30.04.11

Sprengifréttir úr tónlistarheiminum:

Önnur plata FM Belfast, Don't Want to Sleep, kemur úr í júní. Lesa meira hér. Nú verður eflaust kveikt á stuðvélinni svo um munar. Sé þessum línk fylgt má sækja eitt lag, New Year.

Sigga Beinteins hefur eignast tvíbura með unnustu sinni. Til hamingju! Emilíana Torrini eignaðist son í september í fyrra – til hamingju! – en íslenskir "fræga fólks"-fréttamenn hafa alveg klikkað á því að segja manni frá þessu. Svona eru þeir fastir í auðveldu copy/paste facebook-hjakki yfir kjúklingabringuétandi vöðvatröllum og aulaskinkum, en gleyma alvöru listafólki, sem hefur þó aksjöllí gert eitthvað til að verðskulda athygli.

Heiðurstónleikar fyrir Bob Dylan sjötugan verða í Hörpu 28. maí. Margir glimrandi snillingar koma fram, en einn er þó augljóslega fjarverandi, kannski sá sem hefði einna helst átt að vera þarna: Megas. Hví? Mér skilst að hann sé ekki nógu sáttur við þá sem eru að halda þessa tónleika.

Vöxtur er hlaupinn í tónleikahald eins og komið hefur fram. Ég er búinn að kaupa mér miða upp í rjáfri á Elvis Costello í nóvember, en ég sleppi nú Eagles og Cindy Lauper – svo ekki sé minnst á hárrokkbandið Steelheart (sem ég vissi ekki einu sinni að væri til fyrr en fréttir um hingaðkomu þeirra bárust (enda fáfræði mín um hárrokk yfirþyrmandi)). Las svo í morgun í Fbl að Cut/copy, hinir ágætu diskó-Ástralir, muni spila á Nasa í júlí, og eru það ágætis tíðindi. Zonoscope, nýja platan þeirra, er dálítið seintekin, en er ágætis stöff þegar maður kemst inn í hana. Hér má sjá það sem mér finnst eitt besta lagið á plötunni, Where I'm going, tekið læf.
---
Ég nenni nú ekki að tala illa um útkynjuðu afæturnar sem voru að gifta sig í gær, vill ekki skemma fyrir fólkinu sem gengst upp í því að finnast þetta kóngadrasl sætt, eins og t.d. Lufsunni (sem hefur nú svo sem ástæðu til, enda 1/4 bresk), en mikið var gaman þegar Andri Freyr spilaði God Save the Queen með Sex Pistols í útvarpinu í gær.

29.04.11
Var fenginn til að henda í lítinn Topp 5 lista fyrir Plebbann. Hann er hér.
---

Það er ekki ofsögum sagt að ég er búinn að vera að hlusta á norskt þungarokk nokkuð stíft síðustu vikurnar, þá aðallega hið þrælmagnaða band Kvelertak ("Kverkatak"). Fyrstu þrjú lögin á fyrstu plötunni þeirra (Kvelertak, kom út í fyrra) eru dúndurstuð og massaþétt á bretti. Ulvetid, Mjöd og Fossegrim. Nei, platan öll er bara snilld og þú ættir að tékka á henni. Grímur segir að þetta band sé þó ekkert sérstakt læf og mun því ekki beita sér sérstaklega til að fá það á Airwaves. Ég held hann hljóti bara að hafa hitt á það á slæmum degi. Kannski Stebbi ætti þá bara að taka það á Eistnaflug? Kvelertak fékk í fyrra norsku Statoil-útflutningsverðlaun upp á 1 milljón norskar (rúmlega 21 milljón Mikka mús krónur), svo það er ekki á flæðiskeri statt í meikinu. Hér er viðtal við Vidar Landa, einn af þremur gítarleikurum bandsins. Ég er svo ánægður með þetta band að ég er næstum því að spá í að fá mér svona tattúermar eins og þeir eru með. Mun þó auðvitað hvorki tíma því né finnast það nógu flott.
---
Hvað er annars á grammifóninum? Nú nýja Beastie Boys platan, Hot Sauce Committee Part 2. Þeir hafa engu gleymt og ekkert lært og það er alveg fínt! Nýja Timber Timbre, Creepin In Creepin Out, er helv góð. Grá og krípí eins og moðerfokk. w h o k i l l með tUnE-yArDs er ágætis stöff, svona krúttað afríkuindie eitthvað. Svo er ég auðvitað búinn að hlusta á Germ Free Adolescents með enska pönkbandinu X-Ray Spex frá 1978 til minningar um söngkonu sveitarinnar, Poly Sterene, sem lést úr brjóstakrabbameini 25. apríl. Þetta kom eins og svokölluð þruma úr heiðskýru lofti því Poly var að gefa út nýja sólóplötu, Generation Indigo, eftir langt hlé. Ef þú ert græn(n) og vilt tékka á drífandi söngkonupönk vísa ég á Oh Bondage! Up Yours! með X-Ray Spex.
---
Rjóminn vísar á tvö ný lög með Jóni Þór, sem var í Lada Sport og Dynamo Fog, en er nú með sóló í startholu. Þetta er ljómandi hjá honum, Weezer og Bob Hund í góðum graut. Rjóminn vísar líka á myndband með Just Another Snake Cult, sem er Þórir, sem er frábær gaur í sækadelísku indiepoppi. Mikil framtíð í framtíðinni!
---

Horfði á helminginn af heimildarmyndinni Who is Harry Nilsson (And Why Is Everybody Talkin' About Him?) í gær. Þetta er fín heimildarmynd um þennan hæfileikaríka en sukkaða náunga. Hann náði poppuðum hátindi á plötunni Nilsson Schmilsson 1971. Það væri nú ekki galið ef þú myndir tékka á henni, svona ef þú ert að leita að einhverju almennilegu til að hlusta á. Þar eru bæði hin upprífandi Gotta Get up og Jump in the Fire, hin súperangurværa páverballaða Without You (eftir Badfinger) og noveltí hittið Coconut (sem heyrðist síðar í Reservoir Dog). Masterpís!

28.04.11
Hljómsveitin HAM hefur lokið við að taka upp 10 laga plötu, þá fyrstu síðan, ja, eiginlega síðan Buffalo Virgin 1989. Platan hefur fengið hið stórfenglega nafn SVIK, HARMUR OG DAUÐI og mun koma út í ágúst á vegum Smekkleysu. Fyrsta lag "í spilun" er DAUÐ HÓRA, sem kemur von bráðar. Meðal annarra nýrra laga á plötunni eru GAMLIR SVIKAMENN Á FERÐ, HEIMAMENN HÖFÐU ALDREI SÉÐ SLÍKAN MANN og SVIKSEMI, sem þeir tóku í Kastljósinu í fyrra. Eru ekki allir klárir í bátana? Ham spila 9. júlí á Eistnaflugi.
---
Eins og komið hefur fram spila Quarashi á einhverju sem heitir Besta útihátíðin í sumar. Þetta ku vera útihátíð í Galtalæk. Ekki þætti mér ósennilegt að bandið tæki gigg í bænum líka, fyrst það er að þessu á annað borð, en það verður ekki tilkynnt um það fyrr en eftir Bestu útihátíðina til að trekkja á hana. Svo þætti mér ekki ósennilegt að gefin yrði út best of plata með Quarashi fyrst er verið að þessu á annað borð. Jafnvel 1-2 nýjar slagarar þar. Quarashi er dúndurband og frábært að menn séu að spila á ný. Algjör óþarfi að taka sig svo alvarlega að fara að líta á fortíðina sem eitthvað flipp. Ég er farinn að fatta það að maður breytist ekki neitt alveg sama hvað maður eldist. Ég er allavega ekki byrjaður að hafa áhuga á antíkhúsgögnum, Manhattan Transfer og rauðvíni þótt ég sé orðinn ævagamall. Ég gæti jafnvel trúað að þungarokkstímabilið mitt sé að renna upp.
---
POPPPUNKTUR hefst 28. maí, sjöunda season takk fyrir. Við Felix erum að bóka as ví spík og þetta verður væntanlega geðveikislega gott að vanda. Lænöppið skýrist von bráðar. Svo er um að gera að læka þáttinn á Facebook og koma með hugmyndir. Við hlustum.
---
Talandi um Popppunkt. Hið stórkostlega borðspil ENN MEIRI POPPPUNKTUR sem kom út fyrir síðustu jól fæst nú á afar frábæru verði – 2.490 kr – í lagersölu Bókaforlaga, Borgartúni 29. Þú þangað!!!

