UM: KJALLARAR
Þessir kjallarar birtust í DV á tímabilinu 09/09/2005 - 01/04/2006 

Um: Megrun
Megrun hefur verið snar þáttur í lífi mínu. Ég hef verið mismikið að spá í þessu í gegnum tíðina, en er búinn að prófa ýmsar gagnslausar leiðir. Ég var búinn að vera í átaki og var nálægt kjörþyngd þegar ég náði mér loksins í konu. Þá fannst mér ekki taka því lengur að halda í við mig enda er ég náttúrlega átfíkill þegar allt kemur til alls.
Það er lítið gaman að kaupa föt þegar maður er keppur. Maður kemst ekki í neitt! Í fyrra fór ég í Hagkaup til að kaupa buxur. Ég passaði ekki í neitt enda hafði ég aldrei verið þyngri. Sama sagan í Dressman, sem þó hafði oft verið þrautarlendingin. Með kalið hjarta fór í fyrsta skipti í sérstaka fitubollubúð, sem kölluð er "High and Mighty" af fyrirhyggju fyrir þeim afbrigðilegu. Og afbrigðilegur fannst mér ég sannarlega vera þarna inni. Eins og eitthvað frík að troða mér í sérhönnuð föt fyrir frík. En í búðinni sá ég ljósið. Að ekki væri hægt að láta þessa misþyrmingu á líkamanum viðgangast lengur. Nýtt líf nr. 119 var við það að hefjast.
Lausnin er auðvitað hlægilega einföld. Éta minna og hollar, hreyfa sig meira. Því minna sem þú étur og því meira sem þú hreyfir þig því fljótar gengur þetta. Viljastyrkur og sjálfsagi er málið, ekki duft og töflur. 
Rúmu ári síðar poka High and Mighty fötin. Ég fæ á mig föt í tískubúðum þar sem unglingar versla og varð að kaupa mér nýtt belti því því nýja gatið sem ég gerði á gamla beltið með síl var ekki alveg að gera sig.
Séu hlunkar enn tvístígandi eftir þennan lestur langar mig að í vitna í göngugarp sem fór á Suðurpólinn og var spurður að því hvernig hann fór að. "Ég tók bara eitt skref," sagði garpurinn, "og svo annað og annað og annað..."

Um: Banana
Einu sinni spilaði Unun í Eistlandi og Lettlandi. Það var upplifun að koma þarna á þessum tíma. Þetta var 1999 og vofa kommúnismans sveif enn yfir vötnum. Það er ekki langt á milli landanna, svona eins og til Selfoss frá landamærunum til Rigu, fannst mér. Lettlenska bandið Sirke var með okkur og mér fannst furðulegt að þau þyrftu að tala við krakka í Eistlandi á ensku. Eitt giggið var í gamalli kommúnistaverksmiðju í bænum Parnu í Eistlandi. Við spiluðum í gegnum tékkneska magnara sem heita Tesla og bandið hljómaði eins og traktor. Við drukkum mikið af eistneska bjórnum Rock, sem var eitt það fyrsta sem byrjað var að framleiða eftir að kommadraslið datt upp fyrir.
Eistneska hljómsveitin Blind spilaði líka. Þetta var stórband heima fyrir enda varð allt vitlaust þegar strákarnir spiluðu. Baksviðs talaði ég við söngvarann og hann mundi tímana tvenna. Hann sagði mér frá því hvað allt var leiðinlegt og þrúgandi þegar Eistland var hluti af Sovétríkjunum. Honum var einhverra hluta vegna tíðrætt um banana. Það voru nefnilega ekki til neinir bananar í kommalandi, en hann hafði samt séð þá í bók eða bíó. Í mörg ár lét hann sig dreyma um að smakka banana. "Þegar ég gat loksins keypt banana út í búð vissi ég að við værum orðin frjáls," játaði hann fyrir mér af einlægni.
Ég man ekki eftir bananalausu Íslandi. Hér leggur fólk banana á tröppur alþingis eins og ekkert sé sjálfssagðara. Ég hef getað étið banana frá fæðingu, en foreldrar mínir voru ekki svo heppnir enda lifðu þeir í heimi þar sem fólk fékk bara epli á jólunum en aldrei banana. Ég man þegar kívíið kom fyrst. Mér þótti það útúrfríkað. Nú er svo mikið úrval af framandi ávöxtum að ég hef ekki undan að smakka þá. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja frelsið og góðærið!

Um: Haust og hús
Ég er gapandi yfir því hversu snemma haustar í ár. Esjan orðin hvít og varla leggjandi á hana lengur nema með broddum. Ég stóð í þeirri trú að vegna gróðurhúsaáhrifa gæti maður haft það náðugt í allan vetur og þyrfti jafnvel ekki að setja nagla undir skrjóðinn. Þetta er svindl! 
Engu að síður tek ég haustinu fagnandi, enda uppáhaldárstíðin mín. Það er notalegt að kúldrast í myrkrinu og reyna að klæða af sér kuldann. Svo er ólíkt meira í boði af andlegu snakki en um grillpenslað sumarið. Algjör heví metal Kvikmyndahátíð er t.d. að skella á, full af girnilegu stöffi að mér sýnist, og Kvikmyndasafnið er byrjað að sýna gamla snilld í Bæjarbíói í Hafnarfirði.
Að fara á sýningu í Bæjarbíói er eins og stíga í tímavél og upplifa bíósýningu frá sirka 1975. Ekkert Dolby eða THX-rugl, engin helvítis hallandi sæti, heldur óþægilegir bekkir, flöktandi mynd á tjaldi og hljóð sem maður þarf að hafa sig allan við að greina. Svo er boðið upp á allskonar snilld úr kvikmyndasögunni og vitleysingar eins og Rob Schneider eru hvergi nærri. Þegar allt kemur til alls vil ég frekar ég horfa á snilld á óþægilegum bekk en rusl í dúnamjúkum rassnuddandi lúxusstól. Þ.e. innihaldið skiptir öllu máli, umgjörðin litlu – það getur m.a.s. verið betri að umgjörðin sé þannig að maður fái flassbakk og upplifi menningarlega fortíð sína.
Nýja tónlistarhúsið á Hafnarbakkanum lítur á myndum út eins og eitthvað úr vísindaskáldsögu. Svona líka ægilega flott og rándýrt, allt fljótandi í gleri og glitrandi málmum enda sýruhausinn Ólafur Elíasson með puttana í þessu. Ótrúleg framsýni og drifkraftur! æpa menn nú hver upp í annan og sjá fyrir sér framtíð þar sem allir eru hættir að vera týpískir íslenskir plebbar. Í framtíðinni munum við öll passa inn í höllina, voða fín í kjólfötum, kannski akkúrat þá að láta Pólverja byggja fyrir okkur óðal í Vatnsmýrinni. Ég er viss um að árið 2009 verður Húsdýragarðurinn alltaf galtómur því allir verða í nýju höllinni að mæna á Atla Heimi og Sigrúnu Eðvalds. Þau verða auðvitað að grilla pylsur ofan í liðið og í bakgrunni sargar Sinfó Yesterday.

