svo mörg bönd núna sem útlendingar hafa áhuga á. Svo er ég mikið í "verkefnum" og "lausamennsku" og svona eitthvað. Ég hef'ða fínt, Ferma, og takk fyrir að spyrja.
---
Kitkat spyr hvort ekki sé von á realítí sjói. Nei, enda væri lítið gaman að horfa á mig á stuttbuxunum hamra á tölvuborð (ekki nema ég hefði tillann lafandi úti?). En það er samt von til að ég verði með sjónvarpsþætti bráðlega – en ekki orð um það meir í bili.
---
Lavalamparnir já. Óskar og Hulli, til hamingju með það! Í Shopology þáttunum frá BBC um daginn kom fram að "okkur" þykir skemmtilegast að glápa á sjónvarpið og númer tvö að versla. Ég fann mig algerlega í þessu. Ég hefi þó löngum reynt að fara "eigin leiðir" og vera "költ" og "kötting edsj". Ég er nú samt ekki merkilegri en það að sama hvað ég rembist tilheyri ég samt alltaf einhverjum hópi. Bókaflokkurinn Re/Search var löngum vegvísir um það sem maður ætti að aðhyllast. Með hjálp hans varð ég svag fyrir "incredibly strange movies" og "incredibly strange music" og ég keypti m.a.s. herskáu kvenrembubókina "Angry Women" þó ég hafi reyndar aldrei nennt að lesa neitt í henni. Árið 1989 kom tattú og götunarbókin "Modern primitives" og þá var ég lengi á barmi þess að fá mér træbaltattú eða tattú af Tinna. Ég var þó aldrei það geðbilaður að mig langaði til að gata á mér kónginn. Á svipuðum tíma voru lavalamparnir eitt hið kúlasta sem hægt var að kaupa sér. Þeir fengust hvergi nema í svaka spes sjoppum í erlendum stórborgum og ég man eftir að Magga Stína keypti sér stærðarinnar lavalampa í þannig búð og dró hann með erfiðismunum til landsins. Einu sinni sagði Páll Óskar mér að einhver ljósabúð í Skipholti væri með lavalampa og þá sleppti ég öllum áætlunum þann daginn og hjólaði með hraði í Skipholt til að kaupa mér lavalampa. Þetta var þó allt einhver misskilningur í Páli og engir lavalampar til þar. 
---
Árið 2002 er ég því enn lavalampa- og tattúlaus – SEM BETUR FER! – enda virðist það eðli "kötting edsjins" að fölna og afskræmast þegar ósvala liðið tekur við sér og tekur költin upp á arma sína. Hvað væri ömurlegra í dag en að vera með eitthvað træbal tattú eins og hver annar eftirá skítamóralsgaur? (Ég segi það ekki: Það væri vissulega kúl að vera með Tinnatattú). Og lavalamparnir fást núna í hrönnum í Kolaportinu OG Rúmfatalagernum. Nídd æ sei mor?
---
Jón B biður um skemmtilega bankasögu. Hmm... Vann við gjaldkerastörf í sirka 5 ár með hléum og man ekki eftir neinu sérstaklega, enda er ég auðvitað ennþá bundinn þagnarskyldu skv. lögum um bankaleynd. Aðeins tvisvar sinnum munaði 1000kalli á kassanum svo ég var mjög traustur. Stundum fór ég að sækja peninga í Seðlabankann og sá þá svo mikið af reiðufé að mér er ómögulegt að bera virðingu fyrir peningum eða yfirleitt að hafa nokkurn áhuga á að safna slíku. Læt hálfvitum það eftir. Lenti aldrei í verulega eftirminnilegum kúnnum, nema kannski Gunnsa Gunn blaðasala, sem þurfti mikið að ræða málin og var lengi að því enda stamandi mjög. Var lítið í félagsstörfum innan gjaldkeradeildarinnar og fór yfirleitt á kaffihús í (alltof löngu) matarhléi (Hressó/Mokka/Kaffi Óle). Tíminn leið fremur hratt og þegar lítið var að gera var maður að sinna ritstörfum undir borði. Semsé lítið á mér að græða með hressandi bankasögur, sorrí!
---
Hlustaði á meðan ég hamraði þetta: Daedelus - Invention (8.5 af 10 - fínt tilraunakennt kammer-hipphopp), Bertrand Burgalat - The SSSound og Mmmusic (7.8 af 10 - fjölbreytt og ágætt) og AYWKUBT-Trail of dead - Source tags and codes (6.4 af 10 - þokkalegt indírokk) 10:25

09.08.02
Gott er að eiga góða að. Einn vinur minn heitir Sunny Ho og er eini Purrks Pillnikk aðdáandinn í Hong Kong. Þegar hann frétti að ég hefði yfir að ráða góðum Purrk Pillnikk bútleggi (læf í Víghólaskóla 1982) og gæti brennt á disk fyrir hann þá vildi hann vitanlega ólmur eiga vöruskipti við mig. Ég bjó samviskusamlega til bútlegginn og sendi og beið svo spenntur eftir mótframlagi frá Hong Kong. Í gær kom pakkinn og var mikið stuð. Fyrst bera að telja snakkpoka með grilluðum og krydduðum smokkfiskbitum (sjá mynd). Ég tók á mig rögg og stakk upp í mig bita, enda er fátt jafn skemmtilegt og að sjokkera bragðlaukana. Reyndist grillaði smokkurinn líkur íslenskum harðfiski, nema mun bragðsterkari og með sætum eftirkeim. Þess má geta að nú hef ég klárað úr pokanum sem og úr öðrum poka sem innihélt þrælsterkt Wasabi-snakk, en slíkt hafði ég étið áður. Auk matarins sendi Sunny þrjú tin-leikföng sem öll geta gefið frá sér hávaða. Tinhænur á priki, Tin-speisbyssu og Tin-trommandi-pandabjörn (sjá mynd). Skemmtileg tilviljun að björninn sé talinn "amusing gay", en guli maðurinn er einmitt þekktur fyrir það að orða sig vandræðalega á ensku. Vilji fólk meira af slíku gríni má benda á Engrish-síðuna, sem er traust. 13:30

Séð og heyrt hvað? Gestir góðir virðast hafa gríðarlega skoðun á þessu máli, heil 165 kvikyndi hafa tjáð sig um í könnun og standa nú leikar þannig að meirihlutinn, 43.64%, vill að tilboðið verði tjakkað upp í heilar 200þúsund krónur, sem verður auðvitað reynt, enda tek ég gífurlega mikið mark á hinum glæsilegu lesendum. Ég efast samt illilega um að valíumkerlingar í Þorlákshöfn séu nægjanlega spenntar fyrir brúðkaupsmyndum af mér og Lufsunni til að ritstjórar S&H telji að slík peningaeyðsla sé réttlætanleg. Aðeins 21.21% telja mig of kúl til að veltast um á hawaii-skyrtuklæddri bumbunni í hvítaruslblaðinu og eru það svo sannarlega vonbrigði, en 35.15% telja að við eigum að kýla á núgildandi tilboð þótt slappt sé. Þetta kallar maður vini sína. Uss. Ég er annars viss um að endirinn verður þannig að myndasyrpan birtist í S&H-lúkki hér í þessum stórfenglega miðli sem er heimasíðan mín. Könnuninni verður þó haldið áfram ef ske kynni að þeir sem telja mig of kúl eigi enn eftir að greiða atkvæði sín.
---
Nei Bjaddni, Sunnlenska fréttablaðið hefur því miður ekki haft samband. Ég myndi líka strax segja NEI TAKK enda myndi ég frekar fara á grútleiðinlega hardkor-tónleika en að láta sjá mig á hestbaki eins og eitthvað fífl úr grárri forneskju eða eitthvað leikarasnobbhænsn. Hestar eru leiðinlegustu dýr í heimi, montin og heimsk eins og liðið sem hangir upp á þeim. (nema Óli mágur auðvitað).
---
Er annars að verða þokkalega hress af kvefruglinu (takk fyrir góð ráð) og sé fram á skárri bloggafköst. Í einkabréfi spurði "Hósi" hvenær næsta Dr.Gunna gigg mun fara fram, og er gaman að segja frá því að allt slíkt verður fryst þar til í október. Við höfum tekið tvö mígandi full subbugigg sem voru stuð, en næst er stefnt á að taka "vandað" gigg þar sem við spilum líka lögin sem eru "alvarleg" – ætli það verði ekki í kringum Erveifs eða eitthvað þannig. Ástæður fyrir þessu hléi eru ferðin okkar Lufsunnar og þar að auki á riþmaparið von á börnum (með konunum sínum).
---
Rétt upp hendi sem á lavalampa! 09:15

08.08.02
Hverslags!? Á maður að vera gasalega sorgmæddur yfir því að eitthvað listaverkadrasl brann í Fenunum? Ef þetta var svona merkilegt hvað var þetta þá að gera ormétið og fúnandi oní þessum kjallara? Nei áfram með smjörið! Kveiki nú hver sem betur getur í listasöfnum og ballettskólum. Brennum ríkisrekna ruslið og leggjum niður styrki – eða förum að styrkja eitthvað almennilegt (eins og mig).