26.04.11

Var á Ísafirði þar sem við höfum – í samráði við 4 aðra aðila – keypt efri hæðina á þessu lúxushúsi í miðbænum. Eins og augljóst má vera öllu óvitlausu fólki gengur húsið undir nafninu Sólskinshöllin. Til vinstri undir okkur á tónlistarmaðurinn Rúnar Þór íbúð. Hann var reyndar ekki heima. Ekki get ég sagt að ég hafi legið eins og mara á Aldrei fór ég suður tónleikunum, sá þó allt settið hjá Páli Óskari, sem stóð sig alveg frábærlega. Ég hékk hins vegar í sundlauginni á Bolungarvík þrjá daga í röð, en saunabaðið þar er gjörsamlega æðislegt. Þeir eru með hvíldaraðstöðu við saunað þar sem maður lá og lét páskasúkkulaðið vætla út um svitagötin á sér. Vantaði bara stelpur með vínber og kælt hvítvín í leirkerum upp á að samlíkingin við rómverskar orgíur væri fullkomin. Fólk er víst mikið í lyklapartíuum þarna í saunanu, skyldist mér á öðrum gestum. (Gæti verið lýgi).

Göngin eru alveg geðveik.

Túristaseasonið er samt ekki alveg komið í gang. Tjöruhúsið ekkert opið og pönnukökuhúsið, sem mig hafði hlakkað svo til að heimsækja, ekki búið að opna. Maður hefði nú haldið að það hefði verið sniðugt að vera með opið yfir páskahelgina.

Á leiðinni heim í sollinn bar það helst til tíðinda að við sáum haförn sitja á stein í fjörunni í botni Ísafjarðar. Við snarsnérum við til að glápa á hann. Hann glápti á móti, svo nennti hann þessu ekki og flaug þunglamalega í burtu með 2 metra vænghafið á útopnu yfir firðinum. Ógleymanlegt!
---

Fór loksins á hina umdeildu Koddu-sýningu í eldgamla Ellingsenhúsinu. Sæmdarrétturinn er stórlega brotinn á mér því í verki eftir Ásmund Ásmundsson og Hannes Lárusson berst bútur úr Prumpufólkinu aftur og aftur út úr hefímetalskrýmsli (sjá mynd að ofan). Ásmundur var á svæðinu og sagðist hafa ætlað að spyrja mig um leyfi, en svo ekki nennt því eða eitthvað. Ég sagði að þetta væri nú alveg ókei og Ási gaf mér bækling sýningarinnar í staðinn. Win/Win.


Það er annars alveg ágætt að loksins sé eitthvað fútt í listarúnkinu hérna. Samt voða mikið af ekkert svo sniðugu dóti á þessari sýningu, bara augljósar góðærismyndrænur af Sollu stirðu, Dorritt, Ólafi Elíassyni og einhverju öðru yfirborðskenndu góðærisdrasli (sjá mynd að ofan - (Reyndar er Geiri með gellurnar ekki frá góðærinu, heldur hruninu)). Tja, kannski ekkert svo æðislegt á þessari sýningu nema náttúrlega hefí metal skrýmslið með Prumpufólkinu. Mér fannst silfurtyppi í kassa reyndar nokkuð flott en Ásmundur sagði að það verk væri í láni frá Reðursafninu, svo listaliðið gat ekki einu sinni fattað upp á því. Nei nei djöfuls rugl, þetta er alveg ágætis sýning – og bæklingurinn töff. Það vantar náttúrlega slatta á þennan hluta sýningarinnar, restin er enn niðrí Nýló: t.d. Down syndróm hnakkarnir hans Snorra og svo fallegasta bókin með matarleifunum ofan á, eða hvað þetta er sem er búið að klessa á bókina. Það er kominn svartur kassi inn í eldgamla Ellingsen þar sem þetta blessaða verk á að koma, ef það kemur þá nokkuð því það má víst ekki sletta matarleifum á svona blómabækur, skv. lögum. Þjóðin fylgist spennt með (eða ekki).
---
Nú hefur Halli Civelek búið til klína mat á Morkinskinnu-leik þar sem þú getur gert það sem þér finnst réttast.

21.04.11
Heyrði í henni Margréti Pálu í morgunútvarpi Rásar 2 þar sem hún líkti því saman að velja sér besta brauðið í búðinni og að velja sér besta skapið sem maður vill vera í þann daginn. Þetta er alveg rétt og alveg skítauðvelt að vera alltaf hress og í stuði ef maður bara ákveður það. Ég hef líka tamið mér þessa aðferð – eða reynt það, oft fer ég í gamlan bakkgír – og setti fram þessa kenningu í laginu Hr. Rokk og Fýlustrákurinn á barnaplötunni Abbababb! Jæja, ég verð þá bara í góðu stuði en þú í fýlu og vertu svo sæll og blessaður. Til að skerpa á þessu minni ég enn og aftur á geðorðin 10, sem er minn leiðarvísir um tamningu líðaninnar.

Já og gleðilegt sumar! Djöfull verður þetta ógeðslega frábært sumar. Þó bara ekki nema fyrir það eitt að S.H.Draumur verður á Eistnaflugi!

20.04.11
Jón Gnarr berst við pólitísku vindhanana í borgarstjórn og er ekki öfundsverður af því stappi. Það er hreinlega unaðslegt að lesa hér milli línanna hvað þetta lið er allt ógeðslega fúlt að hafa verið truflað við trogið. Á fundum var karpað um eitt og hið sama, skítinn sem gefa á í ykkur, eins og Egill Ólafsson syngur hér næst:
---

Þursaflokkurinn - Anarkí
Horfði á myndina um Jón Odd og Jón Bjarna með krökkunum í gær. Athyglisvert er Purrks Pillnikk plaggatið sem Anna Jóna er með á hurðinni sinni. Ég átti svona plaggat einu sinni. Alltaf er gaman að sjá gamlar mjólkurfernur í myndum. Einnig er útlitið á Agli Ólafssyni mjög athyglisvert. Hann lítur eiginlega út eins og Sveinn M. Eiðsson í þessari mynd, en Sveinn sýnir stórleik sem nágranni og pabbi Jóa spóa. Þetta var tekið hér í nágrenninu, í blokkunum við Lambastaðabraut og ekkert mikið búið að breytast þannig lagað, nema bílarnir náttúrlega. Í myndinni heyrist ómur af hressu Þursaflokks-lagi í new wave stíl, liklega af þessu lagi, Anarkí. Lagið kom út löngu síðar á safnhaugnum Ókomin forneskja, sem fylgdi með heildarpakkanum og er m.a. stöff sem átti að koma út á fjórðu stúdíóplötu flokksins, en gerði ekki.

