Aftur til Aftur til framtíðarinnar

Við getum lifað í þrem tíðum; fortíð, nútíð og framtíð. Það er leiðinlegast að lifa í nútíðinni, því það er eitthvað svo ófullnægjandi. Fortíðin er sætari; alltaf í blárri sykurhúð minninganna, en framtíðin er sætust; umvafin sigurvissum ungmennafélagsanda. Í framtíðinni er ég ekki næpuhvítur og blankur keppur, heldur brúnt og skorið líkamsræktartröll sem rakar á sér punginn og er með svipað kaup og Ólafur Jóhann.

Himnaríki 102
Fyrir fimmtán árum var ég að klára menntaskóla og vissi ekki hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Í dag veit ég ekki hvað ég á að verða þegar ég verð gamall. Eftir fimmtán ár verð ég -- fyrir utan að raka á mér punginn og þéna fullt af peningum -- mikið að spá í að fá mér lóð á 102. Þá verða félagar í 102-samtökunum rosa glaðir því í þessari fávitamýri sem ég og aðrir bjánar létum æsa okkur upp í að pæla í á laugardaginn verður byrjað að reisa hinn stórkostlega borgarkjarna nýrra tíma, sem stendur fyllilega jafnfætis því sem best gerist erlendis. Þar verða ekki skólar heldur eintóm frumkvöðlahús því krakkar í framtíðinni verða svo klárir og í flinkir á tölvum. Styttur af Kára Stefáns og Guðjóni í Oz verða settar upp á torgunum. Þarna verða auðvitað engir bensínbílar, eingöngu metanknúnir almenningsvagnar og í heita pottinum má sjá Hrafn Gunnlaugsson, sem býr á 17. hæð í einni blokkinni, og fleiri ellilífeyrisþega flatmaga. Þrjú kaffihús verða á hverja 100 íbúa, fólk skeinir sér á umhverfisvænum mosa, endurvinnur allt rusl og er með matjurtarskika í garðinum. Lífið í þessu himnaríki 102 verður jafn frábært og lífið í auglýsingu frá tryggingafélagi eða banka. Ég er alveg viss um þetta!

Matur úr túpu
Djöfuls kjaftæði. Og ég að falla fyrir þessu! Að láta hafa mig út í þetta! Að eyða tímanum í að hlaupa eftir einhverju bulli í fólki með allt niðrum sig. Að láta einhverja sjónvarpsþætti spana mig upp í að þykjast hafa skoðun á skipulagsmálum. Ég lúti höfði af skömm.
Því framtíðin verður alltaf önnur en við höldum. Og sama hvað fólk rembist og röflar um lýðræðisleg vinnubrögð. Glætan að hægt sé að kjósa um framtíðina, sérstaklega hjá þjóð með gullfiskaminni. Glætan að einhver verði að pæla í því árið 2016 hvernig þessi fábjánalega flugvallarkosning fór. Ég er viss um að Ingibjörg Sólrún í sumarhúsinu í Svíþjóð man ekki einu sinni eftir þessum kosningum.
Framtíðin hefur aldrei orðið eins og henni var spáð. Nostradamus og Jules Verne grísuðu nokkurn veginn á þetta, með rosalegum vitleysum þó, því fyrir framtíðinni verður aldrei hægt að spá. Flest fer öðruvísi en við höldum. Sem betur fer.
Upp úr miðri öldinni var svakaleg bjartsýni. Bandaríkin og Sovét voru í banastuði og espuðu hvort annað upp í að senda dýr og drasl á braut um jörðu. Þá fannst öllum að framtíðin hlyti að verða björt fyrst hægt var að skjóta tík upp í loftið og láta hana snúast um jörðina. Geimtíkin Laika og geimkappinn Gagarín voru á hvers manns vörum og Appóló-lakkrísinn kom á markaðinn.
Eftir tíu ár verður vinnuvikan 10 tímar því gerfiheilar á stærð við kýr vinna verkin fyrir okkur, spáði Vikan 1960 og bætti við: Fólk mun ferðast um í flugstólum og borða bragðgóðan mat úr túpum.
Einmitt. Hver man ekki eftir Ora-túpunum frá 1970?

