OKUR! OKUR! OKUR!
Okur á skerinu blauta. Okur alla daga. Okur út um allt. Láttu vita!

#200   Fór í Fjarðakaup um daginn og sá rosa fínt "tilboð" á lambalæri: 1299 kr kílóið við kassann (átti að kosta 1699 kr kílóið). Er ég kom heim (bý í Keflavík) sá ég að þetta bara var alls ekkert tilboð, síðasti söludagur var sami dagur og ég keypti það! Og ekki nóg með það heldur kíkti ég á verðmiðann og sá að það stóð á verðmiðanum 1299 kr kílóið! Sem þýðir að þetta var ekkert tilboð heldur voru þeir bara að reyna að losa sig við kjötið því hvernig vissu þeir fyrirfram 
er þeir settu verðmiðann á kjötið að það myndi verða á þessu verði á TILBOÐI? Ég hefði átt að fara tilbaka og klaga en gerði það ekki :( en það sýnir bara enn og aftur að þessi tilboð eru ENGIN tilboð þeger maður hefur athugað málið betur!

#199    Besta dæmi um okur er kannski ekki í krónum og aurum, heldur sú staðreynd að Nemendafélag Flensborgarskóla fengu Bloc Party - nokkuð þekkt hljómsveit - til að spila á skólaballi (!), þar sem þeir eru ódýrari en Paparnir. PAPARNIR! Myndi meika pínu sens ef Bloc Party væru frá Nebraska en, nei, þeir eru frá hinu tilþessaðgera dýra Englandi. Það stingur alltént
allhressilega í stúf að Paparnir séu dýrari en Bloc Party, sem klárlega er OKUR! (nb. Heldurðu að Bloc Party kunni eitthvað eftir Oddgeir Kristjánsson? Eða bara eitthvað annað en sitt sæmilega ballöðurokk? Ekki nennti ég á ball með þeim.)

#198   Það er dýrt að gleyma handklæðinu sínu heima. Ég fór í sund í gær í breiðholtslaug og gleymdi handklæðinu. Ég leigði mér eitt slíkt í afgreiðslunni, það kostaði 350 kr. Í þokkabót var það ekki nema 30x60cm á stærð. OKUR!

#197   Ég var að skoða uppboðssíðu á Myspace og rakst þar á alveg ofboðslega flotta kjóla. Þeir kostuðu heilar 1.000,- kr DK (samt er uppboðssíðan á íslensku...) Ég tók eftir logo-i á myndunum af þeim og ath hvort ég myndi ekki finna kjólana einhverstaðar í heildsölu... ég rakst á sömu kvikindin á E-Bay (nákvæmlega sama myndin) á 19.95 dollara. Við erum að tala um 11.489,- & 1.203,-  ER ÞETTA EKKI OKUR ????

#196  Sá tilboð um daginn frá Plúsferðum. Flug til Madríd og til baka á aðeins 9.900 með sköttum og öllu. Ég stökk á tilboðið og bauð kærutunni minni með, sem þýddi að ég borgaði rétt um 20.000 kr fyrir okkur bæði. Þetta er náttúrlega enginn peningur og líklega mjög nálægt ef ekki undir kostnaðarverði. Gott framtak hjá þeim. Sama dag fór ég og skoðaði hvað samskonar flug hefði kostað hjá Icelandair (sömu dagsetningar, mán-fim). Icelandair gaf upp nokkra valmöguleika, en allir voru þeir á bilinu 171 þús - 222 þús pr. farþegi! Sem þýðir að hefði ég ætlað að bjóða kærustunni til Madríd með Icelandair hefði það kostað svipað og bíllinn minn (400.000 kr).

#195    Fór í  Borgarleikhúsið fyrir stuttu. Keyptum 4 litlar rauðvínsfloskur fyrir sýningu – kr. 3.000: að mínu viti okur. Í hléinu keypti ég einn einfaldann Gammel Dansk kr. 600. Okur!

#194    Aukaálegg á samloku á Leirunesti Akureyri, 300 krónur!! (nb. Hvað, baðstu um humar?)

#193    Ég er að leita mér að nýjum farsíma, ég er búin að vera að skoða Sony Ericsson k790i, sem fæst hjá Símanum á 29.900 kr (2000 kr ódýrara ef keypt er á netinu). Erlendis er hann eitthvað ódýrari í Svíþjóð og Þýskalandi en hann virðist vera farin af markaðnum þar því hann fæst varla. Síminn er u.þ.b. 5000 krónunum ódýrari úti en hér hjá Símanum. Mér fannst þetta nálgast það að vera okur ef síminn er það gömul týpa að hann er að detta af markaði. En mér duttu allar lýs úr höfði þegar ég sjá verðið sem Vodafone setur upp fyrir sama síma 49.900 kr á tilboði!!! (nb. það margborgar sig að gera verðkönnun áður en maður kaupir eitthvað.) 

#192  Keypti mér box frá ÁVAXTA-BÍLNUM 200 gr. 5 melónubitar (litlir ): rétt tæpar 400 kr. á bensínstöðinni  í Norðlingaholti  v/ Suðurlandsveg. Er það ekki OKUR? (nb. 5 litlir melónubitar á tæpar 400? - nei það er sanngjarnt... djók...) 

#191    Bankaábyrgð vegna húsleigu hjá Kaupþingi kostar 4.000,- kr. fyrir hvert 90 daga tímabil. Segjum sem svo að þú þurfir ábyrgð fyrir 100.000,- kr. í heilt ár, þá er kostnaðurinn sem þú greiðir bankanum (alveg óháð því hvort gengið sé á ábyrgðina eður ei) 16.000 eða 20.000,- kr. það fer eftir liðleika bankastarfsmanna hverju sinni (hvort þeir kjósa að túlka þetta sem 360 (4*90 dagar) eða 365 (heilt ár) daga tímabil). Það er svipað há upphæð og vextir á yfirdráttarheimild (óhagstæðustu lán í heimi) kostar yfir sama tímabil. Okur ekki satt!

