Nóakonfektsórar við áramót (29.12.03)

"Jól og áramót eru tími afslöppunar og upprifjunar," er ekki verri setning en hver önnur til að byrja kjallaragrein. Maður er orðinn eins og kreist tannkremstúpa enda búinn að liggja fyrir eins og skata, ýtandi oní kokið á sér Nóakonfekti, Makkintossi og hangikjöti vættu í malti og appelsíni. Með slökkt á tölvuhelvítinu gat maður einbeytt sér að lestri. Da Vinci skjölin er hörkuspennandi fram á síðustu mínútu og svo var mér gefin bókin um Dag Sigurðarson, sem snillingarnir Hjálmar Sveinsson og Geir Svansson settu saman.

Kvikmyndagerðarmenn athugið: Hér er hugmynd. DAGUR OG FLÓKI – dramatísk saga vináttu og listarinnar. Dagur Sigurðarson og Alfreð Flóki eru í brennidepli. Reykvískt listalíf um miðja síðustu öld er kjörið til nostalgískrar nálgunar. Spennan á milli "listafólks" og "venjulegs fólks" var raunveruleg og blandaðist í spennuna stóru milli komma og kapítalista. Ekki komma og homma eins og í dag.

Skot: Ungur hress Dagur og kærasta á gangi í Reykjavík. Broddborgari stoppar þau á götu og hrækir framan í þau orðunum: "Fólk eins og ykkur ætti að brenna!" Engin myndi bögga, segjum, Sverri Guðjónsson kontratenór á götu í dag, þó mörgum finnist hann eflaust asnalegur í miðaldakuflinum.

Skot: Dagur, Alfreð Flóki á Laugarvegi ellefu ásamt þessu liði sem þeir héngu með; Ara Jósefssyni, Þorsteini frá Hamri, Ástu Sigurðar og öðrum áhugasömum listaspírum – kannski hressum menntaskólastelpum og strákum með óútgefið handrit í vasanum. Heimsmálin rædd, djúpspakar umræður, pólitísk meðvitund, allt þetta bleytt upp í búsi og tóbaki. Ellefan í dag: Umræða um það hver vinnur Idol bleytt upp í búsi og dufti.

Skot: Dagur að strita við hjólbörukeyrslu, Dagur og Flóki að gera eitthvað skemmtilegt á fylliríi, fyndin tilsvör og allur pakkinn. Svo hallar undan fæti og í endann er ekkert eftir nema eymd og dauði. Ég nenni ekki sjálfur að skrifa handritið en skora á aðra að gera það. Þetta væri mynd sem Íslendingar myndu flykkjast á ef hún væri almennilega gerð.

Mér datt þetta svona í hug yfir konfektinu. Svo hringdi Egill Helgason í mig og bað mig um að fabúlera um árið fyrir áramóta-Silfrið sitt. Þá neyddist ég til að rifja upp það sem maður vill helst gleyma:

Fólk er fífl öskrar maður eins og sjúkur maður. Það sannaðist þegar það kaus yfir sig óbreytt ástand. Okkur var lofað skattalækkunum en enginn hafði vit á því að spyrja hvenær þær ættu að byrja. Loforð um jarðgöng og línuívilnun svikin (hvað er línuílvilnum eiginlega? Venjulegt fólk eins og ég þarf að fá svona kreisí sjitt útskýrt á barnamáli í fréttatímunum til að eiga séns) og ha, ég?, spurður menn ofsahissa að þurfa að standa við eitthvað sem þeir höfðu lofað.

Mörgum þótti það voða gott þegar þingsalurinn fylltist af ungu fólki, en svo er þetta lið ekkert nema klónaðar útgáfur af gamla draslinu. Peysufataheimasætan Dagný sveik kjósendur sína og eigin hugsjónir af því að hún vill "spila í liðinu sínu" og manni flökrar nú bara yfir svona aumingjaskap. Smjörgreiddu ungsjallarnir sitja sveittir við að gleyma því sem þeir voru að tuða um í Heimdalli og Árni Magnússon, sem maður hélt að væri svo kúl, er löngu hættur að hlusta á pönk og alveg sama þótt einhverjir Portúgalir krókni upp á Kárahnjúkum.

Svo var það sprengjan í desember þegar liðið ákvað að hækka almennilega við sig kaupið til að einhver myndi nú nenna að standa í þessu – og ég sem hélt að kaupið hefði hækkaði um 20% daginn eftir kosningar. Núna voru allir snögglega á einu máli niðrá Alþingi (allavega þangað til almenningur fór að væla – þá kom flótti á vinstraliðið enda atkvæði í húfi). Jafnvel aldraðir foreldrar mínir urðu vitlausir úr bræði og ætla aldrei að kjósa aftur. Og auðvitað á maður ekki að kjósa aftur. Þetta vita snillingar eins og Helgi Hós og Dagur og Flóki hafa örugglega ekki lagst svo lágt heldur. Það er algjör tímaeyðsla að kjósa og eiginlega niðurlægjandi fyrir mig sem manneskju að vita að ferð mín í rúnkklefa lýðræðisins eigi sinn þátt í að þetta gagnslausa og gelda lið sitji við stjórnvölin (að nafninu til allavega, ráða Björgólfur og Jón Ásgeir þessu ekki öllu?).

Gleðilegt ár!