07.08.02
Má ekki liggja hér hóstandi slími, lepjandi beiskan brjóstsykur og veltandi mér upp úr eigin pung, sveittur og sljór. Nei nei, ég á að vera einhver síhress brandarakall með skoðanir á einhverjum lamadýrum eða hvað það er sem nú er í fréttum. Nú liggja hér "dyggir" lesendur á öllum gluggum alveg eins og í mynd George Romero, Night of the Living Dead, en hún fjallaði eins og kunnugt er um veikan ræfil sem var ofsóttur af uppvakningum, eða svokölluðum zombies. Eitt zombíið sem kallar sig Raz-cat, hefur náð að bíta í mig og efast stórlega um pönkmennsku mína sökum te-hitunar, en heitt te/hunang í háls er eins og fólk veit gott við slímrugli. Raz-cat skal upplýstur um að hér sit ég nú í Exploited-bolnum (þessum með Sid og "Punk's not dead"), hlusta á safnplötuna "Oi oi oi – Best of Oi" og er allur að koma til í pönki og almennri skoðunarmyndun.
---
Stórfréttin sl. helgi var bifreiðarstjórinn á Túngötu 6, Álftanesi, sem datt íða heima hjá sér og fór eitthvað að rugla með riffil. Eftir áralanga þjálfum fengu Víkingarsveitarmenn loks tækifæri til að spreyta sig. Þeir mættu með lambhúshetturnar og komu sér fyrir skríðandi og upp í trjám allt í kringum fyllibyttuna. Eins og sást í fréttum Stöðvar 2 vissu nágrannar ekkert hvað var í gangi og einn var úti að labba með hundspott og dauðbrá þegar svartklæddur Víkingur skaust hjá með alvæpni. Að lokum drapst fyllirafturinn og var dreginn á brott, en það hefur hingað til verið endirinn á svona "umsátri". Það er aðeins í myndinni Skytturnar sem svona rugl hefur endað á annan hátt, en þá var gaurinn, sem sagði að Einar Kárason hefði stolið öllu af sér, drepinn oní Sundhöllinni. Sá endir sýnir ekki annað en hversu Einar og Friðrik eru veruleikafyrrtir.
---
Fyllibyttur með byssur eru snögtum skárra fyrirbæri en geðveikir ofbeldis-bræður/tvíburar, en það þema er einnig algengt í íslenskum glæpaheimi. Bræður sem berja. Persónulega skil ég ekki hvernig hægt er að berja einhvern í þvílíka köku að höfuðkúpan sé brotin og allt í innvortis blæðingum og auðvitað er eitthvað mikið að þessu hyski sem hér er á ferð. Spurning um að stúta þessu bara? Losa þjóðfélagið við hættuna af svona drasli, eins og hverja aðra óða hunda? Hvað á að gera við hunda með hundaæði? Geyma þá á Litla hrauni í 10 ár og vona að þeir verði gagnlegir og geti unnið í banka þegar þeir koma út? Hvaða vit er að hafa þetta í fríu fæði árum saman til þess eins að þetta komi út og endi aftur inni eða í mesta lagi heiladautt og slefandi inn á Rockville? Já, en þetta er "mennskt", segir einhver – já, en er svona fólk ekki búið að fyrirgera réttinum til að vera innan um annað fólk og ætti því bara að stútast eða sendast í útlegð á Rockall?
---
Glæpur, refsing. Þegar stórt er spurt... Þú skalt ekki henda fyrsta steininum. Ha, hvaða steini?
Er strang-Allah-aður arabaheimurinn að tækla vandamálið rétt með sínum afhöggnu höndum? Er vestræn linkind gengin of langt? Var þetta ekki skárra svona 1800 þegar almennilegar refsingar voru í gangi, ekki einhver sissí þerapía og rugl?
---
Þessir bræður hömuðst á einhverjum vesalingi þar til hann var hálfdauður og líklega skemmdur for læf, en svo þarf annar "aumingja" glæpahundurinn að ganga berfættur út úr lögreglubíl og þá á honum að vera einhver vorkun? Eitthvað er öfugsnúið hér, erþaggi?
---
Æ ég ætla nú annars ekki að hafa sérstaka skoðun á glæpahyski enda almennur aumingjaskapur og heimska (sem er uppspretta allra glæpa) mér gríðarlega fjærri. Ég vona þó hennar vegna að Víkingasveitin komist einhvern tímann í feitt þegar einhverjir heimskir og dópaðir bræður með byssur loka sig inni og hefja skothríð.
---
En að öðru og mun alvarlegra máli. Eins og spurst hefur út ætla ég og Lufsan að láta pússa okkur saman í Las Vegas þann 4. september nk. og verður því fylgt eftir með æðisgengnu honímúni á Hawaii (eyjunum Oulu og Kau'ai nánar tiltekið). Allt er nánast klappað og klárt. Séð og heyrt hafði samband áðan (Loftur) og vill fá exklúsíf myndasyrpu og grein. Ég hummaði bara en tilboð S&H hljóðar upp á að þeir framkalli allar filmurnar og svo borga þeir 2000kall fyrir hverja birta mynd (það mætti kannski hækka það tilboð?). Hinn athyglissjúki ég er svo sem alveg til í þetta (ókeypis framköllun og svona), en verðandi brúður mín er alveg á móti þessu. "Þetta er fyrst og fremst hallærislegt," segir hún og "fyrir neðan mína virðingu", og að auki finnst henni það "óþægileg tilhugsun að fólk sem ég þekki ekki sé að skoða myndir af mér." Lufsan bætir einnig við: "Ég kæri mig ekki um að mín merkilegasta stund í lífinu sé opinberuð í S&H við hliðina á viðtali við einhverja gæru sem fór í legnámsaðgerð eða eitthvað álíka."
---
Að sjálfssögðu mun Lufsan fá að ráða þessu á endanum, en það væri gaman að fá álit dyggra lesanda. Ég hef sett upp nýja könnun þar sem lesendur geta tjáð sig á einfaldan hátt um þetta brýna mál. 12:30

06.08.02
Ég er fullur af kvefdrullu og ekki í neinu skapi til að slá um mig með hnyttni. Um daginn var ég þó í heimsókn hjá Ssska, sem hafði útbúið orðaskrá sem hann vildi að ég setti á netið.

ORÐASKRÁ SSSKA OG VINA HANS 1977 - 1983

Alma -  Stúlkubarn
Basól - Samkynhneigð
Bassisti - Róttæklingur
Bítlegt - Allt í anda tímabilsins 1960-1970
Bjóla - Skór, stígvél, veski, taska
Djæv - Tilhneiging til samkynhneigðar
Dudd - Kynferðismök
Elmir - Strákabarn
Fender - Kynfæri  karla
Fertugsessa - Klósett
Fíkja - Kynfæri kvenna
Gróa grös í mó -  Ástarhrifning 
Helmút - Meðalmennsku töffari sem fylgir straumnum
Hevískt  -  Allt í anda tímabilsins 1970-1975
Kulaður  -  Skakkur
Kvesí -  Svertingi
Næturkul -  Hass
Pönkað -  Afgerandi
Rickenbakker -  Kynfæri  karla
Spæsaður  -   Angandi af sterkum rakspýra
Stabílisti  -  Stöðnuð týpa
Stabílt   -  Hallærislegt / Staðnað
Stefánað -   Óhreint
Stílisti (stílískt) -   Hægfara / Rola
Stuð (stuðað)  -  Heimskt / Heimskulegt
Stuðpiltur / Stuðstúlka - Þroskaheft fólk
Truflari  -  Trommuleikari
Vangtang  -  Asískt fólk
Vávun  -   Að fá mikið út úr einhverju (sbr. að “vávast”)
Örn  -   Kynfæri  karla
Össahæja -   Valhoppa

Þar hafiði það. Ég ætla nú bara að fá mér meira te. 14:40

04.08.02
Skammist ykkar að koma ekki að róta! Nú er ég búinn að eyða öllu kvalití-tæminu í hangs yfir sveittum sendibílstjóra berandi margra tonna hátalarahlunka og gerandi upp snúrur. Mikið djöfulli rignir.
---
Taðskegglingurinn Indriði Greipsson hafði gaman að Innipúka og hefur ritað gagnrýni á Baggalút. Vel til fundið framtak sem ber að þakka. Snjallt hjá honum að koma auga á Ununar-dúkkuna. Ég vona að "djamm-mynda-síðurnar" taki nú við sér og sýni frá ballinu. Það hljóta einhverjar ýlandi dræsur að hafa verið þarna sem hægt er að birta bobbinga-myndir af.
---
Ég veit ekki hvað þú ert að spá en ég ætla að steikja mér hamborgara. 18:15
---
Þetta er nú meira helvítis óveðrið. Maður hugsar hlýlega til bjánanna sem liggja nú vatnssósa eins og fífl á einhverri útihátíð. Ætli maður hangi ekki inni í dag og spila eldgamla tölvuleiki eða eitthvað í þeim dúr, geri svona nákvæmlega ekki neitt uppbyggilegt heldur gæli við sinn pung í víðusta skilningi þess orðs – "Quality time". Ég þarf líka að vera duglegur að þvo sem Lufsan snappi ekki þegar hún kemur úr vaktavinnunni. 
---
Innipúkinn tókst líka svona rosalega vel. Honum hefur verið bætt við í tónleikalistann góða. Mikið stuð og mikið gaman. Hitti alls kyns lið sem ég vissi ekki einu sinni að væri til, t.d. Frikka kokk, sem á árum áður var drifkrafturinn á bakvið það þegar Nick Cave var reddað sjóveikistöflum úr Reykjarvíkurhöfn, Ari Eldjárn gaukaði að mér týndri SG-hljómplötu með Tindum, finnski kynnirinn fór á kostum og reif næstum af sér allt hárið í gleði þegar ég sagðist kannast við Impaled Nazarene og svo hitti ég Enter og Spesa úr ritsjórn Baggalúts. Það merkilega er að fólk heldur kannski að þessar myndir af þeim á síðunni þeirra sé eitthvað djók, en svo líta þeir nákvæmlega svona út og ég þekkti þá strax þegar þeir komu baksviðs færandi hendi með saltstangir og Schnapps.
---
Eftir herlegheitin fékk ég mér pulsu með öllu og kókómjólk til hátíðarbrygða á BSÍ kl.02 í nótt, en vaknaði kl.04 og skilaði af mér, enda búinn að fá mér aðeins í tánna á Púkanum. Kókómjólk og pulsu-gubb er nú frekar mikill viðbjóður og ég mæli ekki með því. Kókómjólkin gerir gubbið slímugt og svo standa pulsubitar upp úr og allt þetta lyktar eins og viðbjóður útaf hráa lauknum og því. Var með ógeðslegan hausverk kl. 09, en át þá 600mg Íbúfen sem læknaði þynnkuna og gerði mig jafn ferskan og döggvuð gleym-mér-ey á svölum haustdegi. Ef maður hefði nú bara haft Íbúfen í gamla daga þegar maður kvaldist dögum saman með hausverk og beinverk. Galdrameðal.
---
Partýstand var heima hjá Birgi Baldurssyni í Kaupmannahöfn í nótt sem leið og fer hann ekki mildum orðum um pakkið. Best hefði auðvitað verið fyrir hann að drekka mest af öllum og krípa liðið út með sóðakjafti.
---
Hér er ræfill sem vantar að komast á gleðikonu. Ert þetta nokkuð þú, Albert?
---
Æi...þurfum að róta þessu drasli kl.15:15 - ef einhver vill taka undir magnara og drasl er hann velkominn niðrí Iðnó. 13:50