#190    Skrapp inná AMOKKA í Hlíðarsmáranum í dag og fékk mér lítinn venjulegan kaffibolla á 290 kr. Það versta var að það var engin ábót þegar ég bað um það!!! Sem er fáránlegt. Svo kaffisopinn hefði kostað mig 580 kr hefði mig langað í ábót. Pottþétt leið til að fæla alla góða kaffihúsagesti frá. Reyndar ekki skrýtið í ljósi þess að inní þessum 400 fm húsnæði voru gestirnir fjórir ...með mér!! Fer ekki aftur þangað í kaffi.

#189  Ætlaði að kaupa mér hleðslubatterí um daginn. Fór í BT. Þar fengust 4 AA hleðslubatterí með hleðslutæki á 7900 kall. Fór þess í stað í KHB (Kaupfélag Héraðsbúa), þau pöntuðu svona batterí fyrir mig og ég keypti 4 stk á 298 kr. Kom reyndar svo í ljós að þau áttu að kosta 1298. Kannski borga ég þúsundkallinn einhverntímann...

#188    Fór á barinn á Hótel Íslandi og pantaði glas af rauðvíni. Tekið var fram hvítvínsglas, það borið upp að beljukassavíni án þess að fela það fyrir mér og reikningurinn 800 kr. Kassinn kostar þetta um 3500 til 4500 í Ríkinu. Ég held að ég fari nokkuð nærri lagi að segja að úr kassanum náist a.m.k. 20 glös af þeirri stærð sem ég fékk og því fæst fyrir kassann 16.000 kr. Ekki nema von að verðið sé hátt.  Ég neitaði að taka við glasinu. 

#187    Fosshótel okra: 14.700 kr nóttin fyrir einn á Fosshótel Laugum í Reykjadal. Í mölétnu og saggafullu herbergi í heimavistarskóla þar sem þú getur lyft dýnunni og lesið um það hver "riðu hér" á rúmbotninum. (nb. Láttu mig vita það. Íslensk hótelgisting er almennt fáránlegt okur. Ég var á ferð um Austfirði sumarið 2006 og gisti einmitt í svona heimavistarhóteli á Neskaupsstað (Hótel Edda). Man ekki verðið en það var í kringum 13.000 nóttin fyrir tvo á einmitt svona algjöru skítaherbergi með hver riðu hér kroti. Nóttina áður var ég á Hótel Aldan á Seyðisfirði, sem er stórglæsilegt hótel og frábært herbergi kostaði næstum því það sama og skítakompan á Neskaupsstað. Verð og gæði fara því alls ekki saman í þessum bransa.)

#186    Æfingagjöld í fótbolta hjá 7-16 ára hjá ÍR fyrir veturinn 2006-2007: 13.500. En núna: 29000 kr. OKUR! (nb. Hva, færðu ekki frístundakort?! Djók...)

#185    Niðurstaðan mín er einfaldlega sú að ÍSLENSKIR NEYTENDUR LÁTA ÞETTA GANGA YFIR SIG SJÁLFIR, OG GETA EINGÖNGU SJÁLFUM SÉR OG LETINNI UM KENNT. Besta dæmi um þetta í heimi er VERÐSAMRÁÐ OLÍUFÉLAGANNA. Hvað gerðu neytendur þá? Þeir fóru á næstu bensínstöð, keyptu sér pylsu með kartöflusalati, kók og prinspóló, vældu svo hver í öðrum á meðan hvað þetta væri allt ósanngjarnt. Ef þetta hefði gerst í sumum öðrum löndum hefði minnsta kosti kviknað í einni bensínstöð, og fólk hefði hópast saman, og gert eitthvað róttækt til að láta vita að þetta verður ekki látið viðgangast. Róttækar aðgerðir.   VIÐ HÖFUM VALIÐ. Það er ekkert mál að losna við eða sniðganga OKUR, einfaldlega kauptu ekki vöruna, eða gerðu eitthvað í því þegar á þér er brotið. Kannski gott að nefna gott dæmi um okur: Íslenskar landbúnaðarvörur. Af hverju eru þessar vörur dýrari en innfluttar vörur sem bera há vörugjöld, innflutningsgjöld og skatta í ofanálag?  Jú, örugglega til afsakanir við því. Ég held einfaldlega að það séu of mörg smábýli á landinu, þyrftu að sameinast og verða stærri býli. Hætta að styrkja greinina með bótum og láta markaðinn sjá um þetta.

#184  Ég kalla nú ekki allt ömmu mína og er yfirleitt gólftuska þegar kemur að því að vera neytandi. Varð samt kjaftstopp í hádeginu á 101 Hótel. Indverskur eggaldin og spínatréttur hét þetta á matseðlinum. Við erum að tala um sérstaklega illa útilátinn grænmetisrétt. Nokkrir ofsoðnir eggaldinbitar og örlítil sletta af spínati. Desilítri af hrísgrjónum til hliðar: 1800 kr! Kaffi latte í desert: 410 kr! OKUR!

