28.02.11

Haukur Morthens - Lonesome Sailor Boy / Black Angel
Vel flestir íslenskir tónlistarmenn hafa í gegnum áratugina viljað koma list sinni á framfæri erlendis, enda 320.000 hræður (eða færri) lítill markaðshópur til að metta músíklega til lengdar. Sigfús Halldórsson reyndi að koma sínum lögum á framfæri á Norðurlöndunum snemma á 6. áratugnum og sjálfur Haukur Morthens gerði litla plötu með tveimur lög á ensku. Þetta var árið 1960. Ansi finnst mér nú Simbi sjómaður betri á íslensku – (smá vísbending til íslenskra tónlistarmanna sem syngja á ensku í dag). Lagið um Simba samdi Haukur sjálfur, en Jerry Livingstone gerði enska textann. Í úrklippunni hér að neðan kemur fram að þessi Jerry hafi samið Que Sera Sera, en eftir því sem Wiki segir þá er höfundur Que Sera Sera Jay Livingstone, en ekki Jerry Livingstone. Hmm ha? Black Angel er hinsvegar lag eftir Rodd Arden. Um undirleik sá Jörn Grauengard "and his orchestra". Hér eru tvær úrklippur úr blöðunum. Fyrst Alþýðublaðið frá 1960 þegar platan kom út og svo bútur úr viðtali við Hauk í Þjóðviljanum frá 1976 þegar hann lítur til baka á meikið sem "gekk ekki". Skilja má að Hauki að meikið hafi helst strandað á því að textinn í Black Angel hafi verið of hefí fyrir poppbransann:
 
 

26.02.11

Las loksins Gott á pakkið, ævisögu Dags Sigurðarsonar, eftir einhvern Níels Rúnar Gíslason, bók sem kom út 2008 og fæst örugglega á fínu verði í Perlunni um þessar mundir. Ágæt bók. Ég kannaðist lítillega við Dag, maður sat kannski með honum á skjálftavaktinni á Mokka undir það síðasta og svo kom ég nokkrum sinnum í Fagrahvamm þar sem hann bjó með Einari Melax sirka 1985. Myndirnar og ljóðin hans er mjög fínt stöff og það var ágætt að lesa þessa sögu til að fá bakgrunnsupplýsingar um manninn sjálfan, æviferil og basl. Dagur var mikill meistari og næs gaur, en náttúrlega helvítis fyllibytta. Og fullar fyllibyttur eru ekkert skemmtilegar, nema auðvitað að maður sé blindfullur líka. Og það er svo sem ágætt að vera fullur, ef maður yrði ekki svona ógeðslega þunnur alltaf og alveg búinn á því í viku á eftir. Þess vegna er ég nú eiginlega alveg orðinn templari. Stórtemplari jafnvel.

Dagur er á Facebook og þar er þetta kvót um hann frá vini hans (og tilrauna ástmanni) Elías Mar: Óbeit hans á borgaralegri meðalhegðun var slík, að þegar ég slysaðist til þess fyrir mörgum árum að segja sem svo, að æðsti draumur minn í lífinu væri sá að eignast þak yfir höfuðið, - þá snögghvarf brosið af andliti hans, og aldrei þessu vant varð röddin að hvísli: "Et tu..." Við minntumst ekki á það framar.

Ég samdi nokkur lög við ljóðin hans fyrir mörgum árum og ég og Heiða fluttum þetta á Menningarnótt í Iðnó. Ég ætti að eiga þetta á kassettu einhvers staðar. Þór Eldon gerði mjög fína plötu, Dauðaskammtur, þar sem hann samdi músík ofan á ljóðaupplestur Dags sjálfs. Legg til að þú hlustir á það í dag á Gogoyoko.

Til að fullkomna Dags-daginn skaltu líka kippa með stóru Dags bókinni sem Hjálmar Sveinsson og Geir Svansson settu saman fyrir nokkrum árum. Hún fæst kannski á stóra bókamarkaðinum (nema hún sé uppseld) og er alveg frábær. Bækurnar um Megas og Rósku eru nú ekkert slor heldur. Svo skaltu kíkja á VIÐ ERUM HROKAFULLIR, skemmtilegt viðtal við Dag 23 ára 1961 og jafnvel Dag á wiki.
---
Lúdó og Dagur - Það hefði verið frábært band!
---

Lúdó og Stefán - Ég bíð einn
Mér hefur alltaf þótt Still I'm Sad með The Yardbirds (Jútjúb) ógeðslega töff lag. Vissi ekki að það væri til íslensk útgáfa fyrr en nýlega. Ég bíð einn er með íslenskum texta Ómars Ragnarssonar og Stefán Jónsson syngur með Lúdó Sextett. Átta manna kór syngur einnig með (það kemur hvergi fram hvaða kór þetta er). Þeir gera þetta bara nokkuð vel strákarnir. Hér er grein um þessa plötu úr Fálkanum 2. maí 1966:
 

25.02.11
Það er ekki stundlegur friður fyrir stórmerkilegum popparaafmælisbörnum. Í gær varð Jensen 70 ára en í dag eiga Þorsteinn Eggertsson, textasnillingur, og Jón "Góði" Ólafsson (eða "Sóði" eins og vill láta kalla sig og gerði tilraun til þess þegar hann hóf sambúð með unglambinu Hildi Völu) afmæli – Steini 69 ára og Jón 48 ára. Til hamingju þið og þjóð með það!
---
Safnarabúðir eru stórmerkileg menningarfyrirbæri sem ég hef lengi verið heillaður af. Það hafa ýmsir verið með svona í gegnum tíðina en Safnarabúðin var löngum best. Sæmundur B. Elímundarson opnaði búðina á Laugarvegi 17, 2. hæð, 25. janúar 1974 og ætlaði að díla með frímerki og notaðar bækur. Fjótlega varð þó notuð plötusala aðalmálið. Ég man eftir að hafa farið einu sinni í búðina á Laugarvegi, mér hafði áskotnast einhver poppprogg plata, hugsanlega með Rainbow, sem var í gatefold umslagi en þó einföld. Hélt ég myndi fá stórfé fyrir þetta en Sæmundur bauð bara einhvern tittlingaskít.

Á svipuðum tíma (1979-1980 þegar farið var að hleypa mér einum í bæinn í Kópavogsstrætó) man ég eftir mér á plötuútsölu á Hallveigarstöðum, líklega á vegum Steina. Maður var aðeins byrjaður að kaupa plötur, en þá aðallega notað eða á útsölum, oft smáskífur. Ég man að ég keypti nokkra smáskífupakka á Steina-útsölunni. Þá voru 5 sjötommur límdar saman svo maður sá bara efstu og neðstu en ekki þessar þrjár sem voru á milli. Eins konar lukkupakki.

Stundum fór maður í eðalbúðina Sölu varnarliðseigna á Grensásvegi, en Kanarnir voru með svo lélegan smekk á þessum tíma að maður kom oftast tómhentur út. Keypti einu sinni Kiss plötu sem ég faldi fyrir pabba því ég þorði ekki að láta hann vita að ég hefði verslan í hinni svívirðulegu kanabúð. Svo var Kiss auðvitað bara hundleiðinleg.

Safnarabúðin flutti á Frakkastíg 7 i árslok 1979 og var þar til ársins 2007. Þá hafði sonur Sæmundar, Hreiðar Þór (aka "Mr. Bean"), tekið við rekstrinum. Margar góðar stundir átti maður í Safnarabúðinni og ýmislegt góðgæti dró maður heim í hús, til dæmis Icecross plötuna í stöflum um 1990 og seldi til safnara í Hollandi á ágætis pening. Síðan seldi hann plöturnar áfram á enn meiri ágætis pening og í dag er platan fágætur og rándýr og bútleggaður dýrgripur. Eins fékk ég smáskífu með The Syn á 50 kall og seldi til búðar í London á 10.000 kall. Það kallar maður ávöxtun.

Það var einmitt gamanið í gamla daga, að rekast á gullmola á spottprís. Það á ekki við í dag því safnarabúðarmenn eru orðnir mjög sjóaðir í verðgildi hlutanna og geta alltaf gúgglað ef þeir eru í vafa. Lucky Records á Hverfisgötu er mjög metnaðarfull og hreinlega sláandi mikið úrval þar af vinýlplötu. Geisladiskabúð Valda er meira í diskunum, eins og nafnið bendir til, en með fínt úrval af vinýl bakvið. Austfirðingurinn Jón Knútur skrifaði mjög góða þakkargjörð um Geisladiskabúð Valda í vikublaðið Reykjavík á dögunum, sem má lesa hér. "Tilvist hennar (búðarinnar) segir mér að Reykjavík er sannkölluð menningarborg og verðugur höfuðstaður þessa lands", skrifar Jón Knútur. Undir þetta má fyllilega taka.

24.02.11
Jensen
Dagurinn má ekki líða án þess að minnast á meistara Jensen sem er sjötugur í dag. Hann hefur því miður bara gefið út eina stóra sólóplötu (Skyggni ágætt 1976)  og eina litla (Regndropar falla við hvert fet / Fylgdu mér), en englasöng úr rjómalegnum barka hans má að auki heyra á plötum Hljóma, Hauka og Lónlí Blú. Fáum tóndæmi:
Engilbert Jensen - Bomm shagga lagga lagga
Engilbert - Fylgdu mér
---
Mér er nú nokk sama þótt ég sé sköllóttur. Hef aldrei tengst hári tilfinningaböndum og aldrei verið að pæla í einhverjum skallameðölum eða hárígræðslu. Keypti mér reyndar einu sinni hárkollu upp á flipp sem er ágæt þegar ég vil dulbúast (sem er oft). Það var reyndar alveg huggulegt að fara til rakara. Fyrst fór ég alltaf til gamla karlsins í Hamraborg (ekki Torfa, heldur hins) og stundum til Stefáns þegar hann var byrjaður í Hamraborg. Einu sinni, líklega 1984 þegar ég var 18-19 ára fór ég til einhvers klippitöffara á Nýbýlavegi og hann kom með þá fullyrðingu að það væri ekki langt í að ég yrði sköllóttur. Mig minnir að ég hafi afgreitt þetta sem rugl. En hann hafði náttúrlega rétt fyrir sér.
---
Þegar ég sá Gaukshreiðrið hreifst ég af klippingu Billy Bibbit og vildi stæla hana. Í svipuðum stíl var klippingin á Rowland S. Howard og Nick Cave í brjáluðu Birthday Party stuði með hárið út um allt. Ég reyndi að stæla þetta með mitt þunnildishár og leit náttúrlega út eins og hálfviti:

---
Svo tóku við mörg ár þar sem hárið þynntist og þynntist og loksins, eftir eitthvað fyllirí á Tunglinu sirka 1996, rakaði Heiða og vinkona hennar allt hárið af mér svo skein í beran skalla þegar ég vaknaði um morguninn. Eftir það var ekki aftur snúið og líf mitt sem skallakarls hefur verið glæsileg sigurganga alla tíð síðan.
---
Ég segi það ekki. Ég slægi ekki hendinn á móti þykku hári og þá myndi ég líklega klippa mig nasistaklippingu eins og nú er í tísku, svona nasista stutt í hliðunum og töff ofan á, sbr. Casper Christiansen, Jón Gnarr og Egill Einarsson. En samt, það er helvíti gott að vera sköllóttur. Ekkert vesen og hvað er ég búinn að spara margar milljónir að hafa ekki þurft að borga fyrir klippingu og tjörusjampó öll þessi ár?
---
Að vera sköllóttur verður til þess að manni er endalaust ruglað saman við aðra sköllótta. Sérstaklega þegar maður þarf að labba í gegnum hóp af unglingum. Hey, ert þú ekki Dr. Gunni? Jú jú, segi ég voða glaður. Hey, ert þú ekki með Út og suður? Mér hefur verið ruglað saman við Gísla Einarson, Jón Ársæl og Gaua Litla og örugglega fleiri. Því miður ekki Karl Berndsen eða Egil Ólafson en það kemur kannski.
---
Og nú að öðrum sköllóttum:

Steve Ignorant söngvari Crass hjakkast nú á gamla pönkinu öllum til gleði og yndisauka. Hann er á leið til New York og er í því tilefni í massífu viðtali við Díönu Kamakaze á bestu útvarpsstöð í heimi, WFMU. Þriggja tíma Crass-veisla hér. Þess má svo geta að ef þú hefur ekkert að gera eru allir þættir útvarpsstöðvarinnar aðgengilegir í archívum langt aftur í tímann. Sértu enn viðþolslaus í meira anarkípönk er hér massífur línkur á drasl, til dæmis upptaka frá tónleikum Crass í Höllinni (Við krefjumst framtíðar 1983). Þarna mætti maður í góðum pönkfílingi og hélt að Crass myndu spila hittara, en þá var bara nuddast á manni með efni af plötunni Yes Sir, I will, alveg drepleiðinlegu dóti. Bæði hún og platan Christ - The Album eru leiðinlegar (minnir mig), en restin flest dúndur dót, m.a. að segja kvenrembuplatan Penis Envy. Svona 3/4 af krádinu týndist út þegar ekkert lát var á leiðinlega Crass-hjakkinu, en ég fór ekki neitt og mig minnir að ég hafi fengið Big A Little A í lokin. Ekki þess virði samt!

