TOPP 5! 26. vika: Television - Elevation / Midlake - Young bride / Wolfmother - Woman (Mstrkrft remix) / Shaky hands - You and I / Virgin Prunes - Twenty Tens (I've been smoking all night)   ELDRI LISTAR
06.07.06
Lata stelpan er ein af þessum barnabókum sem ég man eftir úr æsku. Tékknesk að uppruna, flottar myndir og einfaldur söguþráður: Stelpa er löt og leiðinleg, kötturinn hennar og húsgögnin gera uppreisn og neyða stelpuna til að taka til og fara í bað. Mér fannst þetta bráðskemmtileg bók og keypti það alveg að það væri betra að vera hreinn og með hreint í kringum sig heldur en að liggja önugur í drullunni. En nei, hvað var ég að spá? Auðvitað var þetta ekki svona einfalt. Auðvitað voru vondar karlrembur með bókinni að menga hugi smábarna með STAÐALÍMYNDUM UM STÖÐU KYNJANNA. "Kötturinn hennar neyðir hana í meikóver og eftir það breytist hún í ofurhúsmóður," segja nokkrar bráðskarpar konur sem hafa nú stofnað Lötu stelpuna, vef um kynjajafnrétti. Ég biðst afsökunar á að hafa haft gaman af þessari andlegu nauðgun á öllum kvenmönnum veraldarinnar og mun ekki tala oftar við foreldra mína fyrir að hafa troðið þessum viðbjóði upp á mig. Ég ætla auðvitað ekki að falla í sömu gryfju og mun hafa bókabrennu á bókum sonar míns. Þær bækur sem ég brenni eru m.a.:

Birnirnir þrír - Staðalímynd. Afhverju eldaði bangsapabbi ekki grautinn?

Láki - Afhverju situr pabbinn, reykir pípu og les blað á meðan mamman býr til rauðgraut? Hrópleg niðurlæging á öllu kvenfólki.

Stúfur - Enn á ný er það kona sem eldar graut. Geta karlar ekki eldað graut í þessum bókum? Viðurstyggilegt.


Stubbur - "Mamma þvoði og þvoði" - Er þessum andstyggilegu karlrembum hjá bókaútgáfunni Björk alvara? Ég legg til að farið verði í mótmælasvelti við höfuðstöðvarnar þar til þessum viðbjóðslegu árásum á barnshugina verður hætt. 

Bubbi byggir - afhverju byggir Bubba ekki frekar?

Hr. Æðislegur - Hvar er Frú Æðisleg?

Og svo það viðurstyggilegasta af öllu viðurstyggilegu:

Kata. Kata kanína, ógeðsleg staðlímynd af hinni undirokuðu húsmóður sem þrælar sér út fyrir krakka og ógeðslega karlkanínu.

Öllu þessu ógeði mun ég kveikja í í garðinum. Sonurinn verður neyddur til að horfa á og ég mun öskra vel valda kafla upp úr Píkutorfunni á meðan logarnir eyðileggja viðbjóðinn. 
---
Að endingu legg ég til nýtt og betra heiti á það sem sumir kalla "trukkalessa" - Samkynhneigð kona sem keyrir vöruflutningabíl.

04.07.06
Í sjálfu sér er maður búinn að játa sig sigraðan með þetta sumar, að það verði bara svona suddasúld það sem eftir er. Það er ágætt allavega ef maður vinnur þægilega innivinnu og getur dregið fyrir gluggana. Þó tryllist maður ef það kemur sólarglampi og þurrt og fer í bullandi meðvirkni; verður hreinlega að vera úti í "góða veðrinu". Ef það kemur virkilega gott veður hlýtur þjóðfélagið að lamast, en kannski kemur það ekkert. Í gær var allavega ágætt svo ég fór á Móskarðshnúka, báða hnúkana. Það var gríðarhressandi og ég fann rækjudolluna frá föstudeginum líða úr spikinu. Þetta var í annað skipti sem ég fór þarna, 3 tímar upp og niður.
---
Á leiðinni samdi ég texta við lagið Ég hata að elska að hata þig. Reyndar svo hundlélegan að ég efast um að ég noti hann.
---
Í WC hitti ég Silju Aðalsteinsdóttir sem bauð mér heim til sín, gaf mér nokkur hefti og bað mig um að skrifa í Tímarit Máls og menningar sem hún hefur starfrækt síðustu 2 ár eða svo. Ég sagði auðvitað ok enda ekkert smá heiður að fá að dýfa tánni í þetta fornfræga menningarrit.
---
Ég fór með fjóra kassa til Valda í Safnarabúðinni. Þá á ég eftir 3 kassa af cd sem ég er að dunda mér við að raða upp í hillur. Þetta myndi ég telja frábæra grisjun.

03.07.06
Um að gera að demba hér inn einum Topp fimm, enda vikan nýbyrjuð og menn þokkalega ferskir:


Television - Elevation: Þessir meistarar eru væntanlegir á Innipúkann, spila á föstudagskvöldinu. Lagið hér er eitt af þeim sem gera plötuna Marquee Moon að einni þeirri bestu í sögu rokksins. Ég myndi segja að það væri algjör nauðsyn að fólk kynnti sér þessa plötu áður en til Innipúkans kemur. Ef þú ert á annað borð með eyru og eitthvað á milli þeirra þá sérðu ekki eftir því.


Midlake - Young bride: Midlake eru frá smábænum Denton í Texas, sama bæ og færði okkur Explosions in the sky og Lift to Experience. Grandaddy og Mercury Rev er nærtæk viðmið en Midlake hafa æskuna með sér og það að vera ekki búnir að endurtaka sig eins oft. Þetta snýst allt um ferskleikan, þú veist. Önnur platan heitir Trials of Van Occupanther og er víst konsept albúm um þennan Van Occupanther náunga.


Wolfmother - Woman (Mstrkrft remix): Plata áströlsku þrumukattanna í Wolfmother er góð og fæst nú í Skífunni. Ég var að blogga um bandið í fyrra en nú er bandið orðið það heitasta á íslensku rokkstöðvunum. Hér er einn smellur bandsins í grúví rímixi. Gaurinn sem rímixar er annar meðlimur hljómsveitarinnar Death from Above 1979 og hans leið til rímixunar er að gera lögin "meira sexí".


Shaky hands - You and I: Nýsjálenskt skruggurokk af EP plötunni Cut off your hands sem er það fyrsta sem þeir gera. Shaky Hands nafnið er væntanlega tekið frá lagi The Who, Mary Anne with the shaky hand. Hér gæti ég sagt ósmekklegan brandara um parkisons veikina en læt það vera.


