Líkamsmein, sálarflækjur og félagsleg vandamál

Árið 1992 sendi Þorsteinn Gylfason heimspekingur frá sér bókina Tilraun um heiminn. Þriðji kafli þessarar bókar heitir "Er geðveiki til?" og þar veltir Þorsteinn fyrir sér tvenns konar hugmyndum um geðveiki: efnishyggju og hughyggju. Hann segir:
     Efnishyggja um geðveiki er sú trú að flest eða öll alvarleg geðveiki - geðklofi, tvílyndi og þunglyndi - verði skýrð á líkan hátt og húðkröm eða Wilsonsveiki, með öðrum orðum að geðsjúkdómar séu venjulegir líkamlegir sjúkdómar. /.../ Það sem við köllum geðsjúkdóma eða andlega vanheilsu sé í rauninni líkamlegir sjúkdómar en alls ekki andlegir, í flestum tilvikum heilasjúkdómar eins og til dæmis Parkinsonsveiki. /---/
 Gegn efnishyggju um geðveiki má síðan tefla hughyggju um geðveiki. Hughyggjan kennir að meginskýringanna á flestri alvarlegri geðveiki sé ekki að leita í einhverjum efnaskiptum í heilanum sem enginn kann skil á heldur í ytri aðstæðum sjúklingsins og hugmyndum hans um þær.1
 Í því sem á eftir fer færir Þorsteinn svo rök að niðurstöðu sem hann orðar á þessa leið:
Það er engin von um endanlegar hughyggjuskýringar á geðveiki. Ef valið stendur aðeins milli hughyggju og efnishyggju, og ef við göngum að því vísu að einhvern tíma muni fást endanlegar skýringar á geðveiki, þá geta þær skýringar aðeins orðið efnishyggjuskýringar.2
     Sjálfur efast ég um þessa niðurstöðu. Ég ætla þó ekki að elta ólar við Þorstein um hana heldur prjóna ofurlítið við bollaleggingar sem hann fitjar upp á svona eins og í framhjáhlaupi þar sem segir:
Einn heimspekilegur vandi snertir röktengslin milli efnishyggjuskýringar annars vegar og hughyggjuskýringar hins vegar. Eru þær ósamrýmanlegar eða eru þær kannski samrýmanlegar? Margir virðast ganga að því vísu, til að mynda margir geðlæknar, að þær tvær útiloki hvor aðra öldungis sjálfkrafa.3
     Ég hef engar kenningar um ástæður geðsjúkdóma. Mín vegna geta þeir hvort sem er stafað af vitlausum efnaskiptum eða erfiðri reynslu sem sjúklingur varð fyrir í bernsku. En hverjar sem raunverulegar ástæður geðveiki kunna að vera sýnist mér það röklega mögulegt að sami sjúkdómur eigi sér bæði hughyggju- og efnishyggjuskýringar og þessar tvær tegundir skýringa séu samrýmanlegar.
*
Þegar tölvukerfi hagar sér öðruvísi en til er ætlast vaknar oft spurning um hvort bilunin sé í vélbúnaðinum eða í hugbúnaðinum. Vélbúnaðurinn samanstendur af öllum áþreifanlegum hlutum tölvukerfisins: Gjörva, minni, tengibrautum, gagnageymslum og jaðartækjum eins og skjá, mús og lyklaborði. Hugbúnaðurinn er hins vegar ekki búinn til úr neinu efni þótt vissulega sé hann geymdur á efniskenndum miðlum eins og diskum og disklingum. Hugbúnaður er runur af táknum sem mynda forrit og gögn. Það er ekki fráleitt að líkja bilun í vélbúnaði tölvu við líkamlega sjúkdóma hjá mönnum eða dýrum og galla eða bilun í hugbúnaði við sálarkvilla.
     Ég ætla að láta sem allt sé á hreinu um greinarmun hugbúnaðar og vélbúnaðar. Þetta er þó ekki alveg svona einfalt. Það vefst fyrir tölvufræðingum að svara því hvort innihald lesminnis í tölvu eða tengibúnaði, forsnið disks eða míkrókóði í gjörva tilheyrir vélbúnaði eða hugbúnaði kerfisins og trúlegt þykir mér að það sé enn erfiðara að greina milli líkama og sálar í manni en hugbúnaðar og vélbúnaðar í tölvu. En þótt eitthvað lendi á gráu svæði er greinarmunurinn samt raunverulegur.
     Við skulum hugsa okkur tölvunet í fyrirtæki sem hagar sér sæmilega að öðru leyti en því að í hvert sinn sem tölvan í innsta herberginu er beðin að prenta á prentarann í holinu þá stöðvast prentarinn og gerir ekki neitt fyrr en búið er að slökkva á honum og kveikja á honum aftur. Með svolitlu fikti komast menn að því að tölvan hagar sér ekki svona ef hún er látin keyra eldri útgáfu af stýrikerfinu. Með enn meira fikti er svo fundið út að hún lætur af þessum kenjum ef sett er önnur tegund af netspjaldi í hana. Seinna kemur svo í ljós að það er hægt að leysa vandann á enn einn veg, með því að skipta um lesminni í prentaranum.
     Það er hreint ekki óalgengt að tölvukerfi séu kenjótt með þessum hætti.
