ER EITTHVAÐ AÐ GERAST?

31.03.02
Vaknaði upp af mjög furðulegum draumi. Var staddur í portinu á milli Lækjarbrekku og kortabúðar MM, en þar var Davíð Oddson með sýningu á nýjustu stuttmynd sinni. Nú dofnuðu ljósin (hvernig var það hægt úti?) og titil stuttmyndar Davíðs birtist á skjánum: SHIT. Miðaldariddarar með yfirvaraskegg riðu um á hestum. Skyndilega nærmynd af einum; hann reis úr söðli, beindi beru rassgatinu að myndavélinni og skeit þessum líka glansandi lorti. Slómó þegar drullan kreistist út með viðeigandi hljóðum. Hér vaknaði ég með andfælum og missti af restinni af stuttmynd Davíðs Oddsonar: SHIT.
---
Kom 3svar fyrir í II hluta heimildarmyndar um Gubba. Reyndist þokkalega gáfulegur.
---
Fékk símhringingu kl. 9:20 - "Halló, þetta er Soffía kærasta Stjána Stuð". Hún bókaði mig í viðtal hjá Hr. Stuð á morgun (2 í páskum) kl. 12:30. Mig hlakkar til!
---
Nú ætla ég að horfa á Raiders of the lost ark, en sú mynd er tekin að hluta á Kauai-eyju. Þangað fer ég í honnímún í september. Vú hú!

29.03.02
Í innhverfri sjálfselsku byrja ég daginn á að hlusta á Unun flytja lagið "Föstudagurinn langi" af "æ" (1994). Textinn lýsir sönnum atburðum úr lífi mínu þegar ég var týndur og í ömurlegu sambandi. Lagið fellur í hóp "daga"-laga, sbr. "Hæ hó jibbí jei það er kominn 17 júní" og öll jólalögin. Enn eru margir dagir ónotaðir vilji menn semja daga-lag. Eftir á að hyggja er ég ekki frá því að "Síðasta sýning" sé skásta lagið á þessari plötu. A.m.k. það sem ég hef fengið minnst leið á.
---
Horfði með athygli á fyrri hluta þáttar um eitt af furðum veraldar, Guðberg Bergsson. Eftir því sem fleiri hágöfugir viðmælendur birtust og voru gáfulegir kveið mér meir fyrir að ég kæmi og yrði eins og fáviti, sem gæti ekki talað með bókmenntasögulegum áherslum. Steinnunn fór t.d. næstum því að grenja af því Guðbergur er svo æðislegur. Loksins kom ég og var svo sem ekkert eins og fáviti, þó ég væri langt í frá eins gáfulegur og ég hefði viljað vera. Seinni hluti af þessum fínu þáttum sem djassgeggjarinn Tómas R hefur af vandvirkni og yfirlegu sett saman um Gubba djöful er í kvöld. Mér er auðvitað strax farið að kvíða því þegar fávitinn ég kemur á skjáinn og verður eins og fífl innan um alla öldnu vitringana.
---
Ég veit ekki um þig, en ég vildi ekki hafa þetta skeggjaða frík hangandi 
yfir mér allan daginn! Gleðilegan föstudaginn langa!

28.03.02
(Nördatíðindi:) Var orðinn dauðþreyttur á browserunum Internet Explorer og Netscape svo ég náði mér í Opera 6.1, sem þeir kalla "the fastest browser in da world". Ég er ekki frá því að þetta sé rétt, a.m.k. hefur browserinn verið sem draumur í dós hingað til.
---
Var í fatabúð með mömmu. Þá kom Mike Tyson og sagðist kunna vel við mig. Hann lét mig hafa símanúmerið sitt og bauð mér út að éta, mamma mætti alveg koma líka. Á leiðinni út sagði hann við afgreiðslukonuna að ég mætti fá mér hvaða kjól sem er í búðinni og auðvitað valdi ég dýrasta kjólinn, rauðann úr 90% frotte og 10% velúr. Seinna hringdi ég í strákgreyið og hann var alveg yndislegur. Samt vildi ég ekki fara út að éta með honum. Já, ég er tík. 

