Sjálfsblekking

Í 11. kafla Gerplu eftir Halldór Laxness segir frá heimsókn Þormóðar Kolbrúnarskálds til ástkonu sinnar, Þórdísar í Ögri. Hann hefur uppi fagurgala og kveðst munu koma með fríðu föruneyti og biðja hennar.
Undur mikið hversu margt þú kant ljúga, mælti hún. En það er kallað ástarmerki ef maður lýgur að konu og talar eigi satt; og þá ann kona manni er hún trúir honum þó að hún viti hann ljúga; og er gott að heyra þig ljúga. Ljúgðu.
     Hvað eigum við að halda um þessa ræðu Þórdísar? Hvernig getur nokkur kona trúað því sem hún veit að er lygi? Trúir nokkur því sem hún veit vera ósatt?
     Þegar ég las þennan kafla í Gerplu rifjaðist það upp fyrir mér sem ég hafði lesið í kennslubók í sálarfræði1 að til séu lystarstolssjúklingar, sem eru langt komnir með að svelta sig til bana, en telja sig samt vera óeðlilega feita. Þeir horfa á sig í spegli og þar sem öðrum sýnist aðeins skinn og bein virðist þeim spik liggja í fellingum þótt sjón þeirra sé að öðru leyti í lagi. Nú vita þessir sjúklingar vel að maður sem er 170 sentimetra hár og aðeins 45 kíló er ekki of feitur og sá sem innbyrðir aðeins 500 hitaeiningar á dag safnar ekki spiki. Þeir vita líka allar staðreyndir um eigin hæð, líkamsþyngd og neysluvenjur. Samt finnst þeim að þeir séu óeðlilega feitir. Eigum við að segja um þetta fólk að það trúi því sem það veit að er ósatt?
     Það rifjaðist líka upp að stundum er talað um að fólk blekki sjálft sig. Til dæmis kváðu drykkjusjúklingar stunda þetta. Tal um sjálfsblekkingu er þverstæðukennt með svipuðum hætti og ræða Þórdísar. Ef það að blekkja einhvern er í því fólgið að telja honum trú um eitthvað sem maður veit sjálfur að er ósatt hlýtur sjálfsblekking þá ekki að felast í því að maður telji sjálfum sér trú um eitthvað sem hann veit að er ósatt. Takist manni þetta hlýtur hann þá ekki að trúa lyginni þótt hann viti fullvel að hún er ósönn?
*
Þegar ég var barn þá fannst mér stundum, einkum þegar ég var einn á ferð í myrkri, að einhver elti mig. Stundum leitaði þessi hugsun svo fast á mig að ég þorði ekki að líta við, lagði jafnvel á flótta. Trúði ég því að einhver væri á eftir mér? Já og nei. Sú skoðun að einhver elti mig hafði óneitanlega áhrif á hegðun mína og hugarstarf með svipuðum hætti og raunveruleg vitneskja um að vera eltur af óargadýri, draug eða forynju af einhverju tagi. Samt vissi ég vel að enginn elti mig, hefði jafnvel verið til í að veðja um það. Er rétt að lýsa þessu svo að ég hafi í senn trúað því að einhver elti mig og vitað að enginn elti mig, sem sagt trúað einhverju sem ég vissi að var ósatt?
     Þetta dæmi er ekkert einstakt. Fólk óttast oft hluti sem það veit að eru ekki til. Stundum fá menn líka samviskubit yfir verki sem þeir vita að var til góðs og sækjast eftir hlutum sem þeir vita að eru til ills.
     Tilfinningar manna, hugrenningar og verk eru oft meira eða minna mótsagnakennd. Samt er eitthvað bogið við að segja um mann að hann trúi því sem hann veit að er ósatt. Um barnið sem finnst einhver elta sig segjum við að umhugsunin um eftirför hafi verið áleitin en ekki að barnið hafi í raun og veru trúað að einhver fygldi því eftir. Og hvað segjum við um móðurina sem fær samviskubit yfir að bregða sér af bæ einhverra erinda og láta bónda og börn sjálf um að finna sér eitthvað í svanginn, þótt hún viti vel að þau hafa bara gott af að bjarga sér? Við segjum kannski að tilfinningalíf hennar sé á valdi úreltra hugmynda, en varla að hún trúi því að það sé rangt af sér að skreppa frá þótt hún viti fullvel að það sé ekkert við það að athuga. Hvað með reykingamann sem er að reyna að hætta? Hann á leið í búð og veit vel að sígarettur eru það sem hann ætti síst af öllu að kaupa sér. Samt verður hann fyrir vonbrigðum þegar hann kemst að því að tegundin hans fæst ekki í búðinni. Við segjum ekki að hann trúi hvoru tveggja í senn að hann ætti að kaupa sér pakka og að hann ætti ekki að gera það. Við segjum frekar að hann viti að hann ætti ekki að gera það en ráði ekki við löngunina.
