TOPP 5! 21. vika: Magyar Posse - Whirlpool of terror & tension / Kid Carpet - Brake Beatles / Sleater-Kinney - One beat / Prototypes - Un brin de fierté / Matthew Sweet & Susanna Hoffs - She may call you up tonight  ELDRI LISTAR
31.05.06
Áhugafólk um grín og fríkfréttir komst í feitt í gær. Fyrst var vitlausa liðið sem braust inn í sumarbústað, tók það allt upp á digitalvél sem það skildi eftir svo löggan gæti bara skoðað myndirnar og handtekið hlutaðeigandi. Þá var það hvalshræið sem var sprent í loft upp. Að lokum var það frétt frá Sólheimum þar sem annað hvort K eða C-listi plötuðu vistmenn til að kjósa sig. 

30.05.06
Ég verð nú að játa að ég er alveg að fíla LOST. Síðasti þáttur í annarri syrpu var sýndur í útlöndum á dögunum og það kom helst í ljós að það verður enn ein syrpan! Semsé þetta drattast áfram og verður bara flóknara og dularfyllra. Rúv sýnir okkur lokaþátt 2. syrpu 10. júlí ef ég hef reiknað rétt og það borgar sig ekkert að hnýsast í pakkann fyrr. Hér er þó ágætis nördasíða um þáttinn en ég nenni samt eiginlega ekki að nördast í þessu og leita að vísbendingum og svoleiðis rugl (ef þú hefur EKKERT betra að gera gætirðu þó t.d. hangið á Hanso síðunni). Höfundar þáttanna hafa örugglega ekkert masterplan hvort eð er og munu bara spinna þetta áfram á meðan einhver er að horfa. Hér er einmitt bent á þetta. Og alveg er mér sama. Á meðan þetta er eins skemmtilegt og það hefur verið verð ég við tækið. 

29.05.06

Eurovision vs Kosningarnar
Eurovision Kosningarnar
Það sem var í boði var svo lélegt að maður varð að kjósa það illskásta.
Hvað kostaði atkvæðið? 99.90 kr Svo sem ekki neitt
Úrslitin lágu fyrir um kl. 22 á laugardagskvöldi.
Það sem tapaði var yfirborðskennt fyrirbæri sem lét mikið á sér bera.
Þau sem unnu voru meikuð skrýmsli með hárkollu.

28.05.06
Og nú leidís og djentlemen, Topp 5imm!


Magyar Posse - Whirlpool of terror & tension: Finnsk hljómsveit frá Pori sem veit alveg hver Ennio Moricone er. Af nýrri plötu frá þeim, Random Avanger. 


Kid Carpet - Brake Beatles: Barnahljóðfæraskrýpli sem spilar á Reykjavík tropik. Hér bútleggar hann Bítlaslagara á indælan hátt.


Sleater-Kinney - One beat: Sunnudagur 4. júní. Suddarokk í kjól á Nasa. Hér er titillag frá 2002. Mæting!


Prototypes - Un brin de fierté: Franskt tríó í frískamínrússi á plötu frá því í fyrra. Ég er nú alveg slefandi sökker fyrir hinni fögru frönsku tungu í popptónlist, sérstaklega þegar hún kemur úr ærslafullum kvenbarka.


Matthew Sweet & Susanna Hoffs - She may call you up tonight: Þau mundu sinn fagra fífil á 9. áratugnum en teima nú upp á ábreiðuplötunni Under the Covers. Þetta drulluflotta popplag var upprunalega með barrokkpoppbandinu The Left Banke sem samdi líka Þó líði ár og öld með honum Bjögga okkar. 
---
Ég var alveg að fíla þáttinn hans Ómars Ragnarssonar í gær. Meira svona! Skrítið að hinn glæsilegi menningararfur sem Rúv lumar á sé ekki dreginn upp og viðraður oftar. Skemmtilegast var að sjá Halla og Ladda flytja Roj Rogers (minningar, minningar) og Pálma Gunnarsson með tensaða nýbylgju/spítt-fótaburðinn syngja sitt sigurlag frá 1981.
---
Sem betur fór var allt fólkið í kjördeildinni minni dökkhært svo það var aldrei spurning hvað ég kaus. Tónlistarþáttur Dr. Gunna slær ekki slöku við á XFM kl. 14 í dag.

27.05.06
Ég og Heiða erum gestir Freys Eyjólfssonar í hinum frábæra Gleymt en ekki gleymt í dag á Rás 2 laust eftir kl. 16. Til umfjöllunar er platan Ótta með Unun og við erum öll ofsalega hress.
---
Ég er ekki ennþá alveg búinn að ákveða hvað/hvort ég kýs þótt ég hafi verið á einhverri augl hjá S. Kannski kem ég mér upp kerfi sem miðast við hárafar starfsmannsins sem lætur mig hafa blýantinn og kjörblaðið. Ljóshærður = Samfylking, dökkhærður = vinstri grænir, sköllóttur = Eff, rauðhærður = Dé, Dredlokkar = Bé. Eitthvað svona. Já, ég held ég þetta verða kerfið mitt. Í hinu stóra samhengi skiptir náttúrulega engu helvítis máli hvað maður kýs fyrst maður er ekki þess vissari í sinni sök og alveg eiturhrifinn af einhverjum einum. Engar málamiðlanir í kjörklefanum – ég læt fólkið með blýantana ráða!
---
Sá loksins Brokeback Mountain í gær sem er svaka fín. Þeir hefði nú átt að fá Óskar báðir aðalleikararnir og myndin náttúrlega líka, enda mun betri mynd en Capote, en það er ekki að spyrja að hommafælninni.
---
Það er ekki búið að senda mér kristal ennþá. Og ég sem var farinn að hlakka svo til að vera "þjónað af gellum með líkamsmálningu"...
---
Ætli maður mæti ekki í dag. Ég gef Andra Snæ orðið:

Mikilvægustu kosningar aldarinnar?

Næstu tvennar kosningar eru einhverjar þær örlagaríkustu sem fram munu fara á Íslandi næstu áratugi vegna þess að þær snerta grundvallarákvarðanir sem munu marka líf okkar, umhverfi og stjórnmál
næstu áratugi. Einmitt um þessar mundir er verið að tak þá ákvörðun hvort Ísland verði stærsta álbræðsla í heimi eða ekki.
Yfimenn Alcan hafa gefið til kynna að verksmiðjunni verði lokað nema hún fái að vaxa upp í næstum því 500.000 tonn, það er kallað stækkun en þreföldun er nærri lagi. Þegar álverið í Straumsvík hefur þrefaldast
verður það næstum því jafn breitt og það er langt og það mun fylla upp í svæðið beggja vegna Reykjanesbrautar. Það á að verða heill ferkílómeter að stærð og það tæki rúma klukkustund að ganga í kringum það.
Í blöðum stendur að hlutfallsleg mengun muni minnka. Ef dulmálið er afkóðað kemur í ljós að gróðurhúsalofttegundir aukast sem nemur öllum bílaflota Íslendinga. Heimiluð aukning á brennisteinsdíoxíði úr 3500 upp í 6900 tonn á ári. Sjónmengun er ekki hægt að mæla í prósentum en á kyrrum dögum ætti þessi mengun að verða öllum ljós.
Fjölmiðlar hafa ítrekað brugðist skyldu sinni. Álpartíið fræga á Húsavík var til dæmis skipulagt af Gísla Sigurgeirssyni fréttamanni RÚV. Hann smalaði fólki saman og fréttin sem virtist koma í ,,beinni
útsendingu" hafði löngu borist um bæinn. Þetta var leikrit og Gísli samdi jafnvel slagorðin, ,,álið er málið" sem fólkið galaði eftir hans leiðsögn.
Jafnvel hörðustu áhugamenn um álver fengu aumingjahroll við að horfa upp á þetta en þennan dag dó lýðræðið á Húsavík. Þaðan í frá töluðu fjölmiðlar um ,,vilja Húsvíkinga". Þetta ástand var skapað af opinberum
fjölmiðli áður en nokkuð hafði verið rannsakað eða rætt, áður en arðsemi var ljós, áður en reynsla var komin af framkvæmdum, ráðningum eða mengun á Austurlandi, hvað þá hvort Kárahnjúkavirkjun nái yfirleitt núlli.
Menn fjalla ekki um aðalatriði málsins, að álverið á Húsavík er aðeins hálft álver. Það mun þurfa að tvöfaldast í framtíðinni en enginn vill ræða hvaðan sú orka á að koma. Jökulsár Skagafjarðar og Skjálfandi hafa
þegar verið eyrnarmerktar verksmiðjunni en það dugar ekki nema upp í 360.000 tonn. Þrátt fyrir öll vafaatriði er látið eins og ákvörðun á Húsavík sé formsatriði og búin er til tímapressa og neyð. Alcoa stendur fyrir fundum sem höfða til skammtíma gróðavonar einstakra hagsmunaðila. Þessi skák hefur verið leikin margsinnis um allan heim: Láttu heimamenn ná niður orkuverðinu.
Þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi fært Alcoa milljarða í beinhörðum peningum, skattaafsláttum, niðurgreiddu rafmagni og náttúruverðmætum þá fær Alcoa að eigna sér þjóðgarðinn sem á að ná frá Skaftafelli niður
Jökulsárgljúfur fyrir litlar 20 milljónir. Hér eftir verður allt myndefni af þessu svæði til reiðu í kynningarefni Alcoa og fyrirtækið getur sagt heiminum að öll þessi fegurð sé Alcoa að þakka. Þetta er eins og Bílaverkstæði Bödda fengi að nota Björk ókeypis í öllu kynningarefni þrátt fyrir að eigandinn hafi nýlega bakkað yfir hana.
Fyrirtæki sem stendur í mestu eyðileggingu á náttúrugersemum á Íslandi verður tákn fyrir verndun. Írónían er auðvitað sú að ekkert ógnar þessum svæðum nema einmitt áliðnaðurinn. Versti  markaðsfræðingur í
heimi getur séð að stórfyrirtæki ætti að borga  milljarða fyrir að vera opinber verndari höfuðdjásna Íslanda og enn   meira ef fyrirtækið er þekkt fyrir mengun og eyðileggingu.
Stjórnmálamenn og fjölmiðlar virðast ekki hafa ímyndunarafl til að sjá eða sýna okkur hvert þjóðin stefnir. Leiðin til álnauðar er vörðuð góðum ásetningi.
Nú þegar stefnir í að ársframleiðsla verði um 1.5 milljón tonn með álverum á Reyðarfirði, Hvalfirði, Húsavík og Helguvík og þrefaldri Straumsvík. En fjögur þeirra munu vilja eða neyðast til að tvöfaldast í framtíðinni. Það væri blekking að ímynda sér annað. Rannsóknir í Skjálfandafljóti, Héraðsvötnum, Kerlingarfjöllum, Torfajökulssvæði og Langasjó staðfesta hvert orkufyrirtækin stefna og að tæknileg markmið eru komin upp í tvær og hálfa milljónir tonna. Sú staðreynd að Þjórsárver eru á ís sanna þennan vilja, annars væru þau sjálffriðuð. 
Orkufyrirtækin vilja gera Ísland að stærstu álbræðslu í heimi, á því leikur enginn vafi, verktakar vilja það, ASÍ vill þetta, Sjálfstæðisflokkurinn vill þetta, Framsóknarflokkurinn vill þetta og Samfylking hefur spilað með um allt land.
Century sem rekur álverið á Grundartanga er örfyrirtæki, það gæti auðveldlega runni inn í Alcoa samstæðuna. Þá mun Alcoa eiga fjórar verksmiðjur á Íslandi sem allur munu þurfa að tvöfaldast. Hvert leitar slíkt vald og slíkur vilji? Á meðan forstjóri Össurar þarf ekki að ganga í miðstjórn framsóknarflokksins til að hanna betri gervilimi og Marel þarf ekki á velvild ráðherra að halda til að þróa betri vinnslulínu, á meðan allt hið skapandi afl á Íslandi leitar í útrás, þá mun ál og orkiðnaðurinn standa í innrás og leita í pólitík enda byggist vöxturinn á aðgangi að helgustu véum þjóðarinnar og þetta vald mun stýra samningagerð okkar í loftslagsmálum.
Enginn fjölmiðill hefur viljað birta okkur í hvaða átt við erum að fara. Væri æskilegt að einn og sami aðili eignaðist fjórar verksmiðjur á Íslandi sem allar vilja stækka? Og þegar þau hafa stækkað, munu þau
ekki vilja stækka? Er opið bókhald hjá stjórnmálaflokkum?
Kerlingarfjöll, Þjórsárver, Reykjanesið, Friðlandið að fjallabaki, Langisjór, Skjálfandafljót og Héraðsvötnin, allt þetta geta stjórnmálamenn látið af hendi á næstu árum. Ef valdið er tafl þá eru venjulegir sveitarstjórnarmenn látnir glíma við stórmeistara í samningagerð sem hafa snúið á stjórnvöld og haft áhrif á lagasetningu í stærstu ríkum veraldar. Á móti þessum stórmeisturum spila ráðamenn lúdó. Bisnessvit þeirra verður ekki í askana látið.
Leiðin til álnauðar er vörðuð góðum ásetningi. Þótt hver í sínu horni sé velviljaður er heildarmarkmiðið hrein yfirlýsing um fjandsamlega yfirtöku á íslensku atvinnulífi og náttúru. Næstu kosningar eru mikilvægustu kosningar Íslandssögunnar. Við erum að kjósa um það hvert Ísland stefnir. Á laugardag ætla þúsundir Íslandsvina að ganga  niður Laugaveg klukkan 13:00 ásamt mörgum helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar
og mæla þannig með annarri framtíðarsýn.

