Tvíhyggja

Undanfarnar aldir hafa tvenns konar hugmyndir um manninn tekist á: tvíhyggja og efnishyggja. Báðar hugmyndirnar hafa tekið á sig ýmsar myndir en flestir sem kalla sig efnishyggjumenn eru sammála um að neita því að mannshugurinn sé aðgreindur frá líkamanum og hafinn yfir lögmál efnisheimsins. Tvíhyggja gerir hins vegar ráð fyrir því að líkami og sál séu tvennt ólíkt. Talsmenn tvíhyggju hafa sett hugmyndir sínar fram með ýmsu móti. Sem dæmi um tvíhyggjukenningar má nefna:
a) Það er mögulegt að hugurinn haldi áfram að vera til þótt líkaminn hætti að vera til;

b) Raunvísindin geta gert grein fyrir allri starfsemi líkamans en þau geta ekki gert grein fyrir hugarstarfi eða sálarlífi fólks;

c) Hugurinn er ekki háður náttúrulögmálum efnisheimsins.

     Tvíhyggja hefur verið til síðan í fornöld. Elstu heimspekileg rök fyrir henni sem ég veit um eru í ritum Platóns. Hann var uppi í Aþenu á árunum frá því um 427 til um 347 f. Kr. En löngu fyrir daga Platóns gerðu menn sér hugmyndir um að sálin lifði af líkamsdauðann og slík trú hlýtur að fela í sér einhvers konar tvíhyggju.
     Langfrægasti talsmaður tvíhyggju á seinni öldum er Frakkinn René Descartes (1596 - 1650) og er ekki ofmælt að kenningar hans um samband sálar og líkama hafi verið ríkjandi meðal evrópskra heimspekinga í meira en 300 ár, eða fram undir miðja þessa öld.
     Í upphafi fjórða kafla bókar sinnar Orðræðu um aðferð1 reynir Descartes að hrekja efahyggju og sýna fram á að kostur sé á öruggri þekkingu. Hann byrjar á að gefa töluvert eftir og lætur sem hann fallist að nokkru á sjónarmið efahyggjumanna.
Að endingu varð mér ljóst, að allar hugsanir manna í vöku kunna einnig að hvarfla að þeim í svefni, án þess að nokkur þeirra sé þá sönn, og afréð ég því að gera ráð fyrir, að allt það, sem mér hafði komið í hug, væri ekki sannara en tálmyndir drauma minna.
Descartes gengur ekki lengra til móts við efahyggjuna því þegar hingað er komið finnur hann sannindi sem eru hafin yfir allan vafa.
En þó að ég vildi nú hugsa sem svo, að allt væri rangt, rann þegar í stað upp fyrir mér, að ég, sem hugsaði, hlyti að vera eitthvað. Og mér varð ljóst, að þessi sannindi ég hugsa, þess vegna er ég til voru svo traust og örugg, að hóflausustu tilgátur efasemdamannanna fengju ekki um þau þokað, og hugðist ég því með góðri samvizku geta valið mér þau að frumreglu þeirrar heimspeki, sem ég leitaði eftir.
Á þessari frumreglu reynir Descartes svo að grundvalla örugga þekkingu bæði á sjálfum sér og heiminum. Hann byrjar á að leiða það út að sálin sé að fullu aðgreind frá líkamanum.
Ég hugleiddi af gaumgæfni, hvað ég var, og sá þá, að ég gat látið sem ég hefði engan líkama og sem ekki væri til neinn heimur né neinn staður minn í þessum heimi, en ég gæti ekki þar fyrir látið, sem ég væri ekki til. Og ég sá, að einmitt af þeirri staðreynd, að mér kom til hugar að efast um sannleiksgildi annarra hluta, leiddi alveg þvert á móti augljóslega og örugglega, að ég var til. En hefði ég hins vegar einungis hætt að hugsa, þó að allt annað, sem ég hafði nokkru sinni ímyndað mér, hefði verið satt, hefði ég enga ástæðu til að trúa því, að ég hefði verið til. Af þessu varð mér vel ljóst, að ég var veruleiki og að allt eðli eða náttúra þessa veruleika var að hugsa og að þessi veruleiki var staðlaus í rúminu. Og hann er ekki heldur háður neinu efni, svo að ég sjálfur, það er að segja sálin, sem gerir mig að því sem ég er, er að fullu aðgreind frá líkamanum og hún er jafnvel auðþekktari en líkaminn og héldi öllu sínu, þó að hann væri ekki til.
Það er ljóst að meginforsenda Descartes í þessum rökum fyrir tvíhyggju er "ég gat látið sem ég hefði engan líkama" og niðurstaða hans er "sálin, sem gerir mig að því sem ég er, er að fullu aðgreind frá líkamanum /.../ og héldi öllu sínu, þó að hann væri ekki til." Hins vegar er ekki eins ljóst hvort þessi rök eru gild, hvort niðurstaðan er í raun og veru afleiðing af forsendunni.
     Ég held að það sé auðveldara að meta rökfærslu Descartes ef við byrjum á að umorða forsendu þeirra og niðurstöðu:

Forsenda:     Ég get hugsað mér að ég sé til þótt líkami minn sé ekki til.

Niðurstaða:     Það er mögulegt að ég sé til þótt líkami minn sé ekki til.

Forsendan virðist sennileg.2  Það má að minnsta kosti hugsa sér þann möguleika að ég haldi áfram að vera til þótt líkami minn hætti að vera til. Mér virðist enn fremur ljóst að niðurstaðan jafngildi tvíhyggju af þeirri gerð sem nefnd var í a lið hér að framan og sé hún sönn þá hljóti sálin, hugurinn eða maðurinn sjálfur að vera með einhverjum hætti aðgreindur frá líkama sínum.
     Það dugar Descartes skammt þótt viðurkennt sé að forsendan sé sönn og að niðurstaðan jafngildi tvíhyggju því forsendan gefur okkur ekkert tilefni til að fallast á tvíhyggju nema sýnt sé að niðurstaðan sé rökleg afleiðing af henni.
     Texti Descartes skýrir ekki með fullnægjandi hætti hvernig niðurstaðan er leidd af forsendunni. Þetta er, að ég held, vegna þess að hann gekk að annarri forsendu vísri og taldi hana of augljósa til að ástæða væri til að hafa orð á henni. Þessi forsenda leynist víða í rökfærslum heimspekinga á frá 17. öld. Það má orða hana svona:

2. forsenda:     Allt sem er hugsanlegt er mögulegt.

     Sé þessari forsendu bætt við verður rökfærslan svona:

1. forsenda:     Ég get hugsað mér að ég sé til þótt líkami minn sé ekki til.

2. forsenda:     Allt sem er hugsanlegt er mögulegt.

Niðurstaða:     Það er mögulegt að ég sé til þótt líkami minn sé ekki til.