En svo er það spurningin... Kemur Steve Ignorant með gamla Crass-pönkið á Listahátíð í maí? Með aðdáanda nr. 1 í stóli borgarstjóra og Sigurjón Kjartansson í stjórn Listahátíðar þá getur nú svo sem allt gerst! (Meira Steve Ignortant)
---
Í Samkomuhúsi Rúv er að finna allskonar gúmmilaði. Þar er t.d. upptaka frá Airwaves af okkur í S. H. Draumi að juðast á gömlu gömlu og tjá okkur bakksteits. Næsta gigg: Eistnaflug!

23.02.11
Halló halló, einn tveir, einn tveir... Ég er að sándtékka þetta nýja forrit sem ég var að fá mér til að blogga. Ég var nefnilega að skipta innvolsinu úr gömlu tölvunni og er nú orðinn alveg rosa tæknilegur með Windows 7 og allskonar fínirí. Gamla draslið allt úrelt og ætli ég neyðist ekki til að kaupa mér nýja skanna því gamli er ekki W7 compatable. Ekkert að honum samt. Vill einhver ókeypis skanna fyrir Windows XP? Halló, halló, 1 2, 1 2.

18.02.11
Þá hefur bröskurum loksins tekist að koma bókabúð Máls og menningar á hausinn. Einu sinni var þetta ein besta bókabúð í heimi og fékk viðurkenningu þar að lútandi. Þetta var gullöldin, þegar Óttarr Proppé var á svæðinu og ógeðslega mikið til af góðu stöffi. Svo byrjaði einhver skúnksleg hringavitleysa sem endaði með glottandi Sjálfsstæðismönnum skálandi í gamla kommavíginu. Sjálfdautt eftir það. Samt eru ágætis bókabúðir eftir á landinu, Penninn í Austurstræti og á Skólavörðustíg, Iða og Bóksala stúdenta – flest í eigu bankanna náttúrlega, eins og allt á Íslandi. Og hvað verður svo í MM húsinu? Ég giska á hótel og/eða lundabúð (sem verður þá í eigu bankanna líka). Gaman að þessu. Áfram Ísland!
---

Fór á Nýdönsk í nánd og skrifaði dóm í Fréttatímann. Ég hafði mjög gaman af þessu. Hápunkturinn var þegar Daníel Ágúst kom fram sem Jóhann Helgason og söng Yackety Yak, smacketty smack. Þeir eru náttúrlega sjúklega líkir og gott trix að nota þessi líkindi í sýningunni. Mig greip hvílíkt bítlaæði við þennan samruna Daníels og Jóhanns að ég tók mynd. Munaði litlu að ég migi á mig. Djöfull myndi ég mæta á Change kombakk! Þarna er Bjössi með á myndinni í gervi Bingólfs. Björn Jörundur var frábær í Sódómu og Englum alheimsins og hann var frábær Bingólfur. Hann á að leika meira og þá meina ég ekki í einhverjum Nova auglýsingum.
---
Ég væri mikið til í að fara til Grænlands einhvern tímann, en á meðan það kostar það sama að fljúga þangað og til Brasilíu eða New York þá fer ég frekar þangað. Sorrí. Mér finnst þetta samt spennandi land og líka Færeyjar. Ég fer alltaf í mikinn svona sam-norðursvæða-fíling þegar ég er á heimleið í þotu og hugsa um að ég ætti að heimsækja þessi vinalönd næst, en svo geri ég aldrei neitt í því og hef hvorki komið til Grænlands né Færeyja.

Hvað um það. Framundan er megaflott hátíð í Norðurpólnum, út á Granda. Fréttatilkynning:

Bergen-Reykjavík-Nuuk er ný tónlistarhátíð sem haldin verður á Norðurpólnum, leikhúsinu dagana 24. og 25. febrúar næstkomandi. Tónlistarhátíðin er samnorrænt verkefni og styrkt af Norræna Menningarsjóðnum. Á hátíðinni munu koma fram fjöldinn allur af hljómsveitum og verður dagskráin mjög fjölbreytt og skemmtileg þar sem sameinaðar eru hljómsveitir frá ólíkum áttum.

Þetta er í fyrsta skipti sem þessi lönd taka sig saman fyrir tónleikahald og gaman að sjá hvað þessar tvær nágrannaþjóðir hafa upp á að bjóða í tónlist ásamt frábærum íslenskum tónlistarmönnum.

Miðasalan er í fullum gangi á midi.is
 
Dagskrá kvöldið 24.febrúar
Razika (NO)
Josefin Winther (NO)
Jess Morgan (UK)
Samúel Jón Samúelsson Big Band (IS)
Davíð Þór Jónsson (IS)
Dj.Maísól (IS)
 
Dagskrá kvöldið 25.febrúar
Ragnheiður Gröndal og Þjóðlagasveit (IS)
Moses Hightower (IS)
Knekklectric (NO)
Nanook (GR)
Mr. Silla (IS)
John Olav Nilsen & Gjengen (NO)
My Itchy Little Finger (GR)
Dj. Maísól (IS)

Íslensku nöfnin ættu flestir að þekkja en þessi erlendu má gúggla og tékka á hljóðdæmum. 

5.02.11

Nú hefur hinn mikli meistari Jóhann G. Jóhannsson bannað tónlist sína alfarið á Bylgjunni, eins og má sjá víðsvegar í fjölmiðlum. Ástæðan er sú að Bylgjan hundsaði algjörlega síðustu plötu Jóhanns því "fagráð Bylgjunnar" taldi ekkert lag af henni passa inn á pleilistann. Nú er Bylgjan einkastöð, en ekki ríkisrekin eins og Rás 2, og því varla hægt að telja sig eiga rétt á einu né neinu þar. Ef Bylgjan vildi gæti hún spilað Abba og Elo allan sólarhringinn til skiptis án þess að nokkrum kæmi það við. En Jóhann vill ekki bíta í súrt epli Bylgjunnar og allt í lagi með það. Jóhann hefur alltaf verið mikill prisippmaður og baráttuhundur fyrir kjörum poppara. Það eru kannski ekki allir sem vita það en Músíktilraunir hétu upphaflega Músíktilraunir SATT (Samtök alþýðutónskálda og tónlistarmanna) og voru hluti af stéttarvitundarvakningu Jóhanns. Fyrstu Músiktilraunirnar fóru fram fyrir jól 1982 og hétu þá Músíktilraunir SATT og Tónabæjar. Á sama tíma stóð SATT fyrir miklu tónleikamaraþoni í kjallara Tónabæjar og byggingarhappdrætti (ég man ekki hvað átti að byggja). Ætlunin var að slá þýskt met upp á 321 klukkutíma og spiluðu nú hljómsveitir allan sólarhringinn í kjallaranum. Minnsti skammtur var 6 klukkutíma spilirí. Ég spilaði þarna með S. H. Draumi og man ekki annað en að við þurftum náttúrlega að spila sömu lögin aftur og aftur, enda vildum við ekki "djamma" enda fátt hallærislegra í okkar huga en að "djamma". Margar sveitir spiluðu þó lengur, t.d. spilaði hljómsveitin Gift sleitulaust í sólarhring, en síðasta bandið, Trúðurinn, sló metið og spilaði tveimur tímum betur, 26 tíma! Markmiðið náðist loksins 21. desember 1982 og fór í heimsmetabók Guiness (að sögn). Þrátt fyrir að árið eftir kæmu 3 safnplötur á vegum SATT lognaðist félagsskapurinn smám saman út af, en FTT er að mörgu leiti skilgreint afkvæmi eldmóðsins í Jóa G. 
Og svo að lokum, alveg frábært myndband við Asking for love, lag sem Jóhann gaf út á smáskífu 1973. Allt gengur öfugt nema Jóhann. Frábært að sjá Rvk í gamla daga (lítið breyst samt) og áhugafólk um fornbíla fær mikið fyrir sinn snúð.
---
ps. Beðið er um þátttakendur í Músiktilraunir 2011!
---

Ham - Eggjahommi
Nú hef ég loksins eignast einu LP plötu HAM, Buffalo Virgin, á vinýl. Þessi plata þótti misheppnuð, sándið gruggugt og spilamennskan slöpp, en þetta er nú svo sem alveg ágætt í baksýnisspeglinum. Á plötunni eru lögin sem ég var látinn spila í þessa mánuði þegar ég laut unaðslegu ægivaldi Ham. Það er mjög skrítið að sándið sé svona slappt á þessari plötu því nokkru áður hafði Sigurjón og Sveinn bróðir hans, sem tók þessa plötu upp, náð mjög fínu sándi á síðustu plötu S. H. Draums, Bless. Á þessum tíma spilaði Hallur Ingólfsson á trommur, en bandið sprakk loks almennilega út þegar Addi trommari gekk í það. Það að Ham hafi ekki gert albúm á því gullaldartímabili eru mistök sem menn hljóta að naga sig í handarbökin yfir. Í staðinn var besta stöffinu dritað í Sódómu sándtrakk og svo eru þetta safnplötur og læfplötur, en ekkert alvöru albúm. Lengi er von á einum, því bandið er með fyrsta albúmið síðan Buffalo Virgin í vinnslu nú um stundir og ætti sú að koma út á árinu. Lagið Eggjahommi, eða Egg Ya Hummie, eins og það er nefnt á plötunni, eru um mann í Kópavogi sem át hrá egg. Hann er þó enginn hommi. Allir voru bara "hommar" á þessum tíma.
Jálkar ætla að þeysa á sprett í Nasa á föstudagskvöldið 25. feb. Forsala er hafin á midi.is. Ham kemur fram með sérstökum gestum – sem er ekki hljómsveit – heldur sérstakir gestir sem verða kynntir til leiks þegar nær dregur. Miðaverði er stillt í talsvert hóf eða 2.000 kr. í forsölu sem er ódýrara að  en við hurð hvar miðinn kostar 2.500 kr. ef ekki verður uppselt löngu áður.
---
Heimasíðan hjá Eistnaflugi er komin í form. Ham spilar. Líka S.H.Draumur. Og Eiki Hauks!