03.08.02
Vaknaði í tjaldi með æluna síðan í gær klístraða í hárinu og hráan lauk og sítrónubörk í klofinu. Ógeðslega þunnur og var lengi að átta mig á hvar ég væri en þegar leit út sá ég fertugan mann með mexikanahatt beran að ofan dauðan fyrir utan tjaldið. Tvær gelgjur í grasgrænum lopapeysum lágu látnir fyrir utan næsta tjald og fíni gítarinn minn lá í maski á milli þeirra. Ég staulaðist á kamar í gegnum líkin í úrhellisrigningu og 20 vindstigum. Snögglega stóð eitt líkið á fætur og heimtaði tafsandi slag.
---
Úff - hér vaknaði ég; þetta var þá bara martröð. Ég er í Reykjavík og dagur Innipúkans er loksins runninn upp. Mér sýnist þetta vera kjörveður til inniveru.
---
Miðasala á Púkann hefur gengið vel - nú eru allir miðarnir úr Hljómalind og 12 tónum uppseldir og fást engir miðar þar lengur. Enn má þó fá miða á gigg ársins og hefst miðasala kl. 14:00 í Iðnó í dag. Stuðið byrjar svo kl. 17 og þá verður fríbjórinn allsráðandi.
---
Plöggi er lokið og var endapunkturinn settur í Kastljósi. Ég hélt að maður ætti að reyna að vera skemmtilegur en þegar þau Jóna og Helgi byrjuðu á mónólógunum sínum datt ég út og sveif út í geim á baki óminnishegrans. Ég hefði getað sagt miklu skemmtilegri "missa-af-balli"-sögu en Helgi og þar að auki ekki tekið 10 mínútur í það. Einhvern tímann í miðju "Ég-var-í-Kína"-ræðunni hjá Ingu var ég kominn á fremsta hlunn (hlunn?) að opinbera L.O.G.G. brækurnar fyrir alþjóð en mundi þá eftir mömmu minni fyrir framan sjónvarpið í bústaðnum á Þingvöllum og hætti við enda getur maður ekki gert aldraðri móðir sinni svona óskunda. Þar að auki var örugglega pissublettur í hvítum brókunum og ég hefði orðið einhver mest ókúl strippari í sögunni. 
---
Það er annars afar athygliverð umræða um pissubletti og nærbuxur í Gestabók og ríður Bibbi í Innvortis á vaðið og játar upp á sig pissudropavandamál, en allir karlmenn með lafandi forhúð ættu að kannast við þetta og koma úr skápnum með vandamálið – kannski með því að stofna stuðningshópinn KOSF (Karlmenn með Of Stóra Forhúð). Lausn á þessu er umskurður en með kónginn beran ætti að vera hægt að kreista alla dropa út. Það er hins vegar ekki svo opinber staðreynd að umskornir karlmenn fá einskonar sigg á kónginn sem gerir gleðihnúðinn ónæmari fyrir snertingu. Umskornir karlmenn fá því mun minna út úr kynlífi en meðlimir KOSF og ættu menn því að hugsa sig tvisvar um áður en í umskurð er farið. 
---
Jú, Hare, "L.O.G.G. Sport"-brókin er frá H&M. Ég ætla að tékka á sjoppunni hér næst þegar ég á leið hjá. Katrín: Bibbi notar örugglega klósettpappír til þerringar, en pissdroparnir eru svo lúmskir að þeir fela sig. Það er því sama hvað maður juðast með pappírnum, alltaf skal leka samt. 
---
Ætti ég endurskýra þessa síðu "masculin.is"?
---
Þessi kvenna/karla issjú eru annars frekar fyndin. Hér má ég ekki tala um pung eða lafandi forhúðir án þess að mörgum finnist þetta vera viðbjóður og ekki til eftirbreytni, Betarokk missti t.d. matarlistina. En svo mega kerlingar ræða um grútskítuga torfuna á sér og það á að þykja "fallegt". Pælið svo í þáttum eins og Sex in the city og reynið á sjá fyrir ykkur karlkyns-útgáfuna af þeim þætti: Fjóra slísí karla að röfla um punginn á sér og ríðandi einhverjum útúrvönkuðum dömum eða talandi um að ríða þeim. Jú, auðvitað myndi maður glápa á þannig þátt, en ætli það heyrðist ekki einhversstaðar hljóð út horni kerlinga.
---
Hef sett inn lagið Fyrir 100 árum, sem við spiluðum á Rás 2 í gær. Aðeins 2:17 mínútur að lengd og niðurhlaðanlegt til geymslu og spilunar HÉR!
---
Og að lokum: ALLIR Á INNIPÚKANN!!! 10:50

02.08.02
Plöggaði í fréttirnar á Stöð 2 - verð í viðtali í kvöldfréttum. Svo er mér treyst til að vera skemmtilegur í skemmtilega föstudagskastljósinu. Sé um það hlutverk á eftir með Helga Bjöss og Ingu Jónu Þórðardóttir. Djísess. Á ég að gera skandal og sýna á mér punginn? Nei, andskotinn. Sit á honum stóra mínum. 15:35
---
Nú stefnir óðfluga í Innipúkann og plögg gerist ægilegt. Hef sett inn nákvæma daxrá með tímasetningum sem gestir ættu að prenta út og hafa í vasanum, eða stinga í derhúfu. Var ekki amalegur í Hjartslætti um helgar á S1 en hamsturinn stóð sig samt best. Í dag í dægurmála-útvarpi verður viðtal við Dr.Gunna (bandið) og það verða spiluð lögin sem við tókum upp í gær. Svo á ég víst að vera í Kastljósi í kvöld, vonandi ekki með Óla H frá umferðarráði (þó það sé einhvern veginn óumflýjanlegt) og vonandi verður Thor Vilhjálmsson ekki dreginn þarna tautandi inn. Ég ætti að vita þetta betur um hádegið og blogga tíðindum samstundis. 
---
Annars er komið svo mikið plögg á Innipúkann að maður fer að verða drulluhræddur um að þetta verði einhver geðveiki – 4000 manns eða eitthvað – og svo verðum við Grímur í umræðuþáttunum eftir helgi eitthvað stamandi og reynandi að afsaka okkur af 20 nauðgunum – svona eins og Einar B í fyrra. Nei nei, öll nauðgandi varmenni eru að sjálfssögðu of vitlaus til að fíla jafn metnaðarfulla daxrá og á Innipúkanum og vilja bara liggja útskitin í tjaldi með nauðgunarglampa í augunum og svefnlyf í poka. 
---
En það gæti orðið troðið og við getum kannski ekki alveg selt endalaust inn. Hljómalind og 12 tónar eru með forsölu svo það er sniðugt að hafa vaðið fyrir neðan munninn og fá sér miða (á 1200 kall stk). Svo verða Rúnk í 12 TÓNUM í dag kl. 17:30 og þangað er auðvitað skyldumæting, enda Rúnkplatan komin út og allt stefnir í hóprúnk á gamalt tekex.
---
Hér er almennilegt efni af svokölluðu Neti: Guðbergur í svaka stuði og sparkar nú í íslenska kvikmyndagerð eins og honum er "einum von og vísa" – Ég veit ekki hvað Stellufólkið er. Það virðist vera afdankað vinstralið komið margskitið úr rassinum á “gömlu kommunum”, kannski með Eddu Björgvins í broddi fylkingar, leiðinlegustu og sjálfsánægðustu leikkonu í heimi. – segir Gubbi eins og kjaftfor unglingur. Djöfull vona ég að ég verði jafn ferskur þegar ég verð 70 og eitthvað.
Þá er Baggalúturinn kominn aftur eftir frí með nýtt útlit og drephressandi fréttaflutning. Án efa besti vefur landsins og þó víðar væri leitað erlendis.
---
Gestir eru að vanda hressir á þeirri Innanpíkubleiku og með ráð undir rifi hverju varðandi pung og popup. Ég mun taka til athugunar Marks&Spencer, sem er tillaga Jóns B, en fyrst mun ég heimsækja bestu búðina í bænum, Dressman að sjálfssögðu, og fjárfesta í "Man Basic", sem er uppástunga Valdimars Arnar. Hans lýsing hljómar vel. Er annars í annarri LOGG nærbuxunni sem ég á og finn ekki einu sinni fyrir pungnum á mér, þvílík sæla eru þessar buxur – það er eins og ég sé kona að neðan. Þetta er því líkt með nærbuxum, kvikmyndatónlist og þýðingum í bíó – ef maður finnur ekki fyrir pungnum/tónlistinni/textanum þá er gott djobb á ferð. 
---
Án þess ég vilji játa pungsig þá er Daria bara með rugl þegar hún segir punginn "snilldarlega hönnun" – hvað ætli hún viti um það, punglaus konan? Úlfhildur (Dagsdóttir?) segist á útlensku hafa týnt pung sínum og er það miður. Vonandi hefur hún fryst sæði áður upp á hugsanlega erfingja. Ýmsar pop-up-lausnir eru einnig viðraðar og eru allar í mikilli athugun. Gott er að vita af þessum ráðagóðum gestum og þeir eiga þakkir skildar. 09:40

01.08.02
Nú ætla ég að afsanna þróunarkenninguna og tala um punginn á mér. Ef það væri eitthvað til í þessu hjá honum Darwin væri pungurinn á mér fyrir lifandis löngu hættur að lafa þarna eins og vitleysa á milli lappana og annað hvort komin á brjóstkassann í stað þessara gagnslausu spena eða inn í skrokkinn á svipuðum stað og þeir eru núna. Fróðir menn segja mér að þetta sé utanáliggjandi af því sæðið myndi soðna við 37°C líkamshita og maður myndi byrja að skjóta tómu rugli – að þetta lafi þarna altso til að fá nauðsynlegt tsjill. En annað eins galdratæki er nú skrokkurinn og ég skil ekki afhverju við höfum ekki þróað með okkur einhverskonar viftu sem myndi blása á eistun ef þau væru innan í okkur (kannski væri hægt að tengja þetta eitthvað við rassgatið og um væri að ræða einhvers konar gegnumstreymi). Maður hefði nú haldið að alveg eins og einhverjar fínkur á Galapagos fá langa gogga af því þeim langar í orma í glufum þá ættum við, miklu spekingslegri dýrategund, að hafa getað þróað með okkur einhverja lausn á þessu dinglumdangli. Eftir öll þessi þúsund ár sem menn eins og ég hafa þurft að skokka á eftir bráð með þessar viðkvæmu kúlur dinglandi eins og í skilvindu á milli lappana, hindrandi eðlilegan spretthraða, þá hefði maður haldið skv. Darwin að eitthvað hefði átt að vera búið að ske í þessu. Kannski erum við bara komin svona skammt á veg á þróunarbrautinni og svo hefur kannski hægst á okkur eftir að stóllinn var fundinn upp. Eða kannski var bara helvítið hann Darwin að tala út um endaþarminn á sér.
---
Ég er samt viss um að frummenn hafa haft miklu betri lausn á þessu vandamáli en við nútímamenn. Þeir hafa örugglega verið með dúndurgóð pungbindi úr þara og trjákvoðu sem hafa haldið hinni hárugu hindrun grafkjurri og öruggri á sínum stað. Nú er varla neitt í boði nema nærbuxur sem gera illt verra, enda alkunn staðreynd að allir hönnuðir í heimi eru samkynhneigðir og því lítið að hugsa um brýn pungmál og þess meira að spá í 13 ára albinóastelpum sem líta út eins og litlir albínóastrákar. Skoðiði bara möppuna hjá Eskimo-módels ef þið trúið mér ekki. 
---
Eftir 36 ár af veseni hef ég því enn ekki fundið viðunandi lausn á pungnum á mér. Einu sinni var ég alltaf í aðþröngum V-laga Hagkaups-nærbuxum sem skárust í klofinu og gerðu ekkert (viðkvæmir ættu að hætta lestri hér) nema steypa mér út í vörtum og bólum á hinu heilaga svæði karlmannsins. Ég prófaði síðar svokallaðar boxers en þar lak nú allt fjandans til í hinum miklu víðáttum og lafði máttleysilega út á hlið eins og þaultuggin tyggjóslumma. Það tekur nú út yfir alla skynsemi þegar þessar boxers eru komnar með tölur í ofan á lag við víðáttuna. Þá halda dótinu engin bönd og það gæjist út þegar minnst varir og lafir eins og lítil, ég meina stór, lafhrædd rotta. Á reiðhjólinu hef ég stundum verið í spandex-buxum með púða og kemst það einna næst fullkomnun, nema hvað á löngum leiðum fer ég að óttast um að ég sé að verða ófrjór því hitastigið neðra er farið að nálgast hættumörk enda pungur og félagar hans dúðaðir af hinum haganlega ísaumaða púða. Á ferðum mínum erlendis hef ég leitað að lausn og eftir allskyns tilraunir hef ég komist nálægt aðdáunarverðri niðurstöðu með hálfgerðum spandex nærbuxum, án púða þó, af gerðinni L.O.G.G. ultimate, en vandamálið er að ég var sá auli að kaupa bara tvennar (enda vissi ég eðlilega ekki um reynsluna af þessum buxum þegar ég keypti þær). Ég er því alltaf með þessar tvær í þvotti enda getur það að ganga í góðum nærbuxum með pung sem getur um frjálst höfuð strokið án þess að vera allur á fleygiferð gert útslagið um hvort dagur verði góður eða ekki.
---
Ég hef því miður ekki komist í tæri við íþróttapungbindi – jock strap – en allar ábendingar og pungtengdar reynslusögur eru velþegnar í gestabók.
---
Á dauðalistann set ég í dag þann sem fann upp "pop-up" frekjutæknina. Hvers konar hálfvitar falla eiginlega fyrri svona böggi? Örugglega sama hyskið og svarar þegar það fær email frá Nígeríu. Kannski það sé pakkið sem er alltaf í þessum íslensku biðröðum?
---
Minni að lokum á sjálfan mig á hinum ýmsu öldum ljósvakans í dag en nú er háannatími við að plögga Innapúkanum: Verð hjá Ham og Bang Gang kl. 09 (með ægigóða poppgetraun í farteskinu), á Rás 2 einhvern tímann í dag (með nýtt lag) og svo hjá litlu stelpunum í strætó í kvöld (rasandi út eins og alger geðsjúklingur). 07:32

