Tvöþúsund og fimm

Fyrir marga þýða áramótin nýja byrjun. Gamla draslinu er mokað aftur fyrir og við blasir óskrifað blað, glænýtt ár, fersk byrjun: 2005. Þeim sem muna tímana tvenna hlýtur að finnast þetta framtíðarlegt ár. Þegar Wham var efst á vinsældarlistanum var 2005 óralangt í burtu í dimmri framtíðinni, og algjörlega pottþétt að þá yrði allt breytt; flugbílar fylltu himininn og fólk stundaði hugsanaflutning. En svo er þetta bara nokkuð svipað og þá; á Internetinu er reyndar hægt að sjá litlu frænku sína í sleik á skólaballi, en annars er þetta bara ennþá fátæklingar að deyja úr hamförum eða hungri og sauðdrukknir suðurnesjamenn í slagsmálum.    

Augnblöðkur jákvæðninnar
Það er líklegt að áfram verði allt svipað, enda lítil hætta á stökkbreytingu hjá homo sapiens, nema erfðatæknin frelsi okkur úr viðjum vanans og við getum lifað öldum saman. Þyrsti fólk í breytingu verður það því að breyta sér sjálft. Fjölmargir vilja breytingu og nota tækifærið um áramótin til að hætta að reykja. Aðrir sverja að fara í strangt aðhald og líkamsræktarstöðvarnar fyllast annan janúar af keppum sem ætla að brenna af sér bumbuna. Svo er runnið á rassinn og reykt og étið á sig gat á þrettándanum.
Sjálfur hef ég verið að gæla við þá hugmynd að gera næsta ár að því jákvæðasta í sögu minni. Neikvæðnin hefur fylgt mér lengi, í bland við biturð, öfund og illkvittni. Nú er ég að spá í að snúa við blaðinu, taka 180° snúning og ganga framvegis á lillabláu skýi jákvæðninnar. Öllum fréttum verður tekið með hámarks jákvæðni. Næst þegar Björn Bjarnason skipar besta vin sinn í eitthvað feitt djobb mun ég hugsa: Hann var örugglega besti umsækjandinn. Þegar upp kemst um víðtækt og áralangt svindl einhverja milljónamæringa á landsmönnum mun ég hugsa: Þetta er nú örugglega einhver vitleysa, ég trúi þessu ekki upp á þessa huggulegu menn. Og þegar Davíð og Halldór tönglast á því að stríðið í Írak sé æðislegt og það verði að styðja, ætla ég að hugsa: Auðvitað – ekki væri betra að Saddam væri ennþá. 
Lífið verður líklega mun betra með augnablöðkum jákvæðninnar. Ég ætla strax að setja mig í gírinn á gamlárskvöld og hef þegar ákveðið að skaup Spaugstofunnar sé æðislegt. Ég ætla að finnast allt æðislegt. Aldrei mun ég láta styggðarorð falla um nokkurn hlut aftur. Ég ætla að verða gegnheil jákvæðnis-sól sem lýsir upp umhverfið. Allt og allir munu fá toppeinkun hjá mér. Ó hvað þetta verður gaman og gefandi.

Svitnað í kirkjunni
Stopp! Úff, hvílík martröð! Ég gæti nú eins látið gelda mig og fjarlægja úr mér litla heilann eins og að ganga í gegnum þessar breytingar. Þá er nú betra að einbeyta sér að ytra útliti en að vera að krukka eitthvað í innviðunum. Ég er sem betur fer svo feitur að ég get einbeytt mér að því að brenna af mér keppina í mörg ár í viðbót, jafnvel það sem eftir er, enda er þessu verkefni aldrei lokið og kílóin fljót að hrúgast á aftur. Margir kverúlanatar hafa haldið því fram að líkamsrækt séu að verða trúarbrögð hins guðlausa nútíma. Að spinninghjólin séu kirkjubekkir nútímans. Tala um þetta eins og það sé eitthvað slæmt. 
Ég gæti ekki verið meira ósammála. Ég fermdist til þess eins að fá rafmagnsgítar og nótnabók með Queen. Í kirkjum líður mér asnalega. Finnst jarmandi presturinn leiðinlegur, tengi ekki við neitt í Biblíunni sem hann les upp úr og mærðarlegir sálmarnir eru svæfandi. Þá er nú heldur betur meira fjör í ræktinni, sérstaklega í spinningtímunum. Ég er ekki að tilbiðja eitt né neitt, og síst af öllu ímyndaða en almáttuga gufutegund, þótt ég svitni á hjólahnakki sem stingst upp í rassgatið á mér í gegnum bólstraðar hjólabuxur. Spinningkennarinn er ekki að þykjast hafa öll svör í heimi á reiðum höndum þegar hann öskrar á okkur hvatningarorðum og hækkar Disco Inferno í botn. Burn baby burn. Gleðilegt ár!