Bölsvandinn

Ein þverstæða sem hefur vafist fyrir heimspekingum síðan í fornöld er stundum kölluð bölsvandinn. Sennilega hafa flestir þeir sem trúa á algóðan, alvitran og almáttugan guð einhvern tíma velt henni fyrir sér. Í 10. kafla bókar sinnar Samræðna um trúarbrögðin  gerir skoski heimspekingurinn David Hume (1711 - 1776) grein fyrir henni með þessum orðum:
Spurningum þeim, er Epíkúros bar upp endur fyrir löngu, er enn ósvarað. Vill hann koma í veg fyrir hið illa, en getur það ekki? Þá er hann vanmáttugur. Getur hann það, en vill ekki? Þá er hann illviljaður. Getur hann bæði og vill? Hvaðan stafar þá hið illa?1
     Þessi þverstæða veldur mönnum vanda ef þeir trúa bæði að til sé algóður, almáttugur og alvitur guð og að í veröldinni megi finna dæmi um tilgangslausar þjáningar og ástæðulaust böl. Menn hafa brugðist við henni á að minnsta kosti þrjá vegu.
     Ein leið er að segja, eins og Hume gerði, að þessi þverstæða sýni að það geti ekki verið til neinn algóður, alvitur og almáttugur guð. Önnur leið er að hafna því að til séu tilgangslausar þjáningar og ástæðulaust böl. Þessa leið valdi þýski heimspekingurinn Gottfried Wilhelm Leibniz (1646 - 1716). Í 10. grein ritgerðar sem hann skrifaði árið 1714 fyrir prinsinn í Savoy og kallaði Forsendur náttúru og náðar  segir Leibniz:
Það leiðir af algerum fullkomleika Guðs að þegar hann skóp heiminn þá kaus hann að fylgja þeirri bestu áætlun sem möguleg var;2
     Leibniz hugsaði sér að þegar guð skapaði heiminn þá hafi hann farið yfir alla mögulega heima í huganum og kosið að skapa þann besta. Sé þetta rétt þá er heimurinn sem við byggjum sá besti sem hugsast getur.
     Þessi kenning Leibniz er ef til vill frægust af sögunni um Birting eftir Voltaire (1694 - 1778).  Í þeirri sögu er heimiliskennarinn, meistari Altúnga, látinn tala máli Leibniz. Í fyrsta kafla segir hann:
Það hefur verið sýnt fram á, /.../ að hlutirnir geta ekki verið öðruvísi en þeir eru, því þar sem allt er miðað við einn endi, hlýtur allt um leið að vera miðað við þann allrabesta endi. Athugið hvernig nef manna hafa verið gerð fyrir lonníetturnar; enda höfum við líka lonníettur. Það er bersýnilegt að fætur manna eru gerðir til að vera skóaðir, enda höfum við öll eitthvað á fótunum. Grjót hefur orðið til svo hægt væri að höggva það í sundur og byggja úr því kastala; og minn herra á einn dægilegan kastala; mesti greifinn í landsfjórðungnum verður að hafa best í kringum sig; og til þess eru svínin gerð að maður éti þau, enda erum við étandi svín ár og síð: þar af leiðir að þeir sem segja að allt sé í lagi eru hálfvitar; maður á að segja að allt sé í allrabesta lagi.3
     Voltaire dregur kenningu Leibniz sundur og saman í háði og bendir á dæmi um þjáningar og böl sem heimurinn gæti vel verið án. Átakanlegast þessara dæma er kannski jarðskjálftinn í Lissabon sem jafnaði borgina við jörðu árið 1755. Í þeim hamförum fórust meira en 50.000 manns.
     Ýmsir hafa reynt að afsaka illsku heimsins með því að segja að menn þroskist af að þola þjáningar og böl svo allt þetta sem okkur virðist varpa skuggum á tilveruna geri hana á endanum bjartari og betri. Ég veit ekki að hve miklu leyti er hægt að taka þessa kenningu alvarlega. Sumt böl er lærdómsríkt og þroskandi en sumt ekki. Það er til dæmis hvorki lærdómsríkt né þroskandi að deyja úr hungri eins og margir jarðarbúar gera.
     Önnur algeng rök sem menn hafa fært fyrir því að heimurinn sé góður þrátt fyrir allt koma fyrir í Einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson þar sem segir:

          En mundu, þótt veröld sé hjartahörð,
          þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
          bölið, sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
          var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.