Virgin Prunes - Twenty Tens (I've been smoking all night): Frá Dublin og ólust upp með U2, einn meðlimanna er meira að segja bróðir The Edge. Samt allt önnur músik, Virgin Prunes voru í gothinu og mikið að röfla um "pagan" hitt og þetta. Semsé, frá þeim tíma þegar tónlist og "hugmyndafræði" fóru saman (sjá: Þeyr). Í kringum 1980 var mikil goth-bylgja í gangi sem tengdist Batcave klúbbnum í London. Þarna voru Alien Sex Fiend, Specimen og Southern Death Cult (síðar The Cult) aðal böndin og bæði hljómsveitir og fylgjendur stífmálað lið í goth-fötum (fyrirrennarar Manson gengja). Virgin Prunes voru aðeins á skjön við þetta lið allt, enda frá Dublin, en voru samt samferða. Ég var í London 1983 með Trausta og Sigvalda og það er minnisstætt þegar við ætluðum að sjá Virgin Prunes, Alien Sex Fiend og Specimen, minnir mig, á Electric Ballroom í Camden. Í minningunni sé ég okkur, lúðalega bleika í hallærislegum anarökkum, labba meðfram biðröðinni sem var ekkert nema svartklætt stífmálað goth-tískulið. Við höfðum engan sérstakan áhuga á gothinu en vorum æstir í Virgin Prunes, enda þeir búnir að gefa út plötu sína ...If I die, I die, sem þótti og þykir jafnvel, mikið meistaraverk. Því miður var uppselt (Sigvaldi tímdi ekki að kaupa miða í forsölu) svo við fórum annað og sáum The Armoury Show sem var skásti valmöguleikinn (man ekkert eftir því).  Lagið hér er fyrsti singullinn, frá 1981, ágætlega ferskt ennþá, svei mér þá bara.

02.07.06
Árið hálfnað og tilvalið að gera það upp:

Bestu íslensku lögin til þessa 2006:
1  Eberg - Love your bum
2  Fræ - Freðinn fáviti 
3  Ghostigital - Not clean
4  Gylfi Ægisson - Í stuði 
5  Morðingjarnir - Ætlarðu ekki með?
6  Þór Eldon / Dagur Sigurðarson - Dauðaskammtur 
7  Pönkbandið Fjölnir - Skilum auðu
8  Mongoose - How do you 
9  Ókind - Ó ég
10  Mammút - Ekki sofa núna

Bestu erlendu lögin til þessa 2006:
1 Belle & Sebastian - The blues are still blue
2 Prototypes - Gentleman 
3 Gnarls Barkley - Crazy
4 The Stills - Destroyer 
5 Graham Coxon - You and I
6 Morrissey - You have killed me
7 Phoenix - Long distance call
8 Yeah yeah yeahs - Gold lion
9 Sonic Chicken 4 - Sonic night
10 The Raconteurs - Steady as she goes
11 The Flaming lips - The wand
12 Mates of state - Think long 
13 Danielson - Did I Step On Your Trumpet 
14 Bonde do role - Melo do tabaco (A-trak remix)
15 Seawhores - Sweaty men, attack
16 Lordi - Hard rock hallelujah 
17 Young and sexy - Conventional lullabies
18 Arctic Monkeys - When the Sun Goes Down
19 Tv on the radio - I was a lover
20 The Futureheads - Skip to the end

Mjög líklega er ég að gleyma einhverju...
---
Var í tjaldi og drakk smávegis en nennti því samt ekki. Ég get þetta bara ekki lengur. Fannst allt svo óspenanndi. Keypti ýmislegt í Ríkinu: Hen's tooth ale er viðbjóðslegt rusl sem smakkast eins og æla. Cult með alkóhóli er ágætt. Pina Colada táningadrykkurinn er ókei. Corona er traust. Nennti ekki dísætu hvítvíninu. Svaf lítið og er að myndast við að vera þunnur. Nenni því samt varla.

01.07.06
Bless þarna Júní. Er núna komið sumar? Mér sýnist það. Misheppnaður dagur í gær. Ætlaði á fjall og var kominn upp að því en fattaði þá að ég var ekki með gönguskóna í bílnum. Ekki hleypur maður þetta á mokkasíunum. Það var líka svo mikið rok að ég hefði líklega ekki nennt. Fór á bömmer og gerði það sem ég hef ekki gert lengi, en gerði einu sinni mikið af: Að leggjast í ofát. Eins og alki að falla. Át upp úr heilli rækjasalatsdollu oná brauð, sem eftir á að hyggja er viðurstyggileg hegðun. Toppaði þetta með súkkulaði. Fann hvernig spikmolikúlin spruttu fram og ég fylltist þunglyndi. Það virðist líffræðileg þörf núna fyrir mig að hreyfa mig almennilega á hverjum degi og djöfull ætla ég að "refsa" mér fyrir rækjudolluna.
---
Lá afvelta með majones í skegginu þegar Axel Axelson hringdi og sagði mér upp, eða öllu heldur Tónlistarþætti Dr. Gunna á XFM. Þeir eru víst að skera svona ægilega mikið niður. Alltaf sama sagan. En það er ekki eins og mér hafi ekki verið sagt upp áður. Þessi fáránlegi fjölmiðlabransi gerir lítið annað en að fara á hausinn. Ég kemst samt vonandi á koppinn einhvers staðar annars staðar enda finnst mér ekkert leiðinlegt að sjá um svona þátt. Síðasti þátturinn verður þó á morgun þar sem ég ætla að spila 26 BESTU LÖG ÁRSINS TIL ÞESSA! Sem sé, síðasti séns að hlusta á mig á XFM á milli 14 og 16 á morgun.
---
Sala varnarliðseigna endurfæðist í dag í gamla Blómavalshúsinu. Þar á að selja gamalt rusl frá Kananum. Ákveðin nostalgía í því enda var SV merkileg og spennandi skransala, sérstaklega "í gamla daga" þegar lítið var um búðir hérna. Annað hvort verður allt vitlaust núna og biðraðir út á götu af fólki sem vill næla sér í ryðgaðan skjalaskáp eða forljótt bleik-köflótt sófasett, eða þetta verður algjört flopp því góðærið er búið að gera okkur fráhverfa Kanadrasli. Andlegt ástand þjóðarinnar kemur í ljós þarna. Sjálfur læt ég að sjálfssögðu sjá mig til að finna enn á ný hina nostalgísku kanalykt (sambland af bóni, byssupúðri og svita, ímynda ég mér). Látum nú kröfuna enduróma um landið allt, Ísland úr Nató og herinn á burt.
---
Bankinn minn er með smá móral. Annað slagið sendir hann mér eitthvað drasl til að reyna að bæta ímynd sína (grægði og geðveiki). Fékk hitamæli einu sinni, það kom maður með hann sérstaklega til mín og allt. Þetta átti að vera voða fullkominn hitamælir sem mælir loftraka og ég veit ekki hvað og hvað. Stillti þessu upp en draslið dó eftir viku. Takk LÍ. Svo kom grillpensill sem enn er í fullu gildi. Takk LÍ. Í gær kom huggulegi djassdiskurinn "Tónar" með Eyjólfi Þorleifssyni, sem ég á eflaust eftir að blasta nonstop næstu daga. Takk LÍ. Hvernig væri nú að hætta þessari vitleysu og lækka þjónustugjöldin og útvextina?

