Kynning

Meginmarkmið ungmennavefs Alþingis er að auðvelda ungu fólki að gera sér grein fyrir hlutverki löggjafarþings okkar og greiða aðgang að upplýsingum um það. Hugmyndin er að þeir sem heimsækja vefinn finni upplýsingar um Alþingið með því að ferðast um húsið og láta forvitnina ráða en einnig að kennarar, nemendur og aðrir gestir geti notað þessa upplýsingaveitu markvisst við upplýsingaöflun og nám. Á þessari kennarasíðu eru settar fram tvær hugmyndir að verkefnum fyrir nemendur. Einn kostur þess að setja námsefnið fram á vef er möguleikinn á því að bæta og auka við efnið og standa vonir til þess að smám saman verði bætt við vefinn leikjum, þrautum og fleiri verkefnum eftir því sem reynslan kennir. Vefurinn ætti að geta nýst vel við nám í samfélagsgreinum, sérstaklega í Íslandssögu, þjóðfélagsfræði og lífsleikni.

Rammi þessa vefs er hús sem minnir um margt á Alþingishúsið og er skírskotun til þess. Í hverju herbergi er gerð grein fyrir atriðum sem snerta sögu eða störf Alþingis . Með því að smella á ýmsa muni, myndir og persónur má fá fram stutta texta með upplýsingum. Í hverju herbergi er hægt að snúa sér, farið er á milli herbergja með því að opna hurðir. Neðst á skjánum er alltaf mynd af húsinu. Ef smellt er á þá mynd eftir að inn er komið, kemur fram yfirlitskort af húsinu og þaðan er hægt að fara inn í herbergin með því að smella á nafn þeirra. Áhugavert er fyrir nemendur að fá fyrst að vafra um húsið til að kynnast hvað það hefur upp á að bjóða áður en lögð eru fyrir þá ákveðin verkefni.

Anddyri
Með því að tala við þingvörð koma fram eftirtaldir valmöguleikar; að fá leiðbeiningar um húsið, fara beint í bóka- og skjalageymsluna eða skoða verkefni.

Bóka- og skjalageymsla

Þar má finna þrjá bókaskápa með átta bókaflokkum. Bækurnar eru myndskreyttar og hafa að geyma stutta texta. Hægt er að taka bækurnar með sér milli herbergja og einnig er hægt að prenta út opnur úr bókunum. Bókaflokkarnir eru:

  • Þrískipting ríkisvaldsins
  • Fulltrúalýðræði
  • Þinghald
  • Stofnanir sem heyra undir Alþingi
  • Störf Alþingis
  • Lög
  • Saga Alþingis
  • Alþingishúsið

Gangur
Gangurinn tengir herbergin saman og opnar leið inn í ýmiss herbergi.

Stigaherbergi
Í stigaherberginu vinnur fréttakona sem er tilbúin að ræða um hlutverk fjölmiðla gagnvart Alþingi og þegnum landsins.

Þingsalur
Í þingsalnum má finna þingmenn og starfsmann Alþingis en einnig situr þar maður á þingpöllunum. Hver og einn segir frá sínu hlutverki í þinghúsinu.

Ferill lagafrumvarps
Ferill lagafrumvarps er sýndur bæði myndrænt og með texta.

Þingflokksherbergi
Sýnd eru merki þingflokkanna og þau veita beina leið að heimasíðu þeirra. Einnig er starfsmaður þingflokka tilbúinn að veita upplýsingar um störf þingflokka.

Kosningaherbergi

Kjördæmaskipan er sýnd á stóru veggkorti og listi er yfir þingmenn í hverju kjördæmi. Einnig er þar staddur kjósandi sem ræðir um kosningafyrirkomulag og mikilvægi kosninga.

Kringlan
Í Kringlunni eru tveir gamlir menn. Annar er húsvörður og þarf hann aðstoð við að velja mynd til að setja upp á vegg. Hinn er sögufróður maður sem gjarnan vill vekja áhuga fólks á sögu Alþingis.

Verkefni I

Verkefni fyrir nemendur í 5. - 7. bekk
Verkefnið Könnunarferðin hefur það markmið að gefa nemendum tækifæri til að kynnast húsinu og þeim upplýsingum sem þar er að finna. Þeir ferðast um húsið og vakin er athygli þeirra á því sem fyrir augun ber. Þeir þurfa að lesa sér til um hlutverk þingmanna og starfsmanna þingsins en jafnframt skoða þeir húsið sjálft, merka muni og bókaskáp hússins.

Verkefninu fylgir vinnublað sem kennarar geta prentað út og fjölfaldað fyrir nemendur. Þar er lögð áhersla á að þeir skrái skipulega þær upplýsingar sem þeir afla og taki afstöðu til þeirra. Í lokin setja þeir sig í spor alþingismanns og velta fyrir sér hvaða mál brýnt er að taka upp á þingi. Eyðublaðið er hugsað til að einfalda nemendum skráningu og auðvelda umræður að lokinni könnunarferð.

Verkefni II

Verkefni fyrir nemendur í 8. - 10. bekk
Hér er að finna tvær gerðir af verkefnum fyrir nemendur í 8. - 10. bekk. Annars vegar er um að ræða kynningarverkefni, Skyggnst inn í heim Alþingis og hins vegar sex hópverkefni undir yfirheitinu Þingræði.

Markmið kynningarverkefnisins er að nemendur kynnist ungmennavef Alþingis og ýmsum þeim hugmyndum sem þingræðið byggir á. Gert er ráð fyrir að nemendur fari um húsið og leiti upplýsinga sem er að finna á bak við persónur, hluti og í bókaskáp ungmennahússins. Nemendur hafa sjálfir aðgang að verkefninu á vefnum en hér á kennarasíðunni er að finna verkefnablað með nánari útfærslu sem prenta má út fyrir nemendur til að auðvelda þeim skráningu.

Verkefni III

Hópverkefnin er einungis að finna hér á kennarasíðunni. Markmið þeirra er að nemendur kynnist nánar störfum Alþingis nánar, hlutverki þess og aðferðum við að setja leikreglur í samfélaginu. Jafnframt fái þeir tækifæri til að átta sig á hvað felst í hugtakinu fulltrúalýðræði og geri sér grein fyrir möguleikum þegnanna á að hafa áhrif og vera virkir í lýðræðisþjóðfélagi.

Viðfangsefninu er skipt í sex hópverkefni sem hvert um sig fjallar um afmarkaðan þátt þingsins. Þau eru: starfshættir þingsins; fastanefndir þingsins; hvernig er valið á þing; fulltrúar okkar á þingi; lagasetning; og fjárlög. Allar upplýsingar er að finna í bókaherbergi þingsins og á þeim vefslóðum sem þar er bent á en viðbótarupplýsingum hefur verið dreift víða um húsið.

Gert er ráð fyrir að nemendahóparnir kynni verkefni sín hver fyrir öðrum, ræði um þau og tengi saman þær upplýsingar sem mismunandi hópar hafa aflað. Verklok geta verið með ýmsu móti. Til að mynda geta nemendur haldið þingfund um ákveðin málefni, flutt „jómfrúarræður" sínar út frá öðrum og sjöunda lið kynningarverkefnisins og skrifað þingmönnum eða fastanefndum um þau mál sem brenna á nemendahópnum. Gott er að safna verkefnunum frá öllum hópunum saman í eina möppu sem nemendur hafa áfram aðgang að.