Þetta er augljóslega gild rökfærsla: niðurstaðan er röklega afleiðing af forsendunum tveim. En þá vaknar spurning um hvort þessi seinni forsenda sé sönn því til að mark sé takandi á niðurstöðu rökfærslu þarf hvort tveggja að vera að hún sé gild og að allar forsendurnar séu sannar.
     Nú get ég ósköp vel hugsað mér að sólin komi upp í vestri og setjist í austri einn daginn. Leiðir af þessu og 2. forsendu að það sé mögulegt að sólin taki upp á þessum ósköpum? Svarið er bæði já og nei því orðið "mögulegt" hefur nokkrar mismunandi merkingar. Stundum er það notað til þess eins að tjá vanþekkingu, eins og til dæmis ef ég segi: "Ég á gamlan happdrættismiða og ég hika við að henda honum vegna þess að það er mögulegt að ég hafi unnið." Með þessu meina ég það eitt að vitneskja mín útilokar ekki að ég hafi unnið. Þetta er ekki sá skilningur sem hér er til umræðu enda er Descartes augljóslega ekki að rökstyðja þá niðurstöðu að vitneskja manna sé of takmörkuð til að útiloka að sálin geti verið til án líkamans.
     Annar skilningur orðsins "mögulegt" kemur fyrir í samböndum eins og "það er mögulegt að veikin smitist með blóðgjöf." eða "það er mögulegt að láta bíla ganga fyrir vínanda." Hér er verið að tala um að þetta eða hitt sé mögulegt í þeim skilningi að það stangist ekki á við nein náttúrulögmál. En sé þessi skilningur lagður í orðið er forsendan augljóslega ósönn, því það er hægt að hugsa sér ýmislegt sem stangast á við lögmál náttúrunnar, eins og til dæmis að sólin komi upp í austri í dag og í vestri á morgun.
     Þriðji skilningur orðsins, og sá sem notaður er í umræddri forsendu, kemur fyrir þegar sagt er eitthvað á borð við "gegnum tvo punkta er aðeins mögulegt að draga eina beina línu." Hér er verið að tala um röklegan eða frumspekilegan möguleika: það sem ekki stríðir gegn reglum rökfræðinnar. Í þessum skilningi er mögulegt að sólin komi upp í vestri því engin mótsögn er í því fólgin að gera ráð fyrir slíku. Hins vegar er ekki mögulegt að til séu giftir piparsveinar eða kringlóttir ferningar.
     Til að meta hversu sennileg þessi seinni forsenda Descartes er dugar okkur ekki að grafast bara fyrir um skilning orðsins "mögulegt". Við verðum líka að átta okkur á hvað í því felst að segja að eitthvað sé hugsanlegt eða hægt sé að hugsa sér það. Ef "að hugsa sér eitthvað" þýðir að sýna fram á með óyggjandi rökum að það sé mögulegt þá er þessi seinni forsenda augljóslega sönn. En þá er hins vegar góð ástæða til að efast um fyrri forsenduna. Þýði orðasambandið "að hugsa sér" það sama og "að halda eða trúa" þá er fyrri forsendan áreiðanlega sönn en sú seinni öllu hæpnari því hægt er að trúa ýmsu sem er röklega ómögulegt. Sem dæmi má taka að eigi ég bilaða reiknivél sem gefur mér svarið 99556 þegar ég bið hana að margfalda saman 156 og 651 þá er ég vís til að trúa því að 156 sinnum 651 sé 99556 þótt slíkt sé röklega ómögulegt.
     Sá skilningur sem Descartes styðst við þegar hann talar um að hugsa sér eitthvað eða láta sem eitthvað sé satt er á þá leið að þetta þýði að gera sér skýra og glögga grein fyrir því. Það má að vísu efast um að báðar forsendurnar séu sannar ef þessi skilningur er lagður í orðin. Við skulum samt láta það óátalið þótt Descartes gefi sér að allt sem er hugsanlegt sé röklega mögulegt.
     Gerum ráð fyrir að hægt sé að ljá orðunum einhverja þá merkingu sem gerir báðar forsendurnar sannar. Leiðir af þessu að við verðum að fallast á tvíhyggju? Rökfærslan er gild svo ef við segjum að forsendur hennar séu sannar þá verðum við að fallast á að niðurstaðan sé það líka. En við skulum samt ekki hrapa að því að álíta þetta rök fyrir framhaldslífi eða sönnun á að sálin sé með einhverjum hætti yfirnáttúruleg. Af forsendum Descartes leiðir aðeins að það sé röklega mögulegt að maður sé til þótt líkami hans sé það ekki. Þetta er afar lítilþæg kenning eins og sjá má af eftirfarandi hliðstæðu við rökfærslu Descartes.

1. forsenda:  Ég get hugsað mér að Fjölbrautaskóli Vesturlands sé til þótt byggingarnar á skólalóðinni séu ekki til.

2. forsenda:  Allt sem er hugsanlegt er mögulegt.

