Michael Jackson

Klisjur eru klisjur af því þær eru sannar og ein sannasta klisjan er að allt sé best í hófi. Það er ágætt að eiga eitthvað af peningum og þurfa ekki að fá í magann um hver mánaðamót, en það er svo sem ágætt líka að fá í magann því þá finnur maður allavega fyrir því að maður sé lifandi. Eins lengi og gluggaumslögin koma inn um lúguna hefur maður tilgang í lífinu. Þannig að hófið liggur í því að fá í magann um sirka önnur hver mánaðamót.

Svakalegustu myndina af óhófi sá ég í þætti um Michael Jackson sem Martin Bashir gerði fyrir nokkrum árum. Þetta var átakanleg mynd af manni sem átti allt en samt ekki neitt. Hann lét henda öllum út úr milljónamæringaverslun í Las Vegas og gekk svo um og keypti sér drasl sem hvert um sig kostaði eins og það sem venjulegur launaþræll upp á Íslandi yrði ævina að vinna fyrir. Michael benti áhugalaus á draslið sem hann langaði í og svo hefur því eflaust verið skutlað á búgarðinn. Seinna sama dag var söngvarinn kominn upp á hótelherbergi, einn og vinalaus og leikandi sér að einhverju dóti. Þetta var sláandi dæmi af því hvar óhófið getur endað. Enn og aftur sönnuðust orð heimspekinganna frá Liverpool sem sungu "Þú getur ekki keypt þér ást". Og allt kemur fyrir ekki þótt Michael Jackson sé búinn að kaupa útgáfuréttinn af textanum.

Stundum finnst mér eins og Ísland sé að verða eins og Michael Jackson í dótabúðinni. Eins og ofdekraður krakki sem fær allt upp í lúkurnar og er löngu hætt að verða glatt yfir nokkrum sköpuðum hlut. Það var gleði þegar Jón Páll og fegurðardrottningarnar unnu sína titla á 9. áratugnum, en slíkir titlar vekja litla ánægju nú. Við erum orðin svo agalega heimsfræg. Það bylja á okkur fréttir af fulltrúum þjóðarinnar, góðu millunum, sem eru að kaupa sér hitt og þetta í dótabúðum heimsins, en okkur er jafn sama og þjónunum hans Michaels þegar hann fer í innkaupaleiðangur. Við ypptum bara öxlum. Okkur er sama. Við vitum að gluggaumslögin koma alveg jafn títt inn um lúguna hjá okkur. Okkur finnst miklu meira koma til sigra Magna í karókí.

Nú styttist í óhófsorgíuna miklu. Þegar mulningsvél heilaþvottarins er sett í gang er ágætt að vera andlega viðbúinn áreitinu með sögum foreldra sinna um jól fortíðar þar sem það þurfti bara nokkur rauð epli til að búa til hátíð. Besta vörnin er þó að hugsa um galtóm augun í Michael Jackson þar sem hann sat í miðri hrúgunni sinni: einn ríkasti maður í heimi og sá langsorglegasti.