Vísindi og siðferði

Árið 1992 kom úr bók eftir Ólaf Halldórsson sem heitir Uppruni og þróun mannsins. Þetta er fróðleg bók og skemmtileg. Í henni segir frá öpum og öðrum prímötum, fornum beinum úr suðuröpum og reismönnum, kenningum um hvers vegna menn eru hárlausir, hvers vegna bæði augun í þeim vísa fram og hvernig hugur okkar og hönd mótaðist í aldanna rás.
     Á blaðsíðu 17 í bókinni segir frá ýmsum hæpnum ályktunum sem menn hafa dregið af þróunarkenningu Darwins (1809 - 1882). Ólafur nefnir að sumir hafi álitið hana renna stoðum undir þjóðernishyggju, aðrir talið hana sýna að mannlífið sé tilgangslaust og enn aðrir litið á hana sem sönnun fyrir tilveru guðs. Síðan segir hann:
     Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd um "túlkanir" á þróunarkenningunni, sem og árásir á þróunarkenninguna á grundvelli þeirra, eru ekki annað en vangaveltur byggðar á misskilningi. Þróunarkenning Darwins hefur í raun ekkert til málanna að leggja varðandi til dæmis siðferði eða trúarbögð fremur en aðrar vísindakenningar.
     Flestir geta tekið undir með Ólafi að vangaveltur um að þróunarkenningin sanni að guð sé til eða að lífið sé tilgangslaust eru byggðar á misskilningi. En gengur hann ekki of langt þegar hann segir að vísindakenningar hafi ekkert til málanna að leggja varðandi siðferði eða trúarbrögð?
     Kenningin, sem Ólafur tæpir á, dregur mjög dám af heimspekikenningum sem nutu vinsælda á fyrri hluta aldarinnar. Þetta er svo sem ekkert undarlegt því oft er heimspeki gærdagsins "heilbrigð skynsemi" dagsins í dag. Þetta á ekki síst við um rökfræðilega raunhyggju (logical positivism), en samkvæmt kenningum flestra heimspekinga af þeim skóla eru siðferðleg viðhorf hvorki sönn né ósönn, engar staðreyndir til um gott og illt eða rétt og rangt og ekkert röklegt samband milli þekkingar og siðferðis. Þeir töldu yfirleitt að gildismat manns og siðadómar lýsi eða tjái ótta hans og vonir, langanir og þrár en ekki vitneskju hans um staðreyndir. Vísindin kváðu hins vegar snúast um staðreyndir, um það hvernig heimurinn er í raun og veru.
     Kenningar í þessum dúr birtust í ýmsum myndum í ritum heimspekinga á fyrri hluta þessarar aldar. Meðal raunhyggjumanna sem héldu þeim fram, að minnsta kosti á tímabili, má nefna Englendingana Bertrand Russell (1872-1970) og Alfred Ayer (1910-1989), Austurríkismanninn Ludwig Wittgenstein (1889-1951) og Þjóðverjann Rudolf Carnap (1891-1970). Svipaðra viðhorfa gætti meðal franskra heimspekinga sem aðhylltust tilverustefnu (existentialisma) eins og Jean-Paul Sartre (1905-1980) og Albert Camus (1913-1960). Þessar kenningar eiga sér töluverða forsögu. Það má lesa þær milli línanna í ritum nokkurra heimspekinga á 18. öld eins og til dæmis Bretanna David Hume (1711-1776) og Francis Hutcheson (1694-1746).
     Þessar leifar af rökfræðilegri raunhyggju eru ef til vill hluti af einhvers konar vopnahlésskilmálum milli trúarbragða og siðfræði annars vegar og vísinda hins vegar. Trúarleg og siðferðileg viðhorf fá að vera í friði fyrir veruleikanum sem vísindin rannsaka og vísindamenn sleppa við áhyggjur af að kenningar þeirra hrófli við því gildismati og þeirri hugmyndafræði sem heldur samfélaginu saman. En hvaða sögulegar og félagsfræðilegar ástæður sem kunna að vera fyrir vinsældum kenningarinnar um aðskilnað vísinda og siðferðis hljótum við að spyrja hvort þessi kenning sé sönn eða ósönn.