26.03.02
11 leikarar sem ég hef óbeit á:
* Liv Ullman = gamla grenjuskjóða
* Eric Stoltz = rauðhærða fífl
Takeshi "Beat" Kitano = jafn óþolandi sem hörkutól eða fáviti
* Freddie Prinze Jr. = með sín súkkulaðihundsaugu
* Robin Williams = Hr. Vemmilegur
* Tom Green = hvaða fávitum finnst þessi fáviti fyndinn?
* Denise Richards = leikur alltaf tík
* Lucy Liu = frosin
* John Travolta = fallinn
* Andie MacDowell = væmin
* Ben Affleck = vemmilegi bjáni

24.03.02
Það var hreinlega allt að gerast um helgina. Snilldarhljómsveitin Búdrýgindi tóku Músiktilraunir með trompi. Ekki eru allir á eitt sættir og því eru grenjandi tapsárir vælukjóar með stólpakjaft á hugi.is. Meistari Árni Matt hefur ekki undan að verjast skítkastinu. Áfram Árni!
Í söngkeppni framhaldsskólanna sigraði hið stórkostlega Sheepriverhook tríó frá Sauðárkróki og var vel að sigrinum komið. Þessar frjálslegu sveitastúlkur sigruðu með grípandi og fagmannlegu stuðlagi sem mun eflaust taka við Færingunum í Tý sem aðallagið á Rás 2. Áfram stelpur!
MR vann að vanda í Gettu betur - 10unda árið í röð. Hvað getur maður sagt? MR-ingarnir eru með stærstu límheilana og leggja greinilega mestu áhersluna á þessa keppni af skólunum. Kjaftasögurnar segja jafnvel að byrjað sé að þjálfa stráka í 10. bekk til að fara í liðið. 
Að auki sigraði einhver beinasleggja í ungfrú Ísland punktur iss en hverjum er ekki nett sama um það innantóma og mannskemmandi hjóm.

21.03.02
Ég held það sé auðveldara að ég labbi bara niðrá Skattstofu. Hinir sveittu pungar skattsins senda manni óskiljanleg hótunarbréf og svo þegar maður hringir til að fá úskýringar þarf maður að hlusta á Boston Pops flytja heildarverk Bítlanna. Nú hef ég beðið í 20 mín....... en nú hef ég lagt á.

Og þá er ég kominn heim aftur. Beið á skattstofunni með óskiljanlega hótunarbréfið og beið eftir að fá svar við grundvallarspurningunum Hvað skulda ég mikið (það voru nokkrar tölur gefnar upp) og á hvaða reikning á ég borga (gefin voru upp 20 reikningsnúmer). Tíminn leið og ekkert gerðist. Fólk boraði í nefið og eini starfsmaðurinn í afgreiðslunni var á þönum. Mér leið sífellt meira eins og ég væri kominn til helvítis. Þá gekk Sverrir Stormsker álkulegur í hús og ég varð alveg viss um að þetta væri helvíti. Ég hraðaði mér í burtu. Ætli ég reyni ekki að skella mér á Boston Pops eldsnemma í fyrramálið.

20.03.02
Keypti mér tónlistarblaðið Wire (þetta með Kim Gordon utan á). Tvær athyglisverðar "stefnur" voru reifaðar. Önnur er samfélag fólk sem leikur sér við að blanda saman ólíkum lögum í ný - "creative bootlegging" erða kallað. Nokkuð sniðugt, en dæmt til að verða þreytt fljótlega. Þetta er línkur. Hin "stefnan" byggist einnig á tækni, en nú eru til tvö forrit fyrir Gameboy-tölvur til að semja mússik. Það er smá sena í kringum það fyrirbæri, nokkrar "hljómsveitir" og svona. Einnig sniðugt en dæmt til að úreldast fljótt eða þróast áfram. Þetta er línkur fyrir Little Sound dj forritið, þetta er línkur fyrir Nanoloop forritið. Báðar síðurnar línka yfir í Gameboy-hljómsveitir.

19.03.02

Margir ferskir möguleikir byðust ef dýr kynnu að tala. Ég vildi gjarnan tala við eitthvað hresst dýr, t.d. einn af þessum hröfnum sem er farið að fjölga gífurlega í borginni. Maður fer varla út án þess að sjá hrafn - oft einhvern með læti á staur (hvað eru þeir að gera - æla?) Ég held dýr hefðu frá mörgu að segja. Ég myndi meira að segja nenna að horfa á Innlit/útlit ef Vala Matt færi í heimsókn til dýra. 
Vala: Fyrst förum við í heimsókn til hamstursins Palla, sem býr í búri á Sólvallagötu. Jæja Palli, þú ert búinn að koma þér ægilega vel fyrir hérna.
Palli: Já, takk. Hér er ég með smá plasthús sem ég dró hálm inn í. Hér ligg ég allan daginn og kjammsa á því sem ég er búinn að hamstra yfir daginn.
Vala: Æðislegt.
Palli: Nú og hérna sérðu hlaupahjólið. Ég er hálf eirðarlaus og er búinn að naga það allt í sundur. Ég hleyp á því alla nóttina og það eru svo mikil læti í mér að ég er fluttur niður í stofu áður en fólkið fer að stofu.
Vala: Æðislegt.
Og svo framvegis...
---
Sigurgrjóni á Radíó X tók þessa frábæru síðu í blogg dagsins áðan og var vitaskuld yfir sig hrifinn. Var þó eitthvað að böggast á mig fyrir að vera of jákvæður í garð Sálarinnar og Gísla Marteins og einhvers svona formally known as glatað. Ég játa fúslega að það eru mun minni töggur í mér en honum í heilbrigðri og nauðsynlegri gagnrýni. Ég verð t.d. alltaf svo jákvæður ef ég er búinn að hitta einhvern eða vinna með honum eða eitthvað. Ég hefði t.d. örugglega orðið mjög hrifinn af Hitler ef hann hefði heilsað mér út á götu. Svona er ég veiklaður.
---
Ég man vel eftir manninum sem gaf öryrkjum 60.000.000 kr. Sniglaðist um bæinn eins og Jóhann Sigmarsson í slow motion. Fólk má auðvitað gera það sem það vill í lífinu og eyða aurunum sínum í hvað sem það vill, en ef ég hefði verið hann hefðu öryrkjar ekki fengið krónu. Ég hefði eytt þessu öllu í ferðalög, gleðikonur, mat og bílpróf. En, margblessuð sé minning Óla rukk. Hann er örugglega sáttur hvar sem hann er. 