29.06.06

Innipúkinn 2006
Television - Throwing Muses
Mugison - Ampop - Solex - Jomi Massage - Speaker Bite Me
Ghostigital - Hjálmar - Jeff Who - Jan Mayen - Eberg - Æla - Ég - Morðingjarnir - Hermigervill - Donna Mess - Weapons - Benny Crespo's Gang - The Foghorns
Mammút - Mr. Silla & Mongoose - Skakkamanage - Koja - Norton

Stórglæsileg heimasíða hér m.a. með glymskratta

Þess má geta að Dr. Gunni spilar ekki (þrátt fyrir áætlanir um annað) og eina sem er bókað er Eistnaflug.
---
Hefi bætt við nokkrum orkudrykkjum á gossíðuna og Sarsi, sem nú er aftur komið í sælkerabúð Nings.

27.06.06
Það styttist í HAM á NASA 29. júní. Hér til að stytta biðina, nýtt lag:

HAM - Sviksemi (læf í Kastljósinu)

Og hér er falleg mynd af þessum höfðingjum, á Duus sirka 1990. Enn erða Björg sem tók.

---
Mér er sagt að helvítis fíflið hann Totti sé svo heimskur að hann kunni ekki að lesa. Sel það ekki dýrara en ég keypti það (sem var reyndar ókeypis).
---
Fór á Esjuna í dag (#4 í ár, 63 mínútur). Búið er að poppa neðsta hlutann ansi mikið upp með göngustíg svo manni líður eins og maður sé að spássera í listigarði. Nokkur skilti eru komin upp þar að auki.

26.06.06
Auglýsingar eru á dulmáli sem gott er að kunna skil á. Hér er smá dulkóðun:
 
Hvernig er auglýsingin? Hvað er í raun átt við?
Við elskum fótbolta (Landsbankinn) Við elskum peningana þína
Ekki gera ekki neitt (Intrum) Borgaðu helvítis auminginn þinn - núna!
Allar jeppaauglýsingar Ertu með lítið typpi og finnur fyrir tilgansleysi nú þegar þú ert kominn yfir fertugt og ekkert virðist blasa við nema gröfin? Ekki vandamálið...
Orkuveitusýran Plís, ertu til í gleyma glottinu á Alfreð Þorsteinssyni og því hvað þú varst reiður við okkur þegar við hækkuðum hitaveituna þarna um árið þegar það var svo gott veður?
---
Eina ástæðan sem ég sé annars fyrir sækadelískri auglýsingaherferð Orkuveitunnar er að þeir hyggjist setja LSD í drykkjarvatnið.

25.06.06
Góðan dag. Topp Fimm er núna svona:

Reykjavík! - Advanged dungeones and dragons: Fyrsta plata lausrokkandi hávaðaseggjanna í R! ætti að koma í búðir í næstu viku. Platan heitir því óþjála nafni "Glacial landscapes, religion, opression and alcohol" en er svona líka skínandi skemmtileg. Hér er eitt af 14 lögum plötunnar og langmest "líklegt til vinsælda" að mínu mati.


Æla - Ekki snerta mig: Fyrsta plata keflvísku pönkarana með Einars Örn í Purrki Pillnikk-lega söngvaranum er væntanleg e. sirka 2 vikur og heitir "Sýnið tillitssemi, ég er frávik". Hér er lagið sem byrjar þessa fínu plötu. (Eins og sjá má á þessum tveim hljómsveitarmyndum hér að ofan mun það nú vera í tísku á hljómsveitarmyndum að liðsmenn séu sýndir kássandi utan í hvorum öðrum. Þetta er viðurstyggileg þróun, enda ógeðslega og óguðlegt þegar karlmenn snertast, nema náttúrlega í glímu í sértilgerðum búningum. Hvert er þetta þjóðfélaga eiginlega að fara? Og hvað næst? Allir tottandi alla eða sleikjandi órakaða rassa? Þetta er ónáttúra sem verður að stöðva strax áður en æskan spillist enn meira.)


Rocket/Freudental - Beneluxus europoort: Berlínskt listaspírurokk og hér juðast drengirnir frábærlega á "My generartion" heyrist mér. Gríðargott.


The Jam - Strange town: Búið var að "finna upp" flest í tónlist sirka 1978. Því hefur "þróunin" verið sú að stæla og vitna í eldra dót hljómsveit fram af hljómsveit, en oft með nýjum áherslum og ferskleika. Þannig er dægurtónlistin eins og síberíusveppur sem vex og vex, þó amman sé alltaf sami 12 tóna sveppurinn. Pönk moddið (Mod revival) sem The Jam skóku sér við á pönkárum var tilvitnun í Who og Kinks og þá félaga. Gömlu moddararnir töff Bretar sirka 1963 í ítölskum fötum og mokkasíum, spíttétandi á vespum (eða Lambrettum) í eilífum slag við "Rokkara" (sjá: Quadrophenia). Nýju moddararnir vildu vera eins en voru aðeins meira pönk og svo á nálægum básum Ska-revivalið og pönkið og þetta allt. Það eru sjaldan hreinar línur í svona heldur sullast allt saman. Hér er eitt af betri lögum The Jam, smáskífulag frá 1979. Ég er nokkuð jákvæður í garð The Jam en finnst Paul Weller sóló algjört rusl.


The Merton Parkas - Put me in the picture: Þetta band var í Moddinu líka, hálfpartinn B-mod ef The Jam var A-mod. Ég átti stóru plötuna með þeim og því er þetta gleymda band mér sæmilega kært. Hljómborðsleikarinn Mick Talbot sem stofnaði síðar ruslið The Style Counsil með Paul Weller var aðalið í þessu bandi. Hér er stuðpopp af stórri plötu frá 1979. Meira um moddið á þessari fínu síðu.