Um: Gat
Aumingja við. Á okkur er gat sem við rembumst við að fylla með misjöfnum meðölum. Gatið á sumum er stærra en á öðrum því óblíðar móttökur á uppeldisferlinu hafa teygt á því. Það sem gerir gatið á okkur er vitið, sú vissa að einu sinni vorum við ekki til og að einhvern tímann – gífurlega bráðlega jarðfræðilega séð – verðum við ekki til upp á nýtt. Vitneskjan um yfirvofandi dauða og efinn samfara þeirri nöpru staðreynd er gatið sem við lifum til að fylla.
Flestir fylla í gatið með trúnni á að við séum ekki bara einhver undarleg tilviljun heldur púsl í risapúsli "æðri máttarvalda". Að við séum börn "Hans" og að þegar pumpan hættir að dæla taki við undursamlegt ævintýr á öðrum stað, jafnvel annarri "vídd". Þótt ekkert styðji þessar kenningar nema margendurskrifaðar bækur aftan úr grárri forneskju er ekkert útlit fyrir að fólk hætti að fylla gatið með þessari aðferð.
"Synd eða sjúkdómur?", spurði SÁÁ á fundi á dögunum og ég svara: Hvorugt. Bara vinsæl leið til að fylla gatið. Komast maður í annað ástand með hjálp efna gleymir maður gatinu um stund. Það verður að segjast alveg eins og er að ekki fylgir því mikil mannleg reisn að vera dópisti eða fyllibytta. Þessir sem rændu apótekið um daginn og voru svo gómaðir jafnharðan fyrir utan fá örugglega aldrei reista styttu af sér. Þeir sem drepast inn á klósetti enda varla á frímerki – ja, kannski ef þeir hafa vit á því að skrifa ljóð. Nýjasta nýtt í þessum bransa er hestadeyfingarlyfið ketamín sem fólk er víst umvörpum á um allan bæ. Ísland verður aldrei fíkniefnalaust, því miður. Gatið er bara of stórt. 
Varanleg lausn er jafn einföld og hún er hræðileg: Að við förum öll sem eitt og látum gera skurðaðgerð á heilablaðinu.

Um: Hnakkann á Paul McCartney
Þarna stendur hann, örvhentur með Hofner-bassann. Er þetta sama eintakið og hann keypti í Hamborg 1962?, hugsa ég. Ég hef ekki augun af hnakkanum á Paul McCartney sem er í svona 30m fjarlægð frá mér. Hárið tjásulegt og svart. Illar tungur sögðu að Heather væri byrjuð að nudda háralit í hausinn á karlinum en Paul brást ókvæða við og játaði að hafa verið byrjaður að lita sig löngu áður en hann kynntist konunni með staurfótinn. Nú er hnakkinn á Paul byrjaður að fíla sig í botn í fyrsta laginu, Magical Mystery Tour, og fyrir innan – þetta er ótrúlegt! – er heilinn sem hefur samið alla þessa undursamlegu tónlist. Heilinn á Paul er þetta 1.3 - 1.4 kg eins og gengur og gerist, en vitneskjan um að það er akkúrat þessi gráa klessa, akkúrat þetta rúmlega kílóa mauk af kjöti, blóði og tægjum sem er uppspretta allra þessara laga, er nóg til að ég fæ uppljómun um dýrðleika lífsins og kökk í hálsinn í fyrsta skipti í kvöld.
Þetta er fjórða og síðasta kvöldið hans í Madison Square garðinum á Manhattan. Varla þarf hann á peningunum að halda svo ég álykta að hann hafi bara svona gaman að þessu. Og það sést. Sviðið er umkringt áhorfendum á þrjá vegu og Paul gengur um sviðið og veifar til áhorfenda eftir nánast hvert einasta lag. Ég stend margoft upp og veifa til baka og æpi eitthvað eins og fermingastelpa í losti. Bandið er búið að vera með honum lengi og er drulluþétt. Lögin eru frá öllum ferlinum, eldgamalt stöff samið löngu áður en Bítlarnir slógu í gegn til laga af hinni ágætu nýju sólóplötu. Þar sem Bítlarnir voru fyrsta bandið sem ég féll fyrir og þess vegna besta band í heimi í mínum huga bera tilfinningar blandaðar æskuminningum mig ofurliði á köflum. Kökkurinn fer aldrei langt og ég missi mig og grenja yfir Good Bye Sunshine – af öllum lögum.
Paul var alltaf næs náunginn í Bítlunum og er það ennþá, svona eins og stóri góði bróðir þinn. Hann talar mikið við mig og hina 17.999 áhorfendurna og djókar með það þegar hann datt í gatið í sviðinu í Róm. Ég forða mér á klósettið þegar hann spilar mest leikna lag allra tíma, Yesterday, en að öðru leiti er þetta gigg ógleymanlegt í gegn. Okkar hlið var sú seinasta sem Paul veifaði þegar hann gekk af sviðinu eftir tvö uppklöpp. Paul og rúmlega kílóa heilinn hans sem breytti mér og ef ekki bara öllum heiminum líka var búinn að vinna í kvöld.

Um: Skrítnasta mann í heimi
Vinur minn Kiddi er skrítnasti maður sem ég þekki og líklega skrítnasti maður í heimi. Það er margt skrítið við hann en það sem er skrítnast er að hann gengur gegn því sem drífur samfélög Vesturlanda áfram: Það að hagnast og njóta góðs af hagnaði sínum. Hjá Kidda snýr þetta allt á haus: Hann þrælar myrkranna á milli til þess að gefa fátæklingum alla peningana sína.
Kiddi fór til New York 1986 með smáaura í vasanum. Hann er búinn að vera þar síðan. Margt hefur drifið á daga hans og um það má lesa í bók Stefáns Jón Hafsteins, New York New York, sem kom út 1993. Fátt hefur breyst í lífi Kidda síðan þá. Hann er vaknaður klukkan 4 og þrælar á tveimur stöðum til kvöldmats. Hann er kolólöglegur í landinu en ekkert er gert í því enda ekkert leyndarmál að ólöglegir innflytjendur halda mörgum atvinnugreinum uppi í Bandaríkjunum. Atvinnurekendur Kidda taka af laununum hans fyrir húsaleigu en afgangnum eyðir hann í fólk götunnar, nema sirka 5$ á dag sem hann kaupir helstu nauðþurftir fyrir. 
Ég hef komið til New York nokkrum sinnum og flækst með honum um borgina. Hann þekkir hvern krók og kima og flesta sem verða á vegi hans; dyraverði, bílstjóra og ruslakarla, og sérstaklega þá lægst settu, skítuga fólkið með draslið sitt í vögnunum, dópistana og betlarana. Þeir sem biðja um aur fá hann og auðvitað eru margir komnir á bragðið. Fólk situr fyrir honum og þetta er nánast orðið eins og eitt risastórt einelti þyggjenda. 
Auðvitað er drullupirrandi að sjá hvernig Kiddi lifir lífi sínu – mann langar til að hrista hann og segja honum að hætta þessari helvítis vitleysu – en hvað getur maður gert? Okkur er frjálst að gera það sem við viljum þótt engir velji leið Kidda. Ég veit ekki hvaða stórundarlega kennd þetta er eiginlega sem drífur hann áfram, hallast helst að því að þetta sé ofvaxinn Jesúkomplex. Það er víst betra að gefa en þyggja og Kiddi hefur það að leiðarljósi á tryllingslegan hátt. Eins gott að eftirlíf samkvæmt kenningum Biblíunnar sé staðreynd því í þannig himnaríki verður Kiddi í góðum málum. Við hin förum á yfirdrættinum okkar beinustu leið til helvítis.