#183    Um dagin þá tókst mér að eyðilegja teiknibretti sem notað er við tölvur. Þessi bretti fást á fáum stöðum hér á landi og hef ég aðeins séð þetta í Apple IMC á Íslandi (getur vel verið að þetta sé til í fleiri búðum). Samkvæmt vörulista þeirra (niðurhalaður 9. okt ´07) kostar Wacom Intouos 3 teiknibretti stærð 6x8 39.900 kr. Þar sem að mér ofbauðst þetta verð þá leitaði ég erlendis og gat þar verslað þetta fyrir 189 dollara í BNA eða £159 í Bretlandi
Semsagt:
USA 189 x 60.81 (gengi dollara 9.okt ´07)  – 11.493kr.-
Bretland 159 x 123 (gengi punds 9.okt´07) - 19.557kr-
Verð á Íslandi - 39.900kr.-

Verðmunurin er þá 28.407 kr.- á því að versla þetta í BNA í stað þess að versla þetta á Íslandi. og 20.343 kr ef maður verslar í Bretlandi. Ég veit að Apple búðin er ekki ódýrasta búð í heimi, en þetta OKUR!!! er fyrir neðan allar hellur, það borgar sig næstum því að smella sér til Englands og ná í þetta. (nb. er ekki megnið af þessum mismun tollar, vaskur, aðflutningsgjöld og bla bla bla?) (Þú spyrð hvort að verðmuninn sé ekki hægt að útskýra með tollum, aðflutningsgjöldum ofl. Langaði bara að koma því á framfæri að það eru engir tollar né aðflutningsgjöld á jaðartækjum í tölvur (s.s. mýs, teikniborð/bretti, lyklaborð, stýripinnar ofl.), aðeins virðisaukaskattur ;))

#182    Langaði að segja frá því þegar ég var á Nasa á Franz Ferdinand tónleikunum, það var heitt og sveitt þarna inni og ég ákvað að fá mér sódavatn á barnum. Það var ágætis hávaði þarna og ég heyrði ekki upphæðina sem barþjónninn gaf upp og stakk kvittuninni í vasann, fattaði því ekki fyrr en daginn eftir þegar mér varð litið á miðann að lítið glas af sódavatni með klaka kostaði heilar 350 krónur!  Það var reyndar með sítrónu en fjandinn hafi það, þetta er OKUR! 

#181    Hér eru tvö dæmi frá mér en ég gæti nefnt þúsund fleiri... þau koma kannski seinna. Áfylling í Sóda stream tæki kostaði rúmar 600 krónur fyrir mánuði síðan í Hagkaup en er núna komið í 800 krónur. Ég spurði  um ástæðuna og fékk svarið "örugglega af því þetta er orðið svo vinsælt" frá afgreiðsludömunni. Í Hagkaup er einnig farið að selja Space Bag, sniðuga poka sem hægt er að geyma föt í og lofttæma til að minnka plássið sem það tekur. Þeir eru á bilinu 1200-5000 krónur í Hagkaup en nákvæmlega sömu pokar fást í www.containerstore.com á bilinu 6-10 dollara (allir kostar þeir innan við 630 krónur isl. líka þeir stærstu!)

#180    Sex-korna rúnnstykki hækkaði í verði hjá Bæjarbakaríi í Hafnarfirði nú á dögunum úr 110 kr í 125 kr., eða um nær 15%. Þakkaði fyrir mig og fór út án þess að versla. Fer ekki þangað aftur. Nóg er af okrurum í þessari stétt og enginn segir neitt. (nb. Mosfellsbakarí eru í sama gæða klassa og Jói Fel og Café Conditori, en ódýrari. Eru í Mosfellsbæ og Háaleitisbraut.)

#179    Tyggjó með tíu bitum á 298 kr í Europris / Oreo kexpakki á 598 kr í Europris

#178    Kaffið um borð hjá Iceland express 200 Kall, og það er ekki eins og það sé eitthvað cappuchino. Bara helvítis sokkavatn.

#177    Fór að versla hjá Jóa Fel og keypti eitt stykki Múslíbrauð 445 kr og kransastöng 285 kr, Súkkulaðibitakaka 225 kr og rúnnstykki 115 kr. Þetta er slíkt okur að ég hvet alla til að sniðganga þessa svívirðu. (nb. Þetta eru líklega verðin sem koma skulu. Ég tók eftir því í gær að hvítlauksbaguette í Hagkaup var komið upp í 380 stk en var um 330 fyrir viku. Allt er að hækka þessa dagana.) (Athugasemd: Ég fór að versla í gamla góða Bernhöftsbakaríi. Hafði ekki komið þangað í þó nokkurn tíma og viti menn, öll rúnnstykki á aðeins 50 kr. Ég tók líka eftir því að allt er miklu ódýrara en hjá Jói fel. Þetta er frábært framtak hjá þeim, þeir í Bernhöfts eiga hrós skilið. Gott að eitthvað bakarí sé ódýrt í þessari okrara stétt.)

#176    Útskriftargjald hjá Símanum er 250 kr. Þeir senda út um 100.000 reikninga á hverjum mánuði (flest heimili með fleirri en einn símreikning, sem eru reyndar óskiljanlegir oft). Þetta gerir 25 milljónir á mánuði, 300 milljónir á ári í hreinan hagnað af seðilgjöldum. Okur sem orkar tvímælis lagalega. (nb. Reikningarnir eru prentaðir á eðal lúxuspappír og svo kostar að bera þetta út. Svo það er nú varla nema helmingurinn í hreinan hagnað, eða hvað?)

#175    Hálfslíters dós af Víking bjór (alveg eins og í Ríkinu) í flugteríunni á Reykjavíkuflugvelli: 700 kr. OKUR! (nb. kostar 229 kr í Ríkinu, ágætis álagning!)

#174    Mánaðarkort í líkamsræktarstöðinni Bjargi á Akureyri: 8500 krónur! (nb. Hvaða hvaða? Er þetta ekki eðalstöð? Þú borgar 9900 kall á mánuði í World Class í Laugum. Málið er auðvitað að stökkva á árskort, enda gerist ekkert á einum mánuði. Ég sé að Bjarg er með árið á 47000 kr (World Class á 51.800 kr). Það er hverrar krónu virði!)

#173    Fórum tvö á mótorhjólum austur fyrir fjall og ákváðum að hlýja okkur yfir kaffibolla í Eden. Tveir bollar af venjulegu uppáhelltu togarakaffi í Eden í Hveragerði kostuðu 530 krónur!  Það gera 265 kall bollinn! Í Fossnesti kostar bollinn 50 kall. (nb. Tók einmitt eftir því að út á Grandakaffi kostaði kaffibollinn eitthvað svipað, þ.e. um 250 kall, þegar ég fór þangað síðast. Fannst það helvíti mikið enda ekki um neitt lúxusstöff að ræða.)