     Greinarnar sem mynda þekkingu okkar, skoðanir og viðhorf tengjast saman á ýmsa vegu. Eðlisfræðin er til dæmis nátengd stærðfræði, stjörnufræði, veðurfræði, efnafræði og mörgum öðrum greinum. Efnafræðin tengist svo á ýmsan hátt við jarðfræði, líffræði og fleiri greinar. Líffræðin er nátengd læknisfræði, sálfræði og mannfræði. Sálfræðin og mannfræðin tengjast svo ótal öðrum greinum mannvísinda, þar á meðal félagsfræði, sagnfræði og bókmenntafræði. Þetta þýðir að uppgötvun sem er gerð í einni vísindagrein getur kallað á endurskoðun á kenningum og viðhorfum í annarri grein. Sem dæmi um þetta má nefna að uppgötvanir í stærðfræði og eðlisfræði sem voru gerðar á fyrri hluta þessarar aldar leiddu til þess að til varð ný fræðigrein, tölvufræðin. Tölvufræði hefur síðan haft margháttuð áhrif á sálfræði og málvísindi og þaðan hafa áhrif hennar borist inn á vettvang annarra mannvísinda. Nýjar uppgötvanir í stærðfræði geta sem sagt kallað á endurskoðun á kenningum í félagsvísindum og eins geta nýjungar í jafn óskyldum greinum og sálfræði eða sögu haft áhrif á rannsóknaraðferðir og kenningasmíð í stærðfræði.
     Flestir heimspekingar sem fjalla um þekkingarfræði nú á dögum leggja áherslu á að þekking manna, skoðanir og viðhorf hangi saman þannig að sé kippt í einn spotta fari allt á hreyfingu. Í samræmi við þetta telja margir þeirra að trúarleg og siðferðileg viðhorf tengist vísindalegri þekkingu á ótal vegu. Þetta virðist hreint ekki ósennilegt. Sem dæmi má taka að líffræðileg rök sýna að allt mannkynið myndar eina tegund og munur á kynþáttum er lítill miðað við einstaklingsmun innan hvers kynþáttar. Þessi líffræðilegu rök kippa fótunum undan ýmsum gerðum kynþátta- og þjóðernishyggju og hafa þannig siðferðilegar afleiðingar. Þróunarkenningin kveður á um að öll fremdardýr (prímatar), þar á meðal menn og apar, eigi sér sameiginlegan forföður sem var uppi fyrir milljónum ára. Þessi kenning stangast á við bókstaflegan skilning á sköpunarsögum Gamla testamentisins og hefur orðið til þess að flestir kristnir söfnuðir hafa endurskoðað ýmis atriði í túlkun sinni á Biblíunni.
     Er þá ekkert sannleikskorn í kenningunni um aðskilnað vísinda og siðferðis sem Ólafur Halldórsson og margir aðrir raunvísindamenn hafa þegið í arf frá heimspeki öndverðrar 20. aldar? Siðferði og siðareglur eru til þess að menn geti lifað saman í friði og haft það gott. Vísindi, eins og líffræði, læknisfræði, hagfræði, sálfræði, félagsfræði og lögfræði geta sagt okkur ýmislegt um hvernig helst megi nálgast þessi markmið. Með þessu móti geta vísindin haft áhrif á siðferði fólks og hugmyndir um hvað sé til góðs og hvað sé til ills, hvaða siðareglur borgi sig að halda í heiðri og hverjum beri að hafna. En engin vísindi geta sýnt fram á að það sé æskilegt að menn lifi saman í friði og hafi það gott.
     Til þess að vísindin geti haft eitthvað að segja um siðferðisefni þurfa markmið siðferðisins að vera fyrirframgefin. En engin vísindi og engin rök geta sýnt að þessi markmið séu skynsamleg eða réttmæt. Kenningin um aðskilnað vísinda og siðferðis kann því að vera rétt að því leyti að frumforsendur siðferðisins verði hvorki studdar né hraktar með vísindalegum rökum. En um leið og þessar frumforsendur eru gefnar tengjast siðferði og vísindi saman á ótal vegu.
     Ef einhver álítur að það sé betra að mannkynið deyi út en að það haldi áfram að vera til og vill þess vegna koma af stað styrjöldum og hörmungum þá verður skoðun hans ekki hrakin með því að benda á staðreyndir eða þylja vísindaleg rök.
     Sú skoðun að það sé betra að mannkynið haldi áfram að vera til verður heldur ekki studd neinum rökum. Hins vegar getur þróunarkenningin ef til vill útskýrt hvers vegna menn telja lífið dýrmætt því viðleitni til að verja sitt eigið líf og skyldmenna sinna eykur líkurnar á að eignast marga afkomendur. Tilfinningalíf manna og gildismat hefur væntanlega mótast af náttúruvali rétt eins og önnur einkenni lifandi vera. Vísindi af því tagi sem fjallað er um í bókinni um uppruna og þróun mannsins geta sem sagt bæði haft ýmisleg áhrif á siðferði fólks og útskýrt að nokkru leyti hvers vegna siðir okkar og lífshættir eru svona en ekki einhvern veginn öðru vísi.