Geta börn hugsað?

Flestar gerðir mannlegra vitsmuna má greina í tvo þætti: efnivið og aðferðir. Sem dæmi um þessa tvískiptingu má nefna: þekkingu og skynsemi; orðaforða og málfræðireglur; vitneskju og rökvísi.
     Sumar hugmyndir um nám og vitsmunaþroska barna taka nokkuð mið af svona tvískiptingu. Til eru þeir sem álíta muninn á börnum og fullorðnum fyrst og fremst þann að börnin skorti efnivið, þekkingu, orðaforða eða vitneskju sem þeir fullorðnu hafa. Aðrir telja þau fyrst og fremst skorta rökvísi, hugsunaraðferðir og hæfileika til að beita þeim.
     Nú kann einhverjum að detta í hug að það sé hægt að komast að því með sálfræðilegum tilraunum og rannsóknum í hvoru vitsmunum barna er fremur ábótavant. Kannski er þetta hægt en auðvelt er það ekki.
     Hugsum okkur 4 ára barn sem er að læra á klukku. Einn sunnudaginn bíður það eftir að klukkan verði 6 og barnatíminn byrji í sjónvarpinu. Barninu þykir tíminn lengi að líða og stingur upp á að stytta biðina með því að færa vísana á klukkunni. Þegar því er sagt að það þýði ekkert þá segir það: En þegar litli vísirinn snýr niður þá er klukkan orðin 6.
     Hvernig eigum við að skilja þetta? Eigum við að álíta að barnið kunni að beita hugtökunum en skorti þekkingu á eðli ljósvakamiðla og álíti ranglega að sjónvarpsdagskráin fari af stað við það að klukkuvísirinn bendi á 6? Eigum við kannski heldur að gera ráð fyrir að barnið álíti að tíminn taki stökk við það að klukkan sé færð eða eigum við að hugsa sem svo að barnið trúi hvorugu af þessu en álykti rangt vegna skorts á rökvísi. Veljum við fyrsta kostinn þá útilokum við ekki að barnið búi yfir sams konar skynsemi og þeir fullorðnu. Annar kosturinn gerir annað hvort ráð fyrir því að barnið hugsi órökrétt að nokkru marki eða að það telji þessa tilteknu klukku hafa mikið vald því það er mögulegt að tvær klukkur sé færðar hvor í sína áttina, en samt líður tíminn alls staðar eins. Þriðji kosturinn gerir beinlínis ráð fyrri að barnið hugsi órökrétt.
     Það er hægt að skilja og misskilja barnið á fleiri vegu en þá þrjá sem hér voru taldir. Kannski álítur það að tíminn líði með ólíkum hætti eftir stöðum þannig að klukkan geti orðið 6 í stofunni meðan hún er 4 í eldhúsinu. Kannski veit barnið mæta vel að hugmyndin um að stytta biðina með því að færa klukkuna er vitlaus en varpar henni samt fram vegna þess að reynslan hefur kennt því að svona vitlausar hugmyndir verða oft til þess að fullorðna fólkið fæst til að ræða málin og leita að betri lausn. Hvaða skilningur er réttur? Það er ef til vill hægt að nálgast svar við þessari spurningu með því að yfirheyra barnið. Við getum til dæmis spurt hvort það telji að það sé kvöld klukkan 10. Ef barnið játar því þá getum við spurt hvort það dimmi úti ef klukkuvísirinn er settur á 10. En það er sama á hvorn veg barnið svarar. Það vaknar enn spurning um hvernig á að túlka svarið og ef til vill er engin ein túlkun rétt. Það er hægt að fá vit í orð og verk annars fólks á marga vegu og það er óvíst að hugsun barnsins hafi ákveðna merkingu fyrir því sjálfu.
