Öfgafyllsta yfirhalningin

Það þarf ekkert sérstaklega að draga mig að skjánum svona yfirleitt. Eftir langan dag við tölvuskjá er ágætt að hlamma rassinum á sér í mýkri stól, setja lappirnar upp á borð og glápa á sjónvarpsskjá. Um daginn sá ég brot af íslandskynningunni miklu í Amazing Race. Ég hafði aldrei horft á þennan þátt áður, en Lufsan hefur haft orð á því að ég hefði kannski gaman að þessu því það væri farið til exótískra staða og eitthvað. Þegar ég kom að skjánum voru amerísku bjálfarnir komnir til Íslands. Lentu í fullum Keflvíkingum en brunuðu svo austur fyrir fjall. Alltaf símalandi eins og Ameríkana er siður, það heldur aldrei kjafti þetta lið. Ég þusaði svona framan í sjónvarpið og Lufsan sagði skrýtið að ég væri að tauta þetta um Ameríkanana af því ég héldi endalaust upp áróðri fyrir því að við færum í frí til Ameríku. Ég sagði að það væri ekki það sama, að þetta væri love-hate samband og að þessir fábjánar í þættinum væru ekki alveg eins og allir Ameríkanar, ekki frekar en fulla liðið í Keflavík væri eins og allir Íslendingar.

Hellingur af engu
Ég fór eitthvað að bauka í tölvunni minni á meðan liðið í Amazing Race var að hamast upp á Vatnajökli. Kom aftur og þá voru tveir heimskingjar að setja bensín á dísel-bíl. Það stóð “Diesel” á tveim stöðum á bensínlokinu en það var ekki nóg fyrir Kanana. Og svo þykist þetta lið geta miðlað málum í Írak! Sönn íslensk hetja kom vanvitunum til hjálpar og áfram var hlaupið, keyrt og djöflast þangað til íslensk fegurðardrottning tók á móti liðinu í Bláa lóninu. Á þeim tímapunkti nennti ég ekki að horfa á þetta lengur og fór að lesa Kleifarvatn (stórfín!).
Þegar heyrðist að þessi þáttur ætti að gerast hér fór Karlakórinn Brestir strax að jarma sitt gamalkunna lag um kynningargildi þessara leiðinda, en hingað má ekki koma erlend kvikmyndavél án þess að kórinn byrji að jarma. Og þegar kórinn byrjar að jarma bergmálar jarmið í öllum fjölmiðlum landsins svo úr verður einn allsherjar jarmkór sem skekur samfélagið um tíma. Mikil landkynning, rassinn minn!
Síðan ég fékk mér Digital Island hef ég haft gífurlega mikið val. Ég fletti stundum í gegnum úrvalið, stoppa einna helst á pólsku stöðinni af því mér finnst svo gaman að horfa á fúlskeggjaða sveitta karlpunga syngja væmin popplög. Í þessu eins og svo mörgu öðru nú á dögum felst hið mikla frelsi í því að hafa mikinn aðgang að hellingi af engu.

Lífinu kastað á glæ
Hversu oft höfum við ekki fengið það framan í okkur að þegar við hrökkvum upp af þá höfum við glápt á sjónvarpið í svo og svo langan tíma samanlagt. Þrír tímar á dag gera sirka 10 ár af sjónvarpsglápi þegar maður verður sjötugur. Maður glápir á skuggana sem hreyfast og yfirleitt með nagandi samviskubiti. Það er undirliggjandi rödd sem hvíslar: Þú ert að kasta lífi sínu á glæ. Þú ættir að vera að gera eitthvað merkilegra við líf þitt. Eins og hvað? Lesa? Er lestur ekki ofmetinn? Afhverju er betra að neyta sögu í gegnum stafi á blaði en mynda sem hreyfast? Af því að maður verður sjálfur að ímynda sér fólkið í bókinni? Er ímyndunin nú allt í einu orðið svona æðisleg?
En allavega. Maður þrjóskast við og glápir. Kastar lífi sínu á glæ og glápir. Þó það sé auðvitað aðallega drasl til að glápa á. Eins og t.d. þátturinn Extreme Makeover, viðurstyggilegasta skemmtiefni samtímans. 

Rottustrákurinn fær nýtt andlit
Enn á ný eru það amerískir vitleysingar sem sjá um skemmtiatriðin. Nú fólk sem er ekki ánægt með útlit sitt og er látið fara í öfgafulla yfirhalningu. Stundum er nú alveg sáralítið út á þetta lið að setja fyrir aðgerðarferlið. Einn gaur um daginn var t.d. með dálítið skakkar tennur og rottulegt andlit, en hafði þó allavega persónuleika. Stelpan í sama þætti var með risastórt nef og dálítið músarleg og hún og rottustrákurinn urðu skotin á meðan á breytingarferlinu stóð. Í lok þáttar var afhjúpun. Rottustrákurinn var orðinn eins og aukaleikari í Leiðarljósi, Músarstelpan eins og ljóta systir Britney Spears. Bæði alveg persónuleikalaus í útliti og hefðu getað horfið í hvaða margmenni sem er, en auðvitað bæði ofsaglöð að geta loksins gengist upp í staðalímynd nútímamannsins.
Á þetta glápti maður yfir ístruna á sér og leiddi hugann að fitusogi og hárígræðslu. Þó væri líklega besta yfirhalningin fólgin í því að gera mann að hvílíku andlegu ofurmenni að maður gæti hætt að glápa á þetta déskotans rusl kvöld eftir kvöld eftir kvöld. Hvenær kemur sá þáttur? Öfgafyllsta yfirhalningin. Venjulegum lúðum breytt í fólk með stórkostlegan tilgang í lífinu og eitthvað annað að gera á kvöldin en að glápa á kassa með blikkandi ljósum.