Best í ruslflokknum

Ef tilveran væri amerísk háskólamynd og þjóðir heims nemendur skólans hefði Ísland verið montna vitlausa klappstýran síðustu árin. Eðli málsins samkvæmt fékk klappstýran fötu með úldnum fiskhausum yfir sig á skólaballinu í lok myndarinnar. Öllum í bíóinu fannst hún eiga það skilið. Þetta er það sem er kallað ljóðrænt réttlæti. Okkar úldna fiskhausafata er hrunið með meðfylgjandi fnyk og sú skömm að fara kannski í ruslflokkinn með Kasakstan. Við og Borat verðum eitt.

Eins og hjá klappstýrunni komu heimskan og montið okkur í þessa aumkunarverðu aðstöðu. Við héldum að við værum miklu merkilegri en við erum. Flottræfilslegir fulltrúar okkar fóru rígmontnir um heiminn og stráðu um sig gúmmítékkum. Alveg eins og ljóskur á kreditkortafylliríi, útúrkókaðir lífstílshnakkar með ótakmarkaða úttektarheimild í Saltfélaginu.

Stemmningin var alls staðar eins. Þótt við skíttöpuðum unnum við samt. Útbelgd af minnimáttarkennd eins og þeir sem leggja aðra í einelti komust innantómir frasar eins og stórasta land í heimi og silfur er gulli betra í umferð. Þeir sem reyndu að vara við ruglinu voru hengdir upp á nærbrókinni.
 
Ég man að ég spurði sjálfan mig reglulega: Hvaðan koma allir þessir peningar? Er ekki fiskur og fallvötn það eina sem við eigum til að selja? Alveg sama hvað ég reyndi að stauta mig fram úr fréttum um grilljóna gróða á fyrsta ársfjórðungi skildi ég aldrei hvaðan allur peningurinn kom. Er hægt að búa til peninga úr engu? Er ég algjör bjáni að skilja þetta ekki? Nú hef ég lært að það sem ég skil ekki, er ekki alvöru. Það er bara einhver della.

Við vorum ekki alltaf montnar klappstýrur. Eins sinni vorum við meira að segja skáknördinn í skólanum. Þegar ýldufýlan verður komin úr fötunum er ekki um annað að ræða en að læra af mistökunum og reyna að vera almennilegur. Skilja að það koma engar kartöflur upp nema maður setji þær niður fyrst. Ótrúlegt hvað einföldustu staðreyndir geta vafist fyrir fólki þegar það er með hauspoka.

Við skulum auðvitað vona að í framhaldsmyndinni verði klappstýran ný og betri manneskja. Fín byrjun hjá okkur er að fara ekki strax að monta okkur af því að við séum nú pottþétt „best í ruslflokknum“ þegar við lendum þar.