Ekki gleyma góða skapinu

Mér finnst lágmarkskrafa á sjálfan mig að ég vakni á morgnana og sé í góðu skapi. Af hverju ætti ég ekki að vera það? Fullfrískur, hamingjusamur og svo gengdarlaust heppinn að dútl foreldra minna varð til þess að ég fæddist á þessu gullfallega landi, á þessari frábæru plánetu, í þessu magnaða sólkerfi, í þessari mergjuðu vetrarbraut, o.s.frv.

Ég er svo heppinn að efnasamböndin í gráu klessunni innan í hauskúpunni á mér gera þessar hugsanir mögulegar. En svo byrjar ballið. Að halda góða skapinu út daginn.

Maður neyðist til að stilla á fréttirnar. Annars gæti maður verið að missa af einhverju. Kannski er ísbjörn laus í Vesturbænum, hvað veit maður? Árum saman hafa manni verið sagðar fréttir sem virðast til þess eins fallnar að stjórna því hvort maður sé í góðu skapi eða ekki. Dofdjóns upp = Veiii! Nasdag niður = Búhú! Hagvöxturinn stendur í stað, gvöð minn almáttugur! Um þessar mundir tekur auðvitað steininn úr í skapsveiflufréttamennskunni. Maður er á fleka í tilfinningalegum öldudal. Það er svart fram undan, þetta verður erfitt, fólk verður að færa fórnir, þjóðin skuldar svo ógeðslega mikið. Eða: Þjóðin skuldar nú ekki svo mikið og það er ljós við enda ganganna.

Svo eru það fréttirnar af ríku körlunum sem komu þjóðinni á vonarvöl með svínslegri græðginni. Það þarf stálvilja til að missa ekki sjónar á góða skapinu og fyllast stjórnlausri heift þegar kreppt smettin á þeim birtast með nýjustu fréttunum af sukkinu, siðleysinu og mannfyrirlitningunni.

Jafnvel þó maður komist undan á flótta með góða skapið frá fréttunum er lífið sjálft fullt af hættum. Og þær eru lúmskar. Níu ára stelpur geta reynst örgustu hryðjuverkamenn. Til dæmis þessi sem fór að spyrja mig út í dóttur mína, tveggja ára, sem ég var með úti í búð. Eftir að hafa spurt hvað hún heiti og sé gömul og svoleiðis spurði hún mig hvort ég væri afi hennar eða pabbi.

Yfir mig helltust efasemdir um eigið ágæti. Maðurinn með ljáinn birtist glottandi framan í níu ára stelpunni, ég sá árin líða hjá og gröfina opnast með iðandi eftirvæntingarfullri ormakös. Svo tók gráa klessan völdin og lét mig hugsa: Hvað er þetta maður. Þú ert hundgamall. Sættu þig við það.