Neyddur til að vera frjáls

"Maðurinn er borinn frjáls, þó er hann hvarvetna í hlekkjum." Þannig hefst 1. kafli 1. bókar Samfélagssáttmálans1 eftir Jean-Jacques Rousseau (1712-1778). Sú bók er frægasta stjórnspekirit 18. aldar. Með kenningum hennar vildi Rousseau vísa mönnum veg til nýs frelsis, ekki aftur til þess náttúrulega frelsis sem þeir voru bornir til heldur æðra frelsis sem er afsprengi réttlátra laga og stjórnskipunar.
     Síðan Samfélagssáttmálinn kom út árið 1762 hafa menn deilt um hvernig skilja beri stjórnspeki Rousseau. Sumir hafa lesið úr henni heimspekilegar forsendur lýðræðis, jafnaðar og mannúðlegra stjórnarhátta. Aðrir telja kenningar hans eina helstu undirrót alræðishugmynda sem kommúnistar og þjóðernissinnar boðuðu af hvað mestum móð á fyrri helmingi 20. aldar.
     Í hópi hina fyrrnefndu er Einar Olgeirsson. En hann var einn af stofnendum Kommúnistaflokks Íslands árið 1930. Einar skrifaði bók um Rousseau.2  Í inngangi þeirrar bókar segir:
Hann [Rousseau] varð málsvari miljóna, sem annars áttu enga að, verjandi smælingja, sem traðkaðir voru undir fótum höfðingjanna, frömuður frelsis, sem herskarar hinna kúguðu þráðu, talsmaður sannleika, sem auðmenn og aðall hæddi, boðberi ástar, sem hræsni og ljettúð misþyrmdu, söngvari náttúrunnar, er menningin afskræmdi og eyðilagði, skáld tilfinninga, sem vaninn og formið fjötruðu;
     Ein umdeildasta og um leið frægasta kenning Rousseaus er sett fram í 7. kafla, 1. bókar Samfélagssáttmálans. Þar segir hann:
Svo samfélagssáttmálinn sé meira en orðin tóm innifelur hann þegjandi samkomulag /.../ um að hver sá sem neitar að hlýða almannavilja skuli þvingaður til þess af þjóðarheildinni, sem þýðir ekkert annað en að hann skuli neyddur til að vera frjáls.
Þessi orð Rousseau virðast hrein og klár þverstæða. Hvernig er hægt að neyða mann til að vera frjáls? Til að svara þessari spurningu þurfum við að átta okkur á hugmyndum hans um frelsi.
*
Sú vísindalega heimsmynd sem Rousseau þekkti gerði ráð fyrir að efnisheimurinn lúti vélrænum lögmálum og öll verðandi sé knúin fram eftir markaðri braut. Af þessari heimsmynd leiddu sumir heimspekilega nauðhyggju sem segir að mannlegar athafnir séu bundnar sömu nauðsyn og allt annað, þær megi skýra til fulls með tilvísun til vélrænna lögmála. En menn láta stundum stjórnast af skynsemi, réttvísi eða betri vitund. Þeir gera þetta eða hitt vegna þess að það er réttlátt, gagnlegt eða þjónar einhverjum æðri tilgangi. Vélræn lögmál þjóna engum tilgangi svo það virðist allt annað en auðvelt að gera grein fyrir því hvernig skynsamleg hegðun geti átt sér vélrænar skýringar.
     Að áliti Rousseau og margra annarra heimspekinga á 17. og 18. öld hlaut skynsemi mannsins og hans betri vitund að standa utan þess veruleika sem heimsmynd vísindanna lýsir og vera frjáls undan vélrænum lögmálum efnisheimsins. Hins vegar virðist Rousseau ekki hafa séð neitt því til fyrirstöðu að geðshræringar manna og hinar "óæðri" sálargáfur séu skorðaðar af ófrávíkjanlegum náttúrulögmálum.
     Í riti sínu um uppeldismál, Émile,3 lætur Rousseau læriföður sinn, klerkinn frá Savoy, segja:
Ég er virkur þegar ég hlýði á skynsemina, óvirkur þegar geðshræringarnar ná tökum á mér; og er ég læt undan þeim þá kvelur mig mest að sjá að ég hefði getað staðist þær.
Að baki þessum orðum býr sú hugmynd að sá sem hlýðir skynseminni stjórni sér sjálfur og sé þar með frjáls, en sá sem lætur undan geðshræringum eða ástríðum sé á valdi annarlegra afla. Þessi hugmynd lifir í föstum orðasamböndum og minnir á tilveru sína þegar menn eru sagðir vera þrælar fýsna sinna og girnda. Víst er um það að hversdagslegar hugmyndir gera ráð fyrir að menn sem ekki láta stjórnast af því sem þeir álíta sjálfir vera rétt og skynsamlegt hafi litla sjálfstjórn. Ef við leyfum okkur að líta svo á að sjálfstjórn sé það sama og frelsi þá erum við ekki svo víðs fjarri kenningu Rousseaus.
