Mikki refur

Ég fór aldrei í leikhús sem barn. Ég gerði bara eitthvað annað skemmtilegt með foreldrum mínum í staðinn. Við fórum til dæmis stundum í bíltúr og skoðuðum nýbyggingar. Kannski var stoppað fyrir framan hús á Álftanesi og pabbi minn, húsasmiðurinn, fór háðulegum orðum um gluggalausan futur-kumbaldann. Svo flissuðu allir yfir því hvað fólk væri vitlaust að byggja svona bjánaleg hús.

Vegna þessa leikhúsleysis missti ég alveg af leikritum Thorbjörns Egners. Ég stóð á gati þegar krakkar voru að tala um þessi verk. Þau voru ekki einu sinni til á plötum heima hjá mér. Það var því ekki fyrr en nýlega, þegar ég hafði eignast mín eigin börn, að heimur norska meistarans fór að ljúkast upp fyrir mér.

Nú er komið að því að ég tengi innihald Bakþankans við Hrunið, enda gengur illa að slíta sig frá þeim fjanda. Helstu verk Egners eru auðvitað dæmisögur fyrir það sem er að gerast og mun gerast í kjölfar Hrunsins. Karíus og Baktus (hinir seku) hugsuðu bara um eigið rassgat á kostnað Jens (íslensku þjóðarinnar). Loks fer Jens að bursta sig (Búsáhaldabyltingin) og sníkjudýrin verða skilin eftir úti á rúmsjó (Tortola).

Í verkum Egners eru vondu karlarnir ekki vondir af ásetningi heldur eru þeir bara svona vitlausir. Vondu karlar Hrunsins eru það sjálfsagt líka auk þess að hafa orðið ótrúlega gráðugir þegar þeir sáu hvað þeir gátu skrifað háa gúmmítékka. Í Kardimommubæ fá þjófarnir uppreisn æru með því að slökkva eldinn í turni Tóbíasar. Nú er bara að sjá hvaða elda Kasper, Jasper og Jónatan íslenska Hrunsins munu slökkva, ef þá nokkra.

Mestri dýpt nær Egner í Dýrunum í Hálsaskógi. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Þetta er frábær niðurstaða sem ætti auðvitað að fást í mannheimum líka. Löng og ströng fundahöld þarf til að niðurstaðan liggi fyrir og erfiðast er að sannfæra Mikka ref. Á fundinum er Mikki viss um eigið sakleysi og fullyrðir að það hafi í raun verið Marteinn skógarmús sem læddist á eftir honum og reyndi að éta hann - ekki öfugt. Þetta er alveg það sama og Mikkar refir Hrunsins halda fram, bæði í blaðagreinum og þegar þeir mæta á útifundi.