     Í öllum þessum þrem dæmum lætur fólk stjórnast af mótsagnakenndum hugmyndum. Barnið, mamman og reykingamaðurinn hugsa og haga sér að sumu leyti eins og þau trúi að einhver elti sig, að það sé rangt að láta karlinn elda eða að það sé slæmt að fá ekki sígarettur. En að sumu leyti hugsa þau og haga sér eins og þau trúi þessu alls ekki. Í tilvikum sem þessum er eðlilegt að álíta skynsamlegu skoðanirnar raunverulegar skoðanir en kalla hinar sem stangast á við þær eitthvað annað, eins og áleitnar hugsanir, tilfinningar eða langanir. Þetta er vegna þess að við reynum í lengstu lög að skilja og túlka orð og verk annars fólks þannig að það sé skynsamt og sjálfu sér samkvæmt. Ein helsta forsendan fyrir eðlilegum samskiptum er að fólk ætli hvert öðru eins mikla skynsemi og verjandi er og skilji orð og verk annarra þannig að vit fáist í þau. Við getum hvorki tekið mark á sjálfum okkur né hvert á öðru nema við gerum ráð fyrir að hugsun okkar sé nokkurn veginn rökrétt.
     Ýmislegt sem fólk segir og gerir er hægt að skilja og skýra á fleiri en einn veg. Þetta á jafnt við þegar við reynum að átta okkur á orðum og athöfnum okkar sjálfra eins og þegar við reynum að botna í öðru fólki. Oftast nær er hægt að finna skýringar sem gera ráð fyrir að viðkomandi sé sjálfum sér samkvæmur og þokkalega skynsamur. Í dæmunum hér að ofan var þetta vandalaust. Við notuðum þá venjulegu aðferð að kalla skynsamlegar hugsanir sem koma heim við viðtekna þekkingu skoðanir og álíta að menn trúi þeim en óskynsamlegu hugsanirnar rákum við að útjöðrum hugans og kölluðum einhverjum óvirðulegri nöfnum. Ástæða þess að okkur finnst erfitt að fallast á skoðun Þórdísar í Ögri er sú að hún stríðir gegn þessari vinnureglu sem við erum orðin svo vön að okkur finnst hún sjálfsögð. En eins og dæmin af lystarstolssjúklingum og drykkjumönnum sýna er stundum freistandi að brjóta regluna og skilja fólk svo að það trúi einhverju sem það veit að er ósatt.
     Dæmin af barninu, mömmunni og reykingamanninum er eðlilegast að skilja sem togstreitu milli skynsamlegrar skoðunar og óskynsamlegrar geðshræringar. En þetta eru ekki dæmi um eiginlega sjálfsblekkingu. Þau reyna ekki að blekkja sig. Í svona tilvikum er líklegra að viðleitni manna sé í þá átt að losa sig við hugmyndir og geðshræringar sem stangast á við skoðanir þeirra. Sé viðleitni manna í þessa veru eru mótsagnirnar í hug þeirra ekki siðferðilega ámælisverðar: að minnsta kosti ekki á sama hátt og raunveruleg sjálfsblekking, sem felst ýmist í viðleitni til að ala á hugmyndum sem maður sjálfur veit að eru ósannar eða í að forðast upplýsingar sem gætu staðfest grun um að skoðun sem maður vill halda í sé röng.
     Sem dæmi um sjálfsblekkingu getum við hugsað okkur drykkjumann sem hefur hvað eftir annað orðið sér til skammar á mannamótum. Þegar hann dröslast á lappir einn sunnudagsmorguninn man hann eftir því sem hann gerði kvöldið áður. Hann var í fimmtugsafmæli hjá Sigga vini sínum. Áður en yfir lauk hafði hann hrópað svívirðingar um flesta boðsgesti, lamið afmælisbarnið og ælt yfir heimilisköttinn. Til að draga úr samviskubitinu staglast hann á því með sjálfum sér að Siggi sé drullusokkur og það geti komið fyrir besta fólk að fá sér einum og mikið neðan í því. Hann hafi nú verið slæmur í maga upp á síðkastið og ekki við því að búast að vín færi vel í hann eftir að hafa étið þennan bannsettan óþverra sem var á borðum fyrr um kvöldið. Svo voru hinir ekkert skárri. Það er bara svo snobbað þetta pakk að það situr eins og einhverjar bannsettar dúkkur allt kvöldið þó það sé í rauninni ekkert betra en ég.