26.05.06

Skv. áreiðanlegasta tímariti landsins, Hér og nú, er mér boðið í "flottasta partí ársins" á morgun ásamt flestum stórmennum landsins (ég er t.d. mitt á milli Dóru Takefusa og Gillzenegger á gestalistanum). Boðsgestir eiga að vera búnir að fá sérhannaðan kristal sem er boðsmiðinn, en ég er ekki búinn að fá neinn kristal og finnst það ógeðslega fúlt. Hvar er kristallinn minn!? Ekki það ég myndi mæta enda skil ég ekki til hvers þetta partí er. "Valið á boðsgestum veislunnar virðist vera einfalt, ekki of mikið af strákum og skilyrðið er að vera kúl," segir H&N og bætir við: "Um tuttugu gellur með líkamsmálningu munu þjóna gestum og stelpurnar úr ungfrú Íslandi munu einnig mæta" (og hvað, verða gestir tottaðir?). Það væri gaman að vita hvaða grínista datt í hug að setja mig á listann, enda leitun að hallærislegri flottræfilshætti en svona smáþjóðamilljónera og örstirnarugli. Það segir sig sjálft að ef maður er kúl þá er maður auðvitað of kúl fyrir "flottasta partí ársins þar sem er skilyrði að vera kúl".
---
En samt... Hvar er kristallinn minn?! Í mér blundar sá nagandi efi að kannski sé ég ekkert á boðslistanum heldur er þetta bara eitthvað klúður í H&N. (Kannski komust þeir ekki yfir boðslistann heldur í uppboðslista frá Skattinum.) Þá er ég í djúpum skít því þó það sé ekki kúl að mæta í veisluna þá er það jafnvel enn minna kúl að vera ekki á gestalistanum. Ég hégómlegur? Aldrei!

25.05.06
Skv. Borat heimasíðunni er kvikmyndin tilbúin og sýnt á Cannes. Eflaust mynd árins! Á myndbandalager Google má finna helling af Borat stöffi. Geðveik snilld, t.d. I'm Locust, fuck to you... Það er reyndar hellingur af Borat á Youtube líka, en gæðin eru aðeins skárri á Google, sýnist mér.

24.05.06
Skúli Helgason fékk mig til að vera með í "Við kjósum Samfylkinguna" auglýsingu. Ég spurði hvort ég fengi ekki 8000 kall en hann hló bara. Ég sem var að meina þetta. Fyrir framan WC voru ungsjallar að gefa vatn. Ég hugsaði: Ef þeir verða hérna ennþá og gefa mér vatn þegar ég er búinn þá skal ég kjósa þá, eða a.m.k. íhuga það. Þeir voru svo náttúrlega ekkert á svæðinu þegar spinningið var búið svo ég slapp við þá dilemmu. Ég hef verið að hugsa upp ýmsar aðferðir til að gera ógilt. Það gæti þó verið alltof mikil vinna fyrir það eitt að einhver ungliði í talningadeildinni sem gæti ekki verið meira sama sjái útkomuna. Svo má skila auðu, en það er eiginlega ðe últimeit fýlukast, eða andstaða, samt dáldið gufulegt að mæta bara, fara inn í sturtuhengi lýðræðisins og gera ekki neitt. Pönkbandið Fjölnir, sem skv mínum heimildum er einhver 17-18 ára gaur, er hér með stórgott lag um það að skila auðu. Tékkið líka á hinum lögunum þeirra/hans.

23.05.06
Í framhaldi af símhlerana-skandal Bjarna Ben (sem er pabbi Björns Bjarnasonar, kids) hefur verið sýnt viðtal við gamlan komma, Kristján eitthvað. Hann er vörpulegur og sagði að þessir njósna-wannabe-gaurar hefðu bara verið "aumkunarverðir". Flott. Svo sagðist hann ekkert ætla að fá peninga þótt hann færi í mál því hann ætti nóg af peningum og þyrfti ekki meira. Flott. Það er alltaf frábært þegar fólk gefur skít í peninga á þessum tímum þegar þeir eiga að vera upphaf og endir alls og undirstaða hamingju og eiginlega bara eini hvatinn til að draga andann á annað borð. Þess vegna finnst mér myndin af Palla sem var einn í heiminum að henda klinki í göturæsið vera ein flottasta myndin í þeirri flottu bók.
---
Ógnvekjandi og "Jaws"-leg auglýsing frá Exhummerbé er í Blaðinu í dag. Mynd af ísjaka og gefið í skin að það sé nóg af fábjánum í felum sem muni kjósa þennan flokk. Hver á eiginlega að kaupa svona rugl? Ertu með?! Nei ég er fokking ekkert með!!!
---
Nú er tími endurnýjunar. Keypti umgang á bílinn hjá Nesdekk. Það er ekki í frásögur færandi nema að í afgreiðslunni voru ekki þessi hefðbundnu leiðindatímarit heldur hrúgurnar af tónlistarblaðinu Mojo, besta tímariti í heimi. Ég hefði grúft mig yfir þetta væri ég ekki áskrifandi. (verð umgangs: 30.950 kr). Svo var ég orðinn heyrnarlaus og fór til heimilislæknis til að láta skola út. Hann sprautaði volgu vatni í eyrun á mér og drulla á stærð við eyrnatappa valt út (verð skoðunar: 700 kr). 
---
Hvað á að kjósa? Ég er tvístígandi að vanda en hallast að sjálfssögðu á vinstri vænginn eins og allt eðlilegt fólk. Bara verst að það er ekkert sem höfðar almennilega til manns. Kannski af því maður er svo laus við hugsjónamennsku og þolir ekki lið sem er svo ægilega visst í sinni sök þótt undir niðri sé þetta lið bara að hugsa um að næla sér í gott djobb næstu 4 árin. Ég held ég hafi aldrei verið almennilega sáttur við það sem ég hef kosið. Alltaf skammast mín og þótt ég hafa gert mistök. Einu sinni kaus ég Allaballa og sá svo Svavar Gestsson keyra snobblegan aftan í svörtum ráðherrabíl skömmu síðar. Fannst ég hafa verið svikinn – afhverju var mannhelvítið ekki á hjóli? Ég sagði hér um daginn að ég ætlaði að kjósa VG. Ég er hættur við. Samfylkingin er aðeins skárri. Er maður ekki bara samfokkari? Miðaldra millistéttarblesi? Dagur og Steinunn eru ágæt, svona léttleikandi dressmanlið á meðan VG er nú meira fatabúð Hjálpræðishersins. Svo eru þrír aðrir möguleikar. Nei ég er ekki að tala um að kjósa Exbé, F eða Dé (ég þyrfti að vera með heilaæxli til að detta það í hug), heldur eru það möguleikarnir 1. mæta ekki á kjörstað, 2. skila auða eða, 3. gera ógilt. Af þessum kostum er skemmtilegast að gera ógilt. Ég gerði einmitt ógilt í kosningunum Vigdís/Sigrún og það var mjög ánægjuleg upplifun á lýðræðinu. Það eru eiginlega einu kosningarnar sem ég hef tekið þátt í og ekki séð eftir. Ég teiknaði mjög glæsilega klámmynd af frambjóðendunum á kjörseðilinn og skammast mín ekki neitt fyrir það. Semsé, mér sýnist þetta vera 50/50 ógilt eða Samfylkingin, en ætli Samfylkingin verði ekki ofan á enda Felix vinur minn númer 13 á listanum. Þessari skoðun má þó breyta, segjum, fyrir 8000 kr á borðið (Exbé 80.000) eða með loforði um feitan "styrk".

