Aðleiðsla

Hugsaðu þér að þú sleppir steini, steinninn detti til jarðar og þú spyrjir: Hvers vegna dettur steinninn? Ég stend kannski hjá og svara: Vegna þess að jörðin togar í hann. Þú spyrð þá enn: Hvers vegna togar jörðin í hann? og ég svara: Vegna þyngdarlögmálsins, það er þess lögmáls að efnishlutir toga hver í annan með krafti sem er í réttu hlutfalli við margfeldið af massa þeirra og í öfugu hlutfalli við kvaðratið af fjarlægðinni á milli þeirra. Þú heldur auðvitað áfram að spyrja: Hvers vegna gildir þyngdarlögmálið? og nú á ég ekkert svar og það sem verra er þessari spurningu getur enginn svarað.
     Þyngdarlögmálið er ekkert sem hlýtur að vera. Það bara er og svona er það með önnur grundvallarlögmál í náttúrunni. Það veit enginn neina ástæðu fyrir þeim. Þau bara eru. Þetta er ekki svona með lögmál og reglur í stærðfræði. Sú regla að ef tvær sléttar tölur eru lagðar saman þá komi út slétt tala er nauðsynleg, það er ekki einu sinni hægt að ímynda sér undantekningu frá henni. Við getum verið viss um að lögmál stærðfræðinnar hafa alltaf gilt og munu alltaf gilda. En getum við verið viss um að náttúrulögmál eins og þyngdarlögmálið hafi alltaf gilt og muni alltaf gilda?
     Er nokkur leið að útiloka þann möguleika að heimurinn haldist sæmilega reglulegur í nokkra stund til viðbótar og hætti svo að fylgja lögmálum eða reglum?
     Efasemdir í þessum dúr voru settar fram af skoska heimspekingnum David Hume (1711 - 1776) á fyrri helmingi 18. aldar. Í 4. kafla Rannsóknar á skilningsgáfunni1 veltir Hume því fyrr sér hvers vegna við séum svo viss um að sólin komi upp á morgun. Hann segir:
Sú fullyrðing að sólin komi ekki upp á morgun er jafn skiljanleg og laus við að fela í sér mótsögn og hin að hún komi upp. Það væri því til einskis að reyna að sanna að sólin komi upp, ...
     Nú, ef við getum ekki sannað að sólin komi upp, hvernig getum við þá verið viss? Hume segir að ástæðan fyrir því að við teljum víst að sólin komi upp sé sú að við höfum vanist því að náttúran sé reglubundin og þessi vani hafi slíkt vald yfir hugsun okkar að við komumst ekki hjá að trúa að þessi reglufesta muni halda áfram hér eftir sem hingað til. Orsök þess að menn trúa því að náttúrulögmálin muni alltaf gilda og hafi alltaf gilt er máttur vanans.
     Er þá engin skynsamleg ástæða til að gera ráð fyrir því að sólin komi upp á morgun og þyngdarlögmálið muni gilda hér eftir sem hingað til? Svarið sem Hume gefur er nei. Hann segir að allir menn trúi þessu en sú trú verði ekki studd neinum rökum. Hume rökstyður þetta svar sitt og þótt heimspekingar og vísindamenn hafi reynt í 250 ár að hrekja rök hans hefur engum tekist það.
     Hume byrjar á að skipta rökfærslum í afleiðslurök og aðleiðslurök eða sannanir og sennileg rök. Hann segir:
Öllum rökfærslum má skipta í tvær gerðir. Þær eru annars vegar sannanir eða rökfærslur um vensl hugmynda, og hins vegar sennileg rök eða rökfærslur um staðreyndir og tilvist hluta.
Svo segir Hume að það sé augljóslega ekki hægt að sanna að sama reglufesta verði í náttúrunni hér eftir sem hingað til. Séu einhver rök fyrir þeirri skoðun að sömu náttúrulögmál muni gilda hér eftir sem hingað til þá hljóta þau rök að vera aðleiðsla eða sennileg rök en ekki afleiðsla eða sönnun.