14.02.11
Það þarf ekkert endilega að fara langt til að fá nærandi skammt af exótík. Breiðholtið dugar t.d. alveg. Það er exótískasti staðurinn á Stór Reykjavíkur-svæðinu. Ég var búinn að prófa allar sundlaugar bæjarins – og þó víðar væri leitað – nema þessa í Breiðholti og lét því verða af því að fara í gær. Þetta er sannarlega alveg frábær laug. Reyndar voru rennibrautirnar ekki nothæfar því þær voru fullar af snjó. Dáldil vonbrigði fyrir strákinn. Pottar, sturtur og laugar, allt alveg tipp topp. Smá austantjalds-lúkk á öllu þarna, eitís austantjalds-lúkk. Mósaík á veggjum innilaugar gætu verið í Belgrad. Eftirlitsturninn er líka óvenju massífur. Gerður eftir teikningum frá Berlínarmúrnum? Sjálfvirka hurðin reyndi reyndar að drepa okkur en að öðru leiti er Breiðholtslaug í hópi bestu lauga landsins. Pólska búðin Mini Market í Drafnarfelli er einnig mjög exótísk og svo full af dóti sem maður veit ekki hvað er að það hálfa væri ágætt. 
---

Rafgúrúinn Biogen, Sigurbjörn Þorgrímsson, yfirgaf sviðið á dögunum. Hans er sárt saknað, ekki síst í rafgeiranum þar sem hann var nánast andlegur leiðtogi í gegnum frumkvöðlastarf sitt, undir það síðasta með Weirdcore. Skotinn Bob Cluness skrifar fína bloggfærslu um Biogen á blogginu sínu og tengir í tóndæmi.
---
Heyrði nokkur lög af Stop that Noise, væntanlegri plötu Hellvars. Massagott stöff, pródöksjón valjú í himinhæðum og allskonar grúv í gangi, Joan Jett og Siouxsie og Sonic Youth í graut. Rándýrt myndband hefur verið búið til við "fyrsta lag í spilun", Ding an sich.
---
Eins og kom fram á Rjómanum er búið að gera heimildarmyndina Iceland: Behind Sigur Rós. Svo afgerandi er ímynd Sigur Rósar að þörf þótti á að búa til þessa mynd. Það má horfa á myndina í heilu lagi hér, en ég er nú ekki búinn að gera það ennþá.
---
Belginn Wim Van Hooste er gríðarlegur Íslandsvinur og músíkáhugamaður. Hann var lengi með íslenska fréttamúsíkbloggið Iceland Music Blogspot, en hefur nú breytt um áherslu og byrjað með Icelandic Music Museum.

13.02.11

Það er alltaf eitthvað gott stuð í gangi hérna. Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður á sínum stað, og nú hef ég heyrt úr lággróðrinum að glæný tónlistarhátíð, Reykjavík Music Mess, verði haldin helgina fyrir páska, 16-17 apríl. Eftir því sem ég kemst næst er búið að bóka hljómsveitina Deerhunter á hátíðina (ruglist ekki saman við hljómsveitina Deerhoof, sem spilaði á Gauknum á Airwaves fyrir nokkrum árum). Deerhunter er kvartett frá Atlanta og mjög fín sveit. Var með eina af bestu plötum síðasta árs, Halcyon Digest. Þetta er band sem allir sannir indie-snobbarar slefa hreinlega yfir enda í gríðarlegum metum hjá indie-snobb-bibblíunni Pitchfork (nýjan platan fékk 9.2 þar í einkunn og þótti þriðja besta síðasta árs). 

Á hátíðinni spila líka Sin Fang Bous, Reykjavík!, Prinspóló og Mugison (ertu ekki örugglega búinn að tékka á nýja laginu hans, Haglél? Skrítið annars hvernig margir (Mugi og Lights on the Highway) verða snögglega miklu áþreyfanlegri þegar þeir byrja að syngja á íslensku. Gott múv. Vona að Mugi sé kominn til að vera á íslensku. 

Hér eru nokkur lög af nýju Deerhunter-plötunni á Youtube:
Memory Boy
Revival
Helicopter
og svo:
Opinber heimasíða Deerhunter

Myndin hér að ofan er af Bradford Cox, söngvara Deerhunter. Hann gerir líka út sólóið Atlas Sound og hefur fengið álíka rosadóma fyrir það stöff. Einhver ætti nú að taka sig til og dæla í hann skyri með rjóma á meðan á Íslandsdvölinni stendur. Aumingja maðurinn lýtur út eins og Belsen fangi.

Uppfært: Ofur-beinasleggjuvöxtur söngvarans á sér heilsufarslegar útskýringar. Hann þjáist af einhverju sem heitir Marfan syndrome. Þá veistu það.

12.02.11
Vaknaði með jólalag (Komdu til mín fyrsta kvöld jóla) með Þrjú á palli á heilanum. Hvaða rugl er nú það!? Fljótur að ná því úr mér með nýja Lady Gaga laginu, Born This Way. Örugglega smellur en ekki alveg sama snilldin og Poker Face eða Bad Romance. Of hefðbundið lag til að valda sömu straumhvörfum.
---
Held að sjálfssögðu með Eldgosi í Eurovision í kvöld. Ég fæ ennþá hláturskast þegar óperustelpan byrjar og svo er þetta bara fínt! Ætli Jóhanna eða Aftur heim vinni þetta samt ekki. Allt í lagi með það, en mesta djörfungin er fólgin í því að senda Eldgosið...
---

IKEA SATAN - Sound Of The Planet


CALIFORNIA CHEESEBURGER - Malibu


BLACK VALENTINE - It´s Something I Can´t Do Without

CHING CHING BLING BLING - Rafrænt rokkbling
Plötuútgáfa heimsins er í uppnámi. Fáir undir fertugu kaupa lengur geisladiska, hörðustu músíkáhugamenn kaupa vinýlplötur, en yfirleitt er fólk bara að hlaða niður músík í tölvurnar sínar. Spurningin: Fyrst sífellt færri kaupa diska til hvers þá að gefa þá út? verður alltaf meira aðkallandi. Það er dýrt að gefa út vinýlplötu og salan ekki orðin það úrbreidd aftur að slík útgáfa svari kostnaði nema í meiriháttar tilfellum. Lausin hlýtur því að vera að gefa bara út „rafrænt“ og það er sú stefna sem Ching Ching Bling Bling, upprennandi útgáfa í Reykjavík hefur tekið. Reyndar koma útgáfurnar hjá þeim stundum út á diskum líka.

Mörgum finnst plötur ekki hafa „komið út“ nema hægt sé að handleika útgáfuna, en þetta er tilfinning sem eflaust mun hverfa með tímanum. Kannski mun það líka breytast að sérstakt „umslag“ fylgi rafrænum útgáfum, því það er í sjálfu sér algjör óþarfi að láta ferkantaða mynd fylgja með rafrænum skjölum.

Ching Ching Bling Bling hefur gefið út slatta af tónlist en þær þrjár „plötur“, sem hér er fjallað um, eru þær nýjustu. Ikea Satan er tríó. Unnur Kolka trommar, Pétur Úlfur Einarsson syngur og leikur á gítar og Hannes Þór er á bassa. Sound Of The Planet er þriggja laga seigur rokkköggull með blúsmetalísku yfirbragði og minnir allnokkuð á rokkgerð Jacks Whites. Öll lögin eru virkilega fín, teppalagt sjúskrokk á ensku, melódískt og einhvern veginn mitt á milli helvítis og Ikea. Tríóið vinnur nú efni á stóra plötu sem á að koma út með vorinu. Sú verður vonandi jafn góð og þetta stöff.

Holland Island Bar Light er fyrsta plata hljómsveitarinnar California Cheeseburger. Ari Eldon, Riina Pauliina og Pétur Úlfur starfrækja þetta band með trommaranum Kormáki „Komma“ Geirharðssyni og spila glimrandi gott popprokk sem á ættir að rekja aftur í brimbrettapopp Beach Boys, Velvet Underground (þá helst lögin sem trommustúlkan Moe Tucker söng) og áfram upp tónlistarsöguna allt yfir í gáfumannapopp í Belle & Sebastian. Á þessari 13 laga plötu er hellingur af skemmtilegu og afslöppuðu sólskínspoppi – eðalstöff, en kannski ekki alveg það byltingarkenndasta.

Þessar þrjár „plötur“ eiga það sameiginlegt að vera fluttar á ensku og að Pétur Úlfur er á þeim öllum. Pétur er afkastamikill jaðarmaður, hefur líka gert tónlist m.a. undir nöfnunum Peter & Wolf og Pornopop (m.a. á hinni vanmetnu og Sigur Rósar-legu plötu …and the slow songs about the dead calm in your arms). Black Valentine virðist vera hann einn að búa til tölvutónlist sem er laust í reipunum og tilraunakennt. Hann vinnur með  sömpl og lúppur og útkoman liggur einhvers staðar á milli plötunnar Play með Moby og raftilraunaefnisins sem Morr útgáfan þýska gefur út, auk þess sem gítarrokkað efni er haft með í bland. Fína spretti má hér finna og aðra la la. Sex On The Beach er önnur plata Black Valentine og er stefnt að því að hún og fyrri platan, Rehab Is For Quitters frá 2009, komi út saman á geisladisk.
Eins og gengur er allt vaðandi af tóndæmum á heimasíðu útgáfunnar og þar að auki geta skráðir notendur hlustað á plöturnar í heild sinni á Gogoyoko-vefnum. Mæli ég sterklega með að fólk með eyrun í lagi tékki á Ching blinginu.

Ikea Satan platan á Gogoyoko
California Cheeseburger platan á Gogoyoko
Black Valentine platan á Gogoyoko

11.02.11
Tilnefningar Íslensku tónlistarverðlaunanna eru tilkynntar í dag. Það má sjá þær hér eða í Fréttatímanum í dag. Ég fæ ekki betur séð en að það sé heilmikið vit í þessu. Meistari Þórir Baldursson fær heiðursverðlaunin í ár og að því tilefni tók ég saman smá yfirlitsgrein um hann sem birtist í aukablaðinu með Fréttatímanum. Gaman er að hlusta á gamla diskóið sem hann kom nálægt á gullöldinni (Ég veit, þessi setning hefðu aldrei komið út úr mér fyrir 30 árum!). Það er slatti af því inn á Youtube og má finna með því að leita eftir "Thor Baldursson", og einnig er línkað inn á helling af þessu frá fan-síðu Þóris á Facebook. Eina plötu væri ég til í að heyra, sem er samstarfsverkefnið B&B (Baldursson og Mats Björklund), platan Boogaloo. Þetta stöff er nú ekkert auðfundið í dag. Þórir segir af þessu verkefni í viðtalinu hér að neðan. Ég rakst á þetta í Samúel upp á Þjóðarbókhlöðu og þreif upp myndavélina. Minnir örugglega að þetta sé frá árinu 1978. Blaðamaðurinn Ólafur Hauksson er mjög spenntur yfir ljúfa lífinu sem Þórir var um þessar mundir að lifa í Munchen og segir frá því í nokkuð ítarlegu máli – "Í hinum vistlega matsal Union Stúdíós". Þetta er fínt viðtal. Skondið að Halldór Laxness hafi verið að flækjast þarna innan um diskóið og farið í ökuferð með Þóri á drossíunni. Kannski hafa þeir brugðið sér á diskó og nú getur þú ímyndað sér andlit Halldórs ofan á búk Johns Travoltas í Saturday Night Fever. Til hamingju Þórir! 







---
Fékk bréf í framhaldi af blogginu í gær um Vísindakirkjuna og hugsanlega aðkomu JFM að því:

Ég sá að þú varst að velta fyrir þér vísindakirkjunni og hugsanlegum íslenskum trúboðum. Mér datt í hug að nefna að í eintaki af Tízkublaðinu Líf frá 1977, sem ég á einhversstaðar í fórum mínum, er langt viðtal við Sverri Guðjónsson, stórsöngvara (svona "hvar eru þau nú" viðtal, barnastjörnuferillinn löngu að baki og kontratenórmeikið enn framundan).

Í viðtalinu segir Sverrir frá kynnum sínum af starfi Vísindakirkjunnar í London og löngun sinni til að hefja safnaðarstarf hér á landi. Hann var í fullu vísindakirkjunámi þarna úti í heilan vetur, ef ég man rétt, og hann á varla orð til að lýsa hrifningu sinni. Góður partur af viðtalinu fer svo náttúrlega í að úthúða því böli mannkyns sem er geðlækningar og sálfræði (á svipuðum nótum og Tom Cruise, trúbróðir hans, átti eftir að gera síðar). Hann minnist ekkert á JFM þarna, en maður getur svosem alveg séð þá tvo grallana fyrir sér að makka saman í þessu.

(Og Þetta er ekki eina dúndurlesningin í þessu blaði: Þar er líka æsileg frásögn blaðakonu Lífs sem lendir óvænt í gleðskap á hótelherbergi með Keith Richards og vinum hans. Eiturlyf eru höfð um hönd, en henni tekst að bægja bæði Keith og fíkniefnadjöflinum frá sér og kemst undan við illan leik.)