22.05.06
Helsinki maí 2007. Eurovision. Meðal laga í keppninni verða "To hell and back" með úkraínsku hljómsveitinni The Zoviet Zombies, "Flames of hell" með Monsters frá Moldóvu, "Hard cock hot rock" með Hvítrússanum Boris the Bat og "Devils and Angels", sem flutt er af hinni vörpulegu sveit Skeletor frá Slóveníu. Regína Ósk (snoðrökuð og náhvít í svartri hempu) fer fyrir Íslands hönd með lag Hallgríms Óskarssonar við texta Kristjáns Hreinssonar, "Kiss me in the graveyard". Við komumst ekki upp úr undankeppninni.

21.05.06
Þokkalega fyndið að finnska dótið vann – gaman fyrir Finna, það eðal fólk. Sjálfur kaus ég uppáhaldslagið hans Dagbjarts, We are the winners, enda leitun að öðru eins rugli. En Topp fimm er ekkert rugl: 


Powersolo - Knucklehead: Næst á dagskrá tónleikagóðærisins er rokkabillípakki ársins á NASA næsta föstudag (26.05). Þar mætir Jon Spencer með Heavy trashið sitt og tvö dönsk bönd, þetta og Tremolo beer gut. Til að klóna hnossið ætlar FRÆ að spila líka, en eins og kunnugt er er væntanleg fyrsta plata FRÆ sem jafnframt er besta plata ársins só far. Powersolo hafa víst spilað hérna margoft en ég náttúrlega aldrei séð þá enda með mosavaxið rassgat. Nýjasta platan þeirra er EGG og þar má finna þetta ýkt gerðarlega lag sem kemur öllum í gott skap. Kannski maður skelli sér?


Metric - Monster Hospital: Frá Kanada og töffrokk. Emily Haines heitir söngkonan og þetta band hefur víst starfað árum saman. Þetta góða lag er á síðustu plötu, Live It Out, sem kom út í fyrra.


Snakefinger - The man in the dark sedan: Gítarleikari sem vann mikið með The Residents, en á tímabili fannst mér sú útúrflippaða tilraunasveit það besta í heimi. Snákfingur gerði nokkrar sólóplötur og þetta flotta popp er af þeirri fyrstu, Greener Postures síðan 1980. Karl greyið dó 1987, 38 ára gamall.


Red Krayola - Wives in orbit: Hljómsveit sem Mayo Thompson er búinn að reka síðan 1966. Tilraunagrúv og flipp og hrúga af stöffi. Ekki band sem ég hef sett mig ýkja mikið inn í (þetta er í Captain Beefheart deildinni og ég hef litla viðdvöl þar), en þetta lag er helv gott.


El Perro de mar - God knows: Sara frá Gautaborg kallar sig El Perro de mar og gaf nýlega út plötu með sama nafni. Hún minnir á einhverja dramadívu frá 1960 og eitthvað nema með nútímablæ, einnig er smá Julee Cruise þarna í pottinum líka. Svalt. 
---
Svo minni ég á Tónlistarþátt Dr. Gunna í dag kl. 14 á XFM. Klikkar ekki!

19.05.06
Þetta er náttúrulega vangefið þetta lið sem kýs í Evróruslinu! Tattúveruð tyrknesk ýsa og We are the winners - WE ARE! WE ARE! komust áfram (Litháen reyndar uppáhaldslag sonar míns, en hann er 2 ára), en við sátum eftir, rammfölsk og sjúklega fyndin (nei í alvöru). Ekki nenni ég allavega að horfa á þessa drullu á laugardaginn, enda ljóst að vindþurrkaða sænska beljan tekur þetta. Ég hef annars heyrt að það eigi að gera enn eina seríuna með Silvíu Nótt næsta haust en maður spyr samt, er þetta ekki orðið ágætt bara?

18.05.06
Ef ég væri í ríkisstjórn Ísland gengi ég með hauspoka:
* Helmingi dýrara að kaupa í matinn hér en annars staðar og vöruúrvalið lélegt (ok kannski ekki Ríkisstjórninni að kenna).
* Vaxtageðveiki og verðtrygging - leigubransinn ónýtur svo þú verður helst að kaupa þér íbúð og þá ertu með það á bakinu í 40 árum á lánum sem lækka aldrei. 
* Dýrasta bensín í heimi
* Heilbrigðiskerfið í rúst
* Gamlingjar að missa vitið
* Fólk í ummönunarstörfum að missa vitið
Svo ekki sé talað um allt hitt (launamisrétti kynjanna mest í Evrópu, náttúruskandalar o.s.frv). Ég segi það enn og aftur, þetta er hryllileg staðreynd en Ísland er ekki besta land í heimi. Stjórnarandstaða sem getur ekki notað þessa punkta til að komast til valda á næsta ári er rusl.
---
Stóra stundin er runnin upp. Hvert ætla Ágústa og Gaukur eiginlega með þetta Silvíu grín?! Verður kúkað á sviðið? Aðkallandi spurning er: Hvað á manni eiginlega að finnast, hvaða skoðun er mest kúl að hafa á Silvíu? Hér er mjög áríðandi könnun fyrir fólk sem vill vera á tánum í kúlinu og með vaðið fyrir neðan sig og ekki eiga það á hættu að vera tekið í landhelgi plebbismans. Jafn áríðandi könnun hefur sjaldan verið gerð.

Hvaða álit er mest kúl að hafa á Silvíu Nótt?
Hún hefur aldrei verið eins æðisleg
Hún er orðin þreytt
Hún er orðin þreytt en ég veit alveg að það er hluti af hinu póstmóderníska djóki að finnast það
Mér er drullu fokking sama um þetta allt
Free polls from Pollhost.com

Svara þarf af fullri einlægni og bannað er að feika sig meira kúl en maður er.
---
Ég ætla allavega að grilla.

17.05.06
Fríkirkjan er ágæt til hávaðasnauðra tónleika. Slowblow fluttu ósungið stöff, hljómaði eins og sándtrakk. Minnti Heiðu á Tindersticks. Smoggurinn mætti með Musicman gítar og sló takt með löpp á tambórín. Svakalega svæfandi Velvet Underground-legt moð en líklega mun betra með fullu bandi. Hörpukrútta Newsom mætti og sló á létta strengi. Svaka flink á hörpunni (og hlýtur að vera með sterka putta) og galaði eins og Kate Bush á helíumi. Spilaði eitthvað af nýju plötunni sem hún gerir nú með Van Dyke Parks. Sumt af því minnti á stöffið hans Parks af Song Cycle. Óheyrilega langt sumt, en annað sæluþrungið himneskt hnoss. Gaman aððí.
---
Morfínfíklarnir Jói og Gugga (sem NFS fylgist nú með af vandræðalegum áhuga) afsaka aumingjaskapinn með því að það sé "fíkillinn" í þeim sem ráði. Eyþór afsakar aumingjaskapinn með því að "dómgreindarleysið er "nokkrum rauðvínsglösum" að kenna" (Hvernig ætlaði hann að komast til baka og var hann ekki edrú áður en hann byrjaði að drekka?) Það er alltaf best að kenna öðru um, sérstaklega er gott að finna upp "sjúkdóm" til að klína öllu á. Þegar leti verður skilgreindur sem sjúkdómur verð ég fyrstur í röðinni með resept.

16.05.06
Voðaleg lúðasól er þetta sem hangir yfir karlgarminum honum Eyþóri Arnalds. Maður hélt hann væri loksins að meika það á Selfossi en nei nei, allt í megasteik. Ég nenni ekki að jarma eins og púki á fjósbitanum yfir óförum annara, nóg er nú úrvalið í þeim hópi, en þetta minnir allt á eitthvað spillt stjórnmálaplott úr bók eftir Carl Hiassen. Fyrst glossí plögg í öllum glansblöðum um yfirvegaða jarðbundna manninn á sveitabænum og svo þetta fylliríis-stinga-af dæmi. Passar ekki alveg.
---
Eyþór var annars bara voða almennilegur og góður að vinna með þegar hann var pródúser á Ununarplötunni æ svo ég hef ekkert nema gott um hann að segja, þannig, en líklega uppskera menn bara eins og þeir sá.
---
Sit við skriftir á söngleiknum Abbababb (áætluð frumsýning janúar 2007). Það er dálítið erfitt að skrifa söngleik þegar maður hefur aldrei gert það áður, og eiginlega aldrei séð söngleik einu sinni. Kannski verður þetta þá bara frumlegra fyrir vikið. Lögin af plötunni verða notuð í þessu + ný lög og lagabútar. Nú þegar eru komin nokkur ný lög, "Hr. Rokk kynnir sig" og "Pála spáir" sem dæmi. Verst hvað veðrið er gott. Erfiðara að beita sig aga við lyklaborðið ef það er ekki rigning og rok úti.

