Ó nei! Ég er fáviti!

Óþægileg sannindi hafa verið að læðast aftan að mér upp á síðkastið. Svo virðist nefnilega vera að ég sé fáviti. Allir sem ég þekki eru fávitar því allir Íslendingar eru fávitar og fáráðlingar, illa innrætt pakk, sofandi tækifærissinnar og svo framvegis. Þetta er allavega það sem merkir menn hafa verið að tyggja hver upp eftir öðrum síðustu vikurnar. Ástæðan fyrir klandri þjóðarinnar er fundin: Fávitaskapur.

Og svo virðist sem við höfum alltaf verið fávitar. Ein kenningin er sú að Íslendingar séu komnir af alræmdu skítapakki - einhvers konar fornaldar hvíthyski - sem var rekið frá Rómaveldi á sínum tíma vegna almennra ömurlegheita. Skítapakkið, forfeður okkar, kom sér fyrir í Noregi, en þar entist dvölin ekki lengi því skítapakkið átti ekki samleið með hinum frómu Norðmönnum. Því flúði það hingað, útrýmdi pöpum og fór svo að lifa lífinu í fullkomnum fávitaskap og ömurlegheitum. Og sjáðu bara hvert það hefur komið okkur í dag!

Margir eru sem sé ekki beinlínis að drepast úr jákvæðni þessa dagana. Það gengur mórölsk drepsótt sem lýsir sér í því að menn rjúka upp í bölmóði án minnsta tilefnis. Sjálfur rembist ég í fávitaskap mínum við að halda jákvæðum dampi í kolsvörtu skammdeginu og les Geðorðin 10 oft á dag, sérstaklega það fyrsta: Hugsaðu jákvætt, það er léttara. Þó er ég farinn að syngja stef úr eldgömlu Megasar-lagi full oft: "Við minnumst Ingólfs Arnarsonar í veislum, en óskum þess að skipið hans það hefði sokkið." Því væri nú ekki betra ef við værum bara í Noregi enn þá? Spikfeit af olíugróða, gónandi á skotfimi á skíðum í sjónvarpinu. Eða hefðum haft vit á því að vera áfram hluti af Danmörku. Ligeglad í smekkbuxum og ættum fyrir kaffibolla á Strikinu.

Ástand þjóðarbúsins hlýtur bara að gefa til kynna víðtækan fávitaskap. Hvað annað útskýrir að jafn auðlindaauðug örþjóð gat fokkað sínum málum jafn rækilega upp? Og síðustu atburðir gefa ekki annað til kynna en að uppfokkunin muni halda áfram út í hið óendanlega. Hjálp! Þegar ég er ekki búinn að lesa Geðorðin lengi og ekki heldur búinn að fara til fjalla, fer ég jafnvel að vona að ósvífnustu erlendu hótanirnar rætist. Að vopnuð innrás forði okkur frá því að tortíma okkur sjálfum úr fávitaskap.

En ég neita auðvitað alfarið að viðkenna að ég sjálfur sé fáviti. Og enginn sem ég þekki er það heldur. Það hljóta því að vera allir hinir sem eru fávitar. Heyrirðu það, fávitinn þinn!?