Ljóst er að maður verður að grafa upp Líf frá 1977 til að lesa um íslensku blaðakonuna og Keith!

10.02.11

Er hér með sigurliði kennara úr HÍ í Háskólabíói í gær. Framadagar í gangi og ég mættur með spurningakeppni til skemmtunar. Kennarar úr HÍ og HR kepptu í "Háskólapunkti" og eftir æsispennandi leik sigraði HÍ á loka metrunum. Fólk stóð sig vel, þó var smá rugl í gangi og mynd af Friðrik Dór talin vera Justin Bieber og að Lúxor sönghópur héti Lúxus. 
---
Píndi mig til að horfa á þunglynda heimildarmynd um hina útúrsturluðu peningaplokkandi Vísindakirkju. Það kom ekki fram í myndinni þetta geimverurugl sem er í "trúarritunum" né að stofnandinn hafi sagt að það væri enginn peningur í sci-fi heldur væri monníið í trúarbrögðunum. Mesta furða að Vísindakirkjan hafi aldrei komið hingað. Heyrði reyndar einu sinni að snillingurinn JFM hefði verið langt kominn í að koma með kirkjuna hingað, en það er nú örugglega bara kjaftasaga – reyndar dáldið góð kjaftasaga. Þessi kirkja er allavega það mikið rugl að mér dettur ekki í hug að horfa á myndir sem Tom Cruise eða John Travolta leika í. Það er algjör mínus á fólk að tengjast þessu djönki.

Í Nýja Sjálandi er starfrækt róbótahljómsveitin The Trons sem er nokkuð fyndin. Þetta er eins og verkefni í keppni verkfræðideildar – núna var verkefnið að búa til starfandi indie hljómsveit. The Trons hafa gefið út plötur og allt. Hérna má sjá "bandið" í aksjón á Youtube en annars er heimasíðan þessi.
---
"Það talar enginn um að strokka sig í dag"... treilerinn af OKKAR EIGIN OSLO er kominn í loftið. Þetta lofar mjög góðu. Ég hef fulla trú á þessu og miklar væntingar!
---
Svo því sé haldið til haga að gefnu tilefni þá blogga ég ekki "á" Eyjunni og lýt í engu ritstjórnar- eða eigandavaldi þaðan. Ég blogga á This.is, sem er lífrænt og "óháð" lén. Ég html blogga á ævagamlt Netscape Composer forrit, og það er þess vegna sem síðan lítur svona asnalega út og ég get ekki haft flotta sædbari eða eitthvað flashí. Þetta lúkk er fyrir löngu orðið retró. Ég tengi bloggið mitt inn á Eyjuna og blogg.gattin.is til að fleiri sjái að ég hafi bloggað. Ég mun halda því áfram.

09.02.11
Ekki-fréttir eru ekki síður skemmtilegar en "venjulegar" fréttir. Daglega eru allskonar ekki-fréttir sagðar úr íslenska skemmtanalífinu, að hinn og þessi sé að meika það í útlöndum, að þessi eða hin stórhljómsveitin ætli að spila hérna eða að H&M sé að fara að opna í Kringlunni. Þetta er nauðsynlegur fréttaflutningur til að fylla upp fréttagöt sem myndast í fámenni. Það gerist bara ekki nógu mikið hérna! Ekki-fréttamennska er alls ekkert nýtt fyrirbæri og hér er til að mynda ein stórgóð ekki-frétt úr Tímanum síðan 27. sept 1958, frá "nokkuð áreiðanlegum heimildum" náttúrlega:

---
Talandi um ekki-fréttir þá sagði DV nýlega frá því að ég væri að fara að sjá um nýjan frétta og skemmti-vefmiðil. Ég hef ekki hugmynd um hvað mennirnir eru að tala. Ég er hér á kafi við að endurskrifa rokksöguna og svo verður Popppunktur í sumar. Sem sé, brjálað að gera. Kannski voru þeir að rugla þessu saman við nýja vefmiðilinn LÝÐSKRUM. LÝÐSKRUM er miðill sem er allskonar. Það er pláss fyrir nánast allt inná lýðskrum, greinar, fréttir, menningu, lágmenningu, smámenningu og siðmenningu. Vefurinn er per se ekki beint pólitískur, heldur tilraun til að rífa menningu miðla á íslandi uppúr holræsinu, segir ritstjórinn, Gaukur Úlfarsson. 
---
Maður reynir að fylgjast með því nýjasta í músíkinni. Þegar ég vill fá nýjan og ferskan skammt fer ég á síðu Aquarius plötubúðarinnar í San Fransisco og tékka á nýjustu sendingunni í búðinni. Þar birta þeir nýjar langlokur um hauga af plötum á svona 2 vikna fresti – um allskonar dót sem maður hefur aldrei heyrt um áður. Tóndæmi með flestu. Sumt af þessu sýgur rass að mínu mati (ambient og metall er ekki minn kaffibrúsi), en annað er gott. Í nýjasta skammti er til að mynda áhugavert að heyra um finnska metal-apparatið Nightsatan, proto-pönkaranna í Death, hljómsveitina Thank You sem ku minna á The Ex, Swell Maps og This Heat (allt snilldarbönd bæ ðe vei), nýsýrubandið White Fence og safnplötuna Brass Pins & Match Heads með allskonar undarlegheitum frá öllum heiminum af ævagömlum 78 snúningaplötum. Aquarius er ein mest fræðandi síða sem um getur, t.d. mun meira fræðandi en hipp og kúlið á Pitchfork (indie-biblían ble), enda er Aquarius miklu meira nörd en kúl. Og eins og allir vita er nörd miklu meira kúl en kúl!
---
Hef verið á ferð um Nýja Sjáland með Billy Connelly og þáttum hans Billy Connelly's world tour of New Zealand. Góð blanda af uppistandi og ferðamálaráði Nýja Sjálands. Þetta er gullfallegt land og spennandi. Bæði framandi og kunnuglegt og alveg hinum megin. Einhvern tímann vonast ég til að fara þarna downunder, ferðast bæði um Nýja Sjáland, Ástralíu og Kyrrahafseyjar, en kannski gerist það aldrei og maður verður bara hér að eldast við að borga endalausa reikninga. Ó mig auman, svartsýnisraus. Þættirnir Ray Mears Goes Walkabout (survival þættir í eyðilandi Ástralíu) bíða í flakkaranum. Hef einnig hvílt augun á þáttunum Episodes, sem eru skemmtilegir. Segja frá ensku pari sem skrifaði vinsælan og virtan enskan gamanþátt sem keyptur er til Hollywood. Þar eru þau neydd til að hafa Matt LeBlanc í aðalhlutverki og allt fer í froðukennt rugl. Fyndið og "dýpra" en gerist og gengur.

06.02.11

Í dag er ein öld liðin síðan Ronald Winston Reagan (666, manstu?) fæddist. Ég hefði náttúrlega ekki vitað þetta nema vegna þess að ég talaði við Kristinn Jón Guðmundsson á föstudaginn. Hann er aðdáandi RR og sendi vandaða teikningu af honum til Hvíta hússins þegar Reagan var í embætti, mynd sem hann telur að sé nú í geymslu í Reagan-safninu. Ronald (ásamt Thatcher) var hataðasti maður 9. áratugarins og heil tónlistarstefna, ameríska hard korið, gekk meira og minna út á að dissa hann. Þessi náungi gengur svo langt að segja Reagan "faðir ameríska hard korsins". Í tilefni dagsins eru hér nokkur klassískir Reagan-slagarar:

The Minutemen - If Reagan played disco
Dead Kennedys - We've Got A Bigger Problem Now 
DOA - Fucked up Ronnie
Crucifucks - Hinckley Had A Vision (Steve Shelley á trommum!)
NOFX - Reagan Sucks
The Ramones - My Brain Is Hanging Upside Down (lagið átti að heita Bonzo Goes To Bitburg, en Johnny Ramone, sem var aðdáandi Reagans, neitaði að taka þátt í Reagans dissinu).

Af íslenskum vettvangi má nefna lagið Ronnie & The Punks af annarri plötu Fræbbblanna, sem tekur á þessu máli. Því miður vantar mig þá plötu í safnið og get ekki skellt laginu hér inn.
---
Það finnst fleirum en mér gaman að smakka gosdrykki og skrifa um þá reynslu:
Anthony sérhæfir sig í rótarbjór.
Þessir eru skeggjaðir bindindismenn og drekka allskonar og skrifa um það af miklum móð.
Sódadjörkin skrifa um allskonar.

02.02.11

Bömmer að missa af þessu. Ég verandi þessi Suðar-Kyrrahafs-aðdáandi. Ég var það reyndar ekki 1972. Nú ætlar Háskólabíó hins vegar að byrja aftur með "mánudagsmyndir" (facebookið), en það var á sínum tíma helsti vettvangur þess að sjá "listrænar" myndir. Þeir byrja á Chinatown á mánudaginn. Kostar bara 300 kall inn. Alltaf stuð í Háskólabíói!
---

Croisztans - Helten
Siggi "Jesús" (úr Texas Jesús) og fleiri kappar skipa ísl/dönsku hljómsveitina Croisztans. Hún hefur gert tvær plötur til þessa, Croi ir gne Liberi 2006 og VODKA í fyrra. Croisztans er á leið til Íslands og spilar á Bakkusi næstkomandi föstudag, 4. febrúar. Tónleikarnir hefjast kl 23.00 og er aðgangur ókeypis. 
Hljómsveitin var stofnuð í Kaupmannahöfn 1997 og hefur starfað síðan, með nokkurra ára hléi. Sveitin er  sæmilega þekkt í undirheimum Kaupmannahafnar þá aðallega fyrir mjög líflega og orkumikla tónleika. Þeir halda því fram að þeir komi frá litlu austur evrópsku ríki, Croisztan, sem berst fyrir sjálfstæði sínu. Lögin eru  sungin á croiísku. Tónlistin er austurevrópskt þjóðlaga pönk. Eða vodka rokk.
Meðlimir:
Sigurður Óli Pálmason: Söngur og gítar.
Jón óskar Gíslason: Gítar og mandólín.
Thomas Matyjasik: Trommur.
Emil Jacobi: Slagverk.
Anders Sylvest: Bassi.
Viktor Rasmussen: Harmónikka. 
croisztans.com 

01.02.11
Hundskaðist loks á Rokland í gær. Mér fannst þetta fín mynd og fáránlegt að hún hafi bara fengið 2 stjörnur af 5 í Fbl (sem er kannski ástæðan fyrir því að ég var ekki búinn að sjá hana fyrr, því mér leist svo vel á treilerinn) því yfirleitt fá allar íslenskar myndir amk 3 stjörnur, sama hvaða drasl er í gangi. Og Rokland er alls ekkert drasl. Vel leikin (Elma Lísa og fávitinn bróðir hans Bödda standa sig frábærlega. Maður keypti þau alveg 100% á meðan maður var ekki alveg 100% með Bödda á hreinu. Fannst eins og það vantaði lokaskrúfuna í að persónan væri trúanleg). Myndin er mjög flott og hæfilega chic, sagan kannski með smá skallablettum, en náði samt vel þessum smáplássadrunga og var bara fín skemmtun og allt það. Ég man að bókin var góð, þó ég muni svo sem ekki annað úr henni en að mér fannst endirinn full mikið Hollywood. Það er aðeins búið að hræra í endinum í myndinni, sem er til bóta. Ég man líka eftir því að í bókinni er langur kafli þar sem Böddi/Hallgrímur úthúðar hljómsveitinni The Fall, sem mér fannst dáldið skondið. Það er ekki á hverjum degi sem Mark E Smith ræfillinn er dissaður jafn hressilega. Ég er að sjálffsögðu ósammála hverju orði enda The Fall frábær hljómsveit! Ég mæli heilshugar með Roklandi og ég ætla að reyna að sjá sem mest af þessum íslensku myndum sem eru á leiðinni. Bara sjálfssögð kurteisi við þá sem eru að ströggla í þessum vonlausa bransa.