Um: Uppvask
"Þú hefur bara verið einhvers staðar úti að leika sér," svarar mamma þegar ég spyr hana hvar ég var á Kvennafrídaginn 1975. Sjálf fór hún og Stella í næstu íbúð á fundinn og voru svo "allan daginn að flakka," eins og fólk úr úthverfunum gerir iðulega þegar það kemur í miðbæinn.
"En komstu ekki heim foxill og neyddir pabba til að vaska upp?", langaði mig að vita.
"Nei, það var alltaf ákveðin verkaskipting á okkar heimili," segir mamma, sem var heimavinnandi húsmóðir af gamla skólanum, og bætir við: "Ég get ekki séð betur en ástandið sé ljómandi gott í jafnréttismálum í dag. Það eru margar kellingar í góðum stöðum í þjóðfélaginu, en það verður auðvitað að jafna launamuninn."
Verkaskipting kynjanna þegar kemur að heimilisstörfunum er athyglisvert mál sem ber að hafa í huga á þessum degi. Þegar mamman vann heima vaskaði hún upp og engar refjar. Ef guð er rauðsokka sendir hún mig til helvítis því svo örsjaldan hjálpaði ég til við uppvaskið í æsku. Konan mín hafði orð á þessu þegar hún borðaði í fyrsta skipti heima hjá foreldrum mínum á aðfangadag. Þarna flatmöguðum við pabbi og bróðir minn í stofunni eftir jólasteikina, en mamma og systir mín vöskuðu upp. Ég viðurkenni líka alveg að fátt finnst mér leiðinlegra en uppvask. Nema kannski að þurrka af og þrífa klósett. Í stuttu máli sagt drepleiðast mér eldhúsverkin.
"Halldór Laxness vaskaði aldrei upp!," sagði ég við konuna mína þegar við vorum að rífast um það einu sinni sem oftar hvort okkar ætti að vaska upp.
"Þú mátt sleppa við að vaska upp ef að þú færð Nóbelinn," svaraði konan.
Ég settu stefnuna á Nóbelinn um stund en fór síðan einfaldari leiðina og keypti uppþvottavél. Hvílíkt lúxuslíf! Ég mæli eindregið með þessu á hvert heimili.
Þess má geta að það var yfirstéttarkona í Illinois sem fann upp fyrstu uppþvottavélina. Hún hét Josephine Cochrane og sló í gegn með vélinni á Heimsýningunni 1893. Það var þó ekki af umhyggju fyrir húsmæðrum sem hún fann vélina upp heldur af því að hún var svo þreytt á að þjónarnir hennar voru alltaf að brjóta diska úr fína stellinu hennar.

Um: Milljarðamæringa
Karlar með svokölluð ofurlaun koma stundum upp í "umræðunni" enda nýlegt fyrirbæri hérlendis. Svona vellaunuð ofurmenni hafa ekki verið meðal vor fyrr því gömlu millarnir voru mun verr launaðir en þessir – eiginlega eins og harmóníkur við hliðina á þessum pípuorgelum. Ég man vel eftir því þegar Ólafur Jóhann komst fyrst í fréttirnar fyrir að vera í vinnu hjá Sony og fá fjórar millur á mánuði. Ólafur varð þar með fyrsta ofurlaunaða ofurmennið og fólki þótti þetta stórkostlega merkilegt. Fjórar millur þótti himinhá laun og þjóðin nötraði af samblandi af aðdáun og öfundsýki. Skömmu síðar var Ólafur að árita bók í Kringlunni og biðröðin hjá honum var svakaleg. Annað eins hafði ekki sést enda hálfgerður hálfguð hér á ferðinni. Hálfguð sem hafði tekið sér pásu frá því að græða milljónir til að skrifa bók fyrir almúgann.
Ólafur er alveg hættur að heilla með laununum sínum og nú eru það gaurar eins og KB-strákarnir, Jón Ásgeir, Actavis-náunginn og Björgólfur yngri sem eiga sviðið. Því ver og miður hefur enginn þeirra skrifað bók. Það má bóka að biðröð til þeirra í Kringlunni yrði síst minni en hjá Ólafi.
Ég nenni ekki að væla um þá svakalegu misskiptingu og siðleysu sem ofurlaun þessara gaura eru, t.d. við hliðina á leikskólakennaralaunum. Slíkt er náttúrlega bara öfundssýki og kommaþvaður. Skítt með það þótt Kínverji á Kárahnjúkum þurfi að vinna samfleytt í 150 ár til að ná þeim 400 milljónum inn sem Sigurður í KB tók inn á dögunum fyrir... Ja, fyrir hvað eiginlega? 
Skítt með það allt saman. Það sem ég vil kvarta yfir er hversu ósvalir þessir náungar eru. Afhverju eru þeir ekki spreðandi þessum peningum sínum hægri vinstri í glannalega vitleysu. Allskonar vitleysu sem við hin gætum hlýjað okkur við að fylgjast með. Litla stúlkan hafði eldspýtur en við gætum haft Hér og nú með stanslausar fréttir af uppátækjum flippuðu millana.
Ókei, Björgólfur sýndi viðleitni þegar hann fékk sér einkaþotu og Jón Ásgeir fær prik fyrir lubbann og meint snekkjusukk. Hinir virðast bara vera ægilega venjulegir náungar sem fara í Ikea með konunum sínum um helgar. Væri nú ekki skemmtilegra ef Sigurður í KB klæddist eingöngu loðfeldum, léti keyra sig niður Laugarveginn um helgar á Rolls Royce úr gulli með nokkrar dömur frá Geira í Maxíms upp á arminn? Væri nú ekki skemmtilegra ef Aktavis-náunginn hefði átt í ástarsambandi við Söndru Bullock og Heidi Klum og væri um þessar mundir að deita Nicole Kidman á milli þess sem hann smíðaði tímavél? Koma svo strákar – það er ekki nóg að hirða alla peningana, þið verðið að skemmta okkur líka!

Um: Tilboð
Trúarbrögð heimsins gera það svona gott af því þau hafa lausn á þeim vanda sem blasir við hverjum manni: Dauðanum. Það er náttúrlega helvíti hart að sitja uppi með það að maður drepist bara og þá sé allt búið og ekkert taki við nema hæg rotnun í sambýli við maðka. Mun betra er að gangast inn á tilboð trúarbragðanna um óljóst eftirlíf. Ef maður hefur verið þokkalega góður og duglegur í trúnni á maður ágætis tíma framundan í himnaríki, næstu vídd, næsta lífi. Ekki er gott að vera illmenni því þá fer maður til helvítis eða endurfæðist sem flatlús. Þetta fyrirkomulag – eða trúin á það – kýs fólk sér í stórum stíl ef það er yfirhöfuð nokkuð að spá í þessu.
Nú eru bankarnir komnir í harða samkeppni við trúarbrögðin. Tilboð bankanna er reyndar aðeins raunhæfara en trúarbragðanna því ef maður lifir fram á eftirlaunaaldurinn á maður víst að uppskera fúlgur sem síðan er hægt að spreða í að gera líf sitt að einhvers konar himnaríki á jörð. Ef það er þá himnaríki að hanga aðgerðarlaus á stuttbuxum í leiguíbúð á Costa del Crap. 
Bankarnir eru hreinlega óðir í mann og hamast á manni með nýrri og nýrri auglýsingaherferð. Sú nýjasta er um "mótframlag" (atvinnurekandinn er víst bundinn með lögum til að borga í sjóðinn á móti okkur). "Plís, láttu okkur fá hluta af laununum þínum," væla bankarnir stanslaust í manni, "og þegar þú ert búinn að gera það allt þitt líf færðu hauga af seðlum." Bankarnir slá upp svaka fínum upphæðum, 13 milljónum, jafnvel 15, ef maður lætur þá hafa svo og svo mikið í hverjum mánuði. Þó þetta virki sem þokkalegar upphæðir í dag verður þetta þó smáræði þegar að útborgun kemur, þökk sé verðbólgunni. Afborgunin af húsnæðisláninu verður til dæmis komin upp í 500 þúsund kall á mánuði þegar fúlgan á að greiðast út. 
Það er því einhvern veginn þannig að þetta lyktar allt af því að einhver sé að taka einhvern í staðinn þar sem sólin ekki skín. Sérstaklega þegar mitt í herferðinni birtast afkomutölur bankanna og upplýsingar um laun "æðstu" stjórnanda. Hvað þurfa bankarnir annars að græða mikið til að við fáum lækkun á þjónustugjöldum og vöxtum? Ég segi því enn og aftur: Þið fáið ekki krónu frá mér í viðbótarlífeyrissjóð, bankabullurnar ykkar!