14.05.06
Hvað á maður að kjósa í þessu drulli? Ekki Exbé, það segir sig nú algjörlega sjálft og ekki exdé, því þeir vinna hvort eð er og það er hallærislegt að styðja vinnera. Ólafur Eff er nú langt í frá eitthvað sexí enda bara gamall sjalli sem fór í fýlu eins og allur þessi asnalegi Efflisti. Samfylkingin er ekkert sexí heldur, ægilega næntís eitthvað, það er einhver smeðjulegur leiðinablær yfir þessum flokki og maður sér alltaf hinn smeðjulega ræfil Tony Blair fyrir sér, enda er Samfokk bara vonnabí Tony Blair þó þeir vilji endilega sverja það af sér núna. Þetta er svo sem ekkert vont lið, þannig, bara óspennandi. Dagur hleypur eins og kona með fótboltan á undan sér í myndskeiði úr þætti Jóns Ársæls og Stefán Jón er nú bara eitthvað hármódel frá 1986. Frú borgarstýra er reyndar ágæt (hafði vit á að hækka lægstu laun og svona) en það var ekki trúað á hana áfram heldur sáu allir framtíðarmöguleika í litla Kennedy. En Samfylkingin verður aldrei neitt neitt, trúðu mér, flokkurinn kemst ekki í stjórn landsmála 2007, nó vei. Ingibjörg er alveg búin að vera eftir að hún laug sig úr borgarstjórastóli og Össur er óttalegur vindbelgur. VG er skást, eins og ég hef áður bent á, og þetta verður örugglega bara eitthvað samkrull VG og Dé í borginni og í landinu síðan. Mér sýnist það rakið. Sjallahækjan Exbé er að verða sjálfdauð og því koma kommarnir í VG og verða sjallahækjan í staðinn. En hvað veit ég svo sem.
---
Nú er tími fótboltaauglýsinga og fáar toppa þessa nýju frá Landsbankanum. Hún hefur það allt: Vidda og Björgólf á lyftara, Krumma í Mínus og blótandi fótboltahelmút frá Akranesi, Einar Kárason, Halla holdgerfing fótboltafávitismans og allan pakkann. Æpandi spurning er þó, Hvar er Tóti úr Íslenska draumnum?
---
Ég brýt odd af antisportistaoflæti mínu þegar HM byrjar og glápi á eitthvað. Að sjálfssögðu vona ég að montrassgötin í Englandi tapi sem flestu og að einhver lúserlið frá Afríku vinni sem mest. Mér líst ágætlega á að halda með Tógó og Ástralíu.
---
Í dag kl. 14 er stórfenglegur útvarpsþáttur sem ég myndi ekki missa af. Hann er á XFM. En nú, nýr og brakandi ferskur hátækni Topp Fimm!


Gylfi Ægisson - Í stuði: Ég var að keyra og kveikti á útvarpinu og þá var verið að spila þetta lag af nýjustu plötu meistara Gylfa. Ég komst undir eins í rokna stuð og var glaður og hamingjusamur á meðan lagið stóð yfir. Besta lag sem ég hef heyrt lengi! Það eru ekki margir sem ennþá hafa þor til að ríma "ball" við "rall" en Gylfi gerir það með hvílíkum bravúr að maður klökknar næstum því. Á þessu augnabliki ákvað ég að næstu Dr. Gunna plötu verður hægt að lýsa sem "Gylfi Ægisson "á sýru"" og ég fór strax heim og samdi lagið "Meira stuð" undir bullandi áhrifum frá Gylfa. Annars væri margt vitlausara en að stefna að því að komplítera útgáfur meistarans, hann hefur gert einhverjar 20 plötu á síðustu 20 árum og gefur þetta allt úr sjálfur. Sannur öndergránd listamaður. Pródúsjónin í þessu lagi er spennandi, þetta píanó minnir mig einhverra hluta vegna á Joe Meek.


The Go-Betweens - Cattle and Cane: Fallinn er frá bassaleikari og annar aðalmaður þessarar áströlsku hljómsveitar, Grant McLennan (48 ára). Hann og Robert Forster höfðu starfrækt bandið í um þrjátíu ár (reyndar með hléii frá 1988 til 2000) og gáfu síðast út plötu í fyrra. Alltaf góðir, eðal fullorðins indie popp og mörg snilldin á ferð á mörgum plötum. Hér er lag eftir Grant af annarri plötu sveitarinnar, Before Hollywood, sem kom út 1983. 


Phoenix - Long Distance Call: Franskir popparar af plötu #3. Ég myndi halda að þetta yrði komið í magnspilun innan skamms, enda drullugrípandi og frans-kúl.


Danielson - Did I Step On Your Trumpet: Ný plata, Ships, frá þessu skræka stórmenni. Ekki ólíkur Syfjan, bara flippaðri og trúaðri, skilst mér.


Morðingjarnir - Lest það ekki í bók: Út er komin 12 laga plata Morðingjana, Í götunni minni. Hér kveður við hráan drullupungtón með meitluðu melódíulími í þéttum pakka fyrir heiðursmenn og konur. Reddaðu þér eintaki.

13.05.06
Það skemmtilegasta í blöðunum í dag er tvímælalaust þetta:

Sigurdís safnar öllu milli himins og jarðar, þar á meðal skeggjuðum körlum.
---
Dettur engum sama orðið og mér í hug um "Silvíu Nótt": Þreytt?

12.05.06
Til sölu er Gibson SG Junior árg. 1970 með öllu upprunalegu. Fæst á gjafverði (tilboð óskast), upplýsingar gefur undirritaður.

Ég og þessi gítar eigum ekki skap saman og þess vegna vil ég losna við hann.
---
Það er eitthvað trist við það að Kaninn sé að fara. Jafn trist og við allar breytingar yfirleitt, ætli það ekki. Dauði og breytingar, ekki gott. Það er best að allt sé alltaf eins, nei kannski ekki. Þegar ég rekst á takka í stýrinu í bílnum mínum dettur útvarpið stundum á AM skalann og þar er stillt á 1530 sem er Kanaútvarpið. Oftast er eitthvað röfl en stundum alveg glötuð tónlist, sykurkántrí eða gufulegt AM-popp. Svona hefur þetta verið lengi. Maður var eitthvað að reyna að hlusta á þetta á uppvaxtarárum sínum, ég man að það voru þættir til skiptis, kántrí eða popp, aldrei pönk, það skásta var eitthvað iðnaðarrokk. Casey Countdown var eitthvað Topp 10 dæmi sem maður hlustaði stundum á. 
---
Bráðum kemur bara suð þegar maður rekst á takkann. Trist. En hvarmar mínir eru þurrir.
---
Sala varnarliðseigna var annað dæmi, mjög furðuleg búð á Grensásveginum. Reyndar er búið að loka henni fyrir nokkrum árum. Karlar með brilljantín-rokkgreiðslu seldu manni kanadrasl. Úrvalið fór hríðversnandi, síðustu árin var þetta bara orðið vandræðalega lélegt. En þegar ég var svona 12 var þetta spennandi, sérstaklega þar sem kommarnir foreldrar mínir hefðu orðið klikk ef þeir vissu að ég væri að hanga þarna. Úrval af vinýlplötum var ágætt, KISS, SUPERTRAMP, BOSTON, ELO og fleira í þeim dúr ef maður var heppinn (aldrei SEX PISTOLS náttúrlega, þrátt fyrir mikla leit). Á Grensásvegi var líka leiktækjasjoppa sem hægt var að hanga í. Ég var einhversstaðar um daginn og fann lykt sem minnti mig á þessa leiktækjasjoppu, eða kannski leiktækjasjoppuna sem var í Þverholti. Djöfull skrýtið þegar maður fær lyktar-flassbakk og mjög skemmtilegt. Ákveðin tegund af strokleðri fær mig alltaf til að fá flassbakk í pakka sem systir míns endi mér frá Danmörku þegar ég var barn. Að sjá þetta: Gamall maður með ekkert nema minningar!

10.05.06
Hverjum finnst flott að keyra um á Hömmer? Nú öllum ríku köllunum. Bæði Jón Ásgeir og Björgólfur eiga, eða hafa átt, Hömmera. Kosningabíll Exbé bjálfana er Hömmer. Segir sitt. Og nú er DAS farið að bjóða Hömmer sem fyrsta vinning. Djíses kræst hverjum langar í þetta ferlíki? Afhverju ekki bara að hafa fyrsta vinning skriðdreka frekar? Þetta eyðir 14-17 lítrum á hundraðið og líklega mun meira innanbæjar. Ofsasniðugt að vera á svona þegar bensínið er í 125 kalli og á leiðinni í 180 kall (hefur maður heyrt). Hömmer er bömmer. Mæli þá frekar með Toyota Aygo. Eyðir 4.9/100.
---
Svona heyrist mér kosningabaráttan vera: Bla bla Sundabraut. Bla bla flugvöllur. Bla bla agalegt að þurfa alltaf að vera að skutla öllum allt. Bla bla botngöng. Bla bla bla. Djöfulsins leiðindi.
---
Mark E Smith er alveg að spila út á FALL-túr um USA núna. Það má lesa fréttaskýringar á Pitchforkmedia. Hér er heimasíða hljómsveitarinnar, hvers söngvari henti bananahýði í gamla skúnk. Leiðinlegt fyrir þá að þetta atvik verður það eina sem sveitin verður þekkt fyrir í sögubókum tímans. 

07.05.06
Mér datt í hug smásagnakverið Þrettán sögur um mannskít. Að rekast á gamlan mannaskít á víðavangi er nefnilega eitthvað það asnalegasta, svo ekki sé talað um ógeðslegasta (ef hann er nýr), sem maður getur lent í. Kveikjan er saga sem ég heyrði af fólki sem var á fylliríi og fékk þá snilldarhugmynd að fara upp í gólfvöll og skíta í allar holurnar. Það varð ekkert af þessu enda komið undir morgun og fólkið að þynnast upp.
---
Datt líka í hug plötutitillinn Um áhrif 4.5 milljarða ára eldkúlu á mig og allt hitt fólkið á eitthvað, kannski plötu. Ýmislegt sem maður hugsar í tölti á fjalli. Var einmitt kominn upp á Esjuna (#2) kl. 07:38 í morgun (fyrstur í dag) en mætti svo urmli fólks á leið niður. Annar hver maður í engu nema stuttbuxum. Mætti m.a. uppskrílaðri konu sem leit út eins og vinkonan í Ab Fab. Hún var þó ekki á pinnahælum.
---
Feðgar fórum á "Vestfirska Perlan". Vestfirðingar eru yfirleitt frábært lið og mun afslappaðra sýnist manni en margir. Við fengum að smakka kjöt og fisk og heyrðum óminn af eina leikararnum á Vestfjörðum sem tróð upp. Það er gaurinn þarna sem er alltaf með sólóleikhús.
---
Í þágu almannahagsmuna er nú boðið upp á Topp 5!