31.07.02
Þá er lokið fyrstu poppgetraun Dr. Gunna og er óhætt að segja að þátttaka hafi verið góð (385). Grunur um svindl læðist þó að manni sem skýring á hinni miklu þátttöku, þ.e.a.s. af fólk hafi ekki hætt að svara fyrr en allt var rétt, svona eins og í hinum hundleiðinlega leik Mastermind, sem var mjög vinsæll um það leyti sem ég var fermdur (þarf að segja ykkur betur frá því seinna).
---
Samkvæmt bókhaldi náðu fjórir að svara öllu rétt og fá með því 100% í prófinu. Þessir eru Daria, Jonniebegoode, Guðni Finnsson og Bryndís. Þessum meistarapopphausum og að auki Beturokk sem hélt því fram að hún hefði líka verið með allt rétt, verða send verðlaun í rafpósti og verðlaunin eru nú ekkert slor: 15% afsláttarmiði hjá Tempó innrömmun (Álfhólsvegi 32, Kóp), langbeztu innrömmunarstofu landsins, en þar snýst innrömmun um list og enginn snýst um sjálfan sig. Hinir heppnu þurfa ekki annað en að prenta afsláttarmiðann út og rétta við afgreiðslu. Ég trúi ekki öðru en hinir gáfuðu popphausar eigi óinnrammaðar myndir sem nú er loksins komin ástæða til að ramma inn. Tempó innrömmun selur líka gullfallegar myndir (t.d. af kettlingum og englum) sé fólk alveg lens og að auki bráðnauðsynlega spegla. 

Ég set eflaust aðra poppgetraun í gang bráðlega en hér eru hin réttu svör við getraun nr. 1: 

1 - C (Laugarvegur)
2 - D (Ultravox)
3 - C (Það er engin leið að hætta þessu helvíti)
4 - B (Daysleeper)
5 - B (Brimkló)
6 - D (2500 kr)
7 - C (Gefur út diska)
8 - A (Erðanúmúsik)
9 - E (Rúbbi dúbbi dúbb)
10 - E (Æ hverjum er ekki drullusama)

Takk fyrir þátttökuna!
---
Ég minni á 
INNIPÚKANN 2002!
Nú hellist yfir megaplögg á næstu dögum og er þetta helst í þeim efnum:
Á morgun fimmtud: 
- viðtal við mig í Sigurjón og kó á Radíó X kl. 09
- viðtal hjá Guðna Má á Rás 2 um svona 15 + lag sem verður tekið upp í Rúv spilað í eftirmiðdagssjói Rásar 2
- ég að rasa út í "Gæludýrahorninu" í Hjartsláttur í strætó kl. 22
Á föstud:
Viðtöl í öllum blöðum og eitthvað svona. Man þetta ekki alveg.
---
Ég ætti annars að geta birt hér tímasetta dagskrá Innipúkans bráðlega og eitthvað svona. En þetta verður held ég alveg rosalegt stuð. Hljómsveitin Dr. Gunni er allavega farin að slaga upp í það sem best gerist erlendis í þéttleika og almennum hressheitum.
---
Jón B spyr hvort ég muni eftir Viðeyjar-floppinu 1984, en þar vorum við í S/H Draumi og lékum á rokktónleikum kl svona 4 á laugardegi. Nei ég man voða lítið nema að við fórum þarna upp á hól og vinkona okkar Sigrún á Auðbrekku var þarna í tjaldi ásamt vinkonu sinni og mig minnir að það hafi verið eina tjaldið á svæðinu. Þeir örfáu sem tjölduðu daginn áður höfðu þá komið sér í land þegar ljóst var í hvað stefndi. Ég tók nokkrar myndir og hef sett á síðuna til minningar um þetta legendary flopp. Jón B og aðrir geta þar séð að ég var ekki með tagl og hef auðvitað aldrei verið með tagl. Það er skammarlegt af Jóni B að halda svona fjarstæðu fram og hann hefur greinilega verið á sýru en ekki hassi. 11:52

30.07.02
Afhverju skil ég ekki neitt í þessum endalausu fréttum af einhverjum typpakörlum sem eru að spá í að kaupa reksturinn af einhverjum öðrum typpakörlum? Er ég svona nautheimskur eða er ekki bara frekar að maður þurfi að eiga frekar lítið líf til að nenna að velta sér upp úr því hvort Kalli í Júmbó eða Palli í Sóma eigi einhver tussuleg símafyrirtæki eða hvort fíflið hann Pétur Blöndal sé búinn að selja á sér tittlinginn? Það er nú meira helvítis gerpið. Mér segja rætnar tungur að hann hafi alið krakkann sinn upp í hörðum kapítalisma – 100 kall fyrir að kyssa pabba, 150 kall fyrir að fara út með ruslið, 120 kall fyrir að kyssa mömmu o.s.frv. – og svo varð krakkinn vitanlega sorgmætt ógæfumenni enda gat hann aldrei safnað sér nógu miklu til að geta keypt sér ást og umhyggju. Svona er nú nýfrjálshyggjan sorgleg, æi og ég nenni nú ekki einu sinni að tala meira eða hugsa meira um pólitík í dag.
---
Ekki ef vera skildi nema til að byrja að ræða það ömurlega val sem manni stendur til boða á næsta ári þegar kosningar hellast yfir. Talandi um muninn á skít, drullu og ræpu. Þetta fótafúna stjórnmálagengi er álíka ferskt og Spaugstofan, enda virðast sumir (dagskrárstjóri Ríkissjónvarpssins, fyrrum saxófónleikari Júpiters allavega) halda að sú spaugdauða stofa sé "val fólksins". Ef einhver kemur hingað á þessa síðu og er undir 40tugt og hefur gaman af þeirri stofu – og er kannski búinn að kaupa sér spólur og allt til að taka þetta drasl upp á – þá ætt'ann að bregða sér beint og reyna að fá djobb á vernduðum vinnustað. 
---
Ég fæ snert af gamla Corky-pirringnum þegar ég sé þennan Örn Árnason þykjast vera að smíða eitthvað í hinum sorglega þætti sínum á Rúv, enda Örn nettur mongólíti á svipinn. Hann er hin dapurlega miðaldra-krísa holdi klædd og það hellist yfir mann lífsleiðinn við hvern brandara. En nú er ég kominn út af kortinu og ætti að skammast mín fyrir að segja svona ljótt um einn helst grínara þjóðarinnar.
---
En í alvöru, hvað á maður að kjósa næsta sumar? Ég vona að einhvers staðar sé ferskur spútnikkmaður/kona með ferskt yfirbragð sem kann að tala og svara fyrir sig og svona, án þess að það sé allt í einhverjum morfís-stíl eins og þessir gríngæjar í borgarstjórn. Það væri nú gaman ef það kæmi einhver sem maður gæti litið upp til og fylkt sér á bakvið af því hann er svo æðislegur. En ég gæti nú líklega alveg eins óskað þess að hljómsveitin Buff hætti að vera á fylliríi á Gauki á stöng – án þess að það sé svo sem eitthvað atriði fyrir mig.
---
Hvaða grín er þetta með hann Þorfinn? Hann má ekki fara á ærlegt reikningslaust fyllirí fyrir 350 þúsundkall í útlöndum en þessi Gummi þjófmenning má drulla í öll horn og troða inn á sig fornum skartgripum og fær svo bara áminningu? Og hvað er þessi Vilhjálmur þarna að gera í þessum kvikmyndasjóð? Hann lítur út eins og æviráðinn starfsmaður skattstofu sem var bjargað undan möppustafla eftir að hafa legið þar vatns og matarlaust í viku. Eina myndin sem hann hefur hugsanlega séð um dagana er fræðslumyndin Svona röðum við í möppur, framleidd af Bandaríska hernum 1963. 
---
Í fréttum hafa líka verið sorgarfréttir um aðbúnað blindra. Þeir fá ekkert að gera greyin nema að vefa bastkörfur og álíka leiðindi. Er nú ekki nógu mikill bömmer að vera blindur þótt maður sé ekki látinn vefa bast allan daginn eða setja drasl í umslög? Mér finnst lágmark að hinir blindu fái gott tott í boði Ríkissins vikulega plús gómsætar tertur og almennilegt líf. Blindu bræðurnir frá Vestmannaeyjum mega fá þennan díl líka, en verða þá að lofa að hætta í poppinu. 08:35

29.07.02
Fokking mánudagur og allur vindur úr manni því ég naut ekki þeirra sjálfssögðu mannréttinda að vakna kl. 6 í gærmorgun, hella upp á rótsterkt kaffi og mixa banvænan skammt af Hörbalæfi með. Var á ættarmóti Lufsunnar og missti úr takt og svaf til 10:50, sem er nú bara aumingjaskapur á háu plani. Ekkert er eins leiðinlegt og að sofa og nægur tími til þess í eilífðinni. Fólk liggur bara slefandi og hrjótandi og um hausinn á því fara rafboð og kjaftæði. Margir eru svo geðsjúkir að halda því fram að draumar tákni eitthvað og ef þú til dæmis dreymir mann sem heitir Jósep og hann heldur á brauði, þá séu yfirgnæfandi líkur á því að skipskaði verði undan Látrabjargi kl.14:00. En nú er bara að ná upp takti á ný. Vorum þarna á Laugarvatni sem er úti í sveit og ég er alveg búinn að fá nóg af út í sveitum í sumar. Maður getur annað hvort verið sveita- eða borgarsinnaður og nú vil ég bara steinsteypu og hávaða og skít. Farið var í ratleik og göngutúr og étið og drukkið og svona, en hápunkturinn var gufubaðið þarna sem er nokkuð fínt. Best var þó að koma í sorann á ný.
---
Mikael Torfason lítur þessa hugleiðingasíðu miklu hornauga og finnst skrif mín eyða of miklu af tíma sem ég gæti annars notað í bréfaskriftir við hann. Hann var alveg brjálaður um daginn þegar ég var að minnast á einhverjar Köturog Betur og lét eins og eiginkona sem finnur g-streng í jakkavasa. Reiðin og pirringurinn rann ekki af honum fyrr en hann gat skrifað pistil á heimasíðu JPV þar sem honum tekst hið mikla afrek að gera einn og sama manninn úr mér og Eyþóri Arnalds. Mikki er með þetta franska Búdrýjinda-fífl á heilanum og maður má varla fá sér Malt í glas án þess að Mikki sé byrjaður að röfla um hvort Maltið í flöskunni sé "veruleiki" en Maltið í glasinu sé orðið "óraunveruleiki" og því "sannara" en "fyrirmyndin". Argh - djöfulsins leiðindi! Svona úrkynjast hugsunin í solli stórborga (hafi maður ekki vara á sér) og því er kannski einn af stærstu plúsum Íslands að hér er alltaf stutt í sveitina og þar er allt röfl um raunveruleika/óraunveruleika algjör steypa sem aðeins algjörlega fyrrtum einstaklingi myndi detta í hug þar. Ha, nú voru álfar og huldufólk tákngervingar hins óræða, einskonar andefni í síkvikulum kjarna sannleikans? (framhald þessara leiðinda má finna á www.kistan.is þar sem skoðunarlausir andlegir aumingjar sem hafa hangið og látið aðra andlega aumingja mata sig í nokkur ár reyna að segja lærðar skoðanir sínar á það flæktan hátt að menntunarlausir ræflar skilja ekki neitt, eða nenna ekki að skilja neitt.)
---
Heimasíða JPV-forlagssins er annars stórkostleg að því leiti að þar fær Gubbi djöfull að rasa út eins og væri hann á eigin bloggsíðu (þangað færi ég daglega). Gubbi skrifar um Kastljós Ríkissjónvarpsins: Kastljósið hefur ekki borið sitt barr eftir að sá kjaftagleiði fór í framboð. Eftir situr sá sem er alltaf að fá sér vatnssopa og lítur skömmustulegur í myndavélina á meðan, eins og hann búist við rassskellingu. Að sopa loknum kemur venjulega úr honum spruningaspræna, ef stúlkan hefur ekki náð völdum í sopahléinu. 
---
Gaman væri já ef Guðbergur væri með blogg ekki síður en að Megas, Jón Gnarr og Einar Örn Benediktsson væru bloggendur (svo helstu stórmennin séu talin upp). Eftir að Baggalútur fór í sumarfrí á ég í mestu vandræðum með að nenna að skoða einhver íslensk vefsvæði, en lesendur geta kannski bent mér á góða kosti í gestabók (og hætt að röfla um DRON!)
---
Best þá að eyða ekki meiru púðri í hinn almenna lesandi í dag og skrifa Mikael massíft bréf. Annars fer hann næst að ofsækja mig í Velvakanda eða eitthvað. 08:25