#172    Kökumeistarinn við Búðarkór Kópavogi – Snúður: 165 kr (og haldið ykkur) 1/4 léttmjólk: 80 kr. (Kostar venjulega 35 kr í bakaríum!) OKUR!

#171    Keypti armbandsúr handa konunni í afmælisgjöf í MEBA kringlunni. Það kostaði 18.700 kr. Þar var mér sagt að þessi verslun væri líka í Smáralind og og gæti skipt og skilað þar líka, ef það þyrfti, þetta væri sama verslunin. Ég fer svo í Smáralindina til að láta stytta ólina. Rek þá augun í það að sama úrið í Sáralind er 2700 kr ódýrara þar. ÞETTA ER BARA OKUR! (nb. Já eða óheppilegt ósamræmi hjá Meba.)

#170    50 gramma próteinstöng í Olís-Uppgrip versluninni í Álfheimum: 297 kr. Hreint rán og þar fyrir utan eru svona heilsu"sælgæti" nær undantekningalaust óæt. (nb. Til hvers þá að kaupa það?) Fékk annars hugmynd í reiðiskasti við lesningu á okrinu. Væri ekki tilvalið að skipuleggja svokallaða okurferð til Evrópu eða Ameríku? Þar væri 200 íslenskum og reiðum neytendum smalað í flugvél þar sem þeir birgja sig upp af erlendum varningi og koma með til landsins. Sé fyrir mér Ingu Lind eða Helga Seljan fylgja verslunarbrjáluðum hópnum í mollunum ytra. Svo er spurning hvort ferðin falli ekki um sjálfa sig þar sem okrað verður á flugfarinu auk þess sem tollararnir í Keflavík troða andlitinu ofan í töskurnar og spyrja hvað Levi's buxurnar og nærfötin kostuðu. En skilaboðin samt sem áður kröftug og symbolísk. (nb. Til að gæta jafnréttis verður ekki líka að bera saman laun fólks hér og úti í sömu störfum? Líka íbúðarkostnað og allt heila klabbið? Það væri gaman að sjá útkomuna svart á hvítu.)

#169    Var á skemmtistaðnum Deco við Austurvöll um daginn.  Pantaði mér Captain Morgan í Coke (einfaldan): 850 kr. Þetta er ekki nema 30cl glas og ég held að áfengið í þessu sé ekki nema svona 5cl.....svo er restin bara klaki.. OKUR!

#168    Ætlaði að leigja spólu í Bónusvideo Spönginni Grafarvogi og þá kom í ljós að ný spóla er komin í 650 krónur. Enda sagði ég "en hvað kostar spólan BARA ef ég sleppi nótt með þér?" Ég held ég noti eingöngu BitLord héðan í frá. (nb. það kostar 650 kall að leigja dvd á flestum stöðum. Vod Skjásins er eitthvað ódýrara, 550 kall held ég, en munar ekki miklu. Á meðan kostar 900 kall í bíó. Mig minnir að verðmunur milli bíós og spóla hafi verið miklu meiri einu sinni.) (Athugasemd: Laugarásvídeó (líklega besta leigan á Norðurlöndum, ef ekki víðar) eru búnir að lafa í 500 kallinum fyrir DVD í áraraðir og þyrfti líklega stórfellt efnahagshrun til að það fari að breytast. VHS er á skitinn 300 kall, enda skil ég ekkert í fólki sem hendir vídeótækjunum sínum. Spólur endast í ár (ef ekki áratugi), ólíkt þessu
handónýta DVD-drasli. Lengi lifi yfirburða-úrvals og EKKI-OKRANDI Laugarásvídeó!)

#167    Ég kalla það okur þegar lággjaldaflugfélagið Iceland express býður ódýrasta flug til og frá London á tímabilinum 25.október til 28.október á 50.850 kr.

#166     Að fá póstinn sinn sendan til sín annað en á skráð lögheimili (á t.d. við um leigjendur í öðru sveitafélagi en sínu eigin t.d. námsmenn af landsbyggð í RVK) kostar 580 kall á mánuði. Þetta er 5 mínútna tölvuvinnsla hjá Póstinum.(athugasemd: Án þess að ætla að réttlæta okur Póstins sem er ótvírætt, langar mig svolítið að setja út á þessa færslu. Þó svo að um fimm mínútna tölvuvinnslu sé að ræða þá eru það ekki tölvur sem flokka póstinn. Það er mun meiri vinna þarna á bakvið heldur en lítur út fyrir að vera. Maður getur spurt að sama skapi hvers vegna ekki að breyta addressuni í póstfanga eða þjóðskrá? Það er bara fimm mínútna aðgerð.)

#165    STÓRA okrið í dag eru sölulaun fasteignasala. Fyrir hvert viðvik er fólk að greiða hundruðir þúsunda (eða milljónir) af eignum sínum. Fasteignasalar munu sannarlega reyna að réttlæta tilveru sína en þegar á hólminn er komið getur fólk allt eins selt eignir sínar sjálft. Smá vinna en þú verður aldrei á betra tímakaupi á ævinni. Ég skora á þig að kynna þér málið. (nb. Hef aðeins kynnt mér málið. Remax taka 2.5% af söluverði íbúðarinnar en bjóða meiri þjónustu en aðrir. Ef þú selur íbúð á 30 millur ertu að borga þeim 750.000 kall, sem er svakalega mikið. Aðrar fasteignasölur taka þetta 1.5 - 2% í söluþóknun. Fasteignasalan Draumahús kemur skást út úr þessu með fasta þóknun.)

