Stjörnufræði, heimspeki og pýramídar

Á 17. öld lögðu Galíleó Galíleí, Isaac Newton og fleiri grunn að þeirri eðlisfræði sem nú er viðtekin. Hin eldri eðlisfræði byggði einkum á kenningum Aristótelesar (384 - 322 f. Kr.).
     Aristóteles fæddist og ólst upp í Makedóníu en 18 ára gamall hélt hann til borgríkisins Aþenu og hóf nám í skóla Platóns (um 427 - um 347 f. Kr.) Akademíunni. Um þessar mundir stóðu grísk vísindi og heimspeki með miklum blóma. En áður en Aristóteles var allur hafði nemandi hans Alexander mikli (356 - 323 f. Kr.) farið eldi og sverði um lönd Grikkja og stóran hluta Asíu. Með herferð hans lauk blómaskeiði grískra borgríkja og það liðu hátt í 2000 ár áður en Evrópa eignaðist aftur heimspekinga sem þola samjöfnuð við Aristóteles.
     Fræði þeirra Platóns og Aristótelesar höfðu áhrif á menningu og hugsunarhátt Miðjarðarhafsþjóða í margar aldir. Þegar fornöldinni lauk með innrás germana í vestrómverska ríkið í byrjun 5. aldar hrundi þessi forni menningarheimur. Það kom í hlut kristinnar kirkju að reisa nýja menningu á rústum hans. Hún tók í arf ýmislegt úr grískri heimspeki og margir kristnir lærdómsmenn á seinni hluta fornaldar og við upphaf miðalda voru undir áhrifum frá Platóni. Í þeim hópi má frægastan telja Ágústínus (354 - 430). Hann var biskup í Hippó í Norður Afríku.
     Aristóteles var í minni metum hjá kirkjunni framan af. En með krossferðunum til Palestínu sem hófust á 11. öld kynntust Evrópumenn ýmsu úr menningararfi fornaldar sem varðveist hafði við austanvert Miðjarðarhaf, þar á meðal ritum Aristótelesar. Sá kristinn heimspekingur sem átti mestan þátt í að laga speki Aristótelesar að kenningum kirkjunnar og afla þeim fylgis var Tómas frá Akvínó á Ítalíu (1225 - 1274). Svo vel tókst honum þetta að undir lok miðalda þótti það ganga guðlasti næst að véfengja helstu atriði í eðlisfræði og frumspeki þessa forngríska spekings, enda voru þær orðnar óaðskiljanlegur hluti af heimsmynd kirkjunnar.
     Fræðileg rök þessarar heimsmyndar, sem kennd voru í háskólum hámiðalda og endurreisnartíma, voru fléttað saman úr fræðum Aristótelesar og kristinni trú. Sú harðsnúna flétta er stundum kölluð skólaspeki. Þessi nánu tengsl aristótelískrar eðlisfræði við heimsmynd kirkjunnar er ein af ástæðunum fyrir því að Galíleó og fleiri vísindamenn á 17. öld lentu í útistöðum við kirkjuvaldið.
     Um daga Aristótelesar iðkuðu Grikkir stærðfræði, eðlisfræði og stjörnufræði af kappi og var meðal annars orðið ljóst að jörðin er kúlulaga. Aristóteles nefnir tvenn rök fyrir kúlulögun jarðar. Önnur eru á þá leið að við tunglmyrkva er skugginn sem fellur af jörðinni á tunglið bogadreginn. Hin vísa til þess að ferðist maður í norður, eða suður, færast stjörnur hærra, eða lægra, miðað við sjóndeildarhringinn.