27.07.02
Komu hingað í gær stelpurnar sem sjá um Hjartslátt í strætó og Jón Þór pródúser og tveir myndatökumenn. Til plöggs á Innipúkann 2002 hafði ég samþykkt að fara í "gæludýrahornið" án þess að eiga slíkt, en þau mættu með hamstur í pínulitlu búri og svo var kveikt á myndavélunum. Fyrir það fyrsta var aumingja hamsturinn stjarfur af hræðslu í búrinu sínu og leit út eins og steindauður. Ekki góð kynning fyrir "dýravininn" mig. Með þennan "dauða" hamstur í búri og sorakjaftinn á mér varð þetta mjög brútal viðtal og stelpugreyið Þóra Karitas sem sat með mér í sófanum var greinilega orðin dauðhrædd við þetta geðveika flykki við hliðina á sér. Vinkona hennar Mekkanó gat ekki falið vandlætingarsvipinn og ég sverða að annar myndatökugaurinn var farinn að grenja þegar spjallinu lauk. Ef svo ólíklega vill til að eitthvað af þessu verði sýnt (það má kannski klippa þetta sundur og saman til að það sé boðlegt venjulegu fólki) þá verður þetta sýnt á S1 á fimmtudaginn kl. 22:00. 
---
Veit hreinlega ekki hvað kom yfir mig. Ég er náttúrlega svaðalega áhrifagjarn og stuttu áður hafði ég verið að lesa nýjustu bókina hans Mikka Torfa í handriti. Samúel heitir bókin og er massalesning og náttúrlega frekar brútal og "umhugsunarvekjandi" komandi frá Mikka. Þarna er veruleikahlutverk sjónvarpssins m.a. dregið í efa ("Veruleikahlutverk", bíddu, hvenær var ég í bókmenntum?) og ég var því kannski að fokka aðeins í "útsendurum djöfulsins" (svo ég vitni óbeint í bókina). Samúel er bók sem verður mega költ ef hún verður ekki bara mega sökksess. 
---
En ég held ég hafi bjargað þessu fyrir horn á endanum, enda var hamsturinn orðinn svaka hress þá og byrjaður að skríða um. Ég sagðist ekkert ætla að bíta af honum hausinn á Innipúkanum ef fólk mætti ekki. Sem betur fer datt mér ekki í hug fyrr en seinna að segja að ég ætti þennan hamstur af því mér þætti svo gaman að láta hann skríða upp í endaþarminn á mér. Sem ég skil ekki hvernig sumum mönnum tekst þar sem hamstrar eru nú ekkert svo litlir og þar að auki kafloðið og með tennur. Skrýtið samt að einhverjum hafi ekki enn dottið í hug að festa hamstra við prik og nota sem eins konar lífrænan skeinipappír.
---
Á Rás II í dag kl 16:08 verður megafríkið og stórvinur minn SSSka í viðtali hjá Möggu Stínu í þættinu FUGL. SSSka er þegar búinn að vera einu sinni í þættinum og rakti þá sögu æfingarhúsnæða 70s-banda. Í þessum þætti verður tekinn upp þráðurinn síðan síðast og fjallað um fleiri æfingarhúsnæði. Algjör skylduhlustun að sjálfssögðu.
---
Af öllum mönnum eru nú fyrrum meðlimir DRON eða ættingjar þeirra farnir að leggja mig í einelti á minni eigin gestabók. Einn sem kallar sig V (fyrir "Vælukjói"?) spyr hvort ég hafi verið abbó af því að ég var ekki meðlimur í DRON. Vá hvílík söguskoðun! Hvað ætti ég að hafa haft að gera í svona plebbabandi? En að sjálfssögðu varð ég abbó þegar DRON unnu Músiktilraunir 1982 en hljómsveitin mín S/H Draumur féll úr keppni án þess að komast svo mikið sem í úrslit (kepptum á fyrsta Músiktilraunakvöldi ever og lentum í 3 sæti af fjórum mögulegum). Strákarnir í DRON voru úr Kópavogi, m.a. Bjössi sem hafði spilað með mér í pönkbandinu F/8, en það kom aldrei til greina að blanda geði við þá af því þeir voru komnir í eitthvað sveitaballapopp síns tíma en við vorum nýbylgjurokkarar og gáfum skít í svona rusl.
---
En hvort afbrýðisemi sé ástæða þess að stórhljómsveitin DRON var ekki allsráðandi í stuðbókinu er nú algert rugl – ég hefði eflaust skrifað eitthvað meira um þá ef þeir hefðu gert eitthvað eftir Músiktilraunir annað en koma einu hundslöppu lagi á safnplötu. Mér finnst nú ekki alveg sjálfgefið að band verði merkilegt þótt það vinni MT. Sagan segir okkur að það er svona 50/50 hvort sigurband úr MT meikiða. Þess vegna var jafn lítið talað um DRON og Laglausa, Nabblastrengi, Stæner og Andlát, en þess meira talað um XXXR, Botnleðju, Maus, Kolrössu, Sororicide og Stuðkompaníið og Greifana (ef helvítis "týndi kaflinn" hefði verið inni.)...
---
Takk Sunnan fyrir ritgerðina á gestabókinni. Sammála öllu, Vér Íslendingar erum fífl þegar kemur að dauða-málum. Ég vona að Europiss sé búið að opna útibú í himn/helvíti svo fólk geti farið í biðraðir þar líka, annars er hætta á að það fari fýluferð. Annars var ég að spá í þessar minningagreinar í Mbl. Lang flestir fá kross við hliðina á andlitinu á sér, en stundum kemur eitthvað væmið blóm. Mér finnst þetta hálfslappt úrval á merkingum hjá Mbl. Það virðist vera sem Kristnir og blómaskreytingafólk megi eitt drepast á síðum blaðsins. Ég vil hvorugt fá á mínum minningargreinum (ef einhver nennir þá að skrifa), hvorki krosshelvítið né væmna blómið. Ég hef nú svo sem ekki pælt mikið í hvað gæti komið í staðinn, en kannski hauskúpa með beinum fyrir neðan, mynd af Tinna eða smækkuð mynd af Vetrarbrautinni. Eða kannski bara fokk-jú-putti? Þið pælið í þessu og aukið úrvalið, erþaggi Karl Blöndal og hinir strákarnir? Bið að heilsa Sleggjunni, Sunnan. 08:50

26.07.02
Æ kanínukjaftæði. Afhverju þurfa meindýr að vera svona sæt? Afhverju gátu þetta ekki verið rottur að naga blómin í kirkjugarðinum? Þá hefðu nú öllum verið sama þó þeim hefði verið slátrað. Ég ætlaði reyndar einu sinni að fá mér kanínur, um jólin 1998. Tók að mér kanínukerlingu og ungan son hennar í stundarbrjálaði. Ætlaði að vera með þetta í pínkulítillri holu sem ég bjó í í Þingholtunum. Það mætti halda að kerlingin hefði verið nýkomin úr kvennaathvarfinu því hún var ekkert nema taugaveikluð leiðindin og fríkaði út ef ég svo mikið sem kveikti ljós. Helvítis styggð alltaf á henni. Sonurinn var hins vegar í betra andlegu jafnvægi og ég hefði líklega getað vanið hann á að skríða á mér með tímanum. Ég gafst þó upp á þessu rugli eftir nóttina og grátbað dýrabúðina um að taka við þeim mæðginum aftur – þeir þyrftu jafnvel ekki að endurgreiða mér.
---
En ég segi það ekki: Það er krúttlegt að sjá kanínurnar í Öskjuhlíð eða í Elliðaárdalnum, og ekki eru þær styggar þar. Hoppa bara og naga í rólegheitum eins og við myndum gera ef við værum ekki svona illa glötuð. Og alveg er mér sama þó kaníurnar éti öll blómin á þessum leiðum – er þetta fólk þarna undir ekki allt saman steindautt hvort sem er? Ef ég lægi þarna rotnandi í moldinni væri mér nú nokk sama þó lítið kanínaskott væri að naga á mér blómin, myndi jafnvel bara finnast gaman að því, tilbreyting í molluhangsi dauðans.
---
En hún er merkilegt þessi dilemma sem fólk kemst í þegar það stendur andspænis því að þurfa að slátra svona krúttlegum dýrum. Þetta er sama og þegar Birgittu Bordott tókst að eyðileggja aldagamla selaslátrunarhefð inútíta með því að liggja kelandi með krúttlegum kóp. 