24.06.06
Bendi á tvö áströlsk dæmi (í tilefni af sigurgöngu Ástrala í HM). Fyrst ber að nefna hljómsveitina Dukes of Windsor frá Melbourne. Lagið "The Others" er alger hittari og söngvarinn undarlega líkur bæði John Lydon og söngkonunni í The Slits. Geðveikt töff band, allavega þetta lag. Hitt dæmið er sólólistamaðurinn Gotye og lag hans "Heart's a mess", sem er svona krúttpopp par excellance. Áfram Ástralía! Næsti leikur við Ítalaskrattana á mánudaginn.
---
Fórum feðgar á Árbæjarsafn í gær (ókeypis inn á föstudögum - næs sörpræs). Pönk/diskóið er skemmtileg sýning og allt hitt gamla draslið líka. Hugsa sér, einhvern tímann verður dagurinn í dag kominn á safn líka. T.d. þetta borðalmannak frá Landsbankanum hérna fyrir framan mig fágætur safngripur árið 3000, læst inn í glerbúri á þjóðmynjasafni þess tíma (í geimnum?). Á safninu léku unglingar í sumarvinnu fólk fyrir 150 árum. Nokkrir unglingar norpuðu við belju og hesta með sjöl og pottlok og var gaman að sjá fortíðina svona ljóslifandi. Fúlt þegar Fokker flaug yfir.
---
Sá nokkuð magnaða heimildarmynd í gær, The Mayor of Sunset strip, um útvarpsmanninn og grúppíuna Rodney Bingenheimer. Ég veit ekkert hvort þessi mynd sé feik eða sannleikur en Rodney litli er dreginn upp sem brjóstumkennanlegt grey, innantóm skel sem fyllist ekki nema þegar hann hittir "fræga fólkið". Möst sí, myndi ég halda.
---
HAM eru komnir aftur, í bili a.m.k., og halda tónleika á NASA á fimmtudaginn. Vel ku ganga að selja miða. Á morgun í tónlistarþátt Dr. Gunna fæ ég Sigurjón Kjartansson til að tala um bandið og söguna og ég spila nokkrar sjaldgæf upptökur úr segulbandssafninu. Eins og kunngt er var ég í HAM í nokkra mánuði 1988, á milli S.H.Draums og Bless. Bandið var búið að gefa út Hold og við æfðum það stöff í draslaralegri kompu við Frímúrararhöllina plús nýtt efni. Ég man lítið. Þó það að það var svo mikill hávaði á æfingum að ég neyddist til að vera með heví dútí verkamannaeyrnaskjól og spilaði jafnan í keng til að sleppa sem best við höggbylgjur hávaðans. Grímur fór á æfingu hjá HAM nýlega og sagðist aldrei hafa heyrt annan eins hávaða svo þetta hefur ekkert breyst. Ég var svo frægur að spila einu sinni með HAM, 6. október 1988 á Tunglinu (nú Iða), kvöldið áður en ég varð 23 ára (hætti á afmælisdaginn). Man að við tókum Voulez-Vous, sem var frumflutningur HAM á laginu. Í nákvæmri giggógrafíu minni, sé ég að 101 hafa borgað sig inn á þetta gigg, sem var gott, á þessum tíma stórsigur að rjúfa 100 manna "múrinn". Af því að ég er svo góður eru hérna nokkur tóndæmi frá þessu giggi:

HAM - Voulez vous
HAM - Ham í ískáp
HAM - Forboðnar ástir
HAM - Tertuguð
HAM - Auður Sif
HAM - Transylvanía

Og síðast en ekki síst; ljósmynd sem náðist á þessum einstaka viðburði:

copyright: Björg Sveinsdóttir.

23.06.06
Útrýmingarsalan á diskunum mínum fer bráðum að ljúka enda fátt um fína drætti þar lengur. Ætli ég hirði ekki það skásta og fari með restina í safnarabúð Valda sem er sú besta í bransanum. 745 diskar hafa nú selst, 887 eru eftir, og það verður að teljast fínt. Þegar ég byrjaði á þessu tók ég verðmætasta dótið frá, Sigur Rósar stöff aðallega og nú hef ég sett á flot uppboð með því dóti. Þó verðin séu í dollurum er Íslendingum alveg óhætt að bjóða í þetta hafi þeir áhuga.
---
Hafnarfjall (844 m) er ekkert grín. Fyrst upp drepleiðinlegt klöngur utan í Klausturtunguhól, þá upp í hamrabelti sem Ari Trausti segir í bók sinni að geymi "klauf" þar sem hægt er að ganga í gegnum hamrana. Heimamenn náttúrulega of dofnir til að merkja þessa merku klauf svo við Trausti leituðum að henni drjúga stund og fundum ekki. Vorum lagðir af stað til baka þegar við þóttumst sjá uppgönguleið gegnum hamrabeltið og kýldum áða. Skriðum þar upp og loks á fast. Þaðan var þetta ísí á hæsta tind, Gildalshnúk þar sem þessi mynd var tekin:

(Fuglumskreytt gestabók og Borgarfjörður í bakgrunni) Enn og aftur sannaðist það í lífinu að betra er að harka af sér en að gefast upp. Samtals tók ferðin um 6 tíma. Næst fer maður bara beint upp og er ekkert að hlussast upp skriðuna og hamrabeltið. Magnað engu að síður og svaka útsýni.
---
Hvað er viðbjóðslegra en Oprah Winfrey? James Blunt gestur hjá Opruh Winfrey.
---
Metalfestið EISTNAFLUG hefur fengið sér heimasíðu. Þess má geta að Dr. Gunni kemur fram á þessari hátíð, en við verðum bara þrír í þetta skiptið (Grímur í útlöndum, ég á bassa). Svo er ekki útlit fyrir að við spilum á Innipúkanum vegna tímaskorts, æfingarleysis og utanlandsferða en það er samt plata í maganum einhvers staðar.

22.06.06
Fjallastemmingin er viðloðandi. Í "sumar" hef ég farið 4x á Helgafell í Hafnarfirði (og reynt að slá tímamet í hvert skipti, 31.50 mín er metið eins og er), 3x á Esju og einu sinni á Vífilsfell. Það var í gær með Bigga Baldurs og hér er mynd af okkur á toppnum: 

