Þingræði - Hópverkefni:

1. Starfshættir þingsins
Hlutverk Alþingis er að setja lög, ræða um pólitísk mál og veita framkvæmdar- og dómsvaldi aðhald. Kynnið ykkur hvernig þingið starfar og skoðið sérstaklega eftirfarandi atriði:

a) Þingsköp.
b) Þingfundi - umræður.
c) Þingsályktunartillögur.

2. Fastanefndir þingsins
Á Alþingi starfa fastanefndir um ákveðin málefni. Kynnið ykkur þessar nefndir og skoðið sérstaklega eftirfarandi atriði:


a) Fjölda og heiti nefndanna.
b) Verksvið hverrar nefndar.
c) Hvernig þær starfa.

3. Hvernig valið er á þing
Fyrsta regla lýðræðisfyrirkomulags okkar eru almennar þingkosningar. Ákveðnar reglur gilda um hvernig valið er á þing. Meginreglan er sú að kosið sé til þings á fjögurra ára fresti. Kynnið ykkur fyrirkomulag þingkosninga og hvernig unnið er úr niðurstöðum þeirra. Skoðið eftirfarandi atriði sérstaklega:

a) Frambjóðendur og kjósendur.
b) Stjórnmálaflokka.
c) Kosningafyrirkomulag.
d) Niðurstaða kosninga -- úthlutun þingsæta

4. Fulltrúar okkar á þingi
Starf þingmanna er mjög mikilvægt og fjölþætt. Aflið ykkur upplýsinga um í hverju þetta starf er fólgið. Gott getur verið að beina sjónum að eftirfarandi þáttum:

a) Hverjir sitja á þingi nú og fyrir hvaða flokka?
b) Hvernig starfa þingflokkar?
c) Hver er ábyrgð þingmanna?
d) Hvernig hefur þingmaður samband við kjósendur?
e) Í hverju er starf þingmanns fólgið?

5. Lagasetning
Lög eru leikreglur þjóðfélagsins sem gilda fyrir alla þegna þess. Þau eru undirstaða í stjórnun þjóðfélagsins alls sem og í samskiptum þess við önnur ríki. Aflið ykkur upplýsinga um hvernig lög verða til og hvað býr að baki lagasetninga. Í athugun ykkar getið þið stuðst við eftirfarandi atriði:

a) Af hverju þarf lög?
b) Hvað kemur hugmynd að lagasetningu af stað?
c) Feril lagafrumvarps.
d) Hvað eru reglugerðir?
e) Á hvern hátt sker stjórnarskráin sig frá öðrum lögum?
f) Hvernig vitum við hvaða lög eru í gildi?

6. Fjárlög
Ein mikilvægasta umræða í þinginu á hverju ári er umræðan um fjárlögin. Þar er tekist á um með hvaða móti öflun og ráðstöfun fjármuna ríkissjóðs skuli fara fram. Kynnið ykkur hvernig staðið er að fjárlagagerð.


a) Til hvers eru fjárlög?
b) Af hverju eru fjárlög mikilvæg?
c) Hvernig verða fjárlög til?
d) Hvaðan koma fjármunirnir og hverjir eru helstu liðir fjárlaga?