17.04.11

Bítlavinafélagið - Eitt líf enn
Það er naumast að stórmeistararnir raðast inn með stórafmæli. Bó í gær og Eyfi í dag, fimmtugur. Til hamingju með það! Hér er lag eftir Eyfa af síðustu plötu Bítlavinafélagsins, Konan sem stelur Mogganum, sem kom út 1989 og gekk ekki sem skildi, held ég, a.m.k. ekki miðað við fyrri verk Bítlavinafélagsins, sem voru allt meira og minna metsöluplötur. Fínasta lag hjá Eyfa samt, ef vel er hlustað má jafnvel ímynda sér að Eyfi hafi verið undir áhrifum frá Big Star þegar hann samdi það. Eyfi er nú á geðsjúkum megatúr um landið, spilar fimmtíu sinnum út um allt land.
---
Ingólfur Margeirsson er fallinn frá. Ömurleg tíðindi eins og alltaf þegar fólk stimplar sig alltof snemma út. Enn á ég eftir að lesa Bítlabókina hans, en það kemur að því. Þekkti hann ekki mikið, en hitti hann í Austurstræti um daginn og þá kjaftaði á honum hver tuska. Það hefði nú verið skemmtilegt að ræða betur við hann um Bítlana og brasann og svona, en það bíður bara betri tíma.

16.04.11


Ævintýri - Illska / Ævintýri - Lífsleiði
Eins og alþjóð veit er Björgvin Halldórsson sextugur í dag. Bó er mikill meistari og snillingur, og ég og allur minn ættbogi óskar honum til hamingju með daginn. Ég var náttúrlega á kjöraldri til að gefa allnokkurn skít í hann þegar ég fyrst fór fyrst að spá í músík og íslenska poppara, enda knúinn áfram af rækjureggae. Smám saman hefur þó sanngjarnt endurmat farið fram, þó ég verði reyndar að viðurkenna að Sagan af Nínu og Geira fer jafn mikið í taugarnar á mér og 1980! Fyrsta skrefið í endurmatinu var þegar ég heyrði þessa dúndurrokkuðu sjötommu með Ævintýri. Bandið byrjaði í "bubblegum" (eins og má heyra á fyrri smáskífunni með hinu fræga titillagi), en fór svo út í þennan dúndurrokkfíling. Löngum var talað um að gera LP plötu en því miður varð ekkert úr því. Ógerða Ævintýri LP platan fer því í flokk með ógerðum LP plötum með Dátum, Taugadeildinni, Náttfara o.fl.

Í Ævintýri voru auk Björgvins þeir Sigurður Karlsson trommari og Biggi Hrafns gítarleikari, sem fóru í hljómsveitina Svanfríði með Pétri Kristjáns o.fl. og héldu dúndurrokkdampi þar. Bó, Sigurjón Sighvatsson bassaleikari og Arnar Sigurbjörnsson gítaristi stofnuðu hins vegar Brimkló og ðe rest is history...

---
Las það í Fbl að Einar Bárða hafi fengið Elvis Costello til að spila í Hörpunni 21. nóv. Jess... einn miði keyptur hér. Enn betra hefði verið að fá Elvis með hljómsveit, en hann einn er nú alveg skárra en ekkert! Fyrstu þrjár LP plötur Elvisar eru gjörsamlega frábærar, en eftir það er alveg fínt stöff líka. Það er hins vegar rangt hjá Gigjukvikindinu, sem skrifar fréttina í Fbl, að Elvis sé Bandarískur. Elvis Costello er að sjálfssögðu enskur. Jafn enskur og enskur morgunverður.
---
Þessi spennandi sýning opnar í dag. Hefði náttúrlega verið meira töff ef hún hefið opnað 2007, en betra er seint en aldrei:

15.04.11

Fífillinn er fallegasta blómið. Hann er líka svo fríkaður eins og má sjá í þessu myndbandi. Bráðum fer hann að koma. Já og ég heyrði í lóu í gær. Svona svona, örvæntið ekki. Svo sannarlega segi ég yður: Vorið fer að koma.
---

Steinn komst í feitt í fornbókabúðinni Pistlinum, sem er hérna við hliðina á mér í kjallara í blokk við Hjarðarhaga 24-32. Steinn komst yfir næstum komplett sett af Jazzblaðinu, sem Svavar Gests og KK gáfu út þónokkuð oft á tímabilinu 1949-1953. Þetta eru gullfalleg blöð með KK og Tónasystrum og allskonar gúmmilaði þessara tíma þegar "jazz" náði held ég bara yfir allt sem var töff og kúl. Séra Björn hefur nú hafið leit að KRON blaðinu fyrir mig, sem er eflaust þarna einhvers staðar í haugunum ef vel er gáð. Opnunartíminn hjá Séra Birni er mjög takmarkaður, eða eftirfarandi:

Næst var farið í Fríðu frænku þar sem Steinn keypti vel með farið eintak af Change 7" með lögunum Ruby Baby og If I. Að auki fann hann í kjallaranum þrjár 78 snúninga plötur með MA Kvartettinum, útg. 1951 af HSH. Mikil hamingja með það og allt á viðunandi verði enda Fríða frænka löngu hætt að auglýsa sig með slagorðinu "Gamalt drasl á okurverði," eins og mig rámar í að búðin hafi gert í upphafi. Besta búðin í bænum, Fríða!

Að lokum í þessari ferð var snætt á Mömmu Steinu, sem Bjarni snæðingur hefur opnað á Skólavörðustíg. Bjarni er með matsöluna í BSÍ og er sonur Steinku Bjarna, sem söng svo eftirminnilega um Bjössa bollu. Mamma Steina býður upp á alvöru gamaldags mat, og því alveg í stíl við jazzblaðið og MA Kvartettinn. Steinn fékk sér hakkabuff, ég kótilettur. Maður borgar kjötið eftir vigt og fær svo óvigtað meðlæti með eins og maður vill. Staðgóð og hressandi máltíð kostar ekki nema um 1000 kall. Ódýrt og gott og almennilegt!
---
Vinsamlegast athugið:
REYKJAVÍK MUSIC MESS HEFST Í DAG!!!!!!!!!!
---
ICELAND FOOD CENTRE - fyrsta íslenska útrásin er mjög spennandi heimildarmynd efrie Þorstein J sem Stöð 2 sýnir um páskana. Myndin er um vonlausan íslenskan restaurant sem var settur upp með gríðarlegum tilkostnaði á besta stað í London á 7. áratugunum. Hér má sjá treilerinn.
---

Áríðandi almannaupplýsingar:

Laugardaginn 16. Apríl (á morgun) er alþjóðlegur dagur sjálfstæðra plötubúða (Record store day). Plötuverslanir út um allan heim taka þátt í að halda daginn hátíðlegan og taka saman höndum með tónlistarmönnum til að fagna listinni, gefa út plötur eingöngu til sölu þennan dag ásamt allskonar uppákomur sem eiga það sameiginlegt að hylla menningararfleiðina í kringum plötuverslanir.

Plötubúðin Lucky Records, sem geymir vínylsafn á íslandi, tekur þátt í deginum með látum og mun verslunin vera opin frá 10.00-20.00 þennan dag og bjóða uppá fjölbreytta tónleika.

Meðal þeirra sem koma fram eru

12.00 Extreme Chill dj set
14.00 Óskar Guðjónsson og Co
15.00 Kristján B. Heiðarsson (pop)
16.00 Sesar A.+Dj Kocoon (hip hop)
17.00 Epic Rain (gothic country)
18.00 Dj sett og óvæntir gestir.

