Finnst þér gaman að stríða dýrum?

Árum saman fannst mér leiðinlegt að fá aldrei að taka þátt í skoðunarkönnunum. Aldrei hringdi neinn í mig og vildi fá að vita hvað mér fyndist um hitt og þetta og aldrei kom neitt í pósti sem krafði mig um álit á þessu og hinu. Mér fór að líða eins og algjöru núlli. Kleip mig í handlegginn og fór að efast um tilvist mína. Vildi virkilega enginn vita hvað mér fannst?
Alls konar lið út í bæ fékk að tjá sig um besta þvottaefnið og bankann, hvaða stjórnmalaflokk það myndi kjósa ef gengið yrði til kostninga nú eða hvernig það neytti fjölmiðla. Gallup og hvað þetta heitir hunsuðu mig ítrekað og ég sökk sífellt dýpra í pytt sjálfsvorkunar. Það má jafnvel segja að ég hafi þjáðst af skoðunarkönnunarstoli.

Úr útlegð á toppinn
Þú getur því rétt ímyndað þér fögnuð minn þegar loks barst bréf í pósti. Ekkert smáræðis bréf, heldur beinlínis þykkur bunki frá einhverjum sálfræðingum eða geðlæknum uppi í Háskóla. Þeir höfðu valið MIG og nokkur þúsund aðra til að taka nýtt sálfræðipróf, sem þeir eða einhverjir útlendingar höfðu búið til. Niðurstöðurnar ætluðu þeir að nota til að ákveða hvort þetta próf væri gott eða vont og hvort þeir ættu að nota það í framtíðinni eða ekki.
Sleftaumar eftirvæntingar láku um hökuna þegar ég handlék þykkt prófið. Þetta voru einhverjar 400 fullyrðingar og ég átti að svara þeim öllum; annað hvort ætti mér að finnast þær réttar eða rangar. Ég var í einu vetfangi kominn á topp skoðunarkönnunarþáttöku eftir langa útlegð. Ég átti ekki að tjá mig um einhver smámál eins og þvottaefni eða pólitík; ó nei, ég átti að kafa í eigið sjálf og tjá mig um sjálfan mig, minn innri mann, sálina, andann, gráa grautinn í hausnum.

Spurning númer 360
Ég fékk mér góðan penna, kom mér vel fyrir í fermingarsófanum með prófið á Tinnabók.
Þetta voru engar smáræðis fullyrðingar. "Hefurðu heyrt raddir í höfðinu?" - Uuu, rangt. "Hefurðu hugsað um að taka eigið líf?" - Uuu, rangt. Svona lengi áfram og inn á milli lúmskar fullyrðingar sem gengu þvert á þær sem fyrr voru komnar: "Hefurðu ekki heyrt raddir í höfðinu?" - Uuu, rétt.
Ég fór bráðlega að þreytast og ruglast, prófið var svo lúmskt og svo langt. Ég remdist samt áfram, reyndi að standast prófið, láta ekki taka mig í sófanum með svör sem gengu þvert á fyrri svör. Ég var næstum búinn þegar spurning númer 360 kom: "Finnst þér gaman að stríða dýrum?". Svartnættið hvolfdist yfir mig. Finnst mér gaman að stríða dýrum?!!! Hvað meintu mennirnir eiginlega?