17.03.02

Mikið líst mér illa á þessa konu sem er nýji ísrealíski sendiherrann á Íslandi. Það skín nú ekki beint hamingjan og lífsgleðin út úr stálgráu póker-andlitinu. "Nei, nei, það eru ekkert nema skæruliðar og vígamenn sem eru í sjúkrabílum, þess vegna skjótum við á þá" - gimmí a breik.
---
Mogganum finnst framferði Ísraela ekkert svo ömurlegt. Þeir taka oft málstað þeirrar óþverra ríkisstjórnar sem þar ríkir (Sharon mun enda fyrir mannréttindadómstóli - mark my words). Eins og t.d. þegar blaðið sagði frá mótmælunum framan við Hótel Sögu (eða Grand hótel?). Af öllu fólkinu sem mætti fannst Mbl upplagðast að birta mynd af hinum ringlaða Ástþóri Magnússyni, svona til að mata lesendur sína með þeirri "staðreynd" að þessir mótmælendur séu nú allir hálf ruglað lið. Með fullri virðingu fyrir Friði 2000 þá held ég að Ástþór geri meira gagn fyrir málstaðinn að halda sig heima næst - a.m.k. að fela sig þegar hann sér myndavélar.
---
Rakst á nokkuð flókna en athyglisverða grein um framtíð tónlistar eftir Kevin Kelly í NYTimes. Tékk it hér.

16.03.02

Er ekki Internetið snilld? Ég var fremur skeptískur á hugmyndina um internet-pool til að byrja með en svo lét ég til leiðast og tók nokkra leiki við Birgi Baldurs. Hann á Hverfisgötu, ég í Vesturbænum, en báðir í net-pool. Auðvitað varð ég húkkt. Áðan var ég að spila við einhvern sem kallaði sig Asmiterrorist og sagðist vera frá Karachi í Pakistan. Ég hef samt þá reglu að ég má ekki fara í nema 3 leiki á dag - þetta er svoddan hrikaleg tímaeyðsla! Áhugasömum (með ADSL) er bent á að tékka á þessu á Yahoo / Games / Pool. Ég endurtek: Snilld!
---
Kosningar smosningar. Ég hef útbúið rokk-skala á flokkana sem hér segir:

XD - SJALLAR

1. Björn Bjarnason:
Björn hefur sýnt fálæti og leiðindi í garð rokksins og ekki gert neitt fyrir það í 8 ár. Í staðinn hefur hann mokað undir konuna sína, Rut Ingólfsdóttur, innsta kopps í búri Kammersveitar Reykjavíkur. Björn fílar ekki rokk, en fílar hasarmyndir, svo hann er ekki alveg glataður. 
-8 rokkstig

2. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur fílar ekki rokk, það sést nú bara á honum. Hans uppáhald er auðvitað nafni hans, sérstaklega lagið "Bíddu pabbi". 
-4 rokkstig

3. Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Illa kynnt. Ekki með.

