Kóka kóla

Ég höfðum beðið heillengi eftir jólalest Kóka kóla á Laugarveginum á laugardaginn. Strákurinn hefur gaman að þessu, hugsaði ég, enda bílaóður. Þegar við vorum orðin viss um að ekkert myndi gerast, sáum við loksins trukkalest nálgast, Helga Möller á útopnu á teipi. Sjáðu! Kóka kóla lestin!, sagði ég og benti á fimm skreytta kóktrukka. Ökumenn með jólasveinahúfur vinkuðu. Hjálparsveit skáta var með í för og hljóp með lestinni en löggan fór fremst í flokki.

Skyndilega snarhemlaði lestin. Nei, hver andskotinn er þetta!?, hrópaði einn skátinn æstur og tók á rás. Fyrir framan Hljómalind höfðu nokkrir stórhættulegir hryðjuverkaunglingar tekið sér stöðu út á miðri götu. Nú hindruðu þeir ferð kóklestarinnar, sungu “Nei nei ekkert kók um jólin” og veifuðu KÓK ER VONT skiltum.

Líklega hefur þeim liðið mjög svipað og maðurinn sem stóð fyrir framan skriðdrekana á torgi hins himneska friðar.

Ekki tók langan tíma að losna við kókmótmælendurna og lestin hélt sína leið út í jólaösina. Einn mótmælajólasveinn var þó eftir og kom hlaupandi og afhenti bleðil sem skýrði frá hræðilegum glæpum Kóka kóla gegn mannkyninu. Helst gegn verkamönnum á Indlandi og í Kólumbíu.

Svona er þetta. Það er alltaf eitthvað hræðilegt óréttlæti á bakvið allt. Lífinu á Vesturlöndum er lifað innan í leiktjöldum sem vernda okkur fyrir táradal heimsþorpsins. Ef maður væri heilsteyptur og hugsandi ætti maður náttúrlega alltaf að vera með nagandi samviskubit. Glætan að maður kæmist einhvern tíman í jólaskap.

Dótið í pökkunum: allt framleitt af þrælpíndum íbúum þriðja heimsins; Jólaljósin: náttúrunni misþyrmt til að skaffa rafmagn; Samheldni þinnar fjölskyldu: margar fjölskyldur sem hafaða hræðilega skítt; gleðin hjá þínu barni: mörg börn sem hafaða hræðilega skítt; bækur og plötur: aumingja listamennirnir á lúsarlaunum frá ríkinu, sársvangir í kjallaraholum stritandi við að koma þessu út; Maturinn á borðinu: myrt dýr. Sé grant hlustað má enn heyra kvalaópin.

Það eru í raun bara tvær leiðir færar til að takast á við samviskubitið. Gerast ótrúlega góður. Hanga með krökkunum í Hljómalind, hætta að borða annað en lífrænt og bara kaupa föt sem eru vottuð frá Fair Trade, áframsenda alla tölvupósta um undirskriftasafnanir, borga gíróseðlana frá öllum líknarsamtökunum sem nota il jólanna og eru búin að senda þér reikning. Vera alltaf vakandi fyrir óréttlætinu og tilbúinn að bregðast við.

Annað hvort þetta, eða bara yppa öxlum og fá sér svalandi sopa af ísköldu Kóka kóla. Mmm…