Kannski var Einar að hugsa um eitthvað á borð við söguna um Lazarus í 16. kafla Lúkasarguðspjalls:

En það var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður nokkur, er Lazarus hét, hlaðinn kaunum, hafði verið lagður við fordyri hans; og girntist hann að seðja sig af því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En svo bar við, að fátæki maðurinn dó og að hann var borinn af englum í faðm Abrahams; en ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og er hann hóf upp augu sín í Helju, þar sem hann var í kvölum, sér hann Abraham álengdar og Lazarus upp við brjóst hans. Og hann kallaði og sagði: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lazarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga. En Abraham sagði: Minnstu þess, sonur, að þú hlauzt þín gæði meðan þú lifðir, og Lazarus á sama hátt sitt böl, en nú er hann huggaður, en þú kvelst.
Lazarus hlaut að vísu bölva bætur í öðru lífi. En hefði heimurinn ekki verið betri ef Lazarus hefði lifað góðu lífi hérna megin grafar og líka hinum megin? Sumir kristnir spekingar hafa neitað þessu og sagt að þjáningarnar færi menn nær guði og að eymd Lazarusar hafi gert hlutskipti hans betra en ekki verra. Okkur hinum, sem ekki er gefin andleg spektin, veitist erfitt að skilja hvernig þetta má vera.
     Hvernig gat Leibniz komið því heim og saman að veröldin sé svo góð sem mest getur verið? Hugsum okkur að hann ætti að verja kenningu sína gegn Voltaire. Hann gæti byrjað á að spyrja Voltaire hvað hann vildi hafa öðru vísi. Voltaire svaraði kannski að heimurinn væri betri ef ekki væru jarðskjálftar á þéttbýlissvæðum. Leibniz gæti þá enn spurt: Viltu í raun og veru breyta gerð jarðarinnar eða þeim lögmálum sem gilda um hreyfingar efnisins? Mundu slíkar breytingar ekki útiloka allt líf á jörðinni? Hér yrði Voltaire trúlega svarafátt. Það kann að vera að þau náttúrulögmál sem gilda séu þau einu sem til greina koma og gera viðgang lífsins mögulegan. Ef svo er þá er kannski ekki svo fráleitt að við lifum í hinum besta allra mögulegra heima.
     Kenning Leibniz er ef til vill ekki eins fjarstæðukennd og hún virðist í fyrstu. En það er samt svolítið erfitt fyrir trúaðan mann að kyngja því að allt bölið í heiminum sé óhjákvæmileg afleiðing náttúrulögmála sem hafa þó góð áhrif þegar á heildina er litið. Þeir sem trúa á guð gera yfirleitt ráð fyrir að hann geti gripið inn í rás viðburðanna, gert kraftaverk, undantekingar frá lögmálum náttúrunnar. Hví skyldi hann ekki láta náttúrulögmálin gilda svona yfirleitt en grípa til kraftaverka þegar hörmungar á borð við jarðskjálftann í Lissabon eru yfirvofandi?
     Ég sagði að menn hafi brugðist við bölsvandanum á þrjá vegu. Í fyrsta lagi hafa menn sagt, eins og Hume, að þessi þverstæða sýni að það geti ekki verið til neinn algóður, alvitur og almáttugur guð. Þeir sem fara þessa leið þurfa ekki endilega að hafna allri trú á æðri máttarvöld. Þeir geta til dæmis trúað á guð sem skortir eitthvað á að vera almáttugur.
     Í öðru lagi hafa menn, eins og Leibniz, haldið því fram að það sé ekkert upp á guð að klaga því heimurinn sé eins góður og mest getur verið.
     Þriðja leiðin er að hafna hvorki trúnni á alfullkominn guð né neita því að til séu tilgangaslausar þjáningar og ástæðulaust böl heldur reyna að sýna fram á að þetta tvennt stangist ekki á eins og það virðist gera. Sá sem vill verja þessa þriðju leið þarf að sýna fram á að fullyrðingarnar:

1.     Til er algóður, alvitur og almáttugur guð.
og
2.     Til eru tilgangslausar þjáningar og ástæðulaust böl.

stangist ekki á, það sé ekki mótsögn í því fólgin að játa þeim báðum. Til þess að sýna fram á að fullyrðingarnar stangist ekki á dugar að benda á einhverjar mögulegar aðstæður þar sem þær eru báðar sannar. Margir heimspekingar og guðfræðingar hafa reynt þetta en ég veit ekki til að neinum hafi tekist það með sannfærandi hætti.
 

1) Þessi bók heitir á frummálinu Dialogues Concerning Natural Religion og kom fyrst út árið 1779. Íslensk þýðing Gunnars Ragnarssonar kom út hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1972.

2) Á frummálinu heitir þessi ritgerð Principes de la Nature et de la Grace.

3) Á frummálinu heitir BirtingurCandide. Hann kom fyrst út árið 1759. Íslensk þýðing Halldórs Laxness kom út hjá Bókasafni Helgafells árið 1945 og svo aftur hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1975.