4. Hanna Birna Kristjánsdóttir
Fýluleg létt fm-dama með allt á hornum sér. Gæti þó fílað Rammstein og menn með leðurgrímur. 
-2 stig

5. Guðlaugur Þór Þórðarson
Kaffibarshangsari. Etv hefur eitthvað slæðst með í hausinn á honum þaðan. Fílar þungarokk í kynlífinu, en Celine Dion er þó í mestum metum.
+2 stig

6. Kjartan Magnússon
Á bróður sem fílar þungarokk og gæti því hafað spillst. Samt væminn og taugaveiklaður náungi sem fílar nýaldartónlist best.
-1 stig

7. Gísli Marteinn Baldursson
A-ha! Eini poppari sjallanna. Stuðmannaaðdáandi og kann vel við allt sem íslenskt er. Topp gaur í glötuðum félagsskap.
+8 stig

8. Inga Jóna Þórðardóttir
Hlustar á Létt fm til að slappa af en er sérstök áhugamanneskja um týrólamúsik.
-6 stig

XD - SJALLAR: -11 rokkstig samtals
 

XR - ERR

1. Árni Þór Sigurðsson
Hætti að hlusta á rokktónlist 1985. Hafði mest gaman að þungt og þróað hljómsveitum á borð við Yes og Genesis, en hefur nú fært sig alfarið að klassík.
-4 stig

2. Alfreð Þorsteinsson
Það jafnast ekkert á við harmóníkuna, segir Alfreð og dregur augað enn lengra í pung
-10 stig

3. Stefán Jón Hafstein
Eini maðurinn með viti þegar Rás 2 fór í loftið og hafði þar áður verið með frískandi næturútvarp á Gufunni. Kannski ekki enn með puttann á púlsinum, en lengi lifir í gömlum glæðum.
+7 stig

4. Steinunn V. Óskarsdóttir
Bob Dylan, Tom Waits og Leonard Cohen týpan. 
+1 stig

5. Anna Kristinsdóttir
6. Björk Vilhelmsdóttir
Illa kynntar - ekki með.

7. Dagur B. Eggertsson
Er of "vandaður maður" til að geta hugsanlega fílað annað en gáfumannapopp. Prefab Sprout er í sérstöku uppáhaldi.
+3 stig

8. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Setur gamla hipparokkið og mussupopp Spilverksins oft á fóninn og tjúttar við Pops. Er of upptekinn af leiðinlega djobbinu sínu til að hlusta mikið á nýtt stöff, en hefur lúmskt gaman af Rottwæler - hún skilur a.m.k. af hverju þeir eru svona vinsælir.
+2 stig 

XR - ERR: -1 rokkstig samtals

Þar hefurðu vísindalega niðurstöðu, hvorugum flokknum tekst að komast í rokkplús. Þitt er valið!

13.03.02
Ég vil minna á útvarpsþáttinn Alætuna á Rás 2 annaðkveld (fimmtud. kl. 22:10-00:00). Þátturinn, sem unnið hefur sér sess í hugum tónlistaráhugafólks sem einn af sjö merkilegustu útvarpsþáttunum á Íslandi í dag, verður að vanda í góðu lagi.
Helst ber til tíðinda að um kl. 23 mætir rafvirkinn Kippi Kanínus með óskalög. Kippi gaf í fyrra út hina gríðarlega eigulegu frumsmíð Í SÍÐDEGISKAFFINU SÍGILD HLJÓMLIST, sem fæst í 12 tónum. 
Kynntar verða fimm LP-plötur sem þáttarstjórnandi keypti á kr. 500 samtals í húsgagnabúðinni EINURÐ á Akureyri (notað rusl). Til að halda spennu verður hér ekki gert opinbert hvaða plötur þetta eru.
Einnig verður spiluð gæðatónlist með Beige, Sýrop, Birgitte Bardot og Gissuri Birni Eiríkssyni svo eitthvað sé nefnt. Hér er hugsanlega um frumflutning á verki eftur Gissur að ræða í ísl. útvarpi, en hann er gríðarefnilegur jaðarlistamaður með aðsetur þjónustuíbúð í Hátúni. "Hamfarir" Gunnar heitins Jökuls verða sem Tubular Bells (I OG II!!!) við hliðina á verkum Gissurar.
Góða skemmtun.

12.03.02
Gífurlegrar hnignunar gætir nú í grínmenningu Íslands. Ekki er nóg með að Tvíhöfði sé hættur og engar blikur á lofti með nýja Fóstbræðraseríu, heldur berast þær fréttir að Spaugstofan eigi að byrja aftur á Rúv. Æi æi æ. Með fullri viðringu, þessi stofa var fersk fyrir 10 árum eða eitthvað þegar Ragnar og Kristján mættu fyrst á skjáinn, en nú fær maður bara þunglyndiskast á að hugsa til revíusöngleikjanna og rónagrínsins sem bíður manns.
---
Gleymdi í Akureyrar-pistli mínum að minnast á frægt lókal djönkfúdd: Brynjuísinn var þrumugóður að vanda, en djúpsteikt pulsa með frönskum kartöflum, hamborgarasósu, bræddum osti og kartöflukryddi var ekkert spes. Konunni fannst þessi blanda þó alveg stórkostleg. 