28.01.11
Speki dagsins: Stundum hlustar maður á stórar plötur. Stundum á litlar. Og stundum á tíu tommur!
---
Ég heyrði af manni sem fór inn á einhvern KFC stað og þar var Rás 1 í gangi. Þetta kalla ég sko framför. Þetta er alveg á skjön við fábjánavæðingu samfélagsins, sem maður nennir ekki að æsa sig yfir heldur pælir bara í einhverju öðru. En eftir hundrað ár: mun þá Rás 1 hljóma eins og Fm957 í dag? Og hvernig hljómar þá FM957? Eins og fengitíminn í Húsdýragarðinum?
---
Talandi um Húsdýragarðinn. Ég fór þangað í gær og hélt ég sæi eðlur og slöngur (hafði heyrt að þannig dýr væru komin). En það var nú ekkert svoleiðis. Hins vegar tók ég eftir því að Atlantsolíu er greinilega byrjuð að sponsa garðinn og það ekkert smá, því skipið á leikvellinum var hreinlega útatað í auglýsingum. Ég tók mynd. Mátti nú ekki hafa þetta aðeins smekklegra, ha? 

Ef vel er skoðað má sjá fimm auglýsingaskildi á skipinu. Afhverju er þessi lykill þarna? spurði annað barnið. Ég sagði að kúk kapítalismans hefði verið skitið á skipið. Eða ekki.
---
Það var lokað í skólunum svo ég var bara að tjilla með krökkunum. Til viðbótar við Húsadýragarðinn var tekið annað klassískt stöff eins og djúpsteikta pulsan í Pulsuvagninum í Hafnarfirði og Yo Yo ís. Svo píndi ég krakkana til að koma með mér að skoða Kópavogsskóla, með mér smá göngutúr niður göngustíg minninganna. Ég kíkti inn með hjartað í buxunum að æstur húsvörður kæmi, en mundi svo ekki eftir neinu. Líklega er búið að breyta öllu. Samt fannst mér allt miklu minna en mér fannst það ætti að vera. 
---
Við smíðastofuna er þessi úti stigagangur á sínum stað. Ég man að stundum fyrir smíðatíma voru hörðustu krakkarnir að sniffa lím þarna ofan í. Þetta hefur verið í 11 eða 12 ára bekk. Svo fóru þau útúrsniffuð að slípa hrútshorn eða saga eitthvað drasl út í krossvið. Ég man ennþá hvernig lyktin af slípuðum hrútshornum er. Ó minningar. (Nei, ég var ekki einn af hörðu krökkunum og hef aldrei siffað lím.)

27.01.11

Valdimar og Memfismafian - Okkar eigin Oslo
Nýjar íslenskar myndir þokast nú nær á færibandi. Ég hef ekki enn haft dug í mér til að sjá Rokland þótt bókin hafi verið fín. Maður drullast á endanum. Næst af færibandinu vellur Okkar eigin Ósló, sem er möst sí, enda Þorsteinn Guðmundsson erkisnillingur þar allt í öllu. Hér er titillagið. Valdimar úr Valdimar syngur og verksmiðjuþrælarnir í Memfismafíunni leika undir. Helgi Svavar úr Hjálmum og Bragi Valdimar semja lagið, Bragi textann. Gaman er að sjá Braga koma svona sterkan inn, en hann hefur sem kunnugt er lítið samið síðan Klamedía X var upp á sitt besta.
---
Úr Memfis-verksmiðjunni er það annars helst að frétta að Megas og Senuþjófarnir eru að taka upp og eru komnir með 30 lög. Samstarf þeirra hefur þegar skilað sér í besta nútímamefni Megasar svo þetta er stórfrétt og tilhlökkunarefni.
---
Sá í gær Micmacs í Bíóparadís, mynd úr ranni þeirra sömu og gerðu Delicatessen og Amelie. Það sást. Leikur í stíl við Glanna glæp og allt voða skrítið og ruglað. Alveg ágætis fílingur. Svo kom svaka ádeila á vopnaframleiðendur. Ágætlega gaman að þessu en ég hló samt aldrei upphátt en einu sinni gaf ég frá mér hljóð sem minnti á hlátur. Var alltaf að spá í hvort liðuga konan væri í raun liðug leikkona eða stöntliðug eða tæknibrelluð. Það er svaka stuð að fara í Bíóparadís. Maður fær Pepsí í gleri. Í ómenningarlegri bíóum gengi það aldrei því bolurinn væri berjandi hvern annan með flöskunum undir ómenningarlegum myndum sem hvetja til ofbeldis. Það er algjör snilld að svona költbíó sé hérna. Svona rétt stendur undir sér í milljónaborgum svo maður verður að mæta eins mikið og maður getur til að hvetja framtakið til dáða.
---

Fyrstu opinberu tónleikar Trúboðanna er á Sódómu í kvöld kl. 22!
Sérstakir gestir hafa boðað komu sína. Gísli Einarsson fréttamaður frá Lundi í Lundareykjadal, mun flytja gamanmál og einnig mun Óttarr Ólafur Proppé guðlasta í einu lagi. En svo vill skemmtileg til að sá texti er einmitt eftir Gísla Einarsson og heitir lagið Vantrúboð.
Hljómsveitin Trúboðarnir var stofnuð fyrir 3 árum síðan sem yfirlýsing um það að meðlimir hljómsveitarinnar ætla sér ekki að verða miðaldrakrísunni að bráð og neita að sætta sig við það að Frímúrarareglan og Oddfellow sé eina félagsstarfið sem að er viðeigandi fyrr menn á þeirra aldri. Í því fellst það Trúboð að viðurkenna staðreyndir, segja alltaf satt og draga ekkert undan. Sannleikurinn er því í raun hið eiginlega Trúboð.
Trúboðarnir eru:
Heiðar Ingi Svanssn, bassi
Karl Örvarsson, saungur
Magnús Magnússon, trommur
Snorri Barón Jónsson, gítar

Fésbókarsíða Trúboðana
---
Sú ímynd sem við höfum af kúrekum, mafíunni, wall street, vélhjólagengjum og diskóinu var búin til í bíómyndum, eða svo vilja þeir hjá Cracked meina.

26.01.11

Óðmenn var frábær hljómsveit. Tvöfalda albúmið frá 1970 svaka snilld og tvær smáskífur frá sama ár sömuleiðis (m.a. Spilltur heimur). Áður en bandið skellti sér í þunga Cream-gírinn, svona þremur árum fyrr, voru þeir í bítli og sálartónlist. Gerðu 4 laga plötu 1967 með frumsömdu efni og gáfu þessa plötu meira að segja út sjáfir (Óðmenn ODEP 001). Þarna voru fyrstu lögin hans Jóhanns G á plasti: Tonight Is The End, Íslenzkt sumarvöld, Í nótt sem leið og Án þín. Sjónvarpið var ungt og ferskt og gerði þátt með Óðmönnum á þessum tíma. Þar tók bandið þessi lög plús eitt enn, Óður Óðmannsins. Þegar hér var komið við sögu voru Engilbert og Shady hætt í bandinu (farin (aftur) í Hljóma, en Pétur Östlund var kominn í bandið frá Hljómum (Thor's Hammer). Auk Péturs og Jóhanns voru Valur Emilsson og Eiríkur Jóhannsson í bandinu og spiluðu báðir á gítar. Þáttinn í heild sinni má skoða hjá Tónlist punktur is, en þar luma menn á ýmsu stöffi sem ekki er á Þúvarpinu. Auk Óðmanna að mæma má sjá ungmenni dansa stífan gogodans, blómarósir spóka sig við tjörnina og allskonar krúttlegt sixtís-efni. Mjög gott stöff! 
---
Tveir af þessum ungu herramönnum sem þarna leika eru látnir. Eiríkur lést fyrir mörgum árum en Valur lést nú í ársbyrjun. Hann hafði sig lítið frammi í poppinu eftir að hann hætti í Óðmönnum, nema hvað hann birtist óvænt með Lummunum 10 árum síðar. Jóhann G. skrifaði minningargrein sem birtist í Mogga í síðustu viku:

45 ár eru nú liðin síðan hljómsveitin Óðmenn kom fram í fyrsta sinn í Stapanum, Ytri-Njarðvík, hinn 11. febrúar 1966. Hljómsveitina skipuðu: Engilbert Jensen, trommur, Eiríkur Jóhannsson, sólógítar, Jóhann G. Jóhannsson, bassi, og Valur Emilsson, gítar. Nú eru tveir úr þessum hópi fallnir frá; Eiríkur, bróðir minn (1972), og Valur Emilsson, frændi minn, sem var jarðsunginn 13. janúar sl. frá Keflavíkurkirkju. Ég minnist Vals sem góðs félaga og vinar en við áttum skemmtilegan tíma saman í Óðmönnum frá 1966-1968 en þá hætti hljómsveitin og leiðir skildi. Valur sneri sér að öðrum verkefnum, en birtist svo aftur á tónlistarsviðinu 1977 sem þátttakandi í hugarfóstri Gunnars Þórðarsonar, Lummunum, sem nutu mikilla vinsælda. Síðan fæst hann við ýmis störf uns hann flyst til Bandaríkjanna 1992, býr þar til 2006 en flytur þá aftur til Íslands. Valur giftist Guðrúnu Valtýsdóttur 1972 og saman eiga þau tvo syni; Emil og Guðmund. Þau skilja og Valur hefur síðar sambúð með Erlu Zakkaríasdóttur sem stendur í nokkur ár. Í Bandaríkjunum giftist Valur Debbie, sem á fyrir dótturina Shannon Holeman, en því sambandi lýkur 2006. Margs er að minnast frá þeim tíma er við Valli, eins og hann var einatt kallaður, vorum félagar í Óðmönnum, þá báðir ungir menn með stóra drauma tengda tónlistinni. Hljómsveitin Óðmenn ferðaðist hringinn í kring um landið sumarið 1966 og jók það vinsældir hljómsveitarinnar mjög. Á þessum árum var samkeppnin í bransanum hörð og mátti til dæmis litlu muna að hljómsveitin hætti þegar Engilbert Jensen gekk aftur til liðs við Hljóma. Nokkrum mánuðum síðar gekk svo Pétur Östlund, fyrrverandi trommari Hljóma, til liðs við Óðmenn og síðar Magnús Kjartansson sem hljómborðsleikari. Hagur Óðmanna vænkast enn þegar ung söngkona, Shady Owens, gerðist söngkona hljómsveitarinnar. Og það var Vali Emilssyni að þakka. Móðir hennar hafði komið að máli við Val og sagt honum frá sönghæfileikum dóttur sinnar og beðið hann að gefa henni tækifæri til að koma á æfingu og syngja eitt eða tvö lög. Valur samþykkti það en þegar hann sagði okkur strákunum frá þessu vorum við ekki par hrifnir í byrjun en létum til leiðast. Og svo gerðist það í Ungó í Keflavík að Shady birtist á æfingu og syngur lagið „Rescue Me“ (með Fontella Bass) og við strákarnir trúum ekki eigin eyrum. Við gerðum okkur grein fyrir því strax að þarna var stjarna fædd. Með Shady Owens sem söngkonu er óhætt að segja að Óðmenn verða ein vinsælasta hljómsveit landsins. Óðmenn gerðu tvo sjónvarpsþætti á ferlinum og eina fjögurra laga plötu en hljómsveitin hættir svo 1968 og Shady byrjar með Hljómum. Valur var músíkalskur, góður söngvari, fljótur að læra og sérstaklega rytmískur, enda stóð til í upphafi að hann yrði trommari Óðmanna, en það breyttist þegar spurðist að Engilbert væri á lausu. Margir góðir félagar úr stétt tónlistarmanna eru horfnir yfir móðuna miklu, nú síðast Valur Emilsson. Far í friði kæri frændi og félagi. Ég votta fjölskyldu Vals og aðstandendum mína dýpstu samúð. 

