Herra Koizumi í Japan. Hvenær fáum við jafn svalan stjórnmálaforingja?

Svalan leiðtoga strax!

Það er allt að hækka til andskotans, sérstaklega erlendir gjaldmiðlar gagnvart krónunni, svo bráðum nennir maður varla að beygja sig eftir fimmhundruðköllum á götunni. Kaupið mitt hækkar ekkert í samræmi við þetta gengishrun, en hins vegar gera allar skuldirnar það. Ofan á þetta er endanlega að sannast hversu ótrúlega lélegt og óréttlátt kvótakerfið er, og ef maður vissi ekki hversu miklar gufur við erum þegar á hólminn er komið gæti maður haldið að hér yrði bráðlega blóðug bylting.
Það er sem sagt allt að fara til fjandans og vonandi fáum við aðra Marshall-aðstoð þegar við erum algerlega búin að skíta á okkur. Ef það væri einhver ástæða til þess myndi maður geta sagt núna: Hí á þig Davíð Oddson og flóttalega hyskið þitt. Þú ættir sjálfur að loka á þér sjoppunni, drífa þig til Mallorka og ekki að láta sjá þig hérna aftur.

Upp með móngólítaglottið
En það má auðvitað ekki vera vondur við Davíð. Hann er orðinn hálf sturlaður á að hanga svona lengi í þessu djobbi og hann er ekki heldur til góðs þessi lífshættulegi fitukúr sem hann er á. Og auðvitað er ástandið ekki honum að kenna. Eins og allir vita, og krakkarnir í verðbréfunum segja okkur í sjónvarpinu þegar krónan er enn og aftur búin að hrynja og bensínið búið að hækka, fer allt sjálfkrafa til fjandans ef fólk er með neikvæðni og er að barma sér eitthvað. Þá "bregst markaðurinn svona við". Þess vegna er líklegt að krónan verði stöðug og hér rísi fyrirmyndarríki ef allir setja upp móngólítaglottið og láta bara eins og allt sé í himnalagi. Fólk á að taka sér Davíð til fyrirmyndar í þessu. Og muna svo að gera X við D eftir 2 ár.
Ekki það að hinir flokkarnir séu eitthvað skárri. Ekki það að hér væri risið fyrirmyndarríki með stöðugu gengi ef VG eða Samfylkingin hefðu sigrað í síðustu kosningum. Nei nei, það skiptir engu máli hvaða lið er í ríkisstjórn, þetta skakklappast allt áfram í beinu samhengi við hvað veiðist af fiski, en ekki hvaða dót er að delera við sinn ímyndaða stjórnvöl, bannandi okkur hitt og þetta og almennt látandi eins og það sé Guð almáttugur.

Kíló af papríku á tvöhundruð kall
Því finnst mér algjört skilyrði að stjórnmálaforingjar séu svalir og geti rifið fólk með sér í gott framtíðarstuð, fyllt það ímyndaðri lífsgleði og blekkt það upp úr skónum með trú á betra líf og þjóðfélag.
Þær eru ömurlegar framtíðarsýnirnar sem flokkarnir eru með í dag. Sjálfsstæðisflokkurinn segir að við verðum sæl ef við keppumst öll við að verða sem ríkust. Framsókn vill troða okkur í álverksmiðjur. VG vill að við skeinum okkur á mosa og notum frítímann til að týna rusl upp í sveit. Samfylkingin vill að við göngum í ESB, þá verði allt æðislegt.
Hvergi sjáanlegur er svaka svalur stjórnmálamaður, sem getur rifið þjóðina upp af rassgatinu með raunhæfri steypu um að hér sé hægt að breyta og bæta og allir eigi að standa saman, en samt að vera í heilbrigðri samkeppni, því fjandinn hafiði; við viljum ekkert Sovét hér. Ég óska eftir svölum foringja sem virðist bera hag "almennings" fyrir brjósti. Einhvern sem segir: Kjósið mig og innan árs getiði keypt kíló af papríku fyrir tvöhundruð kall. Ég er að biðja um einhvern sem er nógu svalur til að maður trúi á hann, einhvern sem hefur flotta framtíðarsýn, einhvern sem maður trúir að sé að sækjast eftir djobbinu af því hann hefur í alvöru áhuga á að verða til góðs.

Koizumi kúl
Ætli Vilmundur Gylfason hafi ekki verið síðasti stjórnmálamaðurinn hér sem var sæmilega svalur og leit út fyrir að meina það sem hann sagði. Það er a.m.k. enginn sem uppfyllir þetta skilyrði í dag. Íslenskir stjórnmálamenn fá allir falleinkun í mínum stjórnmálaskóla og ef ég hefði lyklavöldin á Alþingi fengju þeir ekki aðra vinnu þar heldur en við að sópa.
Forsætisráðherrann í Japan, Hr. Junichiro Koizumi, er einn fárra stjórnmálaforingja í heiminum í dag sem er svalur. Hann er kvikur í hreifingum, enda Japani, með mjög mikilvægt sítt að aftan og af honum gustar hressandi gustur. Rétt eins og hér eru japönsk stjórnmál rotin og kjördæmaskipunin hyglir fámennri landsbyggð á kostnað borganna. Koizumi vill stokka sístemið upp og flytur ástríðufullar ræður þar að lútandi. Hann er fráskilinn, hlustar á þungarokk og eyðir stórfé á skemmtistöðum -- allt mjög svalt. Hann tekur sig sérlega vel út í svörtum jakkafötunum, með þennan svartglansandi ljónsmakka sem flagsar í vindinum eins og á þýskum þungarokkara. Hann ber alltaf af öllum viðstöddum, bæði við hliðina á grámyglulegum stjórnmálamönnum og þegar hann tók á móti kvartandi holdveikisjúklingum. Hr. Koizumi er semsé maður sem ég myndi umsvifalaust kjósa bara af því hann er svo kúl.

Lásí mannauður
Það er ekkert skrýtið að hér sé lásí lið við stjórnvölinn. Við erum svo fámenn þjóð að mannauðurinn er nú bara ekki meiri en þetta. Auðvitað fáum við menn eins og Pál Pétursson og Árna Johnsen á þing þegar við fáum þætti eins og Hausverk um helgar í sjónvarpið.
Og það er engin ástæða til að fyllast bjartsýni þegar litið er yfir hópinn sem nú er að stíga sín frumspor í potinu. Ó nei. Maður þarf ekki annað en að ímynda sér þá Helga Hjörvar og Guðlaug Þór tuttugu árum eldri, enn með sitt andlausa tuð á móti hvor öðrum í sjónvarpinu  -- og ekki má gleyma að glotta ísmegilega þegar hinn er að tuða til að undirstrika þá skoðun sína að þetta sé allt rugl sem hann er að segja -- já; maður þarf ekki annað en að sjá þessi foringjaefni fyrir sér 20 árum eldri, komna í hásæti við kjötkatlana, til að vera fullviss um að hér mun andskotann ekkert breytast.
Nema auðvitað að einhvers staðar sé svalur foringi sem skyndilega sprettur upp og leiðir okkur inn í sólarlagið, eins og strákurinn með flautuna sem rotturnar eltu. Ó hvar ertu, íslenski Koizumi?