Einnig mun Lucky Records bjóða uppá hverskyns mikið úrval af nánast ófáanlegum vínyl bara á laugardaginn t.d. Saktmóðigur-Fegurðin, blómin og guðdómurinn sem kom út í 238 eintökum árið 1993 og plata Sesar A.-Stormurinn á eftir logninu sem hefur verið ófáanleg um árabil en verður þessi fyrsta vínylplata íslensks hiphops endurútgefin einungis þennan dag.

Vefsíðan gogoyoko verður svo á svæðinu til að brúa bilið milli klassískra tíma og hina nýju og verða tónlistargjafir frá gogoyoko.com fyrir alla sem koma í Lucky Records í tilefni dagsins.
---
Jamms... Styðjum plötubúðirnar! Hér er 40 eymdarleg portrett af plötubúðum sem eru hættar. Hér eru hinsvegar önnur portrett af plötubúðum sem enn eru í fullu fjöri. Sannkallað plötubúðarklám fyrir allt almennilegt fólk!
---

Nú er komið nýtt svona notum smokkum dæmi enda ekki vanþörf á. Ég var bara öndergránd nóboddí 1986 og ekki með fræga fólkinu á plaggatinu þá, en nú er ég rosa frægur og með hinu fræga fólkinu. Sé eftir að hafa verið svona stífur á myndinni, hefði átt að gera eitthvað meira flippað. Vera gubbandi smokkum eða eitthvað. Jæja, fokk itt.

14.04.11
Fór á Eldborg – Sönn íslensk útihátíð, sem kvikmyndaklúbburinn Arnarhreiðrið sýndi í Bíó paradís í gærkvöldi. Þarna veltast fullir unglingar um tjaldið undir hvínandi ballspilamennsku helstu stuðbolta ársins 2001. Mjög góð mynd, ekki síst vegna Freys Eyjólfssonar og Jóns Atla Jónassonar, sem eru spyrlar og jafn ruglaðir og lið almennt í þessari mynd. Mjög góð heimild um sukk og leikstjóri er Ágúst Jakobsson, einn af þremur trommurum S. H. Draums.

Það voru ekki margir í bíó, slatti þó, m.a. par sem hélt að það væri statt á útihátíð. Byrjaði rólega í sukkinu og hellti svo vel á sig út myndina og alltaf farandi fram að ná í meiri bjór (enda Bíó paradís eina bíó landsins sem selur bjór og léttvín). Mér fannst þetta mjög viðeigandi fólk, rosaflott gimmikk að hafa fullt gólandi fólk í bíó á mynd um fullt gólandi fólk. Dálítið eins og myndirnar hans William Castle, sem var meistari bíó-gimmikka.

Ekki voru allir á sama máli og sögðu liðinu að halda ká joð og svo framvegis. Þetta fór illa í fulla fólkið svo þetta endaði með handalögmálum yfir kreditlistanum. Þaðan barst ruglið út á tröppur og löggan mætt og eitthvað helvítis kjaftæði.

Ég óska samt Arnarhreiðrinu til hamingju með gríðarlega góða sýningu – sannkallað 4D – og mun fylgjast vel með því hvaða snilld verður í boði næst!
---

Má bjóða þér vepli? Ég er náttúrlega svo mikill sökker að ég var ekki lengi að skella mér á pakka af fjórum Grapple í Hagkaup í gær þótt pakkinn kostaði 698 kall. Veplið er sambland eplis og vínberja, eða svo mátti skiljast á pakkanum (Looks like an apple, tastes lika a grape). Mér fannst þetta nú eiginlega samt bara eins og epli á bragðið. Reyndar rosalega gott epli, en epli samt. Læt nú ekki plata mig til að kaupa svona aftur, allavega ekki á þessum okurprís!
---

Í gamla daga var allt í lagi að selja börnum sígarettur og það var líka allt í lagi að barnastjarnan Mikki refur reykti Prince. Allt var mikla meira töff í gamla daga, er það ekki? Nei nei.
---

Ástþór Óðinn - Be Yourself
Ný plata með Ástþóri Óðni, rappara frá Njarðvíkum. Poppað hipp hopp á ensku (og smá á íslensku).  Hann sendi fréttatilkynningu:
Íslenskur listamaður Ástþór Óðinn kominn á mála hjá indí útgáfufyrirtækinu Expat Records. Fjórða útgáfa hjá Íslenska hipphopp listamanninum‘Both Ways’ brúar bilið á milli rapps/popps með beittum textum yfir grípandi töktum og meðvitaðri rödd. Íslenski listarmaðurinn Ástþór Óðinn kemur frá Njarðvík, hefur gert samning við indí útgáfufyrirtækið Expat Records, sem mun endurútgefa plötuna hans Both Ways sem kom út 2010. Íslenski rapparinn hefur bætt 2 lögum við sem aldrei hafa verið gefin út.
Ástþór neitar að fylgja tísku, skrifar frá hjartanu og rappar um hans persónulegu lífreynslu, sem hefur veitt honum ágætis aðdáendahóp. Textarnir hans eru hreinskilnir og kemur hann til dyranna einsog hann er klæddur.
Hann verður kynnir og kemur fram á söfnunartónleikum í 88. húsinu Reykjanesbæs fimmtudaginn 14. apríl
Meira um viðburð.
---
Vegna almannahugsmuna koma hér tvær fréttatilkynningar:



Hljómsveitin Hjálmar heldur tónleika til styrktar íslenskum keppendum á Special Olympics 2011. Tónleikarnir fara fram á Nasa föstudagskvöldið 15. apríl. Sérstakur gestur verður hljómsveitin Valdimar. Miðaverð er kr. 1.500 og rennur óskipt til ferðarinnar.
Miðasala fer fram við hurð. Húsið opnar kl 21.00 og tónleikarnir hefjast kl 22.00.
Meðlimir Hjálma vilja koma því á framfæri að þeim þykir afskaplega vænt um að fá að standa fyrir þessum tónleikum og hjálpa þannig einstöku íslensku íþróttafólki að láta draum sinn rætast. Með góðri mætingu á tónleikana getur hljómsveitin safnað umtalsverðum peningum sem skipt geta sköpum fyrir keppendurna og þátttöku þeirra á leikunum. Þeir hvetja því flesta til að mæta - bæði aðdáendur hljómsveitarinnar sem og aðdáendur keppendanna og vini þeirra og vandamenn - og láta gott af sér leiða.
ÍF sem er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi fagnar þeirri ákvörðun hljómsveitarinnar Hjálma, að halda tónleika til styrktar þessu mikilvæga verkefni.  Slíkt framlag er metið að verðleikum, aðstoð við fjármögnun er gífurlega mikilvæg en ekki síður sá hugur sem að baki býr slíku framtaki.  ÍF og Special Olympics á Íslandi vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til hljómsveitarmeðlima Hjálma fyrir að standa að þessum tónleikum.

Facebook-síða tónleikanna.

---
Tómstundahúsið Havarí lagðist í dvala í janúarlok og hefur um nokkurt  
skeið leitað logandi ljósi að föstum viðverustað í miðborg Reykjavíkur  
án árangurs. Til að drepast ekki úr leiðindum ætla havaríistar í  
samstarf við tónlistarhátíðina Reykjavík Music Mess og Kex Hostel og  
opna skammtímaútibúið Bríarí á Skúlagötu 28 (fyrir ofan Nýló).

Í anda Havarí verður boðið upp á músík, myndlist, veggspjald vikunnar,  
ókeypis tónleika, ódýrar hljómplötur og allskyns andlegt gúmmulaði.  
Þar verður líka miðasala og afhending armbanda fyrir Reykjavík Music  
Mess.