     Við skóla Platóns vann stærðfræðingurinn Evdoxos (um 400 - 347 f. Kr.) að reiknilíkönum af hreyfingum himintunglanna. Hann komst að því að lýsa má sýnilegum hreyfingum þeirra með því að hugsa sér að þau séu föst á sammiðja kúlum sem snúast um jörð. Evdoxos gerði ráð fyrir að jörðin sé í miðju og með því á láta kúlurnar snúast hverja inni í annarri og ætla hverri reikistjörnu nokkrar kúlur með mismunandi möndulhalla gat hann búið til þokkalega nákvæmt reiknilíkan. En líklega taldi Evdoxos enga ástæðu til að ætla kúlunum raunverulega tilvist.
     Aristóteles tók upp kúluhugmynd Evdoxosar, fjölgaði kúlunum nokkuð og hélt því fram að þær væru raunverulegar, ekki bara ímyndun sem menn styðjast við til að fá útreikninga sína til að ganga upp. Í heimsmynd miðalda urðu þessar kúlur að kristalshvelum himnanna. Eðlisfræði Aristótelesar studdi við hugmynd hans um gangverk himnanna því hún kenndi að himneskt efni væri gerólíkt jarðnesku efni, það væri óforgengilegt, breyttist aldrei, og því væri náttúrulegt að hreyfast í hring. Hann taldi því að himnarnir hefðu alltaf verið eins og mundu alltaf verða. Hið jarðneska efni er hins vegar breytingum undirorpið og vill helst hreyfast eftir beinum línum.
     Á 16. öld urðu tveir atburðir á himnum til þess að grafa undan kenningum Aristótelesar og heimsmynd skólaspekinnar. Annar var sprengistjarna sem birtist árið 1572. Danski stjörnufræðingurinn Tycho Brahe (1546 - 1601) sýndi fram á það með ágætum rökum að hún hlyti að vera fjær jörðinni en tunglið. Þar með var hrakin kenning Aristótelesar um óbreytileika himnanna. Hinn var halastjarna sem sást árið 1577 og Tycho Brahe sýndi líka fram á að væri utan við braut tunglsins og hlyti að fara í gegnum kristalshvelin.
     Þegar í fornöld voru komnar fram hugmyndir um að jörðin sé á hreyfingu og nokkrum áratugum eftir lát Aristótelesar hélt einn af merkustu stjörnufræðingum fornaldar, Aristarkos frá Samos (um 310 - 264 f. Kr.), fram sólmiðjukenningu svipaðri þeirri sem Pólverjinn Kópernikus (1473 - 1543) bar fram 1800 árum síðar. Frægastur er Aristarkos þó fyrir mælingar sínar á hlutföllunum milli fjarlægðarinnar til tunglsins og til sólarinnar.
     Aristóteles hafnaði kenningum um hreyfingu jarðarinnar, enda féllu slíkar kenningar ekki að eðlisfræði hans sem gerði ráð fyrir að þungum hlutum sé eiginlegt að vera kyrrir nema einhverjar sérstakar ástæður valdi hreyfingu þeirra.
     Aristóteles var hvorki sérlega snjall stjörnufræðingur né stærðfræðingur og hugmyndir hans um gangverk himnanna stinga um margt í stúf við kenningar samtímamanna hans. Hins vegar var Aristóteles vel að sér í ýmsum greinum náttúrufræði og honum var vel lagið að tengja náttúrufræðina við frumspeki sína. Meðal þess sem hann velti fyrir sér var hvernig náttúran er knúin áfram: Hvað viðheldur þeim sífellda breytileika sem við sjáum alls staðar á jörðinni? Hlutunum er eiginlegt að vera kyrrir. Steinn fer ekki að hreyfast af sjálfsdáðum og ef ég hendi honum þá hreyfist hann í dálitla stund og stöðvast svo á jörðinni. Hví er veröldin ekki kyrrstæð? Hafi hún verið til í óendanlega langan tíma hví hafa allar hreyfingar ekki löngu stöðvast? Í 6. kafla 12. bókar Frumspekinnar1  svarar Aristóteles þessari spurningu og svar hans á líklega stóran hlut í þeim vinsældum sem kenningar hans náðu við kristnar menntastofnanir á hámiðöldum. Hann segir:
/.../ það er ómögulegt að hreyfing hafi einhvern tíma byrjað að vera til eða muni einhvern tíma hætta að vera til því þá gæti það sama komið fyrir tímann. Hreyfing er samfelld með sama hætti og tími, því tími er annað hvort það sama og hreyfing eða eiginleiki hreyfingar. Það er engin samfelld hreyfing til nema tilfærsla eða hreyfing úr stað, og af tilfærslum getur hringhreyfing ein verið samfelld.
Hér gefur Aristóteles sér að tíminn geti hvorki hætt né byrjað og þar sem tími sé annað hvort það sama og hreyfing eða eiginleiki hreyfingar ályktar hann að útilokað sé að heimurinn stöðvist. Og svo heldur hann áfram og segir að eilíf hreyfing heimsins hljóti að eiga sér orsök sem er óforgengileg, því væri hún forgengileg þá gæti heimurinn stöðvast og tíminn hætt að líða. Þessa orsök kallar Aristóteles frumhreyfil eða guð. Hann er óbreytanlegur, ekki úr neinu efni og býr með einhverjum hætti utan heimsins. Iðja hans er sú ein að hugleiða eigin tilveru.
     Þessi frumhreyfill Aristótelesar snýr ystu kúlu himnanna með þeim hætti að vekja hjá henni löngun eftir fullkomleika. Hreyfing hennar hefur svo áhrif á næsta hvel sem hefur svo áhrif á það þriðja og svo framvegis allt niður til jarðar. Það er þrá heimsins eftir guði, því fullkomna, eilífa og óforgengilega sem snýr gangverki himnanna og knýr fram breytingar og hreyfingar í forgengilegu efni jarðarinnar.
     Þetta er ósköp þægileg heimsmynd. Við búum í litlum kúlulaga heimi og guð tryggir að hann sé eilífur og óforgengilegur. Jörðin stendur kyrr í miðjunni og við þurfum ekki að óttast að hún verði fyrir neinu hnjaski.
     Þótt hugmynd Aristótelesar um eilífa tilveru heimsins og guð sem ekki hugsar um neitt nema sjálfan sig falli illa að sköpunartrú kristninnar og hugmynd hennar um guð sem menn geta leitað til með vandamál sín runnu frumhreyfillinn og guð Biblíunnar saman í eitt í heimsmynd miðaldakirkjunnar.
     Þessari heimsmynd er óvíða betur lýst en í Gleðileiknum guðdómlega2  eftir Ítalann Dante (1265 - 1321). Í 100 kvæðum segir Dante frá ferð niður í neðsta víti, þar sem hinn vondi sjálfur situr í illsku sinni, heimsku og formyrkvan og tyggur þrem skoltum þá Kassíus og Brútus, sem sviku Sesar, og Júdas sem sveik Krist. Þaðan liggur leiðin upp hreinsunareldinn og um kristalshvel himnanna. Á hinum efsta himni sér Dante guðdóminn sjálfan. Lýsing hans minnir meira á heimspeki Aristótelesar en frásagnir Biblíunnar.
     Guðmundur Böðvarsson (1904 - 1974) þýddi 12 kviður úr Gleðileiknum guðdómlega.3  Í þýðingu hans er lokaerindi síðustu kviðunnar, þar sem Dante lýsir guði sjálfum, svona:

Og líkt og mæta allir punkti einum
við öxul geislar hjóls á vegi förnum,
svo lukti um mig sú ást, er höndum hreinum
hreyfingu vekur sól og öllum stjörnum.

Hér er samruni kristinnar guðfræði og heimspeki Aristótelesar alger: Guð kristinna manna og frumhreyfill Aristótelesar eru eitt og hið sama.
     Kannski er ein ástæða þess hvað speki Aristótelesar og kristin guðfræði áttu vel saman sú að báðar leita lausnar á sama vanda, sem er vandamál forgengileikans. Sagt hefur verið að allir hlutir óttist tímann en tíminn óttist ekkert nema pýramídana. Heimspeki Aristótelesar og kristnin eru eins og pýramídarnir miklu í Giza að því leyti að storka veldi tímans. Heimspeki Aristótelesar gerir það með kenningu um óforgengileika heimsins og óbreytileika himnanna en kristnin með trúnni á eilífan guð og eilíft líf að jarðvist lokinni.
     Af einhverjum ástæðum óttast menn forgengileikann og líður betur ef þeir trúa á eitthvað óbreytanlegt og öruggt að baki hverfulleikans og óvissunnar sem einkennir allt þeirra líf. Sumum finnst til dæmis óhugnanlegt að hugsa til þess að mannkynið muni deyja út, árekstur við loftstein geti splundrað jörðinni og einhvern tíma muni slokkna á sólinni, jafnvel þótt þeir hafi ekki ástæðu til að óttast að þetta gerist um sína daga. Að baki þessum ótta býr kannski hræðsla barnsins við að týnast að heiman frá foreldrum sínum, uggur þeirra fullorðnu um að þeir kunni að missa fjölskyldu sína og bú og ótti gamalmennisins við dauðann. En hver sem ástæðan kann að vera og hvernig sem á því stendur að mönnum er huggun að trúa á eilífan veruleika, sem er tímanum yfirsterkari, verður tæpast um það deilt að sú blanda af stjörnufræði, kristinni trú og grískri heimspeki sem hér hefur verið sagt frá veitti mönnum öryggiskennd. Ef til vill var þetta fölsk öryggiskennd og ef til vill eru tilraunir heimspekinga til að gefa veldi forgengileikans langt nef ósköp ómerkilegar í samanburði við pýrmídana í Giza. Um daga Aristótelesar höfðu þeir staðið í 2000 ár og mér þykir ekki ósennilegt að þeir standi þarna enn 2000 árum eftir að allir heimspekingar og þeirra guðir eru gengnir fyrir ætternisstapa.
 

1) Frumspeki Aristótelesar kallast Ton meta ta fysika á grísku (Metaphysica á latínu). Sjálfur gaf Aristóteles ritinu ekki þetta nafn. Trúlega leit hann ekki á Frumspekina sem eitt rit enda er hún sundurlaust safn kafla um hinstu rök tilverunnar, sem trúlega voru skrifaðir sem glósur eða fyrirlestranótur en ekki sem bók til birtingar. Skömmu eftir dauða Aristótelesar var handritum hans safnað saman og í safninu lentu þessir kaflar aftan við rit hans um eðlisfræði. Nafn sitt draga þeir af þessari staðsetningu í handritasafninu, því "meta" þýðir eftir og "fysika" þýðir eðlisfræði.

2)  Á frummálinu heitir þetta verk Dante La divina commedia. Það var ritað á tímabilinu 1307 til 1320.

3)  Þýðing Guðmundar kom út hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs árið 1968 í bókinni Tólf kviður úr Divina commedia. Í þessari útgáfu var niðurlagið svona:

Og líkt og mæta allir punkti einum
við öxul geislar hjóls á vegi förnum,
svo lukti um mig sú ást, er höndum hreinum
heldur á sól og jörð og öllum stjörnum.

Í "Stuttri athugasemd" sem birtist í Tímariti Máls og menningar árið 1969 bendir Málfríður Einarsdóttir á að niðurlagsorð Dante "... l'Amor che muove il Sole e l'altre Stelle." geti ekki þýtt "sú ást, er höndum hreinum heldur á sól og jörð og öllum stjörnum" heldur merki þau "... kærleikurinn sem veldur hreyfingu sólar og annarra stjarna." Í ljósi þessara athugasemda breytti Guðmundur þýðingu sinni á síðasta vísuorðinu. Hin breytta gerð birtist svo á prenti árið 1973 í hefti sem Ólafur Briem bjó til prentunar. Heftið heitir Guðmundur Böðvarsson Kvæði og tilheyrir Lesarkasafni sem Iðunn gaf út og ætlað var til kennslu í framhaldsskólum.