25.01.11

Hellvar - Ding An Sich
Mín kæra vinkona og samstarfsmaður Heiða er fertug í dag, sem er auðvitað algjört grín, enda Hr. Tími algjör standöpp gaur og endalaust að grínast með fólk, að láta það eldast og rugl. Ytra gervi skiptir auðvitað ef maður er 19 ára inn í sér eins og Heiða eða 26 ára eins og ég. Það þarf þó stækkunargler á spegilslétta húð mína til að halda eitthvað annað en ég sé 26 og Heiða er nú endalaust eins og 17 enda á hráfæði. Hér er nýtt lag með Hellvari af væntanlegri plötu, Stop that Noise (Kimi, mars). Ding an sich er þýska og er hugtak frá Kant sem merkir „hluturinn í sjálfu sér“. Sem í tilfelli Hellvars er „rokk og ról“, en það má, skv. textanum finna inni í Heiðu. Hér kemur svo starfsferill listakonunnar sem ég fékk sendann:

Flestir þekkja hana betur sem Heiðu sem er
tónlistarmaður, heimspekingur, móðir, rokkari, grallari, trúbador,
gítarleikari og söngvari hljómsveitarinnar Hellvar. Og auðvitað var
hún líka í Unun og spilaði á Wembley Arena fyrir fimmtán árum síðan á
25 ára afmælisdeginum sínum – geri aðrir betur!

Á Í dag verða engir stórtónleikar en hlustendum Rásar 2 gefst kostur
á að heyra í afmælisbarninu ásamt hljómsveitinni Hellvar um klukkan 10
um morguninn. Þar mun Hellvar spila nokkur lög ásamt því að frumflytja
splunkunýtt lag, Ding an Sich, af nýrri plötu sveitarinnar Stop That
Noise sem er væntanleg í mars og kemur út hjá Kimi Records. Ding an
Sich er sannkallaður óður til rokktónlistarinnar og þýðir einfaldlega
„Hluturinn í sjálfum sér“. Stop That Noise var tekin upp í desember
síðastliðnum og það var Aron Arnarsson sem sá um upptökur og
hljóðvinnslu.

Næstkomandi föstudagskvöld, þann 28. janúar, heldur hljómsveitin
Hellvar afmælistónleika á skemmtistaðnum Bakkus og hefjast þeir
stundvíslega klukkan níu. Allir eru velkomnir sér að kostnaðarlausu.

Hellvar á Facebook.
Hellvar á Myspace.

Tónlistarsögulegt ágrip Heiðu:

1987:
Hljómsveitin Útúrdúr stofnuð, Sturla Ólafs á trommur, Bergur
Sigurðsson á gítar, Sverrir Ásmunds á bassa og Heiða syngur. Þau taka
þátt í hljómsveitakeppni í Húsafelli, sem Nýdönsk vinnur.

1988:
Útúrdúr keppir í Músíktilraunum, kemst ekki áfram. Hljómsveitin tekur
upp nokkur lög hjá Rúnari Júlíussyni í Geimsteini og lagið „Glansgæjar
og glimmerfés“ kemst í sjónvarpsþáttinn Annir og Appelsínur. Lagið var
hörð ádeila á gleðipoppsveitir sem tröllríða öllu á þessum tíma.

1989-1990:
Heiða býr í Marseille í Frakklandi, kemur fram sem Heiða trúbador og
byrjar að semja á ensku til að Frakkarnir skilji hvað ort er um.
Gengur í hljómsveitina Something Else með frönskum strákum og þau gefa
út eina kassettu með frumsömdu efni sem rokselst á
Marseille-svæðinu.

1991:
Heiða gerist gestasöngkona með Texas Jesús ásamt að hita upp fyrir
ýmsar hljómsveitir sem Heiða trúbador. Gengur í bandið Maat Mons, þar
sem fyrir er til dæmis Biggi trommari í Vinum vors og blóma.

1992:
Vinnur með Something Else í Frakklandi sem húsband á sama
strandarbarnum, allt sumarið.

1993:
Gengur í Sovkhoz og tekur upp nokkur lög sem koma á safndisknum
"Strump í fótinn". Heldur áfram að gesta með Texas Jesús og spila
Heiðu trúbador-gigg.

1994:
Dr. Gunni rænir Heiðu úr Sovkhoz til að koma og syngja í Unun. Unun
starfar í 5 ár frá 1994-1999. Platan æ kemur út 1994 á íslensku og
árið eftir á ensku hjá Bad Taste USA. EP platan Bones kemur út árið
1997 og fullt af smáskífum og dóti hjá breska útgáfufyrirtækinu
Deceptive records. Það þarf varla að taka það fram en plötur Ununnar
rokseljast á Íslandi og sveitin á marga smelli.

1995:
Unun fer í Evróputónleikaferð um haustið.

1996:
Bretlandstúr og Unun spilar á Wembley Arena á 25 ára afmælinu hennar
Heiðu sem flytur til London um haustið.

1997:
Dr. Gunni gerir "Abbababb" og Heiða tekur þátt í henni.

1997:
Unun spilar á Hróarskeldu.

1999:
Unun Ótta kemur út og henni er fylgt eftir með tónleikaferð á
Norðurlöndum. Mikið farið til Finnlands.

2000:
Fyrsta sólóplata Heiðu, Svarið, kemur út. Svarið er tekin upp og unnin
með Curver Thoroddsen. Heiðingjarnir verða til upp úr því verkefni.
Fyrsta útgáfan eru Biggi Baldurs á trommur, Sverrir Ásmunds á bassa,
Elvar Geir Sævars á gítara og Heiða að syngja og á gítar.

2001:
Heiða eignast strák um haustið.

2002:
Klárar BA í heimspeki um vorið.

2003:
Gerir tilrauna-lofi-plötuna Heiða+Bukowski, sem inniheldur spunnin lög
eftir Heiðu við ljóð Charles Bukowski. Heiða spilar gítara inn á
pönkplötuna Ísland Brennur með Dys (eina bandið sem Heiða hef verið í
og ekki sungið í). Heiðingjarnir halda í stúdíó og taka upp
plötuna 10 fingur upp til guðs.

2004-2005:
Heiða og Elvar fara í skiptinám í heimspeki til Berlínar og þar stofna
þau Hellvar og taka upp tónlist í stofunni og spila út um allt.

Áramót 2005/2006:
Þau halda sýninguna "Hellvar - ekki Helvar" í sýningarrýminu
Suðsuðvestur í Reykjanesbæ, ásamt listakonunni Sunnu Guðmundsdóttur
sem gerir vídeólist. Þar var einnig opin vinnustofa tónlistarmanna þar
sem áhorfandinn af götunni getur tekið þátt í vinnslu á geisladiski.
Hellvar taka upp disk og hljóðblanda og fullklára og gefa svo út í 10
eintökum.

2007:
Hellvar sendir frá sér plötuna „Bat out of Hellvar“ sem kemur út hjá
Kimi Records. Flosi Þorgeirsson er í bandinu á bassa og Heiða og Elvar
á gítara. Svo flytur Flosi og Sverrir Ásmunds tekur við á bassa og
Alexandra Ósk Sigurðardóttir er ráðin sem gítar- og hljómborðsleikari.

2008:
Hellvar fer til Kína og Bandaríkjanna að spila.

2009:
Hvað gerðist árið 2009? Heiða er ekki viss um að árið 2009 hafi yfir
höfuð komið. Hún heldur þó að Hellvar hafi farið í eina ferð til
Þýskalands, leikið í Berlín og Weimar.

2010:
Trommuleikarinn Óli Ingólfs er ráðinn í Hellvar og er þá orðin 5 manna
sveit. Æft vel og spilað á útitónleikum í Hudson, upstate New York í
ágúst. Upptökur á nýrri plötu hefjast í desember 2010, og
upptökustjóri er Aron Arnarsson.

Útistandandi verkefni: Raftónlistarmaðurinn Ruddinn hefur verið að fá
Heiðu til að syngja lög fyrir sig, plata væntanleg seinna á árinu.
Annars er Heiða að ljúka Masters-gráðu sinni í heimspeki um þessar
mundir auk þess sem hún er að gera nýja Heiða trúbador-plötu, á nægt
efni í eina góða. Svo stendur til að spila með Magga Eiríks á
tónleikum í mars 2011.

Heiða hefur þar að auki tekið þrisvar sinnum þátt í Eurovison. Fyrst
árið 2003 með lagið Tangó. Næst var það árið 2007 en þá sömdu þau
Heiða og Dr. Gunni í sameiningu „Ég og heilinn minn“. 2008 flutti
Heiða svo „Ísinn“ en lag og texta átti Gunnar Hjálmarsson (og Óli Sindri).

(Ljósmynd af Heiðu er tekin af Markus Moises á Iceland Airwaves 2010).

24.01.11
Helgin: Þorrablót (þá þarf maður ekki að borða þann brjóstsviðakost fyrr en eftir ár), sund, man ekki, hangs, helgarhangs. Fjárfesti í Poison Heart, surviving the Ramones, sjálfsævisögu Dee Dee Ramone, en mér var tilfinnanlega farið að vanta eitthvað að lesa. Sá eina mynd á flakkaranum, svo kallaða Volvo-mynd:

Einn flokk amerískra bíómynda kýs ég að kalla Volvo-myndir því það bregst ekki að fólkið sem fjallað er um í Volvo-mynd ekur Volvo (stundum líka Saab). Þetta eru yfirleitt gáfulegar myndir og ekki algjört fávitarusl. Ef miðaldra karlkennari er í myndinni er hann án efa í brúnum flauelsjakka með dökkbrúnum bótum. Í gær sá ég The Kids are all right, sem er ekta Volvo-mynd um lessupar og sæðisgjafa þeirra. Alveg ágæt mynd, ekki neitt stórfengleg, en ok.
---
Þeir sem vilja vita meira um bíla og bíómyndir geta tékkað á IMCDB - Internet Movie Cars Data Base - sem er alveg fáránleg síða!
---
Íþróttir eða rokk? Hvort er betra fyrir æskufólk? Strákarnir okkar eða Sigur Rós? Eflaust er hvort tveggja fínt, eftir smekk, en á meðan íþróttum er hampað endalaust er rokkið sjálfssprottið og sjálfala. Svo sem allt í lagi mín vegna. Maður reddaði sér bara. Kenndi manni að stóla á sjálfan sig. Hér skrifar Jón Knútur Ármannsson á Neskaupsstað um akkúrat þetta – "Það verða nefnilega alltaf til nördar sem kjósa eitthvað annað en blak, fótbolta, sund eða skíði," skrifar hann réttilega.
---
Mjög gott var að Eldgos komst áfram í Euro. Alltaf frábært þegar maður fer að skellihlæja af kátínu yfir sjónvarpinu en það gerðist einmitt þegar óperusöngkonan hóf upp raust sína. Ég vona að höfundur vinni í sviðsframkomunni og geri eitthvað meiriháttar sprell. Arnar Eggert kom með þá hugmynd að hafa Matta Papa inn í pappa-eldfjalli með bara hausinn upp úr. Svo þegar óperukaflinn byrjar þá færi svart gall að flæða út úr munninum á honum. Tæknideildina í málið. Lögin fimm í síðasta riðli eru komin á netið, fimm missterkar ballads en því miður ekkert megaflipp eins og Eldgosið.
---

Nýdönsk - Í nánd
Hér á ofan er Stuðmennsk auglýsing Nýdanskra fyrir sýninguna Í nánd. Þetta er án efa úrvals húllumhæ og byrjar í Borgarleikhúsinu 9. feb. Nýtt lag hangir við sýninguna, sjá hér að ofan. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé nokkurn veginn alveg möst sí!