11.03.02
"Dr. Gunni er mun skemmtilegri penni enn tónlistarmaður..." stendur á Tilverunni í línk hingað. Hvaða vatnshaus sér um þessa Tilveru spyr ég nú bara. 
Ég var á Akureyri og komst í feitt í búðinni Einurð, Fjölnisgötu 6, eins og hlustendur á næstu Alætu munu heyra á fimmtudaginn. Þar ætla ég að spila lög af þeim 5 notuðu vinílplötum sem ég keypti í Einurð, sem selur auk þess gömul húsgögn og allskonar drasl. Maður er frekar fljótur að klára það sem blessaður höfuðstaður Norðurlands hefur upp á að bjóða - eftir 2 daga er maður búinn með þetta. Við átum á Greifanum, fórum í Hjálpræðisherinn, Einurð, notuðu bókabúðina Fróða, kaffihúsin Karólínu og Bláu könnuna, löbbuðum niður göngugötuna, kíktum í Amaro og nýja mallið, fórum upp á skíðabrekku, keyrðum út í jólahús (sem var lokað vegna vatnsskemmda en mun opna aftur eftir sirka 2 vikur) og að kirkjustaðnum Grund. Einnig talaði ég við Rögnvald "gáfaða" og vin hans (Klængur?) og ég bókaði mitt fyrsta gigg í mörg ár í Listagilinu á Listahátíð Akureyrar hinn 13. júlí. Þar mun ég koma fram ásamt hljómsveit.
 Akureyri er samt ægilega krúttlegur bær og Eyjafjörður er fegurstur fjarða. Ég get vel hugsað mér að búa þarna einhvern tímann.

07.03.02

Umhverfisráðherra Finnlands, Satu Hassi (50), kom nakin fram á dögunum. Mér þætti gaman að sjá Siv leika þetta eftir. Kannski ekki "gaman", því nógu er hún ógnvekjandi í fötum.
 Sumar alþingiskonur eiga nebblilega miklu betur heima í leðri og með svipu.

TOPP 5 LEÐUR-ALÞINGISKONUR:
01 Valgerður Sverrisdóttir
02 Þorgerður K Gunnarsdóttir
03 Þórunn Sveinbjarnardóttir
04 Siv Friðleifsdóttir
05 Jónína Bjartmarz

bubblandi undir: Sólveig Pétursdóttir 

...oooooh, sláðu mig, ég er bú'nað vera vondur.
---
Margir eru fúlir vegna bókar minnar Eru ekki allir í stuði? Aðallega eru þetta popparar sem finnst slæmt að ég skyldi ekki tala meira um þá, en svo finnst öðrum ég hafa verið full harkalegur í lýsingum mínum á þeim. Íslenska fámennið gerir það auðvitað að verkum að það er á mörkunum að það sé hægt að skrifa jafn opinskáa bók og mína. Glætan að Paul MacCartney eða Mick Jagger færu að skammast yfir þeim smámunum sem fljóta upp í bókinni minni. 
En jæja, Sigurður Kr. Sigurðsson sem söng m.a. með Eik og á hinni frábæru hljómplötu Íslensk kjötsúpa, hringdi í mig í gær og var síður en svo hress yfir að ég skyldi nefna hann Sigga "Píku" í bókinni. Hann kannaðist ekkert við það viðurnefni, en Siggi "Sæti" eða Siggi "Súpa" sagði hann að hefðu verið notuð. Ég vil því nota tækifærið og biðja Sigga afsökunar á að hafa kallað hann þessu viðurnefni, sem ég hélt í fávisku minni að hefði loðað við hann. Mér finnst þetta viðurnefni - "Píka" - þó ekkert skammaryrði heldur beinlínis hól og á undan sinni samtíð, sbr. vinsældir Píkusagna í dag.
Siggi er síður en svo einhver píka heldur einn af krafmeiri söngvurum landsins og ég vona að endurkoma hans í poppið sé framundan, nú þegar þetta viðurnefnamál er komið á hreint.

02.03.02
Ég er enginn sérstakur áhugamaður um samsæriskenningar, en þetta finnst mér mjög dularfullt.
Ég mæli annars með mjög flottri ljósmyndasýningu Guðmundar Ingólfssonar í Grófarsal (efst í Bókasafni Rvk). Hún stendur til 24. mars. Fullt af sirka 15 ára gamalli nostalgíu, sjoppum í Reykjavík og mjög íslenskum landslagsljósmyndum. Einhvern veginn meiri "sannleikur" í þessum myndum en þessum venjulegu rjómasúpumyndum af Íslandi.

01.03.02
Jæja, þetta var þá satt og 2höfði er allur. Kannski það besta í stöðinni; Nonnó orðinn hundleiður á þessu en Sigurjón vill meira - ætlar að halda áfram. Vonandi verður þetta ekki sama sindrómið og þegar Ham hætti. Ekki það að Olympía hafi verið svona leiðinleg hljómsveit - ágætt band og allt það - það hafði bara alls ekki sama slagkraft og Ham. Bíðum og sjáum og vonum það besta. Það er ótækt að maður hafi ekkert almennilegt í eyrunum á morgnanna. Maður verður kannski bara að fara að hlusta á eitthvað í útlöndum í gegnum Netið?