     Einfaldara dæmi um þennan túlkunarvanda birtist okkur þegar 3 ára stubbur stendur uppi á borði og segir ánægður: Nú er ég jafnstór og mamma. Eigum við að álíta að barnið telji sig hafa stækkað við það eitt að klifra upp á borð eða eigum við að álíta að það leggi ekki sama skilning í orðið "stór" og við gerum? Vantar það hæfileika til að beita grundvallarhugtökum um stærð og magn eða skortir það vitneskju um merkingu orðanna? Það er sama hvernig við spyrjum barnið, við getum ekki komist að neinni einhlítri niðurstöðu, enda ekki víst að það sé neinn sannleikur í málinu. Að spyrja hvort tiltekin villa stafi fremur af vanþekkingu eða af skorti á rökvísi er svolítið eins og að spyrja hvort veðrið ráðist fremur af sól eða af vindum. Vitsmunir manna eru flækja úr efniviði og aðferðum og það er óvíst að það sé nokkur leið að greiða þá flækju í sundur.
     Hvað eigum við að gera? Þótt ekki sé hægt að sanna að tiltekinn skilningur á orðum barnsins sé réttur kann að vera mögulegt að velja sér heppilega vinnureglu. Sú regla sem yfirleitt er notuð til að túlka orð fólks og athafnir er að eigna því eins mikið vit og verjandi er. Við beitum þessari reglu dags daglega án þess að hugsa mikið um það. Segi maður eitthvað sérlega heimskulegt þá álítum við frekar að hann hafi mismælt sig eða hann sé að grínast en að hann sé svona vitlaus í raun og veru, nema við höfum sérstakar ástæður til að álíta að vitsmunum hans sé ábótavant. Þegar orð manna eru tvíræð þá veljum við þeim merkingu með það fyrir augum að fá vit í þau.
     Sé þessari reglu fylgt í dæminu um strákinn sem kvaðst jafnstór mömmu sinni eftir að hafa klifrað upp á borð er eðlilegast að álíta hann leggja einhverja aðra merkingu í orðið "stór" en þeir fullorðnu gera. Kannski álítur hann að "stór" þýði hár frá gólfi. Í hinu dæminu er erfiðara að segja hvaða túlkun er eðlilegust. Ef í ljós kemur að barnið botnar lítið í sjónvarpi, heldur til dæmis að hægt sé að spóla til baka eins og á myndbandi, þá er réttast að skýra hugmyndir þess með vanþekkingu á eðli sjónvarps. Búist barnið hins vegar við að það dimmi úti ef klukkuvísirinn er settur á 10 þá er ef til vill eðlilegra að gera ráð fyrri að það kunni ekki að beita hugtökum um tíma og klukku.
     Ef við veljum alltaf þá skýringu sem gerir ráð fyrir minnstum gloppum í vitsmunum barnsins þá hljótum við mun oftar að gera ráð fyrir að það skorti þekkingu en að það hugsi órökrétt. Við hljótum oftar að álíta að efniviði hugsunarinnar sé ábótavant en að hugsunaraðferðirnar séu rangar eða frumstæðar, enda er það harðari dómur yfir manni að segja hann hugsa órökrétt en að segja hann skorta þekkingu. Þann sem aðeins skortir þekkingu er hægt að leiðrétta og halda svo áfram að ræða við hann sem jafningja. En geti maður ekki beitt grunnhugtökum rétt og sé ófær um að skilja augljósa hluti þótt allar staðreyndir málsins liggi fyrir, þá er vonlaust að ræða við hann sem jafningja og taka mark á orðum hans. Þess vegna reynum við í lengstu lög að skilja orð fólks á þann veg að hægt sé að eigna því sams konar vitsmunalega hæfileika og við sjálf höfum.
     Eitt af merkustu uppeldisfræðiritum seinni alda er Hugleiðingar um uppeldismál1 eftir John Locke (1632 - 1704). Í þessari bók leggur Locke höfuðáherslu á að komið sé fram við börn eins og þau séu skynsöm. Hann viðurkennir að þau spyrji oft kjánalegra spurninga en kennir vanþekkingu um fremur en skorti á rökvísi eða skynsemi. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að væri hann staddur í Japan þá myndi hann spyrja ótal spurninga sem fólki þar þættu óþarfar og ómerkilegar.2
     Locke mælir gegn því að börnum sé mútað með sætindum eða ógnað með flengingum og barsmíðum. Sú uppeldisaðferð sem hann mælir með er að sýna barninu virðingu, útskýra hlutina fyrir því með skynsamlegum rökum og reyna alltaf að höfða til vitsmuna þess og sómatilfinningar. Locke gerði sér þó grein fyrir því að það þýðir ekki að umgangast börn á sama hátt og fullorðna, enda hafði hann veruleg kynni af börnum.