Clor - Stuck in a tight spot: Fimmmanna breskt band frá Brixtonhverfi Lundúna. Gerðu fyrstu plötuna sína í fyrra og segja Gary Numan og Devo helstu áhrifavalda. Eiga nokkur dúndurlög, eins og t.d. þetta.


Inspiral Carpets - I Want You (með Mark E Smith): Farfísubandið ægilega með gamla grána úr Fall í svaka stuðlagi frá 1994.

x
My Latest Novel - The Reputation of Ross Francis: Skoskt og í Sufjan, Arcade, Belle-fílingi. Árennilegt. Af plötu #1, Wolves.


Melt Banana - Faint heart: Þegar ég var sirka 17 til 21 árs fannst mér Birthday Party besta hljómsveit í heimi. Þetta byrjaði þegar ég fékk "Prayers on Fire" í Safnarabúðinni og endaði líklega þegar Nick Cave var farinn að syngja einum of mikið um Guð og hljóma einum of mikið eins og Leonard Cohen. Eða kannski bara þegar Pixies mættu á svæðið. En allavega, út er komin tribjútplatan Release the bats þar sem 18 bönd riðlast á BP lögum (og Boys next door lögum). Ég er enginn sérstakur tribjútplötu aðdáandi, en þetta er alltaf ágætt. Megnið af þessum böndum þarna hefur maður aldrei heyrt um áður, en eitt besta framlagið er frá þessum hressilegu Japönum.


Franz Ferdinand & Jane Birkin - A song for sorry angel: Af öðru tribjúti, nú um Serge Gainsbourg. Hér riðlast stórmenni eins og Jarvis Cocker, Michael Stipe, Portishead... á lögum meistarans og allt á ensku, en það verður þó að segjast alveg eins og er, að bæði á þessari plötu og á BP tribjútinu, að orginalarnir eru nokkur hundruð sinnum betri. Eitt besta lagið er þetta þar sem gamla mein-skvísan hans Gainsbourg (sú sem er með honum á umslaginu) og skoska Joy Division-rokkfjörið FF leiða saman "hesta" sína. 

06.05.06
Ef Exbé nær manni inn á froðulegu kosningaherferðinni sinni er það endanleg sönnun á hálfvitaskap Íslendinga. Reyndar héldum við Lufsan að auglýsingaherferðin "Jón og Gunna Group" væri frá exbé, en þá var það bara frá Sparisjóð (eða einhverju álíka). Þar sem DV er ekki lengur til að hundelta bjána sem leggja í stæði fatlafóla verð ég víst að taka það að mér að birta þessa fallegu mynd sem finna má hjá rannsóknarblaðamanninum Bjarna Má:

---
Annars er ég að hugsa um að kjósa bara Vinstri græna af því það er réttast (og bæði Erpur, Villi naglbítur og Dóri Dna gera það – howsabátitt?) VG er eins og að éta gulrætur en ekki kókosbollu. Það er náttúrlega skemmtilegra að éta kókosbollu en til lengri tíma litið eru gulrætur betri. Þessir forpokuðu kommadurtar eru allavega heilir í sínu.

05.05.06
Svo mikið er framundan af tónleikum að hér er yfirlit:
* Manchester-giggið er á laugardaginn (morgun)! Illa teiknaður strákur, Olnbogi, Bergmál og kanínumenn og bassaleikarinn úr Smiðunum + íslenskt!
* 16 og 18. maí: Ofurkrúttið Joanna Newsom og kærastinn hennar, Hr. Smog í Frík-irkjunni.
* 17 maí: Krútt-systurnar Coco Rosie í Nasa.
* 23. maí: Gamli maðurinn með flautuna, Ian Anderson, í Laugardalshöll.
* 26. maí: Heavy Trash (Jon Spencer og einhver gaur) + hin dönsku Tremolo Beer Gut og Powersolo (að spila hérlendis í þriðja skipti sýnist mér). Í Nasa.
* 2-4 júní: Reykjavík Trópík með sæg íslenskra hljómsveita plús Girls in Hawaii og ESG og Supergrass.
* 4. júní: Megarokkstelpurnar Sleater-Kinney á Nasa.
* 9. júní: Synir Zappa rifja upp helstu verk pabba síns í Laugardalshöll.
* 12. júní: Bassaleikarinn úr Pink Floyd mætir með dolbí steríó í Egilshöll.
* mánaðarmót júní/júlí: Mötörhead, The Darkness og David Grey á þriggja kvölda Reykjavík rokkar í Höllinni.
---
Eins og sjá má er þetta sturlingslega mikið framboð og eins og best gerist erlendis. Ég held að þetta slái nú bara öll met á framboði, sérstaklega maí, en þar bætist Listahátíð við með allskyns miðaldrakerlingalegu stöffi. Ég er viss um að þetta er kúfurinn á línuritinu því það er augljóst að þetta á ekki allt eftir að ganga upp. Þá fer fólk að sjá að sér og framboðið minnkar aftur. Það er því um að gera að njóta framkvæmdagleðinnar á meðan síðustu blóðdropar góðærisins drjúpa úr nautinu.
---
Eins og komið hefur fram er enginn í almennilegu stuði nema hann sé með mæspeis síðu. Samkvæmt nýjustu talningu eru 1380 íslenskar hljómsveitir á Mæspeis. Hér eru nokkrar þeirra:

* Donna Mess er svaka gott band en eiginlega bara sólóið hennar Bjargar. Hún hefur nú opnað veftitið Konur eru konur bestar sem tekur á konum í tónlist. Ekki vanþörf á því. Ég varð var við smá kvennastuð þarna um árið þegar það voru haldnir tónleikar í Kling og Bank og Peaches mætti skömmu síðar á svæðið og það var allt að gerast, en svo varð eiginlega ekkert úr þessu. Þannig. Eða kannski ekkert frekar en gengur og gerist í þessu harki.
* Eberg er Einar Tönsberg og tilbúinn með plötu númer 2, Voff voff. "Love your bum" er hittari.
* Morðingjarnir eru frábært pönk. Handan við hornið er 12 laga plata með þeim sem er 25 mínútur enda algjör óþarfi að hanga yfir þessu.
* Benny's Crespos gang er ein af þessum íslensku undir-áhrifum frá Muse, Radiohead o.s.frv. hljómsveitum, en kannski bara betri en flestar þeirra. Lovísa sem er í bandinu er með sóló sem Lay Low og er líka í kántríbandinu Starlight Motels. Svaka magn hæfileika.
* KGB er bæði Unsound og Bob Justman. Sem ætla báðir að gera plötu í ár!
* Tunaphone er Halli að dútla góða hluti.
* Mongoose er svefniherbergis lág-tækja.

Þetta er nokkuð gott í bili. En það er semsé hægt að hanga á þessu tímum saman og flakka á milli heimasíðna. Verst að Mæspeis er ekkert sérlega gott tæknilega séð, hægt og oft leiðinlegt og lögin eru lengi að detta í gang.
---
FTT hélt aðalfund í gær en ég mætti ekki frekar en vanalega. Þó hringdu tveir menn í mig (EÖB og VG sem aldrei hafa spilað saman í hljómsveit en ættu nú eiginlega að gera það!) og báðu mig að mæta til að kjósa Jakob Magnússon. Það átti að koma Magnúsi Kjartanssyni frá, en hann hefur verið yfir þessu batteríi í 14 ár. Á hans væng voru svo menn að smala, Skerjafjarðarskáldið fremstur í flokki enda hann búinn að vera besti vinur aðal lengi. Popplandsliðið var víst mjög klofið í þessu máli og kannski hefði verið gaman að mæta, áreiðanlega mikill hitafundur. En ég nennti því  ekki enda svo mikill félagsskítur að það ætti að banna mig. Ég er hins vegar nokkuð spenntur að vita hvernig þetta fór.
---
Esja#1 í gær. Drulla í Einarsmýri. Fór að Steininum en þar brást á með grenjandi roki og rigningu. Heyktist á tindinum en fór lengri leiðina niður í staðinn. Helvíti fúlt að 10 mínútum síðar var komið sólskin og Þverfellstindur stóð í rjómabláma. Heyrði í hrossagauk og lóu og ánni og niðurinn frá þjóðvegi 1 hverfur meira að segja þegar maður kemur ákveðið langt upp. Helvíti gaman alltaf af þessari náttúru.

03.05.06
Igurður Poppari djöflaðist eins óður væri og hver Stogges-snilldin rak aðra í bland við nokkur leiðinleg hjökk. Því miður vantaði besta lagið, Search and destroy. Og reyndar Shake appeal líka. Óskiljanlegt því bandið hjakkaðist á nálægt öllu sem það kann, Ég vil vera hundurinn þinn tvisvar meira að segja. Igurður dró lið upp á svið sem skakaði sér í rokklátum og minnti á Götuleikhúsið að leika rokk. Ég þurfti að halda fyrir eyrun í mestu drununum, þá orðið óbærilegt. Gamlir jálkar í sal + nýtt kjöt. Gaman aððí.
---
Fréttir NFS um það að helstu eigendur þeirra séu á einhverjum voða fínum bílum að slefa utan í b-klassa selbryta í þessum hallærislega Gömbollkappakstri minnir á bómullarekruþræla að sleikja sér upp við húsbændur sína. Hvað kemur okkur það við þó þetta nýríka pakk eigi 5.9 milljónir til að splæsa í hugsanlegt tott á búgarði Hjú Hefner?

02.05.06
Urmull fólks í Esjuhlíðum í gær og fyrradag. Við feðgar fórum aðeins af stað, en beygðum fljótlega af Þverfellshornsleiðinni og í gegnum smá skóg sem er þarna. Maður er búinn að vera í óttalegu hangsi en þarf að fara að semja eitt stk ódauðlegan barnasöngleik. Manchester Popppunkturinn var þrælfínn, fannst mér, enda spennandi. XFM vann á lokasprettinum.