Um: Val
Miðað við framboðið virðast fasteignaauglýsingar njóta mikilla vinsælda um þessar mundir. Mér finnst líka ágætt að grípa fasteignakálf með þegar ég fer á klósettið og renna yfir valmöguleikana. Maður staðsetur sig í huganum í húsunum sem eru í boði og spyr sig: Hvernig yrði líf mitt ef ég byggi í þessu húsi eða þessari blokk? Betra? Verra? Helst eru það hræódýr hús á landsbyggðinni sem gaman er að skoða og maður spyr sig: Yrði líf mitt enn hlaðnara tilgangi og lífsfyllingu ef ég keypti 192 fm einbýlishús á Raufarhöfn á 3.4 milljónir og flytti þangað til þess að hugsa og hlusta á Rás 1? Ég fengi náttúrlega konuna aldrei með mér svo þetta er galið og ég hvort sem er löngu búinn að sturta niður. 
En svona er þetta. Maður andar, frumurnar fjölga sér, hjartað pumpar og maður stendur endalaust frammi fyrir valmöguleikum. Einu sinni hafði fólk ekki úr miklu að velja – þú gerðir bara það sem pabbi þinn gerði og ekkert kjaftæði – en nú þarf maður að velja á hverjum degi, og ekki bara út í búð eða fyrir framan sjónvarpið, heldur í öllu sem maður gerir. Ungt fólk er sérstaklega á nálum, enda allt lífið framundan og flestir búnir að sjá það margar fléttumyndir með óreiðukenninguna í bakgrunni að fólk veit að það verður að velja vel. Velja rétt. Velja sér líf. Takmarkið "hamingja" er gulrótin sem hangir fyrir framan okkur öll. Þessi tilfinning sem fyllir hausinn af gleði. Endanlegt takmark, lærir maður svo síðar á "lífsleiðinni", er að standa uppi umvafinn afkomendum á níræðisaldri, sáttur og saddur lífdaga – ekki ósvipað og Nicholas Cage í endanum á Raising Arizona.
Og þá er það svarið við stóru spurningunni. Svarið við "Hver er tilgangur lífsins?" er í raun svo einfalt að það er hlægilegt að fólk þurfi endalaust að vera að tuða um ýmis afbrigði svarsins. Það er búið að flækja svarið álíka mikið og svarið við því hvernig eigi að grennast. Maður grennist með því að éta minna og hreyfa sig meira. Einfalt og augljóst. Tilgangur lífsins er að fjölga sér og breyta rétt. Einfalt og augljóst. En náttúrlega jafn mikið mál að framkvæma það eins og að grenna sig. Þá er bara að taka einn dag í einu eins og alkarnir. Og vissulega erum við öll bullandi alkar og meðvirk með lífinu þar að auki.

Um: 25 pirr á leiðinni út í búð
Það er slydda (1) og fljúgandi hált (2). Ég breytist í gamla konu í hálku. Ég mjaka mér að bílnum og reyni að fljúga ekki á hausinn (3). Ég er með leifar af poppkorni undir tungunni (4) og reyni að ná því í burtu. Ég er líka með ofþornaða putta (5). Þeir líta út eins og bleikar sveskjur. Ég er á leiðinni út í búð að kaupa mér hádegissnarl. Ég bakka úr stæðinu og lendi strax á eftir karli með hatt sem keyrir lötur hægt (6). Ég hangi í rassgatinu á honum þar til hann snöggbeygir, án þess náttúrlega að gefa stefnuljós (7). Ég æpi og góla undir stýri og blóta karlhelvítinu í sand og ösku. Þetta er eina útrás nútímamannsins sem eru kominn svo langt frá helliseldinum að stundum pissar hann sitjandi. Ég kveiki á útvarpinu. Lendi óvart á útvarpshálfvita sem þusar í uppgerðarstuði (8). Skipti um stöð, lendi á útvarpsspjalli um nánustu framtíð. Útlitið er kolsvart, segir mér alvarleg rödd. Ef allir myndu lifa sama lífi og við Vesturlandabúar þyrftu þrjár jarðir til afla nægra lífsgæða. Er að koma heimsendir?, hugsa ég en snögghemla því unglingsbjáni (9) kemur æðandi úr hliðargötu. Hann snögghemlar líka og í eitt augnablik horfumst við í augu. Það lekur af honum heimskan enda alinn upp á heilaskemmandi sjónvarpsefni (10) og mannskemmandi tölvuleikjum (11). Líklega fannst honum æðislega fyndið þegar dapurlegu krakkafíflin réðust á Tryggva Hring (12). Nú eru komnar fréttir. Glaðleg rödd segir mér að það verða "flöt jól" því allir ætli að fá sér flatskjái. Heilalausir hópsálir, þusa ég við sjálfan mig. Þá er nú skynsamlegra að fá sér tvöfaldan ísskáp með klakavél. 
Ég legg og geng fram hjá risajeppa (13). Allt í einu sprettur upp hundkvikindi (14) og geltir að mér (15). Ég hraða mér í burtu og hundhelvítið gjammar út í það óendanlega. Í búðinni skellist sjálfvirka hurðin á andlitið á mér (16). Ég geng fram hjá bókaborðinu og örvæntingafullar montauglýsingar útgefanda (17) koma upp í hugann. Það er ein kassastelpa á vakt og röðin löng (18). Loksins er bara einn fyrir framan mig; ellilífeyrisþegi sem vill borga með klinki sem er dregið hægt upp úr buddu (19). Þar sem ég tvístíg þarna opnar auðvitað annar kassi og allt liðið fyrir aftan mig treðst á hann (20). Hversu marga poka? (21), spyr loks undirlaunaða kassavélmennið. Í bílnum fatta ég að rækjusamlokan er útrunnin (22) og kókómjólkin volg (23). Ég læt mig hafaða, bít í samlokuna og innvolsið vellur öfugu megin út á vömbina á mér (24). Ég reyni að halda aftur að tárunum, kveiki á útvarpinu og er þá sagt að Kallakaffi (25) sé með 37.5% áhorf.

Um: Kynjaskipti
Ef karlar færu á túr væri margt öðruvísi. Til dæmis væri hægt að kaupa túrtappa með Manchester United lógóinu og sérstök U2 dömubindi, sem hétu náttúrlega herrabindi. Herrabinda-auglýsingarnar væru karlmannlegar en ekki væmnar og konulegar eins og núna. Svipaðir karlar og í Dressman-auglýsingunum væru sýndir ganga, hoppa og beygja sig og svo kæmi dynjandi þungarokkslag um leið og umbúðir bindana sæust. "Við eru karlmenn, við blæðum," væri tilvalin sölulína. Karlmennskan yrði mæld í blóðmagninu. Karlar sem fylltu XXL bindi með streyminu úr sér væru taldir miklir menn en blóðlausir ræflar sem vætluðu í XS bindi þyrftu að stofna sérstakan eineltis- og umræðuhóp. Ef karlar færu á túr væri stanslaus umræða um það. Kannski eins gott að karlar fara ekki á túr.
Ef karlar gætu orðið óléttir væri margt öðruvísi. Konur væru stikkfríar og yrðu nú allt í einu til í tuskið með hverjum sem er, eins og meiri hluti ábyrgðar- og móðurlífslausra karla dagsins í dag. Karlar héldu að sér höndum, eða öllu heldur saman á sér lærunum, enda fylgdi nú möguleikinn á níu mánaða veseni hverjum drætti. Stórkostleg skemmtun væri að sjá kasólétta karla vagga um bæinn í sérstökum óléttujakkafötum. 