19.01.11

Það eina neikvæða við Laugar er að manni er stillt upp fyrir framan sorpkvörn Satans þegar maður fer á strittæki. Þarna standa í röðum sjónvörp sem kreista á mann viðbjóðslegasta velmegunargrefti Vesturlanda (vvv). Alltaf þegar ég er þarna að púla eins og hvert annað plebbazombí er annað hvort í gangi gamalmennaklám með Hugh Hefner (sem bæ ðe vei er 6 mánuðum eldri en pabbi minn) , blóðugar aðgerðir á heiladauðum Ameríkönum í Dr. 91201 eða hvað það heitir (en samt alltaf blörraðar geirvörtur, þótt að öðruleiti standi iðrin út af liðinu þarna og spikið velli gult um rör), fávitamyndbönd á Nova, nýjustu vættrass-hörmungarnar og slepjulegt kóngafólk á Sky, CNN og BBC, froða á Stöð 2 eða beint sjónvarp frá algjöru tilgangsleysi, b.þ.s. Alþingisvarpið. Ég hef ekki horft á neitt þarna síðan skýrslan var kynnt og ég reyni alltaf að horfa beint fram svo ég gleymi þessu (og einnig í von um að sjá einhvern staulast frostkaldann í sund). Því var ánægjulegt að sjá í morgun að von er á Tvímælalaust, nýjum sjónvarpsþætti Borgó og Sigurjóns Kjartanssonar. Þátturinn mun eflaust vekja einhverjar "er þetta boðlegt"-spurningar hjá íhaldsskverum. Ég náði ekki að hlusta á kynningarinnslagið á Stöð 2 því ég var að hlusta á plötuna Throb Throb með Naked Raygun á spilastokk (Sansa, ekki Ipod því ég hata Ipod), en ég náði þó skiltinu og þar stóð að þátturinn verði á dagskrá annað kvöld kl. 19:20 eftir fréttir. Þetta er óruglað, skilst mér. Ofsa gaman! Borgarmálin í nýju ljósi og eitthvað, ég veit það ekki. Bara horfa.

18.01.11
Undarlegur andskoti að Elísabet Péturs Guðmundssonar hafi ekki komist áfram úr fyrsta Júróinu. En svona er þetta bara. Ég tek örugglega aldrei aftur þátt í þessari keppni því það er svo niðurlægjandi að láta þjóðina hafna sér. Í næsta þætti ber það helst til tíðinda að Tómas Hermannsson, bókaútgefandi og höfundur hinnar frábæru ævisögu um Magga Eiríks, og Orri Harðar stórpoppari, semja saman léttpoppað gæðalag í Cardigans stíl sem heitir Beint á ská. Rakel Mjöll Leifsdóttir úr hljómsveitinni Útidúr syngur. Fríkaðasta lag keppninnar og þó víðar væri leitað kemur svo úr óvæntri átt. Þetta er lagið Eldgos, eftir Matthías Stefánsson með texta eftir Kristján Hreinsson. Matti Papi og óperusöngkonan Erla Björg Káradóttir flytja. Þetta er vægast sagt geðveikt lag sem er eins og Jón Leifs og Metallica saman á sýru eða eitthvað. Heyrn er sögu ríkari. Það er mjög mikilvægt að eldfjallakonseptið verði tekið alla leið með eldfjallalegu gimmikki. Til dæmis gætu söngvararnir verið með eldfjallahatta á höfðinu sem byrja að gjósa þegar lagið nær sínum geðveika hápunkti.
---
Horfði á heimildarmynd um Lemmy. Haugur af vitlausum rokkurum ber lofsorð á Lemmy sem sjálfur er utanveltu og áhugalaus og vill bara hanga í tölvuleikjum. Ég hef aldrei náð þungarokki alveg – og aldrei nennt að hafa gaman að Lemmy og Motorhead – en það var alveg gaman að sjá þetta.

15.01.11
Borgarstjórinn okkar er í viðtali í Kuntu, finnsku tímariti og fékk senda derhúfu frá orkufyrirtækinu Tussa. Þorði samt ekki að vera með Tussu-húfuna af eðlilegum ástæðum, "nóg er nú samt". Sóley Tómasdóttir hefði ekki verið ánægð.  Annars bárust þær fréttir í vikunni að Jón og Sigurjón snúi aftur fljótlega og nú í sjónvarpið í þættinum Tvímælalaust. Þetta er mjög gott mál og óruglað.
---
Eins og allir vita er internetið bóla og drasl og tímaeyðsla. Fólk hangir yfir þessu lon og don, facebook og youtube, í algjöru tilgangsleysi til að draga athyglinni frá þeirri staðreynd að ekkert bíður nema dauðinn (segi ég svona í góðu flippi). Ég er alltaf  að reyna að takmarka netgláp en það getur verið erfitt, t.d. þegar maður rekst á snillinga eins og youtube-stjörnuna Tonetta sem er búinn að vera að í 26 ár. Þetta er pervertalegur karldurgur, sem syngur "getnaðarlega" og skekur sér klæðalítill. Aðdáendasíða Tonetta er hér. Hinn fínasti átsæder listamaður hér á ferð.
---
Nokkur umræða hefur átt sér stað um "dauða rokksins", m.a. í Fbl í dag þar sem ég röfla eitthvað í hliðarsúlu. Sé eingöngu miðað við vinsældarlistana er rokkdauðinn sláandi. Skoðaðu hvaða lista sem er frá 1964-1969 og teldu hvað mörg snilldar "rokk"-lög eru þar. (kannski bara þennan yfir #1 lög í UK 1966). Taktu lista frá 2004-2009 (eða þess vegna miklu lengra aftur því rokkið hefur aldrei verið meira lifandi en á Bítlatímanum, vinsældarlega séð) og sjáðu hvað er mikið rokk þar. (kannski bara þennan yfir #1 lög í UK 2009). Reyndar er slatti af ágætis músík þarna, fínu poppi, svo hvað með það þó það sé ekki allt vaðandi í einhverjum gítarrokkurum? Gítarrokk er bara hræ sem smástrákar eins og Yuck og Vaccines sparka á milli sín (tvö dæmi úr Rokkið er dautt grein Freys Eyjólfssonar). Ég tékkaði á þessum böndum sem eiga að vera "framtíð rokksins" - Yuck er eins og Cure, Vaccines eins og Ramones – vá, æðislegt! (kaldhæðni). Auðvitað er ekkert að því að fólk nenni ekki alltaf að hlusta á samskonar stöff áratugum saman. En Liam Gallagher er náttúrlega að koma með nýja plötu sem snýr þessu við (kaldhæðni, aftur.)

11.01.11
Jamm og jæja og þá er Eurovision-forkeppnin að skella á enn eitt árið. Fyrstu fimm lögin (af 15) komin á netið og ég fæ ekki betur heyrt en að Pétur Örn Guðmundsson eigi besta lagið til þessa, enda frábær popplagahöfundur eins og ég hef áður sagt. Elísabet heitir lagið hans á laugardaginn en hann á annað lag í keppninni sem kemur seinna. Vonandi kemur nú eitthvað stuð í þessa keppni og eitthvað öðruvísi og flippað. Það má alltaf vona.
---
Stórfenglegur flutningur Dj Stalín á Gula kafbátinum er nú á Youtube (á eftir Hellvari með Metallica).
---
Einnig á Youtube eru minningarorð Hrafns Gunnlaugssonar um Svein M. Eiðsson. Miklir meistarar báðir 2. 
---

Þetta er óárennileg mynd af síðustu versjón Ununar með finnsku hljómsveitinni Plum sem spilaði með okkur á túr 1999. Ég er ekki að þykjast vera eitthvað tjónaðri en ég er, en ég sver það, ég man ekkert eftir þessari rútu eða þessum túr! Með því að lesa gigggrafíuna get ég þó séð að þetta er staðreynd. Við túruðum í þessari rútu og henni var ekið af einhverjum Kari Vainekainen. Hjálp!
---
Ég man bara einstöku minningaglefsur. Ein er að vera í skógarsloti í miðju Finnlandi í hita og sól. Þar heyrði ég Beautiful Loser með Madonnu í fyrsta skipti og hefur fundist það besta lag Madonnu síðan. Síðan fóru allir í vatnið og sauna eins og maður gerir í Finnlandi.
---
Athygli mín var vakin á því að til sölu er kassetta með S. H. Draumi sem ég gerði í 15 eintökum árið 1985. Spólan var hugsuð til meiks meðal pennavina minna. Mig rámar í þessa spólu en á ekki eintak. Það er svo sem ok því ég á frum-æfingarhúsnæðisupptökurnar af öllum þessum lögum.
---
Fór á Klovn the movie í bíó eins og þú ættir að gera. Nú fer ég með Dagbjart í Tækvandó. Ég er annars að (endur)skrifa rokkbók svona ef þú varst að spá í hvað ég er að gera. Kemur út í haust. Alltaf brjálað að gera!

07.01.11
Dj Stalin hefur tekið Yellow Submarine í þriðja sinn og hættir á toppnum eftir gífurleg fagnaðarlæti í Norræna húsinu. Í hin tvö skiptin var hann nánast baulaður niður: 1. í ferju til Tallinn og 2. á einhverri búllu í Liverpool. Á hvorugum staðnum hafði fólk húmör fyrir Dj. Stalín og asnalegasta Bítlalaginu. Ég minni á að karókí fyrir Ísland er í fullum gangi til miðnættis i dag og á morgun frá 15 - 24. Ef svo ólíklega vill til að þú sért ekki búinn að skrá þig á ekki-selja-rassinn-úr-buxunum listann þá má gera það hér.
---

Ég hef velt nýju útliti The Charlies nokkuð fyrir mér (eftir að hafa skoðað það í Fbl / Vísi í dag). Helst finnst mér þær alveg eins og barbie-dúkkur til mjaðmanna, eða gínur í búð, alveg lausar við að vera sexí. Skuplur, svört gúmmístígvél og búkonumjaðmir – þá værum við að tala saman. En kannski snarvirkar þetta á markhópinn – hvað veit ég!? (ps. Er Lady Gaga gengin í Charlies? – óheppilega staðsettur borði!)
---
Talandi um hámenningarlegt efni, þá hef ég einnig sökkt mér niður í myndir frá konukvöldi Völu Grand. Hvað eru Geiri í Goldfinger og Björn Blöndal að gera þarna fyrst þetta er konukvöld?
---
Fyrst ég er farinn að setja hér inn myndir sem ættu að vera á Flickyourlife þá get ég svo sem alveg eins sett þessa líka:

Risakrappi. Ho ho. Strákarnir sem gera hina fínu Flick síðu mættu annars alveg fara að ritskoða innsent efni. Alveg óþarfi að birta hvaða drasl sem er.
---

Eins og ég var að segja er Boardwalk Empire snilldarþáttur. Steve Buscemi í aðalhlutverkinu er náttúrlega snillingur og besti vinur aðal er þessi gaur hérna að ofan. Það háir mér samt svoldið að hann lítur alveg eins út og Matti á Xinu Rás 2. Ég vissi nú ekki af þessum snilldarþætti, fyrr en ég heyrði Frey Eyjólfsson tala um hann í útvabbinu. Þættirnir eru sýndir á Stöð 2. Þetta sagði Freyr:

Bófar og Brennivín
Á þriðja áratug síðustu aldar var bannað að drekka brennivín í Bandaríkjunum. Þetta bann stóð í 13 ár, frá árunum 1920 til 1933, og þá var með öllu óheimilt að selja eða framleiða áfengi.
Bannárin stóðu í 20 ár á Íslandi - frá árunum 1915 til 1935. Þetta þótti á sínum tíma mikið þjóðþrifaverk til þess að sporna gegn ofdrykkju og tilheyrandi ósóma. Þetta varð þó ekki til þess að fólk hætti að drekka; síður en svo, fólk drakk mun meira en áður. Margt alveg ótrúlega frumlegt var gert til þess að verða sér úti um guðaveigarnar. Á skömmum tíma varð bruggstarfsemi að veigamiklum heimilisiðnaði og bruggað var á hverjum bæ. Mikið var um smygl og læknar gáfu út lyfseðla á áfengi – eða eins og segir: „Léttast brár við læknaspritt, lifnar klár og gaman“. Fólk sumsé drakk og skemmti sér sem aldrei fyrr þrátt fyrir boð og bönn.
Grunnur var lagður að skipulagðri glæpastarfsemi í Bandaríkjunum á þessum árum. Glæpamenn og ýmiskonar ólögleg starfsemi í kringum áfengi, fjárhættuspil og vændi spruttu upp eins og gorkúlur. Bannárin voru tími bófanna þegar þeir lögðu undir sig heilu borgirnar og yfirvöld áttu í miklu stríði við þá. Bannárin eru á vissan hátt svolítið heillandi tími. Þarna er heimurinn óðum að jafna sig eftir blóðuga og hryllilega heimsstyrjöld og miklar framfarir fara að eiga sér stað. Miklar og bættar samgöngur; farþegaflug var hafið, bíllinn varð almenningseign og skemmtisiglingar hófust á lúxusskipum um öll heimsins höf.  Framfarir og aukið fé; hagvöxtur, hamingja og ný tíska. Konur klæddust styttri pilsum, klipptu hárið stutt og fólk varð gjörsamlega skemmtanasjúkt. En ekki var þó allt sem sýndist. Bilið milli fátækra og ríkra breikkaði og atvinnuleysi var mikið en allt þandist út í mikilli bólu sem síðan sprakk í heimskreppunni miklu. 
Bannárin, brennivínið og glæpagengin í Bandaríkjnum á þeim tíma eru viðfangsefni sjónvarpsþáttanna  Boardwalk Empire sem hafa slegið í gegn þetta haustið í Bandaríkjunum. Það eru ekki ómerkari menn en Martin Scorsese, Steve Buscemi og fleiri góðir sem leggja verkefninu lið. Þarna lifna við helstu glæponar bannáranna: Al Capone, Lucky Luciano, Arnold Rothstein, Johnny Torrio en aðalsöguhetjan er hinn margslungni  Enoch L. Johnson sem er kallaður í þessum þáttun Nucki Thomsson. Þessi maður er talinn hafa stjórnað Atlantic City á þessum tíma – var maðurinn á bakvið allt og alla. Hann var gjaldkeri og fjársýslumaður borgarinnar og einn helsti yfirmaður og ráðgjafi borgarstjórnar og borgarstjóra, einn helsti áhrifamaður Repúblikanaflokksins á þessu svæði og stjórnaði svo auðvitað lögreglunni sem lögregluforingi bogarinnar.  En sömuleiðis var hann helsti og mesti glæpaforingi borgarinnar. Stýrði allri glæpastarfsemi, rak ólöglega næturklúbba, átti spilavíti og vændishús, rak bruggverksmiðjur og seldi ólöglegt áfengi. Atlantic City var ein helsta skemmti- og gleðiborg Bandaríkjanna á þessum árum – Las Vegas síns tíma. Fjárstreymið var því mikið og þangað var áfenginu smyglað frá Evrópu til Bandaríkjanna. Þessir sjónvarpsþættir sem gera þessari sögu skil byggja á magnaðri sögu Enoch L. Johnson sem var sögð í bókinni Boardwalk Empire: The Birth, High Times, and Corruption of Atlantic City sem kom út fyrir nokkrum árum. Þessi stórskemmtilega persóna, sem var í senn stjórnmálamaður, kaupsýslumaður og hreinræktaður glæpon, nýtur ákveðinnar sérstöðu í glæpasögu Bandaríkjanna. Hann þótti orðheppinn og skemmtilegur, var þekktur fyrir mikinn íburð, glæsileika og litríkan klæðnað. Það er enginn mafíósi á þessum tíma sem hafði jafnmikil ítök í stjórnmálum og viðskiptum og Enoch L. Johnson. Hann var beggja vegna borðsins – stjórnaði lögreglunni og glæpagengjunum. En áhrif hans voru víðtæk. Hann byggði upp og stórefldi Atlantic City sem er að mörgu leyti samofin sögu hans. Svo var hann auðvitað hundeltur og rannsakaður af bandarískum yfirvöldum í mörg ár þar til hann var að lokum handtekinn og dæmdur fyrir skattsvik eins og kollegi hans Al Capone og sat inni í fjögur ár. En lifði lengi og vel; dó 9. desember árið 1968 þá 81 árs gamall. Þrátt fyrir glæfralega hegðun og glæpsamlegt líf var hann alla tíð virtur og vinsæll í sinni borg. Eftirmæli um hann þegar hann dó í helsta dagblaði borgarinnar, Atlantic City Press, bera þess vitni:
„Hann var fæddur leiðtogi. Glæsilegur og heillandi, maður fólksins með einstakt minni fyrir nöfnum og fólki. Siðblindur og metnaðarfullur snillingur. Átvagl, drykkjumaður, elskhugi sem elskaði gjálífi og skemmtanir en umfram allt elskaði hann lífið – og fólkið elskaði hann“. Einstakur maður!

05.03.11

Frábærasta netsíðan í dag er tvímælalaust Kim Jong-Il looking at things, sem er haugur af myndum af Kim Jong-Il að horfa á allskonar og er dáleiðandi snilld. Norður Kórea er dularfyllsta ríkið í dag og foringinn stórfenglegur. Sjáðu sólgleraugun, sjáði úlpuna! (Sjáðu lúffuna!)
---

Tveir popparar dóu í gær, bassaleikari Japan (ég er á núllpunkti varðandi það band) og Gerry Rafferty. Gerry þekki ég fyrst og fremst fyrir Baker Street því ég tók það nokkuð mikið inn á mig þegar ég var að byrja að fylgjast með poppi 1978. Mjög gott lag. Saxófónleikarann Raf Ravenscroft sem spilaði í þessu lagi, var sessjónmaður og vildi meina að þetta lag hefði næstum gert hann atvinnulausan. Eftir að hann spilaði inn á lagið hefðu viðskiptavinirnir haldið að hann hlyti að vera rosalega dýr og síminn hætti nánast að hringja hjá honum. Saxófónar eru náttúrlega uppfinning djöfulsins og lítið af þeim að viti í rokkinu (nei, þetta var nú óþarfi). Í saxótengslum er vert að minnast á hljómsveitina Blurt (saxað skonkrokk), James Change og The Contortions (sálað no wave) og Jens Hanson og Sálina auðvitað (léttsálað íslenskt gæðapopp).
---

Ég er sökker fyrir nýjum matvörum. Stökk því á döðlukassa made in Iran (hvenær sér maður eitthvað made in Iran í búðunum hérna? Ekki oft!) í Krónunni (ekkert svo dýr, 500 kall eða eitthvað). Askjan undir döðlurnar er einstaklega flott og er nú notuð undir dót enda hafa allar gómsætu döðlurnar verið étnar upp til agna. Úrval exótískra ávaxta var með miklum ágætum í Hagkaup í gær. Meira að segja komnar krumpaðar tegundir sem ég hef aldrei séð áður en þorði ekki að kaupa. Keypti þó eitt Tamarillo sem var illaþefjandi og ógeðslega vont og ég henti helmingnum. Vogun vinnur, vogun tapar.


Jón Gunnar Geirdal hélt svaka partí á Borginni á dögunum til að kynna VitaminWater sem Vífilfell hefur sett í sölu. Þarna voru Sigur Rós og Björk og Krummi í Mínus og allskonar eðall. Mér var að sjálfssögðu ekki boðið en fékk þó sendan samplerkassa með öllum sex vítamín vötnunum sem eru í sölu hér (miklu fleiri til í USA). Hinn fávitalegi 50 Cent mun hafa makað krókinn á að selja brandið og hver drykkur á að hafa einhverja "virkni" - einn er orkudrykkur meðan annar á að vera góður við þynnku o.s.frv. Apótekaralegt útliðið á flöskunum gefur til að kynna þetta sé eitthvað annað en sykrað vatn. Smökkun hefst bráðlega og verða niðurstöðurnar náttúrlega kynntar í Gos
---
Stöð 2 er að byrja að sýna Boardwalk Empire, snilldarþátt frá HBO. Ég horfði á síðasta þátt fyrstu seríu í gær (12. þátt) og bíð spenntur eftir næsta skammti. Steve Buscemi leikur aðal, spilltan en mannlegan Nucki Thomsson, innsta kopp í mafíubúrinu í Atlanta City. Gerist á bannárunum. Útlit er sannfærandi enda mun fyrsti þátturinn í seríunni hafa verið dýrasti sjónvarpsþáttur sögunnar. Fyrir þá sem hafa séð þetta getur verið gaman að sjá þetta tæknibrellumyndband.

03.01.11
Vér feðgar fórum á "fjölskyldumyndina" Gauragang. Ég þurfti ekkert að svara fyrir það hvað Ormur var alltaf að hamast á sér undir sæng. Mér fannst nú ekki alveg nógu mikið fútt í þessu, sagði ég eftir mynd, en Dagbjarti fannst myndin fín. Ógeðslegast fannst honum að Ormur skyldi æla tvisvar, næst ógeðslegast að hann kyssti stelpu á munninn og í þriðja sæti að það sást í rassinn á honum.
---
Myndin á að gerast veturinn 1979/80 og því hélt ég að nostalgísk bylgja myndi leika um mig. Það var ekki mikið. Ég man ekki eftir að neinn klæddi sig svona eins og í myndinni. Í kringum mig voru allir í hermannaúlpum frá Vinnufatabúðinni. Ég var líka að leita að rugli. Eitt var grænlenski fáninn sem sást blakta í byrjun myndar. Fáninn var ekki kynntur til sögunnar fyrr en 1985. Mesta ruglið var þó að sjá Orm dæla tíköllum í myntsíma í gríð og erg. Fyrir það fyrsta var "gamla krónan" í gildi á þessum tíma og þar að auki voru tíkallar í seðlaformi til ársins 1984. Þetta eyðilagði alveg myndina fyrir mér. Nei nei, ég segi svona. Alveg ágæt mynd, vel leikin og gerð (heyrði þó ekki alveg allt sem fólkið var að segja, en ég er náttúrlega heyrnalaus), en það mætti sem sé alveg hafa verið meira fútt í henni, hún fyndnari og viðburðaríkari. Kannski var ekki endilega lagt upp með það heldur átti að sýna svona "ungling á krössgötum" eitthvað. Strákurinn sem leikur Orm var ekki endilega réttur maður í hlutverkið. Hann er meira svona Gísli Örn / Christopher Bale týpan, eiginlega of myndarlegur til að maður trúi að hann sé þessi listaspíra sem hann á að vera. Helvítis fegurðarfordómar náttúrlega í mér, en eru samt ekki allir frekar ljótir sem fást við ritstörf? Nema Þorgrímur greyið, sem kvartaði (eðlilega) nýlega undan því að fegurðin hái honum.
---
Næst ber mér að sjálfssögðu siðferðisleg skilda til að fara á Klovn.

01.01.11
Þetta er nú bara svo fín dagsetning að maður verður að hengja eitthvað við hana. 010111. 2011, það er nú alveg geðveikt ártal. Alveg hefði maður búist við einhverju meira rosalegu á þessu ári fyrir 30 árum kannski, 1981. Að framtíðin væri frábrugnari en þátíðin. Mig hefur annars verið að dreyma þrjátíu ár aftur í tímann. Í nótt dreymdi mig að það væri allt vitlaust í þjóðfélaginu af því ég hafði spilað Systematic Death með Crass í útvarpinu. Aðra nótt dreymdi mig að ég væri snúinn aftur í bekk í MK og allir krakkarnir voru að eipsjitta yfir farsímanum sem ég var með á mér. Farsímar og tölvur, er það ekki það eina sem framtíðin (nútíðin) er öðruvísi en nítjánhundruðáttatíuogeitthvað?
---
Skaupið var fínt. Dáldið væld að kalla Bjarna Ben gjörspilltan lögfræðing frá Garðabæ, en beint í mark. Allir fengu kökk yfir endinum. Fyndið þetta inspired by Iceland dæmi líka. Já já, bara margt fyndið í þessu.
---
Tvær nýjar gostegundir eru komnar í Gos. Pommac, hinn sænski úrvalsmjöður sem Hr. Borgarstjóri komst upp á bragðið með í Svíþjóðarferð sinni í sumar, og Klettagos Cola, hin mikilsvirta viðbót við íslensku gosdrykkjaflóruna.
---
Gera 2011:
ROKK2 (vinnuheiti) - Ný hnausþykkt og litrík og æðisleg rokk og poppsaga Íslands 1956-2010. (Útg. Sögur, okt 2011.)
PPPP7 - í sumar
S. H. Draumur á Eistnaflugi!
F.S.Í.H. - Nýr barnasöngleikur og plata...
A.F.
S.S.
XX
o.s.frv.

Hér er 2010.