Sönnun Anselms

Í sögu vestrænnar heimspeki bera þrjú blómaskeið af fyrir sakir grósku og hugmyndaauðgi. Það fyrsta var í Grikklandi á 6. til 3. öld fyrir okkar tímatal. Annað var í Evrópu vestan- og sunnanverðri á hámiðöldum, það er að segja á 11., 12. og 13. öld. Það þriðja hófst í Vestur Evrópu á 17. öld og stóð að minnsta kosti í 200 ár. Sumir álíta að það standi enn þótt slíkur dómur um samtíðina hljóti að orka nokkuð tvímælis.
     Sú heimspeki sem blómstraði á miðöldum er kölluð skólaspeki. Hún dafnaði við menntastofnanir kaþólsku kirkjunnar og var alla tíð nátengd kristinni trú og guðfræði. Tímabil skólaspekinnar var líka gullöld íslenskra bókmennta og þegar hugmyndasaga miðalda verður fullskrifuð má vafalaust rekja einhverja þræði milli breskra, franskra og ítalskra heimspekinga og íslenskra sagnamanna.
     Helsti upphafsmaður skólaspekinnar hét Anselm. Hann fæddist á Ítalíu árið 1033. Um hans daga var Evrópa án landamæra eins og hún er kannski að verða aftur núna næstum 1000 árum seinna. Það er til marks um þetta landamæraleysi að Ítalinn Anselm gekk í Benediktínaklaustur í Frakklandi árið 1063 og varð erkibiskup í Kantaraborg á Englandi árið 1093.
     Anselm kenndi meðal annars að rökfræðileg og heimspekileg greining á kristnum dómi sé Guði þóknanleg. Menn eigi ekki bara að trúa heldur líka að skilja og trúin og skilningurinn skuli styðja hvort annað. Þessi vitsmunalega afstaða til trúarinnar náði fljótt töluverðri útbreiðslu. Um aldamótin 1100 ritaði Honorius Augustodunensis, sem er talinn hafa verið einhvers konar lærisveinn Anselms, bókina Elucidarius og nokkrum áratugum seinna var búið að þýða hana á íslensku.1  Elucidarius er kennslubók í guðfræði og þar eru trúarlegir lærdómar útskýrðir, rökstuddir og settir upp í skynsamlegt kerfi að hætti Anselms.
     Þau rök sem Anselm hefur orðið frægastur fyrir á seinni öldum er þó ekki að finna í riti Augustodunensis. Þessi rök eru stundum nefnd "verufræðilega sönnunin á tilveru Guðs". Anselm setti þau fram í riti sem kallast Proslogion. Framsetning hans er lengri en svo að hún verði tekin upp hér. En það má endursegja rökin á þessa leið:

1. (forsenda)     Guð er fullkomnasta vera sem hægt er að hugsa sér.

2. (forsenda)     Guð sem á sér raunverulega tilvist býr yfir meiri fullkomleika en guð sem aðeins er til í huga manns (eða er einber hugarburður).

Gerum nú ráð fyrir setningunni:

3.     Guð er ekki til í raun og veru heldur aðeins í huga manns (og er sem sagt einber hugarburður).

Af 2. og 3. leiðir:

4.      Hægt er að hugsa sér veru sem er fullkomnari en Guð, nefnilega Guð sem á sér raunverulega tilvist.

     4. setningin stangast á við forsendu númer 1, sem Anselm áleit hafna yfir allan vafa, svo hún hlýtur að vera ósönn. Fyrst 4. setningin er ósönn hlýtur að minnsta kosti önnur forsenda hennar (það er setning 2 eða 3) að vera ósönn. Anselm taldi forsendu 2 hafna yfir allan vafa og rök sín því sanna að setning númer 3 sé ósönn. Af forsendum 1 og 2 leiðir því:

5. (niðurstaða)     Guð er til í raun og veru.

     Þetta er glæsileg sönnun. Forsendurnar, það er að segja setningar númer 1 og 2, virðast augljósar og niðurstaðan er leidd af þeim með fullgildum rökum.
     En getur þetta verið? Fyrri forsendan er lítið annað en útskýring á merkingu orðsins "Guð" og sú seinni segir ekki annað en að það sé fullkomnara eða betra ástand að vera til heldur en að vera ekki til. Séu þessar forsendur sannar þá eru þær sannindi af því tagi sem menn geta vitað af hyggjuviti sínu einu, ef þeir skilja merkingu orðanna. Geta svona ómerkilegar forsendur dugað til að sanna jafn merkilega niðurstöðu? Er virkilega hægt að komast til botns í hinstu rökum tilverunnar með því einu að beita reglum rökfræðinnar á sannindi sem eru svo ómerkileg að mönnum finnst yfirleitt ekki taka því að hafa orð á þeim?
     Síðan Anselm ritaði Proslogion hafa ætíð verði uppi sprenglærðir heimspekingar og rökfræðingar sem hafa fallist á rök hans og talið þau sanna að Guð sé til. Í þessum hópi má frægasta telja forkólfa rökhyggjunnar á 17. öld þá Descartes (1596 - 1650) og Leibniz (1646 - 1716). Kannski er fátt sem auðkennir rökhyggjumenn betur en dálæti á svona sönnunum. Þeir vilja leiða mikilvæg sannindi af forsendum sem menn geta þekkt af hyggjuviti sínu einu. Andstæð stefna við rökhyggju er kölluð raunhyggja og eigi raunhyggjumenn eitthvað sameiginlegt er það vantrú á svona sönnunum og útleiðslum, enda er það andstætt allri raunhyggju að telja sig geta vitað af hyggjuviti sínu einu saman hvað er til í þessum heimi og hvað ekki. Hún kennir að heimurinn verði aðeins þekktur af reynslu. Þess vegna hafa flestir heimspekingar sem hallast að raunhyggju í einhverri mynd hafnað sönnun Anselm.
     Raunhyggjumenn nútímans hafa það yfirleitt fyrir satt að forsenda 2 sé ósönn og því sé ekkert mark takandi á rökfærslunni, jafnvel þótt hún kunni að vera formlega gild í þeim skilningi að niðurstöðuna leiði af forsendunum.
 

1) Gunnar Harðarson heimspekingur hefur unnið vandaða útgáfu á íslensku þýðingunni á Elucidarius. Þessa útgáfu má finna, ásamt tveim öðrum heimspekiritum frá miðöldum sem Gunnar hefur einnig búið til prentunar, í bókinni Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum, sem Heimspekistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 1989.