Listunnendum og lífskúnstnerum er því ráðlagt að bregða sér í betri  
fötin og skunda í Bríarí um helgina. Hlýða á smá músík, fá sér kaffi  
og hitta annað fólk.

Bríarí er opið frá fimmtudeginum 14. apríl til sunnudagsins 17. apríl  
frá klukkan 11 til 18.


Þetta er tónleikadagskráin í Bríaríi og hún mun pottþétt breytast áður  
en ég klára að skrifa þennan tölvupóst. Áreiðanlegri dagskrá verður  
birt á Facebook: http://www.facebook.com/hahavari

Föstudagur 15. apríl
14:00-15:00: Skakkamanage
16:00-17:00: Samaris

Laugardagur 16. apríl:
14:00-15:00: Nive Nielsen
16:00-17:00: Sóley

Sunnudagur 17. apríl:
14:00: The Fist Fokkers
16:00: Tomutonttu

Hlökkum til að sjá ykkur
Bríarí

13.04.11
Gyrðir Elíasson var að fá verðlaun og það er alveg frábært enda Gyrðir svo viðkunnalegur maður að sjá. Ég hef reyndar ekki lesið eina einustu bók eftir hann því ég er svo mikið hráfæði og haldinn þeirri ranghugmynd að það gerist ekkert í bókunum hans heldur séu þær nákvæmar lýsingar á plastpoka að fjúka um sveitir Borgarfjarðar, eða eitthvað slíkt. Þetta má auðvitað ekki spyrjast út svo ég þarf náttúrlega að drífa í að bæta úr þessu, asap.

Í athugasemdarkerfi Jakobs Bjarnars hafa sprottið upp fjörugar umræður um ísbúð Gyrðis, Gyrðís, sem hann mun setja upp fyrir verðlaunaféð. Til hamingju Gyrðir!
---
Gubbi Begg liggur nú undir froðufellandi ámæli snarvitlausra þjóðrembinga á kommentakerfum víðsvegar, sem halda eflaust að með sigri NEI-sins hafi verið lagður fyrsti vísir að einræði forsetans og Island über alles. Annar snillingur, Kristinn R. Ólafsson, las upp þýðingu sína á grein Guðbergs í El Pais í síðdegisútvarpinu í gær og það er auðvitað margt - ef ekki flest - skot og mark í vígreifri grein meistarans. Gubbi talar um hermangið og tilhneigingu landsins til að geta aldrei staðið á eigin löppum og þurfa alltaf að leggjast í kjöltuna á einhverjum, ef ekki ameríska hernum, þá risa álverksmiðjum frá útlöndum. Enda talar „sá ráðvillti“ nú um að Rio Tinto og Alcoa ætli að koma og bjarga okkur með fullt fullt af peningum og bla bla bla.

Sko. Ísland er fínt og Íslendingar eru sem betur fer ekki slefandi fávitar upp til hópa – þó oft megi draga þá ályktun af lestri kommentakerfa (og niðurstöðum kosninga) – og við erum auðvitað miklu merkilegri en flestir hópar af 300.000 manns annars staðar, spurðu bara Björk og Sigur Rós. Algjör óþarfi samt að láta eins og við séum eitthvað merkilegri en við erum, sérstaklega þegar við látum eins og ráðvillt fórnarlömb með mikilmennskubrjálæði leitandi að næsta sugardaddy.
---

Deerhunter - Helicopter
Deerhunter er aðalbandið á RMM sem byrjar á föstudaginn. Deerhunter spila á sunnudagskvöld. Eru síðasta bandið á dagskrá á Nasa. Hina dúndurspennandi dagskrá má sjá hér. Deerhunter eru eiginlega bara poppband sem hjúpar poppið tilraunakenndum hjúpi. Nýjasta platan, Halcyon Digest, er best, spikfeit og sælleg. Þetta lag er á henni. Ekki missa ef þessu maður!
---
Á RMM spilar líka BORKO, sem sendi útvarpsstjóra bréf eins og frægt er orðið.
 
12.04.11
Gerirðu þér grein fyrir því að það er í raun algjör tilviljun að hinir klassísku stórsmellir Rock Around the Clock, Louie Louie, Wipeout, Under the Bridge, Theme from M*A*S*H (Suicide Is Painless) og Tutti Frutti urðu svona vinsælir? Sex tónlistarmenn sem skitu óvart meistaraverkum - er mjög góð og skemmtileg grein á Cracked sem útskýrir þetta.
---

Lower Dens - Two Cocks
Hér er enn eitt bandið sem verður á REYKJAVÍK MUSIC MESS um næstu helgi. Þau eru frá Baltimore, USA, og söngkonan Jana Hunter er aðal. Fyrsta platan heitir Two-Hand Movement og músíkin amerískt gítardrifið skussrokk. Ég heyri Feelies, Red Crayola, Television... Eðall.

11.04.11

Dreymdi að ég hefði keypt lítið brúnt rafmagnsrúgbrauð á ferðum mínum á Austurlandi. Steini og Biggi voru líka svo þetta var S.H.Draums túrinn í sumar. Bíllinn kostaði 900.000 kr. Svo bakkaði ég rúgbrauðinu út af veginum og ofan í gjá af eintómum klaufaskap. Var í næsta atriði vaðandi út í einhverri á og hringdi afsakandi í eldgamla kærustu til að segja henni frá þessu. Svo þurfti að skrifa bréf til einhvers sveitamanns sem átti að draga rúgbrauðið upp því hann var ekki með síma. Vaknaði með hausverk.
---
Eins og allir vita fer nú líf nútímamannsins fram á Facebook. Þar eyðir fólk tíma sínum í að röfla umða hvort það vilji borga skuldir óreiðumanna eða ekki, og deila fyndnum Youtube myndböndum. Hér er bráðvelgefinn vöðvahnakki stynjandi að stúta melónu á milli læra sér. Hér er grettukeppni hjá Hemma Gunn 1990 og Ari Eldjárn spyr hvort þessu sé leikstýrt af David Lynch.


Annars er það helst að frétta af Facebook að sumir hafa nú uppi mikla lofroll um mannkosti bjartvættsins ÓRG. Ég eyði þeim jafnóðum út af vinalistanum.
---
Verð svokölluð Mánudagsdrottning á eftir hjá þeim Andra Frey og Gunnu Dís í Virkum morgnum.
---

Og svo enn meira Reykjavík Music Mess: NIVE NIELSEN & THE DEER CHILDREN. Nive er grænlenskt úkúlele krútt og segist spila eskimóa indie (eða inúíta indie þegar fróðari einstaklingar heyra til). Rjóminn hefur fjallað um hana. Það er annars meira hvað úkúlele hefur orðið algengt sl. ár. Ég keypti mitt í London 2001 og þá var enginn með svona, hvað þá að þetta væri til í hljóðfærabúðum hér. Nú er þetta út um allt og hver stelpan á eftir annarri poppar upp krúttleg með úkúlele í kjöltunni eins og lítinn kettling. Maður hefði stórgrætt ef maður hefði keypt hlutabréf í úkúlele-verksmiðju 2000. Hina rólyndislegu ísjaka-indie plötu Nive má heyra (og kaupa) hér.