28.02.02
Tvíhöfði er hættur - segja pungsvitaritin Nulleinn og Undirtónar. Djísús kræst! Hvað á maður þá að hlusta á á morgnanna? Ótalandi vitleysinga að bulla milli þess sem pleilistatölvan slefar út úr sér endurteknum leiðindum? Nei nei nei. Nú getur maður sleppt því að opna útvarp fyrr en Óli Palli fer í loftið á Rás 2. Ef þessi frétt um lát Tvíhöfða reynist rétt fer ég nú bara að gráta. Bú hú.
Ég minnti Stebba Fræfil á að mæta í Alætuna í kvöld. "Mig hefur alltaf langað til að vera með 300 punda homma í búri," sagði Stebbi og átti þá við útvarpsbúrið og mig (sem er þó hvorki hommi né 300 pund). Þetta ætti að verða gott viðtal!
Dadda-ra... Myndu 1.000.000 kr aukalega á mánuði í þrjú ár breyta einhverju? Ég endurtek: á mánuði. Starfslokasamningar Sjálfsstæðisflokksins - X-D borgar sig.

27.02.02
Ég hef aldrei lesið bók eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Einu sinni byrjaði ég á fyrstu bókinni hans, Níu lyklar, en gafst snarlega upp. Maðurinn lítur út fyrir að vera leiðindapúki og ég hef ekki séð eða heyrt neitt af honum sem gefur annað í skyn. Ef Ólafur ynni í öskunni og skrifaði þessar leiðinlegu bækur sínar myndu fáir nenna að lesa þær - ef svo ólíklega vildi til að þær væru gefnar út. En Óli vinnur ekki í öskunni heldur er hann einhver voða ríkur bla bla Sony bla bla Michael Jackson bla bla - með 5.000.000 + á mánuði og eitthvað. Þess vegna er hann metsöluhöfundur á Íslandi. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að allir sem höfðu gaman að síðustu bókinni hans séu hálfvitar - þó vissulega sé það freistandi - en bendi þeim á að lesa dóm sem Sniglaveislan hans Ólafs fékk í útlöndum. 
Í þætti mínum, ALÆTAN, annað kveld verður að öllum líkindum leikin tónlist með listamanninum Hr Múzak og hljómsveitinni Ég. Einnig lettneskt döbb, japanskt raf o.fl. Í "Óskalög trommara" mætir sjálfur meistari Stefán K Guðjónsson, trommari Fræbbblanna, segir frá pönkinu og velur að sjálfssögðu óskalög. Ég myndi ekki missa af þessum þætti!

25.02.02
Fór á ball með harmóníkuleikaranum Steina Spil. Fór í hringdans og hélt utan um kerlingar. Svo tóku kerlingar í stuði völdin, ráku Steina niður af pallinum og settu Abba á fóninn. Ég reyndi að fara á fyllirí en mistókst hrapalega. Er greinilega búinn með þann "pakka". Feginn er ég.

22.02.02
Mér finnst kominn tími til að gapastokkar verði teknir aftur í notkun. Það mætti t.d. stilla þeim upp í Austurstræti og lögreglan mætti vera á vakt til að hindra æstan múginn í að sparka í rassgöt.

21.02.02
Birgir Baldursson trommaraséní úr S.H.Draum, Bless og Sálinni etc. ræðst fram á fúnum síðum MBL í dag og dissar kristnina og einhvern Jón Dalbú prest. Gott hjá honum! Tékk itt.
Að panta pítsu er eins og að fara í rússneska rúllettu. Í gær pantaði ég hjá kúkakompaníinu Pizzahöllin og var lofað ilvolgri pítsu eftir 45 mín. Eftir 90 mínútur kom svo pítsan, skítköld, helmingurinn af henni fastur í lokinu og þar að auki vitlaus pítsa! Æðisleg þjónusta! Ég æsti mig við eitthvað krakkagrey á vakt, sem hefur líklega snýtt sér á pítsu nr 2 sem kom 45 mín síðar - eða 135 mín eftir að pantað var - amk smakkaðist pítsan þannig. Þetta var reyndar gráðaostapítsa. Það skipti auðvitað engu máli því ég var orðinn svo glorhungraður. Pizzahöllin fer nú í flokk með Dominos (sjá betur í veitingahúsagagnrýni) á boycott listanum.

