Góðæri – taka tvö (09.09.04)

Ég finn lykt af góðæri. Það liggur í loftinu; lokkandi fyrirheit um æðislega framtíð. Það eru nokkur ár síðan að síðasta góðæri stóð yfir með 10 þúsund króna vindlum á Rex, finnskum appelsínukreistum frá Epal á 24 þúsund og búðinni Bílar og list, sem ég veit ekki ennþá út á hvað gekk. Ég skildi aldrei neitt í gamla góðærinu og það alveg sama þótt krakkar yngri en ég mættu í jakkafötum og drögtum annan hvern dag í Kastljósið og útskýrðu hvernig ætti að græða sem mest. Eitthvað endalaust flakk á Nastaq og Dew Jones var önnur mikilvægasta frétt hvers fréttatíma, en ég stóð á gati og fattaði ekki neitt eins og hver annar auli með verðtryggðu skuldarnar mínar, okurvextina og sligandi kjarleysið. En ég er auðvitað feginn núna að hafa ekkert aðhafst í braskinu því heilaþvegnir öfgamúslímar flugu á turna tvo og frænka mín tapaði 500 þúsund kalli í Kára og Decode.  Flakkið á Nastaq og Dew Jones hvarf úr fréttum og það var í mesta lagi sagt frá því síðast í 10-fréttum.

Endurfjármögnun, vinur minn
En nú stefnir allt upp á við og nýja góðærið er ólíkt hinu fyrra að því leiti að ég skil það. Svona nokkurn veginn. Endurfjármögnun, vinur minn, er lausnarorðið. Nú skal gömlu lélegu okurlánunum skipt út fyrir ný lokkandi og æðsileg lán, sem reyndar eru ennþá miklu verri en lánin í þeim löndum sem við “helst berum okkur samanvið”, að mér skilst. Gaurarnir sem allir hötuðu fyrir nokkrum mánuðum af því þeir ætluðu að skammta sér svo helvíti góð laun, eru nú góðu karlarnir á ný, að því að virðist. Af eintómri góðmennsku við mig og fólkið í landinu lækkuðu þeir vextina í 4.4%, síðan 4.2% og Guð eða aðrar sambærilegar vitleysisverur vita einar hvar þetta endar. Kannski prútta bankarnir sig neðar og neðar þar til vextirnir verða loksins eins og í þeim löndum sem við “helst berum okkur samanvið”. Kannski dettur þessi heimskulega verðtrygging af og kannski líka þetta enn heimskulegra stimpilgjald. Já, kannski maður bíði bara þangað til með að endurfjármagna? Nei, andskotinn. Það er lítið fútt í því að vera síðastur. Missa kannski af veislunni og fá ekkert nema skorpu. Nú dauðlangar mig að fara beint til þjónustufulltrúans míns með skuldahalann og segja honum að ég sé alveg til í að veðsetja íbúðina upp í topp og losna við svona eins og  þrjú okurlán og láta eitt góðmennskulán frá bankanum mínum duga. Þá borga ég kannski 20þúsund kall minna á mánuði og líklega verður einhver afgangur sem ég get keypt mér finnska appelsínukreistu fyrir.

Góðu millarnir með samfélagslegu ábyrgðina
Þetta er semsé ástandið. Og í ofanálagt hamast menn sem virðast hafa vit á þessu við að tuða um að nú ríki offramboð á peningum. Offramboð á peningum! Er nokkur leið önnur en að vera bjartsýnn og ánægður? Sérstaklega þar sem maður hefur ekkert á móti millunum í dag. Góðu millunum með samfélagslegu ábyrgðina. Hef séð Björgúlf á förnum vegi og maðurinn hreinlega geislar. Ég er alveg til í að borga þessum manni 4.2% vexti þar til ég dett niður dauður. Maður gleymdir alveg að hann á hálft Ísland þegar maður sér hann og manni er eiginlega alveg sama. Já já, Björgólfur minn, hugsar maður, þú mátt alveg eiga þetta allt saman, viltu ekki bara verða forseti líka?
Jóhannes í Bónus er annað góðmenni, sem vann sjálfur á kassanum lengi vel. Þótt sonur hans sé ekki eins alþýðlegur og heilsar væntanlega ekki starfsfólkinu kumpánlega þegar hann kemur í vitjanir í búðirnar, þá er hann margfalt kræsilegri milljóner en þeir gömlu sem hér píndu landslýð á meðan Kolkrabbinn átti allt og réði öllu. Menn í anda Harðar í Eimskip og Þórarins Vaff, sem maður sá aldrei öðruvísi en steinrunna og fýlda fyrir framan málverk af eldri steinrunnum og fýldum körlum. Gott að vera laus við það pakk. Lifi nýju millarnir! Lifi nýja Ísland!