10.04.11

Var í dúndur hressri afmælisveislu Dagnýjar systur (hér á mynd með mér, mömmu og ömmu Láru) á Café Catalínu, í miðpunkti alheimsins, Hamraborg, í gærkvöldi. Dúettinn Arizona lék á allsoddi, þeir Ari Jónsson (Roof Tops) og Finnbogi Kjartansson (Júdas) og ónefndur skemmtari. Menn voru að fá sér og nokkrir höfðu uppi grín um nafn staðarins, sem er dálítið óheppilegt eftir ævintýri Miðbaugsmaddömunar. Svo var fylgst með niðurstöðum kosninga. Frekar var ánægja með Nei-ið og má skýra niðurstöðuna með orðum vertsins, sem ég ræddi þetta aðeins við. Hann sagði:

„Afhverju ættum við að borga skuldir Björgólfs Thors? Á hann ekki lyfjaverksmiðju? Væri ekki nær að kreista allt út úr honum áður en þjóðin er látin borga skuldirnar hans?“

Í grunninn var þetta því auðvitað vonlaust frá upphafi og NEI var alltaf að fara að vinna þetta.  Það eina sem hefði getað breytt því væri ef fyrrum eigendur og bankastjórar Landsbankans hefðu verið í gapastokkum fyrir utan kjörstaðina.

Því Icesave er þeim að kenna, ekki vertinum á Catalínu! Er það ekki annars?

(Sorrí ég ætlaði ekki að nefna þetta orð aftur. Þetta var í síðasta skipti. Ég lofa!)

Það er samt ágætt að fá staðfestingu á því að ég bý í gáfaðasta landshlutanum. Eða aumingjalegasta landshlutanum, eftir því hvernig á það er litið. Glætan að ég ætli eitthvað að fara að röfla um það aftur.
---
Ég var víst í sjónvarpinu í gær að fabúlera í góðra vina hópi um lögin í Eurovision. Hér má sjáetta onlæn.
---
 
FOSSILS
Áfram með Reykjavík Music Mess smjörið. Þú heldur kannski að Danir séu allir einhverjir bjórlepjandi Ólsenbræður með smörrebröd lekandi úr rassgatinu? Hugsaði þinn gang, ungi maður, því dúettinn FOSSILS er brjáluð bassa og trommu keyrsla. Þú getur hlustað á fyrstu plötuna þeirra, Meat Rush, hér. Hér er svo hægt að dánlóda úrvals RMM-sampler hjá Reykjavík Grapevine.

09.04.11

Ég minni á hina geðsjúku Reykjavík Music Mess hátíð um næstu helgi. Boðið er upp á þriggja daga vakt og haugana af böndum. Hverjir eru hvar í íslensku úrvalsdeildinni og 6 erlend atriði. Tökum kántdán á erlenda stöffið og byrjum á Finnunum:


tOmOtOnttU - Nakymaton Nuoli
Jan Anderzen er Tomutonttu, snarvitlaus hávaðaseggur frá Tampere. Heimasíðan hans er ekki fyrir flogaveikt fólk. Þetta verk, sem þýðir skv. google translate "Ósýnileg ör" er af plötunni EHDOTTELEE ("Skilmálar fjarskipta", skv. g.transl.) frá 2005. Við erum að tala um finnska þjóðlaga-rafið (hvers höfuðstöðvar eru útgáfurnar Fonal , Lal Lal Lal og Ektro) tekið í eitursúrar hæðir. Nálgist með varúð.
---

Undirheimamenn - Auminginn í Snævars
Strákarnir í Hermageddon, besta útvarpsþætti landsins skv. nýlegum könnunum, spiluðu þessa snilld í þætti hjá sér um daginn. Ekki veit ég hvaða flipparar eru í Undirheimamönnum, en þetta er mjög gott lag um málefni sem brennur á mörgum, þ.e. að fá sekt á videóleigu. Þeir hefðu getað sent Okursíðunni bréf en sömdu þetta lag frekar. Vel gert!

08.04.11

Þetta er síðasta blogg í heimi um Icesave. Þú munt aldrei aftur sjá þetta orð hérna á síðunni, Icesave, sama hvernig þetta fer. Ég ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna orðið núna því ég fór í Höllina í gær og gerði kross við JÁ. Mér fannst það vera málið þá stundina og nennti ekki að skipta um skoðun nokkrum sinnum í viðbót fram á laugardag. Það var slatti af liði að kjósa og pappírsfarganið við utankjörfundaratkvæðið kom mér á óvart. Seðillinn sjálfur fór í ómerkt umslag sem fór svo innan í stærra umslag sem var merkt með mínu nafni. Sem sé, ríkið leggur út fyrir tveimur umslögum við eitt svona atkvæði, svona 100 kall á bókabúðarverði. Ég hefði nú aldrei farið og kosið utankjörfundar ef ég hefði vitað af þessu því það er ekki eins og ég sé að fara eitthvað á laugardaginn. Ég vildi bara ekki þurfa að hugsa um þetta lengur.

Burt með þetta helvítis helvíti.

Að lokum: Sökudólgarnir. Ekki gleyma hverjir stofnuðu til Icesave. Þúsund svipuhögg á mann fyrir að leggja þessi yfirþyrmandi leiðindi á þjóðina væri vel sloppið.

07.04.11
Cindy Lauper? Ég fagna því að hún sé að koma (á forsemdunum ðe mor ðe marríer), en get ekki fundið innra með mér vott af löngun til að sjá hana. Var búin að hlusta of mikið á The Fall og Birthday Party til að aftur yrði snúið þegar hún mætti öslandi á svæðið eins og neon-Grýla á sterum. Það skal hins vegar fúslega viðurkennt að ég er búinn að kaupa mig inn á Magnús og Jóhann í Austurbæjarbíói 7. maí.
---
Fékk mér Tex mex súpu á Súpubarnum. Ljómandi gott. Hitti Heiðu sem er að fara á Primavera festivalið í Barcelona, en það lítur út fyrir að vera eitthvað merkilegasta festival ársins. Þar eru leggendar í stöflum: Pere Ubu og Suicide taka fyrstu plöturnar sínar, Einsturzende Neubauten og Belle & Sebastian koma fram, Echo & The Bunnymen taka lög af Heaven Up Here og Crocodile, Pulp eru með kombakk, P.I.L og Shellac koma fram, Mercury Rev taka lög af Deserter's Songs, Half Japanese og The Monochrome Set koma fram, og svo eru þarna haugarnir af nýrri böndum, m.a. bæði verðandi Íslandsvinirnir í Deerhunter og Caribou. Alveg klikkuð hátíð. Merkilegt að allir skuli vera farnir að koma fram og spila einhverjar klassiskar plötur úr katalóknum. Þetta var reynt hér (Ensími og Megas gerðu þetta) og svo náttúrlega þegar við í S. H. Draumi tókum Goð. Þetta er ágætis konsept enda rokkið ekki verri söluvara en hvað annað. Ef fólk er í stuði mætti því alveg kýla á Spilverkið og Megas taka Á bleikum náttkjólum, Utangarðsmenn taka Geislavirkir, Fræbbblarnir Viltu nammi væna, Sigur Rós Ágætis byrjun, o.s.frv.
---

Kynjajöfnun dagsins: Hljómsveitin Wild Flag er skipuð tveimur stelpum úr "Íslandsvinunum" í Sleater-Kinney, einni sem var í Helium og enn einni sem var í The Minders. Rolling Stone segja að þær hljómi eins og tveir þriðju Stooges og einn þriðju örlí Pink Floyd, sem mér heyrist nú ekki passa nema í hausnum á þessum blöðrum á blaðinu sem ekkert vita í sinn fúna koll. Fyrsti síngöll Wild Flag kemur út á Plötubúðardeginum 16. apríl næstkomandi.

