Ógn og skelfing

Ímyndaðu þér meindýraeyði. Hann hefur ekkert að gera enda lítið um kvikindi sem hrella landsmenn. Mitt í hallærinu fær meindýraeyðirinn gullið tækifæri til að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum. Blaðamaður spyr hann um stöðuna og meindýraeyðirinn segir að það sé hræðileg staða, allt morandi í illskeyttum pöddum og algert brjálæði að bregðast ekki strax við vandanum með öflugum forvörnum. Sem hann útvegar á góðum kjörum.

Ógn og skelfing úti um allt alls staðar. Í þannig andrúmslofti er best að stjórna ístöðulausum almúganum. Gera hann hræddan og bjóða sjálfan sig fram til að bjarga því sem bjargað verður.

Ef ég hefði aldrei séð fréttatíma eða flett blaði myndi ég líklega líta björtum augum á framtíðina. Ég hefði enga ástæðu til að búast við því versta en þökk sé fréttatímunum veit ég að útlitið er kolsvart. Um miðja öld verður allur fiskur dauður og landið við það að sökkva í bráðnaðan Grænlandsjökul. Ef manngerðar náttúruhamfarir valda ekki heimsenda verður hann örugglega vegna heimskulegra trúarbragðastríða. Og ef svo ólíklega vill til að við sleppum við það munu stökkbreyttir berklar eða hræðileg fuglaflensa ná okkur löngu áður en viðbótarlífeyrissparnaðurinn kemur til útborgunar.

Alla mína æsku ólst ég upp við ógnina af brjálæðingum sem gátu fyrirvaralaust ýtt á takka og drepið hvert mannsbarn tíu sinnum. Kjarnorkuógnin reyndist svo bara grín þegar leiktjöld skelfingarinnar hrundu á nokkrum vikum. Sorglegast er að hugsa um alla orkuna og tímann sem fór í að viðhalda ógninni. Svona miðað við það ef sama orka og sami tími hefði verið notaður í uppbyggilegum og jákvæðum tilgangi fyrir mannkynið allt.

Ímyndaðu þér stjórnmálaflokk. Það er lítið að gera hjá honum og fáir sýna honum áhuga enda ástandið bullandi gott og atvinnuleysi hefur aldrei verið minna. Einn flokksmaðurinn fær gullið tækifæri til að láta ljós sitt skína í sjónvarpinu. Það er hræðilegt ástand að skapast, segir hann, útlendingar sem eru tilbúnir til að þræla allan sólarhringinn fyrir lúsarlaun flæða yfir landið og ýta innlendu vinnuafli, sem slæst um láglaunastörf, út í kuldann. Við verðum að bregðast við þessu hrikalega vandamáli strax. Og við munum redda þessu. Þú þarft bara að kjósa okkur í næstu kosningum.