Ísland fyrir mannát

Ég tók mér frí frá að fylgjast með máttlausri rústabjörguninni og spilaði Trivial Pursuit, bæði fyrstu og '95 árgerðina. Þá rifjaðist aðeins upp fyrir mér Gamla Ísland, það land sem ég ólst upp í. Það var áður en siðferðislegt mannát varð viðurkennd hegðun útvalinna.

Gamla góða saklausa sker. Þetta voru einfaldir tímar en fólk fékk samt reglulega eitthvað til að æsa sig yfir og fylgjast með af spenntri innlifun. Flippuð uppátæki listamanna gátu enn þá gert fólk brjálað í skapinu. Nú er öllum drullusama hvað sem flipparar hamast á ríkisstyrktri sundskýlunni. Það brást ekki að nýárskvöldssjónvarpsleikritið fengi smáborgarana til að rífa hár sitt. Það fjallaði yfirleitt um kynóða geðveika konu sem Guðrún Gísladóttir lék. Hrafn Gunnlaugsson leikstýrði og hann var meistari vandlætingarbylgjunnar. Enda vinur Davíðs. Þjóðfélagið logaði auðvitað stafnanna á milli þegar hann áratug síðar reyndi að hrófla við köngulóarvefjunum á RÚV. Ég man að Hrafn var mikið ræddur þegar ég ferðaðist í rútu með hljómsveitinni Ham frá Húsavík. Sigurjón Kjartansson tók sér einn stöðu með Hrafni - hann hlýtur að vera æðislegur fyrst allir hata hann, voru hans rök - og það þrátt fyrir að Hrafn hafði bannað sögufrægt myndband við Ham-lagið Trúboðasleikjarinn.

Skáldsögur skiptu einhverju máli á Gamla landinu. Eldhúsmellur gerði alla brjálaða, hin heilaga húsmóðir þótti eiga betra skilið. Meira að segja kórastarf í kirkju nægði til að þjóðin færi á límingunum. Vikum saman veltist fólk með í erjum séra Flóka og Jóns kórstjóra, smjattandi á safaríkum smáatriðum. Fjárglæframenn voru lítilsháttar miðað við mannætur nútímans. Aðallega mátti finna þessa vafasömu gauka á skemmtistöðum þar sem þeir skiptu ótt og títt um kennitölur, opnuðu stað með nýju nafni í gamla lókalinu og létu ballskuldir frá Grýlunum gufa upp.

Það tekur á fyrir meðalmanninn að vera brjálaður yfir atburðum líðandi stundar jafnlengi í einu og maður hefur þurft að vera síðan í haust. Ég reyni stundum að taka mér frí en laðast jafnharðan að fréttatímum og bloggi eins og fluga að lampa, alltaf að vonast eftir frétt um að réttlætinu hafi verið fullnægt. Eða bara einhverri smáglætu, einhverju uppbyggilegu. Mikið hlakka ég til þegar þjóðfélagið verður orðið svo heilbrigt aftur að tittlingaskítur nægi til að ég brjálist.