Efahyggja

Í nótt komu geimverur inn til þín og tóku úr þér heilann. Þær settu hann í krukku og fóru með um borð í geimskipið sitt. Þetta voru góðar geimverur og þær vildu ekki valda þér óþægindum. Þess vegna tengdu þær mænuna, sjóntaugarnar og alla aðra enda og spotta sem standa út úr heilanum við vélar og tæki sem sjá um að fóðra þig á svipuðum áreitum og þú hefðir orðið fyrir ef heilinn hefði verið kyrr inn í hauskúpunni og þú hefðir vaknað og farið á fætur hér á jörðu niðri eins og þú ert vanur. Tækni geimveranna er nógu fullkomin til þess að þú verður ekki var við neina breytingu á högum þínum þótt skrokkurinn liggi dauður í rúminu og heilinn sé í krukku um borð í geimskipi á leið fram hjá tunglinu.
     Nú finnst þér þessi saga sjálfsagt ótrúleg enda er hún það. En getur þú vitað að hún sé ósönn? Þú getur auðvitað reynt að horfa í kringum þig. Ef sagan er ósönn þá snýst hausinn á þér ofan á öxlunum og ljóseindir koma fyrst inn um augun úr þessari átt og svo úr hinni áttinni og einhver efnaferli í augunum breyta upplýsingunum sem ljóseindirnar bera í boð sem heilinn fær eftir sjóntauginni. Ef sagan er hins vegar sönn þá senda vélar geimveranna þér boð sem hafa sömu áhrif í heilanum eins og ef hausinn snerist og ljóseindir kæmu fyrst inn um augun úr þessari átt og svo úr hinni áttinni. Þú hvorki sérð né finnur nokkurn mun. Eftir smá umhugsun ertu væntanlega sannfærður um að þú getur engan veginn gengið úr skugga um hvort þú ert enn á jörðu niðri eða á leið framhjá tunglinu. Niðurstaðan er óhjákvæmileg: Þú veist ekki hvort þú ert á jörðinni eða úti í geimnum, hvort jörðin og fólkið sem þú umgengst er til í alvöru eða hvort þú hefur tvær hendur og tvo fætur eða bara spotta sem tengjast einhverjum vélum. Flest það sem þú telur þig vita með fullkominni vissu gæti verið tóm blekking.
     Þegar þú hefur komist að þessari niðurstöðu ertu orðinn efahyggjumaður og aðhyllist meira að segja mjög róttæka gerð heimspekilegrar efahyggju. Og hvað með það? Er ekki allt í lagi að sætta sig bara við að vita ekki neitt?
*
     Heimspekileg efahyggja á sér langa sögu. Sumir segja upphafsmann hennar vera Pyrrón frá Elís í Grikklandi. Pyrrón var uppi um 360 til 270 f. Kr. Um hann segir í Íslensku alfræðibókinni:
/.../; talinn upphafsmaður efahyggjunnar; taldi að þar eð ekkert yrði vitað með vissu ættu menn ekki að halda neinu fram án fyrirvara heldur lifa í sátt við óvissuna og öðlast þannig sálarró.
     Eins og Sókrates, sem uppi var einni öld fyrr, eignaðist Pyrrón lærisveina og fylgismenn en skrifaði aldrei neitt svo hugmyndir hans eru einungis þekktar af frásögnum annarra. Sagan segir að hann hafi ferðast alla leið til Indlands með herjum Alexanders mikla og kynnst nöktu heimspekingunum þar.
     Þegar í fornöld urðu til ýmsar furðusögur um Pyrrón. Um það bil 5 öldum eftir dauða hans lýsti sagnaritarinn Diogenes Laertius honum svo sem hann hefði verið gersneyddur heilbrigðri skynsemi. Hann hafi ekki séð ástæðu til að trúa vitnisburði skilningarvitanna og fyrir vikið hafi vinir hans þurft að hafa stöðugar gætur á honum svo hann álpaðist ekki fyrir björg eða gengi í veg fyrir hestvagna eða í flasið á óðum hundum.
     Kveikjan að þessum sögum er líklega sálarró Pyrróns og æðruleysi. Diogenes Laertius þykir ekki mjög áreiðanlegur og fræðimenn taka yfirleitt ekki mikið mark á vitnisburði hans. Áreiðanlegri heimildir herma að eftir herferðina með Alexander hafi Pyrrón snúið aftur til Elís og búið það sem eftir var æfinnar með systur sinni, sem var ljósmóðir. Hann hjálpaði henni við hreingerningar, baðaði svínin og fór með fugla á markaðinn. Stundum flutti hann opinbera fyrirlestra en oftar sat hann löngum stundum og spjallaði við lærisveina sína. Hann naut virðingar meðal samborgara sinna og honum til heiðurs voru heimspekingar í borginni undanþegnir sköttum.
