Hver nennir eiginlega að droppa sýru? (24.09.04)

Það er ekki nóg með að vér mannapar séum upp á eigin spýtur að ganga frá jörðinni með sóðaskap og trúarlegri morðhörku, heldur erum við líka eina dýrategundin sem er æst í að breyta skynjun okkar með áfengi og dópi. Sumir vilja reyndar halda því fram að aðrar dýrategundir séu jafn æstar og við í að brengla á sér hausnum, en þangað til einhver getur bent mér á kindur að eima spíra kaupi ég ekki slíka þvælu.

Drasl fyrir vesalinga
En til hvers viljum við breyta skynjuninni og líða öðruvísi en við eigum að venjast; verða eitthvað annað en við erum? Bendir það ekki til þess að okkur þykir við alveg ömurleg eins og við erum alsgáð? Er því drykkja nokkuð annað en skortur á sjálfsöryggi, einskonar sjálfsprottinn aumingjaskapur og sjálfsvorkun á háu stigi?  Drasl fyrir vesalinga, segi ég og þú getur kannski minnt mig á það næst þegar þú sérð mig slagandi niðrí 101 með algleymisglott á vör.
Áfengið gerir okkur ægilega hress. Við förum á trúnó, móðgum kannski einhvern, gerum skandal, sýnum á okkur brjóstin og förum í sleik. Við berjum hvort annað og nauðgum en svo þynnumst við upp og verðum þunn fram á mánudag, ef ekki lengur.
Í kvöld munu fleiri þúsund íslendingar með brotna sjálfsmynd ekki vera þeir sjálfir heldur kjósa að vera hið fulla eða dópaða vesalingasjálf. Mörg hundruð manns munu ekki vita hvað þeir heita og fleiri tugir munu gera eitthvað hræðilegt sem þeir sjá eftir, kannski allt sitt líf.
Ríkið selur bensínið á tank ræfildómsins og notar gróðann til að hjálpa þeim ógæfusömustu með rándýrum meðferðum. Algjör þvæla auðvitað, eins og að grafa skurð til að fylla upp í skurð sem við vorum nýbúin að grafa.

Á sýru í Eyjum
Ríkið gæti alveg eins selt allt hitt dópið líka, fyrst það er að þessu á annað borð, en um það hefur náðst “almenn sátt í samfélaginu” að leyfa bara áfengi og refsa þeim grimmilega sem veita Ríkinu samkeppni í heilasteikingum.
Hass lætur mann hlæja að slöppu gríni, kókaín lætur mann líða eins og  James Spader í The Practice, E gerir leiðinlega tónlist skemmtilega og spítt lætur mann upplifa það sem Valli og Víkingarnir sungu um í laginu Úti alla nóttina. Allt saman ægilega spennandi stöff, eða hitt þó heldur. Það er þó alveg skiljanlegt afhverju grey með brotna sjálfsmynd skuli sækja í þetta.
Eitt dóp skil ég þó hreinlega ekki. Það er LSDið eða sýran, sem Dr. Albert Hoffann fann upp fyrir tilviljun 1938. CIA reyndi að nota dópið sem sannleikalyf í yfirheyrslum og reynt var að lækna geðklofasjúklinga með efninu, en svo komust hipparnir á bragðið (reyndar er hvorki lykt né bragð af þessu) og nú getum við séð árangurinn á geðveikrahælum og kirkjugörðum víðsvegar.
Maður hefði því heldið að komin væri slæm reynsla á efnið og þar fyrir utan skil ég ekki hvað er svona eftirsóknarvert við að liggja einhversstaðar í móki og sjá eintómar ofskynjanir og rugl eins og maður sé með háan sótthita. Hvað er eftirsóknarvert við að vera fárveikur? Hver nennir eiginlega að droppa sýru?
Greinilega einhver gaur í Vestmannaeyjum, sem reyndi að smygla hellingi af þessu til landsins í síðustu viku, en nú sér ekki fyrir endan á málinu og talað er um eitt stærsta dópmál sögunnar. Spurningunni “Hvað á maður eiginlega að gera á sýru í Vestmannaeyjum?” er þó enn ósvarað. Elta pysjur út úr speisaður og allsber? Spranga gólandi og halda að maður sé konungur lundanna? Hanga nojaður í Eldfelli og halda að annað eldgos sé að byrja? Kannski er leiðinlegt að búa í Eyjum, en fjandinn hafiða að maður nennti að vera á sýru til að þola það betur. Eða ætlar Ríkið kannski að byrja að selja LSD til varnar landsflóttanum? Það væri ekki vitlausara en margt annað.