#164    Ég var sektaður um 50.000 krónur fyrir að keyra leigubíl á 101 km. hraða á Víkurveginum (á leið uppí Mosfellsbæ), um hánótt þar sem enginn annar bíll var á ferðinni. Hámarkshraði á þessum kafla er 80 en enginn keyrir undir 90.  Sektin kostaði 35.000 í fyrra. OKUR! (Athugasemd: Hraðasektir geta engan veginn fallið undir okur, hvorki sektirnar sjálfar né hækkanir á þeim. Sektir eru viðurlög við lögbrotum. Ef tiltekið sektarboð hækkar milli ára er um að ræða tilraun af hálfu löggjafarvaldsins til að stemma stigu við því hátterni sem sektað er fyrir. Hraðakstur er ekkert gamanmál, eins og við vitum sennilega öll, nema leigubílstjórinn sem var að flýta sér niður í bæ til að sækja drukkna farþega með kreditkort. Ég mælist til þess að þú reynir að takmarka færslurnar við ábendingar um alvöru okur, sem er nóg af, í staðinn fyrir að síðan breytist í eitthvað persónulegt vælhorn fólks. Þú getur t.d bent þeim á blabla.is.) (nb. Já herra.)

#163    Gulrætur sem kosta nærri 600 kr kílóið (596.-) og það í Bónus! Ég hef ekki fyrr tekið eftir að þær væru svona dýrar. (nb. Voru þetta ekki bara gullrætur?)

#162    Að leggja inn pening á reikning hjá Kaupþingi kostar 290. kr, sé það gert á laugardegi í KB Banka í Kringlunni. OKUR !

#161    Keypti tvo flugmiða hjá Icelandair til Glasgow á um 25.000.- miðann. Þurfti að breyta fluginu og kostaði það kr. 5.000.- á miða. Samtals kr. 10.000.- sem hlýtur að vera heimsmet í flugokri!

#160    Þar sem nú er víst ekkert verðsamráð á milli olíufélaganna er frekar einkennilegt að sjá nákvæmlega sama verðið á bensínustöðum sama hvaða nafn þær bera. Í gær ók ég að bensínstöð N1 rétt hjá Útvarpshúsinu og þar kostaði líterinn af 95 oktan bensíni 126.20 kr. Áfram ók ég upp á höfða á N1 þar kostaði líterinn 126.20, hjá Skeljungi á sama stað kostaði hann 126.20, á Olís við Rauðavatn kostaði líterinn 126.20, í Hveragerði hjá N1 kostaði líterinn 126.20, á Olís Selfossi kostaði líterinn 126.20 og hjá N1 á Selfossi kostaði líterinn 126.20. Merkilegt að olíufélögin skuldi bara óvart detta inn á að hafa sama verð sama hvaða nafn þau bera! (nb. Ábyrgir neytendur versla eingöngu við Atlantsolíu!)

#159    Ég verð að benda reykingarmönnum á að þó það sé hvergi ódýrt að kaupa sígrettur þá er það einna best hjá Leifa í Iðufellinu. Hjá Leifa kostar Viceroy og Malboro 530 krónur á meðan 10-11 & 11-11 selja þá yfir 600 kr. (Athugasemd: Þetta virðist ekki vera nein ábending um okur, heldur auglýsing fyrir Leifa sjálfan.) (nb. Já en krúttleg.)

#158    Ég ætla að benda á dálítið sem mér finnst vera mjög ómerkileg vinnubrögð hjá Morgunblaðinu. Á heimasíðu Morgunblaðsins Mbl.is er boðið upp á kynningaráskrift á blaðinu í mánuð, sem er gott mál. En þar er einnig tekið fram að eftir að kynningaráskriftinni lýkur þá þurfi að hringja inn á Morgunblaðið og láta vita ef þú vilt ekki halda áfram áskriftinni. Hvað haldið þið að séu margir sem muna eftir þessu og hringja inn?
Það stendur ekki á því stuttu síðar, ef þú gleymir að afpanta áskriftina, þá senda þér ítrekanir og hótanir um innheimtuaðgerðir ef þú greiðir ekki áskriftina. Það er ekki mjög langt síðan að Morgunblaðið lét það eitt duga eftir kynningarmánuðinn að hringt var og spurt um framhaldið.
Sem sagt, ákaflega ómerkilegt að koma svona aftan að fólki, örvæntingarfull aðferð til þess að ná í viðskiptavini. Sennilega gengur nú bara illa hjá Morgunblaðinu, það er að segja pappírsútgáfunni, enda úrelt fyrirbæri.

#157    Ég var núna rétt áðan í Mál og Menningu við Laugarveg að kaupa mér eyrnatappa. Ég er í stífum prófum og eyrnatappar eru lífsnauðsyn til að gefa einbeitingarfrí þegar maður býr á stúdentagörðum (við Lindargötu) með partíglöðum nemendum.
Ég fékk 2 pör af eyrnatöppum saman í pakka á 380 kr – Þrjú-hundruð-og-átta-tíu-krónur!
Venjulega kaupi ég parið á 20 kr stk í Bóksölu Stúdenta. Þetta er næstum því 10falt verð, verðið er 850% hærra en hjá bóksölunni. Ég öskra því hástöfum OKUR! OKUR! OKUR!

#156    Verslunin Birta á Egilsstöðum: stytting á gullarmbandi 6.300 kr. Tekinn einn hlekkur úr!! OKUR!

#155    Nú er ég nýfluttur heim frá Danmörku og fékk mér nettengingu. Verðlagningin á slíkri "þjónustu" er náttúrulega geggjun. Hjá Símanum borga ég 3990 kr  fyrir fyrir internet á skjaldbökuhraða (1MB) og TAKMÖRKUÐU DÁNLÓDI (hvaða snillingur fann það ripp off upp?!) á meðan hægt er að fá t.d. 20MB tengingu MEÐ heimasíma á ca. 3600kr í Danmörku. 20x meiri hraði, ótakmarkað dánlód + heimasími!

#154    Fór í Nóatún á Austurveri um daginn og keypti í matinn, m.a. ber í köku sem ég var að gera. Eftir að hafa í hugsunarleysi straujað kortið og gengið út í bíl leit ég á miðann: 180 grömm af brómberjum í Nóatúni kosta 899 kr.!  Það gerir 5 kr. grammið af brómberjum!  Það þykir mér OKUR!