Um: Innréttingar hamborgarastaða
Það bregst ekki: Allir hamborgarastaðir, ekki bara í Reykjavík heldur að því virðist allstaðar í heiminum, líta út eins og útibú frá bandaríska Árbæjarsafninu. Á meðan hamborgarinn, frönskurnar og salatið hakkast ofan í maga, getur maður t.d. virt fyrir sér hafnarboltahanska, umbúðir utan af flórsykri og leikfangabíla, og allt er þetta antík frá því sirka 1940 til 1960. Ameríska gullöldin lifir enn góðu lífi, í smækkaðri mynd, á hamborgarabúllum Reykjavíkur. 
Þetta voru dýrðartímar, eigum við a.m.k. að ímynda okkur á meðan við tyggjum borgarann. Konur voru undantekningalítið heima, klæddar í kjól með svo fullkomin heimilistæki að líf þeirra var leikur einn. Karlar gengu með hatt, keyrðu um á svokölluðum drossíum, tveggja tonna krómuðum bensínhákum með hákarlauggum. Efnahagurinn var á uppleið, fólk hafði efni á því að gera líf sitt ljúft á meðan Frank Sinatra og Doris Day sungu siðsöm dægurlög. Óvinurinn var skýrt afmarkaður. Vondu kommarnir höfðu það umfram óvininn í dag að þeir héldu sig heima hjá sér og hægt var að halda þeim í skefjum með því að beina stanslaust framúrskarandi kjarnorkusprengjum í átt til þeirra. Ósmitaðir fuglar sungu á hverri grein, en svo kom rokkið, þá skítugu sígröðu hipparnir og þaðan koll af kolli þangað til draumurinn sökk endanlega í það ameríska martraðarfen, sem smá saman er að opinberast heiminum, m.a. með myndum frá hörmungunum í Louisiana.
Ameríski draumurinn kom aldrei hingað, nema til best-tengdu heildsalana og það er ekki fyrr en núna sem við erum að upplifa okkar gullöld. Kannski er akkúrat núna besti hugsanlegi tíminn í lífi Íslendinga, mesta hagsældin, mesta góðærið, best að lifa? Eftir fjörutíu ár verður kannski opnaður KB-borgari. Á veggjum munu hanga flatskjáir, I-poddar, antík auglýsingar frá bönkum og símafyrirtækjum og Birgittu Haukdal dúkkan. Á meðan fólk hakkar í sig borgara ómar klassík Heitra lumma. Gamall maður með hökukegg og glampa í augum mun stanga úr tönnunum, horfa á áritaða mynd af Sigur Rós og hugsa: Ó, hvað varð um þig besti tími lífs míns?

Um: Laugardag í desember
Það var laugardagur. Tvær vikur til jóla og ekki vinnandi vegur að fara í annað hvort Smáralind eða Kringluna. Við hefðum öll misst vitið í mannmergðinni og kraðakinu. Við vorum í bílnum. Ætluðum að skoða jólalandið í Árbæjarsafni. Á leiðinni þangað varpaði konan sprengju: Sagði að það væri ekki hægt að gefa mér neitt því ég ætti allt og ef mig langaði í eitthvað eða vantaði þá keypti ég það strax. Ég varð ógeðslega fúll eins og karlar verða þegar konur gagnrýnir þá. En þetta er reyndar alveg rétt hjá henni, ég á allt sem mig vantar og á erfitt með að nefna eitthvað sem mig langar í. "Vertu þá bara ekkert að gefa mér neitt ef þetta er svona erfitt," hreytti ég út úr mér eins og sá uppstökki karlpungur sem ég er að reyna að vera ekki. 
Við vorum komin að Árbæjarsafni sem gaf tækifæri til að drepa þetta asnalega rifrildi í fæðingu. Þar var allt lokað og læst – bara opið á sunnudögum – og sonurinn sofnaður aftur í. Við brugðum á það ráð að heimsækja vinafólk okkar á Álftanesi. Þau höfðu ekki heldur hætt sér í Smáralind eða Kringluna. Heilinn á mér var á fullu við að finna eitthvað sem ég gæti sagt konunni að mig langaði í í jólagjöf. Svo ég gæti slengt því fram og klárað dæmið. Ekki diska, ég á alveg nóg af þeim og þeir hrúgast hvort sem er inn, ekki bækur því ég kann ágætlega við að nota bókasafnið – tja, nema Rokland, tengdó ætlar víst að gefa mér hana. Hmm... þetta var vissulega snúið.
Vinafólk okkar var foxillt yfir því sem einhver verslunarmaður hafði sagt í fréttunum, að það væri hreinlega "stöðutákn" að eiga flatskjá. Þeim fannst þetta komment lýsa tíðarandanum vel. Flatskjárinn er víst málið í ár hjá öllu fólkinu sem á allt en verður að eignast meira því það er hreinlega skilda þess sem neytenda í kapítalísku þjóðfélagi að kaupa sér/gefa eitthvað á þessum árstíma. Og ef einhver er búinn að segja að það sé "stöðutákn" að eiga flatskjá þá er stór hluti almennings tilbúinn til að trúa slíku krappi. Ég gat því kokhraustur bent konunni á að ég er ekkert einsdæmi. Við lifum í slíkum vellistingum að allir eiga hreinlega allt og því er hægt með því að nota fyrsta trikkið í bókinni "Um hjarðeðli" til að fá alla hjörðina til að fá sér flatskjái eða fótanuddtæki. Við verðum svo þakklát ef okkur er bent á eitthvað nýtt til að eignast.
"Elskan, ég er góðærismettur," sagði ég, "en þú mátt gefa mér La-z-boy með rassnuddi til ég geti haft það sem best á meðan ég glápi á nýja flatskjáinn." 
Henni fannst þetta ekkert fyndið.

Um: "Hluti" til að "gera" áður en maður deyr
Lífið er staðreynd. Dauðinn líka. Lífið eftir dauðann veik von. Ekki hægt að búast við of miklu þar. Eilíft líf í gufukenndu ástandi starandi í aðdáun á æðstu máttarvöld frekar leiðinleg tilhugsun, og mun skárri eru hugmyndir um flakk á milli vídda eða lífreikistjarna. Endurfæðing er svo sem ágætis kerfi líka. Líklegast þó að við séum öll á leiðinni að verða að gróðurmold, sem er bara fínt – "Af moldu ertu kominn..." og allt það.
En allavega: Við deyjum. Þetta er svakaleg staðreynd sem maður hugsar sem betur fer lítið um framan af ævinni. Hugsunin fer að ágerast með aldrinum. Hin sístarfandi markaðsöfl eru aðeins byrjuð að spá í þessu og bækur sem heita t.d. "500 hlutir til að gera áður en þú deyrð" njóta vinsælda. Þar er gengið út frá því að lífið sé einskonar löng verslunarferð í Kringlunni og manni er bent á "hluti" sem ofsa sniðugt, eða hreinlega nauðsynlegt upp á sálarheillina, er að "gera" áður en maður hrekkur upp af. Þarna eru bryddað upp á ýmsum hugmyndum, t.d. að fara í fallhlífastökk, gróðursetja tré, synda með höfrungum og hlaupa í maraþoni. 
Líklega gengur svo hver og einn með einhvern svona lista á bakvið eyrað og þarf því varla bækur til. Ferðalög á framandi staði og það að verða betri manneskja í faðmi ástríkarar fjölskyldu verma líklega toppsæti flestra. 
Lífið er eins og gátlisti sem maður krossar við í leið sinni í gróðrarstöð dauðans. Þessi staðreynd getur valdið ugg og kvíða og sendir marga í hendur vafasamra trúarbragða eða enn vafasamari andlegra meistara – allt í því skini að finna "dýpri" tilgang og meiri hamingju. Það nægir mér þó alveg – eins og er allaveganna – að vera þakklátur fyrir það sem ég er og hef, og að reyna að gera það besta úr því. Svo er gott að minnast þess reglulega að ég er hluti af þeim minnihlutahópi sem þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort hann fái að borða á morgun eða ekki. Svona bækur meðal hinna snauðu í þriðja heiminum yrðu mjög stuttar og einhæfar – "1 hlutur til að gera áður en þú deyrð: reyna að skrimta".