Vífilsfell er 655 m og ekki erfitt stöff. Það hefur orðið svaka jarðrask við rætur fjallsins og svakalegt að sjá hvernig vinnuvélar hafa skóflað burtu landslaginu. En enginn segir múkk auðvitað af því að þetta er ekki nógu "merkilegt" landslag og svo þurfum við víst jarðveginn einhvers staðar annars staðar. Á leiðinni upp hittum við einn gaur sem kom hlaupandi á móti okkur en á leiðinni niður mættum við blaðamanninum SME ásamt eiginkonu sinni. Það er mikill munur að fara á fjöll sem eru svona fámenn. Á Esjunni, mestlabbaða fjalli landsins, hefur maður ekki undan að segja góðan daginn við fólk. Er eiginlega orðinn þurr í munninum þegar maður kemur niður. Best er því að leggja á Esjuna svona kl. 6 um morgun til að sleppa við örtröð. Í dag virðist ætla að verða glæsilegt útivistarveður og því er ég á leið á Hafnarfjall með Trausta Júl. Annað í sumar er svo vonandi Hekla, Drápuhlíðarfjall, Hvalfell og Botnssúlur og annað góðgæti.
---
Birgir stendur annars fyrir mikilli trúleysingjaráðstefnu um helgina ásamt öðrum og í gær horfði ég á tvo þætti Richards Dawkins sem er gestur á ráðstefnunni. Þá má nálgast á You tube. Þátturinn er ein stór og fín auglýsing fyrir kosti trúleysis enda ekki vanþörf á þegar hin hróplega della sem öfgatrú er er á góðri leið með að stúta mannlegri tilveru. Eftir að hafa séð þessa þætti hans prísar maður sig sælann að búa ekki í Colarado. Til að fólk reyni að samsvara sig í helvíti trúarofstækisins mætti það spá í því hvernig væri hér umhorfs ef, segjum, Gunnar í Krossinum væri forsætisráðherra og þjóðfélagið liti ægivaldi hans og gamla bullsins sem hann trúir á. Gunnar í Krossinum, Ósama Bin Laden... sama ruglið, tveir menn með sannleikann að leiðarljósi. Æ æ æ. Þessi Dawkins er þó ekkert svakalega aðlaðandi gaur, virðist vera lævís væminn Breti og hefði mátt nota fyndnina meira á þetta bráðfyndna fyrirbæri.
---
Ég er markvisst að vinna að því að hætta að hlusta á fréttir. Oft hefur mér fundist það bráðnauðsynlegt að heyra fréttir oft á dag en ég er að reyna að detoxa mig frá þessu. Það að þurfa ekki að heyra hvað Ingibjörgu finnst um hitt og þetta eða heyra vélrænt tuðið í þessu hyski öllu fær mann til að taka hausinn út úr því rassgati sem daglegt fjölmiðlalíf á Íslandi er. Þá finnur maður lykt af sól og blómum. Ummm, unaðslegt sumar og sól.

19.06.06
Heimasíða hins látna meistara John Peel er orðin ansi massíf.
---
Stundum er það að fara í bíó, eða eitthvað sem gerist í kringum ferðina, merkilegri lífsreynsla en myndin sjálf. Ég hef enga tölu á því hvað ég farið oft í bíó en hér er topp 10 minnisstæðustu bíóferðirnar sem ég man eftir akkúrat núna (í engri sérstakri röð):

1. Blue Velvet
Í Lyon, haust 1986. Ég man eftir því þegar ég kom út af þessari mynd að ég hugsaði að líklega væri þetta besta mynd sem ég hafði séð.

2. I Know what You Did last summer
Í einhverju molli í New York fylki. Man eftir breiðvöxnum blökkukonum við hliðina sem voru alltaf að tala við fólkið á skjánum sem var u.þ.b. að lenda í þeim morðóða - "Oh no sister, don't go in there" o.s.frv. Þetta jók útgeislun þessarar myndar til muna.

3. Jakob's Ladder
Man eftir því að við strákarnir í Bless fórum á þessa mynd einhversstaðar á hinum skrautlega Bandaríkjatúr, líklega í Chicago.

4. Eins og skepnan deyr
Í Stjörnubíói. Á undan var sýnt úr myndinni Agnes of God og ég fussaði út úr mér: "Helvítis nunnurusl!". Það fannst sessunaut mínum (sem í sömu bæjarferð hafði hent tréstól blindandi út úr Hallgrímskirkjuturni) svo sniðugt að hann endurtók í sífellu: Nunnurusl, nunnurusl! Svo fór að lokum að ég skýrði sólókasettu Nunnurusl (sjá E07 - Erðanúmúsik).

5. Frogs for snakes
Það var svo heitt í Barcelona eitt sumarið að við Lufsan fórum oft í bíó yfir háhitann og skófum upp allt með ensku tali. Þ.á.m. var þetta rusl eftir einhver New York artí wannabí, Amos Poe. Drepleiðinlegt en loftkæld leiðindin skárri en hitinn.

6. The General
Eina kvikmyndahátíðina örlí eitís var Buster Keaton þema. Fór á þessa með frænda mínum og hló ægilega mikið af því að einhver gaur í salnum hló svo mikið og asnalega.

7. Home Alone
Draugþunnur en í góðu skapi á þessu í Austurbæjarbíói og hló svo mikið að ég rann úr sætinu í atriðinu þegar Macaulay Culkin hræðir þjófana í burtu með því að spila einhverja film noir mynd á vidíóinu sínu.

8. History of the World: Part 1
Einu sinni fór maður í bíó til að drekka sig fullan (enginn annar staður til að drekka á, etc). Landi og Mel Brooks er engin súperblanda, enda Mel Brooks ömurlegur gaur. Man að ég sofnaði og svaf gríðarlega mikið á þessari mynd.

9. Manhattan Murder Mystery 
Aðdáun mín á Woody Allen hefur dofnað mikið síðustu árin (eins og á mörgum öðrum, Bukowski, Vonnegut etc) og ég man eftir þessari því ég sofnaði yfir henni í bíói í New York með Kristni Jón Guðmundssyni, sem vakti hins vegar alla myndina. 

10. Börn Náttúrunnar
Hef aldrei grenjað jafn mikið í bíó og var með tárin í augunum alla myndina fyrir hlé. Þegar ég hitti Friðrik Þór og HÖH fullur á bar skömmu síðar og sagði þeim frá þessu fannst Friðriki þetta eðlilegt enda væri myndin gerð til þess að "fólk borgaði sig inn á jarðarför ömmu sinnar og afa".

18.06.06
Það þarf náttúrlega ekki að segja þér að Tónlistarþáttur Dr. Gunna er kl. 14 á XFM í dag. En nú, vitanlega, Topp fimm:


Eberg - Inside your head: Af bestu íslensku plötu ársins, til þessa, Voff Voff, með Einari Tönsberg aka Eberg. Loksins komin í búðir.


Stilluppsteypa - Demon Jukebox: Bjórsmjattandi hávaðaseggir með aðeins meira lag en vanalega, þ.e., aðeins minna "hljóðheimarnir" sem á síðkastinu hafa dunið. Lagið má finna á flúnkunýrri safnplötu Tilraunaeldhússins, Fjölskyldualbúm.


Prototypes - Gentleman: Djöfull er ég að fíla þessa frönsku krakka. Hið fagra tungumál vekur að vanda hugrenningatengsl en þetta band er eins og nútímaútgáfa af Les Rita Mitsouko, sem var vinsælt poppband í Frakklandi um miðjan 9. áratuginn. "Sjantímon" er án efa eitt af lögum ársins só far (listi væntanlegur). Hér má svo sjá töff myndband við þetta geypigóða stuðlag.