#153    Harðfiskur er munaðarvara á Íslandi, sérstaklega bitafiskur sem er alltaf dýrastur. 90 gr af bitafiski kostaði mig 624 kr. í Krónunni. Það gerir 6860 kr. kílóið. Er að spá í að fæ mér bara hreindýrasteik næst. OKUR! (Athugasemd: Ég ætla ekki að fara að afsaka verð á harðfiski og hef ekki af því neinn hag. Mig langaði bara til þess að benda á að hugsanlega væri rétt að bera verðið á harðfiski saman við verð á nýrri ýsu þar sem tillit væri tekið til þeirrar rýrnunar sem verður við þurrkun. Ný ýsa út úr fiskbúð roðflett og (næstum) beinlaus kostar um kr. 1200 (OKUR???) Ég hef það frá óáreiðanlegum heimildum að fiskur rýrni ca tífalt við þurrkun. Það myndi þýða að bitafiskur á kr. 6860 kg sé í raun kr. 686 kg af ferskum fiski sem þá á eftir að þurrka og vinna frekar. Hins vegar mætti skoða þessa náunga sem ganga hús úr húsi að bjóða harðfisk í kílóavís á svipuðu verði og í verslununum en greiða hvorki tekju- né virðisaukaskatt af vörunni.)

#152    Ég veit ekki af hverju en af einhverjum ástæðum þá "má" maður ekki kaupa rafmagnsvörur af Amazon.co.uk, amazon.com, play.com og láta senda til Íslands. Ég var að skoða mp3 spilara og man nú ekki alveg hver meldingin var – hvort það var að þeir selji ekki utan Evrópusambandsins eða bara ekki til Íslands (sem reyndar kæmi mér ekkert á óvart). En eins og ég segi ég man ekki hver meldingin var.  Ég var að skoða Creative spilara og hér koma niðurstöður rannsókna minna á þeim kaupum:

MP3 spilari – Creative Zen Plus 4 GB:

·       Á Amazon.co.uk kostar hann 79,99 pund sem er á genginu í dag (125 kr.) 10.000 kr. - 

·       Á Amazon.com kostar hann 105 dollara sem er á genginu í dag (62 kr.) 6.510 kr. - 

·       Ég hef séð þennan spilara í fríhöfninni á rétt rúmlega 14.000 kr. (get reyndar ekki fundið þennan spilara á síðunni hjá þeim)

Í Hátækni, sem er með umboðið fyrir Creative vörur, kostar nákvæmlega sami spilari – 24.995 kr. 

Ég hélt fyrst að STEF gjaldið fræga væri að ýta verðinu eitthvað upp þegar ég var að skoða þetta en svo sá ég spilarinn í fríhöfninni á 14.000 kr. og gerði mér grein fyrir að þetta er bara gamla góða álagningin (aka OKUR!!) og ekkert annað. (Athugasemd: Það má ekki selja raftæki til EES svæðisins nema að þau hafi staðist svokallaða ROHS prófun, sem er fordýr og því er alls ekki verið að eyða peningum í svoleiðis fyrir 110 volta útgáfur af græjum sem eru ekki ætlaðar á evrópumarkað. Það útskýrir afhverju það má ekki kaupa af play.com eða amazon.com - með amazon.co.uk, það dæmi fatta ég ekki. EN það er einn slór partur af verðinu sem er ekki tekinn með í reikninginn í þessu samhengi, sem er það að eins og iPod fellur þessi græja undir tollflokkun sem skellir oná verðið 7% tolli og 25% vörugjaldi.  Þannig að ef þú kaupir þetta erlendis á 10.000 kall, borgar 1000 kall í flutningskostnað, þá ertu komin með 11.000 kall í grunn til að reikna á toll og vörugjald. Sem er gert á skemmtilegan máta. Fyrst seturðu 7% toll oná 11.000 (já, líka toll á flutninginn) og færð út  11.770. Síðan leggurðu 25% vörugjald oná það - komið í 14.712, borgar tollskýrslugerð - að mig minnir 3.000 kall - kominn í 17.712 og síðan vsk. oná þetta allt saman og rýkur þá uppí 22.051. Og megnið til ríkisins - húrra fyrir þeim. Sem segir okkur að þetta er á okurverði í fríhöfninni, þar er hvorki vsk. né tollur og að álagninginn í hátækni er jú eitthvað aðeins hærri en hjá amazon, en hátækni er líka með verslun með tilheyrandi kostnaði - amazon er með vöruhús og nokkrar tölvur.)

#151   Ætlaði að kíkja á síðustu mínúturnar af fótoltaleik á Live Sports bar á Frakkastíg. Bað um Malt. 400 kall! Er þetta eitthvað djók eða hvað? Mætti halda að maður hafi verið að biðja um glas af kampavíni. Þetta er rugl. Veitingastaðir sem rukka 400 krónur fyrir litla malt í gleri ættu að
skammast sín. Það er enginn að biðja þá um að gefa manni flöskuna en hvernig væri að vera samt örlítið jarðtengdari hvað verðlagningu varðar?!

#150   Fór til tannlæknis um daginn.  Hann fann engar skemmdir í fljótu bragði en til að vera öruggur tók hann tvær röngtenmyndir sem kostaði mig 4500 aukalega.  En bara það að setjast í stólinn hjá þessum tannlækni kostar 3000 kr. Sem sagt 7500 kr. Það sást ekkert á röngtenmyndunum. (Athugasemd: Ég benda ykkur á að ég borgaði 180 kr (4 LEVUR) fyrir tvær röngtenmyndir eða 90 kr. fyrir stykkið í Sofiu í Búlgaríu.)