*
Merkasti heimspekingur Frakka á 17. öld, René Descartes (1596 - 1650), kenndi meðal annars að skynsemin sé sammannleg gáfa, eins í öllum mönnum, og frumreglur vísindalegrar og vitlegrar hugsunar séu hverjum manni meðfæddar. Hann bætti því við að ef menn beittu þessum reglum rétt þá gæti þeim ekki skjátlast, skynsemin væri óskeikul. Skjöplist mönnum er það vegna þess að þeir láta stjórnast af öðru en skynseminni.
     Rousseau tók kenningu Descartes um skynsemina í arf og lagaði hana til eftir sínu höfði og heimfærði hana upp á hæfileikann til að greina rétt frá röngu. Hann áleit hvern mann hafa hið innra með sér óskeikulan mælikvarða á rétt og rangt, gott og illt og að þessi mælikvarði sé hluti af skynseminni. Rousseau virðist hafa álitið, að minnsta kosti í aðra röndina, að menn séu frjálsir þegar þeir breyta rétt, því þá hlýði þeir skynseminni, en ófrjálsir þegar þeir breyta rangt, því þá láti þeir stjórnast af öðru en skynseminni.
*
Grundvallarhugtakið í stjórnspeki Rousseau er almannavilji. Hann margítrekar að almannaviljinn eigi að vera hið æðsta vald í samfélaginu. Hann skuli setja því lög og yfirvöld eigi ekki að gera annað en framkvæma boð þessa almenna vilja. Það er allt annað en auðvelt að átta sig á þessu hugtaki. Þó er ljóst að almannaviljinn er eitthvað annað og meira en vilji meirihlutans. Meirihlutanum getur skjátlast, en samkvæmt Rousseau er almannaviljinn óskeikull. Ég held að helst sé að nálgast einhvern skilning á þessu hugtaki út frá hugmyndinni um sammannlegan mælikvarða á rétt og rangt. Almannaviljinn er einhvers konar félagslegt birtingarform þessa mælikvarða. Rousseau gerði sér mæta vel ljóst að sá vilji einstaklinganna sem birtist í orðum þeirra og verkum er eigingjarn og víkur frá almannavilja. En hann áleit að þegar sameiginleg ákvörðun er tekin af heilli þjóð þá jafnist einstaklingsbundin frávik út hvert á móti öðru þannig að niðurstaðan verði í samræmi við almannavilja og þar með líka í samræmi við hina betri vitund hvers og eins. Menn geta svarað því hver fyrir sig hvort reynslan af sameiginlegri ákvarðanatöku staðfestir þetta eða hrekur.
     Sé skilningur minn á kenningu Rousseau réttur má skýra hina undarlegu hugmynd hans um að hægt sé að neyða menn til frelsis svo að hann telji að sá sem er látinn hlýða almannavilja sé látinn hlýða skynseminni eða sinni betri vitund og þar með frelsaður undan þeirri ánauð að stjórnast af geðshræringum eða öðrum annarlegum öflum.
     Rousseau benti ekki á neina aðferð til að komast að því hver hinn almenni vilji er í einstökum atriðum. En þar sem hann hélt því fram að almannaviljinn bjóði mönnum ævinlega að breyta rétt er stutt í þá skoðun að menn njóti meira frelsis þegar þeir eru látnir breyta "rétt" heldur en þegar hver og einn stjórnast af eigin hvötum eða áhuga.
     Fáir stjórnspekingar hafa talað máli frelsis, lýðræðis og jafnréttis af meiri ástríðu en Rousseau. En kenning hans um að ríkið skuli stjórnast af almannavilja, sem er einhvers konar hálfdularfullt birtingarform þess góða í manninum, vekur óneitanlega upp skuggalegar hugsanir. Hugmyndir seinni tíma um ríki, flokk eða leiðtoga sem vita betur en ég og þú hvað við raunverulega viljum voru að vísu fjarri Rousseau. Sumar þeirra sækja samt næringu og þrótt í heimspeki hans.
 

1) Á frummálinu heitir bókin Le Contrat social. Hún kom fyrst út árið 1762.

2) Rousseau Einars Olgeirssonar kom út hjá Bókaverslun Þorsteins M. Jónssonar á Akureyri árið 1925.

3) Émile kom fyrst út árið 1762.