     Það er vandalaust að trúa því að drykkjumaðurinn geti haft áhrif á tilfinningalíf sitt og dregið eitthvað úr samviskubitinu með því að staglast á svona afsökunum í huga sér. Það er líka vel hægt að trúa því að þeir sem stunda það að stjórna tilfinningum sínum með svona lygastagli verði á endanum hálfruglaðir, jafnvel geðveikir. En eigum við að trúa því að drykkjumaðurinn ljúgi þessu öllu að sjálfum sér og trúi sjálfur lyginni, að hann trúi því sem hann veit að er ósatt? Ég held ekki. Ég held að það sé réttara að segja að hann beiti óheiðarlegum aðferðum til að hafa áhrif á eigið tilfinningalíf. Með þessu vil ég þó ekki útiloka að stagl drykkjumannsins verði til þess að þegar hann rifjar atburðina upp nokkrum dögum síðar þá sé lygin að einhverju leyti komin í bland við endurminningarnar og hann farinn að trúa henni. En það er langur vegur frá því að segja um mann að hann trúi því í dag sem hann vissi í gær að er ósatt og að segja að maður trúi einhverju sem hann veit á þeirri sömu stundu að er ósatt.
*
Kannski tekst líffræðingum eða sálfræðingum einhvern tíma að rekja orsakir mannlegrar hegðunar og fella hana undir þekkt náttúrulögmál. Þá verður kannski hægt að segja að orsök þess að barninu finnst einhver elta sig í myrkrinu og tekur til fótanna sé þetta eða hitt efnaferlið einhvers staðar í taugakerfi þess. Sjálfsagt á allt sem við hugsum og gerum náttúrulegar orsakir. En þegar við reynum að skýra hegðun fólks nefnum við yfirleitt ekki orsakir hennar heldur ástæður eða rök. Svipað á reyndar við þegar við skýrum hegðun annarra fyrirbæra sem við eignum vitsmuni af einhverju tagi, til dæmis dýra eða flókinna sjálfvirkra véla. Sem dæmi má taka að þegar við fylgjumst með skák og spyrjum af hverju þessi leikur var valinn þá væntum við svars á borð við: "Vegna þess að hann ætlar að valda drottninguna" eða "vegna þess að þá getur hún skákað í næsta leik". Það er sama hvort sá sem teflir er maður eða skáktölva, við nefnum ástæður eða rök þegar við reynum að átta okkur á hvers vegna þessi leikur var valinn en ekki hinn. Okkur dettur hins vegar ekki í hug að nefna orsakir þótt vissulega megi hugsa sér að orsök þess að skákmaðurinn vill valda drottninguna sé sú að hann missti móður sína ungur eða orsök þess að tölvan stefnir á mát í næsta leik séu einhverjir rafstraumar sem flæða um rásirnar í henni.
     Meðan maðurinn og tölvan tefla þannig að hægt sé að gera ráð fyrir því að skynsamlegar ástæður eða rök ráði vali leikja þá gerum við það. Við höldum þessu áfram í lengstu lög. Ef skákmaðurinn brýtur reglur leiksins þá látum við okkur detta í hug að hann sé að grínast eða að gera einhvers konar uppreisn. En gerist maðurinn vitlaus úr öllum máta og taki tölvan upp á verulegum kenjum þá segjum við manninn ruglaðan eða geðveikan og villu í forritinu eða vélina bilaða og fyrir því leitum við fremur að orsökum en ástæðum.
     Þetta dæmi sýnir að um leið og við eignum manni (eða vél eða dýri) vitsmuni eða skynsemi þá reynum við að finna ástæður eða rök til að skýra hegðun hans. Við reynum í lengstu lög að haga skýringunum þannig að ástæðurnar og rökin stangist ekki á, því um leið og við gerum ráð fyrir að skoðanir manns stangist á, og hann trúi einhverju sem hann álítur ósatt, er úti um allar vitlegar ástæður, því af mótsögn er hægt að leiða hvaða vitleysu sem er. Þetta er forsenda þess að menn geti tekið mark hver á öðrum og borið virðingu fyrir sjálfum sér og náunganum. En stundum gengur dæmið ekki upp. Stundum finnum við enga leið til að fá vit í það sem fólk gerir og segir og þá dæmum við það bilað, klikkað, ruglað eða geðveikt og leitum fremur að orsök en ástæðu til að skilja orð þess og verk.
