Þegar þjóðir sturlast

Ég fór þangað sem höfuðstöðvar SS og Gestapo voru einu sinni í Berlín. Nú er þar útisýning á ljósmyndum og gögnum sem draga upp mynd af helförinni og allri ógeðsvitleysunni. Svæðið var jafnað við jörðu, en það má enn sjá glitta í einhverja kjallara. Það er sterk upplifun að koma þarna. Maður þykist enn finna fyrir illskunni og geðveikinni sem spratt fram á þessum slóðum. Ég hef oft séð myndir af líkhaugum frá útrýmingarbúðum og fólki sem dinglar í trjám í almenningsgörðum, en það hefur aldrei haft sömu áhrif og á þessum stað.

Það sem er kannski mest sjokkerandi við nasistana er að þeir voru af sömu dýrategund og ég og þú. Þarna innundir dólgslega töff leðurfrökkunum með hauskúpunum á bryddingunum voru bara karlgarmar með táneglur sem þurfti að klippa. Maður hefur vitað af þessum atburðum síðan maður man eftir sér og lengi vel var það hulið skilningi manns hvernig heil þjóð gat látið æsa sig upp í þessa sturlun sem stjórnartíð Adolfs Hitler var. Maður fattaði þetta ekki fyrr en eftir hrunið á Íslandi. Þá svona skildi maður að minnsta kosti aðeins betur hvernig heil þjóð gat látið teyma sig út í að lifa í blekkingu. Þetta segi ég þrátt fyrir að ég viti mætavel að það þykir ekki umræðu til tekna að draga nasistana inn í hana.

Því þótt upplagið sé svipað er náttúrlega stjarnfræðilegur stigsmunur á því hvernig sturlun þessara þjóða var. Það fer ekki um mann kalt vatn milli skinns og hörunds í höfuðstöðvum Arion banka. Í báðum tilfellum varð þó til einkennisklæddur úrvalshópur æðri mannvera. Hér mátti enginn segja styggðaryrði um Armani-klædd mikilmenni þegar þau fengu það sama fyrir að byrja í vinnunni og venjulegur lúði var ævina að skrapa saman fyrir. Ekki að maður væri tekinn í yfirheyrslu í stjórnarráðinu ef maður ræki upp kvak, heldur var litið á það þannig að maður væri bara svona helvíti öfundsjúkur hælbítur. Þú skilur þetta ekki. Slappaðu nú bara af, vertu með og keyptu þér eitthvað á myntkörfuláni.

Eftir hrunið tóku svokallaðar "rústakonur" til við að endurreisa sundursprengda Berlín. Hér tóku konur til við að prjóna. Vondu nasistarnir fengu langflestir makleg málagjöld. Fæstir sýndu iðrun í Nürnberg-réttarhöldunum, sem hófust tæplega tveimur mánuðum eftir að stríðinu lauk. Hér er dálítið á huldu hverjir eru vondu karlarnir - ef það eru þá einhverjir vondu karlarnir. Það er enn verið að bíða eftir skýrslunni.