20.02.02
Bjánar notuðu orðin "mannlegur harmleikur" þegar upp komst um Árna fokking Johnsen í fyrra. Firra! Mannlegur harmleikur er þetta morð á Víðimelnum. Það er hins vegar kjaftæði að maður þurfi að fyllast einhverri móðursýki og ekki þora út úr húsi á nóttunni.
Gott að vera laus við þá bakkabræður Helga (leiðindi) og Hrannar Bé (kattamorðingi). Nú getur maður næstum því kosið R með góðri samvisku.
Stefán Jón er ágætur, held ég. Hann lítur út eins og karlarnir á plaggötunum á rakarastofunum, en þess ber reyndar að geta að ég fór síðast til hárskera um 1985. 
Sharon! Ertu ekki til í að drepa alla Palestínumenn. Ég er búinn að fá leið á fréttum.
Arafat! Ertu ekki til í að drepa alla júða í Ísrael. Ég er búinn að fá leið á fréttum.

17.02.02
Júðarnir Óli, Gísli og Hörður hirða upp Palestínu Palla sem sprengdi sig í morgun. 
Sáuði Leno í gær? spyr Óli. Nei, en djöfull var Milli himins og jarðar slappt á laugardaginn, segir Gísli og Hörður tekur undir og bætir við að djöfuls Rúv hefði nú frekar átt að sýna HM en borga undir það rusl. 
Er Radíó X búið að missa allt rokk?, spyr þá Óli og í því heyrist ærandi hvellur úr bakaríinu á horninu. 

Ég pant ekki fá vinnu í bæjarvinnunni í Jerúsalem.

16.02.02
Ræktin, Seltjarnarnesi, hefur það fram yfir margar líkamsræktarstöðvar að vera ekki í eigu kvenna með stórmennskubrjálæði. Þó ýmis stórmenni á borð við Bubba, Geir Haarde, Ólaf R. Grímsson, Ómar Ragnarsson og mig stundi þar líkamsrækt er Rætin fremur öreigaleg. Til vitnis um það má nefna að í morgun fór rafmagnið af 15 sinnum á 2 klukkutímum. Þetta er sérstaklega pirrandi þegar maður er að hlussast á hlaupabretti.
Á leiðinni heim reiknaði ég út hversu mikið Þórarinn V er að fá frá mér persónulega og miðaði ég út frá öllum Íslendingum, sirka 280.000. Þetta eru nú ekki nema 132 krónur sem hann er að fá frá kjaft og hvað er fólk að væla yfir því? Ekki sé ég eftir þessum krónum til Þórarins V sem er með svo fallegan munnsvip og er svo mikið krútt. Það lýsir beinlínis af honum manngæskan.

15.02.02
Hver þarf aðrar heimsálfur þegar hann hefur Sælkerabúðina? Ég fór þangað enda finnst mér fátt skemmtilegra en að skoða exótíska matinn sem fæst þar. Dálítið pirrandi að vita varla hvað neitt er en þá er bara að kýla á eitthvað fríkað því Hr. Nings er nú ekkert að okra. Stundum er sumt sem maður kaupir ógeðslegt, eins og allskonar nammi sem lítur út eins og lambaspörð eða gosdrykkir með myndum af óskiljanlegum ávöxtum. Ég er alger sökker fyrir gosdrykkjum og er meira að segja ný búinn að fá mér bók um málið:

En allvega, ég geri roknakaup hjá Nings. Kaupi 3 tegundir af gosi sem allt er ógeðslega vont, en eins og ég segi þá er ég sökker fyrir soda. Svo kaupi ég tvær tegundir af einhverjum fræjum sem ég ætla að éta sem snakk en það er ógeðslega vont og maður á kannski að baka úr því eða eitthvað - það var samt í snakkdeildinni. Ég er amk búinn að henda því öllu. Ég keypti líka mjög framandi núðlusúpur og nú bíð ég gífurlega spenntur eftir að smakka þær. Ein er með "ferskum" núðlum sem eru linar. Hin tegundin er í risastórri skál og heitir UFO Noodles, en annað er skrifað á kínverksu. Ég veð út í óvissuna með Fljúgandi furðuhlutanúðlunum og læt að sjálfssögðu vita hvernig fer. Ég býst við miklu af UFO því pakkinn kostaði 420 kall, sem er rosalegt verð, amk á núðlusúpu!