     Efahyggja var öflug heimspekistefna allt frá dögum Pyrróns til loka fornaldar. Fylgismenn hennar voru að vísu sundurleit hjörð en þeir áttu það sameiginlegt að vera á móti kreddufestu, trúarofsa og kokhraustri vissu. Sá sem hefur komist að því að mönnum er ekki gefið að vita neitt og hefur auk þess lært að lifa í sátt við óvissuna hlýtur að boða umburðalyndi.
     Með hruni vestrómverska ríkisins á fyrri hluta 5. aldar týndu Evrópumenn niður miklu af menningu sinni og þar á meðal efahyggjunni. Á endurreisnartímanum kynntust þeir henni aftur, lásu meðal annars um pyrrónisma í gömlum bókum eftir Sextus Empiricus, en hann var upp á sitt besta um 200 e. Kr.
     Einn þeirra manna sem átti mestan þátt í að kynna efahyggju fyrir nýaldarmönnum var franski rithöfundurinn Montaigne (1533 - 1592). Líkt og efahyggjumenn fornaldar beitti hann sér gegn trúarofsa og gerði grín að þeim sem þóttust eiga einfaldar törfalausnir á öllum vandamálum mannlífsins. Á þessum tíma voru menn brenndir á báli fyrir villutrú ef þeir vildu ekki fallast á kenningar kirkjunnar. Montaigne var kaþólskur og beitti sér ekki gegn viðteknum trúarlærdómum. En hann gerði sér grein fyrir því að um hinstu rök tilverunnar geta menn ekkert vitað með vissu. Meðal þess frægasta sem eftir honum er haft er spurningin: "Ofmeta menn ekki tilgátur sínar ef þeir álíta þær gefa sér rétt til að grilla náungann?"
     Fáir nýaldarspekingar hafa lifað í sátt við óvissuna eins og Pyrrón gerði. Í staðinn hafa þeir keppst við að kveða pyrrónismann niður og sanna að það sem þeir telja sig vita það viti þeir í raun og veru.
     Sá heimspekingur seinni alda sem hvað frægastur hefur orðið af glímu sinni við vofu pyrrónismans er frakkinn René Descartes sem uppi var á árunum 1596 til 1650. Hann er einn af upphafsmönnum hinnar vísindalegu heimsmyndar og nútímalegra hugmynda um vísindalega aðferð. Descartes var í mun að sýna fram á að vísindaleg þekking sé örugg þekking. Hann hafði kynnst efahyggju, meðal annars af ritum Montaigne, og varð með einhverjum hætti að svara rökum efahyggjumannsins því ef þau fá staðist þá er engin örugg þekking til.
     Descartes reyndi að sanna að þekking manna standi traustum fótum. Hann byrjaði á að benda á að það sé alveg sama hvaða furðusögur efahyggjumenn segja, þeir geti aldrei fengið sig til að efast um eigin tilvist. Meðan ég hugsa get ég verið viss um að ég er til. Næst spyr Descartes hvernig hann geti verið svo viss um þetta og hann svarar: Vegna þess að ég sé mjög skýrt og greinilega að til þess að hugsa þarf ég að vera til. Af þessu ályktar hann að allt sem hann skynjar mjög skýrt og mjög greinilega sé satt. Þessu næst fullyrðir hann að hann skynji það mjög skýrt og mjög greinilega að hann hafi hugmynd um fullkomna veru og að slík hugmynd hljóti að eiga sér orsök sem hefur til að bera jafnmikla fullkomnun og felst í hugmyndinni. Þar með þykist Descartes hafa sannað að til sé fullkomin vera eða guð. Þessu næst segir hann að góður guð geti engan veginn látið það viðgangast að menn séu blekktir um alla hluti.1
     Descartes taldi þessi rök sín mundu duga til að þagga niður í efahyggjumönnum. Mér vitanlega hafa þau aldrei sannfært neinn sem ekki var fyrirfram ákveðinn í að láta sannfærast, enda átti efahyggja enn eftir að blómstra. Glæsilegasti fulltrúi hennar á seinni öldum er skoski heimspekingurinn David Hume (1711 - 1776). Um hans daga voru flestir á sama máli og Descartes og töldu að vísindaleg þekking sé örugg þekking og að vitneskja manna um tilveru guðs og hinstu rök tilverunnar sé örugg vitneskja. Eftir að Hume ritaði bækur sínar er ekkert öruggt í þessum efnum.

1)  Þessi rök Descartes má til dæmis finna í 4. kafla bókar hans Orðræðu um aðferð. Á frönsku heitir þessi bók Discours de la méthode. Hún kom fyrst út árið 1637. Íslensk þýðing Magnúsar G. Jónssonar kom út hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1991.