Stríðið okkar

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gerðu okkur að þátttakendum að innrásinni í Írak. Það ömurlega rugl hófst 20. mars 2003. Nokkrum vikum síðar kaus þjóðin Davíð og Halldór yfir sig aftur í þakklætisskini. Enda leit stríðið efnilega út á þessum upphafsvikum. Ég man ekki betur en mannvinurinn hann Bush hafi staðið sigrihrósandi á einhverri freygátu umkringdur dátum með stóran borða fyrir aftan sig sem á stóð: ,,Verkefnið leyst”.

Davíð var líka brattur í október 2004 og sagði í stefnuræðu sinni: Þannig er að af 800 byggðarlögum í Írak er friður í 795 byggðarlögum. Það er mikill óróleiki í 4–5 byggðarlögum. Sú er breytingin sem hefur orðið frá því sem áður var að óttanum hefur verið bægt burtu úr þessum 795 byggðarlögum.

Eins og við munum var Davíð alltaf með grín.

Tuttugu og sjö mánuðum síðar hjakkast stríðið áfram þótt Saddam sé dauður og flestir vondu karlarnir í spilastokknum. Hjakk er kannski ekki rétta orðið því hersetan og geðveikin verður ógeðslegri með hverri vikunni. Það er hætt að þykja fréttnæmt þótt einhverjir 50 séu sprengdir á dag, og af þeim svona og svona mörg börn. Það þarf helst að sprengja fleiri en 300 til að það fái þokkalegt pláss í fréttatímunum. Og þær fréttir eru jafn hversdagslegar og veðurfréttirnar.

Ég get ekki annað séð en að þetta sé miklu ógeðslegra stríð en Víetnamstríðið. Við höfum séð í ófáum Víetnam-myndum hvaða áhrif það hafði, bæði á heimamenn og ameríska hermenn sem snéru heim bæklaðir á sál og líkama. Því verða væntanlegar Íraks-myndir án efa miklu dramatískari og ofbeldisfyllri og fá ófá Óskarsverðlaun á komandi árum.

Þrátt fyrir verðlaunaleikara og bestu hugsanlegu kvikmyndatækni mun engin þessara kvikmynda í alvöru geta lýst þeim þjáningum sem má sjá í andlitum fólks á fréttaljósmyndum. Myndir af venjulegu fólki, sem vildi helst ekki þurfa að hafa áhyggjur af öðru en næstu mánaðarmótum, sitjandi í blóðpolli með sundurtætta ástvini í örmunum, barnaskóli í rúst fyrir aftan og kolsvartur reykur á himninum.

Til hamingju Ísland að vera þátttakandi í þessu. Hvað sem hver segir þá erum við enn stuðningsmenn hörmungana. Hvernig væri nú að losna út úr þessu ógeði? Hætta að vera músin sem læðist? Þoturnar eru hvort eð er farnar.