#149   Ég fór í klippingu og strýpur í dag og mér líður eins og ég hafi verið tekin í rassinn. Fyrir 6 vikur síðan fór ég á Salon hárgreiðslustofu á Grandagarði. Klipping og strýpur kostaði rúml. 16.þús. Ég fór síðan aftur í dag og gert var nákvæmlega það sama og verðið var 19.100 þannig að verðið hafði hækkað um 3þús á 6 vikum. Ekki nóg með að það heldur þegar verið var að skola litinn úr mér þá bauð hún mér djúpnæringu sem ég þáði og vissi ekki betur en þetta væri eins og hver önnur næringarmeðferð og ekkert var minnst á að þetta kostaði eitthvað aukalega.  Eins og venjulega keypti ég sjampó og næringu og var þá verðið komið í 26.700 krónur. Mér líður ömurlega yfir þessu. Ekkert var minnst á neina hækkun og því síður að ég ætti að borga eitthvað aukalega fyrir næringu sem tók 5mín og nokkur grömm af næringu.  Þetta er það svívirðilegasta arðrán sem ég hef orðið fyrir. Það má taka það fram að ég var ánægð með útkomuna en fráleitt að ég ætli að borga fyrir þetta tæpl. 27þús á 6 vikna fresti. 

#148   Nýlega opnaði nýr veitingastaður á Akureyri, Friðrik V. Samkvæmt matseðlinum er hægt að fá KEA skyr í eftirrétt á litlar 1200 kr. Annað hvort er þetta mjög sérstök belja eða OKUR! 

#147   Eins og margir aðrir ungir einstaklingar á Íslandi (eldri mega vera með) þá á ég xbox360 leikjatölvu. Hver er fyrsta búðin sem manni dettur í hug sem selur tölvuleiki? BT!  Er þetta rétta búðin ? NEI!
Ástæðan er svívirðilegt okur á xbox360 leikjum (og sumum playstation 2 leikjum) sem ég er hneikslaður á! Ég skal gefa hér samanburðardæmi um leikinn "Halo 3" sem komst meira að segja í fréttirnar um daginn:

- BT: 6.999 kr (u.þ.b)
- Tölvuvirkni.is : 4.860 kr

2.240 kr munur! það þykir mér svolítið mikið fyrir minn smekk, auk þess eru xbox360 leikir yfirleitt 1100kr ódýrari hjá Tölvuvirkni og hvet ég alla xbox360 eigendur að endurskoða hvar þeir versla tölvuleiki. Það sem ég skil ekki er af hverju þetta er svona mikið dýrara hjá BT en hjá hinum aðilanum.

#146   Allt Ísland er eitt stórt OKUR. Ég er búin að búa í útlöndum í fimm ár og alltaf þegar ég kem heim fæ ég sting í magann þegar ég bind fyrir augun á mér og rétti debet kortið mitt okurdrottnurum hægri vinstri. ALLT ER SVO MIKIÐ OKUR Á ÍSLANDI AÐ ÞAÐ ER GRÁTLEGT. Ég skil ekki afhverju þetta þarf að vera svona og hvernig er hægt að búa við þetta. Nú er ég stödd í Feneyjum sem telst dýr borg í evrópu. Ef ég fer fínt út að borða hér, fæ mér
antipasti, primaplatte, secconteplatte og eftirrétt, kaffi og kanski pannacotta... semsé fimmrétta með víni og fordrykk kostar það kanski svona 50 evrur sem er tæpur fimmþúsundkall. Og það á alveg fínum veitingastað og mér finst ég vera að gera ægilega vel við mig. Ein sæmileg vínflaska með mat kostar aldrei minna en 3000 kr. á td Horninu. Þannig að kanski Pizza dagsins, vínflaska og kaffibolli kostar þá uþb 5000 kr. Það er svo ótrúlega sorglegt að íslendingar sem vinna einsog mofo aukavinnu og yfirvinnu og þræla sér út og missa af æsku barna sinna bara til að geta lifað mannsæmandi lífi á þessu skeri skuli ekki risa uppá afturlappirnar. ÞETTA ER MARTRÖÐ!

#145   Stundum finnst mér eins og það þurfi vopnaða byltingu til að kenna íslenskum kaupmönnum og þjónustuaðilum mannasiði. Keypti ferð hjá Heimsferðum og borgaði 20.000 kr. í staðfestingargjald. Sama gerði félagi minn í júlímánuði. Síðan gerist það að félagi minn kemst alls ekki í ferðina. Staðfestingargjaldið er óendurkræft (kannski skiljanlegt því verið er að taka frá sæti sem annars hefði verið hægt að selja öðrum en samt er ferðin uppseld og umframeftirspurn). En það merkilega er að annar félagi vildi ganga inn í dæmi en þá kostar það 5.000 kr að breyta nafni farþega, þetta eru kannski 20 strokur á lyklaborð á tölvu - ÞETTA ER EKKI OKUR - ÞETTA ER VIÐBJÓÐUR!

#144   Ísland vs. Búlgaría hér og hér

#143   Það eru mjög háir fasteignaskattar á verslunarplássi í Reykjavík, sérstaklega litlu og vönduðu. Þeir hækka líka stöðugt. Þegar ég byrjaði 1998 voru fasteignaskattarnir 59.000 kr á ári en eru núna 630.000 kr. Þetta hleypur leiguverði upp og gerir það svo hátt að alternatívur rekstur ber sig ekki. Fasteignaskattar eru bara yfirleitt ekki nema til fælingar í nágrannalöndum okkar eða nefskattar sem standa straum af að reka göturnar. Hér eru þeir bara okur og eru að breyta mikið ásýnd miðbæjarins en bara dópsala getur staðið undir þeim. Þess vegna opna bara barir í Miðbænum og búðir loka. Af því að tímaritin og diskana kaupir fólk bara í útlöndum en brennivínið verðurðu að kaupa hér. Sennilega er þetta líkja hringekja, okur framkallar okur af því að okrinu verður að koma út í verðið.