Um: Áramótauppgjörið 2006
Jæja, bara komið nýtt ár. Og ég ætla ekki að æra óstöðugan með enn einu áramótauppgjörinu fyrir árið sem var að klárast. Nei, í staðinn set ég mig í Völvustellingar og spái því að þetta nýfædda ár, 2006, verði besta ár í sögu Íslands, hvorki meira né minna. Góðærið verður náttúrlega gífurlegt áfram og þennslan og kaupgleðin, en þegar skammt er liðið á árið, u.þ.b. þegar íbúatalan slefar yfir 300 þúsund, er eins og landsmenn hugljómist allir sem einn og hér kemst á ástand sem á sér ekki hliðstæðu nema í klikkuðustu himnaríkisvonum þeirra trúuðu. Ísland verður hið eina sanna draumaríki og næstu áramótauppgjör, um næstu áramót, verða lýginni líkust. Þetta er meðal þess sem þar má lesa:
Hressileg launaleiðrétting varð um mitt ár. Þá urðu landsmenn á einu máli um það að þetta gengi ekki lengur. Í staðinn fyrir að forkólfar væru með 50 föld laun þeirra lægst launuðustu snérist þetta á hvolf og endaði í því að leikskólakennarar sem sýsla með það sem okkur er kærast urðu ívið betur borgaðir en tölvuskjásstarandi millifærslufólkið sem sýslar með andvana fjármagn. Bankarnir komust líka að því að þeir væru búnir að græða alveg nóg. Öll yfirdráttarlán voru því þurrkuð út um mitt ár og stimpilgjöld og annar bankakostnaður langt aftur í tímann borguð til baka. Matarverð lækkaði líka svo mikið á árinu að Heimilishjálpin og Mæðrastyrktsnefnd voru lögð niður. Á árinu varð líka að loka meðferðarheimilium SÁÁ og Kvennaathvarfinu vegna verkefnaskorts. Fólk einfaldlega nennti ekki lengur þessu rugli. Þá lést enginn í umferðinni af því fólk tók sig svo rosalega á.
Engar fréttir heyrðust um að verið væri að níðast á erlendu verkafólki, enda var ákveðið að hækka laun þessa hóps um 500% um leið og ákveðið var að hætta við Kárahnjúkavirkjun og rífa það sem búið var að reisa. Tónleikarnir Hætta-hópsins í Höllinni reyndust svona áhrifamiklir.   
Kynþáttafordómar lögðust algjörlega af, sem og hómófóbía, eftir að Kári Stefánsson einangaði meingenið sem veldur þessum heilasjúkdómum. Þá var Hvannadalshjúkur mældur aftur með enn fullkomnari græjum en síðast og reyndist hann nú vera mun hærri en hæsta fjall Svía, eða 2121 m.y.s.

Um: Ójöfnuð
"Allt það besta í lífinu er ókeypis". Þetta er fínn frasi til að slá á gremju almúgans, sem horfir með samblandi af undrun og öfund á vellauðuga yfirstétt landsins, sem nú er að spretta upp – tja, það á nú eiginlega að kalla þetta "langtyfirstétt" frekar. Já, ókei, allt það besta er frítt, en samt... Hversu ljúft væri það nú ekki að vera með 6 millur á mánuði, þó það væri ekki nema í einn mánuð. Maður gæti þá allavega greitt niður yfirdráttinn.
Ef okkar dvergsamfélag sættir sig við það að sumir séu með laun og fríðindi sem þorri landsmanna á ekki möguleika á nema vinna í Víkingalottóinu, þá er samfélagið um leið að segja: Þetta fólk er betra en þú og á skilið betra líf. Þannig hefur samfélaginu hrakað í það ástand að einn gaur – segjum kannski gaur sem á pabba sem fékk hluta af auðlyndum þjóðarinnar að gjöf fyrir nokkrum árum – er að lifa á launum sem fimmtíu gjaldkerar í banka eru að lifa af, eða áttatíu leikskólakennarar. Ég hef ekki heyrt neina viðhlítandi réttlætingu fyrir þessu ástandi. Er þetta ríka lið áttatíu sinnum duglegra en einn leikskólakennari – eða hvað er málið? Það hafa alltaf verið til ríkir og ekki ríkir og jafnvel fátækir í þessu landi. Fyrir stuttu var samt ekki meiri munur en svo að talað var um stéttlaust samfélag. Það sjá allir að það er hlægilegt kjaftæði að halda því fram í dag. 
En jæja. Samfélaginu – fyrir utan nokkra minnuga leigubílstjóra og bitra vinstrimenn, sem þó þagna um leið og þeir komast á spena, bara einhvern spena – verður smátt og smátt komið á þá skoðun að svona geðveikur ójöfnuður sé bara allt í lagi, óhjákvæmilegur í þessu "samkeppnisumhverfi". Svæfandi blístrið um að "þetta sé í takt við þróun erlendis" mun smá saman lægja reiðiöldurinar. Og þegar endanleg sátt hefur náðst um að sumir séu hér valsandi um á 80 sinnum hærri launum en aðrir, verður næsta skref í átt að þúsund ára ríki kapítalismans stigið. Þá mun Kári Stefánsson birtast eins og frelsari með rándýra aðferð til að lengja líf þeirra ríkustu – "litningalenging" verður það kallað og bætir öld við hvern skrokk. Fjandinn hafaði, það gengur náttúrlega ekki til lengdar að dauðinn sé þarna alltaf að flækjast fyrir uppgangi og útrás þeirra moldríku, eins og glottandi verkalýðsforingi í sinni svörtu hempu, sveiflandi ljánum og eigandi endalaust lokaorðið. Nei, það segir sig sjálft að stórmenni með 6 milljónir á mánuði verða að lifa mun lengur en láglaunapakkið. Hvers vegna í ósköpunum ekki?

