Ríkukallatyggjó

Þegar ég var á barnsaldri fór allur vasapeningurinn í svokallað fótboltatyggjó. Þetta voru þunnar og stökkar tyggjóplötur sem brotnuðu í marga mola upp í manni. Tyggjóið sjálft skipti þó litlu heldur þrjú spjöld sem fylgdu hverjum pakka. Á hverju spjaldi var mynd af fótboltakarli úr ensku knattspyrnunni og aftan á spjaldinu voru upplýsingar um feril hans og afrek.

Það var sama hvað ég eyddi í tyggjóið, aldrei fann ég það sem ég leitaði að. Alltaf komu sömu karlarnir upp úr pökkunum, eintómir imbar úr Ipswich eða lúðar hjá Leicester. Að lokum gafst ég upp, en ég hefði snarlega selt bæði ömmu mína og afa fyrir Kevin Keegan.

Ekki hef ég hugmynd um hvernig staðan á krakkatyggjótískunni er í dag. Líklega er ekkert svona í gangi. Ég er því með dúndurhugmynd fyrir orkumikil athafnaskáld á nýja árinu: Ríkukallatyggjó.

Eins og allir vita er ekkert merkilegra í dag en að vera ríkur kall. Við heyrum af ævintýrum ríku kallanna í fréttum; að ríku kallarnir hjá Fons hafi keypt ráðandi hlut í Spons og nú heiti DD group það ekki lengur heldur Dragsúgur. Merkilegast af öllu er hvaða ríkur kall á hvað og hvað hann græddi mikið á fyrsta ársfjórðungi ársins.

En ríku kallarnir eru alltof mikið í móðu. Hverjir eru þeir, hvaðan koma þeir, hvert fara þeir? Hver er vinur hvers og hver á hvað? Með ríkukallatyggjóinu léttir móðunni. Á hverju spjaldi er mynd af brosandi vatnsgreiddum ríkum kalli í keppnisjakkafötunum sínum. Aftan á spjaldinu sést hvaða liði hann tilhreyrir. Er hann í Fons eða Dragsúgi? Afrek hans og eignir eru tíunduð. Hvenær græddi hann mest á einu bretti? Hvaða tegund af Hummer á hann, á hann einkaþotu? Hver er flippaðasta fjárfestingin í góðgerðarsamsæti? Á hann fjölmiðil? Kvóta? Er hann nýríkur eða kolkrabbi?

Með þessu læra börnin á auðveldan og skemmilegan hátt hvað er það eftirsóknarverðasta í lífinu. Þau geta byrja að halda með auðhringjum og fá almennilegar fyrirmyndir, mun betri en drykkfellda fótboltamenn sem eru orðnir gagnslaus skör um fertugt.

Þrjú ríkukallaspjöld koma saman í pakka. Og eins og í fótboltatyggjóbransanum verður erfiðast að fá Kevina Keegana fjármálageirans. Krakkarnir sitja uppi með allskonar minni fjárfesta og ekkert svo æðislega ríka kallar þar til þeir detta í lukkupottinn og fá Björgólf eða Jón Ásgeir.

Pökkunum fylgir auðvitað tyggjó. Það verður ógeðslega súrt.