Saga um mann sem þurfti að plögga fyrir jólin
 

Það voru að koma jól. Hann var með bók. Það þurfti að plögga. 

Útgefandinn lagði hart að honum. Hamaðist á honum með frasann: Öll kynning er góð kynning. Honum fannst það hljóma eins og: Ég tími ekki að borga auglýsingar fyrir þig. 

Hann var látinn hringja í Séð og heyrt. Hvað ertu með?, spurðu þeir. 
Ég er náttúrlega með bók.
Séð og heyrt fussaði. Bók lók. Það nennir engin að lesa eitthvað kjaftæði um bók. Komdu með eitthvað betra.
Hann fór í vörn. Tafsaði: Ég var að skilja.
Mmm, gott. Meira?
Ég get sagt frá skilnaðinum og sýnt börnin mín.
Ókei frábært. Komdu kl. tvö.

Honum var klínt á forsíðuna. Bókin algjört aukaatriði auðvitað, en skilnaðinum slegið upp. Honum fannst þetta dálítið skrítið, en útgefandinn stappaði í hann stálinu: Til hamingju vinur, fimm hundruð eintök pottþétt. 

Hann var sendur í Ísland í bítið. Dálítið vandræðalegt að karlumsjónarmaðurinn hélt allan tíman að hann væri að kynna matreiðslubók. Spurði aftur og aftur: Er auðvelt að elda eftir þessum uppskriftum? Þegar hann ætlaði varfærnislega að leiðrétta mistökin spurði konan: En nú varst þú að ganga í gegnum erfiðan skilnað... Jú, svaraði hann. Konan horfði á hann skilningsrík. Svo var skipt yfir í auglýsingar. 

Birta vildi forsíðuviðtal, helst eingöngu um skilnaðinn. 
Já, en ég var að gefa út bók, stundi maðurinn. 
Jú jú, blessaður vertu, við komum því að.
Hann hitti blaðakonu á kaffihúsi og hún sýndi svo einlægan áhuga að hann sagði henni allt af létta. Alltof mikið, fannst honum, þegar hann las viðtalið. Hvern djöfulinn kemur það fólki við hvernig samband okkar var orðið undir það síðasta, hrópaði hann á útgefandann sem var himinlifandi: Blessaður vertu maður, Birta er vinsælasta tímaritið og við erum að tala um þúsund eintök pottþétt.

Skömmu síðar tók Sirrý á móti honum. Hann mætti órakaður, slompaður og fúll. Kellingarnar frá kvennadeild Kívanis sem sátu í salnum uxu honum í augum. Hann datt hálfpartinn út þegar flóðljósin skullu á honum. Sefandi rödd Sirrýjar barst honum til eyrna og fyrr en varði var hann farinn að hágráta. Svona svona, láttu það bara koma, sagði Sirrý. 
Ég elska hana ennþá!, æpti maðurinn á milli ekkasoga.
Við skulum skipta yfir í auglýsingar, sagði Sirrý og tók utan um öxlina á honum, hugsandi: Nú hlýt ég að fá helvítis Edduna.

Í leigubílnum heim hringdi útgefandinn. Kallinn minn! Nú erum við að dansa! Tvö þúsund eintök í viðbót. Og það sem meira er, Gísli Marteinn var að hringja og vill taka þig inn sem aðalgest á laugardaginn. Drífðu þig heim í sturtu og svo er það bara upptaka á þættinum á morgun. 
Æ, er nú ekki komið nóg af þessu, reyndi hann að andmæla.
Ertu brjálaður!, æpti útgefandinn. Veistu hvað margir eru að kvabba í Gísla þessa dagana að komast í þáttinn hans? Þú sem aðalgestur eru nú bara 5000 eintök pottþétt. 

Gísli Marteinn var góðmennskan uppmáluð. Tók á móti honum í smínkinu. Sagðist hafa lesið bókina og fundist hún góð. Honum létti. Sagði: Ég vil helst ekkert tala meira um þennan skilnað, en sá strax eftir því þegar hann sá hvað Gísli Marteinn varð fúll. Dró í land, jú jú, við getum svo sem eitthvað tæpt á því. Gísli brosti. Sagði: Þú kemur á eftir Guddu óperusöngkonu og strákunum í Þvaglegg. Sestu bara og fáðu þér kaffi á meðan þau koma úr smínkinu.

Hann hitti Guddu og strákana í Þvaglegg baksviðs. Allt hið almennilegasta fólk, fannst honum, nema kannski söngvarinn í Þvaglegg sem glotti full mikið framan í hann. Næst voru þau öll leidd inn í stúdíó og látin sitja á kollum og drekka ríkisstarfsmannakaffi á meðan Gísli gerði þáttinn. Gudda var fyrst leidd inn í settið í miðju stúdíóinu. Gísli Marteinn og hún náðu geysivel saman. Gísli hló aftur að sögunni sem hún hafði sagt honum í smínkinu. Svo var komið að Þvaglegg. Söngvarinn settist hjá Gísla, glennti sig töffaralega í stólnum og horfði beint í gegnum myrkrið á hann þar sem hann beið lotinn með kalt kaffi í frauðplastglasi. Söngvarahelvítið sagði eitthvað rosafyndið svo Gísli greip um lærið á sér og hristist, en bætti svo við á meðan Gísli var ennþá hlæjandi: Ég ætla að vona að enginn fari að grenja en lagið sem við ætlum að taka heitir Ég vil skilnað, drusla.

Það komu vöflur á Gísla en hann gat þó bjargað andlitinu: Gjöriði svo vel, hér er Þvagleggur með Ég vil skilnað, drusla.

Skriptan hnippti í hann þegar strákarnir í Þvaglegg voru búnir að þykjast spila lagið. Hann var grútmáttlaus og sveittur, en einhvern veginn komst hann í settið, tók máttlaust í útrétta hönd Gísla Marteins og hlúnkaðist í sætið. Hann heyrði fyrstu spurninguna bergmála í hausnum á sér, eins og hún kæmi úr órafjarlægð eða annari vídd: Nú varst þú að skilja, það hlýtur að hafa verið erfið lífsreynsla…

Útgefandinn hafði ekki ennþá svarað skilaboðunum hans á sprengidag. Hann hafði annað slagið reynt að hringja í hann ofan af Staðarfelli. Í fyrsta bæjarleifinu rakst hann á hann á Mokka. 
Jæja, mikið að maður hittir á þig. Eru komnar sölutölur?
Ja, en við erum nú reyndar ennþá að fá bókina inn. Mér sýnist þetta verða eitthvað í kringum 300 eintök og þar af þurfum við náttúrlega að draga frá auglýsingakosnað.

Kæri lesandi: Á Íslandi eru fjórar sjónvarpsstöðvar í fullum rekstri, 16 útvarpsstöðvar, 3 dagblöð og 14 aukablöð samhliða þeim, 20 mánaðarblöð sem eru gefin á kaffihúsum, 30 tímarit og 80 landsmálablöð. Samtals koma út 700 bækur og 350 plötur á hverju ári. Hvað búa margir á Íslandi? Undir 300.000 manns. Snúum því bökum saman og tökum vel á móti þeim sem þurfa að plögga fyrir jólin. Hver veit nema að einhver úr þinni fjölskyldu þurfi að plögga einhverju næst.