Um: Siðblindu
Ég játa: Ég fer stundum á almenningsklósett sem eru merkt fötluðum. Þessi klósett eru betur þrifin en önnur og mun rúmbetri. Ef ég þarf að gera númer tvö vel ég undantekningarlaust þennan kost. Ég veit að með þessu athæfi sýni ég af mér ákveðið siðleysi. Þó ég passi að ganga mjög vel um er ég samt einskonar glæpamaður. Ég gái auðvitað alltaf vel í kringum mig áður en skelli mér inn, gái vel hvort einhver sjái hvað ég er að gera, hvort einhver fatlaður sé á leiðinni. Einu sinni var ég næstum kominn inn þegar maður á hækjum birtist. Ég hrökk í kút og þóttist vera að skoða handfangið. Vildi frekar þykjast vera sérstakur áhugamaður um handföng en ófatlaður maður á fötluðu klósetti. Bauð svo góðan daginn og hraðaði mér í burtu.
Ég dreg þó línuna við bílastæði fatlaðra. Í þau legg ég aldrei þótt ég hefði svo sem ágætis afsökun fyrir að leggja í slík stæði. Það er siðblinda að leggja í stæði fatlaðra og siðblinda er fötlun – Ergo: Siðblindir eru fatlaðir og mega því leggja í stæði merkt fötluðum. 
Nýlega var ég að koma út úr búð með troðfulla poka. Bílnum mínum var lagt við hliðina á stæði fatlaðra. Stæðið var autt þegar ég fór inn í búðina og autt þegar ég kom út. Nema hvað, þegar ég nálgast rennir sér í fatlaða stæðið þriggja tonna biksvartur pallbíll. Út stekkur aflitað vöðvabúnt í þröngum bol með handleggina bera. Það var fjögra stiga frost en búntinu brá ekki svip. Ljóska með húð eins og pulsa sem hefur legið of lengi í potti læddist á eftir þeim léttklædda. Hvorugt var mikið fatlað. Eiginlega bara algjörlega ófötluð að sjá. Nema smekkleysi sé fötlun.
Ég hefði getað verið með kjaft. "Drullistu úr stæðinu!," hefði ég getað öskrað mannalega og otað pokunum í átt til þeirra. "Hvað ef fatlaður kemur á meðan þið eruð í búðinni? Svona, hafiði manndóm til að færa pallbílinn!" En auðvitað sagði ég ekki múkk enda ljóst að búntið hefði getað rotað mig með einum putta. Ég hefði samt náttúrlega verið meiri maður liggjandi í blóði mínu á götunni en hugsandi réttlætandi þegar ég keyrði burtu: "Hvað kemur mér aumingjaskapur annarra við á meðan ég breyti rétt?"

Um: Hlýðnistilraun Milgrams
Einu sinni sá ég heimildarmynd um hlýðnistilraunir Stanleys Milgram, sem hann gerði í Yale háskóla í byrjun 7. áratugarins. Þessi mynd er mér enn í fersku minni því hún sýnir vel misbrestina í mannlegu eðli. 
Tilraunin fór þannig fram að logið var að þátttakendum að verið væri að gera tilraun á því hvort refsing hefur áhrif á námsgetu. Tilraunadýrið var sagt að það væri "kennari" og það kynnt fyrir öðru sem var "nemandi", en var í raun starfsmaður háskólans. Mennirnir fóru inn í sitthvort herbergið. Hjá "kennaranum" var svaka stjórnborð með tökkum sem gaf missterkt raflost, frá mildum straumi upp í banvænan. Honum var sagt að búið væri að festa rafskaut á "nemandann". Yfir "kennaranum" stóð valdsmannlegur vísindamaður í hvítum sloppi. Hann spurði "nemandann" spurninga og "kennarinn" refsaði fyrir vitlaus svör með því að gefa sífellt sterkari rafstuð. "Nemandinn" kveinkaði sér ekki undan stuðinu til að byrja með en svo fór hann að æpa af sársauka. Það er mjög athyglisvert að við fyrsta öskrið glottu "kennararnir" undantekningalítið og margir hlógu taugaveikluðum hlátri. Svona hélt þetta áfram þar til rafstraumurinn var orðinn lífshættulegur, öskrin orðin hærri og "nemandinn" farinn að grátbiðja um grið. Allir "kennararnir" höfðu þá efasemdir og vildu staldra við, en vísindamaðurinn í sloppnum hvatti menn áfram með þessum skipunum:

1. Vinsamlega haltu áfram. 
2. Tilraunin krefst þess að þú haldir áfram, vinsamlega haltu áfram. 
3. Það er algerlega nauðsynlegt að þú haldir áfram. 
4. Þú átt ekki um neitt annað að velja, þú verður að halda áfram. 

Hin svakalega niðurstaða var sú að u.þ.b. tveir af hverjum þremur þátttakendum hélt áfram og hreinlega drap "nemandann" (sem vitanlega var þó aldrei tengdur við neitt rafmagn heldur lék bara svona vel). Hin sterka nánd vísindamannsins í sloppnum fékk fólk til að skella skollaeyrum við rödd samviskunnar og hlýða í blindni hinum sterka og vitra. Í ljósi niðurstaðna þessarar tilraunar er auðveldara að skilja fjölsamþykkta geðveiki úr mannkynssögunni, t.d. hvers vegna Þýska þjóðin gekk fyrir björg á tímum Nasistanna. Einhvern tímann verður kannski litið til baka og tilraunin látin útskýra hvers vegna við samþykktum geðveika misskiptingu þjóðfélagsins í blindri hlýðni og trú og svo hina stærri alþjóðlegu misskiptingu með sínum 30.000 börnum sem deyja úr hungri á hverjum degi. Þessa mynd ætti a.m.k. að sýna einu sinni á ári til að minna okkur á okkur.

Um: Útlönd
Hamingjunni sé lof fyrir útlönd. Ímyndiði ykkur helvítið ef maður kæmist aldrei af þessu guðsvolaða skeri. Lukkunni sé lof fyrir Valgerði og álverin hennar sem gefa okkur góðærið og fylla alla vasa af gjaldeyri og farseðlum. Þegar maður paufast í myrkrinu á morgnanna, gegnblautur af slagveðri, eða frostbitinn og kengboginn af þunglyndu myrkrinu, hversu oft hefur maður þá ekki fyllt lungun og æpt út í tómið: HVERN FJANDANN ER MAÐUR EIGINLEGA AÐ GERA HÉRNA!
En þráin eftir útlöndum er ekki bara veðurfræðileg. Einu sinni fór ég eitthvert í miðju fjölmiðlafárinu hina mikla. Þá hafði maður varla hugsaði um annað dögum saman. FM hnakkar voru farnir í mótmælasvelti og Heimdellingar virtust sem róttækustu ríkiskommar. Mjög skrítnir tímar. En þeim í miðjum fór ég og feginleikinn og léttirinn sem helltist yfir mig þegar ég var laus við þetta kjaftæði úr hausnum er ólýsanlegur. Maður tékkaði á erlendum fréttum og það var ekki stafur um fjölmiðlafrumvarpið og Davíð. Ég gleymdi þessu alveg og fór að lifa lífinu. Íslenskt þjóðlíf er svo þrúgandi að það er nauðsynlegt að hreinsa á sér hausinn annað slagið. Það er þrúgandi í tíðindaleysi sínu (prófkjör Framsóknarflokksins, endalaust handboltakjaftæði...) og þrúgandi í flogakenndri fréttahitasóttinni sem gýs upp annað slagið (fjölmiðlafrumvarp, Baugsmálið, Auðunn fréttastjóri, DV-málið...) Þrúgandi í endalausum fréttum um það hver sé nú búinn að kaupa hvað og hvað hinn og þessi sé nú búinn að græða ógeðslega mikið. Þrúgandi í endalausum fréttum um nauðsynlegar grunnstéttir þjóðfélagsins sem fá skít og kanil fyrir sinn snúð. Í ofanálagt virðist hér svo allt á hendi tveggja "blokka" sem maður þarf að taka afstöðu til. Maður þarf sífellt að spyrja sjálfan sig: Hver er búinn að taka mig minnst í rassgatið? og síðan haga viðskiptum sínum og innkaupum eftir því. Það sér hver maður að þetta er frekar glatað. Og þegar það rennur upp er kominn tími á að láta sig hverfa.
Það er svo segin saga að útlönd eru ekki lengi sá sælureitur sem ætla mætti í fyrstu. Í steikjandi hita fer maður að þrá skítakulda og í mannmergðinni að mannlausar víðáttur og auð stræti. Hlutskipti utanveltu ferðamannsins er ekki eftirsóknarvert til lengdar. Maður er því fullur tilhlökkunar á leiðinni heim, hamstrar dagblöðin í flugvélinni og sekkur sér ofan í þrúgandi – en krúttlegt – tíðindarleysið. Og þegar Reykjarnesið birtast loksins út um gluggann hugsar maður á útlensku: Ahhh, here we go again...