     Það er erfitt að fylgja Þórdísi í Ögri vegna þess að hún býður okkur að skoða ást konu á manni sem bilun, klikkun eða geðveiki: eitthvað sem ekki er hægt að skilja án þess að brjóta þá reglu að álíta fólk sjálfu sér samkvæmt. Þetta kemur ef til vill heim við einhverja rómantíska hugaróra um ástina sem gera ráð fyrir að hún sé andstæð allri rökhugsun. En í raun réttri fær ástin vel samrýmst rökréttri hugsun.
     Lystarstol og drykkjusýki eru, eins og fleiri geðrænir kvillar, áhugaverð í þessu sambandi vegna þess að sjúklingarnir eru stundum nálægt mörkum þess að hægt sé að skýra hegðun þeirra með ástæðum eða rökum. Öðrum þræði eru þeir sjálfum sér samkvæmir og jafn skynsamir og annað fólk. En samt halda þeir fram skoðunum sem stangast á við það sem þeir vita að er satt. Við erum því í vafa um hvort þeir hafa misst vitið eða hvort þeir hafa fullt vit en eru eins og barnið, sem finnst óvættur elta sig í myrkrinu. Hugsun, sem það trúði alls ekki heldur vissi að var ósönn, varð svo ásækin að það gat með engu móti varist henni eða komið í veg fyrir að hún hefði áhrif á hegðun sína.
     Við getum valið milli þess að álíta fólk með lystarstol hafa fullt vit en takmarkaða stjórn á hegðun sinni og tilfinningum og þess að álíta það beinlínis vitskert þannig að ástæður og rök eigi ekki við. Við getum líka valið milli þess að álíta drykkjumanninn beita óheiðarlegum aðferðum til að stjórna tilfinningum sínum og þess að telja hann trúa því sem hann veit að er lygi. Ætlum við að taka mark á þessu fólki og koma fram við það sem jafningja þá reynum við í lengstu lög að velja fyrri kostina.
     Nú spyr kannski einhver hvort við sýnum drykkjumanninum virðingu með því að dæma hegðun hans siðferðilega ámælisverða, eins og við gerum ef við segjum hann beita óheiðarlegum aðferðum til að stjórna tilfinningum sínum. Svarið er að mönnum er sýnd meiri virðing með því að segja að þeir breyti rangt en með því að dæma þá of vitskerta til að orðin "rétt" og "rangt" eigi við um hegðun þeirra.
     Þótt tal um rök, ástæður og skoðanir gagnist vel til að skýra og skilja hegðun fólks er ekki þar með sagt að þessi hugtök dugi til að gera grein fyrir þeim sálfræðilega veruleika sem að baki býr.
     Hugtökin sem við notum til að henda reiður á hegðun sjálfra okkar og annarra eru að miklu leyti tilbúningur á svipaðan hátt og lengdarbaugar og breiddarbaugar eru tilbúningur sem menn hafa fundið upp til að eiga auðveldara með að henda reiður á fjarlægðum og ferðast um hnöttinn. Fyrrnefndi tilbúningurinn er aldagamall og inngróinn í allt mannlegt líf. Sá seinni er yngri og hefur ekki skotið jafn djúpum rótum í menninguna. Ég nefni þetta til að minna á að sé álitamál hvort einhver er sjálfum sér samkvæmur eða ekki þá er ekki endilega neinn sannleikur um efnið sem hægt er að orða með þeim orðum sem venjulega eru notuð til að lýsa hegðun fólks og hugarástandi. Séu menn til dæmis ósammála um hvort réttara sé að álíta lystarstolssjúkling trúa því sem hann veit vera ósatt eða vera á valdi hugsunar sem stangast á við skoðanir hans og þekkingu þá þarf ekki að vera um það að ræða að annar hafi rétt fyrir sér og hinn rangt. Deilan kallar kannski fremur á ákvörðun um hvernig hugtökin skuli notuð heldur en rannsókn á því hvor skoðunin komi betur heim við það sem er að gerast í huga sjúklingsins.
     Við kæmumst nokkurn veginn af þótt við hættum að gera ráð fyrir lengdar- og breiddarbaugum. En við höfum ekki nokkra hugmynd um hvernig við getum lifað sem menn án þess að eigna okkur rök, ástæður og sjálfum sér samkvæmar skoðanir sem skýra hegðun okkar, því á þessum tilbúningi og þeim samskiptaháttum sem af honum eru leiddir byggist flest það sem greinir okkur frá "skynlausum" skepnum. Þess vegna skulum við fara varlega í að trúa orðum Þórdísar í Ögri og taka með hæfilegum fyrirvara kenningum um að lystarstolssjúklingar eða drykkjumenn trúi því sem þeir vita að er ósatt.
 

1) Davison og Neale. 1986. Abnormal Psychology 4. útgáfa. John Wiley & sons. Bls. 392.