30.04.06
TOPP Fimm, dimmalimmalimm:

The Stooges - Shake appeal: Sléttuúlfurinn Igurður Popp og Stúsés eru á miðvikudaginn og miði í húsi. Þó ég hafi vitað af bandinu frelsaðist ég seint til Stúsés trúar, eiginlega bara svona 1996 þegar einhver sándmaður spilaði þetta undursamlega lag af Raw Power þegar hann var að stilla sándið fyrir eitthvað Ununargigg í London. Mér varð svo mikið um að ég rauk út í búð og keypti plötuna og síðan hinar tvær. Allt saman urgandi snilld. Sá Igurð sóló á Hróarskeldu 1997 eða 98 sem var drullugott. Á von á því feitu í Höllinni. STOP THE PRESS: Tónleikarnir hafa verið færðir í Hafnarhúsið!


Bonde do role - Melo do tabaco: Brasilískir krakkar með heimskulega stuðtónlist og enn heimskulegri texta. Í þessum texta segir m.a. eitthvað á þessa leið: "Ég var í partíi / ég sá hóru / ég sleikti á henni endaþarminn / það kom skítabragð upp í mig." Framtíðin!


Som Imaginario - Super-god: Brasilísk sólskinssýra frá 1970. Som Imaginario var ekki eitt af höfuðvígjum Tropicalíunnar en þetta lag er gífurlega upplífgandi.


Juana Molina - Malherido: "Argentíska Björk" að gera góða hluti. Af glænýjustu plötu hennar, "Son". 


The Zombies - This will be our year: Tónlistarmóment í útlöndum: Ég í Aberdeen við eldhúsborð tengdapabba míns. Þetta lag kemur á BBC og ég er nokkra stund að koma því fyrir mig hvað þetta sé og svo bingó: The Zombies. Þessi plata er algjör snilld og á heima í sama pakka og Sgt Peppers og Pet Sounds. Mösthaf.
---
Innipúkinn verður enn og aftur nú um Verslunarmannahelgina og lítur vel út. Grímur er að bóka nokkur slefandi áhugaverð útlend nöfn, bæði glænýja stórtalenta og eldgamla legenda. Varir mínar eru síld, en eitt hint: Eitt lag hinnar legendísku hljómsveitar kom af stað kópavogsíska slanguryrðinu "Bazól".
---
Svo eru háskólastúdentar að færa sig upp á skaftið og tilkynna nú um stórhátíð í byrjun júní. Veit lítið um hljómsveitina Girls in Hawaii en ESG er náttúrlega legend og undursamlegt að þetta Martin Hannett-pródúseraða nýbylgjufönk sé að fara að spila hérna við hliðina á manni. Ég vissi nú ekki einu sinni að þetta band væri til ennþá. Þær hljóta að vera orðnar eldgamlar stúlkurnar. Minna er ég spenntur fyrir framtaki Kára Sturlusonar, þótt ég vilji á engan hátt níða af því skóinn. Margir munu eflaust vilja á Mötörhedd, enda gífurlega þéttur pakki þar á ferð; HAM, Mínus og líklega 9/11s hita upp (þess má geta að allir meðlimir 9/11s eru með spaða tatúveraða á öxlinni og því hneyksli ef bandið fær ekki að spila þarna. Reyndar hafa þeir stundum verið spurðir af því hvort þeir séu svona miklir aðdáendur hinni ástsælu Spaða, en það er önnur saga...) Darkness og Davíð Grái eru dáldið í gær, hefðu eflaust fyllt höllinni í góðæri fyrir svona 2 árum, en ég myndi a.m.k. ekki stóla á Hallarfyllingu með þessum töppum núna. Það er ákveðin "ofhitnun" fyrirséð í tónleikahaldi og ekki allir sem riðlast á feitum hestum frá slíku. HVANNDALSBRÆÐUR ríða reyndar feitum hesti á nýrri plötu en það er enn önnur saga. 

29.04.06
Létum loksins verða að því að fara á heimaveitingarstaðinn hans Boga "í Bogarúllum" og eiginkonu hans Nok í Hlið á Álfranesi. Þau búa á friðuðu eiði þar sem útsýnið og fílingurinn er hreint andardráttartakandi. Pláss er fyrir 12 en við vorum 6 og ein á svæðinu. Frábært. Nok eldaði hvílíkar kræsingar, forréttasúpu, 3xaðalrétti, kaffi og kökur og 3500 á kjaft. Ég mæli með þessu fyrir fólk sem vill gera sér magnaðan dagamun. Meistari Bogi bjó á Auðbrekkunni á árum áður (nema það hafi verið Nýbýlavegur) og er bróðir Beddu (eða Beddí eða Beggu, man ekki) sem við vorum stundum í partíum hjá. Ég man alltaf eftir því að Bogi málaði Volkswagen bjölluna sína eins og hnöttinn og mátti ekki aka bílnum um göturnar því á þessum fornaldartíma máttu bílar ekki vera í fleiri en 3 litum (forræðishyggjan taldi að ef fólk sæi bíl í fjórum litum þá myndi það tjúllast og keyra út af, hvað þá ef það sæi bjöllu sem var máluð eins og jörðin, það var líklega talið valda stórslysi). Um feril Boga má lesa á heimasíðunni en hann var m.a. með kínarúlluvagninn sem maður fékk sér stundum kínarúllu í þunnildi undir morgun og svo var það veitingarhúsið Thailandi sem Jónasi Kristjánssyni var kennt um að hafa rústað með harkalegri gagnrýni. Heimaveitingahúsið Hlið er magnað fyrirbæri og nú er Bogi enn að bæta við sig og í sumar verður spa opnað þarna. Þá getur maður líklegra byrjað á spainu og dúllað við sig þar og svo étið á sig gat eftir á. Nema maður éti fyrst og fari svo í dúllið, hvað veit ég. Ég ætla sko að panta um leið og það er hægt.
---
Það besta í blöðunum í dag var grein Ármanns Jakobssonar um "einfara". Simmi í Kastljósi er með ágætis blogg hér. Við feðgar fórum í Tómstundahúsið í dag. Það er tvímælalaust besta dótabúðin.
---
Merkilegt hvað helvítis stjórnmálaleiðindaliðið étur orðfærið upp úr hvort öðru. Ég sver það að ef ég heyri eitthvað af þessu hyski tala enn einu sinni um að "slá póltískar keilur" þá missi ég vitið. Eða fría mig undan því í eitt skipti fyrir öll að þurfa að líta þetta lið augum og hætti einfaldlega að hlusta og horfa á þætti þar sem þetta dót heldur sig. Hversu ljúft yrði ekki líf manns ef maður hætti bara að hlusta á fréttir. Tja, ljúft en leiðinlegra kannski. 
---
Kannski væri gáfulegra að leggja bara DV nafninu og kalla helgarblaðið eitthvað annað, t.d. Helgarblaðið. Eftir geðveikina í janúar var vörumerkið DV algjörlega ónýtt og ekki viðbjargandi, eins og nú hefur komið á daginn. Gamla hljómsveitin hans Gary Glitters myndi a.m.k. kalla sig eitthvað annað en Glitter Band ef þeir byrjuðu að spila saman aftur, ekki satt?

28.04.06
Jæja DV farið yfir um og dapurlegt ástand á blaðamarkaðinum. Þó forsíður eins og "Tott fyrir tíu þúsund" eða "Rúnkaði sér fyrir framan lífvörð" hafi látið mann læðast með veggjum og ekki beint verið til að auka gúddvill þá hefur blaðið lengi verið lang skemmtilegasta blað landsins, það sem maður les undantekningalaust fyrst. Það sem eftir stendur, Blaðið/Fbl/Mbl, er nokkurn veginn sama tóbakið, fullt af gráum eintóna leiðindum og lítið fútt yfirleitt; Fbl og Blaðið dreift í hvert hús og mega því ekki vera annað en dönnuð (segja menn) og Mbl dannað frá fornu fari, nema það má skíta á stjórnmálafólk, eðlilega, og segja frá hrakförum útlendinga. Dannaða tímabilið er runnið upp. Það er ágætt. Ég er kominn á svo dannaðan aldur hvort eð er. Dannað eða bannað, þar liggur efinn.
---
Hlekkir dagsins eru í boði Tívolísins í Hveragerði. Gleði og fjör í skemmu.

Hvað ertu rík(ur)?

Svaka smart bjórauglýsing.
---
Ég lét hafa mig út í það að skrifa í kosningablað Heimdellinga. Nakinn Heimdellingur í sturtunni í World Class spurði hvort ég gæti ekki skrifað í blaðið og ég gat auðvitað ekki sagt annað en já, enda Heimdellingurinn með handklæði utan um sig. Afhverju haldiði að ég styðji Sjálfsstæðisflokkinn, sagði ég og reyndi að vera harður, en hann sagði að þetta væri bara svona allskonar fólk sem væri að skrifa í þetta blað. Svo ég skrifaði greinina X-Dr. Gunni.
---
Ég hef lært það að maður á alltaf að taka þátt í öllu sem fjölmiðlar biðja mann um. Ef blaðamaður hringir og biður mig um að velja eitthvað í dagskrárliðinn "helgin mín", "ómissandi" eða "spurt og svarað", er það vitlausasta sem maður gerir að segja nei. Seinna á maður náttúrlega hönk upp í bakið á þessu liði þegar maður þarf að fá plögg. Hrokafyllst er að fyllast frægðarþreytu og segja andvarpandi: Ah, ég er nú bara búinn að vera svo mikið í fjölmiðlun að ég er búinn að setja sjálfan mig í fjölmiðlabann.
---
Ég er náttúrlega stundum hinum megin borðins og veit að það getur verið ógeðslega leiðinlegt að eltast við eitthvað pakk og fá það til að koma með eitthvað hnyttið í dálkinn "helgin mín" eða "hvernig var?" Semsé: Alltaf að vera með.
---
Málefni sem ég nenni ekki hafa skoðun á eru m.a. nýja fjölmiðlafrumvarpið, lögin um Rúv, aðförin gegn Baugi og borgarstjórakosningarnar. Til helvítis með þetta allt! Aftur á móti vil ég að konurnar á elliheimilunum fái rífandi há laun og að komið verði upp gapastokk á Arnarhóli. Fyrstir í hann: Olíuforstjórarnir sem rændu þjóðina.
---
Ég ætla að drullast til að kaupa mér miða á The Stooges í dag.