06.04.11

Horfði aftur á 79 af stöðinni til að endurnýja kynnin við fræga nágrannahurð mína hér á Dunhaganum. Þetta er sögulega mikilvæg hurð því Ragnar á leigubílastöðinni hangir á henni lon og don til að komast inn til Gógó Faxen sem býr fyrir innan. Gógó er í ástandinu og þegar Ragnar kemst að því verður hann brjálaður sem von er og ekur til mömmu sinnar í sveitinni (því þar er lífið, ekki í solli borgarinnar, skv. gildum myndarinnar og Indriða). Það endar ekki betur en svo að hann keyrir út af og deyr. Sem betur fer hafði Ragnari tekist að njóta ástarmaka við Gógó nokkrum sinnum áður. Kynlífsatriðin hafa eflaust valdið umtali 1963, en virka í dag ísköld og máttlaus, enda liggur Gunnar Eyjólfsson hreyfingarlaus ofan á Kristbjörgu Kjeld eins og hraðfrystur nautaskrokkur.

Þetta er annars nokkuð fyndin mynd, þá aðallega því það er svo gaman að sjá allt í gamla daga. Flosi og Bessi Bjarnason eru þarna ungir og hressir í leigubíl og Ómar Ragnarsson sést snarvitlaus í nokkrar sekúndur káfa á brjóstunum á einhverri dömu á leigubílastöðinni.

Svona er sögufræga hurðin í dag:

---

Buff - Horfðu
Nýr dúllulegur poppsmellur frá Buffinu. Lagið er eftir Harald Sveinbjörnsson, sem oft hefur verið nefndur sjötta Buffið, og textinn er eftir Hannes trommara og Friðrik Sturluson í Sálinni.

05.04.11
Er það já eða er það nei? Vill maður að flugvöllurinn fari eða veri. Það er nú það. En Icesave? Þið hin fíflin megið nú bara ákveða það helvítis kjaftæði mín vegna.
---
Er hér með nýju Megasar plötuna á blasti. Hann syngur um Samband ungra sjálfsstæðiskúka í laginu Kúkur í flagi. Það er gaman.
---
Ég átta mig ekki alveg á titli myndarinnar Kurteist fólk því það er ekkert kurteist fólk í henni. Bara spillt skítapakk, fyllibytturæflar og einn aumingjalegur verkfræðingur (Stefán Karl) sem tuskast um á Búðardal. Þetta er þyngslaleg mynd. Til að manni finnist reglulega gaman að horfa á aumingja og skítapakk þarf helst að vera einn sem maður heldur með – sorrí, maður bara heldur ekki með neinum, í mesta lagi verkfræðingnum, en samt ekki, því hann er eitthvað svo mikill lúði – eða þá að myndin sé alveg ógeðslega fyndin. Það er hún nú ekki. Ég hef ekki lesið Laxdælu svo kannski var ég að missa af einhverju. Aldrei þessu vant var hljóð slæmt á köflum eins og í Dalalífi eða eitthvað svo maður þurfti verulega að leggja sig fram að heyra (en ég er svo sem heyrnarlaus). Myndin á þó nokkra fína spretti, Ragnhildur Steinunn er eiginlega best og maður rmyndi jafnvel halda með henni ef hún væri í aðalhlutverki. Draumasena í sveit til forna er mjög flott og maður hélt að myndin væri að fara að lifna við þar, sem hún gerði að hluta. Svo undarlega sem það hljómar þá lifnar myndin fyrst almennilega við þegar kreditlistinn byrjar í rúlla í lokin, en það er nú auðvitað dálítið seint í rassinn gripið!
---

Vax - Mr. Glimmerman
Hér er glænýtt lag með strákunum að austan. Aldrei þessu vant eru þeir með rólegt lag, en ekki gasahresst farfísurokk. Vax á netinu.

03.04.11

Ræða Borgarstjóra við opnun Tískuvikunnar hefur víst vakið nokkra athygli. Hér er ræðan:

Dear guests. It´s a pleasure to be with you tonight here at the second Reykjavik fashion festival.

We are all prisoners. We are prisoners of time and space. We are prisoners of the body. The designer is an escapist. Fashion is art. Through fashion we decorate the prison and make it into home. Through fashion we take over the prison. We take over the world. All it takes is courage.

I want to share with you an extract from the diary of Lieutenant Colonel Mervin Willett Gonin DSO who was among the first British soldiers to liberate Bergen-Belsen in 1945. DSO does not mean Dark Star Orchestra but “Distinguished Service Order” It is a military decoration of the United Kingdom, awarded for meritorious or distinguished service by officers of the armed forces during wartime.

“I can give no adequate description of the Horror Camp in which my men
and myself were to spend the next month of our lives. It was just a
barren wilderness, as bare as a chicken run. Corpses lay everywhere,
some in huge piles, sometimes they lay singly or in pairs where they
had fallen. It took a little time to get used to seeing men women and
childen collapse as you walked by them and to restrain oneself from
going to their assistance. One had to get used early to the idea that
the individual just did not count. One knew that five hundred a day
were dying and that five hundred a day were going on dying for weeks
before anything we could do would have the slightest effect. I saw women drowning in their own vomit because they were too weak to turn over,and men eating worms as they clutched a half loaf of bread purely because they had to eat worms to live and now could scarcely tell the difference. Piles of corpses, naked and obscene, with a woman too weak to stand proping herself against them as she cooked the food we had given her over an open fire; another woman standing stark naked washing herself with some issuesoap in water from a tank in which the remains of a child floated. It was shortly after the British Red Cross arrived, though it may have no connection, that a very large quantity of lipstick arrived. This was not at all what we men wanted, we were screaming for hundreds and thousands of other things and I don't know who asked for lipstick.
I wish so much that I could discover who did it, it was the action
of genius, sheer brilliance. I believe nothing did more
for these internees than the lipstick. Women lay in bed with no sheets
and no nightie but with scarlet red lips, you saw them wandering about
with nothing but a blanket over their shoulders, but with scarlet red
lips. I saw a woman dead on the post mortem table and clutched in her
hand was a piece of lipstick. At last someone had done something to
make them individuals again, they were someone, no longer merely the
number tatooed on the arm. At last they could take an interest in their
appearance. That lipstick started to give them back their humanity.”

I open the Reykjavik Fashion Festival 2011 with the words of Marilyn Monroe:

“Imperfection is beauty, madness is genius and it's better to be absolutely ridiculous than absolutely boring. “

Thank you for the courage to be a lipstick and enjoy your stay.

Ég veit ekki um þig en mér finnst þetta snilldar ræða og á fullkomnum stað!
---

Samaris er sigursveit Músíktilrauna í ár, sú þrítugasta í röðinni. Strákur á tölvu, stelpa á klarinett og stelpa sem syngur. Músíkin rólegt raf og ansi flott. Til hamingju með það! (Facebooksíðan þeirra)
---
15. október 1953 var Elly Vilhjálms nýbyrjuð að syngja með KK sextettnum. Þá lenti hún í að hita upp fyrir apa á kabarett-sýningu. Þetta hefur verið rosa sýning, Baldur (og Konni væntanlega líka) að kynna og það er ekki spurning að maður myndi mæta ef boðið yrði upp á svona eðalsjó í dag, til dæmis á Listahátíð. Það vantar alveg grín-apa á Listahátíð. Mikið var látið með apann 1953 eins og sjá má:



02.04.11

Ég er í sjokki. Þetta er allt sem eftir er af Álfhólsvegi 32. Moldarhrúga. Ó þú tímans tönn. Þú tímans fúli skúffukjaftur.