Nei hingað og ekki lengra! sögðum við þegar við sáum krúttlega kópinn og sexí meitjör-gelluna og ínútítarnir fóru á féló eða drápu sig, en öllum var sama um þá enda tannlausir og ljótir. Nú gæti BB ekki náð þessum árangri þótt hún klæddi sig úr hverri spjör og kássaðist upp á kaníurnar í kirkjugarðinum því hún er orðin skorpin og gömul og ekki séns að við myndum fara að grenja þó hún næði kanínu og klemmdi hana á milli lafandi brjóstana.
---
Þetta er samt kannski málið? Kannski ætti J-Lo eða einhver velmeinandi fegurðardís að skella sér til Palestínu, finna nokkra krúttlega arabakrakka og klemma þá grátbólgna og blóðuga í faðminn. Myndir af því pöblikreleisjón-stönti myndu e.t.v. breyta einhverju smá. Eða þó ekki; við erum búin að sjá svo marga krúttlega svertingjakrakka með hungurístrur að það er komið sigg á sálina á okkur gegn svoleiðis væli. Hvað er í sjónvarpinu í kvöld? 06:52 

25.07.02
Nei nei ætli þessi loftsteinn detti nokkuð á okkur. Vísindamennirnir reikna vitlaust (eins og í "Dularfullu stjörnunni"), eða "öllum peningum í heimi" verður eytt í að bægja hættunni frá (eins og í Futurama).
Það væri samt líklegast best upp á lífríkið að við þessir bjánalegu homo sapiens yrðum þurrkaðir út. Ég segi það ekki, við getum oft verið ágæt, en ég held að þessi heili okkar og þetta stórhættulega "sjálf" séu mistök náttúrunnar. Auðvitað væri hér allt í blóma ef við hefðum sömu fítusa og hin dýrin og eyddum tímanum bara í að éta, sofa og ríða, en ekki að vera endalaust að spá eitthvað í tilgangi og upphafi og endi og hvort aðalkallinn heiti Allah eða Guð. En segjum nú svo að það verði virkilega heimsendir eftir 17 ár (til að sefa hugsanlegan ótta almennings telja vísindamenn "mjög litlar líkur á því", einhver Breti nefndi þó að það væri 10% líkur). Daginn fyrir heimsendi má búast við þessum merkisatburðum:

Samúel Örn verður með beina lýsingu frá kvennaleiknum Höttur - Grindavík
Dagskrárliðurinn "Hvað gerum við í heimsenda" fellur niður af þeim sökum.
Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel með fagnaðarsamkomur, enda vissir um að þeirra fólk sé á leið í góð mál.
Vottarnir með gleðisamkomu líka.
Og allir hinar vitleysingarnir.
Sjálfsstæðisflokksmenn éta grillaðan Davíð Oddson í Valhöll til að "öðlast eilíft líf"
Jón Ólafsson og Björgúlfur kaupa hvorn annan bara til að kaupa eitthvað.
Æfing hjá Daysleeper.
Geir Ólafsson reynir að komast á forsíðu Séð og heyrt enda kominn með stómapoka.
Jói og Simmi hafa samfarir í beinni á 70 mín, "upp á flippið".
Frétt um Hólmsteins-bræður birtist í Fréttablaðinu: Þeir ætla að opna nýju stöðina "í haust".
Kári í Decode (gengi: 1323 í mínus) segist hafa fundið eitthvað upp.
Ísraelar drepa nokkur smábörn í Gaza með eldflaugaárás.
Palestínu-arabi sem lifði af árásina 2002, þá á barnsaldri, sprengir sig í loft upp í Tel Aviv og nær fjórum.
o.s.frv...

Það væri svo alveg eftir því að loftsteininn dytti á Afríku en ylli ekki meiriháttar spjöllum annars staðar. Myndu þá margir tala um að slegnar hafi verið tvær flugur í einu höggi. 07:05
---

24.07.02

Þá höfum við 17 ár hér í 7. besta landi í heimi til að "finna hamingjuna" og annað í svipuð dúr sem fólk telur sér trú um að sé "tilgangur lífsins". Ég minni á Innipúkann 2002 sem kjörinn valkost fyrir heimsendaflippara. 22:59
---
Kolbrún Bergþórsdóttir fór á kostum um daginn í meinfyndnu dissi á kvennafótbolta. Nú er hin léttleikandi Kolla sökuð um fordóma af einhverju ruglliði sem gengur með þá ranghugmynd að kvennabolti sé svaka flottur. Vill þetta fólk meina að Kolla hafi bara áhuga á að fitla við sig meðan sveittir strákar svífa um skjáinn. Nú tek ég upp hanskann fyrir Kollu því ekki hef ég kynferðislegan áhuga á sveittum fótboltafíflum en er samt sammála henni með þessar endalausu útsendingar af jussubolta. Vitanlega er mér alveg sama þó hressar fótboltastelpur hittist og spili saman og fetti jafnvel ekki fingur út í það þó einhverjum pervertum finnist gaman að horfa á það moð. En sá pervertahópur er í slíkum fádæma minnihluta að það er hreinasta sturlun að vera alltaf að sýna frá þessu. Það mega varla hittast nokkrar hressar júllur án þess að Samúel Örn sé ekki mættur slefandi á rándýrum útsendingabíl Ríkisútvarpsins og síðan er áður auglýstri dagskrá kippt með snatri út af borðinu svo jussuboltinn megi ríkja. Ég endurtek: Þetta er sturlun! Þegar svo eitthvað almennilegt rekur á fjörur þessarar aumu íþróttadeildar Ríkissjónvarpssins - eins og HM - þá er allur peningurinn farinn í jussubolta og einhver gullmót í frjálsum (það er nú annað...) og maður þarf að sitja á dimmum búllum til að vera með heiminum í HM-fögnuði. Kommon!!! 16:40
---
Ef maður er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera með ADSL þarf maður ekki lengur að stóla á hörmungarúrval íslenskra útvarpsstöðva. Til dæmis er gömul bekkjasystir mín úr MK núna með þátt á Rás 2 sem á heima í dýpstu afkimum kerlingastöðva á borð við Létt. Ég myndi fallast á að skera af mér eyrun – OG EISTUN – ef ég yrði píndur til að hlusta á þetta prógramm lengur en í hálftíma. Á Radíó X er gelgjurokkið í algleymi, lög sem maður hefur heyrt a.m.k. tvöhundruð sinnum áður með einhverjum sem ég veit ekki hver er því þetta er aldrei kynnt nema þegar stórsnillingurinn Stjáni Stuð er á dagskrá. Rás 1 er með eitthvað gamalmennaprógramm sem ég mun bíða með að hlusta á í a.m.k. 30 ár, eða næst þegar ég verð staddur í sumarbústað í rigningu. Muzik.is er eflaust með eitthvað þokkalegt, en bara einum of einhæft fyrir minn smekk. Ókei, en bjargir eru manni ei bannaðar sé ADSL í húsi. Á BBC bíðst nú sá möguleiki að hlusta á gamla þætti nokkra daga aftur í tímann og hvaða ráð er betra til að fá heitt og ferskt og gríðarblandað beint í æð en að hlusta á John Peel. Ég viðurkenni fúslega að hann er ein af fyrirmyndum mínum varðandi útvarpsmennsku. BBC bíður upp á marga fína þætti og svo er vefurinn þeirra gríðarsafn upplýsinga. Ég mæli með að fólk vafri þar um ganga sé það á annað borð áhugasamt um múzzikk. 
---
Önnur góð útvarpsstöð er WFMU sem sendir út frá New Jersey. Þar er líkt og hjá BBC hægt að hlusta á þætti aftur í tímann, en bara miklu lengra aftur í tímann en hjá BBC. Allskyns þættir eru í boði og flestir áhugaverðir. Hér er toppurinn ísjakans: Brian Turner er útvarpsstjórinn og þáttur hans er fullur af nýju hressu stöffi. Spazzinn er rokkari og pönkari. Terre T er líka rokkari og pönkari og byrjar alla þætti á Undertones – ekkert slor þar. Greasy Kid Stuff spilar bara útúrflippaða barnatónlist og hefur eðlilega haft lög af Abbababb á efnisskránni. Bill Kelly er enn einn rokkarinn og pönkarinn. Incorrect Music er etv hætt eða í sumarfríi, en þar er reynt að spila útúrfríkuðusta tónlist sem fyrirfinnst á jarðríki.
---
Ef ég hef ekkert betra að gera á sunnudagseftirmiðdögum hlusta ég á norska kellingu sem sér um þáttinn Karlsen's Kabin á einhverju norsku ríkisútvarpsdæmi sem heitir NRK Petre. Hún er mjög oft með gott stöff. Ahhh, Internetið... hvar væri maður án þess? 11:50