24.04.06
Það bregst varla að þegar við Lufsan förum til útlanda þá hækkar gengið upp úr öllu valdi. Einu sinni vorum við í USA þegar helv dollar var 110 kall en núna vorum við í Skotlandi og helv pund fór í 140 kall. Tengdapabbi býr í Aberdeen og er þekktur fyrir sjávarútveg. Við vorum þar í mjög góða yfirlæti í viku. Brjálað að gera auðvitað. Eftir flugið til Glasgow fórum við í sædýrasafn í Edinborg sem er ekkert sérstakt. Þaðan til Aberdeen, þar sem fólk er áberandi ljótara og feitara en víða annars staðar. Genetík Breta er yfirhöfuð léleg og þegar svona norðarlega er komið versnar þetta bara. Það er ljóst að kerlingin með krákuandlitið, þarna Gillian You are what you eat, á mikið verk fyrir höndum því liðið þarna étur hveiti og smjör í flest mál og djúpsteikta fitu í eftirmat. Mikið étið af hveitihringjum í tómatsósu eða einhverju hvítu hveitiuppstúfi. Maður er náttúrlega búinn að taka sig hvílíkt á í átinu að maður tók eftir þessu. 
---
Ég las Draumalandið hans Andra Snæs á meðan ég var þarna. Nennti því alveg og kom gallharður náttúrukarl út úr þeirri lesningu. Áhrif mikil og helst þessi:

a. Langaði til að taka dag í að týna upp rusl í nágrenninu (nóg var nú af því, Skotar eru helv sóðar, jafnvel meiri en Íslendingar) en nennti því auðvitað ekki enda bara viku í Aberdeen.

b. Þeir sem bera ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun eru geðveikir landráðamenn og myndu rotna í helvíti til eilífðarnóns ef það væri eitthvað helvíti.

c. Andri Snær á að taka alla stjórn þjóðarinnar í sínar hendur og við lifum hamingjusöm það sem eftir er.
---
Mikið af ferðinni fór í að láta litla Lufsa sitja í ýmiskonar leikfangabílum:

Hann eipaði í tívolíunu og fór fyrir 20 Pund í bílahringekju. Fórum í Storybook Glen þar sem búið er að koma fyrir allskonar ævintýradóti á stóru svæði. Bíllinn hans póstsins Páls, Stubbarnir og fleira, allt frekar illa gert og ekkert ægilega líkt fyrirmyndinni. En Lufsi var nú aldeilis sáttur engu að síður. Ég tók eftirmiðdegi í að labba á hólinn Scolty sem ber við Banchory. Þar uppi er 20 M turn sem hægt var að labba upp:

Nánar í fjallarýninni. Smakkaði 3 nýja gosdrykki. Borðaði humar og töskukrabba sem tengdapabbi sauð lifandi. Fórum til Findhorn sem er íhugunar-eco-hippaþorp í nágrenni við Invernes. Þar voru áhugaverð íbúðarhús og allir í góðu hippa-tjilli. Eina sem raskaði rónni var stanslaus þotuniður frá herflugvelli í nágrenninu og sá grunur og etv væri þetta eitthvað vafasamt költ. Síðasta kvöldið fórum við á Morrissey sem var að spila í Aberdeen. Lufsan er hvílíkt fan. Sons and Daughters voru að hita upp. 2/2 skoskar stelpur/strákar = hljómar eins og mitt á milli Gun Club og Gang of Four. Ágætt, en dáldið alltaf sama lagið. Hjakk.

Morrisey var fínn, aðallega gaman að sjá Lufsuna glaða, sjálfur er ég hvorki Smiths né Morrisey fan. Hann tók 3 Smiths lög (How soon is now, Still ill, Girlfriend in a coma), restin sóló. Liðið var algjörlega með á nótunum og söng með í öllu. Hann var í gráum karlabuxum og í karlaskyrtu og dáldið skrýtin gaur. Einhver henti tyggjói á sviðið sem hann steig óvart í. Eitt lagið fór í að hann reyndi að ná því undan skónum. Endaði með að hann tók af sér ítalskar mokkasíurnar, setti þær á trommupallinn og rótari kom og fór í djobbið. Bandið lítur út eins og aukaleikarar í Sopranos. Allir í eins fötum (brúnum skyrtum, karlabuxum). Þeir stóðu sig mjög vel og þetta var gott gigg. 
---
Gott að koma heim. Er í launalausu leyfi frá DV til að sinna ritstörfum, söngleiknum ABBABAB aðallega (stefnan er frumsýning jan 2007). Fyrst þarf ég þó að henda í einn Popppunkts-þátt. Já, það verður einn auka Popppunktur á sunnudaginn næsta (30. apríl). Xfm og Rás 2 keppa og það verða eintómar spurningar um Manchester og nágrenni. Þetta er útaf Manchester gigginu 6. maí. Prómodæmi svona, vei!

16.04.06

Roger Ballen tók þessa mynd. Hann er svakalegur. Bræðurnir segja GLEÐILEGA PÁSKA!!!

15.04.06
Ray Davies var góður. Spilaði lengi og var hress. Gaman að heyra alla þessa Kinks snilld þarna í Háskólabíói. Dead End Street, I'm not like everybody else, Sunny afternoon... líklega hápunktarnir hvað mig varðar. Þreytt Lola með dejó-allir-syngja-með kafla og nýju lögin ekkert sérlega spennandi, en hva, gaman að þessu. Fullt hús og allir í stuði.
---
Jæja. Ég er skroppinn að heimsækja tengdapabba til Aberdeen. Enginn topp 5 á morgun og enginn topp 5 þann 23. apríl. Heldur enginn tónlistarþáttur á morgun (það hlustar enginn á útvarp á páskunum skilst mér) en alveg dúndurgóður tónlistarþáttur næsta sunnudag, 23. apríl. Vegna þessarar fjarveru kemur hér spikfeitur pakki:

10 bestu plötur í heimi
utan alfaraleiðar bestu platna í heimi listana:


10. Christmas - Ultraprophets of Thee Psykick Revolution (1989)
Amerískt rokkband sem ég vissi ekkert um þegar ég sá þau á tónleikum í CBGBs 1989. Varð svona líka hrifinn og keypti þessa plötu (þeirra önnur plata af þrem). Tveir aðal meðlimirnir Michael Cudahy og Liz Cox stofnuðu síðar Combustible Edison, sem var eitt aðal bandið í þessu lounge-dæmi sem gekk yfir á síðustu öld. En hér eru þau í góðu leit eitís rokkstuði, pre-Nirvana. 
* Christmas - This is not a test


9. Latvijas Gaaze - Saule saule spidi spozi (1999)
Ambient döbb frá Lettlandi. Þetta er mér svona minnisstætt því þegar Unun spilaði í Rígu vorum við keyrð eftir giggið í svarta myrkri og inn í einhverja blokk til að sofa. Er ég vaknaði voru lettnesku krakkarnir sem sáu um okkur að elda sér súpu og að hlusta á þetta á fullu blasti. Þetta er ein eftirminnilegasta "vöknun" lífs míns; tónlistin, súpulyktin og svo þegar ég leit út um gluggann og sá að við vorum í miðri sovét-blokka-sturlun (alveg eins blokkar í allar áttir út í hið óendanlega). 
* Latvijas Gaaze - Saule saule


8. Klaatu - 3:47 EST (1976)
Þegar þetta kom út var því látið leka út að hér væru Bítlarnir komnir saman aftur. Vakti þetta nokkra athygli í smá stund. Um var að ræða kanadískt band og þessi fína plata var þeirra fyrsta verk. Kannski er þessi plata frægust fyrir að innihalda "Calling occupants of interplan" sem Carpenters tóku síðar, en hún er engu að síður full af úrvalsgóðu sólskyns/70s/hippadjamm/pávar poppi. Tékk itt...
* Klaatu - California Jam


7. Big Dipper - Heavens (1987)
Skínandi gott power pop post punk frá Boston. Skínandi góð plata. 
* Big Dipper - All going out together


6. Millenium - Begin (1968)
Hinn þrælsamkynhneigði Curt Boettcher var mikill snillingur sem uppskar ekki eins og hann átti skilið. Millenium-bandið hans var hálfgert stúdíódæmi og platan Begin sú dýrasta sem Columbia útgáfan hafði gert þegar hún kom út. Hún floppaði biggtæm á sínum tíma en hefur lifað og er í dag talin til allra bestu sólskyns-popp-platnanna frá LA. Fyrir þá sem fíla Smælið hans Brian Wilsons er þessi plata skilduhlustun og sumt minnir líka á hljómsveitina Big Star. Úr sarpi Curts kom líka hljómsveitin Sagittarius og platan Present Tense árið áður (1967) og hún er líka möst.
* Millennium - The know it all


5. JJ Burnell - Euroman cometh (1979)
Sólóplata bassaleikarans í Stranglers. Skrítin og framtíðarleg, innísig og vélræn. Mér sýnist líklegt að Damon Albarn hafi hlustað á þessa plötu þegar hann samdi nýju Gorillaz plötuna, lagið Kids with guns minnir mig a.m.k. alltaf á fílinginn í plötu JJ.
* JJ Burnell - Euroman


4. Black Box Recorder - England made me (1999)
Luke Haines er náttúrlega algjör snillingur. The Auteurs er snilld, platan Baader Mainhof er geðveik snilld, en líklega toppaði meistarinn sig á þessari, fyrstu plötu Black Box Recorder. Dapurlegt meistaraverk um steríla barnæsku og sálrænar flækjur. Söngkonan Sarah Nixey er alveg að svínvirka. Luke hefur fráleitt uppskorið í samræmi við snilld. Kannski kemur það. Kannski ekki.
* Black Box Recorder - Girl singing in the wreckage


3. The Go-Bang's - TV Show (1989)
Þetta er fyrsta platan sem ég eignaðist með þessu japanska kvennatríói og ég varð húkkt á kartúnísku gleðipoppinu. Þessar stelpur voru hin illatennta Kaori Moriwaka, sem söng (og hefur gert sólóplötur eftir dauða Go Bangs 1994), hin risavaxna Mitsuko Saito á trommum og Misa Tanishima á bassa. Þetta er pönkað tyggjópopp og ég er ekki frá því að þetta hafi haft smá áhrif á Unun.
* The Go-Bang's - Lag númer 9 (Super shiny boyfriend?)