Krakkar með svepp á heilanum
Svo hvarf bjartsýnin og smá saman urðu allir svaka svartsýnir. Ég var t.d. viss um það um 1980 að ég myndi bráðlega stikna í báli kjarnorkusprengjunnar. Í öllum grunnskólum landsins sátu teiknikennarar yfir krökkum sem teiknuðu ekkert nema kjarnorkusveppi. Vinsælasta lagið var Bubbi að öskra á okkur að við myndum öll deyja -- stikna og bráðna og hvað eina, eins og ostar. Upp úr því hömuðust krakkarnir sem aldrei fyrr við að teikna sveppina og bættu jafnvel hauskúpum og krossum við.
Á þessum árum þegar Hollywood gerði myndir um framtíðina var þar alltaf allt í rúst og mannkyn allt krypplingar í lörfum. Sögulegu hámarki náði þessi svartsýni með myndinni The Day After, þar sem Jason heitinn Robarts skreiddist um rústirnar, rakst á stökkbreytta slefandi kroppinbaka með augun lekandi niður kinnarnar og barðist við þá um geislavirkt súkkulaði. Maður kom út úr bíóinu alveg í rusli og bjóst við að sjá sveppinn yfir Keflavík þá og þegar.

Spámaðurinn Zemeckis
Sem betur fer létti á kalda stríðs-spennunni og það löngu áður en Berlínarmúrinn féll. Það gerðist þegar Hollywood sendi okkur bestu framtíðarpælingu (og fortíðarpælingu) allra tíma; Back to the Future. Í 2. hluta fer Michael J. Fox til ársins 2015 og mætir ekki stynjandi kjarnorkukrypplingum eins og við áttum til þess tíma að venjast, heldur óstökkbreyttu fólki og allir í gúddí fíling. Ég man enn hvað mér fannst sniðugt en þó vafasamt þegar Michael fór inn á kaffihús sem hafði 9. áratuginn sem þema. Eins og nokkur vilji rifja upp þetta asnalega tímabil árið 2015, hugsaði ég og glotti.
En þar hafði ég rangt fyrir mér en leikstjórinn Robert Zemeckis rétt fyrir sér. Þetta hundleiðinlega eitís hefur verið í stanslausri upprifjun síðan eitísið varð að næntís og það er ekkert lát á. Krakkar í Versló verða örugglega enn að rifja upp hvað Duran Duran voru æðislegir árið 2015.

Nostalgía framtíðarinnar
Á bítlatímanum klæddi ungt fólk sig upp í peysuföt og dansaði gömlu dansana, Savanna tríóið sló í gegn með þjóðlega fílinginn og Naustið gerði úldinn mat á Þorranum vinsælan á ný. Hipparnir vildu enga nostalgíu heldur ímynduðu sér útúrskakkir að allt yrði frábært í framtíðinni, en í lok hippatímans kom myndin American Graffity og þá fannst öllum 6. áratugurinn hljóta að hafa verið frábær. Bítlarnir eru enn mest selda hljómsveit í heimi og taka sölukipp í hvert sinn sem gamla dótinu er pakkað inn í nýjar umbúðir, því það var allt svo æðislegt þegar bítlið stóð yfir. Mér er næst að halda að nostalgían hafi alltaf verið til. Kannski rifjuðu hellisbúarnir m.a.s. einhvern tímann upp hvað allt var frábært og þeir broslega asnalegir á meðan þeir voru enn í trjánum.
Það verður alltaf nostalgía. Fortíðin er jú alltaf sætari en þessi leiðinlega nútíð. Og kannski verða krakkarnir í Versló árið 2016 ekki að rifja upp hvað Duran Duran voru æðislegir heldur hvað allt var frábært um aldamótin; hvað fólk klæddi sig í asnaleg föt þá og hvað það er sniðugt hvernig fólk nennti að senda sms-skilaboð daginn út og inn. Foreldrar framtíðarkrakkanna, sem eru sjálfir krakkar í dag, mæta á sýninguna og fá tár í augun þegar þau heyra Birtu og símhringingu úr æfafornum gemsa.
Það er allavegana margfalt líklegra en að einhver lifandi hræða verði að spá í því að af þessum 30.000 borgarbúum sem létu plata sig á kjörstað fyrir 15 árum hafi 1% fleiri viljað losna við flugvöllinn. Hann verður líklegast fyrir löngu aflagður hvort eð er, enda Flugleiðir búið að væla sig á hausinn og allir löngu fluttir á mölina.