Það vekur ef til vill undrun að ég skuli nefna rökræður við börn: Þó hlýt ég að álíta rökræður réttu leiðina til að eiga við þau. Þau skilja rök um leið og þau ná valdi á tungumálinu og skjátlist mér ekki líkar þeim vel að komið sé fram við þau sem skynsemisverur, og það fyrr en haldið er. Slíkt stolt skyldi metið við þau og notað til að hafa áhrif á þau að svo miklu leyti sem mögulegt er.
     En þegar ég ræði um rök á ég ekki við önnur rök en þau sem hæfa getu og skilningi barnsins. Engum dettur í hug að rökræða við þriggja eða sjö ára pilt eins og við fullorðinn mann. Langar ræður og heimspekileg rök upplýsa börnin ekki heldur gera þau í besta falli ringluð og undrandi. Þegar ég segi að komið skuli fram við börn sem skynsemisverur meina ég því að þú skulir með mildilegri framkomu gera þeim skiljanlegt að þú sért sanngjarn og það sem þú gerir sé nytsamlegt og nauðsynlegt, og það eins þegar þú vandar um við þau.3
Hugleiðingar um uppeldismál telst með merkustu uppeldisfræðiritum 17. aldar. Langfrægasta rit um þetta efni frá 18. öld er Émile4 eftir Jean-Jacques Rousseau (1712-1778).
     Rousseau hafði lesið bók Locke og Émile er öðrum þræði svar við henni. Þeir eru sammála um margt: Leggja til dæmis báðir áherslu á hreyfingu og útiveru; telja að verknám sé ekki síður mikilvægt en bóknám og mæla með því að heldri manna synir læri einhverja iðn. Þeir eru líka sammála um að líkamlegar refsingar séu af hinu illa og mótmæla flengingum sem uppeldisaðferð.
     Þrátt fyrir ýmis samkenni er uppeldishugsun Lockes og Rousseaus þó gerólík. Locke lagði áherslu á að hinir fullorðnu ættu að móta börnin, kenna þeim og þjálfa þau skipulega í íþróttum, dansi, listum, handverki, málnotkun og bóklegum fræðum. Hann gerði ráð fyrir að það kostaði mikla vinnu margra manna að breyta hvítvoðungi í hefðarkonu eða herramann. Rousseau vildi hins vegar að samfélagshættir, siðir og gildismat hinna fullorðnu hefðu sem minnst áhrif á börnin. Hlutverk uppalandans í Émile er fyrst og fremst að skapa aðstæður þar sem barnið getur lært af náttúrunni. Í upphafi 3. bókar Émile segir Rousseau:
     Engar bækur nema bók heimsins, engin tilsögn nema staðreyndir. Barn sem les hugsar ekki.
Og við uppalandann segir hann:
     /.../ það er yfirleitt ekki þitt að segja honum [nemandanum] hvað hann á að læra. Það er hans að þrá það, sækjast eftir því og finna það. Þitt hlutverk er að gera námsefnið aðgengilegt, laða fram löngun hans og sjá honum fyrir aðstæðum til að fullnægja henni.
Rousseau vildi ekki kenna börnum heldur láta þau uppgötva hlutina sjálf. Í annarri bók Émile hefur hann mörg orð um að börnum skuli ekki kennt neitt um siðferði eða trúarbrögð og ekki heldur neitt um stjórnmál eða bókleg vísindi sem þau eru ekki tilbúin að skilja. Rousseau áleit að börnin mundu uppgötva þetta sjálf þegar þau yrðu eldri og skilja hlutina þá miklu réttari skilningi en hlytist af kennslu. Af þessum kenningum Rousseau eru sprottnar ýmislegar hugmyndir um uppgötvunarnám sem hafa gengið aftur í uppeldis- og kennslufræðum síðustu tvö hundruð árin.
     Rousseau andmælir þeirri áherslu sem Locke leggur á að höfða til skynsemi og vitsmuna hjá börnum:
Höfuðregla Locke var að rökræða við börn. Þetta er sú aðferð sem nú er hvað mest í tísku og ekki virðist mér að árangurinn sé til að auka hróður hennar. Hvergi sé ég meiri heimsku en hjá þessum börnum sem er búið að rökræða of mikið við. Af öllum hæfileikum mannsins er það skynsemin sem þroskast síðast og með mestum erfiðismunum, enda má segja að hún sé mynduð úr öllum hinum. Samt vilja menn nota skynsemina til að þroska hina hæfileikana sem á undan koma! Skynsemin er lokaafurð velheppnaðs uppeldis og menn segjast ala börn upp með skynseminni! Þetta er að byrja á öfugum enda, að ætla að nota afurðina sem tæki. Ef börn skildu skynsamleg rök þá þyrfti ekki að ala þau upp.5
Segja má að Locke og Rousseau velji andstæðar leiðir til að skilja muninn á vitsmunum barna og fullorðinna. Locke gerir ráð fyrir að hugsunaraðferðir þeirra líkist aðferðum hinna fullorðnu en þau skorti efnivið eða þekkingu. Rousseau gerir hins vegar ráð fyrir að þau skorti rökvísi og hafi ekki vald á þeim aðferðum sem fullorðnir beita.
     Þessi hugmynd Rousseaus var síðar klædd í vísindalegri búning af svissneska líffræðingnum og sálfræðingnum Jean Piaget (1896 - 1980). Árið 1935 skrifaði hann:
Meðan litið var svo á að barnið væri eins og fullorðinn en bara fáfróðara var hlutverk kennarans ekki að móta hug þess heldur að leggja honum til efnivið. /.../ En vandamálið lítur öðru vísi út sé gengið út frá þeirri tilgátu að formgerð hugsunarinnar sé öðru vísi. Sé hugsun barnsins ólík hugsun okkar að gerð þá verður aðalmarkmið kennarans að móta vitsmunalegar og siðferðilegar hugsunaraðferðir þess. Þar sem þessir hæfileikar verða ekki mótaðir utan frá snýst málið um að finna heppilegar aðferðir og umhverfi handa barninu svo það geti sjálft mótað hugsun sína.6
     Niðurstaða Piagets er sú sama og hjá Rousseau. Þar sem börnin skortir ekki fyrst og fremst þekkingu heldur rökvísi og hugsunaraðferðir þá á ekki að leggja áherslu á að kenna þeim námsefni heldur á að koma þeim fyrir í þroskandi umhverfi og láta þau læra af sjálfum sér. Þeir álitu báðir að skynsemin þroskaðist og næði fullkomnun af sjálfri sér ef barnið yxi upp í þroskandi umhverfi og þá mundi það sjálft viða að sér nægum fróðleik. Sem vænta má er þetta algerlega öfugt við áherslu Lockes sem vildi kenna börnum heil ósköp í landafræði, sögu, tungumálum, móðurmáli, handavinnu og fleiri greinum.
     Locke og Rousseau ganga út í öfgar hvor á sinn hátt. Sannleikurinn er sá að börn skortir bæði fróðleik og rökvísi og það er engin ein rétt leið til að greiða þessa tvo þætti í sundur. Skynsemi þeirra mótast í glímu við ýmiss konar efni sem þau viða að nokkru leyti að sér sjálf og fullorðnir láta þeim að nokkru leyti í té. En eigi að koma fram við börn af virðingu og túlka orð þeirra og verk á þann veg að sem mest vit fáist í þau er þó oftar rétt að kenna fáfræði um þegar þau tala eða breyta á einhvern þann hátt sem okkur þykir óskynsamlegur heldur en að gera ráð fyrir að þau geti ekki hugsað af rökvísi. Villa Lockes er meinlausari en villa Rousseaus enda gerir það mönnum minna til að skynsemi þeirra sé ofmetin heldur en að hún sé vanmetin.
 

1) Á frummálinu heitir þessi bók Some Thoughts concerning Education. Hún kom fyrst út árið 1693.

2) Hugleiðingar um uppeldismál, grein 120.

3) Sama rit, grein 81.

4) Émile kom fyrst út árið 1762.

5) Émile II. bók.

6) Tekið upp úr bókinni The Essential Piaget bls. 159 - 160. Sú bók er safnrit með enskum þýðingum á ýmsum af merkustu ritum Piaget. Hún var gefin út af Basic Books í New York árið 1977.