Silfurskotturnar

Einu sinni voru þrjár silfurskottur í baðkari í Vesturbænum. Þetta voru skynsemdar skepnur sem stóðu löngum stundum í samræðum. Þær höfðu mjög misjafnar skoðanir á lífinu og tilverunni, ein var trúuð, ein trúlaus en sú þriðja var á báðum áttum.

Þetta líf er bara fyrsta skrefið í löngu ferli sem hefst ekki fyrir alvöru fyrr en þegar við deyjum og hittum guð á himnum, sagði trúaða skottan og mændi upp í svartnættið sem ríkti á baðinu, enda var nótt. Kjaftæði!, fullyrti trúlausa skottan og fussaði. Þú hefur ekkert fyrir þér í þessu og ég kaupi ekki neitt nema það sem hægt er að sanna með rökum vísindanna. Sú á báðu áttunum yppti silfruðu bakinu og vissi ekki í hvern af fjölmörgum fótum hún ætti að stíga.

Einu sinni hafði silfurskottu, sem nú var látin, tekist að skríða alla leið að baðherbergisdyrunum. Hún hafði staðið fyrst skotta á þröskuldinum og skimað út yfir undurfagran gang. Hann var upplýstur með loftljósum frá Ikea og eldgömul saumavél, sem nú hafði fengið nýtt hlutverk og var notuð sem borð, stóð við vegg. Víðförla silfurskottan hætti sér ekki lengra því hún heyrði ógnvekjandi þrusk og hraðaði sér heim í baðkarið. Þegar skottan kom til baka var henni fagnað sem hetju og sögur hennar af furðunum handan þröskuldsins voru notaðar sem undirstöður vísindakenninga um alheiminn.

Ég bara trúi því ekki að þetta hangs hérna í baðkarinu étandi húðflögur og drasl sé það eina sem bíður okkar, hélt sú trúaða áfram. Ég hef engar sannanir fyrir þessu nema fornar ristur í niðurfallinu, en það er nóg fyrir mig. Mér finnst þetta bara eitthvað svo tilgangslaust og lélegt annars. Og ef ég hefði ekki trúna á himnaríki er ég ansi hrædd um að ég myndi leggjast í þunglyndi eða jafnvel saurlifnað, því ef það er ekkert meira en þetta, hvers vegna ætti ég þá ekki að sleppa fram af mér beislinu?

Þú verður náttúrulega að leggja siðferðilegar mælistikur á lífið og getur það alveg þótt það sé ekki einhver ímynduð súpervera að passa upp á þig, sagði trúlausa skottan og færðist öll í aukana. Nú var sú sem var á báðum áttum farin að ókyrrast að lagði loks orð í belg: Er ekki bara best að hugsa um það sem máli skiptir og við vitum eitthvað um, til dæmis það að lifa lífinu lifandi og vera góðar við aðrar skottur?

Lengri voru samræðurnar ekki því ég átti leið inn á bað, kexruglaður af draumabulli og alveg í spreng, og var ekki lengi að skola déskotans silfurskottunum niður með sturtuhausnum.