#142   Ég borga 2.5% vexti af húsnæðisláninu mínu hér í Sviss. Stofninn lækkar ár frá ári. Á Íslandi hækka lán, frekar en að lækka - sem er skrítið, því krónan fellur anskotann ekki neitt.  OKUR!

#141   Keypti venjulega þunna 1½ tommu fiberpakkningu sem fer á milli vatnsláss og niðurfalls á eldhúsvaski, (þessi sem fylgir með öllum vatnslásum), í Húsasmiðjunni á Egilsstöðum í sumar á 230 kr/stk (þyngd ca 5 gr/stk, veit einhver verðið á únsu af gulli?)   OKUR!

#140  Það sem mér finnst fáránlegast: Þegar ég keypti íbúðina mína fyrir tveimur árum var tilkynningar- og greiðslugjald 195 krónur. Nú hefur það hækkað upp í 510 krónur... ég þarf að borga 510 kall fyrir það að borga af láninu... fáránlegt! OKUR! Ekki nema vona að það sé mælt með hlutabréfakaupum í Kaupþingi.

#139   Hér eru áhrif einkavæðingar Símans. Beint samband hjá 118 var kr. 3 1. des 2005, en er núna kr. 20.

#138   Ég hætti fyrir mörgum árum að kaupa hluti hér á Íslandi nema mat og nauðsynjar, nema ég hafi verið í tímaþröng. Versla alltaf á netinu, sérstaklega Amazon og Ebay. Sparar helling og léttir jólainnkaupin til muna. Öllum stundum nota ég Wacom Intuos3 9x12 teikniborð, sem er í rauninni penni sem þú notar sem mús. Þetta teikniborð kostar $394.99 (24.490 ISK m.v. 62 kr gengi) á Amazon.com. Hér á Íslandi virðist það eingöngu vera selt í Apple búðinni, á 64.900 ISK!! 265% verðmunur takk. 
Einnig er alveg fáránlegt hvað forrit kosta hér á klakanum. Á Amazon kostar Adobe Photoshop CS3 (nýjasta útgáfan) $629.99 (39.060 ISK). Á Adobe síðunni kostar það $649.99 (40.300 ISK). Tölvulistinn selur þetta á 99.900 ISK og þú þarft að sérpanta að auki! ..og það er ódýrasta verðið á Íslandi sem ég hef heyrt um, venjulega er það vel yfir hundraðkallinum.
Apple búðin selur svo Photoshop CS2 (eldri útgáfu frá 2005) á 89.900 ISK! 
Nýherji toppar þetta samt. Skv. vefsíðu þeirra selja þeir Photoshop CS (ennþá eldri útgáfu frá 2003) á 94.900 ISK!

#137   Takk fyrir tímabært og þarft framtak. Maður er kominn með þokkalegt ógeð á að láta okra á sér. Hér kemur eitt dæmi um okur. Í janúar borgaði ég 16.000 krónur fyrir klippingu og strípur á Tony and guy á Laugarvegi. Mér fannst það hrikalegt okur, var í sjokki í marga daga á eftir, gat því miður ekki annað en borgað enda komin með klippinguna og strípurnar í hausinn. Get keypt sömu þjónustu á öðrum hárgreiðslustofum ca 4000 kalli ódýrar. Ég hafði nb borgað 12.900 krónur 1 mánuði áður eða fyrir áramót á sömu stofu.

#136    Það er mér óskiljanlegt að Tekk Company geti réttlætt verð á þessari vöru

kr. 85.000 til 118.000 fyrir fimm spýtur sem búið er að klambra saman. Þetta hlýtur að teljast til okurs!

#135   Alveg merkileg hvað maður lætur rí.a sér oft í þu..t ra..g.tið.  Ég á Aygo, minnsta bílinn frá Toyota, fór með hann í 15.000 km þjónustu hjá Toyota Nýbílavegi fyrir rúmu ½ ári síðan.  Kostaði 17.000 kr.  Mér þótti þetta heldur dýr smurning en þeir sannfærðu mig um að þetta væri meira en smuning, nefninlega ábyrgðarskoðun í leiðinni.  Fór með hann aftur núna í 30.000 km “Ábyrgðarskoðunarsmurningu” og átti von á að borga aftur 17.000 kall.  En viti menn, tæpar 28.000 kr!  Okur, dæmi hver um sig.  Þeir afsökuðu ekki reikninginn heldur bentu bara á annan eins bíl sem kostaði meira einhverntíman áður.  Og sögðu mér að þetta væri náttúrulega “Ýtarleg skoðun á ástandi bílsins”. Jæja, en það besta var að það var brotið framljós á bílnum og mér var ekki einu sinni bent á það sem athugarsemd þegar ég sótti bílinn. Bara ósundurliðaður reikningur með einni tölu, og tékklisti þar sem hakað var við allt OK.

#134    Fékk senda mynd í umslagi frá ljósmyndara í Reykjavík til Egilsstaða.Og fyrir mín mistök kom hún á kröfu. 1000 kr. kostaði það mig aukalega. Er farin að sniðganga póstinn. Sleppi því frekar ef það þarf að senda mér hlutinn. Hvað kostaði allur farmurinn í póstbílnum? Maður spyr sig...

#133    Flugfélag Íslands fyrir fáeinum árum sjáið til, ég gleymdi lyklakippu í bílaleigubíl austur á landi. Lét bara senda mér þá með næstu vél og borgaði þá næstum 800 kr fyrir lyklakippu. Svarið var "lágmarksviðmið í fragt 1kg", sem er sjálfsagt enn meir í dag. Hef ekki jafnað mig enn og mun vart úr þessu !

#132    Íslandspóstur – hraðsending á einu A4 umslagi (sem vegur 260 gr.) frá Íslandi til USA: 7.630 kr.   OKUR! 

#131    Dótakassinn Akureyri – Spilið Jenga, ekkert nema 54 trékubbar í kassa: 2998 kr. OKUR! 

Okur #71 - 130 eru hér.

Veistu um skefjalaust og svívirðilegt okur? Láttu vita!