Slím

Íslenska þjóðin er svo ung og vitlaus (les: iðandi af frumherjakrafti) að hún er enn þá að spá í það hvað hún eigi að gera þegar hún verður stór. Fyrst það klikkaði að klæða sig í grátt og millifæra yfirdrátt fyrir brjálæðinga, eða drita niður húsum sem enginn vill búa í, klóra sér nú margir í hausnum og reyna að láta sér detta eitthvað í hug sem gæti komið okkur upp af botninum. Það geta ekki alveg allir verið í fiski, ferðamennsku eða áli, því þrennu sem mest vit reyndist í - það sáu allir þegar ryk ruglsins hafði sest. Nú reynir á sköpunarkraft og hugmyndaauðgi, svo ég noti klisjurnar. Gamla gátan um að finna eitthvað upp sem enginn getur verið án er í fullu gildi.

Þróun tölvunnar er náttúrlega skýrasta dæmið um framsækna hugmyndaauðgi, enda er Bill Gates ríkasti maður í heimi. Ég hefði betur hlegið minna að nördunum 1982 sem hengu yfir grænum skjáum og vistuðu skjöl á kassettur. Ekki hefði mig grunað að tuttugu árum síðar hengi ég sjálfur meirihluta dagsins yfir tölvuskjá og yrði andlega fatlaður ef tölvan bilaði.

Ég veit ekki hvaða snillingi datt í hug að láta búa til grænt slím og selja krökkum í grænni plast-öskutunnu, en hann er líklega ekki alveg eins ríkur og Bill Gates. Ég hefði viljað vera á fundinum þegar hann kynnti hugmyndina. Slím! Var enginn með efasemdir? Sáu bara allir strax að slímið er hin fullkomna uppfinning, algjörlega tilgangslaust drasl sem enginn krakki getur verið án?

Sem barn linnti ég ekki látum fyrr en ég hafði eignast mitt eigið slím. Ég man enn eftir lyktinni og þeirri unaðstilfinningu sem læddist um mig þegar slepjulegt slímið flæddi á milli fingra minna. Lufsan er með álíka sögu nema í hennar var alltaf vörutalning í Liverpool þegar hún kom í bæinn frá Ísafirði (sem var slímlaus bær). Hún eignaðist því aldrei slím og grætur það enn. Ég sýndi syni mínum slím í búð um daginn og hann hefur suðað í mér síðan. Slím. Bara orðið er ómótstæðilegt.

Sigurganga slímsins segir manni að hugmyndin getur verið algjörlega fráleit en samt gengið upp. Það er samt ekkert víst að hún geri það. Sjáðu bara Decode.