     Fyrsta lausnin á vandanum kann að benda til þess að um "andlegan kvilla" sé að ræða: vélbúnaðurinn sé í lagi en stýrikerfið gallað. Lausn númer tvö bendir hins vegar til þess að um sé að ræða vélarbilun eða "líkamsmein". Þriðja lausnin bendir til þess að það sé prentarinn sem er bilaður og vandamál tölvunnar sé því hvorki "líkamlegt" né "sálrænt", heldur "félagslegt". Við höfum semsagt þrjár ólíkar skýringar. Ég held að þær geti allar verið jafnréttar. Ég held líka að það sé röklega mögulegt að þrjár jafnólíkar skýringar á sjúklegri hegðun og slæmri líðan manns séu allar réttar.
     Þegar tölva vinnur rangt er stundum um hreina og klára vélarbilun að ræða. Ef vélbúnaðurinn er öðru vísi en hann á að vera, sé til dæmis brotin lóðning einhvers staðar eða ónýtur minniskubbur, þá velkjumst við ekki í vafa um að meinið er "líkamlegt". Það er þá vélbúnaðurinn sem er bilaður. En til að hægt sé að tala um bilun í vélbúnaði þarf að bera hann saman við einhvers konar greinargerð sem segir hvernig vélin á að vera. Slík greinargerð tekur yfirleitt ekki til allra mögulegra smáatriða. Það er hægt að fullyrða að brotin lóðning sé öðru vísi en hún á að vera en um suma aðra eiginleika er erfiðara að fullyrða vegna þess að það segir ekkert um hvernig þeir eiga að vera.
     Svipaða sögu má segja um hugbúnaðinn. Stundum eru hreinar og klárar villur í forritum. Forritarar gera mistök með þeim afleiðingum að forritin virka öðru vísi en þau eiga að gera. En stundum haga forrit sér á einhvern hátt óvænt án þess hægt sé að fullyrða að þau séu gölluð. Það getur því gerst að tiltekið forrit vinni rétt sé það keyrt á einni gerð vélbúnaðar en rangt sé það keyrt á einhverri annarri gerð án þess hægt sé að fullyrða neitt með vissu um hvort er gallað forritið eða vélbúnaðurinn. Það eina sem er hægt að fullyrða er að forritið og vélbúnaðurinn geta ekki unnið saman. Kerfið sem heild samanstendur af hugbúnaði og vélbúnaði og það getur verið bilað án þess að hægt sé að segja neitt ákveðið um hvort bilunin er í hugbúnaði eða vélbúnaði.
     Ef tölvum og hugbúnaði fylgdu nákvæmar greinargerðir sem dygðu til að leiða út hvað vélin á að gera og hvernig forritin eiga að vinna í öllum tilvikum sem upp kunna að koma þá væri væntanlega hægt að staðsetja allar bilanir annað hvort í vélbúnaði eða hugbúnaði. Bilunin væri þar sem kerfið víkur frá greinargerðinni. Þetta væri ef til vill erfitt í sumum tilvikum en samt fræðilega mögulegt. En í raun og veru fylgja yfirleitt ekki svona nákvæm gögn með tölvum og hugbúnaði.
     Með mannslíkama og mannshuga fylgja engin gögn af neinu tagi enda eru menn ekki smíðisgripir heldur náttúrufyrirbæri. Við höfum samt einhverjar hugmyndir um hvernig mannslíkami á að vera og ef bein er í sundur, það blæðir úr sári eða tönn er uppétin og svört þá getum við fullyrt að eitthvað sé öðru vísi en það á að vera. Svipaða sögu má segja um mannshugann og félagslegar aðstæður manns. Við höfum einhverjar hugmyndir um hvernig þetta á að vera og getum til dæmis fullyrt að sé maður barinn á hverjum degi þá séu félagslegar aðstæður hans öðru vísi en þær eiga að vera. Þessar hugmyndir duga okkur til að skipa sumu því sem hrjáir fólk í flokk líkamlegra sjúkdóma og flokka annað sem sálarkvilla eða félagsleg vandmál. En um sum mein er ef til vill engin leið að fullyrða hverjum þessara þrem flokka þau tilheyra.
     Dæmið af tölvunni bendir til að það sé engan veginn röklega útilokað að sama geðsjúkdóm megi lækna hvort heldur sem er með lyflækningum, sálfræðilegri meðferð eða aðferðum félagsráðgjafa. Það kann að vera að samverkun líkamlegra, huglægra og félagslegra þátta valdi einhverjum kvillum án þess að neinn einn þessara þátta sé klárlega bilaður.
     Þegar ég segi mögulegt að sama kvilla megi meðhöndla og skýra á alla þrjá vegu, sem líkamsmein, sálarflækju eða félagslegt vandamál þá á ég við það eitt að þetta sé röklega mögulegt. Það sem er röklega mögulegt getur heimspekileg rannsókn ein og sér ekki útilokað að gerist í raunveruleikanum, enda fjallar heimspeki aðeins um hvað er mögulegt og hvað ekki. Það er verkefni reynsluvísinda, eins og til dæmis læknisfræði, að komast að því hvað af öllu því, sem er röklega mögulegt, gerist í raun og veru.
 

1) Þorsteinn Gylfason. 1992. Tilraun um heiminn. Mál og menning, Reykjavík. Bls. 58.

2) S. r. bls. 89.

3) S. r. bls. 60.