Um: OKKUR
Allt snýst um OKKUR. OKKUR sem búum í sátt og samlyndi á eyjunni góðu. VIÐ erum samhent, innhverf ofurþjóð og viljum hafaða þannig. Þegar stórslys henda í útlöndum er þess sérstaklega getið hvort eitt af OKKUR hafi verið meðal hinna föllnu. Sem betur fer er það nánast aldrei. Enginn af OKKUR fórst í Tvíburaturnunum, enginn af OKKUR lenti í flóðunum eða jarðskjálftunum miklu. Ekki heldur í hryðjuverkunum í London og Madrid. Hjúkkit, segjum VIÐ þá og lítum aðeins öðruvísi á atburðina en ef eitt af OKKUR hefði verið meðal hinna föllnu. Fyrst eitt af OKKUR er ekki með þá eru hinir hörmulegu atburðir einhvern veginn ekki alveg eins hræðilegir, enda sjáum VIÐ hið útlenda fólksger eins og í móðu. Það er alltaf eitthvað rugl í gangi í útlöndum og fólk alltaf deyjandi hvort eð er, hugsum VIÐ. Hva, deyja ekki 30.000 börn úr hungri á dag? Það eru ekki VIÐ svo það er algjör óþarfi að spá of mikið í því. Alveg nóg að fá smá samúðarkast fyrir jólin og gefa Rauða krossinum þúsund kall.
Ísland er í 180. sæti yfir fjölmennustu ríki heims. VIÐ erum á milli Bahamas eyja og Belize. Langtum fleiri búa á stöðum eins og Lúxemborg, Tajikistan, Comoros og Maldives eyjum. Ha ha, vá hvílíkir lúsera staðir! Enginn Björk þar eða Unnur Birna. Engir nýríkir snillingar eins og VIÐ að kaupa upp heilu samfélögin.
Í almennilegum fjölmiðlum er gerður greinarmunur á OKKUR og öllum hinum. Eðlilega. VIÐ erum VIÐ – félagar, frændur, kviðmágar – hinir eru eitthvað annað. Íbúar heimsins eru grár grautur í móðu utan landssteinanna. Þess vegna er allt í lagi að birta fréttir sem byrja á "VIÐ vörum við myndunum sem hér koma á eftir" ef það eru fréttir um einhverja aðra en OKKUR. Fréttir um OKKUR hefjast aldrei á að það er varað við myndunum. Eðlilega. VIÐ viljum ekkert slíkt af tillitssemi við aðstandendurna, fólk sem er hluti af OKKUR. Almennileg blöð birta hneykslisfréttir af frægu fólki ef það er útlenskt. Það fólk er bara hluti af grautnum og sér hvort sem er aldrei íslenska fjölmiðla. Ekki má segja hneykslisfréttir af einu af OKKUR. Það er ljótt.
Mér finnst þetta allt saman krúttlegt. Þetta er viðhorf sem gefur öryggistilfinningu. VIÐ eigum að vera ofsalega góð við hvort annað, en ekki bara í fjölmiðlum heldur allsstaðar. Til dæmis alls ekki að keyra í burtu ef einhver fær slag á bensínstöð. VIÐ erum pínulítið land og eigum að klappa sjálfum okkur endalaust á bakið, halda áfram að vera miklu stærri en 180. sætið á listanum gefur til kynna. Hver veit, kannski tekst OKKUR að kaupa upp allan heiminn ef VIÐ höldum svona áfram. Og þá myndi íslenska tillitssemin verða við líði um allan heim. Pældu í því hvers konar útópía þá yrði til! 
 
Um: Músiktilraunir
Tuttugasta og fjórða sigursveit Músiktilrauna fannst á föstudagskvöldið. The Foreign Monkeys heitir bandið, fyrsta sigursveitin frá Vestmannaeyjum. Þetta er skruggufínt gruggpönk hjá strákunum, þétt gítarhjakk sem minnir á Nirvana og Botnleðju, en sungið á ensku. Til hamingju!
Mér finnst Músiktilraunir frábært fyrirbæri og það er gaman að sjá hversu mikill áhugi er alltaf fyrir keppninni. Fimmtíu og ein sveit harkaði á sviði Loftkastalans að þessu sinni og þótt flestir færu heim án verðlauna er fráleitt allt unnið fyrir gíg. Eftir Músiktilraunir er fyrsti áfangi ferilsins kláraður og þótt menn vinni ekki er framtíðin engu að síður björt. Nærtækasta dæmið er strákarnir í Sigur Rós sem komu fram sem hljómsveitin The Bee Spiders fyrir meira en áratugi síðan og ekki þótti tilefni til að verðlauna þá.
Ég þreytist seint á því að monta mig af því að hafa komið fram á alfyrsta Músiktilraunakvöldinu, 18. nóvember 1982, með hljómsveitinni Svart hvítur draumur. Á þessum tíma hafði meistari Jóhann G Jóhannsson verið í svaka stuði í réttindabaráttu poppara sem honum fannst mæta afgangi hjá klassísku páfuglunum í STEF og FÍH. Hann stofnaði félagasamtökin SATT og hluti af baráttuni voru Músiktilraunir sem SATT hélt í samkrulli við Tónabæ. Jóhann er því einskonar afi Músiktilrauna. Þetta fyrsta kvöld vorum við mættir, félagarnir, og gerðum okkar fyrsta gigg. Það voru bara þrjú önnur bönd. Eitt hét Vébandið og var skipað félögum okkar frá Keflavík, merkismönnum eins og Einari Fal ljósmyndara á Mogganum og Séra Guðmundi Karli, sem nú messar í Lindasókn en var á þessum tíma nokkuð brjálaður pönksöngvari. Annað hét Reflex og þar var fréttamaðurinn Heimur Pétursson í fararbroddi, svaka töff (hélt hann) með rauð axlarbönd. Loks var þarna Sokkabandið frá Ísafirði, kvennaband með Ásthildi Cecil.
Þetta tókst nokkuð vel bara, minnir mig að við höfum hugsað án þess að það sé fræðilegum möguleiki að ég muni það. Hin dapra niðurstaða varð þó sú að Reflex fékk flest atkvæði úr salnum (það var engin dómnefnd á þessum tíma), Sokkabandið lenti í öðru sæti en við aumingjarnir duttum út eins og Vébandið. Við hugsuðum auðvitað í biturleika okkar að eina ástæðan fyrir góðum árangri Sokkabandsins væri sá að þetta voru kellingar. Og sé litið á árangur kvenna í Músiktilraunum sést að hann er mjög góður, svona miðað við það hversu fáar stelpur taka þátt. Í ár voru t.d. 9 stelpur í keppninni á móti 205 strákum. Eitt af yfirlýstum markmiðum keppninnar er að auka þátttöku stúlkna í rokk/popptónlist, en líklega fær engin jafnréttisáætlun því breytt að stelpur eru tregar til að taka upp gítarana. Mín vegna mætti þó hreinlega skylda stelpur til að stofna hljómsveitir því þá sjaldan það gerist er útkoman langoftast forvitnileg og góð.