DAT Politics - What's dat: Aðrir Frakkar en meira rafsprell, artí eurotrass, etv. Tekið af nýjustu plötunni, Wow Twist, sem er öll í þessum geðveika dúr.


Tv on the Radio - Let the devil in: Af nýjustu, Return to Cookie Mountain, sem er kannski ekki alveg nógu góð, eiginlega meira af því sama án þess að ramminn sé víkkaður. Alveg í lagi engu að síður og gott til að svæfa ungabörn. 
---
Í nokkra mánuði fyrir langa löngu var Emo Philips sá fyndnasti. Hann er enn að. Pee Wee Herman leikur í nýjasta myndbandi The Raconteurs. Hann hefur ekki náð sér eftir klámmyndastöntið greyið.

15.06.06
Þegar ég vaknaði í morgun var ég með No Reply á heilanum. Fimmtán mínútum síðar var ég búinn að dánlóda The Beatles for sale. Hver þarf diska?  Talandi um, samtals hafa 62 aðilar keypt 639 diska á útrýmingarsölunni miklu. Enn eru þó 992 diskar eftir og lista yfir þá má sem fyrr nálgast hjá undirrituðum.
---
Hér er allskonar undarleg tónlist; asískt sixtís-popp, hindú-útgáfur af Abba-lögum, Bollywood-stuð og annað sniðugt. Mæli t.d. með laginu "Bazazz Tengoku" með The Cupieds.
---
Pönkið er komið á Árbæjarsafn og diskóið líka:

Ég er orðinn gamall...

14.06.06
Útvarpsmenn athugið: Paul McCartney verður 64 ára á sunnudaginn. Því ekki að byrja að spila When I'm Sixty-four í dag til að verða á undan röðinni?
---

Fann glæsilega heimasíðu með bifreiðum Ráðstjórnarríkjanna. Hér má lesa sér til og sjá gullfallegar myndir af eðalvögnum eins og Gaz (þekkt á Íslandi sem Volga), Moskvítz, Trabant, Skóda, Lödu og Wartbúrg. Þessir bílar komu nokkuð við sögu á mínum uppvaxtarárum. Pabbi átti t.d. nokkra Skóda, þ.á.m. svona "blöðruskóda" eins og sést hér að ofan. Margir (smjörkúkar og íhaldspakk) litu niður á bifreiðar ráðstjórnarríkjanna og um Skóda var til níðvísa:

Skódi ljóti
spýtir grjóti

En ég snéri þessu í:

Skódi flotti
spýtir gotti

Hér er mynd af okkur feðgum einn góðviðrisdag sirka 1975:

Mjög kúl föt svo ekki sé talað um armböndin. (Meira um Skóda á heimasíðu Leós)
---
Pabbi Steina gítarleikara í S.H.Draumi átti svo Volgu og ég man að við rúntuðum eitthvað í henni þegar Steini var nýkominn með prófið. Þetta var svört drossía með rauðum veglegum sætum. 
---
Nú eru ekki lengur til neinir kommabílar og allir bílar koma frá sama stað, Kapitalíu.

13.06.06
Hér er viðtalið á NFS. Ég er kl. 11:11 eða 02:11:20.
---
Já, meðan ég man; Hallgrímur Thorsteinsson kom hérna í gær til að filma diskadraslið áður en það var selt. Viðtal og læti einhvern tíman á NFS í dag eða morgun.
---
Diskasalan uppdeit: Í útrýmingunni í gær seldust 487 diskar. 1145 eru því eftir. Lista yfir það sem eftir er má nálgast með því að biðja um hann.
---
Versu mistökin í sölunni voru líklega að selja Left Banke safndisk á 800 kall þegar hann gengur víst á 100 Pund + í safnarabúðunum. Hvernig átti ég að vita það? Ég naga mig í handarbökin – eða þannig. Hinn heppni kaupandi Skarpi greinir frá þessu á heimasíðunni sinni. Aðrir kaupendur voru m.a. Óli Gneisti, Hallur, Þrír valinkunnir blaðamenn Fréttablaðsins, Stefán Birgir, Bjaddni Hell, Brjánn "Gromm", Hákon Hrafn, Haukur Morðingi (sem hélt í pönkið og mætti útældur), Þórður Kristinsson, Óskar Pétur og Guðmundur Rúnar. Allt saman hvílíkir snillingar að það hálfa væri líklega nóg.
---
Ástsæl móðir mín er 79 ára í dag og að því tilefni liggja störf í opinberum stofnunum niðri. 

12.06.06
Nú fer fram afhending og ýmsir unnendur dægurtónlistar streyma að húsinu með bólgin veski. Um 30% af safninu er selt og í undirbúningi er nýr listi með leifunum. Það voru margir um hituna, en hér eru "vinsælustu" diskarnir (þess má geta að aðeins einn kaupandi fékk hvern disk):

7 kaupendur: 
Decemberists - Picaresque promo 100 kr

6 kaupendur: 
Boredoms - Pop Tatari 500 kr

4 kaupendur: 
Fantomas – Directors cut promo 100 kr
Flaming lips - In a priest driven ambulance 500 kr
Knife – Silent Shout 300 kr 
Ókind  - Hvar í Hvergilandi 500 kr
Yo la tengo – then nothing turned itself inside promo 100 kr
Architecture in Helsinki        In case we die 300 kr 
Belle & Sebastian       The Boy with the arab strap  500 kr 
Benni Hemm Hemm     Benni Hemm Hemm    500 kr 

11.06.06
Diskasalan: 40 pantanir komnar í hús. Sendi út email í dag eða morgun um niðurstöður. Svo verður afhending hérna heima hjá mér á morgun milli 16-22 (en nánar um það í emaili).
---
Vér feðgar fórum á bílasýningu í Laugardalshöll, eða sonurinn aðallega en ég fylgdi með. Einhver rallýkappi sagði okkur að hann hefði fengið bakteríuna 2 ára og ekki losnað við hana síðan. Hann sagði fullvíst að sonur minn yrði bílamaður það sem eftir er. Ég reyndi að malda í móinn, sagði að þetta yxi kannski af honum og hann væri kominn í músik á fullu innan skamms, og þá helst á trommum. En þetta var svaka sýning, þyrlur, flugvélar, fjórhjól, vélsleðar og bílar sem Dagbjartur hamaðist í. Mæli með þessu fyrir bílaóða.
---
Kl. 14 að vanda Tónlistarþáttur Dr. Gunna, en ég er að spá í að sleppa Topp 5imm þessa vikuna, enda á haus í hinni ægilegu diskasölu. Alltílagi, bless.