Niðurstaða:   Það er mögulegt að Fjölbrautaskóli Vesturlands sé til þótt byggingarnar á skólalóðinni séu ekki til.

Hér hefur Fjölbrautaskóli Vesturlands komið í staðinn fyrir mig og byggingarnar sem hýsa hann í staðinn fyrir líkama minn. Rökfærslan er enn jafn gild. 1. forsendan er sönn og raunar miklu öruggari heldur en fyrsta forsendan í rökfærslu Descartes. Ég get til dæmis vel gert mér skýra og glögga grein fyrir þeim möguleika að húsin á skólalóðinni séu jöfnuð við jörðu en skólinn haldi áfram að starfa í öðru húsnæði.
     Niðurstaða þessarar rökfærslu felur í sér að Fjölbrautaskóli Vesturlands og húsin á skólalóðinni séu ekki eitt og hið sama heldur tvennt ólíkt, alveg eins og niðurstaða Descartes felur í sér að líkami og sál séu tvennt ólíkt. En það er alls ekki þar með sagt að Fjölbrautaskóli Vesturlands geti verið til án nokkurra bygginga eða að hann sé á neinn hátt yfirnáttúrulegt fyrirbæri. Sannleikurinn er sá að skólinn er stofnun sem starfar innan veggja þessara tilteknu húsa og það er röklega mögulegt að hann haldi áfram að vera til sem sama stofnun þótt hann flytji í önnur hús.
     Hver sem endanlegur sannleikur um samband líkama og sálar kann að vera þá getur vel farið saman að fallast á þau rök sem ég hef hér eignað Descartes og álíta að sálin eða hugurinn tengist líkamanum með svipuðum hætti og forrit tölvu, skólastofnun skólahúsi eða hljóðupptaka segulbandsspólu. Hljóðupptakan getur haldið áfram að vera til þótt spólan eyðileggist ef hún er fyrst færð yfir á aðra geymslu, til dæmis aðra spólu, plötu eða disk, en hún getur ekki verið til án einhvers konar efnislegrar geymslu.
     Þótt það kunni að vera röklega mögulegt að hugur manns haldi áfram að vera til þótt líkaminn deyi er ekki þar sem sagt að slíkt hafi nokkru sinni gerst eða muni nokkru sinni gerast. Margt sem er röklega mögulegt stangast á við lögmál náttúrunnar og gerist þess vegna aldrei.
     Sanni þessi rök eitthvað þá er það afar lítilmótleg útgáfa af:

a) Það er mögulegt að hugurinn haldi áfram að vera til þótt líkaminn hætti að vera til.

En þau gefa okkur ekkert tilefni til að fallast á:

b) Raunvísindin geta gert grein fyrir allri starfsemi líkamans en þau geta ekki gert grein fyrir hugarstarfi eða sálarlífi fólks;

eða

c) Hugurinn er ekki háður náttúrulögmálum efnisheimsins.

     Af orðum Descartes er ljóst að hann aðhylltist mun róttækari útgáfu tvíhyggju af tegund a en þessi rök gefa tilefni til. Hann áleit að hugurinn sé "ekki heldur háður neinu efni" og geti því ekki aðeins haldið áfram að vera til þótt þessi tiltekni líkami hætti að vera til, heldur geti hann verið til án nokkurs líkama. Af því sem hann segir á öðrum stöðum í ritum sínum er líka ljóst að hann aðhylltist bæði tvíhyggjukenningar b og c til viðbótar við a.
 

1) Á frönsku heitir þessi bók Discours de la méthode. Hún kom fyrst út árið 1637. Íslensk þýðing Magnúsar G. Jónssonar kom út hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1991.

2)  Sumir hafa þó efast um að hægt sé að gera sér neina ljósa hugmynd um líkamslausa tilveru sálarinnar. Í þessum hópi er Þorsteinn Gylfason. Hann gerir grein fyrir hugmyndum sínum í 2. kafla bókar sinnar Tilraun um heiminn sem Mál og menning gaf út árið 1992.