23.07.02
Helvíti er þetta slappt. Ég hélt að neðangreind stjórnmálaskýring mín um ástandið á fjölmiðlamarkaðinum yrði fyrsta frétt í öllum fréttatímum landsins, en nei nei, ekki múkk og gestir hafa ekki einu sinni áhuga á svona alvarlegu innihaldi og halda bara áfram að segja hvaða leikurum þeir hafa óbeit á, eins og það sé aðalmálið í dag. Ég var samt alveg búinn að undirbúa mig, hélt að einhver á borð við Hannes Hólmstein færi að röfla eitthvað, en þá ætlaði ég að slá um mig og segja "það sem Hannes segir er nú bara ekki svaravert" – og ef það gengi ekki ætlaði ég að segja "þessi ummæli Hannesar dæma sig nú bara sjálf". Helvíti slappt að fá ekki einu sinni tækifæri til að segja þessa frasa, en ég heyrði í fréttunum að Davíð Oddson greip til þeirra og ekki í fyrsta skipti. Það væri gaman ef eitthvað væri einhvern tímann "svaravert" og "dæmdi sig ekki sjálft" hjá þeim fyrrum grínista. Svona er þetta nú í 7. besta landi í heimi (sem gæti reyndar orðið ríkasta land í heimi ef Hannes fengi að ráða - já, einmitt).
---
Þá er ég komin með hvínandi örbylgju í hús og næ popptíví og skjá 1. Ágætt framtak hjá Popptíví að sýna South park og einhverja svona þætti. Tónlistarvalið er nú einum of fokking einhliða fyrir minn smekk og miðast við vitlausar gelgjur og svo eru sömu lögin sýnd aftur og aftur út í hið óendanlega. Sama er í gangi á Radíó X, sem ég hlusta oftast á á morgnanna til að heyra annað slagið væna bita falla af borði Sigurjóns og kó. Á RX eru sömu lögin spiluð aftur og aftur þangað til maður fær hroll af hryllingi þegar þau bresta á. Handboltarokk, vemmirokk, gerfigremjurokk og endurunnið pönk og oft ágætis lög, en bara verst að maður er búinn að heyra þetta allt milljón sinnum áður. Frosti er samt mikill meistari og eflaust allur að vilja gerður að gera góða stöð. Ef ég fengi að ráða einhverju myndi ég auka lagavalið um x6 og vera mun duglegri að dæla inn nýju dóti. Það er nóg að ske og fullt af góðri mússikk. En ef maður þarf að miða allt útfrá einhverjum forsendum frá öðrum deildum Norðurljósa er svo sem ekki von að vel fari. En hvað veit ég svo sem. Ég verð bara með mína Alætu á Rás 2 í haust og held áfram að lækka í tækinu mínu þegar Oasis, Limp Bizkit og önnur andskotans viðurstyggð brestur á. 22:36
---
Jón B er með snilldarlausn á Euro-vandræðum okkar í gestabókinni og ég styð þá tillögu heilshugar: "Ég sting annars upp á því að Björgvin Halldórsson verði fastráðinn sem Evróvisjon fari til næstu tíu ára. Hann er tapsár karlinn og sífelld botnsæti myndu því verða honum til ómældra sálarkvala en öðrum Íslendingum fölskvalaus skemmtun."
---
Nokkurn veginn er mér alveg sama þó það gerist að Jón Ólafsson eigi ekki lengur þetta Norðurljósa-batterí, enda er þetta 95% rusl sem má missa sín mín vegna. Það er þó fáránlegt að Nonni og Davíð Oddsson séu í einhverju svaka stríði, þar sem þeir eru í raun einn og sami maðurinn; egósentrískur hrokagikkur með her jámanna í kringum sig. Báðir eru drifnir áfram af gömlum og nýjum djöflum: Nonni er enn að reyna að sanna fyrir heiminum (en samt aðallega pabba sínum, sem vildi aldrei neitt með hann hafa) að hann geti eitthvað og Davíð er á einhverju svipuðu ógæfutrippi, menguðu drykkjusýki og ógleði með eigin örlög. Allt þetta kjaftæði er því í raun sandkassaslagur tveggja föðurleysingja sem eru búnir að pissa á sig. Aukapersónurnar í þessum slag eru ekki heldur til að auka trú manns á að hér sé annað en persónuleg geðveiki að baki, eða hver getur horft á menn eins og Prófessor Hannes og Sigurð Gé og ekki séð geðveilu og paranóju leka úr öllum samskeitum? Eins mikið og ég vil trúa því að allt það sem Sigurður Gé er að segja (með sinni djúpu rólegu rödd, hann má eiga það) um að þetta sé allt djúpspakurt plott frá Davíð, þá á ég hreinlega frekar erftitt með kyngja því (nema að þetta sé allt satt og að landinu sé í raun stjórnað af illa geðveikum manni - sörpræs sörpræs!)
. Hvernig væri annars að draga þessa rifrildismenn saman í sjónvarpsþátt og fá alla geðveikina og ruglið út undir bert loft í eitt skipti fyrir öll? Ég nenni ekki að vera að fá þetta í svona smáskömmtum. Við höfum rétt á því, goddammit! Nú treystir maður á fjölmiðla, en það er verst að öllum fjölmiðlum er í raun stjórnað af þessum tveim geðsjúklingum (nema þessari heimasíðu auðvitað – henni er stjórnað að neðan). Til dæmis ef ég ætla að lesa eitthvað um þetta bull á strik.is þarf ég fyrst að rifja upp: hver á aftur strik.is? – Var'ða dv-klíkan eða var það einhver annar? Dv-klíkan er með Davíð í liði síðast þegar ég vissi. Stöð 2 er svo eðlilega á bandi Nonna, en Rúv í herkví Sjalla. Þetta þarf maður því altso að taka með í reikninginn til að fá "rétta mynd" af draslinu. Sú alrétta (sú sem er hér að ofan) verður þó aldrei birt annars staðar því hún er of sönn.
---
Annars er þetta alltsaman frekar fyndið. Í góðærum virðast menn gleyma því að á Íslandi búa undir 300.000 manns (aðeins minna en í Etobicoke, Kanada), en þegar hin fyrirsjáanlega kreppa skellur á þá kemur þessi staðreynd eins og gömul terta framan í menn og þeir verða voða hissa á að sjö sjónvarpsstöðvar, fjögur símafyrirtæki, fimm dagblöð og þrettán útivistarbúðir geti ekki gengið á þessu míkrómarkaðssvæði. En bíðiði við: Þetta er bara byrjunin. Við erum homo sapiens og einhvern tímann verður bullið úr Milton Friedman ekki það sem "rétt" er að trúa á. Hva, hélduðu að Kapitalisminn væri kominn til að vera? Ef ég væri trúaður (les: geðveikur) færi ég nú að röfla eitthvað um "táknin sjö úr biblíunni" eða eitthvað svona, en það hlýtur hver maður að sjá að það að knýja tilveruna áfram á græðginni einni gengur ekki til lengdar. Worldcom er bara byrjunin. Von bráðar hættum við öll að kaupa drasl; kagbætt föt, strætóferðir og bókasafnskort verða það heitasta og (svo ég gerist væminn eitt andartak) "við förum að tala við börnin okkar" (/væmni). Eyþór Arnalds (táknmynd síðasta góðæris) lætur sér vaxa makka á ný og slæst í för með Tottmóbíl á "Við spilum fyrir mat"-túrnum, nýjir jeppar verða jafn sjaldséðir og gamlir jeppar í dag og nýjustu tölur af Neitakk-vísitölunni detta út úr tíufréttum (muniði þegar það rugl var 2. eða 3. frétt í aðalfréttatímanum?). Komdu kreppa, komdu strax!
---
Hef verið að sækja mér ný lög af væntanlegri Beck-plötu á heimasíðunni hans. Það er með sorg í brjósti að ég tilkynni að karlinn er orðinn illa staðnaður.
---
Besti trommari landsins er án efa Birgir Baldursson. Hann hefur nú flúið möguleikaleysi landsins líkt og aðrir trommarar áður (Sigurður Karlsson, Gunnar Jökull, Pétur Östlund svo 3 séu nefndir) og athugar nú lífsgæði í Kaupmannahöfn. Biggi er kominn í blogg-gírinn, en er að auki með mjög heppilegan servis, Bláskjár dauðans, sem tekur á göllum windows-stýridraslsins. Tékkið á Bigga: www.birgir.com
---
Áhugavert lesefni: Sannar sögur frá hugsandi mönnum sem vinna á klámbúllum. 07:05

21.07.02
Kolbeinn skrifar skilmerkilegan pistil í gestabók og þolir ekki Corky og gömlu þættina hans. Ég man vel eftir þessum þáttum, þetta var algert love-hate dæmi og maður glápti alltaf á þessa þætti bullsjóðandi geðvondur. Ég vann á Pressunni á þessum tíma og skrifaði þar eitthvað um "fávitaþáttinn". Það var allt vitlaust og blaðið birti afsökunarbeiðni í næsta blaði. Í gestabókina skrifar einnig Thors og vill auka veg umburðarlyndisins. Æ, það er miklu leiðinlegra, mar. Auðvitað er attitjúdið arfleið pönksins, og hver nennir svo sem að lesa alltaf eitthvað "Mér finnst þetta persónulega alveg ömurlegt en ég virði þá fyrir það að hafa gaman að því sjálfir" - dæmi? Það er enginn að tala um það að fara að hengja einhvern í ljósastaura (þó margir mættu nú alveg dingla þar mín vegna)... það er bara miklu skemmtilegra að lesa penna með attitjúd. Takið eftir því að hér segi ég ekki "mér finnst" heldur "það er", enda er meira attitjúd í því. Meira attitjúd krakkar... það er alveg nóg af jákvæðum hálfvitum. Og jákvæðir hálfvitar búa á næsta bæ við skoðunalausa bjána.
---
Soulseek.org virkar fínt í dánlódið. He he... mp3uppreisnin var þá ekki kæfð svo auðveldlega. Náði mér í Akufen plötuna (kúl kanadískt rafó) og plötuna með áströlsku The Vines, sem er í svaka hæpi núna. Það er alveg þokkalegt rokk, samt ekkert spes. Ég er viss um að þeir verða nú bara að steikja borgara í Melbourne eftir 4 ár. Eða kannski ekki. The Leaves gætu komist í þennan hæp-pakka líka. Verið massahæpaðir í svona 6-12 mánuði og svo þögnin ein og borgarar í Staðarskála. Vonum samt ekki. Þeir mættu þó alveg spila meira á Íslandi. Þetta er nú ekki beint svona kípenitríl að böðlast bara á giggum ef einhverjir útlendingar mæta. Hvað segiði um að taka gigg með okkur á Ísafirði, strákar?
18:00
---
Þarf víst að gera þrjá texta núna, við þrjú glæný lög. "Homo Sapiens" heitir eitt, annað "Öndú", það síðasta "Alltaf meir" – strákunum finnst það nú einni best, "Öndú" fínt, en "Homo Sapiens" fær frekar slappa dóma. Gæti því verið að við sleppum því í Iðnó þann 3. ágúst. Það er annars af poppgetraun að frétta að það er komin einn með 10 rétta, einhver Daría, og er það alveg stórfenglegt. Látið það ekki á ykkur fá og endilega takið þátt því dregið verður úr réttum lausnum og hlýtur sá/sú heppni/na veglegan vinning.
---
Gekk í gegnum kirkjugarðinn í Suðurgötu og datt í hug að taka upp nýjan dagskrárlið hér á síðunni: "Pissað á leiði vikunnar í boði Thule". Til dæmis:

Sá heppni þessa vikuna er Guðjón Óskarsson, bankagjaldkeri f:1909, d:1963

og svo væri videó af mér að míga á leiðið. 

Svo fattaði ég að þetta er nú kannski ekkert svo góð hugmynd, en ef drengstaulinn sem er með rusl.is vill notana þá gessovel. 13:05
---
Æ eitthvað máttlaus þessa dagana. Verð að fara að auka Herbalæf-skammtinn. Veðrið ekki beint uppörvandi heldur. En mér er svo sem alveg sama þó það sé rigning og geðveiki upp á hvern dag, ég fæ alveg nóg af sól eftir, hva, 5 og 1/2 viku. Vú hú! En þetta er svona veður sem er tilvalið til að vera heima og róta í gömlum myndum í. Ég var að því og hef sett tvær góðar í myndabankann. Hér eru tveir myndarmenn 1987 og svo er hér fræg mynd af Rósenberg-slysinu. Ekki síðri er mynd sem ég kýs að kalla "Með heimskri tík á Ísafirði," en hún var tekin í júní. Ég hafði tekið að mér að fara með þennan heimska hund í smá göngutúr þarna í listigarðinum á Ísafirði, en þá fann hún lykt af systir sinni í einu húsinu og vildi ekki koma. Hnussaði bara og hnussaði alveg óð og alveg sama hvað ég togaði þá stóð hún föst. Ég vildi ekki slíta hausinn af helvítis hundinum og brá því á það ráð að rogast með hana til baka í bóndabeygju. Þá náðist þessi einstaka mynd
---
Þá er djönkfúdd-könnun lokið og eru úrslit ekki marktæk því alltof margir möguleikar voru í boði. En jæja þá:

Rónapleisið Vitabarinn tók gullið með 16% atkvæða
Hið gullna Grillhús fær silfrið með 13%
Íslenski sérrétturinn Pulsa með öllu fær brons með 10%

Aðrir verða að æfa sig betur:

Austurlenskt djönkfúdd fékk 9%
Söbveis og Pítsur fengu 8% á mann
Hnakkar venju komur sínar lítið hingað og því fékk Stællinn bara 5%
Neikvæð umræða hér á síðunni um kjúklinga skilaði sér í aðeins 5% fylgi við kjúllapleisin
Kebab á enn langt í land á Íslandi og fékk eingöngu 5% – enda mætti leggja mun meiri metnað í Keböbin
Íslenski samlokuiðnaðurinn fékk eingöngu 4% – veirusmituð tuska framan í majonesmettað andlitið
Vandaðir bátar á borð við Hlölla og Nonna fengu líka bara 4%

Og þá eru það botnsætin. Þeir sem féllu í 2. deild með eingöngu 1%:

Snobbhænsn þau sem hingað sækja gefa saur í vandað og spikfeitt úrval BSÍ og fúlsa við kjömmunum
Öxulveldi hins illa hjá MacDonalds fær útreið og ég heyrði að Austurstrætinu yrði lokað útaf þessu 
Subbubúllan Frædeis fær á baukinn. Ruby Tuesdays er líka miklu betri staður með almennilegan sörvis.
Gæðabátarnir hjá Quiznos fá spark í pung að ósekju því þar er fínt djönkfúdd.
---
Til að breyta aðeins um stíl er komin getraun í staðinn fyrir könnun. Hún er svo þung að ég sjálfur gat ekki einu sinni allt rétt. Vegleg verðlaun í boði ef einhver nær 10 réttum. Gessovel...09:59