09.06.06
Þá bíða 1632 diskar í kössum og listarnir eru komnir út og komnar einhverjar 25 pantanir só far. Margir sem vilja kaupa það sama, feitustu bitana, en bara sá fyrsti sem fær. Ég verð að hjakkast í þessu um helgina og læt fólk vita hvernig fer. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta Brimkló og Spilverk þjóðana. Ætli það náist ekki að byrja að moka þessu út á mánudaginn. Ef þú hefur pantað færðu email í síðasta lagi á mánudaginn.
---
Hér eru annars næstu tónleikar:

Metalfest? Hmm...

08.06.06
Úff, þetta er nú meira hjakkið. Excel vinna alveg drepleiðinleg, skil ekki hvað ég var að spá. Of seint að hætta við samt. Ég er að verða búinn með erlenda listann og þetta verða ekki nema einhverjir 1200 titlar. Þá er íslenska dótið eftir og ég ætti að geta sent út listana tvo seint á morgun - Bara einhverjir 1700 titlar samtals sýnist mér. Ég hélt ég ætti miklu meira. Það eru einhverjir 100 búnir að biðja um lista svo það verður "hamagangur í öskjunni". Verst að geta bara selt hvern disk einu sinni.
---
Fór á Da Vinci lykilinn, át á Red Chili og Sægreifanum, drakk Pepsi Max Gold...

07.06.06
Nú stendur yfir skráning á geisladiskum í safni undirritaðs enda er Heiða búin að kaupa geisladiskarekkana mína og það er ekki aftur snúið – ÉG ÆTLA AÐ SELJA ALLA GEISLADISKANA MÍNA. Ég ætla að selja þetta ótrúlega ódýrt (100 - 1000 kall, flestir á 300, 500) og er hér að djöflast við að skapa excelskjal jafnharðan og ég set diskana oní kassa. Það eru komnir 188 diskar og ég er bara búinn með A og B í erlendum plötum. Ég er að hugsa um að reyna að losa út sem mest bara héðan heiman að mér frá og systemið verður svona:

1. Áhugasamir kaupendur biðja um að fá sendann LISTANN (flytjandi, titill, verð)
2. Kaupandi sendir inn pöntun (lágmarks pöntun 2000 kall) 
3. Kaupandi kemur og pikkar upp diskana (sem ég verð búinn að taka til)

* Fyrstur kemur fyrstur fær!

Og nú til að kanna áhuga: Já, sendu mér LISTANN!
---
Öppdeit: Er hér sveittur við að skrá draslið, ætti að hafast fyrir helgi. Þetta verða tveir listar, einn með erlendum diskum, annar með íslenskum. Fólk hefur sýnt þessu nokkurn áhuga, um 50 manns hafa só far viljað fá lista. Margir spyrja afhverju ég sé að selja alla diskana mína (nema þá sem ég hef sjálfur spilað inn á) og svarið er:

* Ég hlusta eiginlega aldrei á geisladiskana mína. Síðan ég flutti fyrir 2 árum hef ég kannski hlustað á svona 0,5% af því sem ég á og ég sé ekki fram á að það aukist.
* MP3 og viníll er langtum betra form
* Geislaspilarinn minn er að verða ónýtur
* Ekki verra að skipta þessu ryksafnandi dóti í peninga
* Það er fólk þarna úti sem langar meira í þetta en ég
* Það verður minna að bera næst þegar ég flyt

og síðast en ekki síst:

* Heiða er búin að kaupa skápana!

Ég er þó auðvitað langt í frá hættur að hlusta á músik og geri það varla fyrr en ég missi endalega heyrn.

06.06.06
Afmælisbarn í Höll. Gott diss á stóriðjustefnuna, leiðinlegt jesúrugl, sígild dægurlög og allur pakkinn. Smá skítafýla af öllu sponsinu (kommon, Bjarni Ármannsson?) og Simmi og Jói... æ ég veit það ekki. En samt: Bubbi ég elska þig! 
---
Auðvitað verður Guðni næsti formaður og jafnvel forsætisráðherra. Hann er oldskúl Framsókn, jafn góðlegur og "mannlegur" og Steingrímur Hermannsson og pabbi Sjóns heitinn, og er meira segja með catchphrase eins og Steingrímur. Steingrímur var með "ég verð að segja það", en Guðni er með "obbobbobb". Almenningur vill ekki forrík spillt steinrunnin vélmenni eins og Finn heldur alvöru fólk eins og Guðna. Við Lufsan horfðum allavega með tárin í augunum á Guðna í Kastljósinu og hefðum örugglega bæði kosið Framsókn bara af því að við vorum svo ánægð með að hann var ekki með þetta vanalega búllsjitt sem atvinnupólitíkusar halda að þeir þurfi að vera með til að tekið sé mark á þeim. Guðni talaði næstum því bara eins og vanalegur maður, skrítinn maður, en allavega ekki viðurstyggilegt vélmenni. Guðni er málið! 
---
668 - Nágranni dýrsins tekur á móti heillaóskum í dag því afmælisbarnið er að heiman.

05.06.06
Gat nú þessi helvítis Framsóknarflokkur ekki drullað á sig á öðru kvöldi en þegar er almennileg sjónvarpsdagskrá? Fátt er ósamrímanlegra en bullandi stuðfönk og skítaborði um að Halldór fokking Ásgrímsson ætli að halda blaðamannafund. Burt með þetta drasl! Burt sagði ég!
---
Staðreynd: Í Keflavík eru átta sólbaðsstofur.
---
Sá fallega ljósmyndabók í dag: The Roots of Rúntur e. Rob Hornstra. Mun sannari lýsing á íslensku mannlífi en myndirnar í Icelandic Review.
---
Ég er að spá í að slá upp brjálaðri Kolaportssölu á allri tónlistinni minni, bókunum, teiknimyndablöðunum og þessu dóti öllu. Ég nenni ekki að eiga svona mikið dót lengur. Nánar auglýst síðar. 

04.06.06
Hinn sjúklega grimmi sjónvarpsmaður Simmi ræðst harkalega á ræfilinn mig á heimasíðunni sinni og ég ber skjálfandi og hágrátandi hönd yfir höfuð í kommentakerfinu. Bráðskemmtilegt. Tónlistarþáttur Dr. Gunna er í dag á sama stað og tíma og vanalega (þrátt fyrir að kristnir menn haldi upp á "Hvítasunnu" en aðrir upp á "Grill í sumarbústað") og verður auðvitað boðið upp á alvöru tonlist sem allir hafa heyrt margoft áður með Nirvana og Led Zeppelin (djók). Nei, í alvöru, Nirvana verða í þættinum – og þá meina ég auðvitað sýrupopphljómsveitina Nirvana sem var starfandi á 7. áratugnum í Bretlandi. Og nú, til að gera langa sögu stutta, hágæða Topp Fimm:


Þór Eldon / Dagur Sigurðarson - Dauðaskammtur: Af Tunglskinsmjólk, 7 laga diski sem er kominn út í takmörkuðu upplagi og fæst í Smekkleysubúðinni. Þór og Dagur í dúndurstuði og útkoman svona líka gæðaleg.