     Hugum nú að því hvers konar rök það eru sem við köllum aðleiðslu og Hume kallaði sennileg rök. Dæmi um aðleiðslu er til dæmis rökfærsla eins og þessi: Allir steinar sem ég hef sleppt til þessa hafa dottið til jarðar, þess vegna hlýtur steinninn, sem ég er í þann mund að sleppa núna, að detta til jarðar. Allar rökfærslur af þessu tagi, það er að segja öll aðleiðslurök, byggja á þeirri forsendu að sú reglufesta sem við höfum reynslu af muni halda áfram. Þess vegna er ekki hægt að nota aðleiðslu til að rökstyðja að sú reglufesta sem við höfum reynslu af muni halda áfram. Sú skoðun að náttúrulögmálin muni gilda hér eftir sem hingað til verður því hvorki rökstudd með aðleiðslu né með afleiðslu. Niðurstaðan er því sú að þessa skoðun sé ekki hægt að rökstyðja með neinu móti, hún sé bara eins og hver önnur trú sem styðst við vana en ekki skynsemi. Flestir halda að vísu að þessi trú byggist á skynsamlegum rökum en ekki eintómum vana því eins og Hume segir:
Slíkur er máttur vanans að þar sem áhrifavald hans er mest nær hann ekki hið einasta að breiða yfir náttúrulega fávisku vora, heldur og að leyna sjálfum sér, svo hann sýnist engu ráða einmitt þar sem vald hans er mest.
     Með þessum og fleiri rökum gróf Hume undirstöðuna undan trú 18. aldar manna á mátt skynseminnar til að komast til botns í leyndardómum tilverunnar. Að áliti Hume er mannleg skynsemi náttúrufyrirbæri rétt eins og eðlishvatir dýranna og ekki nema svona rétt mátulega mikið mark takandi á niðurstöðum hennar. Stangist hún á við aðrar mannlegar hneigðir og hvatir er engan veginn sjálfgefið að hún skuli eiga síðasta orðið. Í niðurlagi 9. kafla Rannsóknar á skilningsgáfunni segir hann:
... hæfileikinn til þess að álykta af reynslu - sem er sameiginlegur mönnum og dýrum og allt líf vort byggist á - er ekkert annað en ein gerð eðlishvatar eða vélgengt afl sem er að verki í oss án þess vér vitum af því. Og verkan þessa afls stjórnast ekki af neinum slíkum tengslum eða samanburði hugmynda sem eru hið rétta viðfang vitsmuna vorra. Þótt þær eðlishvatir sem kenna mönnum að forðast heitan eldinn, séu ólíkar þeim sem kenna fuglum að gera sér hreiður og liggja á eggjum sínum, þá eru þær eðlishvatir engu að síður.
     Rétt eins og Montaigne og efahyggjumenn fornaldar vildi Hume nota efahyggjuna til þess að ala á umburðalyndi og vinna gegn kreddufestu og kokhraustri vissu. Í lokakafla Rannsóknar á skilningsgáfunni segir hann:
Þorri fólks hefur náttúrulega tilhneigingu til að vera fullvisst í sinni sök og standa fast á skoðunum sínum. Menn líta hlutina aðeins frá einni hlið og hafa engar hugmyndir um andstæð rök, svo þeir gleypa í fljótræði við því sem er þeim að skapi, en vilja hvorki sjá né heyra þá sem aðhyllast andstæð viðhorf. Þurfi þeir að hika og vega málin og meta, þá fipar það skilningsgáfu þeirra, setur skorður við ástríðum þeirra og tefur þá við verk sín. Þeir eru því ekki í rónni fyrr en þeir losna við allar þessar amasömu vöflur og reyna því að ganga sem allra lengst í kokhraustri vissu og halda í skoðanir sínar af sem mestri þrákelkni. En yrði þeim sem eru svo einstrengingslegir í hugsun, ljóst hve undarlega vanmáttug skilningsgáfa vor mannanna er - jafnvel þegar hún nær hvað mestri fullkomnun og er hvað nákvæmust og gætnust í dómum sínum - þá yrðu þeir hógværari og héldu frekar aftur af sér, og það drægi úr sjálfumgleði þeirra og fordómum í garð andstæðinga sinna.
1) Á fummálinu heitir bókin An Enquiry Concerning Human Understanding. Hún kom fyrst út árið 1748. Íslensk þýðing Atla Harðarsonar var gefin út af Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1988.