Ég bjó að Álfhólsvegi 30a til liðlega tvítugs svo þetta eru æskustöðvarnar. Og nú er bara búið að jafna þær við jörðu. Þetta var stórverslun. Fyrst Kjörbúð Kópavogs svo Kron í Kópavogi (Það var reyndar önnur Kron á Hlíðarvegi). Spur og kjötfass. Ó minningar. Ég er þarna margoft í draumi. Þegar ég var sex ára stal ég Cherrios pakka (svona litlum, svoleiðis var selt einu sinni). Mamma fattaði allt og ég var rekinn grenjandi til að skila cherriosinu. Við hliðina var mjólkurbúð með smelltum aftur kistum fullum af skyri í smjörpappír og jarðaberjamjólk í píramídafernum. Þar við hliðina fiskibúð. Allt selt innpakkað í gömul dagblöð.

Fyrir ofan Kron var Æskulýðsmiðstöð Kópavogs. Um að gera að halda krökkunum frá bítlagargi og amfetamíni. Láta þá spila bobb (ekki Billiard eins og stendur hér að ofan) og borðtennis. Ég held að Skátarnir hafi verið búnir að taka þetta yfir þegar ég var kominn á markaldur. Ég nennti ekkert að vera í Skátunum, en ég gældi samt við það enda komin svaka rafknúin kappakstursbílabraut á svæðið. Á bakvið var port þar sem ég spilaði fótbolta við sjálfan mig. Svo kom kókbílinn og hann var teikaður. Stundum gómsætt útrunnið sælgæti í tunnunum.

Sigurður Geirdal, pabbi hans Sjóns og síðar bæjarstjóri í Kópavogi, var verslunarstjóri í Kron búðinni. Rosa vel þokkaður, en ég man nú ekkert eftir honum þarna. Ég man satt að segja ekki eftir neinu fólki sem vann þarna. En mig rámar í að bíða í röð við kassann. Mig rámar líka í kjötborðið. Þetta er allt risastórt í minningunni, en hefur eflaust verið pínkulítið.

Moldarhrúgan er að minnsta kosti undarlega lítil á miðað við það sem þetta var.


Hér er Halli vinur minn að renna sér á snjóþotu. Ég vil trúa því að ég standi þarna fyrir aftan. Ef grant er skoðað má sjá Kron merkið á Kronhúsinu fyrir miðri mynd.

Ég man ekki alveg hvenær Kron hætti þarna. Líklega um 1980. Þá var pabbi minn búinn að taka yfir mjólkurbúðarhúsnæðið með Tempó innrömmun. Í Kron húsnæðið kom sjoppan STÁ (SöluTurninn Álfhólsvegi). Á efri hæðinni var Krossinn til húsa um hríð. Gunnar og söfnuðurinn í geðveiku stuði með guði. Maður fór kannski að fá sér kók og kókosbollu og þá heyrðist varla mannsins mál í sjoppunni því það var svo mikill trúarhiti á efri hæðinni. Sælgæti dettandi úr hillum og allt.

Svo drabbaðist þetta smám saman niður. Sjoppan hætti. Ekkert kom í staðinn. Krossinn flutti og gistiheimili kom í staðinn. Tempó flutti í Hamraborgina. Fiskibúðin hætti. Þar var búið undir það síðasta. Það kom upp eldur í húsinu sem náðist að slökkva, en þetta var ægilegt hreysi undir það síðasta. Þá mætti ég á staðinn og tók myndir sem enduðu á umslaginu á Dr. Gunni Inniheldur.

Framtíðarverkefni: Finna myndir frá gullöld Kron á Álfholsvegi.
---

Kan - Brjálið
Herbert Guðmundsson í Bolungarvík 1984, nokkru fyrir magnað meik með Can't Walk Away. Kan platan er átta laga og hefst á þessu skarpa andófi. Þetta er fönkað eitís í diskóstíl en einnig er stuðrokk á plötunni (eins og hið súperhressa titillag) og ballads. Bolvíkingar eru stoltir af þessari plötu og má lesa um hana á síðunni Víkari. Þar er gagnrýni sem Kristján Jónsson skrifar:
Óhætt er að segja að vatnaskil hafi orðið í bolvískri poppsögu árið 1984 þegar gleðisveitin KAN sendi frá sér meistaraverkið Í ræktinni við gífurlega góðar undirtektir á Vestfjörðum og raunar víðar. Hljómsveitin var eingöngu skipuð mönnum búsettum í Víkinni. Prímusmótor sveitarinnar var söngvarinn góðkunni Herbert Guðmundsson og var velgengni KAN upphafið að endurreisn hans (þeirri fyrstu) í íslenskum poppbransa. Aðrir meðlimir voru þeir Magnús Hávarðarson gítar, Finnbogi Kristinsson bassi, Alfreð Erlingsson hljómborð og Hilmar Valgarðsson trommur. Undirritaður hefur að ósk síðuhaldara ritað gagnrýni um plötuna fyrir Víkara.is, litlum tuttugu árum eftir að hún kom út.
Í Ræktinni er auðheyrilega metnaðarfullt verk og hefur vafalaust verið gott innleg í íslenska tónlistarflóru á þessu nýrómantíska tímabili. Hún kann þó að hljóma hallærisleg ef ekki er tekið mið af þeim tíðaranda, því 80´ tónlist er óneitanlega mjög sérstök. Greinilega hefur verið vandað til allrar vinnu varðandi upptöku á plötunni, en hana annaðist bassaleikari Stuðmanna Tómas Tómasson ásamt hljóðblöndun en hann ku vera einhver færasti mixari á landinu (svo slett sé tungumáli úr bransanum). Auk þess léku á plötunni trommuleikari Stuðmanna Ásgeir Óskarsson á ásláttarhljóðfæri en hann er fyrrverandi félagi Hebba úr Pelican. Í Saxafóninn blés Einar Bragi. Af meðlimum sveitarinnar er nokkuð ljóst að Herbert hefur verið drifkrafturinn í gerð plötunnar og eru fingraför hans út um allt. Hins vegar finnst mér Maggi Hávarðar standa upp úr á þessari plötu. Gítarleikur hans ber með sér skemmtilegan og sérstakan tón og greinilegt að hann átti ekki í vandræðum með þau fjölmörgu gítarsóló sem platan krefst af honum.
Varðandi aðra þætti eins og umslag plötunar má segja að það hafi tekist ágætlega. Forsíðuna prýðir ung kona á sundbol sem var fyrsti Íslandsmeistari í vaxtarrækt kvenna. Ekki man ég nafnið á henni í augnablikinu en í kvikmyndinni Dalalíf eftir Þráinn Bertelsson leikur hún stórt hlutverk sem Katrín nokkur. Sennilega hugnast femínistum framhlið umslagsins ekki sérstaklega, en þó hefur þetta nú sennilega átt að vera tilvísun í titilinn Í ræktinni en líkamsræktaræði helltist yfir landann á þessum tíma. Auglýsingastofan Örkin sá um hönnun á umslagi en útgefandi plötunnar voru KAN og Bjartsýni. Á baksíðu umslagsins fá svo Kristján Jónatansson og sólbaðsstofan Kolbrún sérstakar þakkir. Einnig er vert að geta þess að á þessari plötu var bryddað upp á skemmtilegri nýjung, en þunna umslagið utan um vínilinn sjálfan er þakið auglýsingum. Mun það ekki hafa verið gert fyrr að mér vitandi. Þar gefur að líta kunn fyrirtæki af norðanverðum Vestfjörðum á borð við Einar Guðfinsson hf, og einnig minna þekkt fyrirtæki eins og Sería sf, Eplið og Old party pizza.

Blogg: Mars 2011