19.07.02
Nei, nú er skjaldamerkjabolurinn frá GK-surtunum alveg orðinn off. Sá að einhver í nýja bandinu hans þarna gaurs sem söng ömurlega Bon Jovi lagið um daginn var í svona bol. Daysleeper kalla þeir sig og væla alveg svakalega kunnuglega ef maður hefur heyrt í Creed eða Pearl Jam áður. Leiðindi. Það er annars til annað band sem heitir Daysleeper og er amerískt, bara svona svo þið vitið það, og þeir líta alveg eins út. Kannski er þetta allt sama bandið, mar er alveg orðinn ringlaður... Er annars að hlusta hér á nýju plötuna með DJ Shadow og heyri ekki betur en þar sé þétt dæmi á ferð.
---
Jæja, en er ekki við hæfi að skella nýju demói af væntanlegu meistaraverki á Netið. Þetta er stuðlagið 
Kviðmágar
Og hér er textinn:

Ég og þú, við vorum steiktir í gær, maður
við fylltum systurnar og tókum í þær tvær
á ballinu við hittum Dóru og Dís, heyrðu
þú getur ímyndað þér, þá var voðinn vís

Við viljum það, okkur dreymir það
við viljum það strax, við viljum það nú
við viljum það hér, við viljum það þar

Ég og þú
þú og ég
við erum kviðmágar
sækjumst báðir í það sama
leggjum inn á sama genabanka

Ég sett' í eina, en þeg'ég sá'ana næst, var hún
utan í GK-surti útúrkókuð og æst
sílspikuð loðnutorfan líður um gólf, og á
dansgólfinu stanslaus heilasellusjálfsmorð

Við gerum það, við þráum það
við viljum það strax, við viljum það nú
við viljum það hér, við viljum það þar

Ég og þú
þú og hann
við erum kviðmágar
sækjumst allir í það sama
leggjum inn á sama genabanka

Án efa eitt af aðal sumar stuðlögunum 2003... En ég endurtek: þetta er demó.
---
Besti ísinn í bænum er á Hagamelnum. Farinn þangað. 22:45

18.07.02
Supershagland er góður leikur sem gengur út á að fá sér að ríða. Mér tókst það nú ekki í fyrsti lotu – ekkert nýtt þar. Tékk it!
---
Gestir í gestabók eru komnir í stuð á ný og dæla nú út úr sér listum yfir vonda/óþolandi leikara. Sammála þessu flestu, Kenneth Branagh til dæmis – það er uppskrift af tilgerð ef hann og grenjuskjóðan Emma Thomson eru saman í mynd. Finnst þó Balti Kormákz góður, t.d. í Englum og Djöflaeyju, en ég er þá bara svona vitlaus. Óli ræðst á Uglu-garminn, 16 ára stelpugrey og ætti þrælfullorðinn maður eins og Óli að vita að svona er ljótt. Svo er Ugla líka með vægan Tourette-sjúkdóm og hefur því afsökun á því hvernig hún lætur (öfugt við marga aðra sem þjást af svipaðri maníu/athyglissýki – ja, nema allir þessir leikarar séu með Tourette, ég veit það ekki.) Skringilegastur er listi Trekkfríksins Azubi, en það þarf varla að taka fram að jafn kúl gæji eins og ég hef aldrei séð heilan þátt af því rugli. Já og mér finnst Star Wars hundleiðinlegt rusl líka. Sá annars ágæta mynd í gærkveldi – soramyndina La Pianiste og hef vitanlega skrifað dóm. Svo erða ástralski framhaldsþátturinn í kvöld – alltaf eitthvað til að hlakka til, he he. 16:06

17.07.02
Æ æ. Sá það í gaybæklingnum ógurlega að Stuðmenn eru allir komnir í þessa flottu boli með skjaldarmerkinu sem fást í GK og ég var að suða um að þeir þarna smjörkúkar í GK ættu að senda mér í pósti (sem þeir hafa náttúrlega ekki gert ennþá helvítin - enda eins gott, því varla tekur maður niður fyrir sig í kötting-edginu og lætur sjá sig í eins bolum og Stuðmenn.) Annars skildist mér að Stuðmenn sé allir orðnir hinseginn og heita nú Bakob, Legill, Hommi Homm o.s.frv. Alltaf stuð á þeim mönnum... Sá líka Bakob í Íslandi í dag; hann var að röfla um útihátíðir við einhvern suðurapa sem var með heilt smjörlíkisstykki í hausnum. Ef þessi gaur er ekki í orðabókinni undir "smjörkúkur" þá veit ég ekki hvað!
---
Það er nú formlega staðfest: Oasis er leiðinlegasta hljómsveit sem nokkurn tímann hefur verið til í heiminum. 20:02
---
Ísland hefur gnótt stórfengilegra sundlauga sem eru mörgum sinnum betri en það sem best gerist erlendis. Þó finnst mér sumstaðar einum of mikið mál að fara í sund. Hvað er t.d. að jafn einföldu sístemi og að hafa lykil að fataskápnum í teygju? Það svínvirkar í Vesturbæ og Sundhöll. Í Laugardalslaug er alltaf fokking vesen: einhver helv peningur sem maður festir alltaf í og stendur svo á slátrinu umkomulaus og reynir að finna vörð. Lenti í þessu áðan en þá hafði ég fyrir slysni sett fötin mín í einhvern helvítis barnaskáp sem fullorðnispeningurinn festist í. Hvernig átti jafn utangátta auli og ég að fatta að þetta væri barnaskápur? Jú jú, sé það núna að þetta eru minni skápar. En jæja, svo er lykillinn ekki á teygju heldur einhverju voða bandi með svaka festingu sem maður þarf að vera lærður eðlisfræðingur til að fatta hvernig virkar og helst með sjö hendur til að geta sett á sig. Jú jú, ég er svo sem ekki handlagnasti maður í heimi (öndersteitment of ðe jer).
---
Laugardalurinn er samt hátíð miðað við lylkavesenið í Bláa lóninu. Þar hefur artí fartí hönnuðinum þótt alltof plebbalegt að hafa lykil á teygju og því látið pranga inn á sig einhverju rafeindakerfi frá erlendu glæpafyrirtæki. Þegar maður lætur sig hafaða að liggja í gerdrullunni þarna fyrir morðfjár er því ekki þverfótað fyrir gamalmennum og útlendingum í búningsherberginu, sem standa með græjurnar í andlitinu á manni og vita ekki hvernig þeir eiga að læsa draslið sitt inni. Hvimleiður fjandi. Komið nú með teygjurnar aftur! Þær eru klassískt dæmi um að gamla draslið virkar oftast best. 
---
Það er meira hvað gestir fá útrás í að dissa Barða garminn. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og allt það, ha? Jú jú, hann er enginn Gnarr (hver er það svo sem?) en ég get ekki séð að Barði hafi annað til saka unnið en að reyna að vera hress og fyndinn – tekst það meira að segja stundum. Hávirðulegir gestir ættu að gera eitthvað uppbyggilegra á gestabókinni en að vera með svona skítkast í "okkar smæstu bræður", t.d. að búa til stórkostlega lista eins og um daginn.
---
Fimm bestu orðin sem ég fann með því að fletta orðabók Árna Böðvarssonar á 40 sekúndum:
Sæpungur
Sigurlykkja
Purkormur
Oggþói
Hoféran 18:05

16.07.02
Gróf upp og er að hlusta á lög með þýsku stuðsveitinni Stereo Total sem ég á nokkrum safnplötum frá hinni nettu Bungalow poppútgáfu. Ég sá það nebblega í bæklingi frá Gaysamtökunum að þetta dúó komi og verði með gigg á Hinsegin-dögum; eitt á Spotlæt, annað á Ingólfstorgi. Tók þennan bækling með mér úr bókasafninu en svo rifnaði pokinn í hengla og ég er svo hommafóbískur að ég hélt að helv bæklingurinn myndi velta út og allir sjá. Mikill spenningur. Sérstaklega var ég hræddur um að allt ylti út á Subways þar sem nokkrir manískir vandræðastrákar (Litla Hraun sjúgandi tilla eftir 10 ár?) voru um læti og sungu prumpulagið hástöfum meðan ég pantaði mér bát.
En maður verður auðvitað að vinna bug á hommafóbíunni og mæta galvaskur með tappa í gaygöngugrínið. Hef alltaf þóst hafa eitthvað annað að gera en nú verður maður ber að ofan með hommaregnbogann málaðann á sig æpandi og veinandi. Þeir mega nú eiga það hommarnir að þeir reyndu stundum við mann á 22 í gamla daga, sem var nú alltaf ágætt búst fyrir egóið. 11:50
---
Fréttablaðið byrjað að koma aftur með sama lúkki og sömu leiðindum og síðast. Djöfull finnst mér snillingurinn Gunnar Smári vera að taka niðurfyrirsig með þessari grámyglu. Nú kemur snepillinn til mín kl. 12 á hádegi. Kannski er verið að stíla inn á að rústa DV fyrst ekki tókst að rústa Mbl í fyrstu tilraun? Æ, en hver kaupir eiginlega DV? Djöfuls okur á þessu - heilar 350 kr á laugardögum. Það er erfitt fyrir mig að segjaða en ég held að Moggadruslan sé bara besta blaðið. Ég er allavega alveg húkkt á að lesa það á morgnanna (Sonja í íbúðinni fyrir ofan er áskrifandi og vaknar sem betur fer miklu síðar en ég). Les reyndar mest lítið, en svona að fletta þessu yfir á 3 mín er uppbyggjandi fyrir daginn – sérstaklega hin daglega áminning um dauðann (minningagreinarnar), þá grefst það í undirmeðvitundina að hver dagur gæti verið sá síðasti. Svo er líka þægilegt til þess að vita að Karl Blöndal einn af ritsjórunum er tvífari DJ Qualls:

strákfríksins sem leikur nú aðalhlutverkið í The New Guy (sem ku ömurleg), en var alveg ágætur í hinni ágætu Road Trip. Því miður fann ég hvergi mynd af Karli til samanburðar. 09:30
---
Hélt að ekkert myndi gerast í þessum rigningarsudda í gær en sá ég þá ekki Geir Ólafsson. Hann vildi ólmur gefa mér eintak af disknum sínum og var lítið við því hægt að segja. Geir talaði um að hann væri að gera nýja sólóplötu en nú með frumsömdum lögum. Verða textarnir eftir þig? spurði ég, en ekki sagði hann svo vera og fór að tala um að íslenskir textar væru nú yfirleitt slappir. Ég benti honum á Megas en Geir sagði að lögin væru of létt til að það myndi passa að syngja um "fjöll og svoleiðis".
---
Þess má geta að þetta er í annað sinn sem ég tala við Geir. Í fyrra skiptið ruddist hann inn á skrifstofu Fókus og tók til við að rudda á mér axlirnar án frekari málalenginga. Þetta var unaðslegt nudd sem bjargaði deginum. Ég var næstum búinn að lofa honum forsíðunni en þá kom Mikael (sem fékk ekkert nudd) og rústaði áformum Geirs.
---
Þetta var næst furðulegasta heimsóknin á skrifstofu Fókuss meðan ég vann þar. Sú furðulegasta var þegar Tryggvi Hansen (þekktastur fyrir að byggja torfkofa í Grindavík) ruddist inn í fornaldarmussu og dró mig út á gólf til að dansa þjóðlegan hringdans. 
---
Mikið var gaman að þessu hjá Stjána og Soffíu á Popptv í gær. Neyddist til að horfa á þetta andlausa taut um Jennifer einhverja Lopez o.s.frv. á undan en svo kom Stjáni Stuð og bar af.
---
Nú ku Eric Clapton (alltof þótt hann ömurlegur) farinn af landi og er léttir af að þurfa ekki að lesa meir um hvað hann veiddi marga fiska. 07:50

VAR EITTHVAÐ AÐ GERAST í júní og fyrri helming júlí 2002?