Górilla í hugleiðslu
Ég verð að viðurkenna að mér finnst ansi gaman að stríða dýrum. Samt þorði ég ekki að viðurkenna það í prófinu. Hvað myndi þá gerast? Myndu sálfræðingarnir koma í hvítum sloppum með fiðrildaháf og keyra mig ba-bú á Klepp? Er það ekki eintóm geðveiki að þykja gaman að stríða dýrum? Var ég kannski snargeðbilaður þegar allt kom til alls? Og hvað áttu þeir nákvæmlega við? Stríðni getur verið á svo mörgum stigum. Hvers konar stríðni áttu þeir við?
Ég fór í dýragarð í útlöndum í sumar og fyrir framan górillubúrið stóð maður sem leit út eins og górilla og æpti og gólaði á risavaxna górilluna í búrinu og hafði uppi alls kyns apalæti.  Hann var virkilega ruddalegur og mér ofbauð. Ég vonaði innilega að górillan myndi tryllast, rífa sig úr búrinu og nauðga þessum auma fábjána. Ef einhver ætti það skilið þá væri það hann. Auðvitað gerði górillan ekkert, sat bara á steini eins og í hugleiðslu og horfði tómlætisaugum á vitleysinginn. Var það svona kvikyndisleg stríðni sem sálfræðingarnir í HÍ áttu við?
Eða áttu þeir kannski við þá stríðni sem margir myndu telja heilbrigða gagnvart dýrum, að láta ketti hlaupa á eftir bandspotta og svoleiðis? Var þannig kannski ekki heilbrigt? Getur maður kannski fengið lyf við þannig óeðli?

Krummi, Kobbi og kettirnir
Ég viðurkenni þó að oft hef ég gengið lengra í stríðninni. Hundurinn Krummi á æskuheimili mínu var úttaugaður og fór að urra gremjulega þegar ég nálgaðist hann. Risapáfagaukurinn Kobbi fær í magann þegar ég mæti í Blómaval. Við hvert tækifæri sem gefst stríði ég köttum. Þeir eru margir þar sem ég bý og skjótast í burtu þegar þeir sjá mig. Einu sinni sat einn á vegg og horfði hugfanginn og titrandi á starra á grein. Ég læddist aftan að honum og potaði snöggt í kattarrassinn. Honum brá ofsalega og hrökklaðist hvæsandi af veggnum. Þetta fannst mér ótrúlega fyndið og hló lengi inn í mig. Ég brosi enn að þessu, sérstaklega þegar ég ryfja upp undrunar- og fyrirlitningarsvipinn á kettinum þegar hann glápti á mig þarna vankaður í blómabeðinu.

Rjúpan og Bubbi
Þarna var ég í sófanum og hugsanirnar hringsnérust inni í mallandi grágrautnum. Hvern djöfulinn kemur þeim það við hvort mér finnist gaman að stríða dýrum?, hugsaði ég og reyndi að ýta þeirri hugsun frá mér að þessi stríðni mín væri ef til vill sjúkleg og ég ætti að drífa mig beint í viðtal hjá fagaðila.
Og eru dýrin eitthvað betri?, hugsaði ég í sjálfsvörn. Kettir laumast iðulegu inn um gluggann hjá mér þegar ég er ekki heima og mæna svo á mig úti í horni þegar ég kem heim og er annars hugar að stússa eitthvað. Þá fæ ég fyrir brjóstið og held eitt augnablik að Satan sjálfur sitji fyrir mér, enda glyrnurnar í köttum djöfullegar. Og hvað með apann sem hrækti einu sinni framan í mig í Sædýrasafninu?
Er ekki líka skárra að stríða dýrum en drepa þau? Hefði Bubbi ekki verið í betri málum ef hann hefði bara strítt rjúpunni þarna um árið og ekki drepið hana? Hann hefði getað læðst um fjöll og fyrnindi stríðsmálaður í felubúningi. Til að halda karlmennsku-faktornum inni hefði hann getað verið með rándýrar stríðnisgræjur -- e.t.v. títaníumþokulúður úr Stríðnismanninum -- og reynt að bregða rjúpum og öðrum dýrum. Hann hefði líklega öðlast sama djúpa skilning á náttúrunni því undrunarsvipurinn í pínulitlu augum rjúpunnar hefði verið svipaður. En náttúrusorg Bubba hefði varað skemur því rjúpan hefði jafnað sig fljótlega og flogið frjáls á vit nýrra ævintýra. Ég veit það allavega að frekar vil ég að Bubbi bregði mér en drepi mig.
Ég veit það líka að sálfræðiprófið fór beint í ruslið. Spurning númer 360 gekk bara allt of nærri sjálfsmynd minni. Vill ekki einhver frekar vita hvaða þvottaefni mér finnst best?