13.02.02
Ennþá hor út um allt. Það er þó allavega skárra en að vera í gifsi, hoppandi um eins og aumingi.

12.02.02
Húndleiðinlegt að vera kvefaður með hor niðrá herðar. Spæni um vefinn og sé ekkert nema vælandi hælbíta. Vælt er um að Radíó-X sé orðið drulla því Þossi er hættur að spila fávitalegt pungsvitarokk. Með fullri virðingu fyrir hr. Þossa, sem mig rámar í að hafi haft ágætan tónlistarsmekk fyrir nokkrum árum, þá er mér drullusama þó Staind og Linkin park (sem Þossa finnst æðislegt) heyrist aldrei aftur í útvarpinu. Sem sagt: Radíó X getur ekki orðið verri og auðvitað erða jákvætt ef einhver stelpa með aðeins minni pungsvita sé þar yfir. Tvíhöfði er hvort sem er það eina að viti á stöðinni. 
Hælbítarnir eru nú vælandi um íslensku tónlistarverðlaunin sem hr Einar Bé stóð í að sjá um. Ókei, jú jú, 2900 kall er útíhött mikið að borga sig inn og atriði Svölu greyisins var sorglega hallærislegt, en að öðru leyti var gaman að þessu og XXX áttu þetta allt skilið. Hættið nú að væla kæru hælbítar og takið til í eigin garði áður en þið drullið í garð nágrannans.
Ókei, kannski er ég með óráði.

10.02.02
Konan fór í kvennaklúbb í gær og skildi mig eftir heima. Ég náði ekki í neina vini mína og þurfti því að tortýmast enn heima yfir rusli í tv. Helv videóið sprakk um daginn svo ég fæ ekki einu sinni geðfró í að glápa á spólu. Á meðan þessi ömurlega Madonnu-tík er á skjánum (í myndinni "Hommi barnaði mig") horfi ég í gaupnir mér því ég hafði lofað sjálfum mér því þegar myndin kom fyrst í bíó að horfa aldrei á hana. Ekki tekur betra við, Treat Williams í myndinni "Substitute 2 - Schools out". Ég er allur að vilja gerður að fylgjast með þeirri C-mynd, en sofna slefandi í sófanum. Þannig kemur konan að mér kl. 01:30. 

08.02.02
Hver bað um þennan ömurlega snjó? Ekki ég. Er að taka upp ný lög og svona. Plata á árinu.

01.02.02
MR var með söngkeppni í Loftkastalanum í gærkvöldi og ég sá um dómnefndarstörf  ásamt Láru úr Funerals og Þorgeiri Andréssyni söngkarli. Þarna stigu ein 19 atriði á svið og sigraði feykiefnileg söngkona, Hrund, sem tók hið hundleiðinlega lag Stairway to Heaven en sýndi mjög örugga takta. Hressar og góðar stelpur voru númer 2 og 3 líka, og því til viðbótar voru fullt af öðrum efnlegum söngkonum. Þegar strákar stigu á svið voru þeir hins vegar með "flipp" atriði, svona eins og þeir þyrðu ekki að vera "einlægir" og vanda sig. Kannski þess vegna séu svona fáir almennilegir poppsöngvarar karlkyns á Íslandi? Í Músiktilraunum snýst þetta hins vegar alveg við - þar eru næstum því aldrei stelpur á sviðinu, en fullt af strákum að baula rokk. Einhverjir strákar ættu nú að næla sér í hana Hrund í MR á hljóðnemann því þar væri komið þrusuband!

30.01.02
Gemsa-diskurinn er kominn og rokkar sílspikað, já! Sá myndina í gær í fyrsta skipti í heilu lagi og á breiðtjaldi. Ég var djúpt snortinn og hló eins og fífl. Helvíti hlý mynd frá Mikka kúk þó á yfirborðinu sé þetta hart og hrátt. Sá sem hlær ekki að bullinu í Gulla og strákunum og vorkennir ekki Dodda er með hjarta úr galvaniseruðu stáli og ætti að fara að læra innanhúsarkitektúr.

23.01.02
Eftir sirka viku kemur út á vegum Skífunnar diskurinn með tónlistinni úr Gemsum. Ég sá um þetta verkefni og samdi 5 af lögunum - "T" sem ég syng sjálfur, "Fokking frelsi" sem Stefán Hilmarsson samdi textann við og syngur auk þess sem ég gjamma smávegis með, "Gemsar" sem Heiða syngur, "Súra Reykjavík" sem Hreimur úr L&S (eða Streamer) syngur og "Gangar" sem Halla Vilhjálmsdóttir, ein aðalleikonan úr myndinni, syngur. Á þessum frábæra disk eru líka lög með Afkvæmum guðanna, Maus, Skyttunum, Ensími, Bmx, Coral, Drep, Dj Grandpa, Justin Simmons, Jet Black Joe, XXX Rottweiler hundar, Skurken og Smarty pants. Allir út í búð!

18.01.02
Eftir gönguferð á milli Grafarvogs og Mosfellsbæjar hef ég tekið ákvörðun um að reyna að gefa út einn sólódisk og eina skáldssögu á árinu. Meira um það síðar.

04.01.02
Ha? Bara komið nýtt ár? Hvaða fokkings geðveiki er það. Skaupið var fínt.

VAR EITTHVAÐ AÐ GERAST 2001?