Daedelus - Noveau Nova: Raftónlistarhátíðin Bright Nights er framundan (það væri þó eftir öðru að hún yrði slegin af eða flutt á Grand rokk) og þetta er einn af þeim erlendu sem mætir. Náungi frá San Fran sem hefur gert mýgrút af plötum á ýmsum merkjum. Á sinni nýjustu – Denies the days demise – vélar hann um bossanóva og annað S-Ameríku stöff.


Sonic Chicken 4 - Sonic night: Súperskemmtilegt artírokkabillí frá Perpignan í Frakklandi. Það er náttúrlega ekki í lagi með þetta lið. 


The Stills - Destroyer: Kanada er málið því þetta er enn eitt gerðarlega indíbandið þaðan. Ég er ekki frá því að ég hafi verið með þetta lag á heilanum í síðustu viku.


Brightblack Morning Light - Everybody daylight: Skítugir og stónd skógarhippar í þjóðlagarússi á nýrri plötu frá Matador útgáfunni. Ég finn ilm af könglum.

03.06.06
Nýjustu fréttir: 
Reykjavík Tropik flytur á Nasa og Sleater Kinney bætist við

Athugið breytta dagskrá 
Vegna ákvörðunar lögregluyfirvalda í Reykjavík um að veita tónlistarhátíðinni Reykjavík Tropik ekki skemmtanaleyfi sunnudaginn 4. júní hefur verið áveðið að sameina hátíðina tónleikum Sleater Kinney á Nasa. Aðgöngumiðar á Sleater Kinney og aðgöngupassar á Reykjavík Tropik gilda á Nasa þetta kvöld og verður dagskráin með eftirfarandi hætti:

18:00 Forgotten Lores
18:35 Ghostigital
19:20 Skakkamanage
20:00 Kid Carpet
21:00 ESG
22:30 Sleater Kinney
24:30 Trabant

Örfáir lausir miðar verða seldir við innganginn á Nasa frá kl. 17:00 á sunnudaginn og er miðaverð 2.900 kr.

02.06.06
Upp á síðkastið hef ég étið meira mangó en ég er vanur. Af öllum "nýju" ávöxtunum sem nú er hægt að kaupa í búðunum hér held ég að mangóið skari fram úr. Papaya er t.d. vont.
---
Ég var í bústað að skrifa Abbababb söngleikinn. Ég fór í KFC á Selfossi og keypti mér kjúkling. Ég hef alveg sleppt því að horfa á þetta myndband og fer líklega til helvítis þar sem ég fæ sömu meðferð og kjúklingagreyin. Kannski gerist ég grænmetisæta einn daginn. En mér langar allavega ekkert í KFC akkúrat núna, sú löngun kemur og fer.
---
Annars var allt með kyrrum kjörum á Selfossi og búið að setja upp nýtt skilti með Sjálfsstæðisflokknum, eða kannski bara búið að laga krassið þarna á Eyþóri.
---
Takk fyrir og bless var það síðasta sem var sagt í Kananum. Svona endar allt. Árið 2300 verður Kárahnjúkastífla t.d. molnuð og morkin og árið 3000 verður ómögulegt að sjá að þarna hafi nokkurn tímann verið stífla. Tíminn er á þinni hlið.
---
Í bígerð er meiriháttar poppsöguferð til Englands. Þar er helsta markmiðið að sjá Rollingana í London 22. ágúst. Maður vonar nú bara að Kíþarinn nái sér af fallinu og verði kominn á ról. Týpískt hjá honum að detta ofan úr pálmatré. Að auki er stefnan sett á Liverpool til að góna á Bítladót, þ.á.m. æskuheimili Lenn/McC (næst neðsti línkurinn).
---
Á Finnur Ingólfsson að rífa upp vinsældir Framsóknar? Vá, hversu veruleikafyrrt getur fólk verið? Ef einhverjum á að takast það er það Guðni Ágústsson, það bráðfyndna lukkutröll. Hann lítur út fyrir að vera maður en ekki valdagráðugt vélmenni og með hann í brúnni fengi Framsókn nógu mikið fylgi til að geta slefað upp í Dé í 4 ár í viðbót eftir næstu kosningar. Með Ingibjörgu og Össur í brúnni er útlokað að Samfokk komist til áhrifa. Mark mæ vords. Bara ekki nógu trausvekjandi/simpatískt lið. Sorrí kids. 

01.06.06
Í morgunútvarpi heyrði ég að Reykjavík Rokks hátíðin með Mótorhead, David Grey og Darkness hefði verið slegin af. Ekki virtist nægjanlegur áhugi fyrir þessu dæmi til að halda því til streitu. Náttúrlega misspennandi bönd og í innflutningsgóðærinu virðist þurfa að bjóða upp á spennandi bönd til að einhver nenni að mæta. Það er ekki lengur nóg að það sé bara erlent. Þrátt fyrir góðar meiningar komast menn alltaf á endanum að sannleikanum sem þeir virtust búnir að gleyma: Á Íslandi búa 300.000 manns. Þegar NFS rásin verður lögð niður mun mannfæðinni verða kennt um. Í haust spái ég. 
---
Auðvelt er að gleyma þessu með 300.000-in þegar góðærið blússerar og á hverjum degi eru fréttir eins og "Ríkir Íslendingar keyptu einhverja búð í Kaupmannahöfn", "Bill Clinton röflaði blaðalaust fyrir ríka Íslendinga fyrir 10 milljónir" eða "Ríkir Íslendingar keyptu fótboltalið í Búlgaríu". Vegna nærverunnar smitast maður og fer að halda að maður sjálfur sé við það að fjárfesta biggtæm eða sem sé, að maður hafi alveg efni á pallbíl eða að hækka yfirdráttinn upp í 2 milljónir.
---
Svo kemur höggið: Við erum 300.000. Aðeins færri og búa í Toledo í Ohio. Og ekki nóg með það heldur er verðbólgan rokin upp, hér er dýrasta bensín og dýrasti matur í heimi og það er skítaveður. Þá er maður glaður að hafa sleppt pallbílnum.
---
Rétt er að benda á fjögur ljóð eftir Þorstein Guðmundsson.

---
Gamalt...