Játningar vinguls

Eitt af mörgum vandamálum sem ég á við að etja er það hvað ég er mikill vingull og sífellt tvístígandi og á báðum áttum. Það er alltof margt sem ég hef bara alls enga skoðun á, eða það ég hef eina skoðun á því í dag og aðra á morgun. Þegar ég horfi á þætti eins og Silfur Egils er ég yfirleitt sammála síðasta ræðumanni nema hann sé algjör hálfviti eða Sjálfsstæðismaður. Fyrir kosningar koma menn og lofa öllu fögru og ég ákveð yfirleitt að kjósa þann sem lofaði einhverju síðast. Finnst allir nokkuð frábærir og get ekki gert upp á milli. Þetta endar stundum á því að ég sleppi því bara að kjósa. Svona vinglast ég í gegnum lífið fram og til baka eins og tómur poki að fjúka yfir bílastæði. Ég er ekki eini maðurinn sem á við þetta vandamál að etja. Skoðanakannanir sýna fram á að meirihluti fólks skiptir um skoðun eins og nærbuxur og lætur teyma sig á asnaeyrunum út og suður. 

Engin efi hjá Hitler
En á meðan meirihlutinn vinglast eru aðrir sem eru fastir fyrir í sinni óbilgjörnu vissu um að þeir hafi rétt fyrir sér. Björn Bjarnason og Gunnar í Krossinum koma upp í hugann sem staðfastir menn sem finnst þeir alltaf hafa hinn eina sannleika með sér í liði. Án þess að ég ætli að líkja þeim við hann þá get ég trúað því að Hitler hafi líka verið staðfastur karl. Hann hefur örugglega verið hissa og sár í neðanjarðarbyrginu þegar Rússarnir sóttu að honum og ekkert skilið í því að ætlunarverk sitt hafi mistekist. Enginn helvítis efi þar.
Vingulshátturinn birtist í mörgum myndum. Mér blöskrar t.d. myndir af bandarískum hermönnum að drepa Íraka eða Íraka að drepa Kana og skammast mín fyrir að vera “staðfastur Íslendingur” – það hlýtur að vera móðir allra öfugmæla! – þegar ég sé myndir af limlestum smábörnum í þessu ömurlega stríði. Ég er næstum því búinn að útbúa mætmælaspjald og hlaupinn niður á Austurvöll þegar einhver kemur í sjónvarpið og talar svo sannfærandi um kosti stríðsins að ég doka við, verð á báðum áttum og legg árar í bát enda vandamálið einhvern veginn svo yfirþyrmandi að ég kýs að leiða það hjá mér með þeim rökum vingulsins að það skipti hvort eð er ekki máli hvað ég geri, ég þetta lítilfjöllega sandkorn í alheiminum.

Vinstri vinglar og hægri sigurvegarar
Oft er það þannig að þeir til vinstri eru vinglar en hægrimenn fastir fyrir. Kannski er þetta nauðsyn hjá vinstraliðinu af því Sovétríkin sem þeim fannst einu sinni svo sniðug reyndust algjört krapp. Þetta geta hægrimenn bent á og híað á vinstraliðið. Út af hruni Sovétríkjanna þykir það geðveiki líkast að nefna orð eins og “jöfnuð” í dag og ekkert nema sjálfssagt að einn hafi níutíuþúsund í laun á mánuði en annar níu milljónir. Einn daginn snýst þetta kannski við ef kapítalisminn kolfellur og skilur eftir sig djúpt sár. Þá munu “sigurvegarar” dagsins í dag læðast með veggjum og eiga erfitt uppdráttar. 
Þegar á þá er híað fara vinstrimenn jafnan í vörn og benda á að það sé gáfumerki að geta skipt um skoðun, eða jafnvel að það sé ekkert vinstra og hægra lengur og að andstæðingar þeirra séu “fastir í skotgrafahernaði kalda stríðsins”. 
Og kannski er það bara “gáfumerki” að geta skipt um skoðun. Kannski er einmitt bara málið að vera vingull. Ég ætla allavega að gefa mér það. Og í því ljósi og í fyrsta skipti í langri sögu karps í íslenskum dagblöðum skrifa ég eftirfarandi:

Páll Scheving, hinn mikli snillingur frá Vestmannaeyjum, skrifaði mér bréf í DV á miðvikudaginn og sýndi svart á hvítu fram á það að ég hafði rangt fyrir mér í einhverjum "skoðana-pung” í Fréttablaðinu fyrir nokkrum vikum. Þar bylti ég mér fretandi og frísandi eins og naut í flagi og sagði þá meistaralegu hugmynd að grafa göng til Vestmannaeyja “geðveiki” og eitthvað þaðan af andstyggilegra.  

Göng eru geðveik snilld
Það sér hver heilvita maður að það að grafa göng til Vestmannaeyja er algjör snilld og gífurlega hagkvæmt. Ég skil bara ekki hvað ég var að hugsa þegar ég lét hafa mig út í að opinbera vanþekkingu mína svona rosalega og móðga þar með hið harðduglega og gullfallega fólk sem býr í eyjunni glæsilegu sem kennd er við heima. Þetta sýndi Páll mér fram á í bréfinu og opnaði augu mín fyrir sannleikanum. Ég segi því bara: Gröfum göng til Eyja sem allra fyrst því þar liggur framtíð landsins! Ekki nóg með að heimamenn geti á auðveldari hátt en áður komist í land og heim til sín, heldur mun fólk af höfuðborgarsvæðinu fjölmenna um helgar til að skoða lundana og kvínna hans Keikó og meirihluti útlendinga sem drattast á annað borð til landsins mun vilja heimsækja eyjuna sígrænu og upplifa þá töfra sem þar er að finna. Göngin eru geðveik snilldarhugmynd og fullur af skömm og sjálfsfyrirlitningu dreg ég allt til baka úr hinum vanhugsaða skoðanapung. Ég hef þegar látið konuna mína lemja mig með appelsínufylltum sokkabuxum í hegningarskyni fyrir hálfvitaganginn. Ef það er ekki nóg get ég komið til Vestmannaeyja, gengið hús úr húsi og beðist afsökunar. Allsber.