2. The Lighthouse Keepers - Tales of the Unexpected (1984)
Mögnuð popphljómsveit frá Sydney, Ástralíu, með hinni frábæru söngkonu Juliet Ward í fararbroddi. Flott hvernig þau vitna í hljómsveitina The Saints í laginu sem ég læt fylgja hér með. Frábært band, frábær plata, en enginn þekkir þetta utan nokkrir miðaldra rokkarar í Sydney.
* The Lighthouse Keepers - We've got a gig


1. Bikini - Hova lett... (1983)
Og þá erða besta plata í heimi utan hinna hefðbundnu bestu platna í heimi-lista, og ástæðan fyrir því að mér datt í hug að gera þennan lista. Bikini er ungverskt band og þessi plata kom út 1983. Aðalgaurinn var víst Feró Nagy sem var stjarna í ungverska pönkinu. Það sem gerir plötuna svona góða er hversu fjölbreytt hún er og yndislega öðruvísi eitthvað. Geysiþétt spilamennska, óskiljnalegir textar sungnir af þykkum Ungverja, hljóðeffektar, frábærar melódíur, óvæntar stefnur sem lögin taka... allt sullast þetta saman og gerir magnaða plötu. Ég átti þetta á kasettu lengi vel, hef líklega fengið hana í skiptum frá einhverjum austur-evrópubúanum fyrir hrun járntjaldsins (einhvers staðar er kannski fertugur Ungverji að dásama Purrk Pillnikk). Reddaði mér nýlega verkinu á stafrænu og það yljar mér enn.
Get ekki betur séð hér að hljómsveitin sé enn í fullu fjöri en ég er nokkuð viss um að aðrar plötur séu drasl, nema hugsanlega næsta plata á eftir þessari. Ég fékk allavega plötu frá 1987 sem var algjört rusl og hef ekki athugað þetta mál betur. 
* Bikini - Nem leszek sohasem

13.04.06
Þá er það komið á hreint: Góðærið er búið. Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Íslands segir að komið sé að endalokum góðu áranna í íslensku efnahagslífi. Kaupmáttur almennings í landinu muni minnka næstu mánuði. Verðbólga hefur ekki verið meiri á Íslandi í fjögur ár, segir Rúv. Hér er mynd af Tryggva:

Hann var einu sinni upptökumaður í Mjöt stúdíó og var eitthvað að flækjast þar þegar S.H.Draumur tók upp 10 tommuna Bensín skrímslið skríður. Held hann hafi þó ekkert verið á tökkunum, heldur var það Kjartan Kjartansson. Ég man að Kjartan heimtaði að fá pítu til viðbótar við það sem við borguðum honum, sem mér fannst helvítis frekja en lét engu að síður undan. En allavega, Tryggvi góðærisbani. Ég man greinilega eftir því að ég og Haukur trommari hittum hann á BSÍ (höfum líklega verið að hengja þar upp plaggöt) og þá bað Tryggvi okkur um að skutla sér eitthvað. Haukur vissi ekkert hver þetta var og spurði mig: Afhverju eigum við að skutla þessum róna eitthvað? Þetta er ekkert róni maður, þetta er upptökumaður í Mjöt!, segi ég og við skutluðum honum eitthvað. Svo hvarf Tryggvi í nokkur ár og mætti svo aftur sem aðalhagfæðingur landsins. En hann gæti víst alveg eins spáð í telauf, skilst mér á Agli Helgasyni alfræðingi.
---
En semsé krakkar, góðærið er búið. Dollari og bensínverð í geðveiki og allt í rugli. Skilið því pallbílunum og flatsjánum og kaupið ykkur grænakortið. Nú kemur kannski eitthvað gott kreppupönk.

12.04.06
Ég hef verið neyddur til að keppa fyrir DV hönd í spurningakeppni fjölmiðlanna sem hefst kl. 13 á morgun á Rás 2. Ég treysti á að félagi minn í liðinu, Arnór í próförkinni, viti eitthvað í sinn haus því annars verður þetta opinber niðurlæging... 

09.04.06
Það er eftir engu að bíða. Það er blíða. Og hér: Topp 5!


The Soviettes - Paranoia cha cha cha: Nútímapönk frá Minneapolis, af 3ju plötunni The Soviettes III.


Be your own pet - Fuuuuuun: Meira nútímapönk, nú frá Nashville. Krakkar. Af 1stu plötunni. Var að koma út.


Seawhores - Sweaty men, attack: Eðalskítur, enn frá Minneapolis. Taktfast skítahávaðapönk. Af 1stu plötunni Forest. Sæhórur eru að gera góða hluti.


Loose fur - Hey chicken: Seventísið er nýja sixtísið. Lausi pelsinn er Tvíddí þarna úr Wilco og O'Rourke. Af plötu 2, Born again in the USA.


Young and sexy - Conventional lullabies: Næpuhúfuindí frá Kanada. Glimrandi. Af 3ju plötu sveitarinnar, Panic When You Find It.
---
Ég vil svo vekja athygli sjófaranda á lögum Pönkbandsins Fjölnis sem má nálgast hér og hljómsveitunum Poni Hoax (franskt og frakt) og Gnarls Barkley (soul nútímans).

Í dag kl 14 - Tónlistarþátturinn á XFM! Og kl. 22 á sömu stöð: Karate, nú í umsjón Óskars Péturs.

07.04.06
Vá æðislegt... komin Idolstjarna sem lítur út eins og Stebbi Hilmars og syngur eins og Kalli Bjarni. 

05.04.06
Spænskur félagi, MIGUEL ANGEL MARTIN, er nú með sýningu í ítölsku galleríi. Hann teiknaði Bless-Gums umslagið og plaggat innan í Goð með S/H Draumi. Onlæn má sjá stöffið hans + fullt af öðrum góðum.
---
Gamli geðveiki Daniel Johnston er nú á leið upp stjörnuhiminn enda búið að gera margverðlaunaða heimildamynd um hann. Það má enn kaupa myndir eftir meistarann en verðin á þeim fara hríðhækkandi.
---
Fyrsti drykkurinn til að fá núll stjörnu í hinni geysivinsælu gos-gagnrýni hefur litið dagsins ljós. Núll stjörnu fá aðeins drykkir sem ég get ekki klárað.
---
Formið og innihaldið 
Ekki dettur mér í hug að skrifa um tónlist, af því að ég hef ekki vit á henni. En dr. Gunna dettur í hug að skrifa ítrekað um matargerðarlist, þótt hann sé þar greinilega úti að aka. Hann er hrifinn af sushi á efri hæði Iðu, þótt þar aki réttirnir á færibandi um borðið, hring eftir hring, klukkustund eftir klukkustund. Hins vegar er eðli sushi, að það er ekki búið til fyrr en eftir pöntun. Dr. Gunni hrífst af forminu, en skilur ekki innihaldið. Hann getur fengið gott sushi í næstu götu, á Maru í Aðalstræti, þar sem sushi er alltaf búið til eftir pöntun. Prófaðu silungshrognin, skrifar Jónas Kristjánsson á heimasíðu sinni. Þetta er auðvitað hárrétt athugað hjá meistaranum enda hef ég aldrei gefið mig út fyrir að hafa "vit á" einhverju þótt ég viti stundum hvað mér finnst gott og hvað vont. Það að hafa "vit á" einhverju er auðvitað stórlega ofmetið fyrirbæri eins og sést bersýnilega á ríkisstjórn Íslands og almennu ástandi heimsins. Annars væri auðvitað frábært að sjá Jónas skrifa um tónlist. Prófaðu lagið "Sweaty men, attack" með Seawhores (væntanlegt topp 5 lag).
---
Ég hef þó etið á Maru og m.a.s. silungahrognin og fann ekki fyrir teljandi ferskleikamun enda er svo mikið étið af Iðu-færibandinu að réttirnir ná aldrei að snúast þar tímunum saman. 
---
Hallgrímur Helgason er að semja diskó/pönk-söngleik, en núningur diskófríka/pönkara í kringum 1980 er vitaskuld upplagður í söngleik. Ég benti á þetta hér í blogginu fyrir nokkru. Hallgrímur var að væflast á DV í dag en þvertók fyrir það að hafa fengið hugmyndina hér, sagði reyndar að sér hefði verið bent á bloggið seinna. É ræt. Nei ég segi svona..
---
Annars er helvítis luðra í manni í þessu foki og fokki. Þeyttumst feðgar um allan bæ að leita að millistykki í heddfónsnúru áðan. Hún fannst í fjórðu búðinni, HljóðX, en þar fæst líka sápukúluvél á 9500 kr. Þá veistu það.

02.04.06
Topp fimm er ekkert krapp:


Mammút - Ekki sofa núna: Platan er komin út og heitir Mammút. Hún er í meltingu as ví spík og lofar góðu.


Sinpare - Jina langu: Hipp hopp frá Kenýa. Sjaldan hefur langdregið ba-rrrrrrrrrrrr-e hljómað eins vel.


Sci-Fi Skane - Känslan Av Att Jorden Krymper, Växer: Titillag af fyrstu plötu þessa sænska dúetts. Þetta eru söngvari og hljómborðsleikari þeirrar á köflum æðisgengnu sveitar Bob Hund.


About - Think Niles drink: About er Rutger Hoedemaekers, Hollendingur, sem gefur út hjá hinu blóðmikla fyrirtæki Cock rock disco. Klippt og skorið hávaðapopp.


Echo & The Bunnymen - Pictures on my wall: Sá þá í Höllinni 1983. Eina sem ég man eftir því var að Trausti reif í sundur franskan 10 franka seðil sem ég var með í vasanum og sýndi honum. Ég hef örugglega límt hann saman síðar. Nú er bandið skráð til leiks í Höllinni 6. maí ásamt Badly Drawn Boy og fleira sælgæti á Madchester giggi aldarinnar! Þetta er aftur á móti fyrsti singull, frá 1979.

01.04.06
Sit hér á stuttbuxum og hlusta á sigursveit MT í ár, The Foreign  Monkeys heita þeir og eru frá Vestmannaeyjum. Fyrsta sigurbandið þaðan, held ég. Ljómandi hressandi Nirvana/Botnleðju-skröggrokk. #2 voru Ultra Mega Technobandið Stefán og #3 We Made God. Til hamingju!

---
Hér er jan, feb, mars 2006